Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN17120012

Ár 2018, þann 18. júlí, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17120012

 

Kæra Vueling Airlines

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 4. desember 2017 barst ráðuneytinu kæra Vueling Airlines (hér eftir nefnt VA) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli X (hér eftir nefnd farþegarnir) nr. x/2017 frá 15. september 2017. Með ákvörðun Samgöngustofu var VA gert að greiða farþegunum bætur að fjárhæð 400 evrur hvorum samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, vegna seinkunar á flugi VA frá Keflavík til Rómar þann 26. ágúst 2016. Krefst VA þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþeganna um bætur verði hafnað. Til vara krefst VA þess að félaginu verði aðeins gert að greiða hvorum farþega bætur að fjárhæð 200 evrur.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

VU annaðist flug VY6181 sem áætlað var frá Keflavík til Rómar þann 26. ágúst 2016. Áætluð brottför var kl. 03:05 en kl. 01:07 var farþegunum tilkynnt um seinkun flugsins til næsta dags vegna slæmra veðuraðstæðna í Keflavík. Var áætlaður komutími til Rómar kl. 10:00 þann 26. ágúst 2016 en raunveruleg koma var kl. 18:34 þann sama dag, eða 8 klst. og 34 mín. seinkun. Er deilt um bótaábyrgð VU vegna seinkunarinnar.

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

  1. Erindi

    Þann 20. október 2016 barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá X. Kvartendur átti bókað far með flugi Vueling Airlines (VY) 6181 frá Keflavík til Rómar þann 26. ágúst 2016. Áætluð brottför frá Keflavík var kl. 03:05 en kl. 01:07 var kvartendum tilkynnt um seinkun flugsins til næsta dags vegna slæmra veðurastæðna í Keflavík.

    Kvartendur hafna því að veðuraðstæður hafi verið slæmar þennan dag og telja VY bótaskylt vegna seinkunarinnar.

    Kvartendur fara fram á skaðabætur samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

  2. Málavextir og bréfaskipti

    Samgöngustofa sendi VY kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 24. október 2016. Í svari VY sem barst Samgöngustofu þann 7. nóvember sl. kemur fram að seinkun flugs VY6181 þann 26. ágúst 2016 hafi komið til vegna veðuraðstæðna sem félagið hafi með engu móti getað komið í veg fyrir. VY hafi staðið frammi fyrir óviðráðanlegum aðstæðum sem hafi haft neikvæð áhrif á flugáætlun félagsins. VY skilji vel óþægindi farþeganna, það sé stefna félagsins að veita þjónustu og finna lausn varðandi aðra möguleika á flugi. Að félagið biðji farþega velvirðingar á óþægindunum en félagið hafi því miður ekki getað komið í veg fyrir aðstæðurnar. Félagið hafi staðið frammi fyrir óvæntum aðstæðum en hafi reynt að veita hverjum farþega fyrir sig einstaklingsbundna lausn á vandanum. Félagið hafi boðið farþegum val um að breyta farmiðum án endurgjalds, endurgreiðslu farmiða eða að ferðast síðar. Meðfylgjandi umsögninni séu gögn sem staðfesti aðstæðurnar þennan dag.

    Samgöngustofa sendi kvartanda svar VY til umsagnar þann 7. nóvember 2016. Í svari kvartanda sem barst Samgöngustofu þann 17. nóvember kemur fram að kvartandi skilji að óvæntar aðstæður geti haft áhrif á flug en þennan dag hafi veðuraðstæður í Evrópu verið góðar og önnur flugfélög flogið samkvæmt áætlun. Kvartandi hafni því að VY hafi boðið einstaklingsbundna lausn á vandanum, þeim hafi ekki verið boðið að gera breytingu á miða eða fá endurgreitt. Kvartendum hafi verið tilkynnt um seinkun flugsins og að nýr flugtími væri 8 klukkustundum síðar. Kvartendur skilji vel erfiðleika félagsins og að þeir bjóðist því til að lækka bótakröfu sína um helming frá þeim bótum sem kvartendur eigi rétt á samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004.

    Þann 17. nóvember 2016 sendi Samgöngustofa boð kvartenda um lækkaðar bætur til VY. Engar frekari athugasemdir bárust frá félaginu.

     

  3. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.

Loftferðalög nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Fyrir liggur að kvartendur átti bókað far með flugi VY nr. VY6181 frá Keflavík til Rómar þann 26. ágúst 2016. Álitaefni þessa máls er hvort flug kvartenda hafi tafist vegna óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 kemur fram að flugrekanda beri ekki skylda til að greiða skaðabætur til farþega í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst, eða því seinkað, vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Við túlkun á óviðráðanlegum aðstæðum verður að líta til 14. inngangsliðar reglugerðar EB nr. 261/2004 en þar segir að óviðráðanlegar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs.

Í umsögn VY kemur fram að veðuraðstæður á áætluðum brottfartíma flugs kvartenda hafi verið þannig að seinka hafi þurft brottför flugsins og að félagið telji að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða.

Samgöngustofa hefur aflað gagna úr gagnagrunni Isavia um veðuraðstæður á Keflavíkurflugvelli þann 25. og 26. ágúst 2016 og um flug nr. VY6180 og VY6181. Af þeim gögnum má ráða að flugi nr. VY6180, sem var fyrra flug sömu vélar og sinna átti flugi kvartenda, seinkaði og kom því of seint til lendingar á Keflavíkurflugvelli. Seinkun á flugi nr. VY6081, sem kvartendur áttu bókað far með, var því bein afleiðing af seinkun á fyrra flugi sömu vélar frá Róm til Keflavíkur.

Í ljósi þess að loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega er það mat Samgöngustofu að þegar atvik sem leiða til seinkunar flugs, hafa áhrif á önnur eða síðari flug en það sem deilt er um, geti slík víxlverkun ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB 261/2004 fyrir hin síðari flug. Því leiði töf á síðari flugum til bótaskyldu flugrekanda skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Stofnunin vísar í þessu sambandi til fyrir ákvarðana um áhrif víxlverkana, til að mynda með ákvörðun nr. 12/2011. Sú niðurstaða var staðfest í úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR11040216 frá 11. október 2011 og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-837/2012 frá 31. október 2013.

Í ljósi þeirrar túlkunar Samgöngustofu að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna, kemur þegar af þeirri ástæðu til bótaskyldu flugrekanda. Er því ekki þörf á að leggja sérstakt mat á hvort þær aðstæður sem ollu seinkun á fyrra flugi vélarinnar til Keflavíkur teljist vera óviðráðanlegar aðstæður og ekki tekin afstaða til þess í þessari ákvörðun.

Samkvæmt framansögðu ber VY að greiða kvartendum bætur í samræmi við ákvæði reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Ákvörðunarorð:

Vueling Airlines ber að greiða hvorum kvartanda fyrir sig bætur að upphæð 400 evrur skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

 

III.      Málsástæður WOW, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra VA barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 4. desember 2017.

Í kæru kemur fram að flugi farþeganna hafi seinkað vegna slæmra veðurskilyrða og því hafi félagið neitað að greiða bætur. Telur VA að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Vísar VA til þess að félaginu hafi verið ómögulegt að koma í veg fyrir aðstæðurnar sem leiddu til seinkunarinnar og hafi ekki verið mögulegt að grípa til ráðstafana þar að lútandi. Hafi félagið lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Þá kemur fram í kæru að farþegarnir hafi fallist á að bætur væru lækkaðar um helming og því beri að fallast á varakröfu VA ef til þess kemur að félagið verði talið bótaskylt.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 9. janúar 2018.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 30. janúar 2018. Í umsögninni kemur fram að forsendur fyrir ákvörðun SGS hafi verið þær að víxlverkandi seinkun vegna óviðráðanlegra aðstæðna á fyrra flugi geti ekki fallist undir óviðráðanlega seinkun á síðara flugi frá Keflavík til Rómar skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Frá því hin kærða ákvörðun var tekin hafi SGS snúið frá þeirri framkvæmd sem áður tíðkaðist og talið að óviðráðanlegar aðstæður í fyrri flugum geti einnig talist óviðráðanlegar aðstæður í seinni flugum vélar sama dag. Hins vegar telji SGS að í þessu máli hafi VA ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að veðuraðstæður í Keflavík þann 26. ágúst 2016 við áætlaða brottför á fluginu hafi verið svo slæmar að þær teljist til óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þá hafi VA ekki útskýrt hvort eða að hvaða leyti töf hafi orðið á fyrra flugi vélarinnar og að hvaða leyti slæmt hefur hafi haft áhrif á það flug. Hafi engin gögn verið lögð fram sem sýni fram á að veðuraðstæður hafi verið svo slæmar að varðað hafi seinkun á brottför um átta og hálfa klukkustund. Í flugvallarveðurskýrslu frá Keflavíkurflugvelli frá 26. ágúst 2016 komi fram að veður frá kl. 03:00 þegar brottför var áætluð, hafi verið með vægum vindi, góðu skyggni og hárri skýjahæð. Sama megi sjá samkvæmt skýrslu um veðrið frá kl. 01:00 til kl. 11.00 án markverðra frávika. Í flugvallarveðurspá fyrir Keflavíkurflugvöll þann 25. ágúst frá kl. 21:00 til 26. ágúst kl. 21:00 megi sjá að verra skyggni hafi verið spáð á milli kl. 22:00 þann 25. ágúst til kl. 09:00 þann 26. ágúst, en þó ekki svo slæmu að ekki væri hægt að nota Keflavíkurflugvöll til lendingar. Þá megi einnig sjá í flugvallarveðurspám fyrir Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll að skyggni og skýjahæð hafi verið það slæmt að líklega væri ekki hægt að styðjast við þá flugvelli sem varaflugvelli. Af hálfu VA hafi hins vegar engin rök eða útskýring verið lögð fram um áhrif veðurspár á fyrra flug vélarinnar. Hafi á engan hátt verið útskýrt af hverju töfin stóð svo lengi sem raun bar vitni eða til hvaða aðgerða VA hafi gripið til að lágmarka seinkun. Telur SGS að VA hafi ekki sýnt fram á að veðuraðstæður hafi verið það slæmar að falli undir 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Almennt sé ákvæðið túlkað þröngt og hvíli sönnunarbyrði á flugrekendum að sýna fram á að aðstæður hafi verið óviðráðanlegar. Hafi VA ekki tilgreint af hverju seinkun hafi orðið á fyrra flugi vélarinnar, hvort eða að hvaða leyti veður hafi haft áhrif á það flug, hvert mat VA hafi verið á flugveðurskýrslum og flugveðurspám. Þá hafi ekki komið fram hvað VA hafi gert til að lágmarka tafir vegna hinna óviðráðanlegu aðstæðna. Að mati SGS sé rétt að túlka skort á röksemda- og sönnunarfærslu farþegunum í hag þannig að VA geti ekki borið fyrir sig 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Varðandi varakröfu VA telur SGS að stofnunin sé bundin við ákvörðun bótafjárhæða á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004. Bendir SGS á að ákvörðun sem tiltæki aðra bótafjárhæð færi gegn kröfum farþeganna. Hafi boð farþeganna um að ljúka málinu með greiðslu á 200 evrum til hvors farþega verið tilraun þeirra til að komast að samkomulagi við VA líkt og 2. mgr. 126. gr. c loftferðalaga kveður á um. Hefði VA þegið boð farþeganna hefði SGS ekki tekið ákvörðun í málinu líkt og kveðið sé á um í 3. mgr. 126. gr. c. Sé ekkert í fyrri samskiptum málsaðila sem bindi hendur SGS við ákvörðun bótafjárhæðar, heldur fylgi stofnunin 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012. Þá beri að túlka 15. gr. reglugerðarinnar á þann veg að bætur ákvarðaðar af hálfu SGS verði ekki lægri en 7. gr. kveður á um.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 13. mars 2018 var farþegunum gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Aðalkrafa VA lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kröfum farþeganna um bætur verði hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið. Til vara er þess krafist að bætur til farþeganna verði lækkaðar um helming. Farþegarnir hafa ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Fyrir liggur að flugi farþeganna frá Keflavík til Rómar seinkaði um rúmlega átta og hálfa klukkustund. Byggir VA á því að seinkunin hafi verið tilkomin vegna óviðráðanlegra aðstæðna þar sem veðuraðstæður í Keflavík hafi valdið seinkuninni. Í hinni kærðu ákvörðun var það niðurstaða SGS að áhrif víxlverkana falli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna og kæmi þegar af þeirri ástæðu til bótaskyldu flugrekanda.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er með reglugerðinni leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt. Í því sambandi bendir ráðuneytið á 14. inngangslið reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram kemur að slíkar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafi áhrif á starfsemi flugrekandans.

Ráðuneytið tekur fram að það telur að SGS hafi í hinni kærði ákvörðun borið að leggja mat á hvort veðuraðstæður í Keflavík hafi verið með þeim hætti sem lýst er af hálfu VA, en ekki hafi verið rétt að líta á ástæður seinkunarinnar sem víxlverkunaráhrif líkt og gert var í hinni kærðu ákvörðun. Í slíkum tilvikum sem hér háttar beri SGS þannig að meta hvort um óviðráðanlegar aðstæður er að ræða, enda geti veðuraðstæður fallið þar undir samkvæmt áður tilvitnuðum reglugerðarákvæðum. Í umsögn SGS er vikið að framangreindum sjónarmiðum en jafnframt til þess vísað að af gögnum málsins verði ekki séð að veðuraðstæður í Keflavík umræddan dag hafi verið slíkar að falli undir óviðráðanlegar aðstæður.

Ráðuneytið hefur yfirfarið gögn málsins og telur að fallast beri á það sem fram kemur í umsögn SGS, þ.e. að gögn málsins beri ekki með sér að veðuraðstæður í Keflavík hafi verið slíkar á þeim tíma sem brottför vélarinnar var áætluð að falli undir óviðráðanlegar aðstæður. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi þannig verið vægur vindur á umræddum tíma, skyggni gott og með hárri skýjahæð. Hið sama megi ráða af veðurskýrslu fyrir tímabilið frá kl. 01:00 til kl. 11:00 þann 26. ágúst 2016 án markverðra frávika. Þá vísar ráðuneytið einnig til þess að almennt beri að túlka 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 þröngt og hvíli sönnunarbyrði fyrir því að um óviðráðanlegar aðstæður sé að ræða alfarið á flugrekendum. Er það mat ráðuneytisins að sú sönnun hafi ekki tekist og verði VA að bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þá eru ekki skilyrði til þess að fallast á varakröfu VA enda engar slíkar heimildir að finna í loftferðalögum eða reglugerð EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta