Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 06050002

Þann 18. maí 2007 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

I. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð.

Umhverfisráðuneytinu hefur borist kæra Leiðar ehf., dags. 6. júní 2006, vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 27. apríl 2006 um matsskyldu vegna Hringvegar um Hrútafjörð, Brú-Staðarskála í Bæjarhreppi og Húnaþingi vestra. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Vegagerðin fyrirhugar að endurgera Hringveg í Hrútafirði á 7,6 km. kafla sem hefst um 0,9 km. sunnan við Brú, þverar Hrútafjörðinn á nýjum stað og endar 1 km. norðan Staðarskála í landi Staðar. Framkvæmdin felst einnig í gerð þriggja nýrra vegtenginga, að Brú, að Djúpvegi og að núverandi Hringvegi að Staðarskála. Um 3,1 km. framkvæmdarinnar fylgja núverandi vegi en um 4,5 km teljast nýlagning. Í tengslum við framkvæmdina verður byggð ný tvíbreið brú yfir Hrútafjarðará og einbreið brú yfir Selá á Djúpvegi verður breikkuð. Áætluð efnisþörf í verkið er 129 þús m3 og efni verði tekið úr vegskeringum og námum við Bláhæð, Brú, Mela, Selá, Kvígugil og Brandgil. Efni hafi verið tekið úr öllum námunum áður.

Fram komin kæra var send til umsagnar Húnaþings vestra, Bæjarhrepps, Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar með bréfum dags. 26. júní og 27. júlí 2007. Umsögn Húnaþings vestra barst þann 13. september 2006, Bæjarhrepps þann 19. september 2006, Skipulagsstofnunar þann 6. júlí 2006 og Vegagerðarinnar þann 19. júlí 2006. Fram komnar umsagnir voru sendar kæranda til athugasemda þann 20. október 2006 og bárust þær þann 7. nóvember 2006.

II. Um kærufrest og aðild kæranda.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að ekki verði betur séð en að kæra Leiðar ehf. sé of seint fram komin, þar sem kærufrestur er einn mánuður samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Kærufrestur hefst við tilkynningu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Kærufrestur var tilgreindur í ákvörðun stofnunarinnar til 6. júní 2006 og barst kæra Leiðar ehf. þann dag. Telst kæra Leiðar ehf. því hafa borist innan kærufrests.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að Leið ehf. hafi ekki kæruaðild. Vegagerðin telji Leið ehf. hvorki hafa beinna, einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins umfram aðra aðila í samfélaginu, sem áhuga hafa á samgöngumálum. Leið ehf. hafi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins sem leiði til þess að félagið eigi ekki aðild að málinu. Kæruaðild sé bundin við þá sem hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Undantekning frá þeirri reglu sé ef um er að ræða umhverfisverndar- eða hagsmunasamtök sem stofnuð séu í hugsjónaskyni og án fjárhagslegs tilgangs, enda samrýmist það tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Leið ehf. geti að mati Vegagerðarinnar ekki talist gæta hagsmuna vegfarenda sem umrædd framkvæmd getur haft áhrif á. Samkvæmt 3. gr. samþykkta Leiðar ehf. sé tilgangur félagsins að beita sér fyrir framþróun í samgöngum með því m.a. að annast fjármögnun, gerð og rekstur vega og annarra samgöngumannvirkja svo og annast rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldan rekstur. Skilyrði aðildar að félaginu sé að gerast eignaraðili að 10.000 kr. hlut í félaginu.

Í athugasemdum Leiðar ehf. segir að sennilega séu allir þeir 30 einstaklingar sem skráðir séu hluthafar áhugamenn um bættar vegsamgöngur ekki síst á Vestfjörðum og þar í grennd og sýna stuðning sinn í verki með kaupum á hlut í félaginu og leitast með því móti við að hafa sín áhrif á framþróun í samgöngum á landi eins og tilgangi félagsins er lýst í samþykktum þess. Megi með fullum rétti telja Leið ehf. hagsmunasamtök í skilningi tilvitnaðs ákvæðis þótt hlutverk félagsins sé jafnframt fjárhagslegt. Auk hinna 30 einstaklinga sem hlut eigi í félaginu séu þrír lögaðilar skráðir fyrir hlut auk félagsins sjálfs.

Hagsmunasamtök eru ekki skilgreind sérstaklega í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr, 106/2000. Þau skilyrði sem hagsmunasamtök þurfa að uppfylla til að geta átt aðild að kæru um matsskyldu framkvæmda eru að samtökin eigi varnarþing á Íslandi, að félagsmenn samtakanna séu 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Ekki er skilyrði að slík hagsmunasamtök séu opin fyrir almennri aðild. Ljóst er að Leið ehf. er einkahlutafélag með rekstur. Þeir hagsmunir sem félagið gætir fyrir félagsmenn sína eru því öðrum þræði fjárhagslegir. Ekki er gerður greinarmunur á fjárhagslegum hagsmunum og öðrum hagsmunum hvað varðar hagsmunasamtök í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vefsíðu Leiðar ehf. og í umsögn þess eru félagsmenn 32. Tilgangur félagsins er að beita sér fyrir framþóun í samgöngum á landi með því m.a. að annast fjármögnun og eftir atvikum gerð og rekstur vega og annarra samgöngumannvirkja. Telur ráðuneytið því að Leið ehf. geti talist hagsmunasamtök í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem framangreind kæra lýtur að.

III. Kæruatriði og umsagnir um þau.

Í kæru segir að í þeim gögnum sem vitnað er til í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ekkert fjallað um aðra möguleika sem ná sama tilgangi og markmiðum sem framkvæmdaraðili stefnir að. Telur kærandi að með þverun Hrútafjarðar á móts við Reyki ætti að verða auðveldara að komast hjá ferðum um Holtavörðuheiði við slæm akstursskilyrði.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnunin farið yfir þau gögn sem Vegagerðin lagði fram með tilkynningu sinni, sem og umsagnir sem leitað var eftir og viðbrögð Vegagerðarinnar við þeim. Á grundvelli þeirra gagna hafi niðurstaða stofnunarinnar verið sú að endurgerð Hringvegar milli Brúar og Staðarskála í Bæjarhreppi og Húnaþingi vestra væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Stofnunin hafi talið að framkvæmdin hefði í för með sér jákvæð áhrif á samgöngur og umferðaröryggi.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að lagning Hringvegar við botn Hrútafjarðar sé hið kynnta og fyrirhugaða verkefni. Meginmarkmið þeirrar framkvæmdar sé stytting og aukið umferðaröryggi á Hringvegi. Þverun Hrútafjarðar og Kjörseyri um Reyki sé að mati Vegagerðarinnar annað verkefni. Kæran varði ekki umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda.

IV. Niðurstaða.

Málsástæða kæranda er að í hinni kærðu ákvörðun sé ekkert fjallað um aðra framkvæmdakosti en þann sem tilkynntur er, sem ná sama tilgangi og markmiðum og stefnt er að með hinni fyrirhuguðu framkvæmd. Telur kærandi betri kost að þvera Hrútafjörð á móts við Reyki. Það fæli m.a. í sér meiri jákvæð samfélagsleg áhrif. Að mati ráðuneytisins varða málsástæður kæranda því ekki líkleg neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eins og henni er lýst í tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Sú framkvæmd sem hin kærða ákvörðun lýtur að er tilkynningarskyld samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 1123/2005 eru tilgreind þau gögn og upplýsingar sem fylgja skulu tilkynningu eftir því sem við á. Þau eru lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi, upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum, lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.

Ekki er skilyrði samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eða reglugerð um mat á umhverfisáhrifum að gerð sé grein fyrir mismunandi framkvæmdakostum þegar um tilkynningarskylda framkvæmd er að ræða skv. III. kafla laganna. Slíkt mat á milli valkosta fer einungis fram þegar mat á umhverfisáhrifum fer fram sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Þegar af þessum ástæðum fellst ráðuneytið ekki á kröfu kæranda og er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 27. apríl 2006 staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 27. apríl 2006 um að Hringvegar um Hrútafjörð, Brú-Staðarskála í Bæjarhreppi og Húnaþingi vestra skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta