Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Stjórnsýslukæra vegna synjunar MAST um leyfi til innflutnings á hundi

Úrskurður 

 

Þriðjudaginn, 2. janúar 2023, var í matvælaráðuneytinu 

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

Stjórnsýslukæra 

Með bréfi dags, 23. maí 2023, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins um að hafna að veita kæranda undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um innflutning hunda og katta nr. 200/2020 á grundvelli 17. gr. sömu reglugerðar, vegna innflutnings á hundi frá Þýskalandi.

 

Ákvörðunin er kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

 

Kröfur

Ekki er sett fram skýr krafa í stjórnsýslukæru. Leiða má að því líkum að kærandi krefjist þess að innflutningur á hundi frá Þýskalandi verði leyfður á grundvelli 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020.

 

Málsatvik 

Málavöxtum er lýst í umsögn Matvælastofnunar. Þar segir að þann 22. maí 2023, hafi kærandi sent tölvupóst til Matvælastofnunar þar sem upplýst var um fyrirhugaðan innflutning á hundi þann 5. júní 2023. Kærandi upplýsti  að sýnatökur vegna Leishmania spp., Brucella canis og A. vasorum hefðu verið framkvæmdar þann 2. maí 2023 og því ljóst að skilyrði b liðar 8. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 væru ekki uppfyllt en í ákvæðinu segir að sýnatökur vegna framangreindra sjúkdóma skuli framkvæmdar í fyrsta lagi 30 dögum fyrir innflutning. Þann sama dag sótti kærandi um leyfi til innflutnings á hundi.

Þann 23. maí 2023 óskaði kærandi eftir að fá undanþágu frá ákvæðum 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Matvælastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 12. gr. reglugerðarinnar, þ.e. frá heilbrigðisskilyrðum við innflutning á hundum og köttum, undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því.

Matvælastofnun svaraði kæranda þann sama dag og upplýsti hann um að ekki væri unnt að veita kæranda undanþágu á grundvelli 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020.

Með bréfi, dags. 23. maí 2023, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk gagna málsins og barst umsögn Matvælastofnunar ráðuneytinu þann 6. september 2023. Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

 

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að undanþága skv. 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020, sbr. 12. gr. hafi verið uppfyllt í máli hans. Kærandi telur annmarka vera til staðar í 17. gr. reglugerðarinnar, þar sem einungis sé talað um sérstakar kringumstæður og fagleg rök. Ekki sé getið hvort þessar sérstöku kringumstæður og faglegu rök skuli eingöngu vera háð huglægu mati Matvælastofnunar og á hverju skuli byggt við stjórnvaldsákvörðunina.

Kærandi vísar til þess að aðeins muni nokkrum klukkustundum  að tímamörk séu innan þess ramma sem reglugerðin kveður á um. Kærandi bendir jafnframt á að hundurinn sé neikvæður vegna Brucella canis, Leishmania og Angiostrongylus vasorum og sýni engin merki einkenna. Þá bendir kærandi á að ef einkenna koma upp í sóttkví verði það meðhöndlað eins og fordæmi eru fyrir. Kærandi vísar til þess að gerðar hafi verið allar ráðstafanir vegna innflutnings hundsins sem lúta að því að koma honum heim og að það yrði verulega kostnaðarsamt fyrir hann að breyta fyrirhuguðum komutíma. Kærandi vísar jafnframt til þess að það séu yfirgnæfandi lýkur á því að hundurinn uppfylla öll skilyrði 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 þó svo að dýralæknir hafi enn sem komið er ekki gefið út heilbrigðisvottorð enda ekki tímabært miðað við ætlaðan komudag 5. júní 2023.

Þá vísar kærandi til nokkurra atriða sem hann lítur á að séu hin faglegu rök sbr. 17. gr reglugerðarinnar. Í fyrsta lagi telur kærandi að engin hætta stafi af innflutningi hunds, 144+ klst. eftir að tímamörk neikvæðrar niðurstöður hafi verið yfirstigin. Í öðru lagi vísar kærandi til þess að hundurinn sýni engin einkenni þeirra sýkinga/smita sem kveðið er á um í 12. gr. reglugerðar nr. 200/2020 og þar með telur kærandi að tilgangur reglugerðarinnar sé uppfylltur. Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að árið 2017 eða fyrr hafi innflutningsleyfi á írskum setter í eigu kæranda, frá Stóra Bretlandi verið afturkallað með stuttum fyrirvara þar sem hundurinn hafi greinst með væga salmonella sýkingu en var einkennalaus. Var afturköllunin andmælt og var niðurstaða Matvælastofnunar að ef hundurinn greindist enn með salmonellu í sóttkví yrði það meðhöndlað. Í fjórða lagi vísar kærandi á að ræktandinn sem ræktar umræddan hund fer fyrir veiðihundadeild í Þýskalandi og leggur metnað í að rækta heilbrigða írska setter hunda. Allir hunda í þeim átta gotum sem fæddust eru heilbrigðir og hafi ekkert komið upp á sem heimfæra má á kröfur 12. gr. reglugerðarinnar. Í fimmta og síðasta lagi vísar kærandi til meðalhófsreglu  12.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum vísar kærandi til þess að dýralæknir Matvælastofnunar hafi ekki bent kæranda á undanþáguákvæðið í 17. gr. reglugerðar nr. 200/2020 í fyrirspurn hans um mögulega undanþágu. Telur kærandi slíkt ekki vera í samræmi við leiðbeiningar skyldu stjórnvalda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

í umsögn Matvælastofnunar er bent á að frá því að stjórnsýslukæran var lögð fram hafi stofnunin tekið nýja stjórnvaldsákvörðun varðandi innflutning kæranda á hundi frá Þýskalandi, sbr. ákvörðun dags. 26. júní 2023 þar sem kæranda var veitt leyfi fyrir innflutningi á þeim hundi sem kæran lýtur að. Var leyfið veitt í kjölfar þess að stofnunni bárust gögn um að skilyrði laga nr. 54/1990 og reglugerðar nr. 200/2020 væru uppfyllt. Af þessum sökum telur stofnunin að vísa beri stjórnsýslukærunni frá, enda liggi fyrir ný ákvörðun í málinu og hafi kærandi því ekki  lögvarða hagsmuni að niðurstöðu kærumálsins. Um sjónarmið Matvælastofnunar vísast að öðru leyti til þess sem segir í bréfi stofnunarinnar.

 

Forsendur og niðurstaða

Kæra þessi er byggð á 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kveðið er á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Frá því að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu hefur Matvælastofnun tekið nýja stjórnvaldsákvörðun vegna innflutnings kæranda, sbr. ákvörðun dags. 26. júní 2023 þar sem kæranda var veitt innflutningsleyfi fyrir þeim hundi sem kæran þessi lýtur að. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls og er stjórnsýslukærunni því vísað frá matvælaráðuneytinu og verður af þeim sökum ekki vikið frekar að öðrum málsástæðum kæranda.

 

 

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Matvælastofnunar dags. 23. maí 2023, er hér með vísað frá matvælaráðuneytinu.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta