Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Úrskurður í stjórnsýslumáli

Þriðjudaginn 24. ágúst 2021 var kveðinn upp úrskurður í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í stjórnsýslumáli nr. MMR21010209.

Úrskurðurinn varðaði kæru A til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna barns sem var nemandi í grunnskóla C í sveitarfélaginu X. Kæran laut meðal annars að tilgreindu atviki í grunnskólanum þegar svonefnt hvíldarherbergi var notað fyrir barnið. Í kærunni var umræddu herbergi lýst og þeirri afstöðu A að aðbúnaður barnsins í herberginu hefði verið ófullnægjandi. Þá taldi A að barnið hefði verið beitt harðræði þar af starfsmanni C. Fyrir lá að kærandi hafði kært viðkomandi starfsmann til lögreglu vegna atviksins. Af hálfu sveitarfélagsins var meðal annars á því byggt að forsjáraðili barnsins hefði verið upplýstur og samþykkur notkun hvíldarherbergis í neyðartilvikum. Í svörum sveitarfélagsins til ráðuneytisins voru ekki gerðar athugasemdir við lýsingu kæranda á aðbúnaði í herberginu.

Í úrskurðinum fjallaði mennta- og menningarmálaráðuneytið með almennum hætti um þær skyldur sem hvíla á aðilum skólasamfélagsins. Þá var áréttað að allir nemendur eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Jafnframt kom fram að notkun hvíldarherbergis af því tagi sem lýst var í úrskurðinum væri ósamrýmanleg grunnskólalögum og óskaði ráðuneytið eftir því að hætt yrði að notast við slíkt herbergi. Að öðru leyti væri ekki fyrir hendi grundvöllur til að ógilda hina kærðu ákvörðun en því beint til sveitarfélagsins að taka málið upp að nýju ef kærandi óskaði eftir því.

Eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp barst athugasemd frá sveitarfélaginu X um að atvikalýsing í úrskurðinum væri ekki í samræmi við aðstæður í málinu og að hvíldarherbergi, eins og lýst væri í úrskurðinum, væri ekki í notkun í sveitarfélaginu. Mennta- og barnamálaráðuneytið ákvað í kjölfarið að úrskurðurinn yrði ekki birtur í heild sinni opinberlega.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta