Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN20110069

 

Ár 2020, þann 21. desember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN20110069

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

I.          Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Mál þetta er endurupptaka á úrskurði ráðuneytisins í máli SRN19060024 sem kveðinn var upp þann 18. febrúar 2020. Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 5. júní 2019 kærði X (hér eftir nefnd kærendur), ákvörðun Þjóðskrár Íslands (hér eftir ÞÍ) frá 5. apríl 2019 um að synja kærendum um leiðréttingu á skráningu fasteignarinnar að X, Kópavogi. Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að íbúðir að X fái hvor sitt fastanúmerið í fasteignaskrá.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins lögðu kærendur þann 5. apríl 2019 fram erindi til ÞÍ þar sem óskað var eftir að skráning fasteignarinnar að X yrði leiðrétt. Var um að ræða eignarhluta  A. Kröfðust kærendur þess að 48 fm kjallari yrði skráður á sérstakt fasteignanúmer, en sá hluti eignarinnar var skráður sem geymsla hjá ÞÍ. Vísuðu kærendur til þess að rýmið væri staðsett undir bílskúr og hefði verið notað sem íbúð frá árinu 1985 þegar atvinnustarfsemi hafi lagst af í húsinu. Vísuðu kærendur einnig til þess að eignarhald þessara tveggja rýma væri aðskilið og hefði ávallt verið svo. Í því sambandi vísuðu kærendur til þess að annað kjallararými hússins, þ.e. B, hefði einnig verið skráð vinnustofa en væri skráð íbúð í dag. Svaraði ÞÍ erindi kærenda þann 5. apríl 2019 þar sem upplýst var að engin gögn hafi fundist sem gæfu til kynna að rýmið undir bílskúrnum hafi nokkurn tíma verið skráð sem séreign eða íbúð samkvæmt samþykktum teikningum af umræddu rými. Ætti skráning eignarinnar sér stoð í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1965 þar sem fram komi að rýmið tilheyri íbúð á fyrstu hæð. Varðandi eignarhluta B þá hafi sú eign verið samþykkt sem íbúð árið 1995, en rýmið undir bílskúrnum enn skráð sem geymsla. Þá upplýsti ÞÍ kærendur um að frá árinu 1994 hafi einungis þrjár fasteignir verið skráðar í húsinu en ekki fjórar auk þess sem ÞÍ leiðbeindi kærendum um hvernig fjölga mætti fasteignum. Þann 16. apríl 2019 sendu kærendur ÞÍ frekari gögn og ítrekuðu beiðni sína. Vísuðu kærendur til þess að samkvæmt þeim gögnum mætti sjá að frá árinu 1985 hefðu verið skráða fjórar fasteignir í húsinu. ÞÍ svaraði kærendum þann sama dag og benti á að sjá mætti stimpil byggingafulltrúa á afsali frá árinu 1985 og benti á að hugsanlega hafi byggingafulltrúi ályktað að um ígildi eignaskiptayfirlýsingar væri að ræða. Taldi ÞÍ að efni skjalsins gæfi ekki til kynna að um væri að ræða breytingu á eldri eignaskiptayfirlýsingu enda væri skjalið titlað afsalsbréf. Væri slíkt meiningin hefði átt að vera um tvö aðskilin skjöl að ræða, annars vegar afsal og hins vegar eignaskiptayfirlýsingu.

Ákvörðun ÞÍ var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kærenda mótteknu 5. júní 2019.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 28. júní 2019 var ÞÍ gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar  mótteknu 15. ágúst 2019.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 23. ágúst 2019 var kærendum kynnt umsögn ÞÍ og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi kærenda mótteknu 5. september 2019.

Þann 18. febrúar 2020 kvað ráðuneytið upp úrskurð í málinu þar sem kröfum kærenda var hafnað og ákvörðun ÞÍ staðfest. Í kjölfarið leituðu kærendur til umboðsmanns Alþingis sem sendi frá sér álit þann 11. nóvember sl. Var það niðurstaða umboðsmanns að úrskurður ráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við lög og beindi því til ráðuneytisins að taka mál kærenda til meðferðar á ný kæmi frá þeim beiðni þar um. Þann 16. nóvember sl. barst ráðuneytinu beiðni kærenda um endurupptöku málsins. Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. nóvember sl. var kærendum tilkynnt að málið hefði verið endurupptekið.

 

III.       Málsástæður og rök kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur séu erfingjar X sem lést í árslok 2018. Hafi hún m.a. skilið eftir sig tvær íbúðir að X í Kópavogi. Þegar selja hafi átt íbúðirnar, annars vegar efri hæð keypta 1965 og hins vegar kjallara undir bílskúr keyptan 1985, hafi komið í ljós að sama fastanúmer hafi verið á báðum íbúðum. Geri það kærendum ókleift að selja íbúðirnar nema sem eina heild sem lækki söluverð þeirra umtalsvert. Benda kærendur á að þegar fastanúmerakerfi fasteigna hafi verið komið á, líklega árið 1995, hafi verið gerð mistök hjá fasteignaskrá með því að skrá aðeins eitt númer fyrir báðar íbúðirnar. Hafi þetta gerst án vitundar eigenda og gegn vilja þeirra og ekki komið í ljós fyrr en nú. Hafi byggingafulltrúi Kópavogs bent á að ósamræmi og mistök væru algeng í eldri skráningum og væru þá leiðrétt. Í kjölfarið hafi kærendur sent ÞÍ gögn sem sýni fram á að áður en flutt var inn í húsið og til ársins 1985 hafi verið fjórir eigendur að fjórum eignarhlutum hússins. Eftir 1985 hafi hins vegar verið þrír eigendur að þessum fjórum eignarhlutum en slíkt breyti í engu hinni röngu skráningu. Sé ekkert sjáanlegt tilefni til að opinberir aðilar sameini skráningu óskyldra íbúða eða eignarhluta á mismundandi stöðum undir eitt skráningarnúmer. Hafi þessi mistök verið gerð fyrir áratugum og ætti að vera auðvelt að leiðrétta þau nú. Fá kærendur ekki séð neina ástæðu fyrir því að hið opinbera slái skyndilega tveimur eignarhlutum saman undir eitt fastanúmer án þess að eigandi hafi vitað það og gegn vilja hans. Sé þessi ráðstöfun eiganda íbúðanna til tjóns. Hafi ÞÍ hafnað beiðni kærenda um leiðréttingu þrátt fyrir framvísun þinglýstra gagna með þeim rökum einum að sameignarsamningur byggingaraðila frá árinu 1965 sé skjal sem gildi ofar öllum öðrum gögnum, þ.m.t. þinglýstum afsölum og kaupsamningum eftir þann tíma. Hafi tilgreindur sameignarsamningur orðið úreltur þremur mánuðum eftir að hann var gerður. Einnig velta kærendur fyrir sér hvernig seinni tíma gjörningum hafi fengist þinglýst úr því þeir stönguðust á við sameignarsamninginn.

Í andmælum sínum benda kærendur á að umsögn ÞÍ innihaldi allnokkrar rangfærslur. Af framlögðum þinglýstum skjölum megi sjá að eftir að efri hæð hússins hafi verið seld foreldrum kærenda árið 1965 hafi verið fjórir eigendur að fjórum eignarhlutum hússins allt til ársins 1985. Eftir að foreldrar kærenda keyptu rýmið undir bílskúrnum það ár hafi verið þrír eigendur að fjórum eignarhlutum frá þeim tíma. Sé það því rangt hjá ÞÍ að frá árinu 1985 hafi verið fjórar fasteignir í húsinu. Þá megi sjá af gögnum málsins að rýmið undir bílskúrnum hafi verið séreining áður en fasteignanúmerakerfið var tekið upp. Hafi rýmið verið skráð sem séríbúð óslitið frá árinu 1985 þegar foreldrar kærenda keyptu það og breyttu í íbúð. Þá kemur fram hjá kærendum að engin eignaskiptayfirlýsing sé til fyrir fasteignina að X. Hins vegar sé til sameignarsamningur þáverandi eigenda gerður 1. mars 1965, áður en byggingu hússins lauk. Komi þar ekkert fram um að umrætt rými tilheyri íbúð á fyrstu hæð. Þar segi hins vegar að sami eigandi sé að umræddu rými og íbúð á efri hæð. Í sameignarsamningnum séu taldir upp fjórir eignarhlutar. Þá megi sjá á afsali frá árinu 1965 að þáverandi eigandi selji efri hæðina ásamt bílskúr. Telja kærendur fráleitt að halda því fram að kjallari undir báðum bílskúrum hafi þá tilheyrt íbúð á fyrstu hæð enda hefðu kaupin þá aldrei gengið í gegn. Þá benda kærendur á að af þinglýstum skjölum megi sjá að fjórir eignarhlutar hafi verið í húsinu frá upphafi. Engin gögn styðji þá fullyrðingu ÞÍ að eignin hafi verið skráð sem þrjár íbúðir auk þess sem sú fullyrðing sé í ósamræmi við þinglýsingabók sýslumanns. Einnig benda kærendur á að krafa þeirra sé ekki sú að fjölga fasteignum að X heldur að leiðrétt verði þau mistök að fækka þeim úr fjórum í þrjár án vitundar og vilja eigenda. Gerð eignaskiptayfirlýsingar sé annað mál.

 

IV.       Umsögn og ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Í umsögn ÞÍ kemur fram að stofnunin sé skráningarstofnun sem fari með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Sams konar ábyrgð hafi hvílt á Fasteignamati ríkisins samkvæmt eldri lögum sem í gildi voru þegar eignarhald fasteignarinnar tók breytingum árið 1985. Þá komi fram í byggingarlögum nr. 54/1978 sem í gildi voru á umræddum tíma að í hverju sveitarfélagi skuli vera starfandi byggingarnefnd og fari hún með byggingarmálefni sveitarfélags, sbr. 6. og 7. gr. laganna. Hafi byggingarnefndir átt að taka fyrir byggingarleyfisumsóknir og afgreiða í samræmi við þágildandi lög og reglur. Megi ljóst vera að sveitarfélög hafi alla tíð séð um forskráningu fasteigna, þ.e. að veita byggingarleyfi, stofna nýjar fasteignir eða samþykkja breytingar á þeim í samræmi við gildandi deiliskipulag sveitarfélags hverju sinni. Segi þannig í 1. mgr. laga um skráningu og mat fasteigna frá árinu 1976 að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því að Fasteignamati ríkisins berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og öll mannvirki, sem gerð eru í umdæmum þeirra hvers um sig og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra. Sé ákvæðið samhljóða 19. gr. núgildandi laga um skráningu og mat fasteigna. Þá bendir ÞÍ á að í eldri lögum um fjöleignarhús nr. 59/1976 hafi verið gerð krafa um þinglýsingu skiptayfirlýsingar. Í 3. gr. þeirra laga hafi komið fram að gera skyldi að skilyrði þinglýsingar eignayfirfærslu fjölbýlishúss eða hluta þess að skiptayfirlýsing lægi fyrir. Í 4. gr. hafi komið fram hvað þyrfti að koma fram í skiptayfirlýsingu, t.d. hvar hver íbúð væri, stærð hverra íbúðar og hvað henni fylgdi sérstaklega, hlutafallstölur o.fl. Komið hafi sérstaklega fram að sveitarstjórn skyldi staðfesta að þessar upplýsingar væru réttar. Skerpt hafi verið á þessum ákvæðum í núgildandi lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 og í reglugerð um eignarskiptayfirlýsingar nr. 910/2000. Í 1. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús komi fram að gera skuli eignarskiptayfirlýsingu um öll fjöleignarhús enda liggi ekki fyrir þinglýstur fullnægjandi og glöggur skiptasamningur. Í 5. mgr. 16. gr. segi að séu gerðar breytingar á fjöleignarhúsi eða innbyrðis eignatilfærslur sem breyti eða raski eignaskiptayfirlýsingu og eignarhlutföllum skuli eigendur án ástæðulauss dráttar gera nýja eignaskiptayfirlýsingu og láta þinglýsa henni. Það komi skýrt fram í núgildandi eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1965 að X sé kjallari og tvær íbúðarhæðir, auk þess tveir bílskúrar og kjallari undir þeim. Á hvorri íbúðarhæð sé aðeins ein íbúð. Af þinglýstum afsalsbréfum frá árunum 1965 og 1985 megi sjá að eignayfirfærslur hafi verið gerðar á milli aðila án þess þó að eignaskiptayfirlýsingu hafi verið breytt í samræmi við þær breytingar. Engin tilkynning hafi borist frá byggingafulltrúa sveitarfélagsins um breytingu á húsnæðinu enda hefðu eigendur á þeim tíma þurft að óska eftir breytingum til sveitarfélagsins í samræmi við ofangreint. Á tímabilinu frá 1970 til dagsins í dag hafi X verið skráð sem þrjár íbúðareignir ásamt geymslu og bílskúrum í fasteignaskrá ÞÍ og sé það í fullu samræmi við þinglýsingabók sýslumanns. Telur ÞÍ ljóst að núgildandi eignaskiptayfirlýsing endurspegli ekki fasteignina eins og hún er í dag. Sé eignaskiptayfirlýsingin hvorki fullnægjandi né nægilega glögg enda fullyrði kærandi að fjórar íbúðir séu í fasteigninni. Sé því nauðsynlegt að fá nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið í samræmi við 16. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Það sé ekki á forræði ÞÍ að fjölga fasteignum án þess að tilkynning um slíkt komi frá byggingafulltrúa sveitarfélagsins ásamt þinglýsingu nýrrar eignaskiptayfirlýsingar. Telur ÞÍ því ekki unnt að verða við beiðni kærenda þar sem ekki sé um mistök í skráningu að ræða heldur þurfi eigendur að láta útbúa nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið líkt og kveðið sé á um í lögum.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 5. apríl 2019 um að synja kærendum um leiðréttingu á skráningu fasteignarinnar að X, Kópavogi. Krefjast kærendur þess að eignin verði skráð á fjögur fastanúmer í stað þriggja. Vísa kærendur til þess að upphaflega hafi verið skráðar fjórar eignir að X, þ.e. frá árinu 1965. Upphaflega hafi verið þrír eigendur að hinum fjórum eignarhlutum en fljótlega eftir gerð sameignarsamnings árið 1965 hafi þeir orðið fjórir þegar foreldrar kærenda keyptu einn eignarhlutann. Eftir kaup þeirra á öðrum eignarhlutanna árið 1985 hafi hins vegar verið skráðir þrír eigendur að þessum fjórum eignarhlutum. Hins vegar virðist sem svo að þegar fastanúmerakerfi fasteigna hafi verið komið á árið 1995 hafi verið gerð þau mistök hjá fasteignaskrá að skrá eitt fastanúmer fyrir tvær eignanna í stað tveggja. Kjallari undir bílskúr sé þannig sér eign og beri að skrá hana sem slíka en ekki sem hluta af annarri eign og á sama fastanúmeri. Vísa kærendur til þess að umrædd skráning hafi verið gerð án vitundar eigenda og gegn vilja þeirra.

Líkt og rakið er í umsögn ÞÍ fer stofnunin með yfirstjórn fasteignaskráningar hér á landi samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Sama ábyrgð hvíldi áður á Fasteignamati ríkisins samkvæmt eldri lögum með sama nafni nr. 94/1976. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. er viðkomandi sveitarstjórn ábyrg fyrir því að ÞÍ berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sem gerð eru í umdæmi hvers um sig, og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra. Sambærilegt ákvæði var að finna í 1. mgr. 9. gr. eldri laga um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. núgildandi laga um skráningu og mat fasteigna skal sveitarstjórn að jafnaði fela byggingafulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 6/2001 kemur fram að ÞÍ geti hvenær sem stofnunin telur þörf á látið endurskoða upplýsingar sem fyrir liggja um einstakar fasteignir, einstakar tegundir fasteigna eða fasteignir á tilteknum svæðum. Í 2. mgr. 21. kemur fram að slík endurskoðun skuli jafnan fara fram ef sýnt er að upplýsingar í fasteignaskrá gefi ekki rétta lýsingu á fasteign eða fasteignum sem um ræðir. Í 3. mgr. 21. gr. kemur síðan fram að eigandi fasteignar eða annar aðili sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í lýsingu fasteignar eða mati geti krafist endurskoðunar samkvæmt 1. mgr. Lítur ráðuneytið svo á sem í beiðni kærenda felist krafa um endurskoðun upplýsinga í fasteignaskrá á grundvelli 3. mgr. 21. gr.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í 4. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að séreign samkvæmt lögunum sé afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega. Í 11. gr. laganna kemur fram að hver eignarhluti teljist, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega og eignarhluta í sameign, sérstök fasteign, enda sé fullnægt skilyrðum um skráningu og mat fasteigna. Um eignaskiptayfirlýsingar er fjallað í 16. – 18. gr. fjöleignarhúsalaga. Þar kemur m.a. fram að gera skuli eignaskiptayfirlýsingu fyrir öll fjöleignarhús enda liggi ekki fyrir þinglýstur og fullnægjandi og glöggur skiptasamningur. Þá felst í 77. gr. laganna að samningar sem gerðir voru fyrir gildistöku laganna halda gildi sínu að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra fara ekki í bága við ófrávíkjanleg ákvæði þeirra. Um eignaskiptayfirlýsingar og skráningu upplýsinga um fjöleignarhús í fasteignaskrá er fjallað í reglugerð um eignaskiptayfirlýsingu, útreikning  o.fl. í fjöleignarhúsum. Af því leiðir að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2001 skal hver séreignarhluti í fjöleignarhúsi bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem ÞÍ úthlutar.

Ef litið er á sameignarsamning þann sem vísað hefur verið til frá árinu 1965 má sjá að á þeim tíma sem hann er gerður voru þrír eigendur að fasteigninni X. Samkvæmt 1. gr. sameignarsamningsins er húsið kjallari og tvær íbúðarhæðir auk tveggja bílskúra og kjallara undir þeim. Ein íbúð er á hvorri hæð. Samkvæmt 2. gr. sameignarsamningsins var einn eigandi að fyrstu hæð ásamt bílskúr, alls 35,1% eignarinnar. Annar eigandi var að efri hæð ásamt bílskúr sem taldist 35,1% eignarinnar. Sami eigandi var að kjallara undir báðum bílskúrum og einu herbergi í kjallara hússins, alls 11,4% af eigninni. Var tilgreindur aðili því eigandi að alls 46,5% eignarinnar. Loks var þriðji aðilinn eigandi kjallara hússins að undanteknu einu herbergi, alls 18,4 % eignarinnar. Fljótlega eftir gerð sameignarsamningsins kaupa foreldrar kærenda efri hæð eignarinnar ásamt bílskúr, alls 35,1% eignarinnar. Eftir það voru fjórir eigendur að fasteigninni allt til ársins 1985 þegar foreldrar kærenda kaupa kjallarann undir bílskúrunum auk eins herbergis í kjallara, alls 11,4% eignarinnar. Eftir það voru þau eigendur þess 46,5% eignarinnar sem vitnað er til í sameignarsamningnum hér að framan og þar með þrír eigendur að fasteigninni frá þeim tíma. Samkvæmt afsalinu frá 1985 var hið selda geymsluhúsnæði undir bílskúrum og eitt herbergi þar inn af. Í 7. gr. eignaskiptasamningsins frá 1965 var tekið fram að allir eigendur samþykktu að í kjallara undir bílskúrum yrði rekinn iðnaður. Vísa kærendur m.a. til þess að húsnæðið undir bílskúrunum hafri verið notað sem íbúð frá árinu 1985 þegar atvinnustarfsemi hafi lagst af í húsinu. Á þeim tíma sem upphaflegur sameignarsamningur var gerður voru í gildi lög nr. 19/1959 um sameign fjölbýlishúsa. Samkvæmt 3. gr. þeirra skyldi gera skiptasamning um öll fjölbýlishús sem fleiri en einn eigandi væri að. Var sameignarsamningurinn þannig lögboðinn skriflegur gerningur þáverandi eigenda hússins sem lagði grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum þess og lóðar.

Ráðuneytið lítur svo á að þar sem ekki liggur fyrir að ákvæði sameignarsamningsins frá 1965 fari í bága við ófrávíkjanleg ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 verði ekki annað ráðið en að samningurinn sé enn í gildi, sbr. 77. gr. laganna. Hvað sem líði breyttri eignaraðild frá því samningurinn var gerður sem og breyttri notkun einstakra rýma hússins verði ekki annað séð en að ákvæði samningsins séu skýr varðandi skipan hússins. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að eigendur hússins í gegnum tíðina hafi gert ráðstafanir sem hafi breytt eða raskað efni samningsins þannig að þýðingu hafi fyrir niðurstöðu málsins.

Ráðuneytið lítur svo á að af 2. gr. sameignarsamningsins verði ekki annað ráðið en að gert sé ráð fyrir því að fjórir eignarhlutar séu í húsinu og þeir hafi í upphafi verið í eigu þriggja einstaklinga. Í b-lið 2. gr. samningsins kemur fram að sami einstaklingur hafi þá verið eigandi annars vegar þess eignarhluta sem er tilgreindur sem efri íbúðarhæð hússins ásamt bílskúr og hins vegar eignarhluta sem er afmarkaður sem kjallari undir báðum bílskúrum ásamt einu herbergi í kjallara. Eru tilgreindir eignarhlutar skráðir á sama fastanúmeri og lýtur krafa kærenda að endurskoðun þeirra upplýsinga þannig að því að eignarhlutarnir fái hvor sitt fastanúmerið líkt og rakið hefur verið.

Ráðuneytið tekur fram að af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að eignarhlutar hússins að X hafi verið fjórir í upphafi. Þá liggur ekki fyrir að gerðar hafi verið breytingar þar á, s.s. með sameiningu þeirra eignarhluta sem fjallað er um í b-lið 2. gr. sameignarsamningsins. Þá verði ekki annað séð af gögnum málsins en að síðari eignayfirfærslur séu í samræmi við þann skilning á efni samningsins. Af framangreindu leiðir að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að fjöldi eignarhluta hússins séu fjórar eignir í samræmi við sameignarsaminginn frá 1965. Að þessu sögðu og með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með kærendum að fyrri skráning eignarinnar hafi ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Því beri að fallast á kröfu kærenda þess efnis að leiðrétta beri skráningu eignarinnar að X þannig að þar séu skráð fjórar eignir á fjögur fastanúmer, í stað þriggja áður, sbr. ákvæði 21. gr. laga nr. 6/2001.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að leiðrétta skráningu eignarinnar að X í samræmi við kröfur kærenda.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 5. apríl 2019 um að synja beiðni X um leiðréttingu á skráningu fasteignarinnar að X, Kópavogi. Lagt er fyrir Þjóðskrá Íslands að leiðrétta skráningu eignarinnar þannig að skráðir séu fjórir eignarhlutar í húsinu í stað þriggja.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum