Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 05010082

Hinn 8. nóvember 2005, er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 16. febrúar 2005 kæra Jóns V. Gíslasonar vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 7. janúar 2005 um mat á umhverfisáhrifum landfyllinga við vestan- og norðanvert Gufunes í Reykjavík.

I. Hin kærða ákvörðun og kröfur kæranda.

Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum frá 7. janúar 2005 á fyrirhugaða gerð landfyllinga við vestan- og norðanvert Gufunes í Reykjavík með því skilyrði að framkvæmdir við gerð grjótvarnargarðs og þvergarða innan hans verði utan göngutíma laxfiska, þ.e. frá 1. maí til 30. september.

Í kæru er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

II. Einstakar málsástæður kæranda og umsagnir um þær.

Framangreind kæra var þann 21. febrúar 2005 send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Reykjavíkurborgar, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 11. mars 2005, Umhverfis- og heilbrigðisstofu, nú umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, þann 13. mars 2005, Umhverfisstofnunar þann 8. apríl 2005 og Reykjavíkurborgar þann 11. mars 2005. Umsagnirnar voru þann 15. apríl sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir kæranda bárust þann 6. maí 2005.

1. Tengsl við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum Sundabrautar.

Kærandi bendir á að í ferli hjá umhverfisráðherra sé kæra vegna 1. áfanga Sundabrautar sem ekki hafi verið úrskurðað um og fyrirhuguð framkvæmd eins og hún sé kynnt í úrskurði Skipulagsstofnunar geti haft veruleg áhrif á. Í kæru vegna lagningar Sundabrautar séu lagðar fram tillögur sem hafi áhrif á nýtingu og framkvæmdir á fyrirhugaðri landfyllingu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að kærandi sé að vísa til tillagna hans og annarra aðila í kæru vegna 1. áfanga Sundabrautar þar sem lagt er til að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði færð á landfyllingu vestan Gufuneshöfða og tvær umferðarslaufur, sem fyrirhugaðar séu á gömlu sorphaugunum á Gufunesi, verði sameinaðar í eina á lóð Áburðarverksmiðjunnar eins langt frá íbúðarbyggð og unnt sé. Skipulagsstofnun vísar í þessu sambandi til umsagnar sinnar til ráðuneytisins vegna þess máls. Þar hafi komið fram að helsti ávinningur þess að leggja 1. áfanga Sundabrautar skv. leið III á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða fyrir hljóðvist í Hamrahverfi felist í því að brautin liggi heldur fjær íbúðarbyggðinni þar sem hún nálgast höfðann. Á móti vegi að sú útfærsla hafi í för með sér að hljóðstig á fyrirhuguðum landfyllingum við Gufunes verði hærra. Eins og fram komi í úrskurði stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum Sundabrautar hafi stofnunin talið að óvissa ríkti um hver áhrif leiðar III á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða kynnu að verða á lífríki svæðisins þar sem ekki hafi legið fyrir upplýsingar um stærð eða staðsetningu landfyllinga neðan höfðans og áhrif á strauma og lífríki. Því hafi ekki verið fallist á þennan kost við lagningu 1. áfanga Sundabrautar.

Varðandi þá kröfu kærenda í kæru um 1. áfanga Sundabrautar að tvær umferðarslaufur verði sameinaðar á lóð Áburðarverksmiðjunnar, bendir Skipulagsstofnun á að í því felist tillaga að nýjum kosti við 1. áfanga Sundabrautar umfram þá kosti sem kynntir voru í framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og lagðir voru fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar. Umrædd tillaga hafi ekki komið fram við gerð matsáætlunar eða við umfjöllun um matsskýrslu og hafi því ekki verið fjallað um hana í úrskurði Skipulagsstofnunar. Stofnunin hafi talið í umsögn sinni frá 11. febrúar 2005 að tillagan haggaði ekki niðurstöðu úrskurðar stofnunarinnar og bæri að vísa þeim hluta kærunnar frá.

Í umsögn Reykjavíkurborgar er það áréttað að landfyllingar í Gufunesi séu í samræmi við aðalskipulag og engin tillaga liggi fyrir um að breyta landfyllingunum vegna lagningar Sundabrautar. Hins vegar kunni mismunandi útfærslur Sundabrautar að hafa einhver áhrif á nýtingu landfyllingarinnar en um þá nýtingu sé ekki fjallað í mati á umhverfisáhrifum. Það verði gert við deiliskipulag byggðar á landi og á landfyllingum í Gufunesi.

Fram kemur í athugasemdum kæranda að ef fallist verði á kröfur hans og annarra um breytta legu Sundabrautar þá verði forsendur landfyllingarinnar og möguleikar til nýtingar hennar allt aðrar en áður. Telur kærandi að við deiliskipulagningu landfyllingarinnar verði of seint fyrir íbúanna að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Að hans mati er eðlilegt að metin séu áhrif framkvæmda á landfyllingu í heild, þ.e. bæði landfyllingin sjálf og fyrirhuguð byggð á landfyllingunni. Landfyllingin ein og sér hafi enga þýðingu.

 

2. Aðrir kostir.

Kærandi gerir athugasemdir við þá fullyrðingu í matsskýrslu að byggð í Álfsnesi, Geldinganesi eða í þriðja áfanga Úlfarsfellssvæðis styðji síður við markmið um hagkvæma nýtingu lands og þjónustukerfa en byggð á landfyllingum í Gufunesi og eru að mati kæranda engin rök færð fram fyrir því.

Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni að í matsskýrslu sé fjallað um hvaða markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 byggð á landfyllingum við Gufunes sé talin styðja, þ.e. um hagkvæma nýtingu lands og þjónustukerfa með því m.a. að takmarka útþenslu þéttbýlis, mynda samfellda byggð, endurskipuleggja vannýtt svæði, auka þéttleika byggðar og stytta fjarlægðir milli íbúa og starfa. Skipulagsstofnun telur að fullnægjandi rök hafi legið að baki þeirri ákvörðun framkvæmdaraðila um að leggja fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar gerð landfyllinga við Gufunes þar sem sá kostur næði frekar fram áðurnefndum markmiðum aðalskipulagsins en kostir sem gera ráð fyrir byggð á Álfsnesi, Geldingarnesi eða á Úlfarfellssvæði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, hafi bent á að það í athugasemdum við aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 að ekki væri hægt að líta á landfyllingar sem þéttingu byggðar, enda um gerð nýs lands að ræða og jafnframt að um leið og landi væri bætt við væri oftast gengið á ósnerta náttúru. Umhverfisstofnun geti því ekki tekið undir það með framkvæmdaraðila að með landfyllingum sé verið að endurskipuleggja vannýtt svæði eða auka þéttleika byggðar. Stofnunin bendir enn fremur á að hagkvæmni þeirra kosta sem tilgreindir eru varðandi íbúðarbyggð eru háðir ákveðnum forsendum enda kemur fram í matsskýrslu að ofangreindir kostir séu háðir framkvæmdum í stofnbrautakerfi svo sem Sundabraut.

Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar að sveitarfélagið telji að fyrirhuguð framkvæmd styðji framangreind markmið aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024. Gufunes liggi nær miðborg Reykjavíkur en önnur svæði sem nefnd eru í kæru. Þau svæði sem þar eru nefnd muni öll byggjast. Hvort eitt svæði er hagkvæmara til uppbyggingar en annað geti haft áhrif á röð framkvæmda en ekki hvort svæðið byggist yfirleitt. Þétting byggðar sem slík leiði til aukinnar hagkvæmni, jafnt fyrir sveitarfélagið sem og íbúa þess. Meðal annars verði akstursvegalengdir styttri en ella og auðveldara að byggja upp öflugar almenningssamgöngur. Út frá sjónarhóli Reykjavíkurborgar séu landfyllingar við Gufunes hagkvæmur kostur. Með gerð Sundabrautar liggi svæðið mjög vel við samgöngum og það liggi vel við öðrum þjónustu- og veitukerfum. Ekki síst með tilliti til uppbyggingar vegakerfis á höfuðborgarsvæðinu sé eðlilegt að Gufunes komi til uppbyggingar á undan fjarlægari svæðum t.d. Álfsnesi.

Kærandi mótmælir því að í aðalskipulagi séu landfyllingar aðgerðir sem fjallað sé um í tengslum við þéttingu byggðar. Sjálfsagt megi ganga út frá því að umrædd svæði á Álfsnesi, Geldingarnesi og í Úlfarsfelli muni byggjast upp í framtíðinni en engan veginn sé hægt að ganga út frá því að allir þeir staðir þar sem möguleiki er á landfyllingu verði byggðir. Þeir staðir séu einfaldlega ekki allir hagkvæmir bornir saman við landsvæði sem ekki þurfi að búa til með fyllingum í sjó. Útreikningar á hagkvæmni landfyllingar í Gufunesi hafi hvergi verið lagðir fram.

 

3. Aflagður sorpurðunarstaður í Gufunesi.

Kærandi bendir á að í hinum kærða úrskurði Skipulagsstofnunar komi fram að kanna þurfi hvort hægt verði að nýta landfyllinguna sem lóðir undir byggingar og íbúðarsvæði, en komið hafi fram að fyrirhuguð landfylling muni hindra frárennsli frá aflögðum urðunarstað í Gufunesi. Eðlilegt sé að mati kæranda að Skipulagsstofnun færi rök fyrir því hvort verkefnið sé gerlegt fyrir þá nýtingu sem það er hannað fyrir.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í hinum kærða úrskurði sé fjallað um mengun í botnseti við gömlu sorphaugana í Gufunesi og komi m.a. fram að niðurstöður sýnatöku á vegum Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur á svæði fyrirhugaðra landfyllinga hafi ekki gefið tilefni til frekari aðgerða. Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur og Umhverfisstofnun hafi í umsögnum sínum ekki gert athugasemdir við þennan þátt matsskýrslu. Skipulagsstofnun hafi talið að áformað fyrirkomulag við gerð landfyllinga, þ.e. gerð varnargarða og þvergarða, væri til þess fallið að draga úr umróti og útbreiðslu gruggs vegna framkvæmdanna. Þannig væri komist hjá neikvæðum áhrifum þeirra.

Skipulagsstofnun vekur athygli á því að uppbygging íbúðarbyggðar á umræddri landfyllingu fellur ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum heldur er fjallað um slíkar framkvæmdir við gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið. Skipulagsstofnun telur að gerð hafi verið fullnægjandi grein fyrir fyrirhugaðri íbúðabyggð í mati á umhverfisáhrifum landfyllingar í Gufunesi. Hvað varðar hugsanlegar takmarkanir á byggð á svæðinu, svo sem vegna mögulegs útstreymis mengunarefna, þá telur stofnunin að fjalla skuli um slíkar takmarkanir við gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið. Bendir Skipulagsstofnun á að í hinum kærða úrskurði sé fjallað um hættur vegna framkvæmdarinnar. Þar komi fram að óvissa ríki um þann tíma sem gas kunni að myndast í gömlu öskuhaugunum í Gufunesi og þá hættu sem fólki geti stafað af gasinu. Umhverfisstofnun hafi bent á í umsögn sinni að gera þurfi ítarlegt áhættumat vegna búsetu á svæðinu vegna gasmyndunar og hugsanlegs gasútstreymis frá haugunum. Telur Skipulagsstofnun að ástæða sé til að slíkt áhættumat sé gert í tengslum við gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið.

Miðað við lýsingu á gerð fyrirhugaðrar landfyllingar telur Umhverfisstofnun í umsögn sinni ekki mikla hættu á að landfylling leiði til hækkunar grunnvatnsborðs undan aflögðum urðunarstað í Gufunesi. Hins vegar hafi Umhverfisstofnun bent á að hætta gæti verið á að mengað sigvatn leki inn í kjallara húsa. Jafnframt hafi stofnunin bent á þann möguleika að ýmis mengandi efni, svo sem PAH-efni, geti borist inn í plastleiðslur fyrir neysluvatn ef mengað sigvatn renni stöðugt um lagnaleiðir. Því verði að mati stofnunarinnar að tryggja að sú hætta skapist ekki, m.a. með því að huga að legu lagna í landinu. Umhverfisstofnun hafi bent á það í umsögn sinni um mat á umhverfisáhrifum landfyllingar í Gufunesi að varasamt væri að fara í framkvæmdir og uppbyggingu á svæðinu án sértæks áhættumats fyrir fyrirhugaða íbúa og byggð á svæðinu. Umhverfisstofnun bendir á að Skipulagsstofnun hafi tekið undir framangreindar ábendingar því í niðurstöðu úrskurðar stofnunarinnar um landfyllingar við Gufunes komi fram að stofnunin telji ástæðu til að fram fari áhættumat vegna búsetu á svæðinu í tengslum við gerð skipulagsáætlana fyrir byggð á landfyllingum.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar telur að fyrirhuguð landfylling muni ekki valda aukinni mengun frá fyrrum sorpförgunarstað höfuðborgarsvæðisins við Gufunes. Sumarið 2003 og í febrúar 2004 hafi farið fram mælingar á mengunarefnum í frárennsli frá haugsvæðinu og í sjávarseti fyrir framan Gufuneshauga. Niðurstöður þessara mælinga gefi ekki tilefni til að ætla að mikil losun mengunarefna eigi sér stað en óvíst sé hvort það eigi við um ókomna framtíð. Það hafi verið mat Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, nú Umhverfissviðs, að fyrirhuguð landfylling myndi minnka losun mengunarefna í Elliðavoginn en efnin kynnu að safnast fyrir í staðinn í botni landfyllingarsvæðisins. Þó að það gerðist sé lítil sem engin hætta talin stafa af þessu enda myndi það jafngilda því að loka mengunarefni inni. Sú aðferð að loka mengunarefni inni með jarðefnahulu sé viðurkennd aðferð til að leysa jarðvegsmengunarvandamál. Umhverfissvið Reykjavíkurborgar telur því ekki miklar líkur á að nýting landfyllingarinnar hafi í för með sér hættu á mengun.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að samkvæmt þeim mælingum sem gerðar voru fyrir framan sorphaugana hafi lítið magn mengunarefna borist frá haugunum. En eftir standi þó að gasmyndun sé á haugunum. Tryggt verði að byggð sem rís í Gufuneslandinu stafi ekki hætta af þessari gasmyndun. Frekar sé horft til þess að nýta gasið til að knýja ökutæki. Í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum komi fram að ekki sé líklegt að starfsmönnum muni stafa hætta af gasmyndun á framkvæmdatíma.

Kærandi bendir í athugasemdum sínum á að Umhverfissvið Reykjavíkur sé aðili tengdur framkvæmdaraðila og að hans mati óásættanlegt að ekki sé fenginn óháður rannsóknaraðili til að framkvæma mengunarmælingar. Kærandi telur eðlilegt að áhættumat vegna búsetu á landfyllingunni fari fram áður en til framkvæmdarinnar kemur og spyr hvar framkvæmdin standi með tilliti til nýtingar og þéttingar byggðar ef niðurstaða áhættumats verður að ekki sé hægt að tryggja öryggi íbúa á svæðinu.

 

4. Sjónræn áhrif.

Kærandi telur að fyrirhuguð landfylling muni spilla ásýnd lands og breyta því útsýni sem íbúar nærliggjandi byggðar hafi reiknað með að hafa um ókomna tíð.

Skipulagsstofnun telur í umsögn sinni það mat kæranda rétt að fyrirhugaðar landfyllingar muni hafa áhrif á ásýnd svæðisins og breyti útsýni íbúa en stofnunin telur ekki að sjónræn áhrif landfyllinganna sjálfra verði verulega neikvæð. Í hinum kærða úrskurði komi fram það álit stofnunarinnar að Reykjavíkurborg eigi að skoða hvort svigrúm sé til að laga útlínur landfyllingar í Eiðsvík að útlínum strandlínu og landslagsheilda í samráði við Umhverfisstofnun. Skipulagsstofnun bendir á að í deiliskipulagi skuli fjalla um umhverfisáhrif þeirrar byggðar sem fyrirhuguð er á landfyllingunum svo sem sjónræn áhrif hennar.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að æskilegast væri að gert yrði heildstætt mat á umhverfisáhrifum landfyllingar og skipulagi byggðar á svæðinu, þar sem m.a. væri gerð grein fyrir sjónrænum áhrifum, svo sem fyrir íbúa í Rimahverfi. Í því sambandi mætti benda á að tilgangurinn með landfyllingunni væri fyrst og fremst að skapa land fyrir samfellda og þétta byggð og að án áforma um byggð á svæðinu væri ekki þörf fyrir landfyllingar við Gufunes. Eins og bent hafi verið á í matsskýrslu og í úrskurði Skipulagsstofnunar um landfyllingar við Gufunes falli landfyllingarnar undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en framkvæmdir við gerð íbúðarbyggðar hins vegar ekki. Í úrskurði Skipulagsstofnunar sé bent á að fjallað sé um framkvæmdir við gerð íbúðarbyggðar við gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið skv. ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi því eingöngu verið metin umhverfisáhrif landfyllinganna sjálfra. Í matsskýrslu komi þó fram að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir þéttri og hárri blandaðri byggð við Gufunes með íbúafjölda um 7500-9000 manns. Jafnframt hafi í matsskýrslu verið sýndar myndir sem gefa áttu hugmynd um hvernig svæðið gæti litið út eftir uppbyggingu hverfisins en þó skýrt tekið fram að þær gæfu aðeins grófa hugmynd um ásýnd svæðisins. Umhverfisstofnun telur að fyrirhugaðar landfyllingar sem slíkar séu ekki líklegar til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum á landslag en hins vegar muni íbúðarbyggð á landfyllingunum hafa töluverð sjónræn áhrif, ekki síst ef þar rísi þétt og há byggð eins og áætlað er skv. umfjöllun í matsskýrslu. Sú byggð muni að mati stofnunarinnar óneitanlega hafa áhrif á ásýnd lands og spilla útsýni íbúa í þeim hverfum sem nú þegar eru risin í Grafarvogi.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að fyrirhugaðar landfyllingar muni vissulega breyta ásýnd landsins og þar með því útsýni sem íbúar norðurhluta Hamrahverfis njóti nú. Fyrirhuguð uppbygging á landfyllinguni muni þó breyta ásýnd landsins mun meira en ákvörðun um hana hafi verið tekin við gerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 og sé ekki til frekari umfjöllunar við mat á umhverfisáhrifum landfyllinganna.

 

5. Áhrif á framkvæmdatíma.

Kærandi telur að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa í för með sér röskun á högum íbúa Grafarvogs á framkvæmdatíma. Stórflutningar um hverfið, sandfok, hávaði og önnur óþægindi séu dæmi um slíka röskun. Gera megi ráð fyrir að þessi röskun muni vara í mörg ár. Í kæru kemur ennfremur fram að ekki liggi fyrir hvers vegna gert sé ráð fyrir að þegar lagningu Sundabrautar sé lokið dragi úr áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á menn og samfélag og því þurfi ekki að grípa til mótvægisaðgerða.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að samkvæmt framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar verði um að ræða nokkra aukningu þungaumferðar um Grafarvog vegna efnisflutninga úr námum á landi og húsgrunnum í fyrirhugaðar landfyllingar og því ljóst að ekki verður komist hjá nokkru ónæði fyrir íbúa í nærliggjandi hverfum. Gert sé ráð fyrir að aukningin verði um 10% á Gullinbrú, 25% á Strandvegi og 30% á Gufunesvegi miðað við 8 ára framkvæmdatíma. Komist Sundabraut í notkun á þessu tímabili megi gera ráð fyrir að umferð um Gullinbrú minnki á seinnihluta framkvæmdanna. Skipulagsstofnun hafi í hinum kærða úrskurði talið að hljóðstigsaukning vegna aukinnar umferðar þungaflutningabifreiða myndu þó ekki verða það mikil, miðað við núverandi aðstæður, að það kallaði á sérstakar mótvægisaðgerðir aðrar en þær að ekki verður leyfð slík umferð að næturlagi eins og fram kemur í framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um þetta atriði segir: „Samkvæmt matsskýrslu verður til landfyllinganna að mestu notað sjódælt efni og uppgrafið efni sem til fellur, aðallega vegna jarðvinnuframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, en auk þess verður notuð sprengd klöpp úr námu og líkur eru á að nýta megi dýpkunarefni úr dýpkunarframkvæmdum við Sundahöfn. Í matsskýrslu kemur jafnframt fram að ef reiknað er með að 1.000.000 m3 geti nýst úr jarðvinnuframkvæmdum og miðað við að uppbyggingarhraði verði 8 ár myndi það þýða um 95 ferðir vörubíla á dag á þeim tíma. Miðað við þær forsendur að uppfyllingarefni verði að miklu leyti sjódælt efni og dýpkunarefni sbr. töflu á bls. 43 í matsskýrslu og hlutfallsleg aukning þungaumferðar á framkvæmdatíma verði sú sem tilgreind er í matsskýrslu getur Umhverfisstofnun fallist á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að ónæði í nærliggjandi íbúðahverfum vegna efnisflutninga verði ekki verulegt, sbr. kafla 5.1 í úrskurði Skipulagsstofnunar."

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að ekki verði hjá því komist að framkvæmd sem þessi muni hafa einhver óþægindi í för með sér á framkvæmdatíma en leitast verði við að halda þeim í lágmarki. Meirihluti fyllingarefnisins verði fluttur sjóleiðina á fyllingarstað. Allt nýtanlegt efni sem fellur til á landi verði þó flutt landleiðina og þá væntanlega að mestu leyti um Gullinbrú. Fyrirhuguð lagning Sundabrautar muni létta umferð af Gullinbrú og þar með ónæði í byggð í Grafarvogi. Í mati á umhverfisáhrifum sé ítarlega gerð grein fyrir efnisflutningum á framkvæmdatíma. Viðbótarumferð vegna þeirra verði tiltölulega lítil að mati framkvæmdaraðila. Tekið er undir það sjónarmið að huga þurfi að foki á framkvæmdatíma. Það verði gert með því að takmarka það svæði sem fyllt sé hverju sinni og binda yfirborð eða hylja með grófara efni. Stór hluti fyllinga séu þó undir sjávarmáli sem ekki rjúki úr.

Kærandi mótmælir því að þungaflutningar sem nemi 100 ferðum á dag í 8-10 ár valdi ekki umtalsverðri röskun fyrir íbúanna. Sama megi segja um sand- og moldrok frá uppfyllingarsvæðinu í 8-10 ár. Þeir sem fyrir óþægindunum verði hljóti að vera betur færir um að meta þau en framkvæmdaraðili. Hafa verði í huga þau gæði sem íbúarnir búi við í dag.

 

6. Starfsemi Björgunar ehf.

Fram kemur í kæru að íbúar Hamrahverfis í Grafarvogi hafi í mörg ár mótmælt starfsemi Björgunar inni í íbúðarhverfi vegna ónæðis sem frá henni stafar. Nú sé fyrirhugað að flytja starfsemina að hinu nýja landfyllingarsvæði og telur kærandi þá fyrirætlan algerlega óásættanlega fyrir íbúana. Í raun sé með því verið að færa til vandamálið enda sé fyrirhuguð byggð á landfyllingunni mun nær starfsemi Björgunar eftir flutning heldur en er nú í Hamrahverfi.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að í framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar vegna mats á umhverfisáhrifum landfyllinga við Gufunes sé engin umfjöllun um hvers konar starfsemi sé fyrirhuguð á landfyllingunum utan þess að markmið með gerð þeirra sé að útbúa land fyrir samfellda og þétta, blandaða byggð. Á landfyllingum og í landi Gufuness sé gert ráð fyrir um 7500-9000 íbúa byggð.

Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar að fyrirséð sé að starfsemi Björgunar verði flutt innan tíðar og í síðasta lagi árið 2009 þegar samningur um lóðarafnot rennur út. Til álita komi að flytja starfsemina á landfyllinguna en það sé ekki afráðið. Starfsemi Björgunar sé starfsleyfisskyld og verði horft á truflun og ónæði hjá nágrönnum við útgáfu starfsleyfis. Við ákvörðun um staðsetningu starfseminnar á fyllingarsvæðinu komi þessir þættir einnig til skoðunar.

 

III. Niðurstaða.

1. Tengsl við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum Sundabrautar.

Kærandi bendir á að í ferli hjá umhverfisráðherra sé kæra vegna 1. áfanga Sundabrautar sem ekki hafi verið úrskurðað um og fyrirhuguð framkvæmd eins og hún sé kynnt í úrskurði Skipulagsstofnunar geti haft veruleg áhrif á.

Í umræddri kæru vegna 1. áfanga Sundabrautar er lagt til að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði færð á landfyllingu vestan Gufuneshöfða og tvær umferðarslaufur, sem fyrirhugaðar eru á gömlu sorphaugunum á Gufunesi, verði sameinaðar í eina á lóð Áburðarverksmiðjunnar eins langt frá íbúðarbyggð og unnt er. Kærandi í máli þessu er einn af kærendum vegna 1. áfanga Sundabrautar. Framangreind tvö kærumál hafa samtímis verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og liggur nú fyrir úrskurður um mat á umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar dags. 8. nóvember 2005. Niðurstaða þess máls er að úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2004 er staðfestur að viðbættum skilyrðum. Að mati ráðuneytisins hefur niðurstaða þess máls ekki áhrif á mat á umhverfisáhrifum landfyllinga við Gufunes.

 

2. Aðrir kostir.

Kærandi gerir athugasemdir við þá fullyrðingu í matsskýrslu að byggð í Álfsnesi, Geldinganesi eða í þriðja áfanga Úlfarsfellssvæðis styðji síður við markmið um hagkvæma nýtingu lands og þjónustukerfa en byggð á landfyllingum í Gufunesi og eru að mati kæranda engin rök færð fram fyrir því.

Þau markmið aðalskipulags Reykjavíkur sem umrædd framkvæmd á landfyllingum við Gufunes er talin styðja fjalla um hagkvæma nýtingu lands og þjónustukerfa með því m.a. að takmarka útþenslu þéttbýlis, mynda samfellda byggð, endurskipuleggja vannýtt svæði, auka þéttleika byggðar og stytta fjarlægðir milli íbúa og starfa. Skipulagsyfirvöld á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg, sem jafnframt er framkvæmdaraðili í máli þessu, telja að fyrirhuguð framkvæmd samrýmist framangreindum markmiðum aðalskipulagsins. Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar að gert sé ráð fyrir að öll þau svæði sem nefnd eru í kæru muni verða byggð í framtíðinni en hagkvæmni muni ráða því í hvaða röð það verði gert. Ráðuneytið telur að fjallað sé með fullnægjandi hætti í matsskýrslu um markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar og samræmi hennar við markmið aðalskipulags Reykjavíkurborgar.

 

3. Aflagður sorpurðunarstaður í Gufunesi.

Kærandi bendir á að í hinum kærða úrskurði Skipulagsstofnunar komi fram að kanna þurfi hvort hægt verði að nýta landfyllinguna sem lóðir undir byggingar og íbúðarsvæði, en komið hafi fram að fyrirhuguð landfylling muni hindra frárennsli frá aflögðum urðunarstað í Gufunesi. Eðlilegt sé að mati kæranda að Skipulagsstofnun færi rök fyrir því hvort verkefnið sé gerlegt fyrir þá nýtingu sem það er hannað fyrir.

Í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði er fjallað um mengun í botnseti við gömlu sorphaugana í Gufunesi og þar kemur m.a. fram að niðurstöður sýnatöku á vegum Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur á svæði fyrirhugaðra landfyllinga hafi ekki gefið tilefni til að ætla að mikil losun mengunarefna eigi sér stað frá sorphaugunum. Ráðuneytið telur að áformað fyrirkomulag við gerð landfyllinga, þ.e. gerð varnargarða og þvergarða, sé til þess fallið að draga úr umróti og útbreiðslu gruggs vegna framkvæmdanna og þannig megi komast hjá neikvæðum áhrifum þeirra. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun benda hins vegar á að útstreymi mengunarefna kunni að valda vandræðum við uppbyggingu byggðar á landfyllingunni. Meðal þess sem Umhverfisstofnun nefnir er að mengað sigvatn geti lekið inn í kjallara húsa eða inn í plastleiðslur fyrir neysluvatn ef mengað sigvatn rennur stöðugt um lagnaleiðir. Einnig nefnir stofnunin hugsanlega gasmyndun í lokuðum rýmum t.d. geymslum og bílakjöllurum og á skjólsælum stöðum utandyra. Stofnanirnar eru sammála um að áður en til uppbyggingar á svæðinu kemur og í tengslum við gerð skipulagsáætlana þar þurfi að fara fram áhættumat vegna framangreindra þátta.

Landfyllingar, 5 ha eða stærri, falla undir h. lið 10. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Skipulag og uppbygging byggðar á slíkri landfyllingu fellur hins vegar ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum heldur skipulags- og byggingarlög, sbr. m.a. 9. gr. þeirra laga. Ráðuneytið tekur undir með Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun að nauðsynlegt sé við deiliskipulag byggðar á umræddri landfyllingu sé sérstakt tillit tekið til nálægðarinnar við hinn aflagða sorpurðunarstað og áhættumat framkvæmt þannig að unnt verði að haga framkvæmdum þannig að íbúum og starfsmönnum stafi ekki hætta af. Að mati ráðuneytisins fellur gerð slíks áhættumats hins vegar utan mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar landfyllingar.

 

4. Sjónræn áhrif.

Kærandi telur að fyrirhuguð landfylling muni spilla ásýnd lands og breyta því útsýni sem íbúar nærliggjandi byggðar hafi reiknað með að hafa um ókomna tíð.

Eins og áður segir fellur það utan mats á umhverfisáhrifum landfyllingar við Gufunes að meta umhverfisáhrif fyrirhugaðrar byggðar á landfyllingunni. Ráðuneytið tekur undir það með Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun að fyrirhugaðar landfyllingar muni hafa áhrif á ásýnd svæðisins og breyta útsýni íbúa. Telur ráðuneytið að sjónrænum áhrifum landfyllinganna sjálfra sé nægjanlega lýst í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði og að þau verði ekki veruleg. Ráðuneytið bendir hins vegar á að í tengslum við gerð deiliskipulags fyrir byggð á landfyllingunni geta íbúar komið að athugasemdum og haft áhrif á endanlegt útlit svæðisins, t.d. varðandi hæð bygginga. Ráðuneytið tekur ennfremur undir með Skipulagsstofnun að rétt sé að Reykjavíkurborg skoði við gerð deiliskipulags svæðisins hvort svigrúm sé til að laga útlínur landfyllingar í Eiðsvík að útlínum strandlínu og landslagsheilda í samráði við Umhverfisstofnun.

 

5. Áhrif á framkvæmdatíma.

Kærandi telur að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa í för með sér röskun á högum íbúa Grafarvogs á framkvæmdatíma. Stórflutningar um hverfið, sandfok, hávaði og önnur óþægindi séu dæmi um slíka röskun.

Gerð er ítarleg grein í matsskýrslu fyrir efnisflutningum vegna fyrirhugaðrar landfyllingar bæði á sjó og landi. Gert er ráð fyrir nokkurri aukningu þungaumferðar um Grafarvog vegna efnisflutninga úr námum á landi og húsgrunnum í fyrirhugaðar landfyllingar. Í matsskýrslu kemur fram að miðað við 8 ára framkvæmdatíma megi gera ráð fyrir um 95 ferðum vörubíla á dag vegna efnisflutninga á landi. Ljóst er að sú aukning mun valda tímabundnum óþægindum fyrir íbúa í nærliggjandi hverfum en ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun að þau áhrif séu ekki veruleg. Ráðuneytið tekur ennfremur undir með Skipulagsstofnun að líklegt sé að álag á Gullinbrú muni minnka ef Sundabraut verður tekin í notkun á framkvæmdatíma landfyllingarinnar. Hvað varðar mold- og sandfok frá landfyllingunni á framkvæmdatíma þá hefur framkvæmdaraðili lýst því yfir að leitast verði við að halda því í lágmarki, m.a. með því að takmarka það svæði sem fyllt er hverju sinni og binda yfirborð eða hylja með grófara efni. Ráðuneytið telur framangreindar ráðstafanir nægjanlegar og að neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á framkvæmdatíma séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

6. Starfsemi Björgunar ehf.

Fram kemur í kæru að íbúar Hamrahverfis í Grafarvogi hafi í mörg ár mótmælt starfsemi Björgunar ehf. inni í íbúðarhverfi vegna ónæðis sem frá henni stafar. Nú sé fyrirhugað að flytja starfsemina að hinu nýja landfyllingarsvæði og telur kærandi þá fyrirætlan algerlega óásættanlega fyrir íbúana.

Fram kemur í gögnum málsins að ekki hafi verið tekin ákvörðun um flutning starfsemi Björgunar ehf. á fyrirhugaða landfyllingu við Gufunes. Verði það gert skal um það fjallað við gerð deiliskipulags fyrir svæðið og við útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemina skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að almenningi gefist kostur á að koma að athugasemdum sínum í tengslum við ákvarðanatöku yfirvalda. Ráðuneytið telur ekki efni til að fjalla frekar um hugsanlega starfsemi Björgunar ehf. á fyrirhugaðri landfyllingu við Gufunes í tengslum við mat á umhverfisáhrifum .

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta skuli hinn kærða úrskurð.

Úrskurðarorð:

Staðfestur er úrskurður Skipulagsstofnunar frá 7. janúar 2005 um mat á umhverfisáhrifum landfyllinga við vestan- og norðanvert Gufunes í Reykjavík.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta