Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Stjórnarmenn í Veiðifélagi Árnesinga kæra ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. mars og 17. maí 2011, um að staðfesta nýtingaráætlanir deilda við Stóru-Laxá og Tungufljót, sem eru deildir í Veiðifélagi Árnesinga.

Stjórnsýslukæra

    Með bréfi, dags. 4. október 2012, sem barst ráðuneytinu 9. sama mánaðar, kæra sjö stjórnarmenn í Veiðifélagi Árnesinga ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. mars og 17. maí 2011, um að staðfesta nýtingaráætlanir deilda við Stóru-Laxá og Tungufljót, sem eru deildir í Veiðifélagi Árnesinga. Einnig kemur þar fram að kærð sé ákvörðun Fiskistofu um að leita ekki eftir samræmdum umsögnum Veiðimálastofnunar vegna fiskræktaráætlunar fyrir allt vatnasvæði Ölfusár og Hvítár en með bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 23. september 2011, var kæranda tilkynnt að stofnunin myndi ekki óska eftir slíkri umsögn.
    Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur kæranda

    Kærendur krefjast þess að felldar verði úr gildi ákvarðanir Fiskistofu, dags. 28. mars og 17. maí 2011, um að staðfesta nýtingaráætlanir deilda í Veiðifélagi Árnesinga við Stóru-Laxá og Tungufljót sem eru deildir í Veiðifélagi Árnesinga. Einnig kemur fram í stjórnsýslukærunni að kærð sé ákvörðun Fiskistofu um að leita ekki eftir samræmdum umsögnum Veiðimálastofnunar við staðfestingu fiskræktaráætlunar fyriur allt vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Kröfur kæranda í stjórnsýslukærunni eru svohljóðandi: "Stjórn Veiðifélags Árnesinga (VÁ) fer þess á leit við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að það felli úr gildi eftirfarandi ákvarðanir Fiskistofu: A. Staðfestingu Fiskistofu á nýtingaráætlunum fyrir Stóru-Laxárdeild og Tungufljótsdeild. B. Ákvörðun Fiskistofu um að leita ekki eftir umsögn Veiðimálastofnunar sem tæki til fiskræktaráætlana allra veiðifélaga á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár og taki nýja ákvörðun um að það verði gert."


Málsatvik

    Málsatvik eru þau að Veiðifélag Árnesinga er veiðifélag sem starfar samkvæmt VI. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Samþykkt fyrir Veiðifélag Árnesinga nr. 991/2008 er dags. 10. október 2008 og var birt í Stjórnartíðindum 30. október 2008. Í 1. gr. samþykktarinnar kemur fram að heimilt sé að veiðifélagið starfi í deildum en ákvæðið er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 þar sem kemur fram að í samþykktum megi ákveða að veiðifélag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Einnig segir þar að hver deild ráðstafi þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.
     Á grundvelli framangreindra ákvæða eru starfræktar tvær sérstakar deildir í Veiðifélagi Árnesinga, um tiltekin vatnasvæði, þ.e. fyrir vatnasvæði Stóru-Laxár, Stóru-Laxár deild og fyrir vatnasvæði Tungufljóts, Tungufljótsdeild. Hinn 22. janúar 2010 staðfesti Fiskistofa sérstaka samþykkt fyrir Tungufljótsdeild nr. 98/2010 sem birt var í Stjórnartíðindum 8. febrúar 2010. Í málinu liggur fyrir ljósrit af samþykkt fyrir Stóru-Laxárdeild Veiðifélags Árnesinga, dags. 6. júní 2007, og einnig eldri samþykkt, dags. 18. apríl 1961, en umræddar samþykktir hafa ekki verið staðfestar eða birtar í Stjórnartíðindum samkvæmt 8. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum eða eldri ákvæðum um sama efni.
    Hinn 25. júní 2010 samþykkti Veiðifélag Árnesinga fiskræktaráætlun fyrir veiðifélagið sem send var Fiskistofu til staðfestingar sama dag, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2006, um fiskrækt, með síðari breytingum.
    Hinn 28. mars 2011 staðfesti Fiskistofa nýtingaráætlun fyrir Stóru-Laxárdeild og hinn 17. maí 2011 staðfesti Fiskistofa nýtingaráætlun fyrir Tungufljótsdeild.
    Með bréfi, dags. 25. júní 2011, óskaði kærandi, Veiðifélag Árnesinga, eftir upplýsingum um hvenær megi vænta staðfestingar Fiskistofu á fiskræktaráætlun veiðifélagsins, dags. 25. júní 2010, sem hafði verið send stofnuninni, sbr. framanritað. Einnig var þar óskað eftir upplýsingum um hvort Fiskistofa muni óska eftir samræmdri umsögn Veiðimálastofnunar vegna fiskræktaráætlana allra veiðifélaga á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár.
    Með bréfi, dags. 25. júní 2011, óskaði Veiðifélag Árnesinga einnig eftir upplýsingum um á hvaða lagaheimild þær ákvarðanir Fiskistofu hafi verið byggðar að staðfesta nýtingaráætlanir deilda veiðifélagsins við Stóru-Laxá og Tungufljót. Jafnframt var þess krafist að umræddar ákvarðanir yrðu afturkallaðar.
    Með bréfi, dags. 4. júlí 2011, svaraði Fiskistofa framangreindu erindi stjórnar Veiðifélags Árnesinga, dags. 25. júní 2011, um á hvaða lagaheimild þær ákvarðanir stofnunarinnar hafi verið byggðar að staðfesta fiskræktaráætlanir einstakra deilda og vísaði þar til 17., 18., 19., 20. og 29. gr. laga nr. 61/2006 en með umræddu bréfi var af hálfu stofnunarinnar ekki fallist á að afturkalla framangreindar ákvarðanir.
    Með bréfi Fiskistofu, dags. 23. september 2011, svaraði stofnunin framangreindri beiðni um staðfestingu fiskræktaráætlunar fyrir veiðifélag Árnesinga. Þar kemur fram að samkvæmt lögum beri veiðifélögum hverju fyrir sig að skila sérstakri fiskræktaráætlun til Fiskistofu, ef þau hyggja á seiðasleppingar af einhverju tagi. Einnig segir þar að ekki verði séð að veiðifélögum sem ekki hyggjast stunda fiskrækt, beri að senda slíka áætlun til Fiskistofu. Þar sem fiskræktaráætlun Veiðifélags Árnesinga geri ekki ráð fyrir neinum sleppingum og verklagsreglur félagsins virðist vera mikilvægur þáttur í fyrirætlununum félagsins, telji Fiskistofa að fyrirliggjandi fiskræktaráætlun verði ekki að fá opinbera staðfestingu samkvæmt lögum nr. 58/2006, um fiskrækt. Frekari útfærsla á fyrirliggjandi tillögum og verklagsreglum sé á ábyrgð veiðifélagsins. Þá kemur þar fram að samkvæmt lögum hafi Fiskistofa ekki vald til að krefja veiðifélög um samræmdar fiskræktaráætlanir fyrir stór vatnasvæði.


Málsástæður með stjórnsýslukæru o.fl.

    Með bréfi, dags. 4. október 2012, sem undirritað er af sjö stjórnarmönnum í Veiðifélagi Árnesinga, og barst ráðuneytinu 9. sama mánaðar, tilkynnti Veiðifélag Árnesinga atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að kærðar væru til ráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu um að staðfesta nýtingaráætlanir deilda við Stóru-Laxá og Tungufljót í Veiðifélagi Árnesinga og að þess sé krafist að umræddar ákvarðanir Fiskistofu verði felldar úr gildi.
    Í stjórnsýslukærunni kemur fram tiltekinn rökstuðningur fyrir kröfum kærenda. M.a. segir þar að stjórn Veiðifélags Árnesinga telji að lögum samkvæmt sé það hlutverk veiðifélaga að gera nýtingaráætlun fyrir allt félagssvæði viðkomandi veiðifélags en að það sé ekki hlutverk deilda sem séu starfræktar innan veiðifélags að gera nýtingaráætlun. Það hafi því verið ólögmætar ákvarðanir hjá Fiskistofu að taka við og staðfesta nýtingaráætlanir frá Stóru-Laxárdeild og Tungufljótsdeild.
    Einnig segir í stjórnsýslukærunni að stjórn Veiðifélágs Árnesinga hafi ekki verið kunnugt um málsmeðferð Fiskistofu vegna nýtingaráætlana deildanna og tilviljun ein hafi ráðið því að upplýsingar um málið bárust stjórn félagsins. Stjórn Veiðifélags Árnesinga hafi farið fram á að fá upplýsingar um á hvaða lagaheimild Fiskistofa byggði ákvarðanir sínar um staðfestingu umræddra nýtingaráætlana. Fiskistofa hafi svarað því með bréfi, dags. 4. júlí 2011, sbr. fylgiskjal nr. 14 og hafnað að afturkalla ákvarðanir sínar. Í kjölfar svarbréfsins hafi stjórn Veiðifélags Árnesinga óskað eftir fundi með Fiskistofu sem hafi verið haldinn 1. september 2011. Á þeim fundi hafi fiskistofustjóri lofað að fara yfir málsmeðferð Fiskistofu bæði hvað varðar staðfestingar nýtingaráætlana einstakra deilda og um að fá samræmda umsögn Veiðimálastofnunar vegna fiskræktaráætlana allra veiðifélaga á vatnasvæðinu. Bréfið hafi borist stjórn Veiðifélags Árnesinga frá Fiskistofu þann 23. september 2011, sbr. fylgiskjal nr. 8, en þar hafi aðeins verið fjallað um fiskræktaráætlun og framangreinda umsögn Veiðimálastofnunar en ekkert sé þar vikið að nýtingaráætlun fyrir deildir. Stjórn Veiðifélags Árnesinga hafi talið ólíklegt að úr þessu myndi heyrast meira um málið frá Fiskistofu þrátt fyrir loforð fiskistofustjóra um það efni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi hins vegar skipað starfshóp til að kanna hvort tilefni sé til að endurskoða ákvæði um starfsemi deilda í veiðifélögum. Því hafi stjórn Veiðifélags Árnesinga talið rétt að bíða með þessa kæru þar sem tilefni fyrir skipan starfshópsins hafi m.a. verið þetta tiltekna álitamál. Ekki hafi orðið af breytingum á lögum um hlutverk deilda og stjórn Veiðifélags Árnesinga verið tilkynnt sérstaklega um það, sbr. fylgiskjal nr. 22.
    Þá segir í stjórnsýslukærunni að kæruheimild í málinu byggi á VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telji ráðuneytið að kærufrestir séu liðnir þá telji stjórn Veiðifélags Árnesinga með vísan til þess sem að framan hafi verið gerð grein fyrir að skilyrði 28. gr. laganna séu fyrir hendi, þ.e. bæði afsakanlegar og veigamiklar ástæður. Veigamiklar ástæður séu fyrir að fá úr því skorið hvort það heyri undir deildir að setja sér nýtingaráætlanir enda sé öll vinna stjórnar Veiðifélags Árnesinga við að setja félaginu nýtingaráætlun í uppnámi þangað til. Fáist ekki samræmdar umsagnir Veiðimálastofnunar sé fiskstofnum hætta búin og þar með muni ekki verða hægt að ná markmiðum gildandi laga.
    Með bréfi, dags. 12. október 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestum afritum af hinum kærðu ákvörðunum, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.    
    Í umsögn Fiskistofu, dags. 18. október 2012, segir m.a. að umræddar ákvarðanir Fiskistofu komi fram í tveimur hjálögðum bréfum Fiskistofu til Veiðifélags Árnesinga, dagse. 4. júlí og 23. september 2011 þar sem fjallað hafi verið um athugasemdir Veiðifélags Árnesinga við því að Fiskistofa hafi sent einstökum deildum í Veiðifélagi Árnesinga fiskræktaráætlun veiðifélagsins sem óskað hafði verið eftir að ráðuneytið staðfesti. Í þessum tveimur bréfum komi skýrt fram ákvarðanir Fiskistofu varðandi þau mál, sem hér sé um að ræða. Einnig sé bent á að samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, beri aðilum að kæra ákvarðanir stjórnvalds innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var kynnt aðila. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sömu laga beri æðra stjórnvaldi að vísa frá kærum, sem berist eftir að lögboðnum kærufresti lýkur, nema afsakanlegt teljist að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin fyrir. Þá komi fram í 2. mgr. 28. sömu laga að kærum skuli ekki sinnt, ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Í því tilviki sem hér um ræðir sé ljóst að rúmt ár sé síðan Veiðifélagi Árnesinga hafi síðast verið birtar ákvarðanir Fiskistofu með bréfi, dags. 23. september 2011, og því beri samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að vísa málinu frá.


Rökstuðningur

    Kæra í máli þessu er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Um kærufresti er fjallað í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.
    Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru m.a. ákvæði um hvernig eigi að fara með þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þar segir að hafi kæran borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema: 1) afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða 2) veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Einnig segir í 2. mgr. sömu greinar að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
    Fiskistofa sendi kæranda upplýsingar um þær ákvarðanir í máli þessu sem kæran beinist að eigi síðar en með bréfum, dags. 4. júlí og 23. september 2011. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst ráðuneytinu hins vegar 4. október 2012. Meira en ár var því liðið frá því að Veiðifélagi Árnesinga voru síðast birtar ákvarðanir Fiskistofu um þau atriði sem kæran beinist að, þar til stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu en samkvæmt því ber samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa frá stjórnsýslukærunni.
    Þá skal tekið fram að samkvæmt framangreindri niðurstöðu ráðuneytisins hafa málsástæður kæranda fyrir því að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu ekki innan lögbundins frests ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls.
    Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru í máli þessu.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Stjórnsýslukæru Veiðifélags Árnesinga í máli þessu er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherra

Ingimar Jóhannsson.
Sigríður Norðmann.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta