Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 05090051

Hinn 9. maí 2006, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 14. október 2005 kæra Vegagerðarinnar vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 8. september 2005 um mat á umhverfisáhrifum vegar um Arnkötludal og Gautsdal.

I. Hin kærða ákvörðun.

Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum frá 8. september 2005 á fyrirhugaða lagningu vegar um Arnkötludal og Gautsdal í Hólmavíkurhreppi og Reykhólahreppi skv. leiðum 1, 6N, 2S, 3S og 4S með 5 skilyrðum. Leið 1 er valkostur framkvæmdaraðila. Í máli þessu lúta kröfur kæranda að skilyrðum 2 og 3 í hinum kærða úrskurði en þau eru eftirfarandi:

„2. Framkvæmdaraðili þarf að tryggja á varptíma, frá maílokum og fram undir ágústlok,

standi ekki yfir framkvæmdir á svæði frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal og við

Foss í Gautsdal.

3. Framkvæmdaraðili þarf, í samráði við veiðimálastjóra, að tryggja að grugg berist ekki í

fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september".

II. Málsatvik og kröfur kæranda.

Fyrirhuguð framkvæmd er lagning 25 km nýs vegar milli Króksfjarðar í Reykhólahreppi og Steingrímsfjarðar í Hólmavíkurhreppi. Markmið framkvæmdarinnar er að stytta vegalengdir milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins og auka um leið umferðaröryggi á þeirri leið. Einnig að bæta samgöngur á milli sveitarfélaganna á norðanverðum Ströndum annars vegar og Reykhólahrepps, Saurbæjarhrepps og Dalabyggðar hins vegar.

Með matsskýrslu framkvæmdaraðila fylgdi sérfræðiskýrsla Náttúrustofu Vestfjarða um fuglalíf í Geirdal, Bakkadal, Gautsdal og Arnkötludal frá apríl 2005.

Eftir að hinn kærði úrskurður féll í máli þessu, leitaði framkvæmdaraðili eftir túlkun Náttúrustofu Vestfjarða í bréfi dags. 7. október 2005 á matsskýrslu og umsögnum Umhverfisstofnunar, Veiðimálastofnunar og Veiðimálastjóra til að meta hvort skilyrði í úrskurðinum gangi lengra en venjur eða hefðir eða séu í samræmi við aðra úrskurði eins og nánar er lýst í kafla 1.1 hér á eftir. Svar Náttúrustofu Vestfjarða barst með bréfi dags. 7. október 2005.

Framangreind kæra var þann 24. október 2005 send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Veiðimálastjóra, Hólmavíkurhrepps og Reykhólahrepps. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dags. 14. nóvember 2005, Umhverfisstofnunar dags. 15. nóvember 2005, Veiðimálstjóra dags. 30. október 2005, Hólmavíkurhrepps dags. 10. nóvember 2005 og Reykhólahrepps dags. 23. nóvember 2005. Umsagnir voru með bréfi dags. 29. nóvember 2005 sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 9. desember 2005. Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu Skipulagsstofnunar þann 21. apríl 2005 til leiðar 6-N varðandi þá beiðni Umhverfisstofnunar að leið 6-N yrði hafnað. Svör Skipulagsstofnunar bárust þann 25. apríl 2005. Ráðuneytið gaf kæranda kost á með bréfi dags 26. apríl 2005 að tjá sig um framkomna umsögn Skipulagsstofnunar og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 8. maí 2006.

Í kæru er þess aðallega krafist að skilyrði 2 og 3 í úrskurði Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi en að úrskurðurinn sé staðfestur að öðru leyti. Til vara er þess krafist að skilyrði 2 verði breytt á þann veg að framkvæmdir á leið 6-N neðan Þvergils og efnistaka úr svæði A verði ekki á tímabilinu 01.06.-30.09 en skilyrði 3 verði fellt úr gildi og úrskurður staðfestur að öðru leyti.

III. Einstakar málsástæður kæranda og umsagnir um þær.

1. Skilyrði 2.

1.1 Skilyrði 2 verði fellt úr gildi.

Í kæru kemur fram að í kjölfar úrskurðar um ofangreinda framkvæmd hafi kærandi leitað eftir áliti Náttúrustofu Vestfjarða á skilyrði 2 auk skilyrðis 3, með bréfi dags. 7. október 2005. Fram kemur í erindi kæranda til stofunnar að skilyrðin séu afar ströng, nánast svo ströng, að ekki sé unnt að vinna að vegagerð á hefðbundnum framkvæmdatíma. Kærandi hafi óskað eftir túlkun Náttúrustofu Vestfjarða á frumtexta matsskýrslu svo og umsögn Umhverfisstofnunar, hvað þetta skilyrði varðar. Í svari Náttúrustofu Vestfjarða til kæranda, sbr. bréf dags. 7. október 2005 varðandi skilyrði 2 segir að greinilegt sé að niðurstaða Umhverfisstofnunar eigi við leið 6-N og því sé óheppilegt að ekki sé gerður greinarmunur á leið 1 annars vegar og leið 6-N hins vegar, þar sem framkvæmdaraðili ætli ekki að nota leið 6-N. Ennfremur er vísað til álits sem Náttúrustofa Vestfjarða hafi leitað eftir hjá Kristni Hauki Skarphéðinssyni fuglafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem segir:

„Ég tel að þau takmörkuðu gögn sem til eru um varp gulandar í dalnum gefi varla tilefni til svo íþyngjandi skilyrða, þ.e. að ekki megi vinna að framkvæmdum með margra km löngum kafla meðfram ánni lungann úr sumrinu eða frá Hrófá að Vonarholti. Það er sjálfsagt að hlífa tilteknum varpstöðum sjaldgæfra tegunda, svo fremi sem þeir séu þekktir. Slíkt á varla við í þessu tilviki, þótt líta megi á alla ána sem búsvæði, bæði gulandar og straumandar, þar á meðal títtnefnt gil við Foss. Talsvert svigrúm ætti að vera fyrir þessar tegundir hér og þar á ánni og þær gætu því væntanlega flutt sig tímabundið um set meðan á framkvæmdum stendur við einstaka kafla árinnar. Öðru máli gegnir ef um varanlegar skemmdir á hefðbundnum varpstöðum en í þeim tilvikum má búast við því að þær tegundir sem nýta slíka staði hrökklist á brott eða hætti varpi með öllu á áhrifasvæði einstakra framkvæmda."."

Þá segir að það sé niðurstaða Náttúrustofu Vestfjarða að hinn kærði úrskurður sé byggður á misskilningi og ekki sé ástæða til að banna framkvæmdir á leið 1 frá maílokum og framundir ágústlok. Kærandi tekur undir álit Náttúrustofu Vestfjarða og að ljóst sé að ekki hafi verið gerður nægur greinarmunur á leiðum 1, valkosti framkvæmdaraðila, og leið 6-N sem kynnt sé til samanburðar. Skýran greinarmun hafi átt að gera á milli framangreindra leiða þar sem ólíkar aðstæður séu á þeim.

Kærandi telur að framkvæmd verksins verði miklum vandkvæðum bundin vegna skilyrðis 2. Það feli í sér mjög afdrifaríkar takmarkanir á framkvæmdatíma en aðalframkvæmdatími ársins í vegagerð sé að sumarlagi þar sem þá séu skilyrði til framkvæmda ákjósanlegust ekki síst á heiðum uppi. Skilja verði úrskurð Skipulagsstofnunar þannig að algert bann sé lagt við framkvæmdum yfir varptímann á um 8 km. kafla frá Hrófá að Vonarholti. Ekki sé með góðu móti hægt að vinna að vegagerð við þær takmarkanir sem samkvæmt því yrðu lagðar á framkvæmdaraðila. Svo miklar takmarkanir á framkvæmdatíma á stórum hluta vegarins telur kærandi að verði að styðja veigamiklum umhverfisverndarrökum. Þar sem ekkert bendi til þess að nauðsynlegt sé að setja svo þröngar takmarkanir beri að ógilda skilyrði 2.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram, varðandi þá athugasemd kæranda að ekki sé gerður greinarmunur á leið 1 og leið 6-N, að stofnunin hafi byggt niðurstöðu sína m.a. á matsskýrslu (kafli 6.1.3, bls. 65) og sérfræðiskýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um fuglalíf. Þar kom eftirfarandi fram, bls. 22: „Sumarið allt er viðkvæmur framkvæmdatími en ef litið er til sjaldgæfra tegunda þá er hægt að taka nokkur svæði út. Gulöndin verpir frekar seint og hún gæti verið með unga á ánum fram í september. Það er því mikilvægt að framkvæmdir séu ekki á svæði frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal og við Foss í Gautsdal frá maílokum og fram undir ágústlok. Hluti af leið 1 liggur nokkuð langt frá Arnkötludalsá og ættu framkvæmdir á þeim kafla ekki að hafa áhrif en aftur á móti er náma A rétt við ána og hefði efnistaka þar á varptíma e.t.v. einhver áhrif". „Leið 6-N liggur alveg við Arnkötludalsá og er því allt sumarið viðkvæmur framkvæmdatími á þeirri leið". Jafnframt bendir Skipulagsstofnun á að eftirfarandi komi fram í samantekt í matsskýrslu á bls 2: „Staðsetning veglína og efnistökusvæða mun ekki hafa áhrif á gulönd en framkvæmdir á varptíma gætu þó haft truflandi áhrif á hana á svæði frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal og við Foss í Gautsdal".

Skipulagsstofnun bendir á að í matsskýrslu og sérfræðiskýrslu komi skýrt fram að við Foss í Gautsdal sé hugsanlegur varpstaður gulandar innan við námu 60 en á þessum kafla í Gautsdal sé einungis gert ráð fyrir veglagningu skv. leið 1 og efnistöku úr námu 60 henni samfara. Jafnframt bendir stofnunin á að samkvæmt niðurstöðu höfunda sérfræðiskýrslu um fuglalíf verði ekki ráðið að gerður sé skýr greinarmunur á því hvort um sé að ræða framkvæmdir skv. leið 1 eða leið 6-N á kaflanum frá Hrófá að Vonarholti. Af ofangreindu orðalagi virðist ennfremur vera ljóst að fyrrnefndar tímatakmarkanir á þessum kafla séu lagðar til í matsskýrslu vegna truflandi áhrifa á válistategundina gulönd. Ekki komi fram til hvaða kafla á leið 1 verið sé að vísa þar sem segi að leið 1 liggi nokkuð langt frá Arnkötludalsá og að þar ættu framkvæmdir ekki að hafa áhrif á gulönd. Við nánari skoðun á teikningu 01 í matsskýrslu telur Skipulagsstofnun að hugsanlega sé átt við kaflann frá stöð 2.000 að stöð 4.000 þar sem báðar veglínur þ. e. leið 1 og 6-N liggi vestan Arnkötludalsár. Sé það raunin sé einungis um hluta af leiðinni frá Hrófá að Vonarholti að ræða þ.e. 2 km af 6 km. Álit Náttúrustofu Vestfjarða um mikilvægi á tímatakmörkunum við framkvæmdir hafi verið sett fram í beinu framhaldi af umfjöllun um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á varp gulandar og því hafi legið beinast við að Skipulagsstofnun kæmist að þeirri niðurstöðu að árétta mikilvægi tímatakmarkana í skilyrði til að draga úr hugsanlegum áhrifum framkvæmda á gulönd.

Skipulagsstofnun hafi einnig byggt skilyrði 2 á umfjöllun um mótvægisaðgerðir í matsskýrslu (kafli 7.1, bls. 70). Þar komi fram að: „Til þess að lágmarka áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf mun ekki verða um framkvæmdir að ræða á hugsanlegum varpsvæðum gulandar við Foss í Gautsdal og frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal. Tímabilið er frá júníbyrjun til ágústloka". Hér sé ennfremur ekki greint á milli leiða 1 og 6-N þegar settar séu fram þessar mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðili hyggist viðhafa.

Stofnunin hafi talið í ljósi orðalags m.a. um mótvægisaðgerðir, í samantekt og í matsskýrslu sem rakið hefur verið hér að framan, að ekki væru forsendur til að binda skilyrði 2 um takmarkanir á framkvæmdatíma eingöngu við veglagningu skv. leið 6-N. Skipulagsstofnun telur að í ljósi umfjöllunar í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila sem byggðu m.a. á gögnum frá Náttúrustofu Vestfjarða, hafi ekki verið forsendur til að greina á milli áhrifa leiða 1 og 6-N á válistategundina gulönd, sem samkvæmt listanum sé í yfirvofandi hættu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að niðurstaða í umsögn

stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar hvað varðar áhrif á fuglalíf hafi byggst á tilmælum sem fram komu í greinargerð Náttúrustofu Vestfjarða um fuglalíf og á umfjöllun í matsskýrslu. Jafnframt vísar stofnunin til umfjöllunar í matsskýrslu þar sem segir: „Þessi leið (leið 1, innskot ráðun. ) mun ekki hafa áhrif á neinar sjaldgæfar jurta- eða dýrategundir. Framkvæmdir á varptíma við Foss í Gautsdal og þar sem leið 1 liggur nálægt Arnkötludalsá frá Hrófá að Vonarholti gætu þó haft truflandi áhrif á hugsanlegt gulandarvarp...." Í umfjöllun um mótvægisaðgerðir vegna fuglalífs segi í matsskýrslu: „Til þess að lágmarka áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf mun ekki verða framkvæmdir um að ræða á hugsanlegum varpstöðum gulandar við Foss í Gautsdal og frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal. Tímabilið er frá júní byrjun til ágústloka." Umhverfisstofnun telur að skilyrði 2 sé í samræmi við umfjöllun í matsskýrslu og tillögu um mótvægisaðgerð sem þar var sett fram. Því sé vandséð að skilyrðið sé byggt á misskilningi eins og niðurstaðan sé í áliti Náttúrustofu Vestfjarða.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að skilyrði 2 taki annars vegar til efnistöku úr námu A við stöð 3.900 og hins vegar til veglagningar frá stöð 2.000 að stöð 8.000 við Vonarholt eða á um 6 km kafla og að stofnunin geti fallist á að það hefði mátt koma fram skýrar í hinum kærða úrskurði. Skipulagsstofnun bendir hins vegar á að hér sé um að ræða tæplega fjórðung af heildarlengd vegarins. Varðandi þann hluta skilyrðis 2 er varðar námu 60 við Foss í Gautsdal vegna leiðar 1 bendir Skipulagsstofnun á að í matsskýrslu segi á bls. 65: „Náma 60 er rétt sunnan við Foss í Gautsdal en nálægt honum eru hugsanlegir varpstaðir gulandar. Efnistaka úr námu 60 ætti þó ekki að spilla neinum mögulegum varpstað en framkvæmdir í námunni á varptíma gætu þó spillt fyrir mögulegu varpi". Skilyrði 2 hafi verið byggt á áliti Náttúrustofu Vestfjarða auk umsagnar Umhverfisstofnunar.

Varðandi álit Kristins Hauks Skarphéðinssonar fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands tekur Skipulagsstofnun undir það sem fram kemur í álitinu að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila séu takmarkaðar upplýsingar um varp gulandar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Skipulagsstofnun taldi engu að síður, með hliðsjón af orðalagi í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila um fuglalíf og þeim aðgerðum til mótvægis sem fram komu í matsskýrslu, að rétt væri að setja fyrrnefnt skilyrði 2 til áréttingar. Til þess að unnt sé að fella skilyrði 2 í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar alfarið eða að hluta úr gildi, telur Skipulagsstofnun eðlilegt að framkvæmdaraðili láti kanna frekar hugsanleg varpsvæði gulandar og straumandar á válista áður en til framkvæmda komi til þess að ganga úr skugga um að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki í för með sér verulega neikvæð áhrif á fyrrnefndar tegundir. Eðlilegt væri að niðurstöður slíkrar könnunar ásamt áformum um framkvæmdatíma yrðu bornar undir Umhverfisstofnun.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að gulönd sé á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í yfirvofandi hættu. Stofnunin telji mikilvægt að við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um fuglalíf þannig að hægt sé að meta hvort fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft áhrif á tegundir sem eru á válista og hvort ástæða sé til að grípa til mótvægisaðgerða til að draga úr umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þar sem um sé að ræða tegund sem er á válista telur Umhverfisstofnun að gæta eigi varúðarsjónarmiða og tryggja að ekki sé hætta á að framkvæmdir raski varpstöðum gulandar. Yrði um varanlegar skemmdir á varpstöðum af völdum framkvæmdarinnar að ræða væri hætta á að varp á áhrifasvæði framkvæmdarinnar myndi þar með leggjast af sbr. álit Kristins Hauks Skarphéðinssonar en fuglinn mundi ekki færa sig til með varpið eins og segi í kæru. Umhverfisstofnun telur því rétt að fram fari frekari athugun á fuglalífi næsta sumar til að fá úr því skorið hvort varpstaði gulandar sé að finna á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Ef í ljós komi að gulönd verpi þar verði gripið til aðgerða sem tryggi að varpstaðir raskist ekki og til þeirra mótvægisaðgerða að framkvæmdir á viðkomandi svæðum verði ekki innan þess tímabils sem tilgreint er í skilyrði 2.

Í athugasemdum kæranda við umsögn Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar segir að af samanburði umfjöllunar á bls. 69 í matsskýrslu megi sjá að mikill munur sé á niðurstöðu matsskýrslu eftir því hvort um sé að ræða leið 1 eða leið 6N. Meginmunurinn liggi í því að hugsanlegt sé talið að gulandavarp sé að finna þar sem leið 1 liggur nálægt Arnkötludalsá og að Fossi í Gautsdal á leið 1. Hins vegar sé fjölbreytt fuglalíf á leið 6-N og áhrif á gulandavarp talin möguleg ef framkvæmdir verða á varptíma . Kærandi telur að í skilyrði 2 í hinum kærða úrskurði sé blandað saman umfjöllun um leið 1 og 6-N. Með hliðsjón af framangreindu gangi Skipulagsstofnun mun lengra í hinum kærða úrskurði en efni standi til. Ekki sé verið að banna framkvæmdir yfir sumartímann í matsskýrslu á öllum vegkaflanum heldur að hlífa varpi þar sem það væri að finna á annað borð. Þá vísar kærandi til álits Kristins Hauks Skarphéðinssonar um að ekki sé tilefni til þeirra víðtæku takmarkana sem gerðar séu á framkvæmdatíma verksins með skilyrði 2.

1.2 Skilyrði 2 verði breytt.

Varakröfu sína varðandi skilyrði 2 byggir kærandi á því að leið 1 sé ekki talin ógna viðkvæmari varpsvæðum í Arnkötludal. Leið 1 liggi vestan við Arnkötludalsá en viðkvæm svæði séu talin í hallamýrum austan árinnar. Ekkert bendi til að framkvæmdir á leið 1 muni spilla varpi gulandar. Verði truflun af völdum framkvæmda liggi fyrir svigrúm fyrir fuglinn til að færa sig til með varpið og varanleg áhrif því ekki líkleg.

Skipulagsstofnun telur ekki ljóst til hvaða svæða neðan Þvergils kærandi vísi í varakörfu sinni, hvort þar sé átt við hallamýrasvæði austan Arnkötludalsár, norðan Þvergils í átt að gamla Arnkötludalsbýlinu. Stofnunin bendir á að Þvergil sé um 2 km ofan og vestan við Vonarholt og utan þess svæðis sem skilyrði 2 taki til. Stofnunin bendir jafnframt á að ef það hafi verið mat sérfræðinga Náttúrustofu Vestfjarða og Leiðar ehf. að takmarka ætti framkvæmdatíma eingöngu við svæði sem tók til hallamýra austan Arnkötludalsár, þar sem leið 6-N liggi um, þá hefði verið eðlilegt að miða við svæði austan Arnkötludalsár frá stöð 9.900 við Þvergil að stöð 6.000 við gamla Arnkötludalsbæinn og hugsanlega að stöð 3.800 þar sem leið 6-N þverar Arnkötludalsá. Skipulagsstofnun bendir á að þó að ljóst hafi verið af umfjöllun um fuglalíf í framlögðum gögnum að fyrrnefndar hallamýrar væru viðkvæm svæði almennt vegna fuglalífs hafi það hvergi komið fram í framlögðum gögnum að það svæði væri viðkvæmt um varptíma gulandar og að þ.a.l. þyrfti að halda framkvæmdum utan tiltekins tíma á því svæði. Stofnunin tekur af þessum sökum ekki afstöðu til kröfunnar að öðru leyti en að náma A var innan þess svæðis sem getið var um í skilyrði 2.

Í athugasemdum kæranda segir að það svæði sem átt sé við í varakröfu sé að allur kaflinn frá Vonarholti að Hrófá teljist neðan Þvergils og sé því varakrafan víðtækari en skilyrði 2 í hinum kærða úrskurði hvað snertir leið 6-N.

2. Skilyrði 3.

Í kærunni segir að skilyrði 3 sé afar strangt. Fram kemur að aðalframkvæmdatími ársins í vegagerð sé að sumarlagi en þá séu skilyrði til framkvæmda ákjósanleg, ekki síst á heiðum uppi. Verulegar takmarkanir á framkvæmdum yfir allt sumarið og fram á haust nái til allrar veglínunnar þar sem vandséð sé hvernig hægt verði að tryggja að grugg berist ekki í ár og læki. Krafa um ógildingu á skilyrði 3 sé byggð á því að skilyrðið sé svo íþyngjandi að ekki sé með góðu móti unnt að stunda framkvæmdir við vega- og brúargerð ekki síst á heiðum og til fjalla ef fara eigi eftir því. Með skilyrðinu sé gengið mun lengra en umsögn veiðimálastjóra hafi gefið tilefni til. Eins og fram hefur komið leitaði kærandi eftir áliti Náttúrustofu Vestfjarða á skilyrði 3. Í áliti stofunnar segi m.a. að ekki sé gefið tilefni til svo strangs skilyrðis í matsskýrslu, greinargerð um straumvötn, né í umsögn Veiðimálastjóra. Náttúrustofa Vestfjarða hafi beðið um álit Sigurðar M. Einarssonar fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun sem segi að skollitun yfir skamman tíma virðist ekki valda seiðadauða en að skilyrði sem lúti að gruggmyndun séu fyrst og fremst sett til að koma í veg fyrir áhrif á veiðina og óánægju stangveiðimanna. Í stórum framkvæmdum þar sem setja þurfi niður mörg ræsi og færa til farvegi sé án efa erfitt fyrir framkvæmdaraðila að verða við slíkum skilyrðum, sérstaklega á fjallvegum. Nefna mætti önnur og vægari skilyrði en skilyrði 3, svo sem samkomulag við veiðifélög um fyrirkomulag framkvæmda, skyldu til samráðs og eftirlits veiðimálayfirvalda og tilmæli um að reynt sé eftir föngum að draga úr gruggi. Í kærunni segir jafnframt að skilyrði 3 sé óvenjulegt og án fordæma í sambærilegum tilvikum. Þar sem um skilyrði sé að ræða sem ekki styðjist við álit sérfróðra aðila né byggi á veigamiklum umhverfisjónarmiðum beri að fella það úr gildi. Óheimilt sé skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum að setja íþyngjandi skilyrði nema nauðsyn krefji. Óheimilt hafi verið að binda heimild til framkvæmda skilyrðum 2 og 3 í hinum kærða úrskurði. Þá byggir kærandi á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið er á um að ekki verði gengið lengra en nauðsyn krefur þegar um íþyngjandi ákvarðanir og skilyrði er að ræða.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til umsagnar Umhverfisstofnunar til stofnunarinnar dags. 26. júlí 2005 þar sem segi að eðlilegt sé að framkvæmdir sem valdið geti gruggmyndun fari fram utan veiði- og hrygningartíma og að þær verði í samráði við embætti veiðimálastjóra. Hafi Skipulagsstofnun talið ástæðu til að senda veiðimálastjóra fyrirspurn um þetta atriði þar sem eitt af hlutverkum embættis veiðimálastjóra sé að fara með stjórnsýslu varðandi veiðar og stuðla að sjálfbærri nýtingu á ám og vötnum. Í fyrirspurninni komi fram að Skipulagsstofnun teldi að rétt væri að tryggja að grugg bærist ekki í læki og ár á veiði- og hrygningartíma, þar sem hugsanlegt væri að vinna við ræsi og efnistaka úr námu í grenndinni gæti haft áhrif. Jafnframt var spurst fyrir um hvort rétt væri að miða við eitthvert annað tímabil en veiði og hrygningartímann í þessu sambandi. Þá kom fram að einnig væri það ætlun Skipulagsstofnunar að í úrskurði kæmi fram að vinna við fiskgengar ár verði í samráði við embætti veiðimálastjóra.

Í svari veiðimálastjóra til Skipulagsstofnunar dags. 31. ágúst 2005 hafi eftirfarandi komið fram: „Ég tel eðlilegast að miða við að grugg berist ekki í ofangreindar ár frá 15. júní til 30. september, þar sem fremur er um síðgengna stofna að ræða. Þetta dekkar veiðitímann en hrygningartíminn er nokkru síðar. Tel varla raunhæft að banna grugg á þeim tíma, m.a. vegna veðurlags. Tel gott að setja inn svona skilyrði þar sem vegagerð getur valdið óheyrilegu gruggi þar sem bratt er að ánum, þótt ekki sé unnið í áreyrum."

Skipulagsstofnun bendir á að skilyrði 3 í hinum kærða úrskurði byggi á áliti Umhverfisstofnunar og veiðimálastjóra. Skipulagsstofnun vekur jafnframt athygli á því að í skilyrðinu komi fram að samráð skuli haft við veiðimálastjóra. Þetta feli í sér að mati Skipulagsstofnunar að framkvæmdaraðili og veiðimálastjóri meti í sameiningu hvernig best verði staðið að verki til þess að tryggja að grugg berist ekki í fiskgengar ár á fyrrnefndu tímabili svo skaði hljótist af. Skipulagsstofnun telur að ekki sé unnt að líta á skilyrði 3 sem óvenjulega íþyngjandi þegar fyrir liggi að útfærsla skilyrðis byggir á samráði við þann aðila sem fer með stjórnsýslu er varðar veiðar og sjálfbæra nýtingu í ám og vötnum landsins.

Skipulagsstofnun vekur athygli á að skilyrði 3 í hinum kærða úrskurði lúti fyrst og fremst að vinnu við ræsagerð á tímabilinu frá 15.júní til 30. september, þar sem fyrir liggi, skv. framlögðum gögnum Leiðar ehf., að engin efnistaka yrði úr ám. Þar sem fyrir virðist liggja skv. kæru að leið 1 verði fyrir valinu sé um að ræða 2 ræsi í 2 ám. Skipulagsstofnun fái því ekki séð, með tilliti til tímatakmarkana í skilyrði 3 við ræsagerð, að um sé að ræða verulegar takmarkanir á framkvæmdum yfir allt sumarið og fram á haust sem nái til allrar veglínunnar eins og fram komi í kæru. Skipulagsstofnun bendir á að hér sé um afmarkaðan þátt af heildarframkvæmdinni að ræða og að stofnunin líti svo á að með skilyrði 3 sé ekki verið að setja verulegar skorður á veglagningu yfir aðalframkvæmdatíma ársins í vegagerð eins og haldið sé fram af hálfu kæranda. Skipulagsstofnun ítrekar að skilyrði 3 taki til takmarkana á ræsagerð annars vegar við á í 30 m.h.y.s og hins vegar við ræsagerð í á í 270 m.h.y.s. á tímabilinu frá 15. júní til 30. september. Ekki sé því hægt að líta svo á að fyrrgreind skilyrði séu mjög íþyngjandi og að ekki verði með góðu móti hægt að vinna að vegagerð við þessar takmarkanir sem lagðar séu á framkvæmdaraðila eins og segi í kæru.

Í athugasemdum kæranda segir að túlkun Skipulagsstofnunar á skilyrði 3 sé verulega þrengri miðað við eðlilegan skilning á orðalagi þess. Ekki sé í skilyrðinu gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða framkvæmdir við ræsagerð eða aðrar framkvæmdir. Mikilvægt sé að skilyrðið valdi ekki ágreiningi og telur kærandi óhjákvæmilegt að fella skilyrðið úr gildi eins og það sé orðað þar sem það sé í ósamræmi við þær forsendur sem liggi til grundvallar niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Umhverfisstofnun vísar í umsögn sína frá 26. júlí sl. til Skipulagsstofnunar þar sem segi að stofnunin telji eðlilegt að framkvæmdir sem valdið geti gruggmyndun fari fram utan veiði- og hrygningartíma og að þær verði í samráði við embætti veiðimálastjóra. Taldi stofnunin slíkt eðlilegt þar sem laxveiði sé í Hrófá og Arnkötludalsá og vitað sé um lax- og silungsgengd í Geiradalsá, Gautsdalsá og Bakkaá, sbr. greinargerð Náttúrustofu Vestfjarða um straumvötn í Arnkötludal, Gautsdal og Geiradal. Stofnunin vísar í svar veiðimálastjóra til Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2005 og með hliðsjón af því og mótvægisaðgerðum vegna annarra framkvæmda sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum telji Umhverfisstofnun að ekki sé óeðlilegt að sett séu skilyrði sem miði að því að takmarka gruggmyndun í fiskgengum ám. Stofnunin bendir á að samkvæmt skilyrði 3 skuli framkvæmdaraðili, í samráði við veiðimálastjóra, tryggja að grugg berist ekki í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september. Stofnunin telur að með því skilyrði sé ekki verið að banna framkvæmdir á fyrrgreindu tímabili heldur skuli framkvæmdaraðili haga framkvæmdum þannig að þær valdi ekki gruggi í fiskgengum ám og lækjum á tímabilinu. Ekki verði séð að með því sé gengið lengra en fram komi í svari veiðimálastjóra við fyrirspurn Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst sl. enda verði framkvæmdir í samráði við veiðimálastjóra.

Í umsögn Veiðimálstjóra til ráðuneytisins kemur fram að nauðsynlegt sé að framkvæmdaraðilar séu meðvitaðir um neikvæð áhrif þess, að veiðiár verði mikið gruggaðar á veiðitíma og mikilvægi þess að halda slíku gruggi í lágmarki. Þá segir að skoða verði svar embættisins við fyrirspurn Skipulagsstofnunar í ljósi fyrri framkvæmda þ.e. framkvæmda við Steingrímsfjarðarheiði 1981-1982. Líkur á umhverfisspjöllum séu meiri nú en fyrr á árum og því mikilvægt að eftirlitsaðili verksins sé meðvitaður um þann skaða sem orðið geti vegna framkvæmdanna, t.d í rigningatíð. Síðan segir að hins vegar sé ljóst að ekki sé raunhæft að búast við því að ekkert grugg verði í ánum yfir sumarið enda er skollitun ánna mjög algeng í rigningartíð. Því væri ef til vill eðlilegra að beina því til framkvæmdaraðila að lágmarka grugg, sem berist í árnar á veiðitíma og hafa samband við sérfróða aðila ef sérstök vandamál komi upp. Einnig væri hagstæðara að vinna frekar við gruggmyndandi framkvæmdir fyrri hluta sumars t.d. í júní og júlí þegar veður er að jafnaði betra og þurrara.

Í athugasemdum kæranda er tekið undir það álit veiðimálstjóra að ekki sé raunhæft að búast við því að ekkert grugg verði í ánum yfir sumarið enda skollitun mjög algeng í mikilli rigningartíð. Ekki sé gerð athugasemd við það álit veiðimálastjóra að beina því til framkvæmdaraðila að lágmarka grugg sem berst í ár á veiðitíma og hafa samráð við sérfróða aðila þar að lútandi. Kærandi telur með hliðsjón af umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ekki ætlað sér að setja svo strangt skilyrði sem raun bar vitni. Ætlunin hafi verið að takmarka heimildir til ræsagerðar. Þetta fái stoð í umsögn veiðimálastjóra.

3. Leið 6-N

Í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins er bent á að upplýsingar um stærð hallamýra í Arnkötludal séu ekki réttar, sbr. ábendingu sem stofnuninni hafi borist en vegleið 6-N liggi um mýrina. Sigmar Metúsalemsson, landfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, hafi mælt stærð hallamýrarinnar í austanverðum dalnum og hafi hún reynst vera 155 ha að stærð. Þessar upplýsingar stangist á við þær upplýsingar sem fram komi í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróðurfar í Arnkötludal og Gautsdal, en þar komi m.a. fram að allur Arnkötludalur austan ár sé hallamýri og að votlendið sé um 20 ha að stærð. Miðað við framangreint sé ljóst hvað varðar stærð hallamýrar í austanverðum Arnkötludal að misræmi sé á milli gróðurkorts í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróður annars vegar og uppgefinnar stærðar votlendis í sömu skýrslu og í matsskýrslu hins vegar.

Umhverfisstofnunar vísar til 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd um að mýrar og flóar, 3 ha að stærð eða stærri, njóta sérstakrar verndar og skuli forðast röskun þeirra eins og kostur er. Jafnframt hafi íslensk stjórnvöld samþykkt stefnu um vernd votlendis og endurheimt þess, sbr. Velferð til framtíðar: Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, þar sem skilgreind séu markmið á sviði sjálfbærrar þróunar. Því hafi það tvímælalaust áhrif á niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar hve víðáttumikið það votlendi sé sem framkvæmdin liggi um, enda um að ræða eina landslagsheild. Hvort það votlendi sem farið er yfir sé alls um 20 ha eða 155 ha sé því grundavallaratriði við mat á áhrifum viðkomandi framkvæmdar á vistkerfi sem nýtur sérstakrar verndar. Einnig vegna skilyrðis 1 í hinum kærða úrskurði um endurheimt votlendis sé mikilvægt að fyrir liggi réttar upplýsingar um stærð þess votlendis sem raskast við framkvæmdirnar.

Umhverfisstofnun vísar til skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróður í Arnkötludal og Gautsdal þar sem fram komi að fullyrða megi af staðþekkingu að ósnortin hallamýri af þeirri stærð og fjölbreytni sem sé að finna í Arnkötludal sé afar sjaldgæf á Vestfjörðum, ef ekki einstök. Í skýrslunni sé mælt gegn hugmyndum um vegstæði um hallamýrina á leið 6-N. Það var einnig niðurstaða Umhverfisstofnunar að leggja ætti veg um Arnkötludal samkvæmt leið 1 ef af framkvæmdum verður. Undir þetta sjónarmið sé tekið í matsskýrslu en þar segi: „Leið 1 er sett sem fyrsti kostur hvað varðar vegtæknileg atriði. Hún er einnig betri kostur en leið 6-N í Arnkötludalnum gagnvart gróðri. Munar þar mestu um víðáttumiklar og fjölbreyttar hallamýrar austan við Arnkötludalsá en leið 6-N fer þar um. Ósnortin hallamýri af þeirri stærð og fjölbreytni sem er að finna í Arnkötludal er afar sjaldgæf á Vestfjörðum ef ekki einstök". Með hliðsjón af framangreindu telur Umhverfisstofnun að hafna beri leið 6-N um Arnkötludal þar sem hún muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif á vistkerfi sem sé fágætt og njóta skuli sérstakrar verndar samkvæmt lögum.

Í athugasemdum kæranda segir að í máli þessu sé eingöngu deilt um skilyrði 2 og 3 í hinum kærða úrskurði. Ekki sé því heimilt að taka til umfjöllunar kröfur vegna leiðar 6-N. Ljóst sé að prentvilla sé í matsskýrslu þar sem talið sé að mýrin sé um 20 ha. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að stærð mýrarinnar sé mun meiri eins og fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar. Þar sem ekki sé ágreiningur um skyldu Vegagerðarinnar til að endurheimta votlendi á Vestfjörðum eða Vesturlandi til jafns við það sem raskað er sé ekki ástæða til frekari skoðunar á heildarstærð hallamýranna. Hins vegar megi vænta þess að metið verði í samráði við Umhverfisstofnun hve mikið votlendi yrði að endurheima samkvæmt skilyrði 1 í hinum kærða úrskurði. Kærandi geti fallist á höfnun leiðar 6-N neðan Þvergils þar sem á þeim kafla sé víðáttumikil hallamýri sem æskilegt sé að hlífa. Ekki sé hins vegar efnisleg rök til að hafna fyrirfram leið 6-N ofan Þvergils þar sem vegstæðið sé mun heppilegra í leið 6-N en leið 1.

Ráðuneytið óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar á athugasemd Umhverfisstofnunar og hvort það breytti afstöðu stofnunarinnar til vegalagningar skv. leið 6-N. Í umsögn Skipulagsstofnunar segir: „Skipulagsstofnun getur tekið undir það sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar um kæruna að ákveðinn gildismunur sé á landsvæði sem nýtur verndar, eins og votlendi gerir, eftir því hversu stórt það er. Skipulagsstofnun vill benda á að ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort um sé að ræða sambærilegt umfang á skerðingu á votlendissvæðinu vegna veglagningar skv. leið 6N eftir því hvort stærð svæðisins er 20 eða 155 ha. Niðurstaða úrskurðar Skipulagsstofnunar árið 2005 byggði á framlögðum gögnum málsins m.a. á áliti sem fram kom í umsögn Umhverfisstofnunar um áhrif á náttúrufar, þ.m.t. votlendi...

Skipulagsstofnun telur að ef fyrir hefði legið að um væri að ræða 155 ha votlendissvæði í stað 20 ha hefði stofnunin óskað eftir frekari upplýsingum um umfang þess votlendissvæðis sem myndi skerðast vegna veglagningar skv. leið 6N. Skipulagsstofnun telur að ef þessar upplýsingar hefðu leitt í ljóst að veglagning skv. leið 6N myndi hafa í för með sér umfangsmikla skerðingu á svo stóru votlendi og að Umhverfisstofnun teldi að hafna bæri þeirri leið vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa, þá sé ekki ósennilegt að Skipulagsstofnun hefði í úrskurði sínum lagst gegn veglagningu skv. leið 6N.

Skipulagsstofnun vill benda á að ekki var lagður fram sá valkostur að leggja veginn skv. leið 1 að Þvergili og skv. leið 6N ofan Þvergils til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar en skv. umsögn Vegagerðarinnar um kæru má ráða að Vegagerðin telur þá leið koma til greina. Skipulagsstofnun telur að þær framkvæmdir séu tilkynningarskyldar skv. grein 13a í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Liður 13 í 2. viðauka matslaganna nær yfir breytingar og viðbætur við framkvæmdir sbr. 1. og 2. viðauka".

Í athugasemdum Vegagerðarinnar segir að umfang og gildi hallamýrarinnar í austanverðum Arnkötludal komi skýrt fram í gögnum málsins, skýrslum og á loftmynd. Í samantekt á bls. 2 sé bent á að hallamýrin sé óvenjuleg og hafi verndargildi. Þessi afstaða komi fram á bls. 67 og enn á bls. 69. Á bls. 15 og aftur á bls. 64 í matsskýrslu segi að „ósnortin hallamýri af þeirri stærð og fjölbreytni sem sem er að finna í Arnkötludal sé afar sjaldgæf á Vestfjörðum, ef ekki einstök. Í skýrslu Arnlínar Óladóttir um gróðurfar, sem fylgdi matsskýrslu, segi: „Vegstæðið um Arnkötludal var fyrst skoðað sumarið 2003, og þá kom í ljós að austari hluti dalsins er nánast ein samfelld hallamýri, (leið 6N), en vestari hlutinn að miklu leyti skriður og holt". Samkvæmt þessu er umfangi mýrarinnar líst með þeim hætti að umsagnaraðilar og Skipulagsstofnun hafi átt að geta séð að stærð hennar er óvenjuleg. Útilokað sé að Skipulagsstofnun hafi ekki kynnt sér þessar upplýsingar og byggt úrskurð sinn á þeim.

Kærandi telur að ofangreind umsögn Skipulagsstofnunar geti ekki haft þýðingu í málinu. Umfjöllun í matsskýrslu og sérfræðiskýrslu hafi legið fyrir og úrskurður stofnunarinnar hafi verið byggður á henni. Kærandi bendir á að hann hefði hugsanlega brugðist við því ef Umhverfisstofnun hefði þegar í matsferlinu lagst gegn leið 6-N með því að leggja til nýjan valkost, blöndu af leið 6-N og leið 1. Kærandi áréttar að ekki standi til að ráðast í framkvæmdir á leið 6-N um hallamýri í Arnkötludal neðan Þvergils. Hins vegar sé mikilvægt að ráðuneytið útiloki ekki lagningu vegarins ofan Þvergils. Kærandi gerir þá kröfu að heimiluð verði lagning vegar skv. blöndu af leiðum 1 og 6-N eftir atvikum gegn skilyrðum, svo sem um samráð við Umhverfisstofnun varðandi tilhögun þverunar.

IV. Niðurstaða.

1. Skilyrði 2.

Kærandi krefst þess að skilyrði 2 verði fellt úr gildi. Telur hann að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ekki gerður nægjanlegur greinarmunur á leið 1, valkosti framkvæmdaraðila og leið 6-N. Gera hefði þurft skýran greinarmun á þessum leiðum þar sem ólíkar aðstæður séu á þeim. Blandað hafi verið saman í hinum kærða úrskurði umfjöllun um leið 1 og 6-N. Skipulagsstofnun hafi því gengið mun lengra í úrskurði sínum en efni hafi staðið til. Í matsskýrslu sé ekki verið að banna framkvæmdir yfir sumartímann á öllum vegkaflanum heldur að hlífa varpi þar sem það eigi við.

Fram kemur hjá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun að stofnanirnar hafi byggt niðurstöðu sína og umsögn á umfjöllun sem fram hafi komið í matsskýrslu framkvæmdaraðaðila og sérfræðiskýrslu Náttúrustofu Vestfjarða sem fylgdi matsskýrslu. Ekki hafi verið ráðið af þessum skýrslum að gerður væri greinarmunur á því hvort um væri að ræða framkvæmdir skv. leið 1 eða leið 6-N á kaflanum frá Hrófá að Vonarholti. Ekki hafi verið því forsendur til að binda skilyrði 2 í hinum kærða úrskurði eingöngu við vegalagningu skv. leið 6-N.

Eins og fram kemur í kafla 1.1 leitaði Náttúrustofa Vestfjarða eftir áliti Kristins Hauks Skarphéðinssonar fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands vegna skilyrðis 2. Í álitinu segir m.a..: „Ég tel að þau takmörkuðu gögn sem til eru um varp gulandar í dalnum gefi varla tilefni til svo íþyngjandi skilyrða, þ.e. að ekki megi vinna að framkvæmdum með margra km löngum kafla meðfram ánni lungann úr sumrinu eða frá Hrófá að Vonarholti. Það er sjálfsagt að hlífa tilteknum varpstöðum sjaldgæfra tegunda, svo fremi sem þeir séu þekktir. Slíkt á varla við í þessu tilviki, þótt líta megi á alla ána sem búsvæði, bæði gulandar og straumandar, þar á meðal títtnefnt gil við Foss. Talsvert svigrúm ætti að vera fyrir þessar tegundir hér og þar á ánni og þær gætu því væntanlega flutt sig tímabundið um set meðan á framkvæmdum stendur við einstaka kafla árinnar...". Skipulagsstofnun tekur undir það að takmarkaðar upplýsingar séu um varp gulandar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Verði skilyrði 2 fellt úr gildi leggur stofnunin til að framkvæmdaraðili láti kanna frekar hugsanleg varpsvæði gulandar og straumandar á válista áður en til framkvæmda komi til að ganga úr skugga um að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki í för með sér veruleg neikvæð áhrif á fyrrnefndar tegundir. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram eins og hjá Skipulagsstofnun að liggja þurfi fyrir fullnægjandi upplýsingar um fuglalíf og telur stofnunin að fram eigi að fara frekari athugun á fuglalífi næsta sumar til að fá úr því skorið hvort varpstaði gulandar sé að finna á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Ef í ljós komi að gulönd verpi þar verði gripið til aðgerða sem tryggi að varpstaðir raskist ekki og farið í mótvægisaðgerðir og að framkvæmdir á viðkomandi svæðum verði ekki innan þess tímabils sem tilgreint sé í skilyrði 2.

Kærandi og framangreindar sérfræðistofnanir sem fjölluðu um skilyrði 2 eru ekki á einu máli hvort í matsskýrslu og fylgigögnum hennar hafi verið gerður skýr greinarmunur á umfjöllun um leið 1 og 6N. Í ljósi álits Kristins Hauks Skarphéðinssonar og umsagna Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar um það álit lítur ráðuneytið svo á að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar um varp gulandar á fyrirhuguðum vegleiðum. Af hálfu sérfræðings Náttúrufræðistofnunar kemur skýrt fram að fyrirliggjandi gögn gefi vart tilefni til að leggja til skilyrði eins og skilyrði 2 í hinum kærða úrskurði. Ráðuneytið telur mat sérfræðings Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa mikla þýðingu í máli þessu enda hefur því mati ekki verið mótmælt af hálfu sérfræðistofnana sem um það fjölluðu. Ráðuneytið tekur undir mat framangreindra stofnana að mikilvægt sé að kanna varpstaði gulandar og straumandar þær sem þær eru á válista og þannig að koma í veg fyrir rask á varpi þeirra og varpstöðum. Ráðuneytið lítur svo á að með tillögum sínum að nýju skilyrði hafi áðurnefndar stofnanir talið að skilyrði 2 í hinum kærða úrskurði gangi of langt miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 12. gr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fellst ráðuneytið ekki á kröfu kæranda að fella skilyrði nr. 2 úr gildi heldur skal því breytt og orðast svo: „Framkvæmdaraðili skal láta kanna hugsanleg varpsvæði gulandar og straumandar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði áður en framkvæmdir hefjast í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Ef í ljós kemur eftir þá könnun að gulönd og straumönd verpa þar skal framkvæmdaraðili grípa til aðgerða sem tryggja að varpstaðir raskist ekki og að varp þessara tegunda verði ekki fyrir truflun af völdum framkvæmdanna".

2. Skilyrði 3.

Krafa kæranda um að fella úr gildi skilyrði 3 er byggð á því að skilyrðið sé svo íþyngjandi að ekki sé með góðu móti unnt að stunda framkvæmdir við vega- og brúargerð ef fara eigi eftir því. Með skilyrðinu sé gengið mun lengra en umsögn veiðimálastjóra hafi gefið tilefni til.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar vegna matsskýrslu kemur fram að eðlilegt sé að framkvæmdir sem valdið geti gruggmyndun fari fram utan veiði- og hrygningartíma. Í umsögn Veiðimálastjóra til Skipulagsstofnunar vegna fyrirspurnar um þetta atriði segir m.a.: „Ég tel eðlilegast að miða við að grugg berist ekki í ofangreindar ár frá 15. júní til 30. september, þar sem fremur er um síðgengna stofna að ræða. Þetta dekkar veiðitímann en hrygningartíminn er nokkru síðar. Tel varla raunhæft að banna grugg á þeim tíma, m.a. vegna veðurlags. Tel gott að setja inn svona skilyrði þar sem vegagerð getur valdið óheyrilegu gruggi þar sem bratt er að ánum, þótt ekki sé unnið í áreyrum". Fram kemur að Skipulagsstofnun hafi byggt skilyrði 3 á áliti framangreindra aðila og það hafi lotið fyrst og fremst að vinnu við ræsagerð á tímabilinu 15. júní til 30. september. Í umsögn Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins kemur fram að með skilyrði 3 sé ekki verið að banna framkvæmdir á fyrrgreindu tímabili heldur að haga beri framkvæmdum með þeim hætti að þær valdi ekki gruggi í fiskgengum ám og lækjum á tímabilinu. Veiðimálastjóri segir í umsögn sinni til ráðuneytisins að „ekki sé raunhæft að búast við því að ekkert grugg verði í ánum yfir sumarið enda er skollitun ánna mjög algeng í rigningartíð. Því væri ef til vill eðlilegra að beina því til framkvæmdaraðila að lágmarka grugg, sem berast í árnar á veiðitíma og hafa samband við sérfræðilega aðila, ef sérstök vandamál koma upp. Einnig væri hagstæðara að vinna frekar við gruggmyndandi framkvæmdir fyrri hluta sumars t.d. í júní og júlí þegar veður er að jafnaði betra og þurrara". Kærandi telur að Skipulagsstofnun hafi ekki ætlað sé að setja svo strangt skilyrði sem raun bar vitni. Ætlunin hafi verið að takmarka heimildir til ræsagerðar. Þetta fái stoð í umsögn veiðimálastjóra.

Ráðuneytið lítur svo á að Veiðimálstjóri hafi breytt afstöðu sinni til gruggmyndunar í ám þeim sem um ræðir frá því sem fram kom í umsögn hans til Skipulagsstofnunar en Veiðimálstjóri telur nú að ekki sé raunhæft að búast við því að ekkert grugg verði í ám á umræddu tímabili. Fram kemur hjá sérfræðingi Veiðimálastofnunar að nota megi önnur og vægari skilyrði svo sem skyldu til samráðs og eftirlits veiðimálayfirvalda og tilmæli um að reynt sé eftir föngum að draga úr gruggi. Með hliðsjón af framangreindum umsögnum viðkomandi sérfræðistofnana á sviði veiðimála og með tilliti til 12. gr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, fellst ráðuneytið ekki á kröfu kæranda að fella skilyrðið nr. 3 úr gildi heldur skal því breytt og orðast svo: „Framkvæmdaraðili skal, í samráði við veiðimálstjóra haga framkvæmdum þannig að lágmarkað verði grugg í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september vegna framkvæmdanna."

3. Leið 6-N

Umhverfisstofnun óskaði eftir því að ráðuneytið tæki til skoðunar að hafna leið 6-N um Arnkötludal þar sem hún muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif á vistkerfi sem sé fágætt og njóta skuli sérstakrar verndar, sbr. 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999. Stofnunin bendir á að upplýsingar um stærð hallamýra í Arnkötludal þar sem leið 6-N liggi séu ekki réttar. Landfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, hafi mælt stærð hallamýrarinnar í austanverðum dalnum og hafi hún reynst vera 155 ha að stærð. Þær upplýsingar stangist á við það sem fram komi í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróðurfar að votlendið sé 20 ha að stærð. Við mat á áhrifum viðkomandi framkvæmdar á vistkerfi sé það grundvallaratriði hvort votlendi sem farið sé yfir sé alls 20 ha eða 155 ha. Af þessum sökum telur stofnunin að hafna beri leiðinni. Í umsögn Skipulagsstofnunar um þetta atriði segir að ef legið hefði fyrir að um væri að ræða 155 ha votlendissvæði í stað 20 ha hefði stofnunin óskað eftir frekari upplýsingum um umfang þess votlendissvæðis sem myndi skerðast vegna veglagningar skv. leið 6-N. Ef þessar upplýsingar hefðu leitt í ljóst að veglagning skv. leið 6-N myndi hafa í för með sér umfangsmikla skerðingu á svo stóru votlendi og að Umhverfisstofnun teldi að hafna bæri þeirri leið vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa, þá sé ekki ósennilegt að Skipulagsstofnun hefði í úrskurði sínum lagst gegn veglagningu skv. leið 6-N.

3.1 Formhlið.

Kærandi telur að ekki sé heimilt að taka til umfjöllunar kröfur vegna leiðar 6-N þar sem eingöngu sé deilt um skilyrði 2 og 3 í hinum kærða úrskurði.

Ráðuneytið telur á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. sbr. 1. mgr. 30. gr. þeirra, beri að taka til skoðunar ábendingar sem fram koma við meðferð málsins þrátt fyrir að ekki sé gerð krafa um það í kæru.

3.2 Krafa um höfnun leiðar 6-N.

3.2.1 Höfnun leiðar 6-N að hluta.

Kærandi getur fallist á að hafna 6-N neðan Þvergils en hann telur að ekki séu rök til að hafna fyrirfram leið 6-N ofan Þvergils þar sem vegstæðið sé mun heppilegra í leið 6-N en leið 1.

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins er bent á að ekki hafi verið lagður fram sá valkostur að leggja veginn skv. leið 1 að Þvergili og skv. leið 6-N ofan Þvergils til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar en skv. umsögn Vegagerðarinnar megi ráða að Vegagerðin telji þá leið koma til greina. Skipulagsstofnun telji að slík breyting á framkvæmd sé tilkynningarskyld skv. grein 13a í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Kærandi tilkynnti nokkra vegkosti til Skipulagsstofnunar þar á meðal vegleið 1, sem var valkostur framkvæmdaraðila og leið 6-N. Ekki var tilkynntur sá valkostur að fara einungis að hluta vegleið 6-N eins og kærandi gerir nú tillögu um. Ráðuneytið tekur undir sjónarmið Skipulagsstofnunar í þessu efni að sá valkostur hafi ekki verið til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu getur ráðuneytið ekki tekið til umfjöllunar þá tillögu kæranda um að hafna leið 6-N að hluta.

3.2.2 Höfnun leiðar 6-N

Kærandi hefur upplýst að í matsskýrslu sé að finna prentvillu um að stærð hallamýrar sé um 20 ha. Kærandi gerir ekki athugasemd við þá fullyrðingu að mýrin sé 155 ha. Umfang og gildi hallamýrarinnar í austanverðum Arnkötludal komi hins vegar skýrt fram í gögnum málsins, skýrslum og á loftmynd. Umsagnaraðilar og Skipulagsstofnun hafi átt að geta séð að stærð mýrarinnar hafi verið óvenjuleg. Kærandi hefur upplýst ráðuneytið um að hallarmýrin sem hér um ræðir sé milli stöðva 5500 og 9500 eða á 4 km kafla og að um 7 ha mýrarinnar muni skerðast við vegalagninguna sjálfa.

Ekki er deilt um í máli þessu að greint hafi verið ranglega frá stærð hallamýrar í matsskýrslu, en leið 6-N liggur um hana. Þar er hún sögð vera 20 ha en samkvæmt framkomnum upplýsingum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar er hún mun stærri eða um 155 ha. Ráðuneytið telur það hafa þýðingu í máli þessu hvort hinn kærði úrskurður hafi verið byggður á réttum forsendum um þau áhrif sem fyrirhuguð vegleið 6-N muni hafa á umhverfið, sbr. 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um mat á röskun/endurheimt votlendis vegna vegaframkvæmda og annarra framkvæmda sem við geta átt, er að finna viðmiðunarreglur um mat á röskun votlendis. Þessar leiðbeiningar voru unnar í samvinnu við nefnd um endurheimt votlendis og Vegagerðina. Í leiðbeiningunum kemur fram að þar sem vegur sker hallamýri sé röskun svæðis 75-100 m breitt eftir því hvort vegur sker ofan miðju votlendis eða miðju þess. Ekki liggja fyrir upplýsingar hvar leið 6-N sker mýrina nákvæmlega. Miðað við framangreindar leiðbeiningar mun það votlendi sem raskast við veglagninguna geta verið frá 4000 m x 75 m =300.000m2 = 30 ha allt upp í 4000 m x 150 m = 600.000 m2 = 60 ha.

Með hliðsjón af framangreindu mun röskun á hallamýri vegna veglagningar skv. leið 6-N geta verið frá 30 ha til að 60 ha en heildarstærð hallamýrar í Arnkötludal er talin vera 155 ha. Leið 1 var kynnt sem kostur framkvæmdaraðila en ekki leið 6-N. Í matsskýrslu kemur fram að leið 1 sé fyrsti kostur hvað varðar vegtæknileg atriði. Sú leið sé einnig betri kostur en leið 6-N í Arnkötludalnum gagnvart gróðri en þar muni mestu um víðáttumiklar og fjölbreyttar hallamýrar austan við Arnkötludalsá. Ósnortin hallamýri af þeirri stærð og fjölbreytni sem er að finna í Arnkötludal sé afar sjaldgæf á Vestfjörðum ef ekki einstök. Kæranda telur að æskilegt sé að hlífa hallamýrinni í Arnkötludal. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 njóta mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Með hliðsjón af framansögðu og verndargildi mýra skv. 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 leggst ráðuneytið gegn vegleið 6-N.

Úrskurðarorð:

Lagst er gegn vegleið 6-N í hinum kærða úrskurði Skipulagsstofnunar frá 8. september 2005 um mat á umhverfisáhrifum vegar um Arnkötludal og Gautsdal. Úrskurðurinn er staðfestur að öðru leyti með eftirfarandi breytingum:

1. Skilyrði nr. 2 breytist og orðast svo:

„Framkvæmdaraðili skal láta kanna hugsanleg varpsvæði gulandar og straumandar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði áður en framkvæmdir hefjast í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Ef í ljós kemur eftir þá könnun að gulönd og straumönd verpa þar skal framkvæmdaraðili grípa til aðgerða sem tryggja að varpstaðir raskist ekki og að varp þessara tegunda verði ekki fyrir truflun af völdum framkvæmdanna".

2. Skilyrði nr. 3 breytist og orðast svo:

„Framkvæmdaraðili skal, í samráði við veiðimálstjóra haga framkvæmdum þannig að lágmarkað verði grugg í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september vegna framkvæmdanna."




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta