Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 07060014

 

Hinn 15. maí 2008, er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

 

ÚRSKURÐUR

 

Ráðuneytinu barst þann 9. júlí 2007 kæra Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 1. júní 2007 um að lagning vegslóðar vegna borunar kjarnaholu á Þeistareykjum í Aðaldælahreppi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

 

I. Hin kærða ákvörðun og kröfur kæranda.

 

Þeistareykir ehf. tilkynntu þann 4. apríl 2007 til Skipulagsstofnunar um lagningu vegslóðar vegna borunar kjarnahola á Þeistareykjum, Aðaldælahreppi, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og c-lið 10. tölul. 2. viðauka laganna. Niðurstaða Skipulagsstofnunar, sbr. bréf dags. 1. júní 2007, var að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

Í kæru SUNN, dags. 4. júlí 2007, eru kærðar tvær ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu, annars vegar lagning vegslóðar vegna borunar kjarnaholu á Þeistareykjum sem gerð er grein fyrir hér að framan og hins vegar borun rannsóknarhola ÞG-4 og ÞG-5 á Þeistareykjum. Um síðarnefndu kæruna er fjallað í sérstökum úrskurði ráðuneytisins sem einnig er kveðinn upp í dag.

 

Kærandi er þeirrar skoðunar að ofangreindar framkvæmdir skuli skilyrðislaust vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 2. og 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Það er álit kæranda að ekki skuli veita frekari leyfi til framkvæmda eða rannsóknarborana á svæðinu fyrr en svæðisskipulag liggur fyrir og umhverfismati er lokið á Þeistareykjasvæðinu, en hvorttveggja var í vinnslu þegar kæran var send ráðuneytinu. 

 

 

II. Málsástæður kæranda og umsagnir.

 

Kæra SUNN var þann 16. júlí 2007 send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Þeistareykja ehf., Náttúrufræðistofnunar Íslands, heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Orkustofnunar, Fornleifaverndar ríkisins, iðnaðarráðuneytisins og Aðaldælahrepps. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 3. ágúst 2007, Umhverfisstofnunar þann 13. september 2007, Þeistareykja ehf. þann 30. júlí 2007, Náttúrufræðistofnunar Íslands þann 22. ágúst 2007, heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra þann 24. júlí 2007, Orkustofnunar þann 20. júlí 2007, Fornleifaverndar ríkisins þann 26. júlí 2007 og Aðaldælahrepps þann 1. ágúst 2007. Ekki barst umsögn frá iðnaðarráðuneytinu. Umsagnirnar voru þann 3. janúar 2008 sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir bárust þann 10. janúar 2008.

 

Kærandi mótmælir því að Skipulagsstofnun fjalli um afmarkaða hluta framkvæmda á Þeistareykjasvæðinu í aðskildum málum. Kærandi telur að þó að ein og ein rannsóknarhola eða vegslóð hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif ein og sér, séu töluverðar líkur á því að samanlögð áhrif rannsókna og framkvæmda geti haft umtalsverð umhverfisáhrif.  Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að þar sem viðkomandi náttúruminjasvæði hafi nú þegar verið skert með rannsóknarborholum, muni frekari framkvæmdir á sama náttúruminjasvæði ekki hafa neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins umfram það sem nú þegar hafi orðið.  Telur kærandi einmitt hið gangstæða og vísar til ákvörðunar Skipulagsstofnunar um boranir fyrri rannsóknarhola frá 15. ágúst 2003.  Krefst kærandi þess að frekari rannsóknarboranir verði ekki framkvæmdar fyrr en að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram.  Áform framkvæmdaraðila séu mjög umfangsmikil og einsýnt sé að ef af þeim verði muni verndargildi Þeistareykja rýrna stórkostlega.  Mat á umhverfisáhrifum fyrir frekari framkvæmdir á svæðinu sé nauðsynlegt til ákvörðunar á verndargildi svæðisins, áhrifum á umhverfi og náttúru og þess hvort annars konar atvinnustarfsemi í meiri sátt við náttúru og minjar svæðisins sé betri kostur fyrir sveitarfélagið og þjóðina. 

 

Kærandi bendir á að Þeistareykir séu á náttúruminjaskrá vegna fjölbreyttra jarðmyndana, gufu- og leirhvera og útfellinga. Þessi jarðhitaummerki falli undir 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Einnig sé á Þeistareykjum eldhraun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999. Friðaðar plöntur og plöntur á válista finnist á Þeistareykjum, auk þess sem dýrategundir smádýra séu þar fjölbreytilegar. Í Þeistareykjahrauni séu hellar, þar á meðal dropasteinshellar, en dropasteinar séu friðlýst náttúruvætti samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 120/1974. Á Þeistareykjum séu gígar, Stóra-Víti og Litla-Víti, sem séu á náttúruminjaskrá. Samkvæmt fornleifaskráningu séu 58 þekktir fornleifastaðir í Þeistareykjalandi.

 

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að fyrirhugað sé að vinna svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum. Sett hafi verið á fót sérstök samvinnunefnd sem í áttu sæti fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem fara með skipulagsmál á svæðinu.  Fyrirhugað sé þannig af hálfu sveitarfélaganna að vinna að heildstæðri stefnumörkun um vernd og nýtingu svæðanna. Slíkt sé mikilvægur liður í að fá heildstæðari mynd af fyrirhuguðum áformum framkvæmdaraðila á Þeistareykjasvæðinu.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila sé fyrirhugað að bora 400-600 m djúpa kjarnaholu á Þeistareykjasvæðinu til að efla þekkingu á svæðinu og nýtingarmöguleikum þess. Nauðsynlegt sé að leggja vegslóð að kjarnaholunni vegna flutnings á bor að og frá borholu ásamt tilheyrandi tækjum, svo og bormönnum á vaktaskiptum. Lögð er fram tillaga um tvo kosti á staðsetningu kjarnaholunnar og að hluta til tvær mismunandi leiðir vegslóðar að holunni. Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að umsagnaraðilar hafi verið sammála um að fyrirhugaðar framkvæmdir væru ekki þess eðlis, m.a. með tilliti til staðsetningar og eðlis, að þær kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Þá hafi framkvæmdaraðili kynnt að frekari úttekt á fuglalífi myndi fara fram og stuðst yrði við niðurstöður hennar við tilhögun verksins. Ljóst hafi verið að mati stofnunarinnar að með tilliti til umfangs, eðlis og staðsetningar, og með hliðsjón af áliti umsagnaraðila, myndu fyrirhugaðar framkvæmdir ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki vera háðar mati á umhverfishárifum.

 

Í umsögnum Aðaldælahrepps, Fornleifaverndar ríkisins, heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Umhverfisstofnunar kemur fram að þessir aðilar telja að lagning fyrirhugaðrar vegslóðar sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.  Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að stofnunin hafi á sínum tíma ekki lagst gegn rannsóknum á svæðinu en hafi talið æskilegt að meta umhverfisáhrif þeirra og standa vel að verki þannig að áhrif rannsóknanna á umhverfið yrðu sem minnst. Telur stofnunin allt benda til þess að framkvæmdaraðili hyggist hefja orkuvinnslu á Þeistareykjum og því sé æskilegt að öll framkvæmdin sé sett í umhverfismat áður en lengra er haldið. Þannig væri unnt að horfa heildstætt á framkvæmdina og haga henni í sem bestri sátt við umhverfið.  Þó Fornleifavernd ríkisins telji að fornleifum stafi ekki hætta af lagningu vegslóðarinnar tekur hún engu að síður undir það sjónarmið sem fram kemur í kærunni, að mikilvægt sé að meta í einu lagi heildaráhrif þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru í tengslum við rannsóknarboranir og orkuvinnslu á svæðinu í framtíðinni.  Orkustofnun tók ekki afstöðu til kærunnar á þeim grunni að umfjöllun um lagningu vegslóðarinnar félli ekki undir verksvið stofnunarinnar.

 

III. Niðurstaða.

 

Sú framkvæmd sem kæran lýtur að telst ekki til matsskyldra framkvæmda samkvæmt 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Hún er því ekki skilyrðislaust háð mati á umhverfisáhrifum auk þess sem ákvæði 2. mgr. 5. gr. um sameiginlegt mat fleiri en einna matsskyldra framkvæmda kemur ekki til álita.  Niðurstaðan ræðst af 6. gr. laganna.  Þar kemur fram að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.  Í 6. gr. kemur enn fremur fram að við ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin.  Meðal þess sem athuga þarf varðandi eðli framkvæmdar er stærð og umfang hennar sem og sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, sbr. lið i) og ii) í 1. tölul. 3. viðauka.

 

Í kjölfar þess að Þeistareykir ehf. tilkynntu Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, þar sem hún félli undir 2. viðauka laga nr. 106/2000, fór Skipulagsstofnun yfir þau gögn sem lögð voru fram hálfu Þeistareykja ehf., sem og umsagnir sem stofnunin kallaði eftir, og tók ákvörðun um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr. laganna.  Niðurstaðan varð sú að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Þessi niðurstaða fær ótvíræða stoð í fyrirliggjandi umsögnum umsagnaraðila.  Það er samdóma mat Aðaldælahrepps, Fornleifaverndar ríkisins, heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Umhverfisstofnunar, að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.  Tekur ráðuneytið undir þetta mat. Með vísan til þess er það niðurstaða ráðuneytisins að fyrirhuguð lagning vegslóðar vegna borunar kjarnaholu á Þeistareykjum í Aðaldælahreppi sé ekki líkleg til að hafa í för með umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Staðfest er því ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júní 2007.

 

Úrskurðarorð.

Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júní 2007 um að lagning vegslóðar vegna borunar kjarnaholu á Þeistareykjum í Aðaldælahreppi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta