Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

04030181

Hinn 15. nóvember 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 26. mars 2004 kæra Guðna Á. Haraldssonar hrl., f.h. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningarmanna vegna ráðningar í stöðu eldvarnareftirlits- og sjúkraflutningamanns í sveitarfélaginu Skagafirði 3. október 2003 Með bréfi þann 3. maí 2004 var tilkynnt að S, slökkviliðsmaður hefði tekið við aðild málsins, en hann var einn umsækjenda um fyrrgreinda stöðu.

I. Málsatvik og kröfur kæranda.

Sveitarfélagið Skagafjörður, hér eftir nefnt sveitarfélagið, auglýsti, þann 31. ágúst 2003 í Morgunblaðinu og þann 4. september 2003 í héraðsfréttablaðinu Sjónarhorni lausa stöðu eldvarnareftirlits- og sjúkraflutningamanns við slökkvilið Brunavarna Skagafjarðar. Staðan var einnig auglýst í héraðsfréttablaðinu Feyki. Umsóknarfrestur var til 17. september 2003. Fram kom í auglýsingunni að starfið fælist í vinnu við eldvarnaeftirlit, slökkvi- og sjúkraflutningaþjónustu, auk ýmissa starfa sem því fylgir. Þá væri útkalls- og bakvaktarskylda utan dagvinnutíma. Skilyrt var að viðkomandi hefði búsetu á Sauðárkróki og einnig kom fram í auglýsingunni að möguleiki væri á að sá sem yrði ráðinn yrði einnig varaslökkviliðsstjóri ef hann uppfyllti skilyrði laga um brunavarnir, nr. 75/2000 og eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Í auglýsingunni kom fram eftirfarandi um hæfniskröfur:

„Umsækjendur skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði reglugerðar nr. 792/2001 um

menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna:

° Hafa góða líkamsburði, gott andlegt og líkamlegt heilbrigði, hafa góða sjón og

   heyrn, rétta litaskynjun og vera ekki haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.

° Hafa aukin réttindi til að stjórna a) vörubifreið og b) leigubifreið.

° Hafa iðnmenntun (sveins- eða vélstjórapróf) sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða

  sambærilega menntun (stúdentspróf) og reynslu.

° Skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð og góð framkoma.

° Góð tölvukunnátta nauðsynleg.

°Æskilegt að viðkomandi hafi löggildingu sem slökkviliðs- og

 sjúkraflutningsmaður."

Umsækjendur um stöðuna voru 10 og var kærandi einn þeirra en hann hefur verið fastráðinn sem starfsmaður hjá Brunavörnum Skagafjarðar síðan 1. júní 2000. Í stöðuna var ráðinn G.

Krafa kæranda er að viðurkennt verði að ráðningin hafi ekki uppfyllt skilyrði framangreindra laga né ákvæði reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001. Einnig var þess krafist að ráðherra úrskurði að ekki hafi við ráðninguna verið gætt að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum.

Ráðuneytið sendi kæranda bréf þann 28. apríl 2004 þar sem fram kom það mat ráðuneytisins að Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefði ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu og gæti því ekki notið stöðu aðila samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins, en kæruheimild 36. gr. laga um brunavarnir er að mati ráðuneytisins bundin við aðila máls. Var sambandinu gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við þetta mat ráðuneytisins áður en tekin yrði sú ákvörðun að vísa málinu frá. Í svari Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem barst þann 3. maí 2004, var tilkynnt að S hafi tekið við aðild málsins og að hann teldist frá þeim degi kærandi málssins. Eins og áður er komið fram var S einn af umsækjendum um fyrrnefnda stöðu en hann er jafnframt félagi í Landsambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Með bréfi þann 10. maí 2004 var kæranda tilkynnt að ráðuneytið hefði ákveðið að taka kæru hans til meðferðar.

Þann 10. maí 2004 var kæran jafnframt til umsagnar Brunamálastofnunar og sveitarfélagsins. Umsögn Brunamálastofnunar barst með bréfi þann 4. júní 2004 og umsögn sveitarfélagsins með bréfi þann 24. maí 2004. Kæranda var með bréfi þann 24. júní 2004 gefinn kostur á að koma að athugasemdum við framangreindar umsagnir og bárust þær með bréfi, dags. 29. júní 2004. Þann 1. október 2004 óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum sveitarfélagsins um um hvort og hvernig umsækjendur, einkum kærandi og sá er hlaut stöðuna, uppfylltu skilyrði um: góða líkamsburði, gott andlegt og líkamlegt heilbrigði, góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun, vera ekki haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd, skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð, góða framkomu og góða tölvukunnáttu og tilgreind voru í auglýsingu um stöðuna. Afrit var sent til kæranda. Svar sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 6. október 2004. Einnig barst bréf frá kæranda þann 15. október 2004 ásamt heilbrigðisvottorði fyrir S og viðurkenningu um tölvunámskeið.

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi heldur því fram að við ráðningu í starf slökkviliðs- og eldvarnareftirlitsmanns hjá Brunavörnum Skagafjarðar hafi sveitarfélagið brotið ákvæði laga um brunavarnir, nr. 75/2000. Þá hafi það einnig brotið ákvæði reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 og ákvæði reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna, nr. 540/1986.

Í kæru kemur fram að samkvæmt 11. gr. laga um brunavarnir sé sveitarfélagi skylt að sjá svo um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögum. Þá sé eldvarnareftirlit á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt 12. gr. sömu laga. Einnig er vísað til III. kafla reglugerðar nr. 792/2001, um nám og menntun slökkviliðsmanna. Í kæru segir að af reglugerðinni megi ljóst vera að gerðar séu miklar kröfur til þeirra og sá er hafi löggildingu sem slökkviliðsmaður hafi bæði farið í gegnum nám og starfsþjálfun. Þá sé það gert að skilyrði í 12. gr. reglugerðarinnar að þeir slökkviliðsmenn sem sinni eldvarnareftirliti skuli hafa lokið námi sem eldvarnareftirlitsmaður I eða sambærilegu námi.

Í kæru segir að G hafi sveinspróf í rafvirkjun frá árinu 1996 og nám við meistaraskóla í rafvirkjun frá árinu 2002, hann hafi meirapróf en hafi enga reynslu haft af slökkviliðs-, brunaeftirlits- eða sjúkraflutningastörfum. Hins vegar hafi fimm af umsækjendum þ. á m. kærandi slíka reynslu. Í kæru kemur fram að kærandi hafi löggildingu sem slökkviliðsmaður og réttindi sjúkraflutningamanns. Þá hafi hann sótt námskeið í brunavörnum á vegum Brunamálastofnunar. Hann hafi verið fastráðinn hjá Brunavörnum Skagafjarðar síðan árið 2000.

Í kæru segir ennfremur að G hafi engin réttindi sem slökkviliðs-, brunaeftirlits- eða sjúkraflutningamaður. Fyrir liggi hins vegar að þrír af umsækjendum hafi verið með réttindi slökkviliðsmanns I og sá fjórði með ¾ hluta úr því námi. Einnig liggi fyrir að þrír af umsækjendum er ekki fengu starfið hafi verið með sjúkraflutningaréttindi en G hafi ekki haft slík réttindi. Þá telur kærandi að af reglugerð um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna megi ráða að til þess að geta orðið eldvarnaeftirlitsmaður þurfi viðkomandi fyrst að hafa fengið löggildingu sem slökkviliðsmaður.

Að mati kæranda megi því ljóst vera að sveitarfélagið hafi ekki við ráðningu í stöðu þá er auglýst var við slökkvilið Brunavarna Skagafjarðar, viðhaft þær vinnureglur sem vænta megi af því og ekki farið eftir þeim reglum né skyldum sem á það eru settar samkvæmt lögum um brunavarnir og fyrrnefndum reglugerðum. Þá hafi sveitarfélagið ekki farið að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum. Sveitarfélög hafi ekki frjálst val um það hverja það ræður í stöðu eldvarnareftirlitsmanns eða slökkviliðsmanns. Þannig hafi þeir af umsækjendum sem voru með réttindi og starfsreynslu til starfsins átt að ganga fyrir um stöðuna. Sveitarfélagið hafi þurft að rökstyðja það sérstaklega ef ráða hafi átt mann án reynslu og án menntunar umfram þá umsækjendur. Slík rök séu ekki til staðar.

III. Umsagnir.

1. Formhlið málsins.

Í umsögn sveitarfélagsins segir að kröfugerð kæranda í málinu ekki þannig að hann geti fengið úr þessum ágreiningi skorið. Ráðuneytið sé bundið af kröfugerð kæranda og sé hún þess efnis að viðurkennt verði að „ráðningin" hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um brunavarnir, nr. 75/2000 og reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001. Síðan sé þess krafist að úrskurðað verði að ekki hafi verið farið að meginreglum stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 75/2000 sé það ágreiningur um framkvæmd laganna sem komi til úrskurðar ráðherra, en ekki hvort meginreglur stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum hafi verið brotnar eða ekki. Af framansögðu leiðir að mati Sveitarfélagsins Skagafjarðar að ekki verði séð að unnt sé að kveða upp úrskurð um efni málsins. Vísa verði kærunni frá.

Jafnframt kemur fram í umsögninni að sá ágreiningur sem uppi er varði ráðningu í starf slökkviliðs- og eldvarnareftirlitsmanns til Brunavarna Skagafjarðar. Nauðsynlegt sé að benda á að ekki sé að finna í lögum um brunavarnir neinar reglur um ráðningu í það starf sem hér er um að ræða. Heimildin í 36. gr. laganna varði eingöngu ágreining um framkvæmd laganna eða reglugerða sem settar kunna að verða með heimild í þeim. Sá ágreiningur sem uppi er varði alls ekki framkvæmd laganna og því geti tæplega komið til kasta ráðuneytisins í þessu máli. Það megi ef til vill ætla að ráðuneytið geti úrskurðað um það eitt hvort að sá sem ráðinn var í starfið fullnægði 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001, en um það virðist vera ágreiningur. Það verði að leggja á það áherslu að 36. gr. laganna takmarki þau afskipti sem ráðuneytið getur haft af ágreiningi aðila.

Í umsögn Brunamálastofnunar um kæru kemur fram að almennt beri að líta til þess að sveitarstjórnarstigið er einungis eitt hér á landi. Í því felist að ákvarðanir sveitarstjórnar verða ekki bornar undir æðra stjórnvald nema sérstök kæruheimild sé í lögum. Við skýringu á ákvæði 36. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, beri að líta til þess að gildissvið kæruheimildar takmarkast við ákvarðanir sem byggja á beinum ákvæðum í umræddum lögum og þá einkum íþyngjandi ákvarðanir um þvingunarúrræði og viðurlög. Ætla verði að ákvörðun um val á umsækjendum í starf sé á valdi einstakra sveitarfélaga og eigi umhverfisráðuneytið ekki úrlausnarvald um það atriði. Í því sambandi beri að hafa í huga að umsækjandi, sem ráðinn var, uppfyllti almenn starfsgengisskilyrði og almennt er viðurkennt að sveitarfélög eigi um það frjálst mat hvernig staðið er að vali umsækjenda svo og hverjir eru ráðnir til starfa. Hafi 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum og ákvæði 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, að geyma ótvíræð fyrirmæli þessa efnis. Umhverfisráðuneytið geti e.t.v. fjallað um hvort umsækjandi, sem ráðinn hafi verið til starfans, hafi uppfyllt almenn starfsgengisskilyrði en um leið hljóti það að falla utan valdsviðs ráðuneytisins að fjalla um hver hafi verið ráðinn eða að skera úr um hvort hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn, eins og kröfur kæranda virðast lúta að. Telur Brunamálastofnun að umhverfisráðuneytinu beri að vísa máli frá þar sem umfjöllun þessa máls falli utan gildissviðs ákvæðis 36. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir. Að öðrum kosti telji Brunamálastofnun að umhverfisráðuneytinu beri að hafna kröfum kæranda.

2. Efnishlið málsins.

Fram kemur í umsögn sveitarfélagsins að sú staða sem hér um ræðir hafi verið auglýst í Morgunblaðinu og staðarblöðum í september 2003. Auglýst hafi verið eftir eldvarnareftirlits- og sjúkraflutningamanni. Í auglýsingunni komi fram að starfssviðið felist í eldvarnareftirliti ásamt slökkvi- og sjúkraflutningum. Þær kröfur hafi m.a. verið gerðar að umsækjendur skyldu uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 792/2001. Kærandi hafi verið meðal umsækjanda ásamt fleiri starfsmönnum Brunavarna Skagafjarðar. Í starfið hafi verið ráðinn G. Enginn umsækjanda hafði sótt námskeið sem eldvarnareftirlitsmaður. Kærandi hafi verið með réttindi sem sjúkraflutningamaður og fengið skömmu síðar löggildingu sem slökkviliðsmaður. Hann sé bifvélavirkjameistari en G raffræðingur að mennt. Það hafi verið þessi menntun G sem réði úrslitum þegar ákvörðun var tekin um hvern af umsækjendunum skyldi ráða.

Síðan segir í umsögn sveitarfélagsins: „Í upphafi er rétt að geta þess að það er venja við ráðningu sem þessa að ráða menn til reynslu í þrjá mánuði og að þeim tíma liðnum eru þeir sendir á námskeið. Í samræmi við þetta þá var [G] sendur á námskeið fyrir sjúkraflutningamenn við fyrsta mögulega tækifæri sem gafst eftir að reynslutíma lauk. Hann hefur nú lokið því námi og fengið gefið út leyfi til að starfa sem sjúkraflutningamaður.

Í reglugerð nr. 792/2001 er ákvæði í 8. gr. um hvaða skilyrðum þeir þurfa að fullnægja sem ráðnir eru til starfa sem slökkviliðsmenn. Skilyrði þessi eru talin í þremur liðum og við ráðningu þá uppfyllti [G] öll þessi skilyrði. Í þessu sambandi er athyglisvert að samkvæmt 2. tl. 8. gr. er gert ráð fyrir að slökkviliðsmenn séu ráðnir til reynslu. Af kærunni verður ekki ráðið að kærandi beri því við að [G] hafi ekki fullnægt þessum skilyrðum. Í henni er vísað til laga nr. 75,2000 og reglugerðar 792,2001 í heild, en málið ekki reifað þannig að byggt sé á því að [G] hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum sem 8. gr. reglugerðar nr. 792,2001 setur. Það verður einnig að benda á að það getur ekki verið skilyrði til að fá starf slökkviliðsmanns að hafa fengið löggildingu sem slíkur. Nægir að benda á að beinlínis er gert ráð fyrir því í 17. gr. laga nr. 75,2000 að menn hafi aflað sér starfsreynslu áður en þeir fá löggildinu til starfsins. Það er því ljóst af þessu að löggildingin sem menn fá nær til starfsheitis en ekki til ráðningar í starfið.

Eins og að framan greinir þá var það menntun [G] sem réði úrslitum um ráðningu hans í starfið. Fyrir í liðinu voru bifvélavirkjar með meistarapróf og húsasmiðir og því var talin mikill fengur að fá mann með meistarapróf í rafvirkjun í liðið. Auk þess var [G] búinn að fara á námskeið um brunaviðvörunarkerfi. Eins og í auglýsingunni greinir var verið að sækjast eftir manni í eldvarnareftirlit og því augljóslega mikill fengur í að fá mann með menntun [G]. Enginn var fyrir með neina menntun eða þekkingu á þessu sviði í liðinu. Varla þarf að hafa um það mörg orð að verulegur hluti allra bruna á landinu eiga upptök sín út frá rafmagni, svo að mjög brýnt var talið að fá mann með þessa menntun til starfa við eldvarnareftirlit. Ítrekað er það sem áður er fram komið að enginn umsækjanda var með réttindi sem eldvarnareftirlitsmaður.

Eins og áður segir þá var í auglýsingunni tekið fram að sá sem yrði ráðinn ætti að gegna starfi sjúkraflutningamanns. Ekki verður fjallað frekar um þann þátt málsins þar sem hann á ekki undir ráðuneytið."

Í umsögn Brunamálastofnunar um kæru segir:

- „Sá umsækjandi, sem ráðinn var til starfa hjá Brunavörnum Skagafjarðar, uppfyllti öll skilyrði til ráðningar í hlutaðeigandi starf, sbr. einkum ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001. Þá uppfyllti umsækjandi öll skilyrði auglýsingar en þar sagði einungis að æskilegt væri að umsækjandi hefði löggildingu sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður. Samkvæmt því var ekki gerð afdráttarlaus krafa um slíka löggildingu enda verður að telja að slík krafa væri í reynd andstæð ákvæðum áðurnefndra laga og reglugerða um starfsgengisskilyrði slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Eins og áður greinir gera ákvæði hlutaðeigandi laga og reglugerða ráð fyrir að starfsmenn öðlist full réttindi til hlutaðeigandi starfa í starfi eða samhliða starfi. Í ljósi framangreindra sjónarmiða verður ekki séð að Brunavarnir Skagafjarðar hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 75/2000, reglugerð nr. 792/2001 eða reglugerðar nr. 504/1986 við ráðningu í starf.

- Í fyrirliggjandi kæru virðist gengið út frá þeirri forsendu að sveitarfélagi sé skylt að ráða til starfa slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna einstaklinga sem hafi þegar lokið hlutaðeigandi námi og öðlast löggildingu sem slíkir. Á sama hátt virðist svo sem kærandi gangi út frá því í kæru að sama gildi um þá sem starfa við eldvarnareftirlit. Af ákvæðum laga nr. 75/2000, sbr. einkum ákvæði 17. gr. svo og ákvæðum reglugerðar nr. 792/2001, sbr. einkum ákvæði III. kafla þeirra, má ljóst vera að umsækjendur um störf í slökkviliði þurfa ekki að hafa lokið slíku námi eða öðlast löggildingu fyrir ráðningu. Af framangreindu verður ekki séð að ráðning umsækjanda hafi af þeim sökum brotið gegn fyrrnefndum ákvæðum laga og reglugerða.

- Í máli þessu hefur komið fram að þrír umsækjendur um starf hafi haft löggildingu sem slökkviliðsmenn og reynslu sem slíkir. Þá hafi þrír umsækjendur um starfið haft réttindi sjúkraflutningamanna. Á sama hátt liggur fyrir að sá umsækjandi, sem ráðinn var til starfans, hafði hvorki slíka löggildingu né starfsreynslu af sambærilegum störfum. Vakin skal athygli á því að fyrir því geta verið starfslegar ástæður að litið sé til annarra þátta við ráðningu í starf en formlegra starfsréttinda einvörðungu. Í því sambandi ber að hafa í huga að ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 792/2001, sbr. 3. tölul., kveður svo á um að umsækjendur skuli hafa iðnmenntun sem nýtist í starfi. Í áðurnefndri auglýsingu um starf hjá Brunavörnum Skagafjarðar kemur fram að starfsmaður skuli m.a. starfa við eldvarnareftirlit. Umsækjandi sá, sem ráðinn var til starfans, hefur sveinspróf og meistararéttindi í rafvirkjun auk þess sem hann hefur lokið námskeiði tengdum brunaviðvörunarkerfum. Var hann eini umsækjandinn sem svo var ástatt um. Það er ljóst að slíkir þættir kunna að skipta máli við val á umsækjendum um starf. Þá skal vakin athygli á því að sjónarmið um mismunandi samsetningu iðnmenntunar starfsmanna í slökkviliði geta ennfremur leitt af sér ákvörðun tiltekins efnis og á sama hátt kunna sjónarmið um áherslur í starfi að leiða til tiltekinnar ákvörðunar um ráðningu. Má í því sambandi vísa til bréfs Ársæls Guðmundssonar, sveitarstjóra, til lögmanns kæranda, dags. 1. mars 2004.

- Almennt ber að leggja til grundvallar þá niðurstöðu að sveitarfélög eigi um það frjálst mat hver umsækjanda um starf skuli ráðinn hverju sinni. Gildir framangreint að svo miklu leyti sem umsækjendur uppfylla almenn skilyrði til að hljóta ráðningar í störf, þ.e. þá á sveitarfélag um það óskoraðan rétt hvaða umsækjanda það ákveður að ráða til starfans. Verður hvorki séð að kærandi hafi fært fyrir því haldbær rök að ákvörðun Brunavarna Skagafjarðar hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum laga né verður séð að ekki hafi verið gætt þeirra "vinnureglna", eins og haldið er fram í kæru, sem vænta mátti eða að ekki hafi verið farið að lögum og reglugerðum, sem áður greinir. Gerir kærandi í reynd enga grein fyrir í hverju slíkar „vinnureglur" eru fólgnar."

Síðan segir í umsögn Brunamálastofnunar:

„Brunavarnir Skagafjarðar eru starfræktar af Sveitarfélaginu Skagafjörður. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar grundvallarreglu að sveitarfélög taka sjálf ákvarðanir um ráðningar í störf og hafa þau ákvörðunarvald um hverjir umsækjenda eru ráðnir til starfa hverju sinni. Hafa ber eftirfarandi í huga við úrlausn þessa máls:

- Að íslenskum rétti hefur sú grundvallarregla verið talin gilda að sveitarfélög ráði málefnum sínum sjálf og er sá réttur varinn annars vegar af ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum og hins vegar af ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 45/1998, sveitarstjórnarlög. Við úrlausn þessa máls ber að hafa framangreinda grundvallarreglu í huga enda liggur fyrir að hlutaðeigandi einstaklingur uppfyllti almenn skilyrði til að hljóta ráðningu í viðkomandi starf.

- Í sjálfu sér þykir ástæða til að benda umhverfisráðuneytinu á að kanna nánar forsendur þeirrar röksemdar, sem haldið er fram í kæru, að sveitarfélagið hafi ekki farið að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins um veitingu starfa hjá sveitarfélaginu. Vakin er sérstök athygli á því að grundvallarreglur stjórnsýsluréttar eru nú lögbundnar, sbr. ákvæði laga nr. 37/1993, stjórnsýslulög. Ekki verður séð á hvaða grundvelli sú röksemd kæranda byggir að umsækjendur, sem þegar hafi hlotið löggildingu til slökkviliðs- og sjúkraflutningastarfa, skuli njóta forgangs til ráðningar í hlutaðeigandi starf. Hefur kærandi ekki vísað til sérstakra heimilda eða lagaákvæða máli sínu til stuðnings. Um framangreind atriði hlýtur sveitarfélagið að eiga ákvörðunarvald og ber þá að líta til þess að umsækjandi, sem ráðinn var, uppfyllti skilyrði til ráðningar. Við úrlausn þessa máls ber ennfremur að hafa í huga að lagaskilyrði skortir til að ógilda ákvörðun um ráðningu í starf eins og krafist hefur verið í þessu máli.

- Krafa kæranda í máli þessu virðist fyrst og fremst lúta að því að val sveitarfélagsins á umsækjendum til starfans hafi ekki uppfyllt kröfur og/eða væntingar hans í því sambandi. Eins og áður hefur verið rakið geta margvísleg sjónarmið og margvíslegar þarfir ráðið fyrir um val á umsækjendum. Skal í því sambandi áréttað að ekki verður séð að ákvæði laga eða ákvæði reglugerða, sem áður hefur verið vísað til, mæli fyrir um sérstakan og betri rétt þeim til handa í tengslum við nýráðningar sem þegar hafa hlotið löggildingu til ákveðinna starfa. Um þetta atriði var ennfremur fjallað um í auglýsingu en þar sagði einungis að löggilding væri æskileg."

IV. Niðurstaða.

1. Formhlið málsins

Sveitarfélagið telur að kröfugerð kæranda í máli þessu sé ekki með þeim hætti að hann geti fengið úr þeim ágreiningi sem hér um ræðir skorið. Ráðuneytið sé bundið af kröfugerð kæranda þess efnis að viðurkennt verði að ráðningin hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um brunarvarnir, nr. 75/2000 og reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001. Síðan sé þess krafist að úrskurðað verði að ekki hafi verið farið að meginreglum stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum. Samkvæmt 36. gr. laga um brunarvarnir, nr. 75/2000, sé það ágreiningur um framkvæmd laganna sem kemur til úrskurðar ráðherra, en ekki hvort meginreglur stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum hafi verið brotnar eða ekki. Af framansögðu leiði að mati sveitarfélagsins að ekki verði séð að unnt sé að kveða upp úrskurð um efni málsins og verði að vísa erindinu frá.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Af þessu leiðir að ráðuneytið er ekki bundið af kröfugerð aðila heldur getur tekið til athugunar önnur atriði sem varða hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sömu laga taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 36. gr. laga um brunarvarnir. nr. 75/2000 er heimilt að kæra ákvörðun um framkvæmd laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim til umhverfisráðherra. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna skal í reglugerð kveða á um lágmarkskröfur varðandi tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða. Telur ráðuneytið því að ákvörðun um ráðningu eldvarnar- og slökkviliðsmanns varði framkvæmd laganna. Viðurkennt er að stjórnsýslurétti að ákvarðanir um stöðuveitingar eru stjórnvaldsákvarðanir. Það er meginregla að stjórnsýslurétti að það stjórnvald sem fjalla skal um kæru er heimilt að endurskoða hina kærðu ákvörðun að fullu. Í máli þessu er þess krafist að viðurkennt verði að hin kærða ákvörðun hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um brunavarnir, nr. 75/2000, ákvæða reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 auk þess sem ekki hafi verið gætt að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um veitingu starfa hjá sveitarfélögum. Varðandi síðastgreinda atriði er að mati ráðuneytisins einkum um að ræða regluna um að við stjórnvaldsákvörðun skuli hafa í heiðri málefnaleg sjónarmið. Í ljósi kröfugerðar kæranda og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998 sbr. 78. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 telur ráðuneytið rétt að afmarka endurskoðun ákvörðunarinnar við að kanna staðreyndir málsins, hvort réttra málsmeðferðarreglna var gætt og hvort hin kærða ákvörðun byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

Hluti þess starfs sem mál þetta varðar eru sjúkraflutningar. Sjúkraflutningar heyra undir heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið skv. 19. sbr. 2. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Að mati ráðuneytisins fellur það því utan kæruheimildar 36. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000 að fjalla um ráðningu í starf sjúkraflutningamanns. Verður því ekki fjallað um þann þátt málsins hér.

2. Efnishlið málsins

2.1. Skilyrði fyrir ráðningu

Sú staða sem mál þetta varðar er skv. auglýsingu staða eldvarnareftirlits- og sjúkraflutningamanns sem fellst í eldvarnareftirliti, slökkvi- og sjúkraflutningaþjónustu auk ýmissa starfa sem því fylgir. Samkvæmt 11. gr. laga um brunavarnir er sveitarfélagi skylt að sjá um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögunum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal í reglugerð kveða á um lágmarkskröfur varðandi tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliðs o. s. frv. Samkvæmt 12. gr. sömu laga er eldvarnaeftirlit sveitarfélaga sú starfsemi slökkviliðs sem hefur eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir. Hlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga er ennfremur að:

„a. hafa í samvinnu við byggingarfulltrúa eftirlit með því að nýbyggingar fullnægi

kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra

er heimiluð,

b. gera úttekt á mannvirkjum í notkun og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á

brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir,

c. leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum eftir atvikum um hvaðeina er varðar

brunavarnir og eldsvoða vegna viðkomandi starfsemi,

d. hafa eftirlit með því að eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis sinni

skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í samræmi

við leiðbeiningar sem Brunamálastofnun gefur út,

e. halda skrá yfir öll mannvirki og aðra staði þar sem eldsvoði getur valdið

sérstakri hættu á manntjóni eða umtalsverðu tjóni á umhverfi eða öðrum

verðmætum."

Samkvæmt 8. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 skulu þeir sem ráðnir eru til starfa sem slökkviliðsmenn fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

„1. Hafa góða líkamsburði, vera andlega og líkamlega heilbrigðir, reglusamir og

háttvísir, hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vera ekki haldnir

lofthræðslu eða innilokunarkennd.

2. Hafa að lokinni reynsluráðningu aukin ökuréttindi til að stjórna: a) vörubifreið

og b) leigubifreið.

3. Hafa iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða sambærilega menntun

og reynslu."

Framangreind skilyrði reglugerðarinnar eru lágmarksskilyrði.

Ráðuneytið lítur ekki svo á að í 3. tölulið 8. gr. reglugerðarinnar felist krafa um reynslu af slökkvi- eða eldvarnastörfum enda slíkt ekki tiltekið sérstaklega. Lítur ráðuneytið svo á að nægilegt sé að reynsla umsækjanda nýtist í starfi sbr. viðmið í sama tölulið um menntun.

Þeir slökkviliðsmenn sem sinna eldvarnareftirliti skulu ennfremur skv. 12. gr. sömu reglugerðar hafa lokið námi sem Eldvarnaeftirlitsmaður I eða sambærilegu námi. Ráðuneytið lítur svo á að ekki sé um skilyrði fyrir ráðningu að ræða en að viðkomandi aðila beri að sækja námskeiðið Eldvarnareftirlitsmaður-I eða ljúka sambærilegu námi áður en hann hefur störf við eldvarnareftirlit.

Í auglýsingu um starfið lagði sveitarfélagið ennfremur áherslu á eftirtalin atriði:

„- Skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð og góð framkoma.

- Góð tölvukunnátta nauðsynleg.

- Æskilegt að viðkomandi hafi löggildingu sem slökkviliðs- og

sjúkraflutningsmaður."

Í 17. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, segir að slökkviliðismenn sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn skuli hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. Hvorki í lögum um brunavarnir, nr. 75/2000 né reglugerð um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 er gerður áskilnaður um að slík löggilding sé skilyrði fyrir ráðningu í starf slökkviliðsmanns né eldvarnaeftirlitsmanns.

2.1.1. Lágmarksskilyrði

Sveitarfélög hafa ekki frjálsar hendur um val á milli umsækjenda við störf í slökkviliði, jafnvel þegar svo stendur á að fleiri en einn hæfur umsækjandi sækir um stöðu. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti, að þegar svo stendur á, ber að velja þann umsækjanda, sem hæfastur verður talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika, er máli skiptu, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 382/1991. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3490/2002 segir ennfremur að þegar svo háttar til að fleiri en einn umsækjandi uppfylli lágmarkskröfur sé óhjákvæmilegt að fram fari samanburður á milli viðkomandi umsækjenda á grundvelli þeirra sjónarmiða sem byggt væri á.

Umsækjendur um stöðuna sem mál þetta varðar voru 10 og var kærandi einn þeirra. Eins og mál þetta liggur fyrir ráðuneytinu þykir rétt að afmarka umfjöllun ráðuneytisins einungis við hvort og hvernig kærandi og G uppfylltu þau skilyrði sem sett voru fyrir ráðningu í stöðuna.

Óumdeilt er í málinu að báðir aðilar, G og kærandi hafa iðnmenntun og aukin ökuréttindi sbr. 2. og 3. tl. 8. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Þá voru samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins voru báðir umsækjendur taldir hafa góða líkamsburði, vera andlega og líkamlega heilbrigðir, reglusamir og háttvísir, hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og ekki vera haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd sbr. 1. tölulið greinarinnar. Kærandi hafði reynslu af störfum hjá Brunvörnum Skagafjarðar. Ráðuneytið lítur svo á að reynsla G af störfum á rafmagnssviði sé reynsla sem sé til þess fallin að nýtast í starfi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telur ráðuneytið að kærandi og G hafi báðir uppfyllt lágmarkskilyrði, þ.e. skilyrði reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001, fyrir ráðningu í stöðuna. Samkvæmt framansögðu fellst ráðuneytið því ekki á að sveitarfélagið hafi brotið ákvæði laga um brunarvarnir, nr. 75/2000 eða reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 við ráðningu í stöðuna.

2.1.2. Frekari skilyrði sveitarfélagsins

Í auglýsingu sveitarfélagsins kom fram að talið var æskilegt að umsækjendur hefðu löggildingu sem slökkviliðsmenn. Samkvæmt gögnum málsins hafði G ekki löggildingu sem slökkviliðsmaður. Kærandi sótti hins vegar um slíka löggildingu eftir að hann sótti um það starf sem mál þetta fjallar um og öðlaðist hana 29. október 2003 eða eftir að ráðið var í stöðuna. Ráðuneytið lítur svo á að rétt sé að bera saman hvort og hvernig aðilar uppfylltu ráðningarskilyrði á þeim tímapunkti sem þeir sóttu um stöðuna. Ljóst er að hvorugur þeirra aðila sem fjallað er um í máli þessu hafði löggildingu sem slökkviliðsmaður þegar þeir sóttu um stöðuna.

Sveitarfélagið tilgreindi ennfremur í auglýsingu skilyrði um persónulega hæfni umsækjenda. Umsækjendur voru samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins báðir taldir jafnhæfir hvað varðar skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð og góða framkomu. Loks segir um tölvukunnáttu að sá sem ráðinn var í stöðuna hafi haft mun betri tölvukunnáttu. Ekki hafa komið fram gögn sem varpa ljósi á þetta mat sveitarfélagsins. Bréfi kæranda, dags. 15. október 2004, fylgdi hins vegar vottorð um tölvunámskeið.

Samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996 ber stjórnvaldi við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og ef þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Af upplýsingum sveitarfélagsins má ráða að tölvukunnátta hafi haft þýðingu við meðferð málsins þar sem fullyrt er að sá sem ráðinn var í stöðuna hafi haft mun betri tölvukunnáttu. Ekki er rökstutt frekar hvernig komist var að þeirri niðurstöðu. Ráðuneytið telur því að sveitarfélagið hafi ekki séð til þess fyrir lægju hjá því upplýsingar um atriði sem þýðingu höfðu við mat á hæfni umsækjanda hvað tölvukunnáttu varðar, sbr. 23. gr. upplýsingalaga.

2.2. Önnur sjónarmið við ákvarðanatökuna

Samkvæmt umsögn sveitarfélagsins var það menntun G sem raffræðings sem réði úrslitum um ráðningu hans í starfið. Enginn hafi verið fyrir með þessa menntun eða þekkingu á þessu sviði í slökkviliðinu. Ráðuneytið telur það sjónarmið að velja umsækjanda með menntun á rafmangssviði umfram umsækjanda með menntun sem bifvélavirki málefnalegt sjónarmið þegar um er að ræða stöðu slökkviliðs- og eldvarnareftirlitsmanns sbr. einkum það sem segir um mannvirkjaþátt eldvarnareftirlits í 12. gr. laga um brunarvarnir, nr. 75/2000 og eins og á stóð um samsetningu liðsins. Ekki liggur hins vegar fyrir samanburður á starfsreynslu G og S. Telur ráðuneytið að, að þessu leyti sé undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 þar sem segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Kærandi telur að líta beri til þess að hann hafi sótt námskeiðið Slökkviliðsmaður I samkvæmt reglugerð um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Ráðuneytið fellst á að tvímælalaust hefði átt að líta til þessa atriðis við ákvörðun um ráðningu í stöðuna. Samkvæmt umsögn sveitarfélagsins hafði G. sótt námskeið um brunaviðvörunarkerfi, Ekki liggja fyrir gögn þar sem fram kemur lýsing á því námskeiði. Ekki liggur heldur fyrir samanburður á þeim námskeiðum sem kærandi og G höfðu sótt. Telur ráðuneytið að, að þessu leyti sé undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

2.3. Niðurstaða

Eins og að framan er rakið fellst ráðuneytið ekki á að sveitarfélagið hafi brotið ákvæði laga um brunarvarnir, nr. 75/2000 eða reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, nr. 792/2001 við ráðningu í stöðuna. Ráðuneytið telur hina kærðu ákvörðun háða tilteknum annmörkum hvað varðar undirbúning hennar en telur gögn málsins þó ekki benda til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi verið ráðandi um ákvarðanatökuna. Ekki er að mati ráðuneytisins um svo verulega annmarka að ræða að til skoðunar komi að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun um ráðningu í starf slökkviliðs- og eldvarnareftirlitsmanns við slökkvilið brunavarna Skagafjarðar var gild.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta