Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Fiskistofu

fimmtudaginn 20. febrúar 2024 var í
matvælaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, bar [A] fram kæru vegna ákvörðunar Fiskistofu frá 23. október 2024 um að synja greiðslu reiknings félagsins vegna aðgerða þess í tengslum við strok eldislaxa.

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik, ágreiningsefni málsins og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá [A]. Kæran varðar þá ákvörðun Fiskistofu  að synja félaginu um greiðslu kostnaðar vegna aðgerða félagsins í tengslum við strok eldislaxa frá [B] í [Y] í ágúst 2023.

Í kærunni er rakið að í kjölfar stroks eldislaxa úr kví [B] í [Y] í ágúst 2023 hafi Fiskistofa, með erindi dags. 12. september 2023, mælst til þess að veiðifélög skyldu loka laxastigum í ám þar sem var hefði orðið við eldislax og lengja stangveiðitímabil í þeim tilgangi að leita að og fjarlægja eldislax sem mögulega myndi rata í veiðiár.  Jafnframt hafi Fiskistofa tiltekið í erindi sínu að veiðiaðgerðir sem gerðar yrðu í samráði við og mælt fyrir um af Fiskistofu myndu vera greiddar af henni.

Líkt og rakið er í kærunni þá hafði stjórn [A] hafið sínar aðgerðir áður en erindi Fiskistofu var sent út. Þetta gerði stjórnin þann 2. september 2023 þegar að tekin var ákvörðun um að loka laxastiganum í [X]. Í þessum aðgerðum voru fangaðir 29 meintir eldislaxar og þeir afhentir Hafrannsóknastofnun.

Þann 10. október 2023 sendi veiðifélagið Fiskistofu reikning upp á rúmlega 3,7 milljónir króna vegna lokunar laxastigans. Í svarbréfi Fiskistofu, dagsettu 23. október 2023, sem ráðuneytið óskaði eftir frá kæranda með bréfi, dags. 3. desember 2024, kemur fram að Fiskistofa greiði kostnað vegna verkefna sem stofnunin hefur mælt fyrir um. Í bréfinu segir að innsendur reikningur sé ekki í samræmi við það og því geti Fiskistofa ekki greitt kostnað sem til hefur fallið vegna verkefna við [X].

Í kæru sinni til ráðuneytisins vísar veiðifélagið til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 71/2008 þar sem fram kemur að allur kostnaður Fiskistofu vegna nauðsynlegra aðgerða í tengslum við strok skuli greiddur af rekstrarleyfishafa. Kveður kærandi aðgerðir veiðifélagsins hafa skipt miklu máli og   verið nauðsynlegar og því beri matvælaráðuneytinu að fella ákvörðun Fiskistofu úr gildi.

Um atvik og ágreiningsefni máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi ráðuneytið ekki þörf á að kynna kæruna fyrir Fiskistofu og óska eftir umsögn. 

Forsendur og niðurstaða

Kæran í málinu varðar ákvörðun Fiskistofu, sem tekin var 23. október 2023, þar sem synjað var beiðni [A] um greiðslu reiknings.

Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Líkt og áður greinir barst kæran ráðuneytinu 29. nóvember 2024, eða rúmlega 13 mánuðum eftir að áðurnefndur kærufrestur 1. mgr. 27. gr. rann út.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. Um er að ræða matskennda heimild handa stjórnvöldum til að taka til greina kæru sem berst að liðnum kærufresti.  

Í 2. mgr. 28. gr. segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila. Ekki er gert ráð fyrir að afsakanlegar ástæður 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. geti réttlætt frávik frá því ákvæði. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 28. gr. laganna ber því að vísa kærunni frá.

Ráðuneytið mun engu að síður óska eftir því að málið verði tekið til efnislegrar athugunar á grundvelli almennra eftirlitsheimilda ráðuneytis með Fiskistofu og verður kæranda haldið upplýstum um framvindu þeirrar skoðunar.

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru [A], dags. 29. nóvember 2024, vegna ákvörðunar Fiskistofu, dags. 23. október 2023, um synjun greiðslu reiknings, er hér með vísað frá ráðuneytinu.

 

 

 

                           


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta