Kæra Hundagallerís ehf., á ákvörðun Matvælastofnunar frá 1. mars 2012 um að banna dreifingu hunda.
I. Kröfugerð
Með stjórnsýslukæru, dags. 12. mars 2012, kærði Auður Björg Jónsdóttir, hdl., f.h. Hundagallerí ehf. kt. 410604-2030, hér eftir nefnt kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 1. mars 2012, um að banna dreifingu hunda frá kæranda.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar sé felld niður.
Matvælastofnun fer fram á að málinu sé vísað frá.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.
Þann 29. febrúar 2012 greindust lirfur ormsins Stronglyoides stercoralis í saursýnum frá hundum kæranda. Sýnin voru tekin af héraðsdýralækni Suðvesturumdæmis og rannsökuð á Tilraunastöðinni á Keldum.
Með bréfi, dags. 1. mars 2012, tilkynnti Matvælastofnun kæranda að dreifing hunda frá kæranda væri bönnuð. Bannið var ótímabundið en í bréfinu sagði að það yrði endurskoðað ef tilefni væri til vegna bættrar sjúkdómastöðu. Í bréfi Matvælastofnunar var vakin athygli kæranda á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri heimilt að kæra ákvörðunina til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið). Slík kæra skyldi borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðunina, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
Með bréfi, dags. 22. mars 2012, barst sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu stjórnsýslukæra, dagsett 12. mars 2012, frá Auði B. Jónsdóttur hdl., f.h. Hundagallerí ehf., vegna ákvörðunar Matvælastofnunar.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Matvælastofnunar ásamt gögnum vegna framkominnar kæru. Umbeðin gögn ásamt umsögn bárust ráðuneytinu þann 5. júní 2012.
Þá hafði Matvælastofnun tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 30. apríl 2012, að stofnunin hefði fellt úr gildi bann við dreifingu hunda frá Hundagallerí ehf. Ákvörðunin var tekin á grundvelli þess að við rannsókn á saursýnum frá búinu voru engin merki um ormasmit. Sýni voru tekin þann 16. apríl 2012 og í endurtekinni rannsókn þann 18. apríl 2012 á saursýnum frá þeirri deild þar sem smitið hafði greinst. Þá höfðu allir hundar búsins fengið ormalyfsmeðferð. Matvælastofnun mælti með ákveðinni meðferð á hundum áður en þeir yrðu afhentir.
Með bréfi, dags. 12. mars 2012, var kæranda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn frá Matvælastofnun. Frestur var veittur til 20. júní 2012. Engar athugasemdir bárust.
III. Málsástæður og lagarök
Málsástæður og lagarök kæranda
Í kærunni er fjallað um að upphaf málsins sé að rekja til ársins 2008 þegar kærandi flutti til Íslands rakka af gerðinni Cavalier King Charles Spaniel (en samkvæmt umsögn Matvælastofnunar um kæruna var um að ræða hund af tegundinni Maltese). Rakkinn var færður í einangrunarstöðina í Reykjanesbæ við komuna til landsins. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið vitneskju um að sníkjuormur af gerðinni Strongyloides stercoralis hafi fundist í rakkanum á meðan hann var í einangrunarstöðinni. Er því haldið fram að hér hafi stjórnvöld bæði vanrækt að skýra frá þessu auk þess sem ekki hafi farið fram reglubundin skoðun eins og skylt er á dýrum sem eru sýkt þegar þau koma til landsins. Kærandi sé því að skoða hvort Matvælastofnun eða einangrunarstöðin beri bótaábyrgð þar sem þeim hafi láðst að tilkynna um orma í hundinum og ekki haft nægilegt eftirlit með hundinum. Sömuleiðis heldur kærandi því fram að á sama tíma hafi sambærilegir ormar fundist í öðrum hundum og nefnir sérstaklega tvö tilvik.
Kærandi vísar til reglu stjórnsýslulaga um meðalhóf þar sem önnur og vægari úrræði myndu vera jafn skilvirk, t.d. að taka sýni úr hundum áður en þeir eru afhendir og afhenda þá sem ekki eru smitaðir. Þá telur kærandi að hann hefði getað afhent hunda og síðan hefði verið sérstakt eftirlit með þeim. Nýjum eigendum hefði verið gerð grein fyrir orminum og nauðsyn eftirlits. Þá telur kærandi að með ótímabundnu banni hafi verið gengið lengra en þörf krafði.
Kærandi vísar til tveggja sambærilegu tilvika og telur með vísan til jafnræðisreglu að eitt eigi yfir alla að ganga. Gróflega sé brotið á kæranda í ljósi þess að ræktun hafi ekki verið stöðvuð í hinum tveimur tilvikunum og nöfn þeirra ekki birt á heimasíðu Matvælastofnunar. Telur kærandi, með vísan til jafnræðisreglu, að banna hefði átt einnig afhendingu eða dreifingu hvolpa og hunda sem tengjast þeim hundum sem smitaðir voru og voru í einangrun á sama tíma og hans hundar. Sömuleiðis hefði átt að birta nöfn þeirra aðila á netinu og loka fyrir afhendingu frá ræktun þeirra.
Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar
Í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 1. mars 2012, er ákvörðunin um að banna dreifingu hunda rökstudd með vísan til 11. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir: „Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra.“
Í umsögn um stjórnsýslukæruna segir Matvælastofnun að ekki sé rétt að tala um að stofnunin hafi lokað hundaræktinni enda hafi fyrirtækið átt þess kost að bregðast við sjúkdómastöðunni. Markmiðið hafi verið að hindra frekari útbreiðslu á sjúkdómnum.
Hvað meinta sýkingu hunda í einangrunarstöð varðar, þá segir stofnunin að hundurinn, sem um ræðir, hafi verið fluttur inn 19. - 21. maí 2008. Hann reyndist vera sýktur af Stronglyoides stercoralis og meðhöndlaður í einangruninni með Fenbendasol 50 mg/kg 1x á dag í þrjá daga og við sníkjudýraskoðun þann 4. júní virtist hann frír af þessu smiti. Segir í umsögninni að hundum sé ekki hleypt inn í landið nema nýorma-hreinsuðum. Þeir séu hreinsaðir við komuna, rannsakaðir á einangrunartímanum með tilliti til ormasýkingar og ormahreinsaðir áður en þeir fara út af stöðinni. Auk þess fékk tiltekni hundurinn í þessu máli aukameðferð. Þá segir í umsögninni að kæranda hafi verið tilkynnt um þetta munnlega og jafnframt fengið reikning fyrir meðferðina.
Matvælastofnun fellst ekki á að kæranda hafi verið mismunað. Þrátt fyrir að hundar annarra innflytjenda hafi líka greinst með Stronglyoides stercoralis þá hafi þeir við endurtekna skoðun reynst fríir af smiti og ekki sé þekkt að frá þeim aðilum komi hundar sem beri þetta smit. Hvað varðar þau tilteknu tilvik sem kærandi vísar til þá hafi hundarnir ekki verið í einangrun á sama tíma og hundur kæranda.
Loks telur Matvælastofnun að þar sem banni á dreifingu hunda frá Hundagalleríi ehf. hafi verið aflétt sé ekki lengur tilefni til að taka afstöðu til þess hvort fella eigi úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar. Vísa beri málinu frá.
IV. Rökstuðningur og niðurstaða
I
Kærandi heldur því fram að meðalhófsregla hafi verið brotin með tvennum hætti. Annars vegar með því að grípa ekki til vægari aðgerða en banni við dreifingu og hins vegar með því að hafa bannið ótímabundið.
Í máli þessu er ekki um það deilt að þann 29. febrúar 2012 greindust lirfur ormsins Stronglyoides stercoralis í saursýnum hunda frá kæranda. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim segir að Matvælastofnun sé heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra.
Hundar, sem smitaðir eru af Stronglyoides stercoralis geta smitað aðra hunda þar sem í saur þeirra geta verið lirfur. Aðrir hundar smitast síðan í gegnum munn eða húð. Lífsferill ormsins gerir það að verkum að ekki er þörf á millihýsli og getur ormurinn verið kynlaus og þar af leiðandi geta hundar endursmitað sig, umhverfi sitt og afkvæmi aftur og aftur. Með því að banna dreifingu hunda frá kæranda er ljóst að Matvælastofnun stefndi að því að koma í veg fyrir að Stronglyoides stercoralis breiddist út.
Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í kæru eru tvö sérstök dæmi nefnd um vægari leiðir en bann. Í fyrsta lagi er bent á að leyfa hefði mátt afhendingu hvolpa en skýra nýjum eigendum frá smiti og hafa sérstakt eftirlit með þeim. Verður ekki séð að þessi leið hefði skilað sams konar árangri við að hindra útbreiðslu Stronglyodes stercoralis og sú leið sem farin var. Verður að telja að með því að dreifa smituðum hundum væri tekin óþarfa áhætta varðandi frekari útbreiðslu sjúkdómsins. Í öðru lagi segir í kæru að taka hefði mátt sérstök sýni úr hundum og leyfa afhendingu ósmitaðra hunda. Í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 1. mars 2012, sagði að bannið yrði endurskoðað ef tilefni gæfist til vegna bættrar sjúkdómastöðu. Er ljóst að ef sýni sýndu fram á að hundar væru ósmitaðir þá myndi það teljast sem efni til hugsanlegrar endurskoðunar á banni.
Í máli þessu verður því ekki séð, að Matvælastofnun hafi farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til. Stofnunin hefur heimild samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1993 annaðhvort til að takmarka eða banna flutning dýra í tilvikum sem þessum til að hindra útbreiðslu sjúkdóma. Fallast má á að nauðsyn hafi borið til að banna dreifingu hunda frá kæranda, enda hefði takmörkun ekki skilað sama árangri við að hindra útbreiðslu Stronglyoides stercoralis.
Þá telur kærandi að með ótímabundnu banni hafi verið gengið lengra en þörf krafði. Ekki er heldur fallist á það, að sá háttur Matvælastofnunar að hafa bannið ótímabundið hafi brotið gegn meðalhófsreglu. Í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 1. mars, segir að bannið sé „ótímabundið en verður endurskoðað ef tilefni gefst til vegna bættrar sjúkdómastöðu“. Bannið gilti sem sagt fram að þeim tíma þegar ekki var lengur tilefni til að viðhalda banni, það er þangað til að fyrir lá að óhætt væri að hefja aftur dreifingu hunda frá kæranda án þess að hætta væri á útbreiðslu sjúkdómsins. Verður ekki séð að farið hafi verið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til.
II
Kærandi heldur því fram að jafnræðisregla hafi verið brotin þar sem aðrir aðilar hafi ekki fengið sömu meðferð hjá Matvælastofnun. Matvælastofnun segir í svörum sínum að ekki sé um sambærileg mál að ræða þar sem aðrir hundar hafi við endurtekna skoðun reynst smitlausir. Í þessu máli verður að telja að um tvö ósambærileg mál sé að ræða. Þar af leiðandi hafi Matvælastofnun ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
III
Bannið við dreifingu hunda, sem um er deilt í þessu máli, er ekki lengur í gildi. Matvælastofnun felldi bannið við dreifingu úr gildi þann 30. apríl 2012 á grundvelli þess að við rannsókn á saursýnum voru engin merki um ormasmit. Eigi að síður þykir rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Matvælastofnunar frá 1. mars 2012, um að banna dreifingu hunda frá kæranda, er staðfest.
Fyrir hönd ráðherra
Kristján Skarphéðinsson
Eggert Ólafsson