Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Hólmgeir Pálmason, kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, um að ekki verði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24, skipaskrárnúmer 6911.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Hólmgeirs Pálmasonar, Brekkugötu 42, Þingeyri, dags. 23. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu 26. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, um að ekki verði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24, skipaskrárnúmer 6911.
    Stjórnsýslukæran er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    

Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, um að ekki verði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24 (6911), og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.

    

Málsatvik

    Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 21. júní 2012, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 22. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 í byggðarlögum Ísafjarðarbæjar, m.a. á Þingeyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 5. júlí 2012. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafði þá úthlutað 530 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar sem skiptust á byggðarlögin Hnífsdal, 19 þorskígildistonn, Þingeyri, 85 þorskígildistonn, Flateyri, 300 þorskígildistonn, Suðureyri, 60 þorskígildistonn og Ísafjörð, 66 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 21. desember 2011.
    Hinn 6. júlí 2012 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Engin ákvörðun var send kæranda, Hólmgeiri Pálmasyni um það efni. Kærandi óskaði þá eftir upplýsingum frá Fiskistofu um ástæður þess að engin ákvörðun hafði borist honum og fékk þær upplýsingar frá Fiskistofu að engin umsókn hafi borist stofnuninni um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 fyrir bátinn Pálma ÍS-24 (6911). Með bréfi til Fiskistofu, dags. 18. júlí 2012, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á úthlutuninni og að úthlutað yrði byggðakvóta til bátsins Pálma ÍS-24 (6911). Með bréfi, dags. 19. júlí 2012, tók Fiskistofa formlega ákvörðum um mál kæranda og tilkynnti kæranda að hafnað væri framangreindri beiðni hans. Í umræddri ákvörðun Fiskistofu segir m.a. að í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, komi fram að Fiskistofa annist úthlutun aflamarks, sem komi í hlut einstakra byggðarlaga til fiskiskipa. Einnig sé þar gerð grein fyrir málsmeðferð við afgreiðslu umsókna, m.a. komi þar fram að stofnunin skuli auglýsa eftir umsóknum útgerða í a.m.k. tveimur dagblöðum og á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is. Í umsóknum skuli koma fram upplýsingar sem Fiskistofa ákveður og skal umsóknum skilað á því formi sem stofnunin ákveður. Umsóknarfrestur skuli vera tvær vikur. Þá komi þar fram að Fiskistofa annist mat og úrvinnslu umsókna og skuli svara öllum umsóknum svo fljótt sem unnt er. Af ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 megi leiða að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði úthlutunar byggðakvóta að aðili hafi lagt inn umsókn þess efnis. Þar sem engin umsókn hafi borist Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins Pálma ÍS-24 (6911) taldi Fiskistofa að skilyrði reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til bátsins væru ekki uppfyllt í máli þessu.
    Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu um að ekki yrði úthlutað byggðakvóta til bátsins Pálma ÍS-24 (6911).


Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

    Með stjórnsýslukæru, dags. 23. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu 26. sama mánaðar, kærði kærandi, Hólmgeir Pálmason til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins framangreinda ákvörðun Fiskistofu um að ekki verði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24 (6911).
    Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi hafi ásamt öðrum smábátaeigendum á Þingeyri sem tilgreindir séu í meðfylgjandi bréfi, dags. 5. janúar 2011, undirritað tillögur til Ísafjarðarbæjar um sérstök skilyrði fyrir  úthlutun byggðakvóta á Þingeyri. Kærandi hafi talið að með því að undirrita umrætt bréf væri hann að sækja um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 með eigendum annarra smábáta á Þingeyri. Með stjórnsýslukærunni fylgdi ljósrit af bréfi til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar sem undirritað var af nokkrum smábátaeigendum á Þingeyri þar sem lagt var til að sett yrðu tiltekin skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012. Einnig segir í stjórnsýslukærunni að kæranda sé ljóst að Fiskistofu hafi ekki borist umsókn um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24 (6911) en það sé vegna þess m.a. að kærandi hafi ekki áður sótt um byggðakvóta, sé ekki vanur tölvum og lesi ekki alltaf dagblöð. Í ljósi þess að kærandi telji að hann uppfylli önnur skilyrði sem lögð séu til grundvallar við úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 á Þingeyri í Ísafjarðarbæ sé óskað eftir að ráðuneytið  úrskurði að bátur kæranda, Pálmi ÍS-24 (6911) fái úthlutað byggðakvóta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012. Þá kemur fram í stjórnsýslukærunni að kærandi telji að aðrir smábátaeigendur á Þingeyri í Ísafjarðarbæ séu sammála um að stjórnsýslukæran verði tekin til greina.
    Með bréfi, dags. 23. júlí 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
    Í umsögn Fiskistofu, dags. 27. september 2012, sem barst ráðuneytinu sama dag, segir að eins og komi fram í ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, og í stjórnsýslukæru aðila til ráðuneytisins hafi umsókn um byggðakvóta ekki borist innan tilskilins tímafrests. Réttaráhrif þess séu þau að ekki sé hægt að taka umsókn til greina. Að öðru leyti sé vísað til hinnar kærðu ákvörðunar Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012.    
    Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdi staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012.
    Með bréfi, dags. 28. september 2012, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 12. október 2012.
    Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda, Hólmgeiri Pálmasyni, um framangreinda umsögn Fiskistofu.

    

Rökstuðningur

I.    Með bréfi, dags. 23. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu 26. sama mánaðar, var stjórnsýslukæra í máli þessu móttekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem fór með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Með forsetaúrskurði nr. 99/2012, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í nýtt ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sbr. og forsetaúrskurður nr. 100/2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, og tóku úrskurðirnir gildi 1. september 2012. Úrskurður í máli þessu er því kveðinn upp af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem nú fer með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006 og tók við eldri málum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt þeim lögum.

II.    Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.
    Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2011/2012 en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
    Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður hlutur þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum. Ennfremur koma fram í ákvæðinu nokkrar reglur um úthlutun byggðakvóta miðað við tiltekin skilyrði o.fl.
    Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.
    Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ, m.a. á Þingeyri fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (VI) nr. 534/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.
    Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, ákvæðum reglugerðar nr. 1182/2011 og auglýsingu (VI) nr. 534/2012.
    Í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, sbr. og einnig umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 27. september 2012, er vísað til 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, en þar kemur fram að Fiskistofa annist úthlutun aflamarks, sem kemur í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa og skuli auglýsa eftir umsóknum útgerða í a.m.k. tveimur dagblöðum og á vefsíðu Fiskstofu: www.fiskistofa.is. Í umsóknum skulu koma fram upplýsingar sem Fiskistofa ákveður og skal umsóknum skilað á því formi sem stofnunin ákveður. Umsóknarfrestur skal vera tvær vikur. Þá kemur þar fram að Fiskistofa annist mat og úrvinnslu umsókna og skuli svara öllum umsóknum svo fljótt sem unnt er.
    Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta á Þingeyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 með auglýsingu, dags. 21. júní 2012, en umsóknarfrestur samkvæmt auglýsingunni var tvær vikur eða til og með 5. júlí 2012, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafði Fiskistofu að þeim fresti liðnum ekki borist umsókn um úthlutun byggðakvóta til bátsins Pálma ÍS-24 (6911) og því var ekki tekið tillit til bátsins við úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til fiskiskipa á Þingeyri í Ísafjarðarbæ.
    Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.
    Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, um að ekki skuli úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24 (6911) en samkvæmt því verður ákvörðunin staðfest.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2012, um að ekki skuli úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Pálma ÍS-24, skipaskrárnúmer 6911.

Fyrir hönd ráðherra

Ingvi Már Pálsson.

Sigríður Norðmann.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta