Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Stjórnsýslukæra vegna synjunar Matvælastofnunar um leyfi til innflutnings á hundi.

Úrskurður

föstudaginn, 13. september 2024, var í matvælaráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags 23. apríl 2024, var ákvörðun Matvælastofnunar um höfnun á innflutningi á hundi, dags. 23. apríl 2024 kærð til ráðuneytisins. 

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests. 

 

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

Málsatvik og ágreiningsefni málsins

Málsatvikum er lýst í gögnum málsins. Þann 11. apríl 2024 fékk Matvælastofnun upplýsingar um að kærandi hafi bókað pláss fyrir hund í einangrunarstöðinni Móseli. Sama dag hafði stofnunin samband við kæranda og óskaði eftir frekari upplýsingum um hundinn. Kærandi upplýsti að ekki væri um innflutning að ræða og að hann þyrfti ekki leyfi þar sem einungis væri verið að koma með hundinn aftur heim frá [A]. Matvælastofnun upplýsti kæranda um að til þess að flytja inn dýr þyrfti innflutningsleyfi og þyrfti hundurinn að dvelja í tvær vikur á einangrunarstöð, jafnframt þyrfti hundurinn að uppfylla heilbrigðisskilyrði skv. reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta.  Þann 12. apríl upplýsir kærandi Matvælastofnun í tölvupósti um að hann gæti lagt fram myndrit af heilsufarsdagbók hundsins. Jafnframt óskaði kærandi eftir undanþágu frá ákveðnum heilbrigðiskröfum. Þann 15. apríl staðfesti Matvælastofnun móttöku á umsókn um innflutningsleyfi og upplýsti jafnframt að ekki væri hægt að veita undanþágu varðandi heilbrigðiskröfur og rannsóknir á hundinum.  

Þann 22. apríl kom kærandi til landsins ásamt hundi sínum og var hundurinn færður í móttökustöð Matvælastofnunar fyrir gæludýr á Keflavíkurflugvelli. Með tölvupósti sama dag tilkynnir Matvælastofnun kæranda um það að þar sem tilskilin gögn hafi ekki verið lögð fram sé ekki hægt að staðfesta að hundurinn uppfylli innflutningsskilyrði skv. reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta. Kæranda var veittur frestur til hádegis 23. apríl til að leggja fram fullgilt undirritað heilbrigðisvottorð ásamt tilskildum rannsóknarniðurstöðum. Matvælastofnun tilkynnti  að ef gögnin yrðu ekki lögð fram yrði hundurinn sendur úr landi í síðasta lagi 24. apríl. Þann 23. apríl barst tölvubréf frá kæranda þar sem fyrirhugaðri ákvörðun Matvælastofnunar um að senda hundinn úr landi var mótmælt og krafðist leiðbeininga frá stofnuninni við að leysa málið. Kærandi mótmælti því að um ólöglegan innflutning hunds væri að ræða þar sem hundurinn væri með upprunavottorð frá Matvælastofnun og þar sem hundurinn var löglegur þegar farið var með hann úr landi.

Með bréfi þann 23. apríl tilkynnti Matvælastofnun kæranda um fyrirhugaða höfnun á innflutningi hundsins. Kæranda var veittur frestur til andmæla til 16:00 sama dag. Þann sama dag barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hann mótmælir fyrirhugaðri ákvörðun Matvælastofnunar og að um sé að ræða stjórnsýslukæru til ráðuneytisins. Tölvupósturinn var áframsendur á matvælaráðuneytið samdægurs af hálfu Matvælastofnunar. 

Seinna sama dag, þann 23. apríl, tilkynnti Matvælastofnun kæranda með bréfi um ákvörðun um höfnun á innflutningi hundsins. Vísar þar Matvælastofnun til þess að í samræmi við 10. gr. reglugerðar nr. 200/2020 skuli hundurinn tafarlaust sendur úr landi og veitir kæranda frest til 24. apríl.

Þann 24. apríl óskaði Matvælastofnun eftir upplýsingum frá kæranda um hvort verið væri að undirbúa flutning hundsins frá landinu, vildi stofnunin upplýsa kæranda að honum stæði enn til boða að koma í veg fyrir aflífun á hundinum. Var þá kæranda veittur framlengdur frestur til 26. apríl. Var kærandi beðinn um að bregðast við svo að hægt væri að gefa út útflutningsvottorð. Sama dag upplýsti kærandi um það að enginn gæti tekið við hundinum erlendis. Í ljósi þess tilkynnti Matvælastofnun kæranda að hundurinn yrði aflífaður seinna sama dag. Að kvöldi 24. apríl tilkynnti Matvælastofnun kæranda að ákvörðun um aflífun hundsins yrði frestað og að leitað yrði leiða þannig að ekki þyrfti að koma til þess að aflífa hundinn. 

Þann 25. apríl leitaði Matvælastofnun til dýravelferðarsamtaka [B] til þess að taka við hundinum. Kæranda var upplýst um það samdægurs.

Þann 25. apríl sendi Matvælastofnun kæranda upplýsingar um að [B] gætu tekið á móti hundinum afsalaði hann sér eignarhaldinu. Kærandi svaraði samdægurs með tölvupósti og krafðist þess að fá svar frá ráðuneytinu áður en hundurinn yrði fluttur úr landi. Var erindið sent til ráðuneytisins samdægurs.

Þann 26. apríl óskaði Matvælastofnun aftur eftir viðbrögðum kæranda við því hvort hann hygðist flytja hundinn sjálfur úr landi eða taka boði [B]. Þá var kæranda tilkynnt að Matvælastofnun hefði leitað til Icelandair sem hefði samþykkt að flytja hundinn til [A]. Ítrekað var að ef ekki fyndist lausn væri eini kostur Matvælastofnunar að aflífa hundinn. Þann sama dag  samþykkti kærandi að eignarhald hundsins yrði fært til [B].

Þann 26. apríl var kærandi í tölvupóstsamskiptum við [B] og Matvælastofnun þar sem hann afsalaði eignarhaldi hundsins til þeirra. 

Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu þann 12. september 2024 óskaði ráðuneytið eftir frekari rökstuðningi frá Matvælastofnun um niðurstöðu stofnunarinnar að veita ekki undanþágu frá 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 á grundvelli 17. gr. reglugerðarinnar.

Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að ekki sé um innflutning á hundi að ræða heldur sé hann einungis að koma aftur heim til landsins. Þurfi hann því ekki að standast skilyrði vegna innflutnings dýra. Kærandi vísar til þess að þann 6. mars 2023 hafi Matvælastofnun gefið út uppruna og heilbrigðisvottorð fyrir hundinn vegna ferðar til [A] og hafi hann þá uppfyllt allar kröfur laga og reglugerða um bólusetningar. Bendir kærandi á að þetta sama vottorð sé svo notað aftur þegar að Matvælastofnun flytur hundinn úr landi þann 28. maí 2024.

Kærandi vísar til þess að fyrir komu sína og hundsins til landsins hafi hann greitt öll gjöld og að allar bólusetningar sem krafa er gerð um hefðu verið framkvæmdar. Jafnframt hafi hann verið búinn að bóka pláss fyrir hundinn í einangrun. Þá telur kærandi að óþarft hafi verið að senda hundinn í mótefnamælingu. Hundurinn sé tvíbólusettur við hundaæði og hafi verið skoðaður af dýralækni í [A] og hafi hann því verið löglegur bæði í [A] og á Íslandi. Af þeim sökum krafðist kærandi þess að hann yrði skoðaður við komu sína til Íslands og að hann fengi nýtt vottorð. Kærandi gerir athugasemdir við það að hundurinn hafi ekki verið sendur í einangrun við komu sína til landsins heldur geymdur á Keflavíkurflugvelli á meðan málið væri til meðferðar.

Kærandi byggir á því  að hann hafi verið þvingaður af hálfu Matvælastofnunar til þess að afsala sér eignarhaldi á hundinum til [B]. Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn eignarétti sínum og misbeitt valdi sínu.

Kærandi vísar til þess að ef hundurinn getur verið sendur aftur til lands innan Evrópska efnahagssvæðisins þá sé hann nógu góður/heilbrigður til að vera á Íslandi. Kærandi vísaði til þess að hann krefðist þess að fá hundinn sinn til baka af mannúðarástæðum.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

Matvælastofnun byggir á því að kærandi hafi ekki virt ákvæði laga um innflutning dýra og reglugerðar um innflutning hunda og katta við innflutning á hundi sínum, þrátt fyrir að Matvælastofnun hefði leiðbeint kæranda um kröfur sem gerðar eru varðandi innflutning hunda til landsins. 

Matvælastofnun byggir jafnframt á því að stofnunin hafi leitað allra leiða til að komast hjá því að aflífa þyrfti hundinn og að kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um að grípa til ráðstafana til að endursenda hundinn til [A]. Matvælastofnun segir kæranda ekki hafa sinnt ábendingum og hafa haldið sig við kröfu sína um að innflutningur hundsins yrði samþykktur og að hundinum yrði leyft að fara í sóttkví hérlendis. Matvælastofnun vísar til þess að stofnunin hafi haft frumkvæði að því að leita til [B] um hvort þau gætu tekið við hundinum ef kærandi heimilaði slíkt. Stofnunin hafi jafnframt haft frumkvæði að því að leita til Icelandair til að koma hundinum til [A] án endurgjalds og grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana til að koma hundinum úr landi. 

Matvælastofnun vísar til þess að kærandi hafi afsalað sér eignarrétti sínum á hundinum til stofnunarinnar til [B], en hann gerði það í tölvupósti bæði til Matvælastofnunar og [B]. 

Matvælastofnun telur einsýnt að sú ákvörðun að hafna kæranda um leyfi til innflutnings á hundinum hafi verið lögum samkvæm og að við ákvörðunina og eftirmála hennar hafi stofnunin gætt að öllum form- og efnisreglum stjórnsýslulaga. 

Matvælastofnun vísar til þess að samkvæmt 2. gr. laga um innflutning dýra nr. 54/1990 sé óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Matvælastofnun vísar til þess að samkvæmt 4. gr. a. sömu laga er heimilt að víkja frá banninu sé fyrirmælum laganna og reglugerðar nr. 201/2020 um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr fylgt. Meta skuli áhættu af innflutningi og er heimilt að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði gæludýrs, þ.m.t. heilbrigðis- og upprunavottorð, sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu, rannsóknir og meðhöndlun gæludýrs eða erfðaefnis fyrir innflutning.Stofnunin vísar jafnframt til 5. mgr. 2. gr. laganna að dýr sem flutt séu inn til landsins án heimildar skuli tafarlaust lógað og fargað án bóta á kostnað umráðamanns svo eigi stafi hætta af. Matvælastofnun sé þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Umráðamaður dýrs sem flutt er inn án heimildar skuli þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Á meðan ráðstafanir eru gerðar um afdrif dýra sem eru flutt inn á heimildar skal einangra þau í vörslu Matvælastofnunar. 

Matvælastofnun byggir á því að í 3. gr. reglugerðar nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta segi að innflutningur á hundum sé óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Samkvæmt 5. gr. skal öllum hundum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs. Vottorðið skal vera rétt útfyllt og gefið út af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu. Vottorðið gildir í tíu sólarhringa frá útgáfudegi. Vottorðinu skulu fylgja rannsóknarniðurstöður sýna sem krafist er í hverju tilfelli. Vísar Matvælastofnun jafnframt til 9. gr. reglugerðarinnar en samkvæmt ákvæðinu skoðar opinber dýralæknir alla hunda við komu til landsins í móttökustöð hunda og katta og sannreynir að þeir sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og að öll tilskilin vottorð fylgi. Í 10. gr. reglugerðarinnar segir að komi í ljós að skilyrðum hennar sé ekki framfylgt í hvívetna falli innflutningsleyfið samstundis úr gildi. Skal dýrið aflífað og hræinu fargað bótalaust og á kostnað innflytjanda. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ógnað. Eru heilbrigðisskilyrði  vegna innflutnings hunda nánar tilgreind í 12. gr. reglugerðarinnar.

 

Andmæli kæranda vegna sjónarmiða Matvælastofnunar

Kærandi vísar til þess að heilbrigðisvottorð sem Matvælastofnun tók ekki gildu við komu hundsins til Íslands hafi verið notað sem gilt vottorð við útflutning hundsins. Telur kærandi að vegna þessa hafi Matvælastofnun átt að líta á vottorðið sem gilt vottorð. Kærandi byggir á því að hundurinn hafi fengið læknisskoðun og bólusetningar ásamt hundaæðissprautu og telur því kærandi að hundurinn hafi verið löglegur bæði í [A] og á Íslandi. Kærandi byggir á því að hann ekki hafa vitað hvaða gögn hann hafi þurft að senda á Matvælastofnun þegar stofnunin tilkynnir honum að innflutningur hundsins hafi verið ólöglegur. Þá telur kærandi sig ekki hafa fengið neina aðstoð við að ganga frá réttum gögnum.

Kærandi vísar til þess að þar sem hundurinn sé fæddur á Íslandi sé hann íslenskur ríkisborgari, því sé krafa Matvælastofnunar um að hundurinn fari úr landi brot á landslögum Íslands og lögum um lögræði og eignarrétt og forræði á hundinum.

Kærandi ítrekar að Matvælastofnun hafi þvingað hann til þess að taka við tilboði [B] og þar með afsala sér eignarréttinum á hundinum. Kærandi telur að með flutningi hundsins úr landi þann 29. apríl 2023 hafi lægra sett stjórnvald tekið völdin af æðra settu stjórnvaldi þar sem kæra hafði borist Matvælaráðuneytinu áður en hundurinn var sendur úr landi og var hún í meðferð hjá ráðuneytinu. Kærandi krefst þess að ráðherra geri ráðstafanir til að sækja hundinn í [A].

 

Sjónarmið Matvælastofnunar varðandi 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020

Matvælastofnun vísar til þess að stofnunin hafi í fáeinum tilvikum veitt undanþágu frá heilbrigðisskilyrðum 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 á grundvelli 17. gr. reglugerðarinnar. Með hliðsjón af orðalagi 17. gr. reglugerðarinnar og þeirra markmiða sem regluverkinu er ætlað að ná fram, þ.e.  tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins með innflutningi hunda og katta sem og almennra skýringarsjónarmiða um undanþáguákvæði hefur stofnunin túlkað ákvæðið þröng þegar hvert tilfelli er metið.

Matvælastofnun vísar til þess að í þeim tilvikum þar sem veitt hefur verið undanþága frá heilbrigðisskilyrðum, hefur verið um að ræða minniháttar frávik varðandi þær kröfur sem kveðið er á um í 12. gr. reglugerðarinnar. Stofnunin vísar til dæmis til eins tilviks frá árinu 2021 um innflutning á ketti þar sem öll heilbrigðisskilyrði voru uppfyllt nema í stað þess að 90 dagar væru liðnir frá hundaæðis mótefnamælingu voru einungis liðnir 88 dagar. Stofnunin hafi þá horft til mótefnamælingar sem stofnuninni hafði borist sem hafi sýnt að kötturinn var að fullu bólusettur þegar undanþágan var veitt.

Stofnunin vísar til þess að kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá heilbrigðisskilyrðum og bráðabirgða innflutningsleyfi, við skoðun stofnunarinnar vegna innflutnings á hundi kæranda og beiðni hans um undanþágu lágu ekki fyrir gögn um að eftirfarandi skilyrði  í 12. gr. væru uppfyllt, né gat kærandi lagt þau fram þrátt fyrir að stofnunin hafi leitast eftir því að þau yrðu lögð fram

Hundurinn hafi ekki verið með gilda bólasetningu gegn hundaæði, sbr. 2. tl. 12. gr. Ekki lá fyrir blóðrannsókn vegna brúsellósu, sbr. 8. tl. 12. gr. Ekki lá fyrir blóðrannsókn vegna Leishmaniosis, sbr. 9. tl. 12. gr. Ekki lá fyrir blóðrannsókn né hafði hundurinn verið meðhöndlaður vegna hjarta/lungnaormasýkingar af völdum Angiostrongylus vasorum, sbr. 10. tl. 12. gr. Hundurinn hafði ekki verið meðhöndlaður gegn útvortis sníkjudýrum, sbr. 11. tl. 12. gr. Hundurinn hafði ekki verið meðhöndlaður gegn þráðormum, sbr. 12. tl. 12. gr. Hundurinn hafði ekki verið meðhöndlaður gegn bandormum, sbr. 13. tl. 12. gr. Þá hafi hundurinn hafði ekki verið heilbrigðisskoðaður, sbr. 14. tl. 12. gr.

Matvælastofnun vísar til þess að stofnunin hafi upplýst kæranda ítrekað um hvaða kröfur væru gerðar varðandi innflutning hunda og að leggja yrði viðeigandi gögn fram, þ.e. undirritað heilbrigðisvottorð ásamt tilskildum rannsóknarniðurstöðum, ella væri ekki hægt að veita leyfi fyrir innflutningi. Fullnægjandi gögn voru ekki lögð fram af hálfu kæranda, af þeim sökum og með hliðsjón af þeim ströngu innflutningsskilyrðum sem gerðar eru til innflutnings taldi stofnunin að ekki væru til staðar nein fagleg rök til að veita undanþágu á heilbrigðisskilyrðum.

Reglugerð nr. 200/2020 var sett í kjölfar á áhættumati varðandi innflutning á hundum og köttum og hafi því allt regluverkið þann tilgang að tryggja eins og kostur er að til landsins berist ekki smitsjúkdómar sem eru hættulegir fyrir menn og dýr. Að mati stofnunarinnar er ljóst að fyrirhugaður innflutningur á hundi kæranda uppfyllti engan vegin þau skilyrði sem sett hafa verið til að tryggja framangreint. Stofnunin telur að með tölvupósti þann 22. apríl og bréfum þann 23. apríl sl. hafi stofnunin með ákvörðun sinni tekið afstöðu til erindis kæranda um undanþága, þ.e. með því að hafna um innflutningsleyfi og að lýsa hvaða heilbrigðisskilyrði þurfa að vera uppfyllt og hvað hafi vantað upp á. Ekki verður séð miðað við málavexti, þ.e. hvað mikið vantaði upp á framlögð gögn og skilyrði fyrir innflutningnum að rökstyðja hefði þurft frekar um ástæður þess að innflutningnum hafi verið hafnað.

 

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar þess efnis að synja um innflutning á hundi kæranda til landsins.

Ágreiningur málsins lítur að því hvort að kærandi hafi uppfyllt innflutningsskilyrði reglugerðar nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta,fyrir innflutning á hundi sínum frá [A].

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er meginreglan sú að óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Í  5. mgr. ákvæðisins er vísað til þess að dýrum sem flutt eru til landsins án heimildar skuli tafarlaust lógað og fargað bótalaust á kostnað umráðanda svo eigi standi hætta af. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Veiti Matvælastofnun heimild fyrir brottflutningi dýrs frá landinu í tilfellum þar sem innflutningsskilyrði eru ekki uppfyllt skal umráðamaður dýrs tafarlaust gera þær ráðstafanir á eigin kostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a. sömu laga er heimilt að víkja frá innflutningsbanni og getur yfirdýralæknir heimilað innflutning á gæludýrum eða erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 5. gr. laganna

Nánar er fjallað um innflutning hunda og katta í reglugerð nr. 200/2020, en samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar er innflutningur hunda óheimill nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um þau vottorð sem fylgja skuli hundum sem fluttir eru til landsins. Skv. 1. mgr. 5. gr. skal öllum hundum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs. Í 3. mgr. sömu greinar eru talin frekari skilyrði fyrir vottorðunum. Þau skulu vera útfyllt af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu og skal því fylgja rannsóknarniðurstöður sýna sem krafist er í hverju tilfelli. Nánar er fjallað um heilbrigðisskilyrði vegna innflutnings hunda í 12. gr. reglugerðarinnar. Í ákvæðinu eru útlistuð þau heilbrigðisskilyrði sem skulu öll vera uppfyllt og staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði ásamt þeim grunnupplýsingum sem skulu fylgja.

Samkvæmt 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020 er Matvælastofnun veitt heimild til að veita undanþágu frá ákvæðum 12. gr. reglugerðarinnar undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því.

Ráðuneytið vísar til þess að kröfur vegna innflutnings dýra eru strangar og er meginreglan sú að innflutningur dýra er bannaður og skulu undantekningar frá slíku banni túlkaðar þröngt. Fyrir liggur að kærandi lagði ekki fram þau gögn sem skilyrði er að lögð séu fram við innflutning á hundum skv. 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020, þrátt fyrir ítrekaðar leiðbeiningar og fresti frá Matvælastofnun. Ráðuneytið getur því ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að veita ætti honum undanþágu frá kröfum reglugerðar nr. 200/2020 vegna innflutning hundsins. Ráðuneytið vísar til umfjöllunar Matvælastofnunar um 17. gr. reglugerðarinnar þar sem stofnunin vísar til þess að einungis hafi verið veitt undanþága frá heilbrigðisskilyrðum 12. gr. í mjög fáum tilvikum. Hafi þá verið um að ræða minniháttar frávik frá skilyrðum ákvæðisins. Í máli kæranda vantaði upp á að hundurinn uppfyllti átta skilyrði sem talin eru upp í 12. gr. reglugerðarinnar sem varða bólusetningar, undirritað heilbrigðisvottorð og rannsóknarniðurstöður. Að mati ráðuneytisins er því ekki um minniháttar frávik frá 12. gr. reglugerðarinnar að ræða og er ekkert sem kemur fram í gögnum málsins sem bendir til þess að fagleg rök mæli með því að veita kæranda undanþágu frá ákvæðum 12. gr. og er því ekki hægt að túlka aðstæður kæranda sem sérstakar kringumstæður.

Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að honum hafi verið þvingað til þess að afsala sér hundinum til [B]. Kæranda var ítrekað veittur frestur til þess að koma með lausnir en kærandi lagði aldrei fram nein gögn né sýndi frumkvæði á því að verða úr um stað fyrir hundinn erlendis. Líkt og Matvælastofnun benti kæranda á gafst honum kostur að flytja hundinn aftur erlendis og koma honum síðan aftur heim með réttum hætti.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið ljóst að skilyrði fyrir innflutningi á umræddum hundi skv. reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta voru ekki uppfyllt og var því Matvælastofnun heimilt að hafna innflutningi á hundi kæranda.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 23. apríl 2024, um að hafna innflutningi á hundi, er hér með staðfest.

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta