Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 00050174


Ráðuneytinu hafa borist tvær kærur vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins vegna 400 kV Fljótsdalslínu 3 og 4, Fljótsdalur-Reyðarfjörður, frá 27. maí 2000. Um er að ræða kærur Gunnars Guttormssonar og Hjörleifs Guttormssonar frá 4. júlí 2000 og Tómasar Gunnarssonar frá 4. júlí 2000.


I. Hinn kærði úrskurður.


Í úrskurði Skipulagsstjóra ríkisins vegna mats á umhverfisáhrifum vegna 400 kV Fljótdalslínu 3 og 4, Fljótsdalur-Reyðarfjörður, frá 27. maí er fallist á fyrirhugaða lagningu Fljótsdalslínu 3 og 4 eins og henni er lýst í framlagðri frummatsskýrslu og viðbótargögnum framkvæmdaraðila með eftirfarandi skilyrðum:





"1. Kröflulína 2 verði flutt og lögð suður eftir Fljótsdalsheiði, fram af Teigsbjargi að tengivirki virkjunar í Fljótsdal og þaðan í jörð að Brattagerði eigi síðar en árið 2006.


2. Staðsetningu Fljótsdalslína 3 og 4 í Fljótsdal og yfir Gilsárgil verði hagað þannig að hún valdi sem minnstum sjónrænum áhrifum. Tilfærsla Fljótsdalslínu 4 verði þannig að línan raski ekki Nykurtjörn og nánasta umhverfi hennar.


3. Náið samráð verði haft við Náttúruvernd ríkisins um endanlega legu vegslóða og línumastra, efnistöku og frágang að framkvæmdum loknum.


4. Samráð verði haft við Náttúrufræðistofnun Íslands um tilhögun framkvæmda við hreiður fálka á varptíma.


5. Ljúka skal fornleifakönnun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar að höfðu samráði við Þjóðminjasafn Íslands."




II. Kröfur og málsástæður kæranda.


Kærendur Gunnar Guttormsson og Hjörleifur Guttormsson gera þær kröfur aðallega að úrskurði skipulagsstjóra ríkisins verði breytt þannig að umhverfisráðherra úrskurði um að framkvæmdin skuli sett í frekara mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 og að meðal þess sem áskilið verði í frekara mat verði:



,,- að gerð verði óháð úttekt, að formi til fullnægandi að mati Skipulagsstofnunar, á þeim möguleika að leggja raflínurnar í heild eða að hluta til í jörð að teknu tilliti til mismunandi spennu;


- að sá kostur verði kannaður ítarlega að leggja raflínurnar í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljót frá spennuvirki við Teigsbjarg og út undir Egilsstaði (Kollsstaði) og þaðan í loftlínu yfir Egilsstaðaháls, um Eyvindardal og Svínadal til Reyðarfjarðar.


- að skýrsla um frekara mat komi fyrst til endanlegrar afgreiðslu þegar lokið er mati á áformaðri álverksmiðju Reyðaráls hf. á Reyðarfirði þannig að ljóst sé hver yrði heimiluð stærð ráðgerðrar verksmiðju."


Til vara gera kærendur þá kröfu að úrskurðað verði að báðar raflínurnar skuli lagðar í jörð á köflum í Fljótsdal, í Skriðdal og fyrir botni Reyðarfjarðar svo og önnur línan á Hallormsstaðarhálsi. Til þrautarvara gera kærendur þá kröfu að úrskurðað verði að Fljótsdalslína 3 skuli lögð samsíða Fljótdalslínu 4 á Hallormsstaðahálsi og önnur línan þar tekin í jörð ef framkvæmdaraðili metur það nauðsynlegt af öryggisástæðum.


Aðalkröfu sína byggja kærendur á því að í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins sé heimiluð lagning nefndra raflína með óverulegum skilyrðum og að hann byggi ekki á fullnægjandi athugunum á veigamiklum þáttum málsins og í aðdraganda úrskurðarins hafi ekki verið aflað svo viðhlítandi sé gagna eins og gera verði kröfu um í svo stóru og afdrifaríku máli. Kærendur benda sérstaklega á að óvissar forsendur séu um álverksmiðju og rekstrarspennu á raflínum. Þeir fara fram á að óháð mat fari fram á kostnaði við jarð- og sæstreng. Í kærunni segir að mismunandi tölur komi fram um kostnað af lagningu jarðstrengja. Samkvæmt niðurstöðum skipulagsstjóra sé kostnaðurinn 14 til 18 faldur en í tiltekinni greinargerð frá Hönnun og ráðgjöf segi að kostnaðurinn sé 12 faldur Einnig segir að ekki hafi verið tekið á hugmyndum annars kæranda Gunnars Guttormssonar til skipulagsstjóra um nýja línuleið sem er verulega önnur en þær leiðir sem settar voru fram sem aðrir kostir í frummatsskýrslu, um sé að ræða:



"...að leggja línuna í streng frá virkjun við Teigsbjarg eftir farvegi Jökulsár í Fljótsdal og út eftir Lagarfljóti á móts við Kollsstaði skammt innan Egilsstaða. Þaðan yrði línan síðan lögð sem loftlína yfir Egilsstaðaháls og kæmi á Eyvindardal skammt innan við Hnútu, nálægt vegamótum Norðfjarðarvegar (Fagradalsbrautar) og Mjófjarðarvegar, lægi spölkorn inn eftir Eyvindardal og síðan um Svínadal og úr syðra mynni hans norðan kauptúns á Reyðarfirði skáhallt að iðnaðarlóð við Hraun..."


Kærendur benda á að lokum til stuðning aðalkröfu sinni að



"...eðlilegt væri að fjalla heildstætt um stóriðjuáformin á Austurlandi, líta á umhverfisáhrif framkvæmda heildstætt eða meta einstaka framkvæmdarþætti í rökrænu samhengi, þannig að fyrst liggi fyrir mat á fyrirætlunum um álverksmiðju og síðan á orkuframkvæmdum, þ.e. virkjunum og raflínum, sem þá yrðu sniðnar hvað stærð og útfærslu snertir að orkuþörf verksmiðju eins og hún hefði verið heimiluð í mati á umhverfisáhrifum."


Um rök fyrir varakröfu sinni benda kærendur á afar mikil og tilfinnanleg sjónræn lýti af raflínum sem mest yrðu þar sem línurnar þvera dali og liggja þvert fyrir botni Reyðarfjarðar, m.a. í sjónlínu frá kauptúninu á Reyðarfirði. Og að þess fyrir utan gætu orðið stórkostleg sjónræn lýti af Fljótdalslínu 3 væri hún lögð eins og ráðgert er vestanvert í Hallormsstaðahálsi undir Jökulhæðum, þar sem hún myndi blasa við og bera við loft horft frá byggðinni á Hallormsstað og víða úr skóginnum. Framangreind röksemd er einnig röksemd fyrir þrautavarakröfu kærenda..


Kærandi Tómas Gunnarsson krefst þess að úrskurður skipulagsstjóra verði úr gildi felldur. Byggir hann kröfu sína á að lagalegar og hagrænar forsendur framkvæmdarinnar skorti í heild frá virkjun til álvers og útflutningshafnar og það sé fráleit lögskýring að einn liður heildarframkvæmdar geti samrýmst alþjóðasamningum, stjórnarskrá og almennum lögum nema fyrir liggi að framkvæmdin í heild sinni geri það.



III. Umsagnir og athugasemdir.


Með bréfum, dagsettum 10. júlí 2000, óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Landsvirkjunar, Fljótsdalshrepps, Austur-Héraðs, Fjarðarbyggðar og Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á fram komnum kærum.


Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 31. júlí 2000 er vísað í úrskurð skipulagsstjóra ríkisins varðandi þá röksemd fyrir aðalkröfu kærenda Gunnars Guttormssonar og Hjörleifs Guttormssonar að úrskurður skipulagsstjóra ríkisins hafi ekki byggt á fullnægjandi athugun á veigamikilum þáttum málsins og í aðdraganda úrskurðarins hafi ekki verið aflað svo viðhlýtandi gagna eins og gera verði kröfu um í svo stóru og afdrifaríku máli, en þar segir:



"Í svörum framkvæmdaraðila er bent á að "miðað við núverandi forsendur um uppbyggingu stóriðju i Reyðarfirði þurfi að leggja tvær 400 kV háspennulínur frá virkjun í Fljótsdal. Álver með 240 þús. tonna álframleiðslu á ári þarf 400 kV rekstrarspennu, þannig að þau breyttu áform sem uppi eru um áfangaskiptingu álvers breyta aðeins því að ekki þarf að spennuhækka línurnar, þær yrðu reknar á 400 kV spennu frá upphafi. Breytt áform í áfangaskiptingu álvers munu ekki hafa áhrif á þær hönnunarforsendur háspennulína sem kynntar eru í frummatsskýrslu. Af hálfu framkvæmdaraðila sé aðeins um að ræða 400 kV línur eins og kynntar séu í frummatsskýrslunni."


Í niðurstöðu skipulagsstjóra í kærðum úrskurði kemur fram (bls. 20) að samkvæmt framlögðum gögnum þurfi fyrsti áfangi álvers 400 kV rekstrarspennu frá upphafi. Ennfremur kemur fram (bls. 24) að ljóst sé að endanleg ákvörðun um lagningu Fljótsdalslína 3 og 4 verði ekki tekin fyrr en ákvörðun um leyfi fyrir byggingu álvers í Reyðarfirði liggur fyrir."


Skipulagsstofnun bendir á varðandi gerð óháðrar úttektar á möguleikum þess að leggja raflínur í heild eða að hluta í jörð eða vatn og sjó á að í niðurstöðu skipulagsstjóra bls 24. komi fram að:



"...Fljótsdalslínur 3 og 4 séu mjög umfangsmikil mannvirki sem óhjákvæmilega hafi umtalsverð sjónræn áhrif í för með sér. Ljóst sé að til þess að draga að einhverju marki úr sjónrænum áhrifum af háspennulínunum væri að mati skipulagsstjóra ríkisins ekki annar kostur í stöðunni en að grafa línurnar í jörðu á löngum köflum. Sá kostur sé hins vegar langt frá því að vera raunhæfur vegna kostnaðar og þess rasks sem hann hefur í för með sér. Því sé það mat skipulagsstjóra ríkisins að vegnum (sic) öryggis-, hagkvæmnis-, tæknilegum- og umhverfissjónarmiðum (sic) sé ekki fyrir hendi annar kostur en að leggja Fljótsdalslínur 3 og 4 í loftlínu um það svæði sem framkvæmdaraðili hefur kynnt sem sinn valkost í framlögðum gögnum. Að mati skipulagsstjóra ríkisins er þó ástæða til að skoða nánar möguleika á breytingum á legu háspennulínanna neðan Langhúsa að Jökulsárbrú í Fljótsdal, yfir Gilsárgil og við Nykurtjörn í Skriðdal ef vera mætti að það drægi úr sjónrænum áhrifum og raski. Þá er sett það skilyrði í úrskurðinum að staðsetningu Fljótsdalslína 3 og 4 í Fljótsdal og yfir Gilsárgil verði hagað þannig að hún valdi sem minnstum sjónrænum áhrifum."


Varðandi þá röksemd að skipulagsstjóri líti ekki á kostnað við lagningu háspennulína í jörð í samhengi við heildarumfang þeirra stóriðjuframkvæmda sem raflínunum sé ætlað að verða hluti af og að ekki sé hægt að fallast á að svo virðist sem framkvæmdaraðili eigi að vera hæstiréttur í mati á því hvenær krefjast megi breytinga er leiði til kostnaðarauka við framkvæmd segir í umsögninni:



"Skipulagsstjóri bendir á að í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila eru efnahagslega (sic) sjónarmið ekki metin en það gerir það að verkum að í úrskurði skipulagsstjóra eru ekki forsendur til að taka á þessum sjónarmiðum."


Um fyrsta lið aðalkröfu kærenda segir Landsvirkjun í umsögn sinni frá 28. júlí 2000:



"Mikil þróun hefur verið í framleiðslu háspennntra rafstrengja á síðasta áratug og kostnaður farið lækkandi. Á lægstu spennum eru strengir orðnir að fullu samkeppnisfærir við loftlínur, einkum ef hægt er að leggja þá með ódýrum hætti, t.d. plægja niður. Þessi þróun hefur verið sjáanleg í framkvæmdum við 11 kV sveitarlínur á Íslandi og við 33 kV flutningslínur. Fyrir flutningslínur á 132 kV spennu er kostnaður enn nokkru hærri og mun meiri á hærri spennum. Þá eru tæknileg vandkvæði við rekstur langra strengja á hárri spennu sem skapast vegna rýmdar strengjanna. Eftir því sem spennan hækkar verða þessi vandkvæði vegna rýmdaráhrifa meiri og því eru strengir á hæstu flutningsspennum yfirleitt stuttir og hafa einkum verið lagðir í stórborgum þar sem flytja þarf mikið afl um tiltölulega stutta vegalengd.


Í góðu landi er hægt að plægja niður strengi á lægstu spennum, 11 og 33 kV, en lagning 220 kV og þá sérstaklega 400 kV strengja er flóknari og krefst mun vandaðri frágangs, s.s. innsteypingar alla leið. Lengsti 400 kV riðstraumsstrengur á landi, sem vitað er um er 22 km langur og liggur inn í miðborg Kaupmannahafnar. Lögnin samanstendur af þremur einfasa strengjum sem lagðir eru í 800 m lengdum, sem hver um sig vegur um 40 tonn (flutningsþyngd). Flutningsgeta strengsins er 800 MVA en vegna rýmdar hans eru þrjár 100 MVAr spólustöðvar á lögninni til að eyða launaflframleiðslunni.


Í frummatsskýrslu er sýndur samanburður á kostnaði jarðstrengja og loftlína í töflu 4.4 á bls. 70. Verkfræðistofan AFL áætlaði í desember 1999 þennan kostnað og byggði á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum frá strengframleiðendum. M.a. var byggt á úttekt sem gerð hafði verið af NVE í Noregi."


Einnig segir í umsögn Landsvirkjunar:



"Til að uppfylla orkuþörf álvers í Reyðarfirði eins og það er ráðgert í fullri stærð er nauðsynlegt að gera ráð fyrir um 800 MVA flutningsgetu (750-770 MW). Þá er miðað við að afhenda megi alla orku til álversins með eina flutningseiningu úr rekstri vegna viðhalds eða bilunar, en þá þarf :


-400 kV - tvær loftlínur eða tvö sett af jarðstrengjum


-220 kV - þrjár loftlínur eða fjögur sett af jarðstrengjum."


Þá segir:



"...Sjálfir jarðstrengirnir verða ekki sjáanlegir á línuleiðinni, en með vissu millibili verða spólur til að eyða áhrifum rýmdar í strengjunum, á 10 km bili fyrir 400 kV streng og 20 km bili fyrir 220 kV streng. Þessar spólur líta út eins og stærstu aflspennar hér á landi auk þess sem tengja verður þá og strengina um múffur og setja við yfirspennuvara. Undir spólunum verður svo að byggja olíuþrær til að fyrirbyggja slys af völdum leka, en í þeim eru tugir tonna af olíu, og umhverfis þessi mannvirki þarf mannhelda girðingu."


Um annan lið aðalkröfu kærenda Gunnars og Hjörleifs Guttormssona segir í umsögn Landsvirkjunar:



"Við lagningu sæstrengja er lagt kapp á að hafa samsetningar sem gera þarf á hafi úti eins fáar og hægt er að komast af með, þar sem þær eru oftast veikasti hlekkurinn í strengjunum og mest hætt við bilunum. Af þeim sökum m.a. eru verksmiðjur staðsettar við sjó og sérhæfð skip byggð sem taka allt að 7-8 þúsund tonna streng í hverri ferð, en það svarar til rúmlega 150 km af 400 kV streng. Framleiðslulengdir eru jafnan nokkrir tugir km og þær eru síðan tengdar saman í verksmiðjunni þangað til æskilegri heildarlengd er náð, eða sem samsvarar flutningstakmörkunum í skipinu. Eru þá allar samsetningar framkvæmdar við bestu aðstæður og ysta kápa strengsins yfirleitt höfð samfelld fyrir alla flutningslengdina. Á móti kemur að þetta leiðir til mikillar hagkvæmni í lagningu strengjanna.


Frá virkjun niður að Kollastöðum eru um 40 km. Þyngd hvers einfasa strengs þá leið er um 1.680 tonn (42 t/km). Hér er miðað við venjulegan jarðstreng og ekki reiknað með að auka þyrfti styrk hans með stálvírakápu til að þola hugsanlegt hnjask á botninum. Slík stálvírakápa þyngir strenginn verulega. Varla er hægt að reikna með meiri flutningsþyngd en 70-80 tonnum og því er ljóst að flytja verður strenginn í u.þ.b. 1.400 m lengdum þar sem taka verður tillit til stálkefla og búnaðar. Þetta myndi leiða til að um 30 samsetningar yrðu á hverjum fasa frá virkjun niður að Kollastöðum, eða um 90 samsetningar alls á þriggja fasa strenglögn. Slíkur strengur er því mjög óæskilegur útfrá sjónarmiðum rekstraröryggis þar sem samsetningarnar eru sá hluti strenglagningarinnar þar sem bilanalíkurnar eru hæstar auk þess að samsetningar strengsins eru mjög vandasamar og tímafrekar. Á 400 kV strengnum í Kaupmannahöfn voru notaðar verksmiðjuframleiddar múffur og tók það um tvær vikur að setja saman hverja þriggja fasa samsetningu. Múffur sem koma til með að liggja í vatni eru auk þess mun vandasamari í frágangi en þær sem liggja í jörðu. Annað vandamál sem þyrfti að leysa varðar þær aðgerðir sem þarf til að eyða rýmdaráhrifum strengsins. Ekki er á þessu stigi hægt að ákveða hve margar slíkar stöðvar þyrfti á leið strengsins eftir Lagarfljóti þar sem slíkt krefst nákvæmrar skoðunar, en reikna má með að einhverjar slíkar stöðvar þyrfti þar sem taka þyrfti strenginn í land.


Af framansögðu er ljóst að mun fleiri óvissuþættir ríkja um þennan valkost en við lagningu hefðbundinna jarðstrengja en þó ljóst að kostnaður yrði talsvert hærri í þessu tilviki. Á grundvelli kostnaðar við tvo hefðbundna 40 km langa 400 kV jarðstrengi ásamt tveimur 33 k, 400 kV loftlínum, má ætla að kostnaður við þennan valkost verði á bilinu 12 - 16 milljarðar króna og rekstraröryggi mun lakara en við hefðbundna jarðstrengi."


Um þrautavarakröfu kærenda Gunnars og Hjörleifs Guttormssona segir:



"Að undanförnu hefur verið unnið að setningu veðurfarslegra álagsforsendna fyrir línurnar. Endanlegar niðurstöður hafa ekki verið birtar, en gera má ráð fyrir að umtalsverð skýjaísing geti myndast á þessum stað allt niður í 350 m.y.s. Slíkt er ekki algengt því talið er að óvíða sé skýjaísing vandamál á háspennulínum sem liggja undir 500 m.y.s. Því er það niðurstaða Landsvirkjunar eftir að hafa skoðað ítarlegar þá möguleika sem til greina koma við hönnun línanna að sá ávinningur sem fæst við að taka Fljótsdalslínu 3 neðar á Hallormsstaðaháls sé ekki það mikill að það réttlæti lagningu línunnar þá leið að teknu tilliti til sjónrænna umhverfisáhrifa."


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið segir um fyrsta lið aðalkröfu Gunnars og Hjörleifs Guttormssona:



"Ráðuneytið tekur undir það með framkvæmdaraðila að kostnaður við jarðstrengi sé margfalt meiri við lagningu jarðstrengja en loftlínur og við þá spennu sem hér um ræðir sé síst minna jarðrask við lagningu jarðstrengja en loftlína. Telur ráðuneytið óþarft að láta gera sérstaka úttekt á þessu atriði."


Um umsögn Skipulagsstofnunar segir í athugasemdum kærenda Gunnars og Hjörleifs Guttormssona:



"Í athugasemdum við frummatsskýrslu bentu undirritaðir o.fl. á að kostnaður að lagningu umræddra raflína væri aðeins lítið brot af heildarkostnaði við ráðgerðar stóriðjuframkvæmdir. Eðlilegt væri að líta til kostnaðarauka af því að leggja raflínurnar að hluta til í jörð í þessu samhengi. ......Sú staðreynd að ekki er fjallað um efnahagslegan þátt af lagningu raflínanna í frummatsskýrslu átti ein út af fyrir sig að vera tilefni fyrir skipulagsstjóra til að úrskurða málið í frekara mat að lögum."


Síðar í athugasemdum þeirra segir að aðalkrafa þeirra um óháða úttekt á möguleikum þess að leggja raflínurnar í heild eða að hluta í jörð/vatn sé sett fram til að unnt sé að fá fram haldgóðar viðmiðanir til ákvarðana um þessa möguleika, bæði að því er varðar tæknilega þætti og kostnað og setja jafnframt kostnaðinn í samhengi við heildarkostnað af stóriðjuframkvæmdum. Rökrétt hefði verið að Skipulagsstofnun benti á ,,valda kafla" eða mjög ,,viðkvæma staði" sem frá umhverfisverndarsjónarmiði bæri sérstaklega að skoða í þessu samhengi.


Um umsögn Landsvirkjunar segir í athugasemdum þeirra:



"Einnig kemur fram að fyrirtækið hafi í ljósi þess hve kostnaðartölur um jarðstrengi voru breytilegar hafi verið gerð ítarlegri úttekt á kostnaði og tæknilegum atriðum varðandi lagningu jarðstrengja."


Er svo vitnað í umsögn Landsvirkjunar þar sem segir að áætlað verð 400 kV jarðstrengja hafi lækkað nokkuð frá því sem gert var ráð fyrir. Svo segir:



,,Þetta styður það álit okkar að þörf sé á víðtæku og óháðu mati á tækni og kostnaði við lagningu jarðstrengja með hárri spennu og ætti slíkt að vera tilefni til frekara mats á framkvæmdinni sem er meginkrafa okkar."




IV. Niðurstaða ráðuneytisins.


1.


Ein aðalröksemd kærenda, Hjörleifs og Gunnars Guttormssona, fyrir aðalkröfu er sú að forsendur séu óvissar um álverksmiðju og rekstrarspennu á raflínum. Vísað er til þess að úrskurðað hafi verið að frekara mat skuli fara fram á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði. Eru síðan tekin dæmi úr frummatsskýrslu framkvæmdaaðila þar sem fjallað er um áætlanir um áfangaskiptingu álvers.


Áætlanir um álver í Reyðarfirði hafa leitt til þess að Landsvirkjun hefur hafið undirbúning að lagningu háspennulína til þess að unnt sé að afhenda álverinu rafmagn. Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins kemur jafnframt fram að markmið framkvæmdarinnar sé að flytja raforku til álvers í Reyðarfirði. Samkvæmt 3. tl. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 er lagning háspennulína með 33 kV spennu eða hærri háð umhverfismati. Samkvæmt 9 gr. laganna sér framkvæmdaraðili um mat á umhverfisáhrifum. Gera lögin ráð fyrir því að tiltekin framkvæmd sé metin hverju sinni en ekki allar framkvæmdir saman þótt þær kunni að tengjast. Var því ekki ástæða til fyrir skipulagsstjóra að taka tillit til óvissu um byggingu fyrirhugaðs álvers í úrskurði sínum.



Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins er lagt mat á tvær 400 kV línur. Byggist það á því að gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi álvers í Reyðarfirði verði með allt að 240 þúsund tonna álframleiðslu á ári. Jafnframt er reiknað með að framleiðslan aukist verulega eða að minnsta kosti um helming frá fyrsta áfanga. Vegna rekstaröryggis þykir nauðsynlegt að gera ráð fyrir bilun í einni línu. Að virtri umsögn Skipulagsstofnunar og Landsvirkjunar þykir ljóst að fyrsti áfangi álvers miðað við 240 þúsund tonna álframleiðslu þarf 400 kV rekstrarspennu frá upphafi. Óvissa um rekstarspennu þykir því ekki vera fyrir hendi. Það að leggja til dæmis 220 kV línur er ekki æskilegt út frá umhverfissjónarmiðum að gefinni þessari orkuþörf þar sem þá þarf þrjár slíkar loftlínur eða fjögur sett af jarðstrengjum. Ráðuneytið fellst því ekki á að óvissa um rekstrarspennu sé fyrir hendi.


2.


Í aðalkröfu, fyrsta lið, er farið fram á að gerð verði óháð úttekt á þeim möguleika að leggja raflínurnar í heild eða að hluta til í jörð að teknu tilliti til mismunandi spennu.


Óumdeilt er í máli þessu að umhverfisáhrif hinnar kærðu framkvæmdar eru einkum sjónræn. Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að verulegur munur er á nauðsynlegum frágangi og möguleikum þess að leggja strengi á lægstu spennum í jörð og háspennulínum eins og hér um ræðir þ.e.a.s. 400 kV línum. Einnig kemur fram að mun umfangsmeiri vegagerð er því samfara. Um varanlega vegi væri að ræða. Þegar loftlína er lögð er hins vegar nægilegt að leggja malarborinn slóða. Einnig er nauðsynlegt að gera ráð fyrir spólustöðvum sem eru mannvirki sem m.a. innihalda tugi tonna af olíu. Grafa þyrfti 20 til 30 metra breiðan skurð á þeirri leið sem jarðstrengur yrði lagður en það veldur miklu raski á landi. Kærendur benda á að skipulagsstjóri sem vísi til jarðrasks af lagningu fyrirhugaðra raflína í jörð en hafi engin varnaðarorð uppi þar að lútandi í sambandi við Kröflulínu sem sami framkvæmdaraðili ætlar að leggja í jörð til að draga úr sjónrænum áhrifum. Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að Kröflulína 2 er aðeins 132 kV. Það er verulega lægri spenna en gert er ráð fyrir á Fljótsdalslínum 3 og 4. Auk þess sem aðeins er um eina línu að ræða. Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að lagning 220 kV strengja og þá sérstaklega 400 kV strengja krefjist mun vandaðri frágangs. Ráðuneytið lítur því svo á að töluvert minna jarðrask fylgi því að leggja Kröflulínu 2 í jörð en Fljótsdalslínur 3 og 4.


Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að tæknileg vandkvæði séu við rekstur langra strengja á hárri spennu sem skapast vegna rýmdar strengjanna. Jafnframt kemur fram að enginn reynsla sé af rekstri svo langra jarðstrengja á þeirri spennu sem hér um ræðir og áreiðanleika í rekstri verði því að meta út frá rekstri styttri strengja.


Í umsögn Landsvirkjunar er vísað til töflu í frummatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir stofnkostnaði við loftlínu annars vegar og jarðstreng hins vegar að teknu tilliti til mismunandi spennu. Verkfræðistofan AFL áætlaði þennan kostnað í desember 1999 og meðal annars var byggt á úttekt norsks aðila auk þess sem opinberar danskar tölur voru hafðar til hliðsjónar eins og fram kemur í frummatsskýrslu. Ljóst er að í greinargerð þeirri sem vísað er til í kærunni er vitnað til hinnar norsku úttektar. Samkvæmt frummatsskýrslu er kostnaður við lagningu jarðstrengja, eins og gert er ráð fyrir við hönnun Fljótsdalslína 3 og 4, sé talinn 14 til 18 faldur á við kostnað við lagningu loflína. Fram kemur í umsögn Landsvirkjunar að kostnaður vegna vegagerðar meðfram streng gæti hugsanlega verið mun meiri en gert er ráð fyrir í uppgefnum einingavarðum vegna þess að áætluð lengd þeirra miðast við að strengirnir séu lagðir yfir Hallormsstaðaháls en einingaverð séu miðuð við mun auðveldari aðstæður.


Spennuhæð þeirra lína sem um ræðir í máli þessu og lengd línunnar hafa það í för með sér að grafa þarf breiða skurði alla línuleiðina, reisa spóluvirki sem innihalda mikið magn olíu og leggja varanlega vegi meðfram línunni ef valinn yrði sá kostur að leggja línurnar í jarðstreng. Telur ráðuneytið því mjög vafasamt að ávinningur sé að því fyrir umhverfið að leggja umræddar línur í jörð. Einnig er ljóst að kostnaður við lagningu jarðstrengja er margfaldur samanborið við kostnað við lagningu loftlínu og því ekki raunhæfur kostur ef litið til þess um hve kostnaðarsamar framkvæmd er að ræða. Úrskurður skipulagsstjóra fjallar aðeins um eina tiltekna framkvæmd. Eru því ekki metin efnahagsleg heildaráhrif þeirrar framkvæmdar ásamt efnahaglegum áhrifum framkvæmda sem henni kunna að tengjast. Ráðuneytið tekur undir það með skipulagsstjóra ríkisins að vegna öryggis-, hagkvæmnis-, tæknilegra- og umhverfissjónarmiða sé ekki fyrir hendi annar kostur en að leggja Fljótsdalslínur 3 og 4 í loftlínu um það svæði sem framkvæmdaraðili hefur kynnt sem sinn kost í framlögðum gögnum og að ekki þurfi að fara fram frekara mat á möguleikum þess að leggja línurnar í jarðstreng.


3.


Í aðalkröfu, öðrum lið, fara kærendur fram á það að sá kostur verði kannaður ítarlega að leggja raflínurnar í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljót frá spennuvirki við Teigsbjarg og út undir Egilsstaði (Kollsstaði) og þaðan í loftlínu yfir Egilsstaðaháls, um Eyvindardal og Svínadal til Reyðarfjarðar.


Eins og segir í hinum kærða úrskurði voru á undirbúningstíma framkvæmdarinnar skoðaðir fimm mismunandi kostir við val á línuleiðum og einnig tvær frekari útfærslur á þeim. Jafnframt var kannaður sá möguleiki að leggja línurnar í jarðstreng. Í frummatsskýrslu er fjallað um þann möguleika að leggja línurnar í sæstreng meðfram þéttbýlinu á Reyðarfirði. Þar kemur fram að tæknilega sé lagning lína í sæstreng illframkvæmanleg og kostnaðarsöm. Í umsögnum Skipulagsstofnunar og Landsvirkjunar kemur fram að verulegir tæknilegir annmarkar eru á því að velja þá leið sem hér er gerð tillaga um og að mun fleiri óvissuþættir séu varðandi þennan valkost en við lagningu hefðbundinna jarðstrengja. Reiknað er með að taka þyrfti strenginn í land á einhverjum stöðum til að eyða rýmdaráhrifum. Einnig liggur fyrir að kostnaður við lagningu þess háttar strengs er margfaldur á við lagningu loftlínu. Ráðuneytið telur vegna tæknilegra annmarka og kostnaðar ekki tilefni til að taka þessa kröfu til greina.


4.


Í aðalkröfu, þriðja lið, krefjast kærendur þess, að skýrsla um frekara mat komi fyrst til endanlegrar afgreiðslu þegar lokið er mati á áformaðri álverksmiðju Reyðaráls hf. á Reyðarfirði þannig að ljóst sé hver yrði heimiluð stærð ráðgerðrar verksmiðju.


Tómas Guðmundsson byggir kröfu sína á að lagalegar og hagrænar forsendur framkvæmdarinnar skorti í heild frá virkjun til álvers og útflutningshafnar og það sé fráleit lögskýring að einn liður heildarframkvæmdar geti samrýmst alþjóðasamningum, stjórnarskrá og almennum lögum nema fyrir liggi að framkvæmdin í heild sinni geri það.


Þar sem um efnislega sambærilegar kröfur er að ræða er hér fjallað um þær í einu lagi. Hinn kærði úrskurður skipulagsstjóra fjallar aðeins um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalslína 3 og 4. Með vísan til úrskurðar ráðuneytisins frá 26. júní 1996 um mat á umhverfisáhrifum álvers Norðuráls á Grundartanga og þess sem að framan segir í kafla 1. fellst ráðuneytið ekki á þessa kröfu.


5.


Til vara krefjast kærendur, Gunnar og Hjörleifur Guttormssynir, þess að úrskurðað verði að báðar raflínurnar skuli lagðar í jörð á köflum í Fljótsdal, í Skriðdal og fyrir botni Reyðarfjarðar svo og önnur línan á Hallormsstaðarhálsi.



Í frummatsskýrslu kemur fram að þær háspennulínur sem fjallað er um í máli þessu liggja að miklu leyti um heiðarlönd og óbyggða þverdali sem hafi verið nýttir til beitar en á láglendi liggi línurnar um svæði sem nýtt sé til hefðbundins landbúnaðar svo sem túnræktar. Eins og vísað er til í hinum kærða úrskurði mun framkvæmdaraðili gera tilteknar ráðstafanir til að draga úr sjónrænum áhrifum svo sem með því að forðast að láta línurnar bera við himinn og möstrin á Fljótsdalslínum 3 og 4 verði látin standast á þar sem línurnar liggja samhliða. Nú þegar liggja háspennulínur um hluta leiðarinnar. Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins er sett fram það skilyrði að Kröflulína 2 verði flutt og hún lögð í jörð að hluta fyrir tiltekinn tíma til að draga úr heildarsjónrænum áhrifum háspennulína í Fljótsdal. Einnig er framkvæmdaraðila sett það skilyrði að staðsetningu Fljótsdalslína 3 og 4 í Fljótsdal og yfir Gilsárgil verði hagað þannig að hún valdi sem minnstum sjónrænum áhrifum. Þó er ljóst að töluverð sjónræn áhrif verða af línunum.


Ráðuneytið tekur undir það sjónarmið Skipulagsstofnunar að til að draga að einhverju marki úr sjónrænum áhrifum línanna sé nauðsynlegt að leggja hana í jörð á löngum köflum. Eins og fram kemur í umfjöllun um aðalkröfu telur ráðuneytið ótvíræða ókosti fylgja því að leggja línur með svo háa spennu í jörð þrátt fyrir að með því dragi úr sjónrænum umhverfisáhrifum. Þeir þættir eru ennþá til staðar þótt línurnar séu aðeins lagðar í jörð á köflum. Við það bætist að setja verður upp sérstök strengdarvirki þar sem tengt er frá loftlínu í streng en þau valda sjónrænum áhrifum. Heildarkostnaður við lagningu línanna margfaldast þótt gert sé ráð fyrir lágmarkskostnaðarauka. Er varakröfu kærenda því hafnað


6.


Til þrautavara krefjast kærendur, Gunnar og Hjörleifur Guttormssynir, að úrskurðað verði að Fljótsdalslína 3 skuli lögð samsíða Fljótdalslínu 4 á Hallormsstaðahálsi og önnur línan þar tekin í jörð ef framkvæmdaraðili metur það nauðsynlegt af öryggisástæðum.


Í umsögn Landsvirkjunar um þrautavarakröfuna kemur fram að það sé niðurstaða fyrirtækisins eftir að hafa skoðað ítarlega þá möguleika sem koma til greina við hönnun línanna að sá ávinningur sem fáist við að taka Fljótsdalslinu 3 neðar á Hallormsstaðarháls sé ekki það mikill að það réttlæti lagningu línunnar þá leið að teknu tilliti til sjónrænna umhverfisáhrifa. Því leggur Landsvirkjun til að fallist verði á þrautavarakröfu kærenda þess efnis að línurnar verði samsíða yfir Hallormsstaðaháls.


Ráðuneytið telur ljóst að með því að línurnar verði lagðar samsíða yfir Hallormsstaðaháls minnki nokkuð sjónræn áhrif og þörf fyrir lagningu vegarslóða og þar með efnistöku. Með vísan til þess samanber og umsögn Landsvirkjunar um þrautavarakröfu er krafan tekin til greina.



Vegna anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð þennan og er beðist velvirðingar á því.












Úrskurðarorð


Staðfestur er úrskurður skipulagsstjóra um 400 kV Fljótsdalslínur 3 og 4 úr Fljótsdal í Reyðarfjörð, frá 27. maí 2000, með eftirfarandi viðbótarskilyrði sem verður 6. töluliður


,,Fljótsdalslínur 3 og 4 skulu lagðar samhliða um Hallormstaðaháls"


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta