04020187
Reykjavík, 25. júní 2004
Tilvísun: UMH04020187/10-02-0404
KLÁ/--
Hinn 25. júní 2004 var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:
Úrskurður
Ráðuneytinu hefur borist kæra frá eigendum húseignarinnar að Einibergi 19, Hafnarfirði þeim Magnúsi Erlingssyni, Rögnu Pétursdóttur, Hildi Betúelsdóttur og John Mar Erlingssyni dags. 24. mars 2004 vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matskyldu Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, bráðabirgðalausnar, dags 24. febrúar 2004.
I. Hinn Kærði úrskurður og málsatvik
Skipulagsstofnun tók ákvörðun þann 24. febrúar 2004 um matskyldu framkvæmdar við Reykjanesbraut í Hafnarfirði, svo nefnda bráðabirgðalausn, sem snýr að framkvæmdum á Reykjanesbraut á kaflanum milli Álftanesvegar og Lækjargötu ásamt endurbótum á gatnamótum Fjarðarhrauns og Flatahrauns á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 og a. lið 13. tölul. 2. viðauka laganna. Niðurstaða stofnunarinnar var að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð, Álftanesvegur - Ásbraut, með mislægum gatnamótum hefur þegar farið í mat á umhverfisáhrifum og að Skipulagsstofnun hafi fallist á þá framkvæmd í úrskurði sínum frá 2. september 2002. Ennfremur að sú framkvæmd sem hér er til meðferðar þar sem vegurinn milli Álftanesvegar og Lækjargötu er tvöfaldaður og gert verði hringtorg á gatnamótum við Lækjargötu/Hlíðarberg, útvíkkuð verði gatnamót við Fjarðarhraun ásamt að- og fráreinum á kaflanum á milli gatnamóta sé tímabundin lausn til. Markmið með framkvæmdinni er að auka afköst og tryggja öryggi vegarins til að anna áætlaðri umferðaraukningu á svæðinu á næstu 10-15 árum. Með þessari breytingum verður fyrirhuguðum mislægum gatnamótum við Lækjargötu slegið á frest og Reykjanesbraut verður í svipaðri hæð og nú er.
Starfsmenn ráðuneytisins fóru í vettvangsferð þann 11. júní 2004 ásamt Baldvini Einarssyni verkfræðing hjá Línuhönnun.
II. Kröfur kærenda
Kærendur húseignarinnar við Einiberg 19 krefjast þess að hin kærða framkvæmd verði háð mati á umhverfisáhrifum. Kærendur benda á að fyrirhugaðar hafi verið framkvæmdir við breytingar á legu Reykjanesbrautar á móts við húseign kærenda samkvæmt úrskurði um mat á umhverfisáhrifum Reykjanesbrautar frá 2. september 2002 þannig að brautin yrði grafin niður og lækkuð um 6 metra og stoðveggir settir meðfram lóð kærenda. Hinar nýju tillögur hafi í för með sér miklar breytingar frá þeim tillögum sem fóru í gegnum mat á umhverfisáhrifum sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar frá 2. september 2002 þar sem gatan verður ekki grafin niður og nauðsynlegt verður að reisa háa hljóðmön sem mun skerða suðurlóð kærenda og draga úr birtu að húsinu. Kærendur telja jafnframt að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir séu stórfelldar og muni leiða af sér mikla röskun á nýtingu á húseign kærenda til svo langs tíma að óforsvaranlegt sé annað en framkvæmdirnar sæti mati á umhverfisáhrifum. Kærendur benda á að þó að framkvæmdaraðili telji að fyrirhuguð breyting skuli standa í 10-12 ár þá sé full ástæða til að óttast að ekki verði farið í lækkun á brautinni og að ástandið muni vara lengur.
Kærendur benda á að skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Kærendur telja að þegar meta á hvort ofangreindar framkvæmdir séu matskyldar þá beri að líta til þess í hvaða tilgangi framkvæmdir eru unnar og hverjar afleiðingarnar muni verða svo sem stóraukin umferð, mikil viðbótar loftmengun og miklu meiri niður og hávaði en er í dag. Til samanburðar benda kærendur á að Reykjanesbrautin austan við Lækjargötu er ýmist grafin niður eða í stokkum og þannig tryggt að aukning á umferð valdi ekki röskun fyrir íbúa í nágrenni Reykjavíkur.
Kæra eigenda Einibergs 19 var send til umsagnar til Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Skipulagsstofnunar, Hafnarfjarðarbæjar og Vegagerðarinnar með bréfum dagsettum 23. apríl 2004. Umsögn Umhverfisstofnunar barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 12. maí 2004, umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis með bréfi dagsettu 4. maí 2004, umsögn Skipulagsstofnunar með bréfi dagsettu 12. maí 2004, umsögn Hafnarfjarðarbæjar með bréfi dagsettu 11. maí 2004 og umsögn Vegagerðarinnar með bréfi dagsettu 11. maí 2004. Framangreindar umsagnir voru sendar til kærenda með bréfi dagsettu 21. maí 2004 og var þeim gefin tækifæri á að koma að athugasemdum sínum við fram komnar umsagnir sem þeir gerðu með bréfi dagsettu 4. júní 2004.
III. Einstakar málsástæður og umsagnir um þær.
1. Hljóðstig.
Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að hin kærða framkvæmd muni hafa óveruleg áhrif á hljóðstig við Einiberg 19 m.v. núverandi umferð. Í gögnum framkvæmdaraðila hafi komið fram að grípa þurfi til mótvægisaðgerða til að hljóðstig fari ekki yfir 55 dB (A) árið 2012 vegna aukinnar umferðar. Við húsin við Einiberg 11-21 þyrfti að reisa 1,5-2 m háan vegg ofan á núverandi hljóðmön. Fram kemur að ólíklegt sé talið að svo hár hljóðveggur yrði ásættanlegur fyrir íbúa við Einiberg. Yrði þá um frávik I, 65 dB (A) fyrir þessi hús að ræða en til greina komi að hafa samráð við íbúa um að reisa lægri vegg til að bæta hljóðstigið nokkuð. Skipulagsstofnun telur að með tilheyrandi mótvægisaðgerðum sé „líklegt að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif". Stofnunin ítrekaði hins vegar ábendingar sínar um nauðsyn þess að íbúum aðliggjandi hverfa verði kynnt fyrirhuguð færsla og að nauðsynlegt samráð verði haft við íbúa um ásættanlegar lausnir.
Hafnarfjarðarbær vísar til úrskurðar Skipulagsstofnunar um að framkvæmdirnar muni vegna mótvægisaðgerða draga úr hávaða við íbúðarhús frá því sem nú er auk þess sem framkvæmdin er mjög mikilvæg því að með henni er verið að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði. Hafnarfjarðarbær telur því ekki að það sé þörf á að framkvæmdin fari í mat á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga nr. 106/2000.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er bent á að hin kærða framkvæmd feli í sér að hljóðvist þeirra sem við hvað verstu skilyrðin hafa búið svo sem íbúa við Álfaskeið muni batna til frambúðar bæði frá því sem nú er og frá því sem niðurstöður mats á umhverfisáhrifum gáfu tilefni til að vænta. Í undantekningartilvikum mun hljóðvist ekki batna. Heilbrigðisnefndin ítrekar að það sé stefna nefndarinnar að aðeins eigi að beita reglu um frávik I um hávaða frá umferð þegar sýnt hefur verið fram á að meiri hljóðvarnir hafi í för með sér veruleg aukin útgjöld eða skerðingu á öðrum lífsgæðum. Heilbrigðiseftirlitið tekur fram að enn sem komið er hafi ekki verið leitað samþykkis heilbrigðisnefndar fyrir beitingu fráviks I og ekki liggi fyrir niðurstöður boðaðs samráðs. Ennfremur segir að „Komi til þess að heilbrigðisnefnd þurfi að fjalla um að beita fráviksreglu I mun hún óska eftir niðurstöðum samráðs áður en hún fjallar um erindið."
Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að umfjöllun um hljóðstig í gögnum framkvæmdaraðila sé til fyrirmyndar og lýsi vel núverandi ástandi í hljóðvist og líklegum áhrifum frá umferð og að við mat á hávaða notaðist framkvæmdaraðili við rauntölur, t.d. við mat á hlutfalli stórra bíla sem fara um þann veg sem metin er. Stofnunin telur að ljóst að hávaði væri nú yfir mörkum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða fyrir allmörg hús umhverfis Reykjanesbrautina og að aðgerða sé því þörf. Stofnunin leggur áherslu á að fyrirhugaðar hljóðmanir verði hannaðar í samvinnu við viðkomandi íbúa en að með virku samráði við íbúa svæðisins um fyrirkomulag framkvæmdarinnar ætti að vera tryggt að framkvæmdin valdi ekki umtalsverðum áhrifum á sjónræna þætti.
Framkvæmdaraðili, Vegagerðin hf. tekur fram í umsögn sinni að niðurstaða Skipulagsstofnunar byggi á að með mótvægisaðgerðum verði hljóðvist í nágrenni brautarinnar á þeim kafla sem kærður hefur verið bætt nokkuð frá því sem nú er og þar með sé ljóst að ekki verði um umtalsverð umhverfisáhrif að ræða. Ennfremur er vísað til niðurstöðu Skipulagsstofnunar og kynningarskýrslu um framkvæmdina þar sem fram kemur að hljóðstig vegna umferðar er þegar víða yfir viðmiðunarmörkum 55 dB(A). Með mótvægisaðgerðum sé unnt að bæta hljóðvist en þó er í sumum tilvikum ekki unnt að ná viðmiðunarmörkum. Gert sé ráð fyrir að við Einiberg 19 verði hækkuð mön vestan við húsið um 0,6 m frá því sem nú er. Muni sú framkvæmd lækka hljóðstig við fyrstu hæð úr 61 dB(A) í 56 dB(A) eftir framkvæmdir. Vegagerðin tekur einnig fram að haldinn hafi verið fundur með íbúum hússins að Einibergi 19 þann 24. febrúar 2004 þar sem fjallað var um mögulegar mótvægisaðgerðir við húsið en að ljóst sé að mögulegt sé að bæta hljóðvist enn frekar með því að byggja hljóðvegg en að slíkt sé líklega ekki ásættanleg laus fyrir íbúa.
Í athugasemdum kærenda við fram komnar umsagnir segir að hin fyrirhugaða framkvæmd sé stórfelld og ætlað að vera í óbreyttri mynd í 10-15 ár og því sé það rangt að nefna framkvæmdina bráðabirgðalausn. Þessi framkvæmd muni hafa stórfelda umhverfisbreytingu í för með sér á íbúðarsvæði og hafi veruleg áhrif á næsta umhverfi mannvirkisins. Kærendur mótmæla því eindregið að um sé að ræða sambærilega framkvæmd og þá sem fór í mat á umhverfisáhrifum þar sem sú útfærsla gerði ráð fyrir að brautin yrði grafin í stokk og þannig dregið úr hávaða. Upplýsingar um hljóðmengun af væntanlegri framkvæmd séu ekki marktækar og því liggi ekki fyrir réttar upplýsingar um hávaða og hljóðmengun. Kærendur telja að ekki hafi verið tekið tillit til opinbera talna um stóraukna flugumferð og ferðamennsku þegar metið er umferðarálag og ef málið verði ekki sett í lögformlegt umhverfismat þá verði það ekki gert næstu 10-15 árin. Kærendur telja einnig að áhrif þess að hafa hringtorg á gatnamótum Lækjargötu og Reykjanesbrautar í stað umferðarljósa hafi ekki verið metin en sú breyting muni leiða af sér aukinn hávaða og mengun en áður fór 50 - 70% umferðar hjá ljósunum án þess að breyta hraða. Auk þess muni á álagstímum myndast umferðarteppa í suðurátt svo og munu tafir við hringtorg auka enn á útblástur.
2. Loftmengun.
Skipulagsstofnun bendir á að komið hafi fram í matsskýrslu um Reykjanesbraut um Hafnarfjörð frá 2. september 2002 að loftmengun yrði undir viðmiðunarmörkum reglugerðar nr. 251/2002 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings, þegar miðar er við umferðarspá fyrir árið 2024. Þar sem umferð verði mun minni á því tímabili sem um ræðir en árið 2024 sé ólíklegt að loftmengun frá umferð vegna framkvæmdarinnar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Einnig að styrkur mengunarefna frá umferð ráðist fyrst og fremst af umferð og þá einkum fjölda ökutækja en síður útfærslu umhverfismannvirkja.
Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að fyrirhugaðar breytingar á framkvæmdum muni ekki auka loftmengun umtalsvert frá því sem fjallað var um í mati á umhverfisáhrifum fyrri útfærslu Reykjanesbrautar. Meiri tafir við t.d. hringtorg muni þó auka eitthvað útblástur en þar sem fyrra mat hafi yfirleitt verið vel undir viðmiðunarmörkum telur stofnunin að aukningin muni ekki valda umtalsverðum áhrifum. Umhverfisstofnun telur enn fremur að ólíklegt sé að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar muni leiða í ljós frekari upplýsingar um umhverfisáhrif hennar.
Í umsögn framkvæmdaraðila, Vegagerðarinnar kemur fram að útreikningar sýni að loftmengun vegna umferðar á umræddum kafla er langt undir viðmiðunarmörkum þrátt fyrir að miðað sé við áætlaða umferð árið 2004. Ekki sé gert ráð fyrir að framkvæmdin auki umferð um vegarkaflann sérstaklega en að framkvæmdin muni draga úr töfum á vegakaflanum sem væntanlega dregur úr loftmengun, líklega muni því framkvæmdin draga fremur en auka loftmengun frá því sem nú er.
Í athugasemdum kærenda við fram komnar athugasemdir kemur fram að þeir telja að tafir við hringtorg muni auka enn á útblástur frá því sem nú er.
IV. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka laganna eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum, sbr. 3. viðauka laganna. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar er tilgreind í a. lið 13. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum en þar segir að meta þurfi í hverju tilviki hvort breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka sem þegar hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.
1. Hljóðmengun
Kærendur telja að hin fyrirhugaða framkvæmd muni valda aukningu í nið og hávaða við húseign þeirra miðað við það sem nú er. Kærendur telja einnig að hinar nýju tillögur muni leiða af sér að reist verði há hljóðmön sem skerða muni suðurlóð hús þeirra og skerða birtu að húsinu. Í viðauka við reglugerð um hávaða nr. 993/1999 er kveðið á um frávikstilfelli frá viðmiðunar- og leiðbeiningargildum. Samkvæmt fráviki I, þ.e. þegar um er að ræða verulega breytingu á umferðaræð í byggð, skal jafngildishljóðstig fyrir utan húsvegg á jarðhæð og utan við opnanlega glugga íbúðarhúsnæðis ekki fara yfir 65 dB(A). Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að hávaði sé nú yfir mörkum reglugerðar um hávaða fyrir allmörg hús og því sé aðgerða þörf. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis tekur fram í umsögn sinni að hin kærða framkvæmd muni hafa í för með sér að hljóðvist þeirra sem við hvað verstu skilyrðin búa muni batna til frambúðar bæði frá því sem nú er og frá því sem niðurstöður umhverfismats Reykjanesbrautar frá 2. september 2002 gáfu tilefni til að ætla. Í undantekningartilvikum muni hljóðvist ekki batna og þurfi þá framkvæmdaraðili að sækja um að beitt verði reglu um frávik I um hávaða frá umferð sbr. 5 kafla viðauka við reglugerð um hávaða en leita verður samþykkis nefndarinnar fyrir undanþágunni. Fram kemur að nefndin muni áður en fjallað verði um að beita fráviksreglu I óska eftir niðurstöðum boðaðs samráðs við viðkomandi íbúa. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar dagsett 15. janúar 2004 segir um mótvægisaðgerðir til þess að ná hljóðstigi niður fyrir 55 dB(A) árið 2012 við húsin nr. 11-21 við Einiberg að þar þyrfti að reisa um 1,5-2,0 m háan hljóðvegg ofan á núverandi mön en ekki sé hægt að hækka núverandi mön vegna plássleysis. Telur framkvæmdaraðili ekki líklegt að íbúar við Einiberg muni sætta sig við svo háan hljóðvegg en til greina komi að reisa lægri vegg í samráði við íbúa við Einiberg sem bætir hljóðstigið nokkuð frá því sem nú er. Einnig kemur fram í umsögn framkvæmdaraðila að sú aðgerð að hækka mön vestan við húsið um 0,6 metra muni lækka hljóðstig við fyrstu hæð hússins að Einibergi 19 úr 61 dB(A) í 56 dB(A) eftir framkvæmdir.
Ráðuneytið telur að ljóst sé að þær mótvægisaðgerðir sem fyrirhugaðar eru þ.e. að hækka mön vestan við húsið um 0,6 m muni lækka hljóðstig við fyrstu hæð hússins við Einiberg 19. Ennfremur að hægt sé að bæta hljóðvist við húsið enn frekar með því að reisa um 1,5 - 2,0 m háan hljóðvegg ofan á núverandi mön. Í fylgiskjali við matskýrslu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar um Hafnarfjörð frá maí 2002 sem nefnist „Hljóðvist. Umferðarforsendur árið 2024. Ástand með mótvægisaðgerðum" kemur fram að hljóðvist við Einiberg verði á bilinu 60-65 dB(A) árið 2024 miðað við að niðurgrafin veg. Telur ráðuneytið því liggja fyrir að hin kærða framkvæmd muni bæta hljóðvist við Einiberg frá því sem nú er. Breytingar á hljóðvist við Einiberg 19 frá þeirri framkvæmd sem sótt er um breytingu á sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar frá 2. september 2002 eru óverulegar og gefa jafnvel tilefni til að ætla að hin kærða breyting muni bæta hljóðvist frá hinni upphaflegu framkvæmd, þ.e. niðurgrafin Reykjanesbraut
Framkvæmdaraðili hefur boðað að haft verði samráð við íbúa við Einiberg um gerð hljóðveggja sem bæti muni hljóðvist. Einnig kemur það skýrt fram í umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að þeir muni ekki taka fyrir umsókn um að beita fráviksreglu I í reglugerð um hávaða nema lagðar verði fram niðurstöður boðaðs samráðs við íbúa. Ráðuneytið telur því tryggt að samráð verði haft við kærendur svo og aðra sem málið varða. Með vísun til ofangreinds felst ráðuneytið ekki á ofangreindar röksemdir kærenda.
Kærendur telja að ekki liggi fyrir réttar upplýsingar um hávaða og hljóðmengun þar sem ekki hafi verið tekið tillit til opinberra talna um stóraukna flugumferð og ferðamennsku. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telji að umfjöllun um hljóðstig í gögnum framkvæmdaraðila sé til fyrirmyndar meðal annars vegna þess að framkvæmdaraðili notaðist við rauntölur, t.d. við mat á hlutfalli stórra bíla sem fara um þann veg sem metin var. Tilkynning framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar dagsett 15. janúar 2004 er að mati ráðuneytisins ýtarleg og uppfyllir þau skilyrði sem fram koma í 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 671/2000. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til skipulagsaðila kemur einnig fram í kafla 1.3.9 að gerð hafi verið endurskoðuð umferðarspá fyrir umferð um Reykjanesbraut í Hafnarfirði, spáin byggi á umferðarspá svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðisins og hafi einnig verið endurskoðuð miðað við drög að aðalskipulagi Hafnarfjarðar sem nú er enn í vinnslu. Farið var eftir samnorrænu reiknilíkani í samræmi við kröfur reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 við útreikning á hljóðvist vegna hinnar kærðu framkvæmdar. Með vísun til þess að útreikningar um hljóðstig séu í samræmi við kröfur reglugerðar um hávaða felst ráðuneytið ekki á þær röksemdir kærenda að ekki liggi fyrir nægjanlega nákvæmar upplýsingar um hávaða og hljóðmengun vegna hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar.
Ráðuneytið telur að hin fyrirhugaða framkvæmd við tvöföldun Reykjanesbrautar séu ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvað varðar hljóðvist.
2. Loftmengun
Kærendur telja að hinni kærðu framkvæmd muni fylgja mikil viðbótar loftmengun frá því sem nú er. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að loftmengun muni verða fyrir neðan viðmiðunarmörk reglugerðar nr. 251/2002 þegar miðað var við umferðarspá fyrir árið 2024, og að ekki sé líklegt að loftmengun vegna framkvæmdarinnar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Einnig að styrkur mengunarefna frá umferð ráðist fyrst og fremst af umferð og þá einkum fjölda ökutækja en síður útfærslu umferðarmannvirkja. Umhverfisstofnun er einnig þeirrar skoðunar að ekki sé líklegt að fyrirhugaðar breytingar á Reykjanesbraut í Hafnarfirði muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki matskyld enda muni fyrirhugaðar breytingar á framkvæmdum ekki auka loftmengun umtalsvert frá því sem fjallað var um í mati á umhverfisáhrifum fyrri útfærslu Reykjanesbrautar. Framkvæmdaraðili bendir á að framkvæmdin muni draga úr töfum á vegakaflanum sem væntanlega dragi úr loftmengun og því muni framkvæmdin fremur draga úr en auka loftmengun frá því sem nú er. Auk þess sé ekki gert ráð fyrir að framkvæmdin muni auka umferð um vegkaflann sérstaklega. Í athugasemdum kærenda við fram komnar athugasemdir kemur fram að þeir telja að tafir við hringtorg muni auka enn á útblástur frá því sem nú er.
Ráðuneytið bendir á þau viðmið sem fram koma í 3. viðauka við lögum um mat á umhverfisáhrifum, þar segir að athuga þurfi eðli framkvæmdarinnar einkum með tillit til ákveðinna þátta sem talar eru upp í 6 liðum. Sá þáttur sem mestu skipti hvað þessa framkvæmd varðar er bókliður v. 1. liðar þ.e. að framkvæmd valdi mengun eða óþægindum. Telur ráðuneytið með vísun til þess að styrkur mengunarefna frá umferð ráðist fremur af umferð og þá einkum fjölda ökutækja en síður af hönnun umferðarmannvirkja þá hafi ný útfærsla á umferðarmannvirki óveruleg áhrif á það mat sem þegar liggur fyrir vegna fyrri framkvæmdaráforma sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar frá 2. september 2002. Ráðuneytið felst því ekki á röksemd kærenda og telur að hin fyrirhugaða framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvað varðar loftmengun.
3. Bráðabirgðalausn
Kærendur telja að hin fyrirhugaða framkvæmd muni leiða af sér mikla röskun á nýtingu á húseign þeirra til langs tíma og að ekki sé forsvaranlegt að segja að framkvæmdin sé til bráðabirgða þar sem henni er ætlað að standa næstu 10-12 árin. Ráðuneytið felst á með kærendum að óvarlegt sé að kalla framkvæmd sem sé ætlað að vera óbreytt næstu 10-15 árin bráðabirgðalausn þó svo áætlanir standi til að fara í frekari framkvæmdir að þeim tíma liðnum. Hins vegar byggir hvorki a. liður 13. tölul. í viðauka 2 við lög um mat á umhverfisáhrifum né hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. febrúar 2004 á því efnislega að um bráðabirgðalausn sé að ræða. Ákvörðunin Skipulagsstofnunar byggir fyrst of fremst á því að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif en þar sem framkvæmdin er útfærsla sem gildir í 10-15 ár en ekki til ársins 2024 þá verði uppspretta hljóðs og mengunarefna minni en fjallað var um í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 2. september 2002. Ráðuneytið telur jafnframt að hin kærða framkvæmd muni auk þess leiða af sér mun minni röskun á framkvæmdartíma en sú framkvæmd sem fjallað var um í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 2. september 2002.
Að mati ráðuneytisins er í hinni kærðu ákvörðun og tilkynningu framkvæmdaraðila gerð fullnægjandi grein fyrir umhverfisáhrifum fyrirhugaðra breytinga á framkvæmdaráformum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Ráðuneytið telur breytingarnar ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og a. lið 13. tölul. 2. viðauka laganna.
Með vísun til þess sem framan greinir fellst ráðuneytið ekki á kröfu kærenda og staðfestir hér með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. febrúar 2004 um matsskyldu framkvæmdar við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna breytinga á fyrirhugaðri framkvæmd við Reykjanesbraut í Hafnarfirði, dagsett 24. febrúar 2004 er staðfest.