Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Dudda ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, að svipta bátinn Nonna í vík SH-89, skipaskrárnúmer 2587 leyfi til strandveiða í eina viku.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 2. nóvember 2012, frá Magnúsi H. Magnússyni, hdl. f.h. Duddu ehf., Vallholti 12, 355 Snæfellsbæ, þar sem kærð er sú ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, að svipta bátinn Nonna í vík SH-89, skipaskrárnúmer 2587 leyfi til strandveiða í eina viku en samkvæmt ákvörðuninni skal leyfissviptingin koma til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2012/2013.
    Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.


Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, um að svipta bátinn Nonna í vík SH-89 (2587) leyfi til strandveiða í eina viku en samkvæmt ákvörðuninni skal leyfissviptingin koma til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2012/2013.


Málsatvik

    Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 13. júní 2012, þar sem kæranda var veittur andmælaréttur áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Þar segir m.a. að samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu hafi báturinn Nonni í vík SH-89 (2587), sem hafi stundað strandveiðar, tvisvar sinnum landað afla sem hafi verið yfir viðmiðunarmörkum laga og reglna um leyfilegan afla strandveiðibáta á dag. Þann 02.05.2012 hafi afli bátsins Nonna í vík SH-89 (2587) verið samtals 669 kg af þorski, í þorskígildum talið. Þann 03.05.2012 hafi afli bátsins verið samtals 806 kg af þorski, í þorskígildum talið. Einnig kemur fram í bréfinu að leyfi til strandveiða séu m.a. bundin þeim skilyrðum að hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kg í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, sbr. 5. tl. 5. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og að þessi regla sé áréttuð í 5. tl. 5. gr. reglugerðar nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012. Þá segir í bréfinu að áður en ákvörðun verði tekin um framhald málsins, þar með talið hvort gripið verði til sviptingar veiðileyfis eða áminningu beitt samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, væri kæranda gefinn kostur á að skila skriflegum andmælum, skýringum eða athugasemdum til Fiskistofu eigi síðar en 28. júní 2012. Jafnframt var vakin athygli á að gjald verði lagt á allan afla sem væri umfram 650 kg í þorskígildum talið, sbr. 6. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 og að álagning gjaldsins fari fram þegar veiðitímabilinu sé lokið.
    Engin andmæli bárust Fiskistofu frá kæranda vegna bréfsins.
    Með bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 2. október 2012, var kæranda tilkynnt að Fiskistofa hafi ákveðið að svipta skipið Nonna í vík SH-89 (2587) leyfi til strandveiða í eina viku en þar segir m.a.:

"Vísað er til bréfs Fiskistofu dags. 13. júní 2012 varðandi veiðiferðir Nonna í vík SH-89, skipaskrárnúmer 2587, dagana 2. og 3. maí 2012. Í umræddum veiðiferðum var afli Nonna í vík SH-89 (2587) umfram 650 kg, í þorskígildum talið, sem er það hámark sem kveðið er á um í lögum og reglum um strandveiðar.
    Engin andmæli hafa borist Fiskistofu vegna bréfsins.
    Leyfi til strandveiða eru háð tilteknum skilyrðum sem tilgreind eru í 5. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Skilyrði þessi miða meðal annars að því að hið leyfilega veiðimagn dreifist sem mest bæði í tíma og með tilliti til landsvæða, að dregið verði úr því að of mikið kapp verði í veiðunum og að meðferð afla sé sem best.
    Í 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a laganna kemur fram að leyfi til strandveiða eru háð þeim skilyrðum að hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Þessi regla er áréttuð í 5. tölulið 5. gr. reglugerðar nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012.
    Að mati Fiskistofu var brotið gegn framangreindum ákvæðum í veiðiferðum Nonna í vík SH-89 (2587) dagana 2. og 3. maí sl., með því að veiða afla sem var umfram það hámark sem tilgreint er í 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Þann 2. maí sl. var afli skipsins 669 kg af þorski og þann 3. maí sl. var afli skipsins samtals 806 kg af þorski, í þorskígildum talið.
    Í 24. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum, kemur fram að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til strandveiða fyrir brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar skal leyfissvipting við fyrsta brot ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minniháttar brot veitir Fiskistofa hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.
    Nonni í vík SH-89 (2587) fékk leyfi til strandveiða fiskveiðiárið 2011-2012 þann 2. maí 2012. Leyfið gilti til og með 31. ágúst 2012.
    Þann 6. september 2010 var útgerð Nonna í vík SH-89 (2587) veitt skrifleg áminning af Fiskistofu á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, vegna afla sem landað var dagana 17. maí, 18. maí og 8. júní 2010 og var yfir leyfilegu hámarki sem tilgreint er í 5. tölulið 6. gr. laga nr. 116/2006. Áminningar og sviptingar veiðileyfa sem ákveðnar eru skv. 15. gr. laganna skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996. Ákvörðun Fiskistofu dagsett 6. september 2010 hefur samkvæmt þessu ítrekunaráhrif við töku ákvörðunar um beitingu viðurlaga í máli þessu.
    Með vísan til þess sem að framan greinir telur Fiskistofa að umrædd brot Nonna í vík SH-89 (2587) geti ekki talist minniháttar. Fiskistofa hefur því ákveðið að svipta Nonna í vík SH-89 (2587) leyfi til strandveiða, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, með síðari breytingum, sbr. einnig 24. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum. Með hliðsjón af eðli og umfangi brotsins telur Fiskistofa hæfilegt að veiðileyfissviptingin skuli vara í eina viku, sem er stysti lögmælti tími veiðileyfissviptingar samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1996.
    Strandveiðum sumarið 2012 lauk 31. ágúst 2012. Því hefur Fiskistofa ákveðið að veiðileyfissvipting þessi taki gildi þann dag sem Nonni í vík SH-89 (2587) fær strandveiðileyfi að nýju fyrir fiskveiðiárið 2012-2013.
    Veiðileyfissvipting þessi hefur ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996.
    Ákvörðunin er kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík, innan eins mánaðar frá því að yður berst tilkynning þessi, samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar."

    

Málsrök með stjórnsýslukæru o.fl.

    Með stjórnsýslukæru, dags. 2. nóvember 2012, kærði Magnús H. Magnússon, hdl. f.h. kæranda, Duddu ehf., framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
    Í stjórnsýslukæru segir m.a. að kærandi og aðrir eigendur smábáta reyni að nýta úthlutaðar veiðiheimildir sínar í hverri veiðiferð sem séu 650 kg. Stefnt sé að því að vera eins nálægt 650 kg mörkum miðað við slægð þorskígildi og mögulegt sé. Kærandi fái eingöngu ákveðinn fjölda daga til strandveiða og fari ekki nema eina veiðiferð á dag að hámarki, eðli máls samkvæmt. Komi hann að landi með minni afla en leyfilegt sé flytjist ekki sá afli sem ekki sé veiddur í þeirri veiðiferð yfir á næstu veiðiferð, heldur sé hann einnig bundinn af 650 kg hámarki í þeirri næstu. Kærandi hafi engan ásetning haft til lögbrota en það sjáist m.a. á því að árið 2010 landaði kærandi minni afla en hann hafi haft heimildir til en á því tímabili hafi kærandi þrátt fyrir að hafa verið með of mikinn afla í tilteknum veiðiferðum veitt minna en honum hafi verið heimilt yfir tímabilið í heild. Þá hafi kærandi greitt gjald samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, í þeim tilvikum sem hann hafi veitt of mikinn afla. Þá segir í stjórnsýslukæru að svipting veiðileyfis í eina viku muni hafa veruleg áhrif á rekstrarafkomu kæranda. Með vísan til framanritaðs verði að telja að leyfissvipting í eina viku brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. m.a. 2. málsl. greinarinnar. Þar sem kærandi hafi þegar greitt gjald samkvæmt lögum nr. 37/1992 feli svipting veiðileyfis í sér brot gegn þeirri grundvallarreglu að manni verði ekki gerð refsing í tvígang fyrir sömu sakirnar og er þar vísað til dómafordæma.
    Með bréfi, dags. 9. nóvember 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
    Með bréfi, dags. 5. desember 2012, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið en þar segir m.a. að strandveiðar séu háðar sérstöku leyfi Fiskistofu, sbr. 3. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Leyfi til strandveiða séu bundin ákveðnum skilyrðum, sbr. 5. mgr. 6. gr. a laganna. Ákvæði 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 sé skýrt um það að hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kg í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Sömu reglu sé að finna í ákvæði 5. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 32/2010 um strandveiðar miði þau skilyrði sem leyfi til strandveiða séu háð að því að hið leyfilega veiðimagn dreifist sem mest bæði í tíma og með tilliti til landsvæða og að dregið verði úr því að of mikið kapp verði í veiðunum. Þess vegna sé afli hverrar veiðiferðar takmarkaður við 650 kg af kvótabundnum tegundum, í þorskígildum talið. Nonni í vík SH-89 (2587) hafi haft leyfi til strandveiða sumarið 2012 útgefið af Fiskistofu, í gildi frá og með 2. maí til og með 31. ágúst 2012. Í leyfinu sé tekið fram að um reglur varðandi strandveiðar sé vísað til laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 206/2012. Þá sé þar vakin sérstök athygli á tilteknum skilyrðum og reglum sem eigi við um strandveiðarnar, m.a. því að aðeins sé heimilt að draga að hámarki 650 kg af kvótabundnum tegundum, í þorskígildum talið, í hverri veiðiferð. Reglurnar geri ekki ráð fyrir undanþágum vegna tilvika sem komi fram í stjórnsýslukæru. Með hliðsjón af eðli og umfangi brotsins sem og því að um ítrekuð brot hafi verið að ræða, hafi Fiskistofa talið hæfilegt að veiðileyfissviptingin skyldi vara í eina viku sem sé stysti lögmælti tími veiðileyfissviptingar samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1996. Strandveiðum sumarið 2012 hafi lokið þann 31. ágúst 2012 en Nonni í vík SH-89 (2587) hafi ítrekað brotið gegn lögum og reglum um strandveiðar og áður verið veitt skrifleg áminning vegna þessa, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Þá tekur Fiskistofa fram að í álagningu gjalds samkvæmt lögum nr. 37/1992, sbr. 6. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, felist ekki stjórnsýsluviðurlög en samkvæmt því hafi kærandi í þessu máli ekki verið beittur tvöföldum refsiviðurlögum vegna sama brots.
    Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, 2) andmælabréf Fiskistofu til kæranda, dags. 13. júní 2012, 3) bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 6. september 2010, 4) bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 19. júlí 2010, 5) leyfi kæranda til strandveiða á veiðiárinu 2011-2012 o.fl.


Rökstuðningur

    Um strandveiðar gildir ákvæði 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, en þar segir m.a. að á hverju fiskveiðiári hafi ráðherra til ráðstöfunar 6.000 lestir af óslægðum botnfiski sem nýttar skuli til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda. Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða skal skipt á fjögur landsvæði. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á tímabil og landsvæði. Þá skal ráðherra með reglugerð stöðva strandveiðar frá hverju landsvæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers tímabils verði náð. Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Strandveiðileyfi eru bundin við tiltekið landsvæði og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili. Þá eru leyfi til strandveiða bundin tilteknum skilyrðum samkvæmt 5. gr. og 6. gr. a laga nr. 116/2006. M.a. kemur fram í 5. tl. 6. gr. a laganna að á hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og í 1. tl. kemur fram að aðeins sé heimilt að fara eina veiðiferð á hverjum degi. Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum nr. 116/2006 eða stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim.
        Einnig gildir reglugerð nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012, en þar eru ítarlegri ákvæði um framkvæmd strandveiða fyrir umrætt fiskveiðiár. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um framkvæmd veiðanna en þar kemur fram að leyfi til handfæraveiða samkvæmt reglugerðinni séu bundin tilteknum skilyrðum, sem þar eru tilgreind. M.a. kemur fram í 5. tl. 5. gr. að á hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum, í hverri veiðiferð. Þá kemur fram í 6. gr. reglugerðarinnar að brot gegn reglugerðinni varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006.
        Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu er gert ráð fyrir að báturinn Nonni í vík SH-89 (2587) verði sviptur leyfi til strandveiða og að sviptingin komi til framkvæmda þann dag sem báturinn fái strandveiðileyfi að nýju fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.
        Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu er byggð á 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.
        Í 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, kemur fram að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, eða eftir atvikum leyfi til strandveiða, fyrir brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Í 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, kemur fram að við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.
        Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru leyfi til strandveiða gefin út samkvæmt umsóknum leyfishafa og gilda fyrir tiltekið fiskveiðiár en ekki er um að ræða leyfi sem gilda til lengri tíma. Leyfi kæranda til strandveiða fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 féll úr gildi þann 31. ágúst 2012 en kærandi hefur ekki fengið gefið út leyfi til strandveiða fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.
        Það er mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi forsendur eða heimildir til að fella úr gildi leyfi til strandveiða sem ekki hefur verið gefið út en samkvæmt því verður ákvörðun Fiskistofu um það efni ekki byggð á framangreindu ákvæði 24. gr. laga nr. 116/2006 eða 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996.
    Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, í máli þessu.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2012, um að svipta bátinn Nonna í vík SH-89, skipaskrárnúmer 2587, leyfi til strandveiða á fiskveiðiárinu 2012/2013 í eina viku, er felld úr gildi.

Fyrir hönd ráðherra

Ingvi Már Pálsson.
Sigríður Norðmann.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta