Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

03120125

Hinn 1. júlí 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra Reynis Bergsveinssonar, dags. 21. janúar 2004, Hákonar Arnar Halldórssonar f.h. Gróu Salvarsdóttur eiganda jarðanna Eyrar og Bjarnastaða í Ísafirði, dags. 18. janúar 2004 og stjórnsýslukæra Gísla Pálmasonar, Guðmundar Atla Pálmasonar og Stellu Guðmundsdóttur, dags. 20. janúar 2004 vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 12. desember 2003 um mat á umhverfisáhrifum Djúpvegar (61) - Eyrarhlíð, Hörtná í Súðarvíkurhreppi.

I. Fyrirhuguð framkvæmd og hinn kærði úrskurður

Um er að ræða lagningu 28.3 km. kafla Djúpvegar frá Eyrarhlíð við Ísafjörð að Hörtná við utanverðan Mjóafjörð í Súðavíkurhreppi. Framkvæmdaraðili, Vegagerðin, kynnti í matsskýrslu svokallaða leið 3 að breyttri legu Djúpvegar miðað við núverandi aðstæður og fjórar útfærslur þeirrar leiðar. Valkostur Vegagerðarinnar liggur frá Eyrarhlíð í vestanverðum Ísafirði, út Ísafjörð, um vestanvert Reykjanes, yfir Reykjafjörð á Laufskálaeyri, þaðan fyrir Sveinshúsanes, um Vatnsfjörð, yfir Vatnsfjarðarháls og yfir Mjóafjörð um Hrútey að slitlagsenda utan Hörtnár. Á leið 3 þarf að byggja nýja 60 m langa brú yfir Reykjarfjörð, 9 m brú yfir Vatnsfjarðarós og 100 m langa brú yfir Hrúteyjarsund.

Í hinum kærða úrskurði var fallist á fyrirhugaða framkvæmd með eftirfarandi skilyrðum:

„1. Vegagerðin merki fornleifar innan 100 m frá vegi og girði bæjarstæði Voga og Eyri. Mæla þarf upp Laufskálavörðu og stekk við bæinn Eyrar, ljósmynda og hnitsetja. Vegagerðin þarf að standa fyrir könnun á fornleifum rústa í Hrútey sem munu lenda í vegstæðinu í samráði við Fornleifavernd ríkisins og fara að þeim tillögum að mótvægisaðgerðum sem stofnunin kann að gera vegna áhrifa á fornleifar í Hrútey.

2. Vegagerðin þarf að afmarka búsvæði hrísastarar á Vatnsfjarðarhálsi ofan Skálavíkur í samráði við Umhverfisstofnun."

Ráðuneytið leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Súðavíkurhrepps, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um ofangreindar kærur. Umsögn Skipulagsstofnunar barst 19. febrúar 2004, umsögn Vegagerðarinnar 12. febrúar 2004, umsögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða 4. febrúar 2004, umsögn Súðavíkurhrepps 10. febrúar 2004, umsögn Veðurstofu Íslands 13. febrúar 2004 og umsögn Umhverfisstofnunar 27. febrúar 2004. Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem óskað var eftir þann 12. mars 2004 barst 23. mars 2004. Kærendum og framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir. Athugasemdir kæranda Hákonar Arnar Halldórssonar f.h. Gróu Salvarsdóttur bárust 11. mars 2004. Athugasemdir Reynis Bergsveinssonar bárust 19. mars 2004 og 1. apríl 2004.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau

1. Formsatriði hins kærða úrskurðar

Reynir Bergsveinsson krefst þess að umhverfisráðherra felli úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar að því er varðar þverun Mjóafjarðar og aðliggjandi vega. Umhverfisráðherra feli öðrum aðilum að gera mat á umhverfisáhrifum framkvæmda um Hrútey og Hrúteyjarsund og að metin verði ný veglína um Eyrarfjall. Óviðunandi sé að meta þá leið ekki sem fullnægjandi valkost í stað þess að fara yfir Vatnsfjarðarháls og túnin í Innri-Skálavík og Hrútey. Úrskurður Skipulagsstofnunar sé að þessu leyti andstæður 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í úrskurðinum komi fram að ekki hafi verið farið að þessu ákvæði. Þess verði heldur ekki vart í gögnum málsins að veitt hafi verið undanþága frá ákvæðinu. Með þessari meðferð máls sé réttur almennings og tilgangur laganna fyrir borð borinn.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í tillögu að matsáætlun sem stofnuninni barst með bréfi dags. 21. mars 2002 hafi framkvæmdaraðili á undirbúningsstigi gert grein fyrir öðrum kostum en leið 3 á legu vegarins milli Eyrarhlíðar og Hörtnár miðað við fyrirliggjandi rannsóknir og sem skoðaðir hafi verið á því stigi málsins.  Skipulagsstofnun telji ennfremur að í ljósi þess forræðis sem framkvæmdaraðili hafi um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt 8. og 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 séu ekki efni til að binda hendur hans um framsetningu kosta í matsskýrslu þrátt fyrir að um frávik frá matsáætlun sé að ræða, þ.e. aðeins sé lögð fram leið 3 með mismunandi útfærslum. Vísað er til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði þar sem gerð er grein fyrir fyrrnefndum kostum og ástæðum þess að framkvæmdaraðili hafi ekki kosið að leggja þá fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar.  Að mati stofnunarinnar hafi ekki verið forsendur í úrskurði til að fjalla frekar um kosti sem ekki voru lagðir fram til málsmeðferðar skv. 9.-11. gr. laga nr. 106/2000.

Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til matsáætlunar þar sem gerð hafi verið grein fyrir þeirri tillögu Vegagerðarinnar að Djúpvegur liggi út Ísafjörðinn vestanverðan, um Reykjafjörð og Vatnsfjörð, yfir Vatnsfjarðarháls og yfir Mjóafjörð um Hrútey og á núverandi veg við Hörtná innan Látra í vestanverðum Mjóafirði. Þetta sé síðan endurtekið í matsskýrslu. Fjallað sé um aðra kosti í matsskýrslu til samanburðar eins og lög mæli fyrir um og eðlilegt sé. Þannig sé fjallað um 4 mismunandi valkosti við leið 3, tillögu Vegagerðarinnar, og þeir lagðir fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar. Ennfremur hafi verið skoðaðar 3 aðrar leiðir, sem í upphafi þótti rétt að skoða en við nánari athugun komu ekki til álita, þ.e. núllkostur (óbreyttur vegur), leið 1 (jarðgöng milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar) og leið 2 (Um Eyrarfjall). Samkvæmt þessu hafi verið gerð grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komu og gott betur og matsskýrsla hafi því uppfyllt kröfur 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Kærandi telji að einhver ein veglína á leið 2 (yfir Eyrarfjall) geti verið góður kostur í samanburði við leið 3 (þverun Mjóafjarðar). Vegagerðin telji leið 2 óviðunandi lausn þar sem samfélagið krefjist betri og öruggari samgangna en fælist í henni og skipti þá engu hvaða veglína er valin. Til að uppfylla kröfurnar um greiðfærni og umferðaröryggi verði að losna við fjallveginn. Umhverfisstofnun komist að sömu niðurstöðu í umsögn sinni um matsskýrsluna þar sem vísað er til álits Náttúrustofu Vestfjarða um að nýr vegur yfir Eyrarfjall hefði að áliti stofunnar mikið rask í för með sér. Að öllum líkindum yrðu enn frekari framkvæmdir á þessu svæði innan fárra ára, þar sem nýr vegur myndi ekki uppfylla kröfur um örugga vetrarumferð um Eyrarfjall.

2. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar

2.1. Áhrif á lífríki Hrúteyjar

Varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar segir í kæru Reynis Bergsveinssonar að öllum sé ljóst sem vilji sjá að Hrútey sé náttúruperla hvað varðar landslag, gróður og dýralíf. Þar sé varpstöð og lífsvæði mörg hundruð fugla og svo hafi verið um árhundruð. Neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu miklu meiri en fram kemur í matsskýrslu hvað þetta varðar. Skýrum gögnum þar að lútandi sé vísað frá og þau talin af framkvæmdaraðila vera óviðkomandi málinu, sbr. bréf hans til Skipulagsstofnunar, dags. 11. september 2003. Umhverfisstofnun hafi ekki fjallað um Hrútey í umsögn sinni svo sem henni hafi þó borið skylda til, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Í Hrútey sé með fyrirhugaðri framkvæmd að óþörfu fórnað viðkvæmu og sérstöku vistkerfi. Fuglalífið í Hrútey hafi orðið fyrir áhrifum manna en ekki sé þess vegna réttlætanlegt að fórna því nú að fullu. Í hinum kærða úrskurði segi að fyrirhugaður vegur liggi ekki um varpið. Framkvæmdaraðila hafi þannig tekist að sannfæra Skipulagsstofnun og eftir atvikum Umhverfisstofnun um það og ábendingar kæranda hafi ekki verið teknar trúanlegar þrátt fyrir að Skipulagsstofnun bendi á að framkvæmdaraðili hafi ekki gert athugasemdir við tölu kæranda um æðarfugla í Hrútey. Í matsskýrslu telji framkvæmdaraðili æðarhreiður vera 37 en þau hafi það ár verið 204. Margt annað varðandi fuglalífið í eynni hafi komið fram í ábendingum kæranda sem framkvæmdaraðili hafi ekki mótmælt enda hafi það ekki verið skoðað til umhverfismats nema einu sinni í hálfa klukkustund.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin telji vægi þeirra áhrifa sem framkvæmdin muni hafa einkum á fuglalíf í Hrútey sé verulegt en að áhrifin verði fyrst og fremst staðbundin en komi ekki til með að höggva stór skörð í útbreiðslu eða stofnstærð þeirra lífvera sem um ræðir. Skipulagsstofnun sé ljóst að nytjar af æðarvarpi í Hrútey kunni að minnka til muna.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að við umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki komið fram upplýsingar sem sýni fram á sérstöðu Hrúteyjar hvað snerti gróðurfar og jarðmyndanir. Vísað er til skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða. Þar komi fram að um 10 tegundir fugla verpi í Hrútey og allt séu það algengar tegundir. Hins vegar mælir stofnunin með að leitað verði umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna umfjöllunar kæranda um gulönd sem sé á válista.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að hugtök á borð við „náttúruperla" séu gildishlaðin og hafi að mati stofnunarinnar litla þýðingu varðandi úrslausn þess máls. Að mati stofnunarinnar sé nærtækara að meta þýðingu eða sérstöðu eyjarinnar á grunni þeirra aðferðafræði sem stofnunin kynnti við undirbúning Náttúruverndaráætlunar. Hrútey sé ein fjögurra eyja í Djúpi og þeirra minnst; hinar eru Vigur, Æðey og Borgarey. Náttúrufræðistofnun búi ekki yfir neinum viðbótarupplýsingum um gróðurfar, jarðfræði eða landslag Hrúteyjar umfram það sem fram kemur í skýrslum sem unnar voru í tengslum við umhverfismatið og treysti sér því ekki til að meta verndargildi eyjarinnar á þeim forsendum. Í fórum stofnunarinnar séu hins vegar upplýsingar um fuglalíf í Hrútey sem byggjast á samtölum við þáverandi ábúanda í Skálavík í ágúst 1991. Þekking á fuglalífi Hrúteyjar sé tiltölulega góð. Vitað sé að fuglalífi í eynni hafi hrakað á undanförnum áratugum; æðarvarp þar sé miklu minna en það var um og fyrir miðja 20. öld en hafi þó aðeins náð sér á strik undanfarin ár. Mesta dúntekja þar hafi verið um 12 kg (um 700–800 kollur) fyrir 1960 samkvæmt upplýsingum frá ábúanda Skálavíkur frá árunum 1982 og 1991. Ljóst sé að minkur og tófa hafi haft umtalsverð áhrif á fuglalíf í eynni. M.a. séu heimildir um að tófa hafi komist þangað út á ís fjögur ár í röð um 1960 og leikið varpið grátt. Við það hafi dúntekja minnkað í 6-7 kg og síðan enn meira og hafi aldrei náð sér á strik síðan. Miklu stærri æðarvörp séu í hinum þremur eyjunum í Djúpi. Í þeim samanburði teljist Hrútey því ekki sérlega mikilvægt varpland fugla. Afar líklegt sé að það fuglalíf sem nú er fyrir í Hrútey skerðist enn meir ef af framkvæmdum verður. Bæði vegna þess að aðgangur fyrir rándýr svo sem ref og mink batnar til muna og vegna truflunar af umferð fólks um eynna. Fullyrðingar kæranda um varp gulandar (þriggja para) sumarið 2003 séu áhugaverðar en þurfi þó að mati stofnunarinnar frekari staðfestingar við. Gulönd sé afar strjáll varpfugl hér á landi og verpi m.a. strjált við Djúp; ekki þó í eyjum þar heldur fyrst og fremst við ár. Séu upplýsingar Reynis réttar sé það vissulega óvenjulegt að svo margar gulandarkollur verpi í nábýli á eyju. Að mati stofnunarinnar sé þó ekki hægt að útiloka að um toppönd hafi verið að ræða en hún sé algengur varpfugl við Djúp. Í bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, frá 12. apríl 2004, um viðbótarupplýsingar vegna máls þessa, segir að upplýsingar kæranda um að dúntekja hafi verið meiri en skv. upplýsingum stofnunarinnar eða um 20 kg í Hrútey miðað við upplýsingar frá 1933-1934 geti einnig verið réttar. Náttúrufræðistofnun hafi ekki möguleika á að sannreyna þessar upplýsingar.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að framkvæmdaraðila sé ljóst að náttúrufar í Hrútey sé fjölbreytt. Með vegþverun verði vart lengur um eyju að ræða. Hins vegar standi þverunin og falli með því að fara um eyna. Er í því sambandi vísað til umfjöllunar í matsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir legu vegarins laust norðan við Hrútey. Vísað er til umsagnar Umhverfisstofnunar um matsskýrslu þar sem segir að í Hrútey sé ekki að finna „heildstæð gróðurhverfi sem beri að friða". Með hliðsjón af því sé ekki líklegt að vegagerð í Mjóafirði hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun telji í úrskurði sínum að áhrif á gróður og landslag séu ásættanleg. Skipulagsstofnun telji ljóst að leið 3 muni liggja mjög nálægt æðarvarpinu í eynni og geti valdið því að varpið minnki eða hætti tímabundið á meðan framkvæmdir standa yfir. Minkur og refur muni eiga auðveldara með að komast út í eyna en áður. Skipulagsstofnun telji að áhrif leiðar 3 á fugla í Hrútey verði veruleg. Í matsskýrslu sé ítarlega gerð grein fyrir athugunum á fuglalífi á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, þ.á.m. á æðarvarpi í Hrútey. Athugasemdir kæranda varðandi þetta atriði standist því ekki. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi verið upplýstar um fuglalíf á svæðinu. Einnig liggi fyrir sérfræðiskýrsla Náttúrustofu Vestfjarða, sem var fylgiskjal 17 með matsskýrslu, þar sem gerð er grein fyrir athugunum á fuglalífi á svæðinu. Vegagerðin dragi ekki í efa heimildarannsóknir kæranda né hans eigin talningar, enda frá þeim greint í sérfræðiskýrslu Náttúrustofu Vestfjarða, sbr. fylgiskjal 17 með matsskýrslu. Hins vegar komi niðurstöður hans hvað varðar fjölda tegunda og einstaklinga frekar á óvart. Þegar farið hafi verið í eyjuna 2001 hafi fundist 39 hreiður. Á það sé bent bæði í matskýrslunni og sérfræðiskýrslu Náttúrustofu Vestfjarða. Mögulega kunni einhverjar kollur að hafa þá yfirgefið hreiðrin. Kærandi fullyrði að starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða hafi einungis notað hálfa klukkustund til að meta fuglalíf eyjarinnar. Þessi fullyrðing komi mönnum nokkuð í opna skjöldu. Samkvæmt rannsóknargögnum og skipsdagbók hafi verið farið fjórum sinnum í eynna; varpfuglaskoðun, fjörurannsókn, gróðurrannsókn og fornleifarannsókn. Í hvert skipti hafi fuglalíf verið skráð. Í varpfuglaathugunum hafi tveir starfsmenn Náttúrustofunnar verið við athuganir 11. júní 2001 í tæpa þrjá tíma. Einnig hafi kærandi verið með í för ásamt verkfræðingi hjá Vegagerðinni.

2.2. Áhrif á sjávarföll í Mjóafirði

Kærandi, Reynir Bergsveinsson, segir að gagnrýni hans á sjávarföll í Mjóafirði hafi ekki verið hrakin. Vísað er til umfjöllunar um þetta atriði í hinum kærða úrskurði og telur kærandi Skipulagsstofnun ekki hafa rökstudd þá afstöðu sína að sjónarmið kæranda eigi ekki við rök að styðjast. Verði sjávarfallið, milli flóðs og fjöru 10 sentímetrum minna en það sé nú muni þangbeltið í Mjóafirði innan við brú verða 10 sentímetrum minna og geri það um 10% af því sem nú er. Verði rýrnun sjávarfallsins 5 sentímetrar muni þangfjaran rýrna um 5%. Þangbeltið á þessum slóðum sé með lífsskilyrði sem svari til um 1 meters á hæð. Borin sé saman straumhraði við Borgarfjarðarbrú og Hrúteyjarsund miðað við að straumhraði sé 2,7, sek. í Borgarfirði en 1,5 við Hrútey. Þetta sé ónothæfur samanburður þar sem sjávarfallamunur á stórstraum í Borgarfirði sé svipaður og í Reykjavík eða um 4 m. Í Ísafjarðardjúpi sé hann 2 m. en flest bendi til að nokkru þrengra sé um sjávarfallið við Hrútey heldur en í Borgarfirði. Hlutfallslega sama op væri meðal straumhraðann 1,35 m/sek.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um að þverun Mjóafjarðar muni hafa áhrif á hæð flóða innan Hrúteyjar.  Í framlögðum gögnum Vegagerðarinnar hafi verið bent á að þverun Mjóafjarðar muni hafa í för með sér óverulega breytingu á hæð sjávarfalla en fjaran muni vara skemur að loknum framkvæmdum. Leitað hafi verið umsagna sérfræðistofnana. Umhverfisstofnun hafi ekki talið líklegt að vegagerð í Mjóafirði hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Hafrannsóknarstofnun hafi ekki gert athugasemdir við áhrif framkvæmdanna á fjöru- og botndýralíf. Skipulagsstofnun telji að þverun Mjóafjarðar muni ekki hafa veruleg áhrif á vatnsskipti eða hæð sjávarfalla í firðinum. Stofnunin telji að í ofangreindri kæru hafi ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til að draga í efa þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að þverun Mjóafjarðar muni ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á vatnsskiptum innan þverunar.  

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að ekki sé talið að breyting verði á sjávarstöðu frá því sem nú sé. Stofnunin telji því ekki ástæðu til að ætla að þangbelti muni rýrna frá því sem nú sé.

Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til matsskýrslu þar sem segir að miðað við óskert Hrúteyjarsund verði litlar breytingar á sjávarhæð inn á Mjóafirði, litlar breytingar verði á sjávarhæð undir brú og þverunin hafi óveruleg áhrif á vatnsskipti. Sjávarhæð á meðalstórstraumsflóði og meðalstórstraumsfjöru verði óbreytt en lægsta fjara á meðalstórstraum verði 30 mínútum síðar en ella. Kærandi telji að það geti vart staðist að fjörunni geti seinkað um 30 mínútur en samt fjarað niður í sama kóta innan brúar og áður en fjörðurinn var þveraður. Í þessu felist hins vegar engin mótsögn. Sjávarfallið innan brúarinnar sé hliðrað í tíma miðað við sjávarfallið utan brúarinnar. Ástæðan sé sú það þurfi fall í gegnum brúaropið til að skapa þá aukningu sem þar verður í straumhröðum, miðað við óskert þversnið fjarðarins, þegar sjór rennur inn og út fjörðinn. Þetta sjáist vel á mynd 9 í matsskýrslunni ,,Straumlíkan af Mjóafirði" sem unnin hafi verið af Verkfræðistofunni Vatnaskil h/f. sem fylgi með umsögn Vegagerðarinnar. Það þurfi hins vegar ekkert fall í gegnum opið á háfjöru og á háflóði því þá sé straumliggjandi. Vegagerðin túlki framangreinda mynd 9 þannig að framkvæmdin hafi óveruleg áhrif á sjávarhæð inn á Mjóafirði. Vissulega hafi framkvæmdin einhver áhrif og t.d. megi sjá að fjaran vari heldur skemur en áður eða um sem nemur 15 mínútum. Þess megi geta að brúin í Mjóafirði er með mjög ríflegt vatnsop miðað við aðrar brýr yfir firði hér á landi sem þó eru taldar valda óverulegum breytingum á sjávarföllum, sbr. t.d. Borgarfjarðarbrúna. Þannig sé t.d. mesti meðalhraði undir brúnni í Mjóafirði aðeins 1,5 m/s en 2,7 m/s í Borgarfirði. Ástæðan fyrir þessu mikla vatnsopi í Mjóafirði sé hið mikla dýpi í Hrúteyjarsundi. Í ljósi þess hve litlar breytingar verði á sjávarföllum í Mjóafirði við þverun fjarðarins telji Vegagerðin ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur af mögulegum breytingum á lífríki fjarðarins vegna breyttra sjávarfalla.

2.3. Áhrif á stekk og vatnavexti í Eyrargili

Gróa Salvarsdóttir krefst þess að fallið verði frá endurgerð núverandi vegar ofan Bjarnastaða og vegurinn verði heldur lagður með sjó frá stöð 7300 til stöðvar 9800. Kærandi gerir þá athugasemd að um töluverða efnisnotkun sé að ræða frá stöð 3000 til stöðvar 10000 sem sé gjaldskyld. Einnig krefst kærandi þess að veglína á 1100 m kafla frá stöð 4800 til stöðvar 5900 verði bein eða því sem næst milli þessara punkta. Með því mætti forðast að drekkja stekknum í Eyrargilinu í vegfyllingunni. Fari stekkurinn á kaf sé jafnframt kletturinn, sem myndi tvo veggi stekksins, horfinn úr fyrirstöðunni fyrir hlaupvatni til norður. Þannig megi einnig halda vegfyllingarhæðinni í lágmarki til þess að forðast að gilið brjóti sér leið norður með veginum í vatnavöxtum og asahláku eins og gerst hafi.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að umfjöllun um fébætur vegna tjóns á nytjum eða nytjalandi til landbúnaðar falli ekki undir málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum.  Skipulagsstofnun telji þó ljóst að tryggja þurfi að hagsmunaaðilar fái viðeigandi bætur í einhverju formi. Varðandi umræddan stekk í Eyrargili hafi stofnuninni borist viðbótarumsögn frá Fornleifavernd ríkisins um verndargildi hans. Þar hafi komið fram að fallist var á að stekkurinn lenti undir vegfyllingunni að uppfylltum skilyrðum um að áður en til þess kæmi skyldi hann mældur, hnitsettur, ljósmyndaður og honum lýst. Þau skilyrði hafi Skipulagsstofnun gert að sínum og tekið upp í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar. Þar sem fyrir hafi legið mat Fornleifaverndar ríkisins á verndargildi stekksins í Eyrargili hafi Skipulagsstofnun talið ábendingar Vegagerðarinnar um efnisþörf og ræsagerð á fyrrnefndum köflum í hinum kærða úrskurði svara vali á vegstæði með fullnægjandi hætti.  

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að gert sé ráð fyrir að umræddur stekkur í Eyrargili lendi undir vegfyllingu. Fornleifavernd ríkisins hafi fallist á að rústinni verði fargað með því skilyrði að hún verði mæld upp og hnitasett, ljósmynduð og henni lýst. Jafnframt segir í umsögninni að framkvæmdaraðili telji að kletturinn sem myndi tvo veggi stekkjarins, hafi lítið sem ekkert vægi í að halda Eyraránni frá því að renna til norðurs. Til að áin renni ekki norður með veginum verði byggður fyrirstöðugarður utan árinnar. Þannig sé tryggt að taki hólkurinn ekki allt rennsli árinnar muni renna yfir veginn í farveginum hvort sem hólkurinn fari með eða ekki. Núverandi hólkur flytji 44% meira vatn en hólkurinn sem flaut niður. Með hækkun vegarins um Eyrargil og gerð varnargarðs norðan árinnar muni flutningsgeta hólksins vaxa umtalsvert eða liðlega 20%. Varðandi kröfu kæranda um að veglína verði nánast bein milli stöðva 4800 og 5900 telur framkvæmdaraðili nokkuð langt seilst sé markmiðið aðeins að bjarga stekknum. Nægilegt sé að huga að veglínunni um gilið þar sem þessi beina lína hafi í för með sér verulegar óæskilegar fyllingar og jarðrask utan Eyrar, einkum milli stöðva 5400 og 5800. Breikkun fyllingarinnar eins og lagt sé til, sé umfangsmikil og kostnaðarsöm. Varðandi efnistöku vísar framkvæmdaraðili til 9. kafla vegalaga, nr. 45/1994.

2.4. Áhrif á lífríki Heydals

Gísli Pálmason, Guðmundur Atli Pálmason og Stella Guðmundsdóttir telja óvissu ríkja um áhrif fyrirhugaðrar brúargerðar yfir Mjóafjörð á lífríki Heydals. Kærendur séu að byggja upp náttúruvæna ferðaþjónustu í Heydal þar sem áhersla er lögð á einstaka og fjölþætta náttúru svæðisins. Fyrirhuguð framkvæmd geti minnkað saltmagn fjarðarins þar sem hlutfall ferskvatns verði að öllum líkindum hærra. Minna saltmagn muni auka líkur á að fjörðinn leggi lengra fram en nú og hafa áhrif á snjóalög og veðurfar þar sem snjór fjúki ekki til sjávar heldur inn dalinn. Aukin snjóalög geti leitt til þess að seinna vori en nú og stytti sumartímann sem aftur geti haft ómæld áhrif á plöntu og fuglalíf. Stórt kríuvarp sé á svæðinu og mikið um sund- og vaðfugla. Lax og silungur sé í ánni og skilyrði fyrir seyði með því besta sem gerist á Vestfjörðum. Breytingar á lífríki fjöru og sjávar kunni því að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem erfitt verði að bæta fyrir eftir á.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin telji ólíklegt að þverum Mjóafjarðar muni hafa áhrif á vatnaskipti og seltumagn í Mjóafirði og þar með áhrif á lífríki fjarðarins.

Í umsögn Veðurstofu Íslands segir að vel sé þekkt það orsakasamhengi að eftir því sem sjór með ströndum og inni á fjörðum hafi minna saltmagn í yfirborðslögum sínum, þeim mun líklegri sé lagnaðarísmyndun þegar kalt er í veðri. Helsti áhrifavaldur á seltu sjávar í yfirborðslögum inni á fjörðum sé ferskvatnsrennsli af landi. Í Mjóafirði séu það nokkrar dragár sem renni til sjávar innan við fyrirhugaða brú yfir Hrúteyjarsund. Heydalsá sé þar vatnsmest. Hugsanleg aukin fyrirstaða í fjarðarminni sé stærsti áhrifavaldur á það hvort ferskvatn eigi greiða leið til blöndunar við saltari sjó. Niðurstaða straumlíkans Mjóafjarðar í matsskýrslu sýni að nær allur fallstraumur sé um Hrúteyjarsund í fjarðarminninu austanverðu og þar með mest öll sjávarskipti Mjóafjarðar. Brú yfir sundið eins og henni er lýst í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar muni hafa óveruleg áhrif á flæði sjávar inn og út sundið og fyrirhuguð framkvæmd muni því ekki auka fyrirstöðu flæðis. Því sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að myndun lagnaðaríss verði tíðari við fyrirhugaða framkvæmd eins og kærendur gefi í skyn. Að sama skapi muni framkvæmdin því ekki hafa markverð áhrif á staðbundið veðurfar Mjóafjarðar og Heydals, hvorki á snjósöfnun né vorkomu.

Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um áhrif á sjávarföll, fjöru og botndýralíf í Mjóafirði og að í matsskýrslu sé komist að því að hverfandi breytingar verði á vatnsskiptum og sjávarföllum. Líkleg áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið í og við Heydal einskorðist við óverulegar breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á sjávarföllum í firðinum. Með hliðsjón af því verði ekki séð að framkvæmdin samkvæmt leið 3 hafi veruleg áhrif á náttúrufar í Heydal. Með þverun Mjóafjarðar lengist leiðin verulega af aðalveginum, Djúpveginum, og inn í Heydal. Það kunni að vera ókostur með hliðsjón af ferðamennsku. Það sé mat Vegagerðarinnar að umhverfisáhrif í og við Heydal yrðu meiri samfara leið 2 en leið 3 svo sem áhrif á hljóðstig og loftgæði, sbr. kafla 4.1.3 og 5.1.3. í úrskurði Skipulagsstofnunar. Samkvæmt leið 2 þurfi nýja brú á Heydalsá, væntanlega fremst á leirunum sbr. kafla 3.3.3 og 6.1.3 í matsskýrslu jafnframt sem gert er ráð fyrir taka þurfi efni úr eyrum Heydalsár til framkvæmdanna samkvæmt leið 2. Í kafla 2.7.6.2 í matsskýrslu komi fram að fuglalíf er fjölskrúðugt í vestanverðum Mjóafirði og einsýnt að það yrði fyrir verulegum neikvæðum áhrifum samfara framkvæmdum á leið 2. Með þetta í huga sé leið 3 væntanlega betri kostur en leið 2 hvað náttúruvæna ferðamennsku í Heydal áhrærir. Varðandi sjávarseltu og veðurfar er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði þar sem fram kemur að Skipulagsstofnun telur að þverun Mjóafjarðar muni ekki hafa veruleg áhrif á vatnsskipti eða hæð sjávarfalla í firðinum. Ennfremur segir í umsögninni að sjávarföllin séu afgerandi þáttur hvað varðar lífríkið innan þverunarinnar. Niðurstöður ítarlegra útreikninga verkfræðistofunnar Vatnaskila séu að óverulegar eða hverfandi breytingar verði á sjávarföllum og þar með vatnsskiptum við þverun Mjóafjarðar. Hverfandi breytingar verði því á sjávarseltu innan Hrúteyjar. Í því ljósi þurfi vart að óttast breytingar á hvernig fjörðinn leggur á vetrum. Hugsanlegt sé að fjörðinn leggi frekar í skjólinu, sem myndast innan við fyllingu milli Hrúteyjar og landsins að vestan. Hverfandi áhrif verði á strauma og öldugang við þverun fjarðarins. Ótti kærenda á auknum snjóalögum, styttri sumrum með neikvæðum áhrifum á plöntu- og fuglalíf séu því ekki á rökum reistur. Reynslan af þverun Borgar-, Dýra- og Önundarfjarðar, þar sem í öllum tilfellum hafi verið um að ræða hverfandi breytingar á vatnsskiptum og þar með sjávarseltu, bendi ekki til neikvæðra áhrifa. Varðandi kríuvarp, fugla og fiskgengd er vísað til umfjöllunar í matsskýrslu um lífríki straumvatna. Einnig er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði þar sem segir að viðkvæmustu svæðin í tengslum við lífríki í ferskvatni séu við Heydalsá og Sveinhúsavatn. Þetta renni enn frekari stoðum undir að leið 2 hafi meiri umhverfisáhrif í för með sér en leið 3.

III. Niðurstaða

1. Um formhlið hins kærða úrskurðar

Reynir Bergsveinsson krefst þess að umhverfisráðherra felli úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar, feli öðrum aðilum að gera mat á umhverfisáhrifum framkvæmda um Hrútey og Hrúteyjarsund og að metin verði ný veglína um Eyrarfjall. Telur kærandi óviðunandi að sú leið sé ekki metin sem fullnægjandi valkostur í stað þess að fara yfir Vatnsfjarðarháls og túnin í Innri-Skálavík og Hrútey. Úrskurður Skipulagsstofnunar sé að þessu leyti andstæður 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Í 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 segir að í matsskýrslu skuli tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu. Þá skal gera grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu. Lýsa skal þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið, þar á meðal umfangi, hönnun og staðsetningu, samræmi við skipulagsáætlanir og fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Ávallt skal gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Loks skal gera stutta og skýra samantekt um matsskýrsluna og niðurstöðu hennar.

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir valkosti framkvæmdaraðila, leið 3, að breyttri legu Djúpvegar miðað við núverandi aðstæður og innan leiðarinnar fjórar útfærslur. Jafnframt er í matsskýrslu gerð grein fyrir öðrum valkostum við vegarlagninguna: leið 1, jarðgöng og leið 2 um Eyrarfjall, auk núll-kosts. Gerð er grein fyrir þessum kostum sem og útfærslum leiðar 3 í úrskurði Skipulagsstofnunar. Ráðuneytið telur að með þessu sé nægilega gerð grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og úrskurður Skipulagsstofnunar að því leyti í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Er því ekki fallist á ofangreinda kröfu kæranda um ógildingu úrskurðarins.

2. Áhrif á lífríki Hrúteyjar

Kærandi Reynir Bergsveinsson telur að Hrútey sé náttúruperla hvað varðar landslag, gróður og dýralíf. Þar sé varpstöð og lífsvæði mörg hundruð fugla. Neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu miklu meiri en fram kemur í matsskýrslu hvað þetta varðar. Umhverfisstofnun hafi ekki fjallað um Hrútey í umsögn sinni svo sem henni hafi þó borið skylda til. Í Hrútey sé með fyrirhugaðri framkvæmd að óþörfu fórnað viðkvæmu og sérstöku vistkerfi. Í hinum kærða úrskurði segi að fyrirhugaður vegur liggi ekki um varpið. Framkvæmdaraðila hafi þannig tekist að sannfæra Skipulagsstofnun og eftir atvikum Umhverfisstofnun um það og ábendingar kæranda hafi ekki verið teknar trúanlegar þrátt fyrir að Skipulagsstofnun bendi á að framkvæmdaraðili hafi ekki gert athugasemdir við tölu kæranda um æðarfugla í Hrútey.

Skipulagsstofnun telur að vægi þeirra áhrifa sem framkvæmdin muni hafa einkum á fuglalíf í Hrútey sé verulegt en að áhrifin verði fyrst og fremst staðbundin en komi ekki til með að höggva stór skörð í útbreiðslu eða stofnstærð þeirra tegunda sem um ræðir. Þá telur stofnunin að nytjar af æðarvarpi í Hrútey kunni að minnka til muna. Að mati Umhverfisstofnunar hafa ekki komið fram upplýsingar í matsferlinu sem sýna fram á sérstöðu Hrúteyjar hvað snerti gróðurfar og jarðmyndanir. Stofnunin bendir á að tegundir fugla sem fjallað sé um séu algengar. Náttúrufræðistofnun Íslands telur þekkingu á fuglalífi Hrúteyjar tiltölulega góða. Vitað sé að fuglalífi í eynni hafi hrakað á undanförnum áratugum; æðarvarp þar sé miklu minna en það var um og fyrir miðja 20. öld en hafi þó aðeins náð sér á strik undanfarin ár. Miklu stærri æðarvörp séu í hinum þremur eyjunum í Djúpi. Í þeim samanburði teljist Hrútey því ekki sérlega mikilvægt varpland fugla. Afar líklegt sé að það fuglalíf sem nú er fyrir í Hrútey skerðist enn meir ef af framkvæmdum verður. Fullyrðingar Reynis um varp gulandar (þriggja para) sumarið 2003 séu áhugaverðar en þurfi þó að mati stofnunarinnar frekari staðfestingar við. Gulönd sem er á válista sé afar strjáll varpfugl hér á landi og verpi m.a. strjált við Djúp; ekki þó í eyjum þar heldur fyrst og fremst við ár. Að mati stofnunarinnar sé þó ekki hægt að útiloka að um toppönd hafi verið að ræða en hún sé algengur varpfugl við Djúp. Í umsögn Vegagerðarinnar segir að framkvæmdaraðila sé ljóst að náttúrufar í Hrútey sé fjölbreytt. Þverun Mjóafjarðar standi og falli með því að fara um eyna.

Kærandi lagði fram viðbótargögn um fuglalíf í Hrútey þar sem fram kemur að í lok maí 2004 hafi tæplega 250 æðarhreiður, 34 grágæsahreiður, 8 hettumáfshreiður fundist auk 100 verpandi kría og margra annarra varpfugla. Jafnframt hafi þá verið greindar 16 tegundir fugla í og við Hrútey, en það er sama fjöldi tegunda og getið er um í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Skipulagsstofnun telur í úrskurði sínum dags. 15. desember sl. að áhrif vegalagningar um Hrútey verði veruleg þar sem vegurinn muni liggja mjög nálægt æðarvarpinu í eynni og líkur séu á auknu aðgengi minks og refs er valdi raski á fuglalífi í eynni með tilkomu vegarins.

Ljóst er að breytingar hafa orðið á fuglalífi Hrúteyjar undanfarin ár og áratugi og að þær tegundir fugla sem fundist hafa í eynni eru tegundir sem eru algengar um allt land. Hins vegar telur ráðuneytið með vísan til þess að kærandi segir þrjár gulendur verpa í Hrútey og umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um fuglalíf í eynni rétt að kanna betur hvort gulönd verpir í eyjunni áður en framkvæmdir hefjast svo draga megi úr hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar á varpstaði hennar.

Að öðru leyti telur ráðuneytið ekki ástæðu til þess að ætla að áhrif vegalagningarinnar á fuglalíf Hrúteyjar verði annað en staðbundin eða þau komi til með að hafa áhrif á stofna viðkomandi tegunda. Í umfjöllun um lífríki og náttúrufar Hrúteyjar hefur fátt komið fram sem gefur ástæðu til þess að ætla að eyjan hafi þá sérstöðu sem kærandi heldur fram. Eyjan hefur ekki verið á Náttúruminjaskrá né verið til skoðunar í tengslum við gerð náttúruverndaráætlunar. Þá hefur ekkert komið fram í umsögnum um málið sem gefur tilefni til þess að ætla að svo sé. Með vísan til umfjöllunar og athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar sem vikið hefur verið að hér að ofan telur ráðuneytið ekki ástæðu til þess að fallast á aðrar athugasemdir kæranda um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki og náttúrufar Hrúteyjar.

3. Áhrif á sjávarföll í Mjóafirði

Kærandi, Reynir Bergsveinsson, telur að fyrirhuguð brú yfir Mjóafjörð geti haft þau áhrif á sjávarföll í firðinum að þangbeltið í Mjóafirði innan við brú verða 10 sentímetrum minna og geri það um 10% af því sem nú er. Verði rýrnun sjávarfallsins 5 sentímetrar muni þangfjaran rýrna um 5%. Þangbeltið á þessum slóðum sé með lífsskilyrði sem svari til um 1 meters á hæð.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til þess að leitað hafi verið umsagna sérfræðistofnana um þetta atriði. Umhverfisstofnun hafi ekki talið líklegt að vegagerð í Mjóafirði hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Hafrannsóknarstofnun hafi ekki gert athugasemdir við áhrif framkvæmdanna á fjöru- og botndýralíf. Skipulagsstofnun telji að þverun Mjóafjarðar muni ekki hafa veruleg áhrif á vatnsskipti eða hæð sjávarfalla í firðinum. Stofnunin telji að í ofangreindri kæru hafi ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til að draga í efa þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að þverun Mjóafjarðar muni ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á vatnsskiptum innan þverunar.   Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að ekki sé talið að breyting verði á sjávarstöðu frá því sem nú sé. Stofnunin telji því ekki ástæður til að ætla að þangbelti muni rýrna frá því sem nú sé.

Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til matsskýrslu þar sem segir að miðað við óskert Hrúteyjarsund verði litlar breytingar á sjávarhæð inn á Mjóafirði, litlar breytingar verði á sjávarhæð undir brú og þverunin hafi óveruleg áhrif á vatnsskipti. Sjávarhæð á meðalstórstraumsflóði og meðalstórstraumsfjöru verði óbreytt en lægsta fjara á meðalstórstraum verði 30 mínútum síðar en ella. Kærandi telji að það geti vart staðist að fjörunni geti seinkað um 30 mínútur en samt fjarað niður í sama kóta innan brúar og áður en fjörðurinn var þveraður. Í þessu felist hins vegar engin mótsögn. Sjávarfallið innan brúarinnar sé hliðrað í tíma miðað við sjávarfallið utan brúarinnar. Ástæðan sé sú það þurfi fall í gegnum brúaropið til að skapa þá aukningu sem þar verður í straumhröðum, miðað við óskert þversnið fjarðarins, þegar sjór rennur inn og út fjörðinn. Um þetta atriði er vísað til sérfræðiskýrslu sem fylgdi matsskýrslu „Straumlíkan af Mjóafirði" sem unnin var af Verkfræðistofunni Vatnaskil h/f. Það þurfi hins vegar ekkert fall í gegnum opið á háfjöru og á háflóði því þá sé straumliggjandi. Vissulega hafi framkvæmdin einhver áhrif og t.d. megi sjá að fjaran vari heldur skemur en áður eða um sem nemur 15 mínútum. Þess megi geta að brúin í Mjóafirði sé með mjög ríflegt vatnsop miðað við aðrar brýr yfir firði hér á landi sem þó eru taldar valda óverulegum breytingum á sjávarföllum, sbr. t.d. Borgarfjarðarbrúna. Þannig sé t.d. mesti meðalhraði undir brúnni í Mjóafirði aðeins 1,5 m/s en 2,7 m/s í Borgarfirði. Ástæðan fyrir þessu mikla vatnsopi í Mjóafirði sé hið mikla dýpi í Hrúteyjarsundi. Í ljósi þess hve litlar breytingar verði á sjávarföllum í Mjóafirði við þverun fjarðarins telji Vegagerðin ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur af mögulegum breytingum á lífríki fjarðarins vegna breyttra sjávarfalla.

Ráðuneytið telur sérfræðiskýrslu sem fylgdi matsskýrslu fyrirhugaðrar framkvæmdar um strauma í Mjóafirði og skýringar framkvæmdaraðila trúverðugar. Með vísan til þess og annarra fram kominna umsagna fellst ráðuneytið ekki á ofangreinda málsástæðu kæranda.

4. Áhrif á stekk og vatnavexti í Eyrargili

Gróa Salvarsdóttir krefst þess að fallið verði frá endurgerð núverandi vegar ofan Bjarnastaða og vegurinn verði heldur lagður með sjó frá stöð 7300 til stöðvar 9800. Einnig krefst kærandi þess að veglína á 1100 m. kafla frá stöð 4800 til stöðvar 5900 verði bein eða því sem næst milli þessara punkta. Með því mætti forðast að drekkja stekknum í Eyrargilinu í vegfyllingunni. Fari stekkurinn á kaf sé jafnframt kletturinn, sem myndi tvo veggi stekksins, horfinn úr fyrirstöðunni fyrir hlaupvatni til norður. Þannig megi einnig halda vegfyllingarhæðinni í lágmarki til þess að forðast að gilið brjóti sér leið norður með veginum í vatnavöxtum og asahláku eins og gerst hafi.

Í matsskýrslu kemur fram að valkostur framkvæmdaraðila er að leggja veginn með sjó fremur en að endurgera núverandi veg frá stöð 7200 til 10000. Telur ráðuneytið því ekki þörf á að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til þess að stofnuninni hafi borist viðbótarumsögn frá Fornleifavernd ríkisins um verndargildi stekksins. Þar hafi komið fram að fallist var á að stekkurinn lenti undir vegfyllingunni að uppfylltum skilyrðum um að áður en til þess kæmi skyldi hann mældur, hnitsettur, ljósmyndaður og honum lýst. Þau skilyrði hafi Skipulagsstofnun gert að sínum og tekið upp í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að gert sé ráð fyrir að umræddur stekkur í Eyrargili lendi undir vegfyllingu. Fornleifavernd ríkisins hafi fallist á að rústinni verði fargað með því skilyrði að hún verði mæld upp og hnitasett, ljósmynduð og henni lýst. Jafnframt segir í umsögninni að framkvæmdaraðili telji að kletturinn sem myndi tvo veggi stekkjarins, hafi lítið sem ekkert vægi í að halda Eyraránni frá því að renna til norðurs. Til að áin renni ekki norður með veginum verði byggður fyrirstöðugarður utan árinnar. Þannig sé tryggt að taki hólkurinn ekki allt rennsli árinnar muni renna yfir veginn í farveginum hvort sem hólkurinn fari með eða ekki. Núverandi hólkur flytji 44% meira vatn en hólkurinn sem flaut niður. Með hækkun vegarins um Eyrargil og gerð varnargarðs norðan árinnar muni flutningsgeta hólksins vaxa umtalsvert eða liðlega 20%. Varðandi kröfu kæranda um að veglína verði nánast bein milli stöðva 4800 og 5900 telur framkvæmdaraðili nokkuð langt seilst sé markmiðið aðeins að bjarga stekknum. Nægilegt sé að huga að veglínunni um gilið þar sem þessi beina lína hafi í för með sér verulegar óæskilegar fyllingar og jarðrask utan Eyrar, einkum milli stöðva 5400 og 5800. Breikkun fyllingarinnar eins og lagt sé til sé umfangsmikil og kostnaðarsöm.

Með vísan til afstöðu Fornleifaverndar ríkisins sem fram kemur í hinum kærða úrskurði og skýringa framkvæmdaraðila varðandi umhverfisáhrif þess að hann fari undir veginn er kröfu kæranda um breytingu veglínu milli stöðva 4800 og 5900 hafnað.

Kærandi gerir þá athugasemd að um töluverða efnisnotkun sé að ræða frá stöð 3000 til stöðvar 10000 sem sé gjaldskyld.

Samkvæmt 45. gr. vegalaga, nr. 45/1994 er hver landeigandi skyldur til að láta af hendi land það er þarf undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni enda komi fullar bætur fyrir. Samkvæmt 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 er markmið laganna að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið, að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp. Ráðuneytið telur að ekki beri í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum að taka afstöðu til bótaskyldu svo sem fyrir efnistöku vegna vegagerðar heldur skuli það gert með sérstakri ákvörðun á grundvelli framangreindra ákvæða.

5. Áhrif á lífríki Heydals

Gísli Pálmason, Guðmundur Atli Pálmason og Stella Guðmundsdóttir telja óvissu ríkja um áhrif fyrirhugaðrar brúargerðar yfir Mjóafjörð á lífríki Heydals. Fyrirhuguð framkvæmd geti minnkað saltmagn fjarðarins þar sem hlutfall ferskvatns verði að öllum líkindum hærra. Minna saltmagn muni auka líkur á að fjörðinn leggi lengra fram en nú og hafa áhrif á snjóalög og veðurfar þar sem snjór fjúki ekki til sjávar heldur inn dalinn. Aukin snjóalög geti leitt til þess að seinna vori en nú og stytti sumartímann sem aftur geti haft ómæld áhrif á plöntu og fuglalíf. Stórt kríuvarp sé á svæðinu og mikið um sund- og vaðfugla. Lax og silungur sé í ánni og skilyrði fyrir seyði með því besta sem gerist á Vestfjörðum. Breytingar á lífríki fjöru og sjávar kunni því að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem erfitt verði að bæta fyrir eftir á.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin telji ólíklegt að þverum Mjóafjarðar muni hafa áhrif á vatnaskipti og seltumagn í Mjóafirði og þar með áhrif á lífríki fjarðarins. Í umsögn Veðurstofu Íslands segir að brú yfir sundið eins og henni er lýst í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar muni hafa óveruleg áhrif á flæði sjávar inn og út sundið og fyrirhuguð framkvæmd muni því ekki auka fyrirstöðu flæðis. Því sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að myndun lagnaðaríss verði tíðari við fyrirhugaða framkvæmd eins og kærendur gefi í skyn. Að sama skapi muni framkvæmdin því ekki hafa markverð áhrif á staðbundið veðurfar Mjóafjarðar og Heydals, hvorki á snjósöfnun né vorkomu.

Ráðuneytið telur með vísan til umsagna Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnunar að fyrirhuguð brúargerð muni ekki hafa veruleg áhrif lífríki Mjóafjarðar eða veðurfar og fellst því ekki á ofangreinda málsástæðu kærenda.

6. Samantekt

Með vísan til þess sem að framan segir er úrskurður Skipulagsstofnunar frá 12. desember 2003 um mat á umhverfisáhrifum Djúpvegar (61) - Eyrarhlíð, Hörtná í Súðarvíkurhreppi staðfestur með því skilyrði að framkvæmdaraðili standi fyrir athugun á því hvort gulönd verpi í Hrútey í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast svo draga megi úr hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar á varpstaði hennar.

Úrskurðarorð:

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 12. desember 2003 um mat á umhverfisáhrifum Djúpvegar (61) - Eyrarhlíð, Hörtná í Súðarvíkurhreppi staðfestur með því skilyrði að framkvæmdaraðili standi fyrir athugun á því hvort gulönd verpir í Hrútey að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast svo draga megi úr hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar á varpstaði hennar.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta