Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Bjarney V. Skúladóttir, kærir ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 19. september 2012, um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.


Úrskurður


Með stjórnsýslukæru, dags. 10. desember 2012, kærði Bjarney V. Skúladóttir, kt. 140571-3699, hér eftir nefnd kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 19. september 2012, um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 19. september 2012, um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu verði felld úr gildi.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt heimild til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjár-framleiðslu að nýju.

Matvælastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu verði staðfest.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýlulaga.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.

Þann 24. apríl 2012 framkvæmdi búfjáreftirlitsmaður vorskoðun í lögbundnu búfjáreftirliti á búi kæranda að Stökkum, 451 Patreksfirði. Búfjáreftirlitsmaður gerði athugasemdir við að kærandi hefði ekki verið kominn með gæðahandbók í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 10/2008 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og hefði ekki lokið undirbúningsnámskeiði til að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu í samræmi við 11. gr. sömu reglugerðar. Bændasamtök Íslands tilkynntu Matvælastofnun með bréfi dags. 29. júní 2012 annars vegar að kærandi hafi ekki staðist vorskoðun í lögbundnu búfjáreftirliti og ekki uppfyllt skilyrði til þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu og annars vegar með bréfi dags. sama dag að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði til þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu þar sem kærandi hefði ekki skilað vorupplýsingum úr sauðfjárskýrsluhaldi fyrir 20. júní 2012, samkvæmt kröfum Bændasamtaka Íslands.

Matvælastofnun tilkynnti kæranda með bréfi dags. 30. júlí 2012 um tilkynningu Bændasamtaka Íslands og vakti athygli kæranda á 18. gr. reglugerðar nr. 10/2008. Kæranda var veittur 30 daga frestur til að koma á framfæri andmælum. Með ákvörðun Matvælastofnunar dags. 19. september 2012 var kæranda tilkynnt að felldar yrðu niður álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu og vakin athygli kæranda á efni 18. gr. regugerðar nr. 10/2008 að endurgreiða bæri fyrirframgreiðslur á álagsgreiðslum vegna ársins 2012. Í ákvörðun Matvælastofnunar var vakin athygli kæranda á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri heimilt að kæra ákvörðunina til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti). Slík kæra skyldi borin fram innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs skv. 27. gr. sömu laga.

Kærandi kærði ákvörðun Matvælastofnunar um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðar sauðfjárframleiðslu, með bréfi dags. 10. desember 2012. Í kæru er þess krafist að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar um að fella niður frekari álagsgreiðslur gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt heimild til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að nýju.

Með bréfi dags. 10. desember 2012 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um málið og jafnframt eftir öllum þeim gögnum sem Matvælastofnun kunni að hafa um málið en hefðu ekki borist ráðuneytinu. Var Matvælastofnun veittur frestur til 3. janúar 2013. Með bréfi dags. 17. desember 2012 barst ráðuneytinu umsögn Matvælastofnunar.

Með bréfi dags. 20. desember 2012 veitti ráðuneytið kæranda frest til 17. janúar 2013 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn Matvælastofnunar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan frestsins.

Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu, dags. 19. september 2012 verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt heimild til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að nýju.

Í kæru kemur fram að samkvæmt bréfi Matvælastofnunar, dags. 30. júlí 2012 hafi verið vakin athygli á því samkvæmt tilkynningu Bændasamtaka Íslands að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 9. gr. reglugerðar 10/2008 um skýrsluhald og 6. gr. sömu reglugerðar um gæðahandbók. Kærandi vísar til eftirlitsblaðs búfjáreftir-litsmanns þar sem athugasemdir voru gerðar við að taka þyrfti til umhverfis hús á búi kæranda, kærandi hafi ekki lokið undirbúningsnámskeiði til að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og sé ekki kominn með gæðahandbók. Í kæru vísar kærandi til þess að ofangreint bréf Matvælastofnunar hafi ekki borist sér og honum því ekki verið veitt tækifæri til að koma á framfæri andmælum.

Samkvæmt kæru og meðfylgjandi staðfestingu frá Bændasamtökum Íslands lauk kærandi við undir-búningsnámskeið til að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu þann 5. nóvember 2012. Kærandi áréttar að ekki hafi verið tök á að ljúka námskeiðinu fyrr þar sem það var ekki haldið fyrr en í nóvember 2012.

Kærandi vísar í bréf Matvælastofnunar dags. 19. september 2012, þar sem kæranda var tilkynnt ákvörðun Matvælastofnunar um að fella niður álagsgreiðslur, en í því bréfi kom fram að engin andmæli hefðu borist frá kæranda. Í kæru bendir kærandi á að hann hafi ekki getað komið andmælum sínum á framfæri þar sem honum hafi ekki borist bréf Matvælastofnunar dags. 30. júlí 2013.

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Matvælastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu verði staðfest.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að Matvælastofnun hafi borist athugasemd frá Bændasamtökum Íslands dags. 29. júní 2012 þess efnis að sauðfjárskýrslum á búi kæranda hafi ekki verið skilað eins og áskilnaður er um í 9. gr. reglugerðar 10/2008 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Þá hafi Bændasamtök Íslands einnig tilkynnt að kærandi hafi ekki staðist vorskoðun í lögbundnu búfjáreftirliti og uppfylli ekki skilyrði til þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Matvælastofnun bendir einnig á að upplýst hafi verið í bréfi til kæranda dags. 30. júlí 2013 að gæðahandbók hafi ekki verið færð eins og krafa sé um samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 10/2008.

Matvælastofnun áréttar í umsögn sinni að kæranda hafi verið sent bréf dags. 30. júlí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að andmælum innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins. Engin andmæli hafi borist. Í umsögn Matvælastofnununar bendir hún á að bréf dags. 30. júlí 2013 hafi verið sent á sama heimilsfang kæranda og seinna bréf stofnunarinnar dags. 19. september 2013.

Rökstuðningur

Mál þetta lýtur að skilyrðum laga og reglugerðar vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, geta sauðfjárframleiðendur sem uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 10/2008 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu átt rétt á sérstakri gæðastýringar-greiðslu úr ríkissjóð.

Af gögnum málsins má ráða að við eftirlit búfjáreftirlitsmanns þann 24. apríl 2012 hafi kærandi í fyrsta lagi ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 10/2008 að halda gæðahandbók en skráning skuli hefjast eigi síðar en í upphafi þess árs sem framleiðandi tekur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Samkvæmt eftirlitsblaði búfjáreftirlitsmanns var kærandi að hefja gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Í öðru lagi uppfyllti kærandi ekki skilyrði um að hafa lokið sérstöku undirbúningsnámskeiði til að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi nú lokið undirbúnings-námskeiði til að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Ákvörðun Matvælastofnunar dags. 19. september 2012 lýtur, þrátt fyrir athugasemdir við búfjáreftirlit þann 24. apríl 2012, að því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 9. gr. reglugerðar 10/2008 um skýrsluhald. Samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar skal fjárstofn vera skráður í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands. Sauðfjárskýrslum hvers árs skal skila eigi síðar en 1. febrúar næsta árs. Framleiðendur sem eru að hefja þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en hafa til þess tíma ekki verið í skýrsluhaldi skulu senda vorupplýsingar úr sauðfjárskýrsluhaldi til Bændasamtaka Íslands eigi síðan en 20. júní ár hvert. Í samræmi við tilkynningu Bændasamtaka Íslands dags. 29. júní 2012 hafði kærandi ekki skilað vorupplýsingum úr sauðfjárskýrsluhaldi fyrir 20. júní 2012. Þrátt fyrir að kærandi hafi bætt úr þeim vanköntum sem tilgreindir voru á eftirlitsblaði búfjáreftirlitsmanns er ljóst af gögnum málsins að vorupplýsingar úr sauðfjár-skýrsluhaldi voru ekki sendar til Bændasamtaka Íslands fyrir 20. júní 2012 í samræmi við 9. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi heldur því fram í kæru að sér hafi ekki borist bréf Matvælastofnunar dags. 30. júlí 2012 og hafi þar af leiðandi ekki átt kost á að koma að andmælum. Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Bréf Matvælastofnunar dags. 30. júlí 2012 var stílað á sama heimilsfang kæranda og seinna bréf stofnunarinnar þegar hún tók ákvörðun í málinu með bréfi dags. 19. september 2012. Í umsögn Matvælastofnunar er ekki að finna upplýsingar um hvort bréf dags. 30. júlí 2012 hafi verið sent til kæranda með sannanlegum hætti, svo ljóst sé að kæranda hafi borist bréfið. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga er kæranda tryggður réttur til að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hefði átt að tryggja að bréfið væri sent með sannanlegum hætti til kæranda enda byrji andmælafrestur að líða strax frá dagsetningu bréfsins. Um er að ræða annmarka á málsmeðferð Matvælastofnun sem ráðuneytið gerir athugasemdir við enda skuli stofnunin tryggja að bréf sem mæli fyrir um rétt aðila til að koma á framfæri athugasemdum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, berast aðilum máls með sannanlegum hætti. Ráðuneytið telur hins vegar að þrátt fyrir að kæranda hafi ekki borist bréf Matvælastofnunar dags. 30. júlí 2012 og hann hafi ekki haft tækifæri til að koma að athugasemdum sínum áður en stofnunin tók ákvörðun í málinu, þá hafi það ekki áhrif á að ráðuneytið geti ekki úrskurðað í málinu. Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að þrátt fyrir að kærandi hefði getað komið að andmælum við bréfi Matvælastofnunar dags. 30. júlí 2012, þá gat kærandi ekki bætt úr öllum þeim athugasemdum sem búfjáreftirlitsmaðurinn gerði 20. apríl 2012, fyrr en í fyrsta lagi í nóvember 2012 þegar kærandi lauk udirbúningsnámskeiði fyrir gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Í samræmi við 17. gr. reglugerðar nr. 10/2008 skulu Bændasamtökin senda Matvælastofnun fyrir 15. júní ár hvert hvaða framleiðendur hafa ekki staðist eftirlit með skráningum í gæðahandbók og lögbundið búfjáreftirlit eða hafa ekki skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum í samræmi við skilyrði reglugerðarinnar. Ráðuneytið telur á grundvelli gagna málsins og með tilliti til ákvæða laga og reglugerðar nr. 10/2008 hafi kærandi við eftirlit búfjáreftirlitsmanns þann 24. apríl 2012 ekki uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar til að eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 10/2008 skal búfjáreftirlitsmaður veita að hámarki fjögurra vikna frest til úrbóta ef framleiðandi uppfyllir ekki þau skilyrði gæðastýringar sem búfjáreftirlitsmaður hefur eftirlit með við vorskoðun. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort kæranda hafi verið veittur framangreindur frestur né hvort kæranda hafi verið leiðbeint um hann með formlegum hætti. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var ekki unnt að bæta úr þeim athugasemdum sem búfjáreftirlitsmaður gerði við eftirlit sitt 24. apríl 2012 fyrr en í nóvember 2012. Af þeim sökum gat kærandi ekki bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru innan þeirra fjögurra vikna sem tilgreindar eru í 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar.

Ákvörðun Matvælastofnunar er byggð á því að skilyrði 9. gr. reglugerðar nr. 10/2008 um skýrsluhald var ekki uppfyllt. Samkvæmt bréfi Bænadasamtaka Íslands, dags. 29. júní 2012 hafði kærandi ekki skilað vorupplýsingum úr sauðfjárskýrsluhaldi fyrir 20. júní 2012 eins og mælt er fyrir um í 9. gr. reglugerðarinnar. Í samræmi við 6. mgr. 41. gr. laga nr. 99/1993 fellur niður réttur framleiðanda til gæðastýringargreiðslna skv. 1. mgr. sömu greinar, ef þeir uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu samkvæmt lögum nr. 99/1993 og reglugerð nr. 10/2008. Með vísan til alls ofangreinds telur ráðuneytið rétt að staðfesta ákvörðun Matvælastofnunar dags. 19. september 2012.

Kærandi krafðist þess til vara í kæru sinni dags. 10. desember 2012 að honum yrði veitt heimild til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að nýju. Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 10/2008 getur framleiðandi sem uppfyllir ekki skilyrði aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu og missir rétt til álagsgreiðslna á framleiðsluárinu, sótt um aðild að nýju á næsta framleiðsluári eftir endurnýjun umsóknar. Í 5. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar kemur einnig fram að ef ráðherra staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar um að framleiðandi eigi ekki rétt til aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skuli framleiðanda gefið tækifæri í tvær vikur til að sækja um aðild að nýju þrátt fyrir að frestur samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar sé liðinn. Með vísan til 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 10/2008 skal kæranda veittur réttur til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að nýju.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. september 2012 um að fella niður frekari álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu er staðfest og með vísan til 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 10/2008 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skal kæranda veittur réttur til að sækja um aðild að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að nýju.



Fyrir hönd ráðherra


Halldór Runólfsson

        Baldur P. Erlingsson

            


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta