Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN17100028

Ár 2018, þann 23. mars, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN17100028

 

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

 

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 11. október 2017 kærði X, kt. 0000 (hér eftir kærandi), ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 9. október 2017 um að synja beiðni hans um að verða afskráður úr þjóðskrá. Af kæru verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu hans.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

 

Með tölvubréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands þann 13. september 2017 óskaði hann eftir upplýsingum um hvort hann væri enn skráður í þjóðskrá þar sem hann hefði skipt um ríkisborgararétt í apríl 2017. Með tölvubréfi þann sama dag tilkynnti Þjóðskrá Íslands kæranda að hann væri enn skráður í þjóðskrá með íslenskan ríkisborgararétt en með lögheimili í Noregi. Var kæranda leiðbeint um að hafa samband við Útlendingastofnun vegna breytingar á ríkisfangi. Með tölvubréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands þann 6. október 2017 kvaðst hann hafa afsalað sér íslensku ríkisfangi og tekið upp norskt ríkisfang frá 4. apríl 2017. Greindi kærandi frá því að óviðkomandi aðilar hafi notfært sér upplýsingar um kennitölu hans úr þjóðskrá og því óski hann eftir að verða fjarlægður úr skránni. Með tölvubréfi Þjóðskrár Íslands til kæranda þann 9. október 2017  var honum bent á að stofnuninni hefðu ekki borist gögn um að kærandi hefði öðlast norskt ríkisfang og því væri hann enn skráður með íslenskt. Jafnframt var beiðni kæranda um að verða afskráður úr þjóðskrá synjað með vísan til lögbundins hlutverks Þjóðskrár Íslands um að halda skrá um alla þá sem fæðst hafa og/eða skráð hafa búsetu sína á Íslandi. Með tölvubréfi kæranda þann sama dag lagði hann fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði öðlast norskt ríkisfang og ítrekaði beiðni sína um að verða afskráður úr þjóðskrá. Með tölvubréfi Þjóðskrár Íslands sama dag ítrekaði stofnunin fyrri svör um að ekki væri unnt að skrá kæranda úr þjóðskrá og tilkynnti honum jafnframt að stofnunin myndi senda gögnin um breytt ríkisfang til Útlendingastofnunar.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kæranda mótteknu þann 11. október 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 19. október 2017 var Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar mótteknu 2. nóvember 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. nóvember 2017 var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 11. janúar 2018 var kæranda tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að vegna alvarlegrar misnotkunar á kennitölu kæranda, sem sótt hafi verið í þjóðskrá sem sé aðgengileg öllum sem hafi aðgang að netbanka, hafi kærandi óskað eftir því að verða fjarlægður úr þjóðskrá. Fyrr á árinu 2017 kveðst kærandi hafa verið í sambandi við Útlendingastofnun sem hafi tjáð honum að einfaldasta leiðin til að komast úr þjóðskrá væri að sækja um lausn frá íslensku ríkisfangi. Það kveðst kærandi hafa gert og orðið norskur ríkisborgari 4. apríl 2017. Hafi það ekki dugað til þar sem Þjóðskrá Íslands hafi synjað beiðni hans. Telur kærandi að hann sem erlendur ríkisborgari þurfi ekki að vera í íslenskri þjóðskrá. 

 

IV.      Ákvörðun og umsögn Þjóðskrár Íslands

Í ákvörðun Þjóðskrár Íslands kemur fram að samkvæmt lögum sé stofnuninni ekki heimilt að verða við beiðni kæranda um að afskrá hann úr þjóðskrá. Beri Þjóðskrá Íslands samkvæmt lögum að halda opinbera skrá um alla þá sem hafa fæðst og/eða búið á Íslandi. Þá geti breyting á ríkisfangi ekki orðið til þess að Þjóðskrá Íslands verði við beiðni kæranda.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að stofnunin annist almannaskráningu samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962. Almannaskráning byggist m.a. á tilkynningum um aðsetursskipti, tilkynningum ljósmæðra um fæðingar og á gögnum Útlendingastofnunar um breytingar á ríkisfangi, sbr. 4. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laganna leysi Þjóðskrá Íslands hlutverk sitt af hendi með því að láta opinberum aðilum í té ýmis gögn sem talin eru upp í liðum eitt til sex. Láti Þjóðskrá Íslands til að mynda opinberum aðilum árlega í té íbúaskrá og á þeirri skrá sé kjörskrárstofn byggður sem stofnunin beri að láta sveitarstjórnum í té þegar forseta-, Alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. Þá segi enn fremur í 5. tl. að Þjóðskrá Íslands eigi að stuðla að því með skrárgerð sinni að enginn gjaldskyldur einstaklingur sleppi við álagningu lögboðinna gjalda sem og að tvísköttun manna eigi sér ekki stað. Samkvæmt 6. tl. skuli Þjóðskrá Íslands einnig afhenda efnivið í mannfjöldaskýrslur til Hagstofu Íslands, sbr. einnig 4. mgr. 19. gr. laganna. Af framangreindu sé ljóst að Þjóðskrá Íslands beri lögum samkvæmt að halda skrá, sem kölluð er þjóðskrá, og hafi þessi skráning margvíslegan tilgang, s.s. að halda utan um réttindi og skyldur einstaklinga. Skrárgerð Þjóðskrár Íslands sjái til þess að einstaklingar njóti réttinda eins og kosningaréttar, ríkisborgararéttar og lífeyrisréttar ef því er að skipta. Þá stuðli hún einnig að því að einstaklingar verði ekki tvískattaðir. Allir einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi, íslenskir ríkisborgarar fæddir erlendis og einstaklingar sem átt hafa lögheimili hér á landi séu skráðir í þjóðskrá. Þá sé hvergi í lögum heimild til handa Þjóðskrá Íslands til að eyða einstaklingi úr þjóðskrá samkvæmt beiðni. Þjóðskrá sé skrá yfir lifandi einstaklinga sem geti átt rétt og borið skyldur og njóti þannig rétthæfis. Eðli máls samkvæmt verði einstaklingur færður úr þjóðskrá yfir á horfinnaskrá við andlát hans.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 9. október 2017 um að synja beiðni kæranda um að verða afskráður úr þjóðskrá. Af kæru verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Samkvæmt 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu samkvæmt lögunum. Er meginmarkmiðið með almannaskráningu samkvæmt lögunum að skráning á hverjum tíma sé rétt og lögum samkvæmt. Byggist almannaskráning á þeim gögnum sem talin eru upp í 4. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laganna leysir Þjóðskrá Íslands hlutverk sitt af hendi með því að láta opinberum aðilum í té ýmis gögn sem talin eru upp í ákvæðinu í tl. 1-6, sbr. það sem rakið er hér að framan í umsögn stofnunarinnar. Ber Þjóðskrá Íslands þannig lögum samkvæmt að halda þjóðskrá sem m.a. hefur það hlutverk að halda utan um réttindi og skyldur einstaklinga og gera einstaklingum þannig mögulegt að njóta ýmissa réttinda, s.s. kosningaréttar, ríkisborgararéttar og lífeyrisréttar, sem og einnig að koma í veg fyrir tvísköttun. Allir einstaklingar sem fæðast hér landi eru skráðir í þjóðskrá sem og íslenskir ríkisborgarar fæddir erlendis auk einstaklinga sem átt hafa lögheimili hér á landi. Er þjóðskrá þannig skrá yfir lifandi einstaklinga sem geta átt rétt og borið skyldur og notið þannig rétthæfis. Er hvergi í lögum að finna heimild til handa Þjóðskrár Íslands um að verða við beiðni um að afskrá einstakling úr þjóðskrá. Það að kærandi hafi öðlast norskan ríkisborgararétt í apríl 2017 breytir engu þar um enda er það hlutverk Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu að halda opinbera skrá um alla þá sem hafa fæðst og/eða búið á Íslandi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 9. október 2017 um að synja beiðni X um að verða afskráður úr þjóðskrá


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum