Mál 00080021
Ráðuneytinu hefur borist kæra íbúa Lækjarhjalla 1, 3, 4, 5, 6, 7, 32, 34, 36, 38, 40 og 42 í Kópavogi vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum Reykjanesbrautar við Mjódd - tvennra mislægra gatnamóta.
I. Hinn kærði úrskurður.
Skipulagsstjóri ríkisins felldi úrskurð sinn þann 4. ágúst 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum Reykjanesbrautar við Mjódd - tvennra mislægra gatnamóta samkvæmt lögum nr. 63/1993 þar sem fallist er á fyrirhugaða byggingu tveggja mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut við Mjódd með eftirfarandi skilyrðum:
"1. Undirgöng fyrir gangandi umferð og hjólreiðafólk, undir Breiðholtsbraut, við gatnamót Breiðholtsbrautar, Stekkjarbakka og Skógarsels, verði gerð samhliða gatnamótum við Breiðholtsbraut og Nýbýlaveg, þ.e. í fyrsta áfanga.
2. Við hönnun hljóðvarna verði miðað að því að bæta hljóðvist við íbúðar- og atvinnuhúsnæði og á útivistarsvæðum á áhrifasvæði framkvæmdanna eins og framast er kostur. Haft verði samráð við íbúa og eigendur fasteigna um endanlega hönnun hljóðvarna og frágang svæðisins.
3. Leiði reglubundnar eftirlitsmælingar, í samræmi við ákvæði reglugerðar um hávaða, í ljós að hljóðstig frá umferð um mislæg gatnamót Reykjanesbrautar við Mjódd sé yfir viðmiðunarmörkum skal framkvæmdaraðili grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða eins og framast er kostur í samráði við íbúa og eigendur fasteigna."
II. Kröfur og málsástæður kærenda.
Kærendur telja að þær mótvægisaðgerðir sem greint er frá í kafla 4.2.5.1. í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins vegna hljóðmengunar séu ekki fullnægjandi til að hindra hljóðmengun við Lækjarhjalla í Kópavogi. Þar er lagt til að settur verði upp hljóðvarnaveggur við vegöxl Nýbýlavegar á kaflanum vestur meðfram húsum Trönuhjalla 13-17 og 19-23. Telja kærendur allar líkur til þess að framangreindur hljóðvarnaveggur sé það fjarri Reykjanesbrautinni að hann geti ekki hindrað þá hljóðmengun sem þar myndast og muni hún ná til Lækjarhjalla lítt hindruð vegna hæðarmunar á þessu svæði og líklegs endurkasts hljóðbylgna á svæðinu.
Kærendur gera þá kröfu að tryggt verði að hljóðstig verði innan öruggra viðmiðunarmarka gagnvart húsum við götuna. Kærendur leggja fram tillögu til að ná því marki en hún sé að setja hljóðmön milli Dalvegar og Reykjanesbrautar frá gatnamótum við Nýbýlaveg vestur á móts við undirgöng austan bensínstöðvar Skeljungs við Reykjanesbrautina.
III. Umsagnir.
Með bréfum dagsettum 12. september 2000 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar, Hollustuverndar ríkisins, Borgarráðs og Kópavogsbæjar vegna framangreindrar kæru. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dags. 26. september 2000, umsögn Vegagerðarinnar barst með bréfi dags. 9. október 2000, umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi dags. 29. september 2000, umsögn Borgarráðs barst með bréfi dags. 3. október 2000 og umsögn Kópavogsbæjar barst með bréfi dags. 26. september 2000.
Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar á síðu 12 þar segir m.a. um hljóðmengun:
"Þrátt fyrir að vaxandi hljóðstig sé talinn verða fastur fylgifiskur stofnbrauta í framtíðinni er að mati skipulagsstjóra ríkisins ljóst að hávaði frá umferð veldur íbúum verulegum óþægindum og telur skipulagsstjóri því mikilvægt að tekið verði mið af því þannig að unnt verði að bæta hljóðvist á svæðinu eins og kostur er með útfærslu mótvægisaðgerða í samráði við íbúa og eigendur fasteigna.
Ennfremur telur skipulagsstjóri ríkisins mikilvægt að sannreyna með mælingum framlagða útreikninga á umferðarhávaða sem lagðir verða til grundvallar við útfærslu mótvægisaðgerða þannig að unnt verði að grípa til viðhlítandi aðgerða í nágrenni gatnamótanna. Ljóst er af framlögðum gögnum að bílaumferð og hávaði frá umferð mun aukast á svæðinu á næstu áratugum. Því telur skipulagsstjóri eðlilegt að fram fari reglubundnar eftirlitsmælingar á hávaða við gatnamótin samkvæmt 9. gr. reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 til dæmis á 5 ára fresti á vegum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og framkvæmdaraðila verði gert að grípa til viðhlítandi mótvægisaðgerða í samráði við íbúa og eigendur fasteigna leiði mælingar í ljós að hljóðmengun frá gatnamótum sé yfir viðmiðunarmörkum."
Skipulagsstofnun vísar einnig til úrskurðarorða á síðu 13. Þar segir að fallist sé á fyrirhugaðar framkvæmdir með þremur skilyrðum og er annað skilyrðið svohljóðandi:
"Við hönnun hljóðvarna verði miðað að því að bæta hljóðvist við íbúðar- og atvinnuhúsnæði og á útivistarsvæðum á áhrifasvæði framkvæmdanna eins framast er kostur. Haft verði samráð við íbúa og eigendur fasteigna um endanlega hönnun hljóðvarna og frágang svæðisins."
Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að það sé álit stofnunarinnar að í niðurstöðu hins kærða úrskurðar og með því skilyrði sem að framan er rakið eigi að vera tryggt að útfærsla mótvægisaðgerða verði í samráði við hagsmunaðila og með eftirlitsmælingum verði tryggt að hljóðstig á svæðinu verði í samræmi við kröfur í reglugerð um hávaða nr. 933/1999. Telur Skipulagsstofnun að kröfur kæranda séu því uppfylltar í hinum kærða úrskurði.
Í umsögn Vegagerðarinnar segir:
"Niðurstöður reikninga á hljóðstigi við hús við Lækjarhjalla sýna að hljóðstig þar breytist mjög lítið við gerð gatnamóta Reykjanesbrautar, Breiðholtsbrautar og Nýbýlavegar. Áhrif frá byggingu gatnamótanna verða því minni sem vestar dregur við Dalveg en þar er hávaði frá Reykjanesbraut og Dalveg ráðandi um hljóðstigið. Hljóðtálmi sá sem ráðgert er að byggja við Dalveg og Nýbýlaveg mun ekki hafa áhrif á hljóðstig við Lækjarhjalla, enda er hann byggður til að bæta hljóðstig við hús við Trönuhjalla og Skógarhjalla.
Með aukinni umferð fram til ársins 2027 mun hljóðstig aukast við húsin við Lækjarhjalla um u.þ.b. 3 dB og verður líklega við viðmiðunarmörk við húshorn næst opnun í hljóðveggina sem þar eru. Sú aukning sem kemur fram milli áranna 2001 og 2027 er ekki bein afleiðing af byggingu gatnamótanna heldur á hún fremur rætur í framtíðarskipulagi höfuðborgarsvæðisins."
Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir um hljóðmælingar framkvæmdaraðila og tillögur kærenda um hljóðmön:
"Hollustuvernd ríkisins hefur skoðað nú þau atriði sem vísað er til í kærunni. Almennt séð er sú athugun sem hér var unnin til að kanna dreifingu hávaða til fyrirmyndar. Fram kemur í skýrslunni að hljóðveggur við Dalveg virðist virka mjög vel til að draga úr hávaða í þeim húsum í Lækjarhjalla sem standa næst Dalvegi. Hins vegar er ekki víst hvort kannað hefur verið hvað hægt er að gera frekar til að draga úr hávaða við Lækjarhjalla samhliða þessum framkvæmdum. Með vísan til fyrsta töluliðar 6. gr. reglugerðar 933/1999 um hávaða þar sem segir að: "Forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða" vill Hollustuvernd ríkisins leggja til að fallist verði á kröfur kæranda að því leiti (sic) að framkvæmdaraðili kanni til hvaða frekari aðgerða hægt er að grípa til samhliða þessu (sic) framkvæmdum þannig að dregið verði úr hávaða frá Reykjanesbraut í íbúðum við Lækjarhjalla. Sá kostur sem kærendur leggja til skal skoða sérstaklega."
Kópavogsbær segir eftirfarandi í umsögn sinni um mótvægisaðgerðir vegna hávaða:
"Að mati undirritaðs eru þær mótvægisaðgerðir gegn umferðarhávaða sem tilteknar eru í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins fullnægjandi. Einnig vill undirritaður benda á að reiknaður umferðarhávaði við hús við Lækjarhjalla er ekki aðeins frá væntanlegum mislægum gatnamótum heldur einnig og ekki síður frá Reykjanesbraut sunnan gatnamótanna. Það gildir þeim mun meir eftir því sem vestar dregur við Lækjarhjalla..."
Með bréfi dagsettu 10. október 2000 var Níelsi Hjaltasyni fyrir hönd kærenda sendar umsagnir þær sem borist höfðu ráðuneytinu og kærendum boðið að gera athugasemdir við þær. Engar athugasemdir bárust.
IV. Niðurstaða.
1.
Kærendur telja að hljóðvarnaveggur við vegöxl Nýbýlavegar sem gerð er grein fyrir í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins muni ekki hindra hávaða sem myndast við Reykjanesbraut og muni því hávaði frá Reykjanesbraut ná lítt hindraður til Lækjarhjalla.
Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins í kafla 4.2.5.1 á síðu 7 er gerð grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna hækkunar á hljóðstigi við enda hússins við Trönuhjalla 19-23 en hljóðstig þar mun fara yfir viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða nr. 933/1999. Þær mótvægisaðgerðir sem þar er lýst eiga að leiða til þess að hljóðstig á þessum stað verði viðunandi. Þessum mótvægisaðgerðum er hins vegar ekki ætlað að draga úr hljóðmengun við Lækjarhjalla. Í viðauka 4 síðu 19 í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila frá maí 2000 kemur fram að hljóðstig við Lækjarhjalla muni hækka úr 60-63dB(A) í 61-65dB(A) með hliðsjón af áætlaðri aukningu umferðar til ársins 2027. Á verstu stöðunum, þ.e. við enda núverandi hljóðveggja verði hljóðstigið við viðmiðunarmörk eða 65dB(A).
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða skal hávaði vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka með reglugerðinni. Í framangreindum viðauka er sett fram tafla sem sýnir viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi vegna umferðarhávaða. Viðmiðunargildið er það gildi sem uppfylla verður til þess að ástand geti talist viðunandi en leiðbeiningargildi er gildi sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið, en leitast skal við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur. Heimild er til frávika frá viðmiðunargildum vegna verulegrar breytingar á umferðaræð í byggð sem fyrir en viðmiðunargildið er 65dB(A) fyrir sólarhring, sbr. frávik I í framangreindri töflu. Framkvæmd sú sem hér er til umfjöllunar fellur undir frávik I þar sem um er að ræða verulega breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir er og fyrirhuguð gatnamót hafa verið á aðalskipulagi síðan 1990. Ekkert leiðbeiningargildi er gefið fyrir hljóðstig vegna fráviks I.
Kærandi gerir þá kröfu að tryggt verði að hljóðstig verði innan öruggra viðmiðunarmarka gagnvart húsum við götuna. Eins og rakið er hér að framan munu fyrirhugaðar framkvæmdir ekki leiða til þess að hljóðstig við Lækjarhjalla fari yfir leyfileg viðmiðunargildi skv. reglugerð um hávaða og því ljóst að hljóðstig þar uppfyllir framangreind viðmiðunarmörk reglugerðarinnar.
2.
Í kæru kemur fram ákveðin tillaga um mótvægisaðgerð til að "...tryggt verði að hljóðstig verði innan öruggra viðmiðunarmarka gagnvart húsum við götuna..." Eins og rakið var í kafla 1 mun hljóðstig við Lækjarhjalla hækka nokkuð vegna fyrirhugaðra framkvæmda og því lýkur til þess að það muni valda íbúum einhverjum óþægindum. Um aukið hljóðstig segir í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins segir á síðu 12:
"Þrátt fyrir að vaxandi hljóðstig sé talinn verða fastur fylgifiskur stofnbrauta í framtíðinni er að mati skipulagsstjóra ríkisins ljóst að hávaði frá umferð veldur íbúum verulegum óþægindum og telur skipulagsstjóri því mikilvægt að tekið verði mið af því þannig að unnt verði að bæta hljóðvist á svæðinu eins og kostur er með útfærslu mótvægisaðgerða í samráði við íbúa og eigendur fasteigna.
Ennfremur telur skipulagsstjóri ríkisins mikilvægt að sannreyna með mælingum framlagða útreikninga á umferðarhávaða sem lagðir verða til grundvallar við útfærslu mótvægisaðgerða þannig að unnt verði að grípa til viðhlítandi aðgerða í nágrenni gatnamótanna. Ljóst er af framlögðum gögnum að bílaumferð og hávaði frá umferð mun aukast á svæðinu á næstu áratugum. Því telur skipulagsstjóri eðlilegt að fram fari reglubundnar eftirlitsmælingar á hávaða við gatnamótin samkvæmt 9. gr. reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 til dæmis á 5 ára fresti á vegum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og framkvæmdaraðila verði gert að grípa til viðhlítandi mótvægisaðgerða í samráði við íbúa og eigendur fasteigna leiði mælingar í ljós að hljóðmengun frá gatnamótum sé yfir viðmiðunarmörkum."
Ráðuneytið tekur undir það sem hér var rakið að brýnt sé að bæta hljóðvist eins og kostur er með útfærslu mótvægisaðgerða í samráði við íbúa og eigendur fasteigna. Sama viðhorf kemur fram í umsögn Hollustuverndar ríkisins þar sem lagt er til að framkvæmdaraðili kanni til hvaða frekari aðgerða sé hægt að grípa samhliða fyrirhuguðum framkvæmdum þannig að dregið verði úr hávaða frá Reykjanesbraut gagnvart íbúum Lækjarhjalla.
Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að ekki sé sú skylda á framkvæmdaraðila að grípa til sérstakra mótvægisaðgerða á meðan umferðarhávaði við Lækjarhjalla fer ekki yfir leyfileg viðmiðunarmörk er forráðamönnum fyrirtækja og stofnana hins vegar heimilt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða, sbr. 1. tölul. 6. gr. reglugerðar um hávaða. Þannig er framkvæmdaraðila heimilt að grípa til mótvægisaðgerða sem dregið geta úr hávaða. Í 4. viðauka á síðu 18 í frummatsskýrslu er gerð tillaga um að hljóðstig við Lækjarhjalla verði lækkað með því að hækka núverandi hljóðveggi við Dalveg eða að komið verði fyrir hljóðtálma við Reykjanesbraut. Í skýrslunni er ekki mælt með jarðvegsmön við Dalveg eins og kærendur leggja til þar sem að öllum líkindum sé ekki nægjanlegt landrými til þess að koma henni fyrir.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu forsendur til að breyta úrskurði skipulagsstjóra ríkisins þar sem óumdeilt er í máli þessu að hljóðstig við Lækjarhjalla vegna fyrirhugaðra framkvæmda uppfyllir skilyrði reglugerðar um hávaða og að framkvæmdaraðili beri að grípa til mótvægisaðgerða fari hljóðstig yfir viðmiðunarmörk, sbr. þriðja skilyrðið í úrskurðarorði skipulagsstjóra ríkisins. Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 4. ágúst 2000 um mislæg gatnamót við Mjódd skal því óbreyttur standa. Ráðuneytið telur hins vegar að framkvæmdaraðili hafi heimild til þess að lækka hljóðstig við Lækjarhjalla með mótvægisaðgerðum eins og í raun er gert ráð fyrir í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila og lýst var hér að framan.
Úrskurðarorð:
Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 4. ágúst 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum Reykjanesbrautar við Mjódd, tvennra mislægra gatnamóta samkvæmt lögum nr. 63/1993 skal óbreyttur standa.