Kæra vegna synjunar LÍN á greiðslu námsstyrks 2008
Ár 2008, þriðjudagurinn 3. júní, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur úrskurður:
ÚRSKURÐUR:
Kæruefnið og málsmeðferð
Menntamálaráðuneytinu barst þann 29. janúar sl. stjórnsýslukæra frá A, f.h. sonar hennar, B, hér eftir nefndur kærandi, vegna þeirrar ákvörðunar námsstyrkjanefndar, dags. 23. nóvember sl., að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks vegna skólaáranna 2005 - 2006 og 2006 - 2007.
Krefst kærandi þess að ákvörðun námsstyrkjanefndar verði felld úr gildi og honum úrskurðaður námsstyrkur vegna náms síns við X framangreind skólaár. Af hálfu námsstyrkjanefndar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. febrúar sl., var óskað eftir umsögn námsstyrkjanefndar og var beiðnin ítrekuð 29. s.m. Umsögn nefndarinnar barst ráðuneytinu 11. mars s.l. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum og afstöðu X vegna kærunnar með bréfi, dags. 18. s.m. Svar skólameistara X barst með bréfi, dags. 14. apríl sl. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við svör námsstyrkjanefndar og X með bréfum ráðuneytisins, dags. 18. mars og 17. apríl sl. og bárust þær með bréfum, dags. 24. mars og 25. apríl sl.
Málsatvik og málsástæður
Málavextir eru þeir helstir að þann 8. október 2007 barst Lánasjóði íslenskra námsmanna tölvubréf frá kæranda þar sem óskað var eftir því að honum yrði gert kleift að sækja um námsstyrk vegna náms síns í húsasmíði við X skólaárin 2005-2006 og 2006-2007. Kom fram í erindinu að þegar kærandi hóf nám sitt hefði móðir hans spurst fyrir um rétt hans til styrks á skrifstofu skólans en verið tjáð af starfsmanni þar að hann gæti aðeins sótt um námslán en enga styrki. Þær upplýsingar, sem hefðu reynst rangar, hafi svo leitt til þess að kærandi sótti ekki um námsstyrk innan lögboðins frests, þrátt fyrir að hann hafi í raun átt rétt til greiðslu styrksins. Bréf barst frá Lánasjóðnum, dags. 18. október s.á., þar sem beiðni kæranda var synjað með vísan til þess að allir umsóknar- og kærufrestir væru liðnir og því væri ekki heimilt að verða við erindinu. Kærandi skaut þeirri niðurstöðu til námsstyrkjanefndar með tölvubréfi, dags. 23. október s.á. Niðurstaða námsstyrkjanefndar barst kæranda með bréfi, dags. 23. nóvember s.á., þar sem fram kom að auglýst hafi verið eftir styrkjum í dagblöðum skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003, með síðari breytingum. Í því ákvæði væru endanlegir umsóknarfrestir jafnframt tilteknir og engin heimild til að víkja frá þeim frestum. Var synjun Lánasjóðsins staðfest þar sem ekkert erindi hafi borist innan endanlegs umsóknarfrests umræddra skólaára. Sú ákvörðun námsstyrkjanefndar var kærð til menntamálaráðuneytis með bréfi dags. 21. janúar sl.
Í umsögn, sem ráðuneytið kallaði eftir frá X við meðferð málsins, kom fram að kæranda muni hafa verið vísað á Lánasjóð íslenskra námsmanna og að starfsmenn skólans teldu að rétt hefði verið brugðist við erindinu á sínum tíma. Kærandi hefur í athugasemdum sínum við umsagnir námsstyrkjanefndar og skólameistara X ítrekað þau sjónarmið að ekki hafi verið sótt um styrkinn vegna rangra upplýsinga starfsmanns X og að skólinn hafi ekki staðið sig sem skyldi í því að upplýsa nemendur af landsbyggðinni um rétt sinn til námsstyrks. Hafi hann ekki enn rekist á auglýsingar um þessa styrki. Þá mótmælti kærandi því að honum hafi verið vísað áfram á Lánasjóðinn þegar spurst hafi verið fyrir um styrkinn á skrifstofu skólans á sínum tíma, enda hefði hann þá leitað sér upplýsinga þar ef svo hefði verið.
Rökstuðningur niðurstöðu
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ágreiningur milli kæranda og X um ástæður þess að umsókn um námsstyrk vegna skólaáranna 2005-2006 og 2006-2007 var ekki skilað til námsstyrkjanefndar innan lögboðins frests. Í máli þessu er hins vegar ekki um það deilt að umsókn kæranda um greiðslu styrksins aftur í tímann barst námsstyrkjanefnd löngu eftir að lögboðinn frestur til að skila inn umsókn rann út og að það sé ástæða synjunar nefndarinnar á umsókn hans. Í máli þessu er því annars vegar uppi ágreiningur milli kæranda og X um málsatvik, það hvort veittar hafi verið rangar upplýsingar til kæranda á skrifstofu skólans, og hins vegar milli kæranda og námsstyrkjanefndar um það hvort slík atvik ættu að leiða til þess að umsókn kæranda um greiðslu námsstyrks aftur í tímann verði tekin til greina hjá nefndinni.
1.
Í lögum nr. 79/2003 um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna eiga þeir nemendur rétt til námsstyrkja sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað. Sett hefur verið reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, á grundvelli 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. hennar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Í núgildandi ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að námsstyrkjanefnd auglýsir eftir umsóknum fyrir 1. september ár hvert og skulu umsóknir vegna haustannar hafa borist nefndinni fyrir 15. október sama ár. Nefndin skuli auglýsa eftir umsóknum vegna vor- og sumarannar fyrir 1. janúar ár hvert og skulu umsóknir hafa borist nefndinni fyrir 15. febrúar sama ár. Námsstyrkjanefnd sé heimilt að veita umsókn viðtöku eftir auglýstan umsóknarfrest og skerða þá styrkinn um einn hundraðshluta fyrir hvern dag fram yfir frestdag, þó að hámarki um 30 hundraðshluta samtals. Berist umsókn meira en 30 dögum eftir auglýstan umsóknarfrest skal hún tekin til afgreiðslu með umsóknum næstu annar og mögulegur styrkur koma til útborgunar í lok þeirrar annar. Samkvæmt ákvæðinu er nefndinni óheimilt að taka við umsókn sem berst meira en fjórum mánuðum eftir auglýstan umsóknarfrest. Sá tími sem nefndinni er heimilt að taka við umsóknum eftir að auglýstur umsóknarfrestur er liðinn var rýmkaður með breytingarreglugerð nr. 829/2006, en áður var kveðið á um að nefndinni væri heimilt að veita umsókn viðtöku í mánuð eftir auglýstan umsóknarfrest. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 692/2003, áður en henni var fyrst breytt með reglugerð nr. 760/2004, var frestur til að skila inn umsóknum rýmri en nú er, en þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessu ákvæði skipta þó ekki máli í tengslum við það úrlausnarefni sem hér um ræðir.
2.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti ekki um námsstyrk þegar hann hóf nám sitt við X haustið 2005 og barst námsstyrkjanefnd engin umsókn frá honum þau tvö skólaár sem hér um ræðir. Ágreiningur er um það af hvaða ástæðu kærandi skilaði ekki inn umsókn um styrkinn innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum. Kærandi hefur haldið því fram í málinu að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar af hálfu starfsmanns á skrifstofu X, sem hafi leitt til þess að kærandi sótti ekki um styrkinn á sínum tíma. Í umsögn skólastjóra X er staðhæft að alltaf sé vísað áfram á Lánasjóðinn þegar spurst er fyrir um námsstyrk, og svo hafi einnig verið gert í því tilviki sem hér um ræðir. Starfsmenn skólans telji því að rétt hafi verið brugðist við erindinu á skrifstofu skólans á sínum tíma.
Í hinni kærðu ákvörðun námsstyrkjanefndar kom fram að auglýst hefði verið eftir styrkjum í dagblöðum eins og mælt væri fyrir um í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum. Fyrir liggur að auglýst var eftir umsóknum um námsstyrki í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV þann 31. ágúst 2005. Í máli þessu hefur ekkert komið fram um að námsstyrkjanefnd hafi ekki farið eftir ákvæðum reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, við framkvæmd auglýsinga á styrkjum samkvæmt lögum nr. 79/2003.
Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fresti til að skila inn umsóknum, sbr. 8. gr. laga nr. 79/2003 um námsstyrki. Segir þar að nefndinni sé einvörðungu heimilt að taka við umsóknum í tiltekinn tíma eftir lok auglýsts umsóknarfrests. Þeir tímafrestir sem tilgreindir eru í ákvæðinu eru afdráttarlausir og veita námsstyrkjanefnd ekki svigrúm til þess að víkja frá þeim. Sá ágreiningur sem uppi er um málsatvik, þess efnis að kæranda hafi verið veittar rangar upplýsingar af hálfu Iðnskólans, getur að mati menntamálaráðuneytisins ekki, eins og málavextir liggja fyrir í máli þessu, skuldbundið námsstyrkjanefnd til greiðslu námsstyrkja aftur í tímann. Menntamálaráðuneytið telur að afgreiðsla námsstyrkjanefndar hafi verið í samræmi við 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laga um námsstyrki þar sem kveðið er á um að í reglugerð skuli m.a. mæla fyrir um fresti til að skila umsóknum, og að óhjákvæmilegt sé að byggja niðurstöðu málsins á 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sem kveður skýrt á um þá tímafresti sem fylgja ber við meðferð umsókna um námsstyrki samkvæmt framangreindum lögum.
3.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin kærða ákvörðun um synjun námsstyrks til B vegna skólaáranna 2005-2006 og 2006-2007 er staðfest.