Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á greiðslu námsstyrks

Ár 2009, föstudaginn 20. nóvember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Með bréfi, dags. 30. september sl., kærði A, f.h. B (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 22. september sl., um að synja umsókn hennar um greiðslu námsstyrks fyrir skólaárið 2009-2010 skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum. Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun námsstyrkjanefndar verði felld úr gildi og henni verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir skólaárið 2009-2010. Af hálfu námsstyrkjanefndar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

Kærandi, sem hefur skráð lögheimili í Svíþjóð og stundar nám við framhaldsskóla þar í landi, nánar tiltekið við skóla X í Svíþjóð sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2009-2010 með bréfi dags. 18. september sl. Með bréfi, dags. 28. september sl., hafnaði námsstyrkjanefnd umsókn kæranda um námsstyrk þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði að stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sbr. 2. gr. laga um námsstyrki og 1. gr. reglugerðar um námsstyrki. Með bréfi, dags. 30. september sl., skaut kærandi ákvörðun námsstyrkjanefndar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

II.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin í ráðuneytinu 30. september sl. Með bréfi, dags. 2. október sl., leitaði ráðuneytið umsagnar námsstyrkjanefndar um kæruna. Umsögn námsstyrkjanefndar barst ráðuneytinu 16. október sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. október sl., voru athugasemdir námsstyrkjanefndar kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Kærandi sendi ráðuneytinu athugasemdir við umsögn námsstyrkjanefndar með bréfi, dags. 28. október sl.

III.

Málsástæður kæranda.

Í umsókn til námsstyrkjanefndar, dags. 3. september sl., kemur fram að kærandi hafi stundað framhaldsnám í Svíþjóð frá ágústmánuði 2007 við skóla X og þegar lokið tveimur skólaárum af þremur við skólann. Um sé að ræða sérhæft framhaldsnám fyrir þá sem ætli sér að stunda nám á háskólastigi í fjölmiðlafræði eða frekara nám á sviði kvikmyndagerðar. Slíkt nám sé ekki í boði í skóla á Íslandi. Frá byrjun skólaárs 2007 hafi kærandi haft skráð lögheimili í Svíþjóð í samræmi við samning um skráningu búsetu námsmanna milli Norðurlandanna. Kærandi sé á framfæri föður síns, sem býr á Íslandi. Fram kemur að skólastjóri í framangreindum skóla hafi sótt um ýmsa náms- og framfærslustyrki f.h. kæranda en alls staðar fengið synjun á þeirri forsendu að kærandi væri íslenskur ríkisborgari og foreldrar hans skattgreiðendur á Íslandi. Af því leiddi að kærandi ætti engan rétt á stuðningi sænskra yfirvalda.

Í greinargerð föður kæranda kemur fram að hann hafi greitt húsaleigu, flugferðir um jól, páska og til sumardvalar vegna kæranda og telji á sér brotið í ljósi þess að aðrir framhaldsskólanemendur hér á landi fái námsstyrk þótt fæstir þeirra þurfi að leggja á sig kostnað vegna námsins í sama mæli og kærandi. Synjun námsstyrkjanefndar byggist á því almenna skilyrði að framhaldsnám fari fram hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki en ekki sé horft til stafliða b) og c) í sömu málsgrein, þ.e. að ókleift sé að stunda sambærilegt nám frá lögheimili sínu og nemandi verði að vista sig í a.m.k. 30 km fjarlægð fjarri lögheimili og fjölskyldu vegna námsins. Faðir kæranda telur að hin kærða ákvörðun feli í sér óheimila mismunun á grundvelli búsetu innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Íslenskir ríkisborgarar sem velji að stunda nám annarsstaðar en hér á landi eigi að halda borgaralegum réttindum sínum til jafns við jafnaldra sína hérlendis. Faðir kæranda vísar til samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi, dags. 3. nóvember 2004, er tók gildi 27. mars 2008, þar sem fram komi að nemendur sem sest hafi að í öðru Norðurlandaríki ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum fyrir 20 ára aldur og stundi þar framhaldsskólanám hafi rétt til að sækja um fjárhagslega námsaðstoð í því ríki. Í 2. gr. þess samnings komi fram að hann komi ekki í veg fyrir tvíhliða samninga að eigin vild um greiðslur, svo framarlega að tryggt sé að slíkir samningar hefti ekki frjálsar ferðir nemenda á framhaldsskólastigi. Þá komi fram í viðauka sama samnings að af EES-rétti leiði að mismunun á grundvelli þjóðernis sé óheimil.

Faðir kæranda telur að af framangreindu leiði að a-liður 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki sé í andstöðu við samninginn um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi, sem og EES samninginn.

Málsástæður námsstyrkjanefndar.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til synjunar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn kæranda þar sem fram komi með vísan til a-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki það skilyrði að nemandi stundi reglubundið nám hér á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki. Því sé námsstyrkjanefnd aðeins heimilt að veita styrki til náms hér á landi. Námsstyrkjanefnd telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

IV.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem námsstyrkjanefnd hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að nemendur á framhaldsskólastigi, sem stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, með áorðnum breytingum, eigi rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Þá er jafnframt tilgreint að námsstyrkjanefnd sé heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi.

V.

Niðurstaða.

Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt hafi verið skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki um reglubundið framhaldsskólanám hér á landi en kærandi stundar framhaldsskólanám sitt í Svíþjóð.

Af hálfu kæranda hefur verið vísað til ákvæðis 2. gr. samnings um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi frá 3. nóvember 2004. Í 1. gr. samningsins kemur fram að aðilar hans skuldbindi sig til að veita námsmönnum, sem hafa fasta búsetu í öðru Norðurlandaríki, aðgang að lögbundnu námi á framhaldsskólastigi með sömu skilmálum og ríkisborgurum eigin lands. Samningurinn veitir því íslenskum ríkisborgurum ákveðin réttindi vegna framhaldsskólanáms sem fram fer í öðru Norðurlandaríki, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem það ríki kann að setja, sbr. 3. gr. samningsins og leggur þær skyldur á hendur íslenskum stjórnvöldum að tryggja ríkisborgurum annarra Norðurlandaríkja sambærileg réttindi til framhaldsskólanáms á Íslandi og íslenskir ríkisborgarar njóta, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki.

Samkvæmt 1. gr. laga um námsstyrki veitir ríkissjóður námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að rétt til námsstyrkja njóti nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi, sbr. ákvæði a-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki. Að mati ráðuneytisins er því óhjákvæmilegt annað en að skýra ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki svo að námsstyrkjanefnd sé óheimilt að veita námsstyrki vegna framhaldsskólanáms sem fram fer utan Íslands. Þá er jafnframt ljóst að ákvæði samnings um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi skapa kæranda ekki rétt til að hljóta fjárhagsaðstoð úr hendi íslenskra stjórnvalda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar frá 22. september sl. um synjun námsstyrks til B á skólaárinu 2009-2010 vegna náms við skóla X í Svíþjóð er staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta