Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN21060114

Ár 2021, þann 6. desember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN21060114


Kæra X

á ákvörðun

Matvælastofnunar

 

I. Kröfur og kæruheimild

Þann 29. júní 2021 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir nefndur kærandi), kt. 0000, á ákvörðun Matvælastofnunar (hér eftir MAST) frá 26. maí 2021 um að hafna umsókn kæranda um styrk til vatnsveituframkvæmda á jörðinni X.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts frests sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Málavextir eru þeir að með umsókn kæranda, dags. 24. febrúar 2021, sótti kærandi um styrk til vatnsveituframkvæmda á lögbýlinu X. Að mati MAST var umsókn kæranda verulega ábótavant og var kæranda þann 6. maí 2021 sent bréf þar sem synjun umsóknarinnar var boðuð með þeim skýringum að hann væri ekki með skráð ÍSAT-númer í búnaðarskyldri búgrein líkt og skilyrði væri samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 180/2016 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum. Þá vantaði einnig mat úttektaraðila sem og staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, en sérstaklega var tekið fram að sá úttektaraðili sem kærandi hefði skráð í umsókn sinni væri ekki úttektaraðili MAST og var kæranda leiðbeint um hvar hann gæti nálgast lista yfir þá úttektaraðila.

Bréfið sendi MAST á gamalt heimilisfang kæranda í X, en kærandi hafði búið í X nokkrum árum áður. Í umsókn kæranda hafði hann tilgreint heimilisfang sitt að X, sem og að í þjóðskrá er hann skráður til heimilis að X. Stofnuninni bárust engin andmæli né frekari gögn frá kæranda vegna bréfsins og var ákvörðunarbréf því sent honum þann 26. maí 2021, og kæranda með því tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað og er það hin kærða ákvörðun. Bréfið sendi stofnunin á sama heimilisfang og fyrra bréf en einnig á uppgefið netfang kæranda.

Þann 30. maí 2021 barst MAST tölvubréf frá kæranda þar sem hann tilkynnti að fyrra bréf stofnunarinnar hefði aldrei borist honum, enda verið sent á gamalt heimilisfang hans í X þar sem hann hefði búið fyrir mörgum árum. MAST svaraði kæranda daginn eftir, þann 31. maí 2021, og ítrekaði hvaða gögn vantaði svo að unnt væri að samþykkja umsóknina.

Um þremur vikum síðar eða þann 22. júní 2021 barst MAST umsögn frá skráðum úttektaraðila, X hjá búnaðarsambandi Skagfirðinga. Þann 29. júní 2021 barst MAST svo tölvubréf kæranda þar sem hann tilgreindi að hann hefði ÍSAT-númerið 03.11.1 og sama dag barst stofnuninni afrit af tölvubréfi kæranda til ráðuneytisins en með því bréfi kærði hann ákvörðun stofnunarinnar til ráðuneytisins.

Með kærunni barst að mati MAST fullnægjandi kostnaðar- og framkvæmdaáætlun og var kæranda tilkynnt þar um daginn eftir, þann 30. júní 2021, og honum gert kunnugt að nú vantaði hann einungis ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein svo fallast mætti á umsókn hans. Var honum þá leiðbeint um að hann gæti skráð aukaatvinnugrein til viðbótar við fyrrgreint ÍSAT-númer, 03.11.1.

Ákvörðun MAST var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kæranda mótteknu 29. júní 2021.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 10. ágúst 2021 var MAST gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með tölvubréfi MAST mótteknu 30. ágúst 2021.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 31. ágúst 2021 var kæranda kynnt umsögn MAST og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins en frekari athugasemdir bárust ekki af hálfu kæranda.

III. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að málavextir séu þeir að þau hjónin, X og X, hafi sótt um styrk til vatnsveituframkvæmda á jörð sinni að X í Skagafirði. Umsókn þeirra hafi verið hafnað eftir að frestur til að svara athugasemdum hafi verið liðinn en þeim ekki borist bréf MAST þar sem tilkynnt hefði verið um þau gögn sem á vantaði og þau því ekki getað komið að neinum andmælum. Bréfið hefði verið sent á gamalt heimilisfang síðan kærandi bjó í X fyrir mörgum árum síðan en ekki á lögheimili hans sem kæmi fram í umsókninni og væri skráð í þjóðskrá.

Segir kærandi koma fram í bréfi MAST að umsókninni hefði verið hafnað þar sem hún fullnægði ekki skilyrðum um styrkhæfi og sagt að það mat byggði á framlögðum upplýsingum sem borist hefðu frá kæranda. Tilgreint væri að umsækjandi hefði ekki skráð ÍSAT númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein skv. 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 180/2016 og þá vantaði bæði mat úttektaraðila sem og staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Með kærunni fylgir staðfesting ráðunautar á því að þörf sé fyrir lagningu nýrrar neysluvatnsveitu á X, ásamt því að henni fylgir kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Þá fylgir einnig afrit af vörureikningi fyrir efni keyptu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

IV. Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Í ákvörðun MAST, dags. 26. maí 2021, kemur fram að úthlutun styrkja til vatnsveituframkvæmda sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum nr. 180/2016. Kærandi hafi sótt um styrk vegna nýrrar veitu en upplýsingar vantað um áætlaðan heildarkostnað. Þá segir að umsóknin hafi ekki fullnægt skilyrðum um styrkhæfi en það mat byggi á framlögðum upplýsingum sem borist hefðu MAST. Kemur fram að umsækjandi sé ekki með skráð ÍSAT nr. í búnaðargjaldsskyldri búgrein, skv. 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 180/2016 ásamt því að mat úttektaraðila og staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun skv. 1. mgr. 2. gr. hefði vantað.

Í umsögn MAST, dags. 30. ágúst 2021, kemur fram að stofnuninni þyki rétt að taka fram að á þessum tíma hefði kærandi verið skráður í skjalakerfi MAST með úrelt heimilisfang í X og því hefði bréfpóstur MAST verið sendur þangað. MAST segir að ekki liggi fyrir nein skýring varðandi það hvers vegna úrelt heimilisfang kæranda var skráð í málaskrárkerfi MAST, né hvað fór úrskeiðis í þessu tilviki þar sem heimilisföng skráðra viðskiptavina stofnunarinnar ættu að uppfærast reglulega til samræmis við breytingar sem yrðu í þjóðskrá.

Segir þá næst að um vatnsveitustyrki gildi reglugerð nr. 180/2016 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum. Samkvæmt reglugerðinni beri að senda MAST allar umsóknir um framlög og í kjölfarið mæti stofnunin hvort umsóknirnar teljist styrkhæfar og tilkynni síðan umsækjendum um niðurstöðu matsins. Í reglugerð komi þá fram hvaða gögn þurfi að fylgja umsókn.

Um þau gögn sem fylgdu umsókninni segir MAST að stofnunin hefði metið umsögn frá Skagafjarðarveitum, dags. 19. febrúar 2021, sem fullnægjandi. Afrit af vörureikningi frá Kaupfélagi Skagfirðinga, samtals að fjárhæð 247.310 kr. m/vsk. fyrir plaströr og fleira hefði stofnunin talið vera ófullnægjandi sem staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun og einnig hefði stofnunin talið upplýsingar um tvö fyrirliggjandi tilboð í verkið ófullnægjandi sem staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Hefði MAST þá talið ófullnægjandi að nafn úttektaraðila væri skráð X, starfsmaður Skagafjarðaveitna, þar sem hann væri ekki skráður úttektaraðili MAST. Að lokum segir MAST að þar sem ekkert ÍSAT-númer (atvinnugreinaflokkun) hefði verið skráð í umsókninni uppfyllti hún ekki skilyrði reglugerðar. Umsókninni hefði því að mati MAST verið verulega ábótavant.

Kemur þá fram að þann 6. maí 2021 hefði stofnunin sent kæranda bréf á fyrrnefnt heimilisfang hans í Reykjanesbæ og að í bréfinu hefði synjun umsóknarinnar verið boðuð vegna þess að umsækjandi hefði ekki skráð ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri grein líkt og skilyrði væri samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 180/2016 ásamt því að bæði mat úttektaraðila sem og staðfesta kostnaðar- og framkvæmdaáætlun vantaði eins og skilyrði væru samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Þar sem engin andmæli né frekari gögn hefðu borist, hefði stofnunin tilkynnt kæranda um synjun umsóknar hans með bréfi dags. 26. maí 2021, ásamt því að senda honum bréfið á netfang hans.

Bendir MAST á að tölvubréfið hafi borist kæranda þar sem þann 30. maí 2021. Í kjölfar þess hefði stofnuninni borist tölvubréf frá kæranda þar sem hann upplýsti um núverandi heimilisfang sitt. Jafnframt hefði komið fram að hann væri ekki með skráð ÍSAT-númer og síðan hefði kærandi sent sömu gögn og upprunalega fylgdu umsókninni.

Degi síðar, eða þann 31. maí 2021, hefði MAST svarað kæranda og ítrekað hvaða gögn vantaði svo samþykkja mætti umsókn hans. Um þremur vikum síðar, þann 22. júní 2021, hefði umsögn borist frá skráðum úttektaraðila MAST, X hjá búnaðarsambandi Skagfirðinga. Þann 29. júní 2021 hefði MAST borist tölvubréf frá kæranda þar sem hann tilgreindi að hann væri skráður með ÍSAT-númer 03.11.1. Bendir stofnunin á að það númer sé ekki í búnaðargjaldsskyldri starfsgrein líkt og áskilið sé samkvæmt reglugerðinni. ÍSAT-númer sem og virðisaukaskattsnúmer kæranda væru skráð á félagið Dórey ehf. en kærandi væri forsvarsmaður þess.

Samdægurs, þann 29. júní 2021, hefði MAST borist afrit af tölvubréfi kæranda til ráðuneytisins þar sem hann kærði ákvörðun stofnunarinnar. Með kærunni hefði fylgt kostnaðar- og framkvæmdaáætlun og teldi stofnunin hana fullnægjandi. Vantaði kæranda því aðeins ÍSAT-númer í búnaðarsgjaldsskyldri búgrein og hefði honum verið leiðbeint um að hann gæti skráð aukaatvinnugrein til viðbótar við fyrrnefnt ÍSAT-númer, 03.11.1.

Væri það álit MAST að kærandi hefði ekki enn uppfyllt skilyrði gildandi reglugerðar um styrki til vatnsveitna á lögbýlum og væri stofnuninni því ekki heimilt að fallast á umsókn kæranda.

V. Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun MAST um að hafna umsókn kæranda um styrk til vatnsveituframkvæmda á jörðinni X. Hafa sjónarmið kæranda sem og forsendur hinnar kærðu ákvörðunar verið rakin hér að framan.

Um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fer eftir III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og er hlutverk sjóðsins samkvæmt 1. mgr. 8. gr. þeirra laga að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

Í 9. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er mælt fyrir um ráðstöfun tekna Jöfnunarsjóðs og skal þeim auk annars varið til greiðslu sérstakra framlaga samkvæmt 11. gr. laganna, líkt og greinir í b. lið 1. mgr. 9. gr. Í c. lið 1. mgr. 11. gr. er svo mælt fyrir að sérstökum framlögum skuli úthlutað til greiðslu stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum þar sem hagkvæmara væri að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum. Þá er ráðherra með 1. mgr. 18. gr. falið að setja reglugerðir um úthlutun framlaga samkvæmt einstökum ákvæðum III. kafla laganna, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs.

Um styrki til vatnsveituframkvæmda fer eftir reglugerð 180/2016 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum, sem sett hefur verið á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er árlega heimilt að greiða framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á vegum eigenda lögbýla þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum. Gildissvið reglugerðarinnar er þá markað í 3. mgr. 1. gr. og ná ákvæði hennar að meginreglu til allra lögbýla í landinu þar sem landbúnaður er stundaður í þeim mæli að talist getur búrekstur eða þáttur í búrekstri og skal umsækjandi leggja fram gögn til staðfestingar þess að hann hafi ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein sem og virðisaukaskattsnúmer, ef þess er óskað.

Umsóknum um framlög til vatnsveituframkvæmda skal í samræmi við 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar skilað til MAST og skal umsóknum fylgja mat úttektaraðila, sem MAST tilnefnir, á þörf býlisins fyrir viðkomandi framkvæmd sem og staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun ásamt umsögn viðkomandi sveitarstjórnar þess efnis að skilyrði 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt. MAST er samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar falið að ljúka yfirferð umsókna fyrir 1. maí á hverju ári, ásamt því að leggja mat á það hvort þær uppfylla skilyrði reglugerðarinnar og geta með því talist styrkhæfar. Þá tilkynnir MAST umsækjendum um niðurstöðu matsins og að því loknu og í samræmi við 2. mgr. 3. gr. sendir stofnunin ráðuneytinu yfirlit yfir þær umsóknir sem borist hafa og stofnunin telur styrkhæfar. Í lok árs gerir MAST tillögur til ráðherra um úthlutun framlaga vegna einstakra framkvæmda á því ári, sbr. 1. mgr. 5. gr. en ráðgjafarnefnd er þar falið að gefa ráðherra umsögn um tillögur MAST áður en tekin er ákvörðun um úthlutun.

MAST hafnaði umsókn kæranda um styrk til vatnsveituframkvæmda, þar sem stofnunin taldi hana ófullnægjandi með vísan til skilyrða um styrkhæfi og hún þess vegna ekki hluti þess yfirlits sem stofnunin sendi ráðuneytinu yfir styrkhæfar umsóknir sem borist hefðu. Verður því að telja ákvörðun MAST um höfnun umsóknar kæranda hafa falið í sér endalok málsins og með því stjórnvaldsákvörðun sem réttilega verður kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur af framansögðu að umsókn kæranda fylgdu ófullnægjandi gögn svo að hún uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 180/2016 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum. Þá liggur einnig fyrir að kæranda barst ekki bréf stjórnvaldsins, þar sem honum var kynnt hver þau gögn væru sem á vantaði og honum leiðbeint um hvar nálgast mætti lista fyrir úttektaraðila sem MAST hefði tilnefnt. Eftir að ákvörðun MAST barst kæranda hefur hann undir rekstri málsins hjá ráðuneytinu, bætt úr tveimur þeirra þriggja ágalla sem á umsókn hans voru. MAST var þá í frekari samskiptum við kæranda eftir að ákvörðun stofnunarinnar var tilkynnt honum og honum hefur verið gert kunnugt að hann vanti einungis ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein svo fallast megi á umsókn hans.

Kæranda hefur því gefist kostur á að bæta úr þeim ágöllum sem á umsókn hans voru, sem og að honum hefur verið leiðbeint varðandi það hvað þarf til að koma svo unnt verði að fallast á umsókn hans. Þar sem tilskilin gögn hafa ekki borist og kærandi hefur ekki ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein uppfyllir hann ekki það skilyrði sem fram kemur í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Því eru lagaskilyrði ekki uppfyllt svo að fallast megi á umsókn kæranda. Er það þar af leiðandi niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum