Mál nr. 6/2018
Þann 8. maí 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 6/2018:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-2700/2012:
Landsbankinn hf.
gegn
Kevin Gerald Stanford
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
- Beiðni um endurupptöku
- Með erindi, dagsettu 14. ágúst 2018, fór Kevin Stanford þess á leit að héraðsdómsmálið nr. E-2700/2012, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. apríl 2015, yrði endurupptekið.
- Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Hrefna Friðriksdóttir og Björn Jóhannesson.
- Málsatvik
- Með stefnu Landsbankans hf., sem þingfest var þann 6. september 2012, var endurupptökubeiðandi krafinn um greiðslu að fjárhæð 1.098.988.260 krónur, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Kröfur bankans mátti rekja til lánveitinga bankans til félagsins Icon ehf. á árunum 2006 og 2007, vegna kaupa á hlutabréfum í FL Group hf. Á þessum tímabili veitti bankinn félaginu þrjú stór lán; með lánssamningi, dags. 31. mars 2006, að fjárhæð 5.123.000.000 kr., með lánssamningi, dags. 5. júlí 2007, að fjárhæð kr. 120.150.000 kr. og með lánssamningi, dags. 30. mars 2007, að fjárhæð 10.100.000 evrur. Skuld samkvæmt lánssamningnum, dags. 5. júlí 2007, hafði verið gerð upp en eftir stóð skuld við bankann á grundvelli hinna tveggja lánssamninganna.
- Samkvæmt hlutafélagaskrá tók Materia Invest ehf. yfir öll réttindi og skyldur Icon ehf. samkvæmt fyrrgreindum lánssamningum með samrunaáætlun sem staðfest var á hluthafafundi félaganna 25. september 2007.
- Þegar málið var höfðað höfðu engar greiðslur verið inntar af hendi til bankans vegna lánssamningsins frá 31. mars 2006 en Materia Invest ehf. hafði innt af hendi nokkrar afborganir samkvæmt lánssamningi, dags. 30. mars 2007, og stóð skuldin í u.þ.b. 400.000.000 kr. við málshöfðunina.
- Endurupptökubeiðandi sat í stjórn Materia Invest ehf. og hafði áður setið í stjórn Icon ehf. Með ábyrgðaryfirlýsingu, dags. 15. janúar 2008, gekkst hann í sjálfskuldarábyrgð fyrir skilvísum greiðslum á skuldum Materia Invest ehf. við Landsbanka Íslands hf. samkvæmt áðurnefndum lánssamningum. Ábyrgðaryfirlýsing endurupptökubeiðanda var að hámarksfjárhæð 776.000.000 kr. þegar hún var undirrituð og skyldi upphæðin taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Við útgáfu stefnunnar í júlí 2012 var framreiknuð fjárhæð ábyrgðaryfirlýsingarinnar 1.098.988.260 kr., sem var stefnufjárhæð málsins.
- Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 7. október 2008 neytti stofnunin heimildar til að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn bankans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbankinn hf. sem síðar var breytt í Landsbankinn hf. Tók bankinn við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans, en þar á meðal voru kröfur á grundvelli lánssamninganna við Icon ehf. og síðar Materia Invest ehf., sem og ábyrgðarkrafan á hendur endurupptökubeiðanda.
- Endurupptökubeiðandi tók til varna í héraðsdómsmálinu og skilaði hann greinargerð sinni þann 15. nóvember 2012. Byggðust varnir endurupptökubeiðanda m.a. á þeirri málsástæðu að ábyrgð hans væri ógild eða ógildanleg á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936.
- Mætt var af hálfu endurupptökubeiðanda í 14 þinghöld í málinu en undir rekstri málsins var m.a. úrskurðað um framlagningu gagna og frestun málsins. Í þinghaldi þann 26. mars 2015, þegar aðalmeðferð átti að fara fram, féll niður þingsókn af hálfu endurupptökubeiðanda. Landsbankinn hf. lagði fram sókn í málinu og var málið dómtekið sama dag. Var málið því dæmt eftir framkomnum kröfum og gögnum með tilliti til þess, sem fram hafði komið af hálfu endurupptökubeiðanda, sbr. ákvæði 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Taldi héraðsdómur allar málsástæður endurupptökubeiðanda á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 ósannaðar og segir jafnframt í dóminum að endurupptökubeiðandi hafi ekki lagt fram nein sönnunargögn í skilningi laga um meðferð einkamála sem feli í sér fullnægjandi sönnun fyrir staðhæfingum hans.
- Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur Landsbankans hf. og var endurupptökubeiðandi dæmdur til að greiða bankanum 1.098.988.260 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2012 til greiðsludags. Þá var endurupptökubeiðandi dæmdur til að greiða Landsbankanum hf. 3.000.000 kr. í málskostnað.
- Með beiðni endurupptökubeiðanda til Héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. júní 2015 óskaði hann eftir endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála. Beiðninni var hafnað með bréfi, dags. 22. júní s.á., á þeim grundvelli að beiðnin hefði ekki borist héraðsdómi innan mánaðar frá því endurupptökubeiðanda urðu málsúrslit kunn. Vísaði héraðsdómur til þess að ekki hefði komið fram í beiðninni hvenær endurupptökubeiðanda urðu úrslit málsins kunn. Hins vegar hafi lögmanni hans verið fullkunnugt um að aðalmeðferð málsins ætti að fara fram þann 26. mars 2015, en hann hafi kosið að mæta ekki til þinghaldsins. Dómur í málinu hafi verið kveðinn upp þann 21. apríl s.á. og hann birtur á vef dómstólsins. Útilokað sé því að endurupptökubeiðanda hafi ekki verið kunnugt um málsúrslit fyrr í júní 2015, þegar hann óskaði eftir endurupptöku málsins. Var beiðninni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 138. gr. laga um meðferð einkamála.
- Í beiðni endurupptökubeiðanda kemur fram að Landsbankinn hf. hafi nýverið lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi endurupptökubeiðanda í Bretlandi á grundvelli fyrrgreinds útivistardóms. Kveður endurupptökubeiðandi að hann hafi mátt ætla af samskiptum við bankann að ekki yrði gengið að honum vegna slæmrar fjárhagsstöðu hans. Þá hafi tveir hluthafar í Materia Invest ehf. greitt óverulegan hluta af sínum persónulegu ábyrgðum sem hafi verið tilkomnar af sambærilegum ástæðum. Vegna nýrra gagna, sem endurupptökubeiðandi hefur nú komist yfir og endurupptökubeiðandi telur að hefðu haft verulega þýðingu fyrir dómsniðurstöðuna hefðu þau legið fyrir í málinu, óskar endurupptökubeiðandi eftir endurupptöku héraðsdómsmálsins.
- Grundvöllur beiðni
- Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að nú liggi fyrir gögn sem sýni fram á að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi verið meðvitaðir um bága fjárhagsstöðu FL Group hf. þegar bankinn krafði endurupptökubeiðanda um sjálfskuldarábyrgð vegna skulda Materia Invest ehf. Starfsmenn bankans hefðu hins vegar fullvissað endurupptökubeiðanda um að FL Group hf. væri komið fyrir vind eftir endurskipulagningu félagsins og að sjálfskuldarábyrgð endurupptökubeiðanda yrði aflétt þegar hlutabréfin í FL Group hf. tækju við sér. Á grundvelli þessara forsendna og vegna þess að endurupptökubeiðandi hafi óttast aðgerðir bankans gegn öðrum félögum sem endurupptökubeiðandi átti hlut í, hafi endurupptökubeiðandi látið undan þrýstingi bankans og ritað undir sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna þann 15. janúar 2008.
- Endurupptökubeiðandi byggir á því að héraðsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau gögn, sem hann lagði fram við meðferð málsins, gætu ekki talist sanna staðhæfingar hans um atvik við samningsgerðina. Þá hafi ekkert legið fyrir um það í málinu að starfsmenn bankans hefðu leynt hann upplýsingum sem þeir höfðu undir höndum og gátu haft þýðingu við þá ákvörðun hans að gangast undir sjálfskuldarábyrgð.
- Við meðferð málsins í héraði hafi endurupptökubeiðandi lagt fram kafla úr rannsóknarskýrslu Alþingis, skýrslu Lynx Advokatfirma og gögn úr máli slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. gegn PriceWaterhouseCoopers. Nú hafi endurupptökubeiðandi hins vegar fengið vitneskju um það að Landsbanki Íslands hf. hafi í raun staðið fyrir umfangsmiklum aðgerðum til þess að hafa áhrif á hlutabréfaverð í FL Group hf. skömmu áður en endurupptökubeiðandi ritaði undir ábyrgðina. Endurupptökubeiðandi hafi nú undir höndum gögn sem staðfesti, að bankinn hafi á þeim tíma búið yfir upplýsingum um að FL Group hf. hafi í reynd verið gjaldþrota í árslok 2007. Bankinn hafi leynt hann þessum upplýsingum, sem hefðu skipt miklu máli þegar hann tók ákvörðun um að verða við beiðni bankans, án nokkurrar skyldu þar um, að takast á hendur persónulega ábyrgð á skuldum Materia Invest ehf. við bankann.
- Þau gögn sem endurupptökubeiðandi telur einkum skipta máli hvað þetta varðar eru í fyrsta lagi samkomulag um Gnúp fjárfestingarfélag hf., dags. 8. janúar 2008, í öðru lagi samkomulag Glitnis banka hf. um stjórnun Gnúps, dags. 30. janúar 2008, og í þriðja lagi gögn sem staðfesti svokallaða „Terrafirma fléttu“ eins og hún hafi verið kölluð innanhúss í Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf., en fléttan hafi orðið að formlegu samkomulagi þann 29. mars 2008. Endurupptökubeiðandi lagði framangreind samkomulög fram með endurupptökubeiðni sinni.
- Endurupptökubeiðandi byggir á að í samkomulagi um Gnúp fjárfestingarfélag hf., dags. 8. janúar 2008, sem gert var viku fyrir undirritun endurupptökubeiðanda á ábyrgðaryfirlýsingu hans, felist skriflegt samkomulag milli Landsbanka Íslands hf., Kaupþings hf., Glitnis banka hf. og Icebank hf. um að fela fjárhagsstöðu Gnúps fjárfestingarfélags hf. fyrir verðbréfamarkaðnum og svæfa starfsemi þess félags með því að semja um algjöra kyrrstöðu í rekstri þess, sem fólst í því að bankarnir skyldu ekki ganga að eignum þess, hlutabréfunum í FL Group hf., en Gnúpur var annar stærsti eigandi FL Group hf. Af efni samkomulagsins verði ráðið að það hafi verið gert gagngert í því skyni að forða því að verðbréfamarkaðurinn, þ.m.t. hinir almennu hluthafar og minni lánadrottnar FL Group hf. fréttu af því að einn stærsti eigandi félagsins, Gnúpur, væri í raun gjaldþrota. Slíkar fréttir hefðu án efa sett viðskipti með hlutabréf í FL Group hf. í uppnám og rýrt allt traust á rekstri félagsins.
- Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að í samkomulagi Glitnis banka hf. um stjórnun Gnúps, dags. 30. janúar 2008, komi fram viðurkenning á því að Landsbanki Íslands hf. og aðrir bankar sem hlut áttu að samkomulaginu, hafi skuggastýrt Gnúpi með formlegum hætti, frá og með 8. janúar 2008, eða viku áður en Landsbanki Íslands hf. hafi beitt endurupptökubeiðanda þrýstingi til að takast á hendur ábyrgð gagnvart bankanum vegna eldri lána bankans til Materia Invest ehf. til kaupa á bréfum í FL Group hf.
- Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að af gögnum megi sjá að í tengslum við samkomulagið um skuggastjórnun Gnúps hafi Landsbanki Íslands hf. og Glitnir banki hf. gert samkomulag um að Landsbanki Íslands hf. myndi ekki ganga að hlutabréfum í FL Group hf. sem bankinn átti handveð í og voru í eigu Fons ehf., sem það félag seldi Gnúpi þann 9. janúar 2008, daginn eftir undirritun samkomulags bankanna um yfirtöku Gnúps. Í samkomulaginu hafi falist að Glitnir banki hf. myndi kaupa á yfirverði hlutabréf Landsbanka Íslands hf. í félaginu Terra Firma India S.á.r.l. Hafi þetta verið kallað „Terrafirma fléttan“ innan bankanna, sem varð að formlegu samkomulagi þann 29. mars 2008. Vísar endurupptökubeiðandi nánar til kæru slitastjórnar Glitnis banka hf. til sérstaks saksóknara, dags. 5. september 2011, sem fylgdi með endurupptökubeiðni.
- Að mati endurupptökubeiðanda sé ljóst að Landsbanki Íslands hf. hafi beitt vafasömum aðferðum við að halda uppi hlutabréfaverði í FL Group hf., þó félagið væri gjaldþrota. Við þessar aðstæður geti það ekki talist í samræmi við góða viðskiptahætti, sem Landsbanki Íslands hf. hafi verið bundinn af að fylgja, að knýja á um að endurupptökubeiðandi, sem ekki var í persónulegu samningssambandi við bankann, skyldi takast á hendur stórfellda ábyrgð á skuldum hlutafélags sem tryggðar voru eingöngu í hlutabréfum í FL Group hf. Augljóst sé að með þessum aðgerðum hafi bankinn og hinir aðilar að aðgerðunum, gerst brotlegir við 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sem lýsir markaðsmisnotkun refsiverða.
- Í ljósi þess að endurupptökubeiðandi hafi nú lagt fram gögn sem sýni fram á vitneskju Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma þegar bankinn þrýsti á endurupptökubeiðanda að ganga í sjálfskuldarábyrgð gagnvart sér, séu skilyrði fyrir því að endurupptaka málið. Þessi gögn hafi ekki legið fyrir við meðferð héraðsdómsmálsins, en ljóst sé að þau hefðu getað haft verulega þýðingu fyrir dómsniðurstöðuna. Endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að gögnin hafi ekki legið fyrir í dómsmálinu. Þessi gögn hafi verið í fórum Landsbankans hf., enda allir starfsmenn hans þeir hinir sömu og störfuðu í Landsbanka Íslands hf., að frátöldum æðstu stjórnendum.
- Í ljósi þess að bankinn hafi nú krafist gjaldþrotaskipta yfir endurupptökubeiðanda í Englandi, þá hafi hann stórfellda hagsmuni af því að málið verði endurupptekið og dæmt á grundvelli þeirra gagna sem hann hafi nú komist yfir og sýni aðgerðir Landsbanka Íslands hf. til að stýra markaðsverði á hlutabréfum í FL Group hf. á þeim tíma þegar endurupptökubeiðandi veitti bankanum umrædda ábyrgð.
- Viðhorf gagnaðila
- Í greinargerð Landsbankans hf., dags. 6. nóvember 2018, er byggt á því að skilyrði endurupptöku samkvæmt 191. gr., laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og því beri að hafna beiðninni.
- Byggir Landsbankinn hf. í fyrsta lagi á því að endurupptökubeiðandi þurfi skv. 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála að leiða sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar. Þá sé það jafnframt skilyrði að endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós. Að mati bankans skorti með öllu að þessi grundvallarskilyrði fyrir endurupptöku séu uppfyllt.
- Landsbankinn hf. byggir á því að þau málsatvik, sem endurupptökubeiðandi telur að hafi ekki verið leidd réttilega í ljós, varði öll grundvöll málatilbúnaðar hans sem hann bar sjálfur ábyrgð á og sönnunarbyrði fyrir og hafi verið í lófa lagið að leiða í ljós undir rekstri málsins. Endurupptökubeiðandi hafi rekið málið með aðstoð lögmanns og bendir bankinn á að endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir því við dóminn að fá að leggja fram tiltekin sönnunargögn eftir að gagnaöflun var lýst lokið og að endurupptökubeiðandi hafi lagt fram lista af vitnum sem hann hugðist leiða við aðalmeðferð. Þá vísar bankinn til sérstakrar bókunar sem gerð var í málinu af hálfu endurupptökubeiðanda þar sem hann fór fram á heimild til umfangsmikillar gagnaframlagningar fyrir aðalmeðferð málsins og áskildi sér rétt til viku vitnaleiðslna við aðalmeðferð. Á þessar beiðnir hafi verið fallist fyrir aðalmeðferðina.
- Útivist hafi hins vegar orðið af hálfu endurupptökubeiðanda við aðalmeðferðina og sé óútskýrt hvers vegna sú varð raunin. Með því háttalagi hafi endurupptökubeiðandi hins vegar fyrirgert rétti sínum til að koma að frekari sönnunargögnum undir rekstri málsins.
- Þá vísar Landsbankinn hf. til þess að öll gögn, sem fylgdu með endurupptökubeiðni málsins, eða vísað er til í beiðninni, hafi orðið til fyrir rekstur héraðsdómsmálsins. Ástæðu þess að málsatvik voru ekki leidd í ljós undir rekstri málsins megi því eingöngu rekja til vanrækslu endurupptökubeiðanda sjálfs á að gæta réttar síns, enda hefði honum verið í lófa lagið að afla og leggja fram umrædd gögn við rekstur dómsmálsins eða leiða vitni til að bera um málsatvikin.
- Landsbankinn hf. bendir á að endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir heimild héraðsdóms til endurupptöku málsins á grundvelli 137. gr. laga um meðferð einkamála en að þeirri beiðni hafi verið hafnað. Að mati bankans sé heimild endurupptökubeiðanda til endurupptöku á grundvelli 191. gr. laga um meðferð einkamála mun þrengri en samkvæmt 137. gr. laganna. Í þessu sambandi bendir bankinn á skilyrði 191. gr. um að endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að hafa ekki leitt málsatvik í ljós undir rekstri málsins, né verði honum kennt um að ekki var óskað endurupptöku samkvæmt 137. gr. Þar sem héraðsdómur hafi nú þegar hafnað endurupptökubeiðni samkvæmt 137. gr. er að mati bankans útilokað að fallast á endurupptöku á grundvelli 191. gr. laganna. Þar sem endurupptökubeiðanda var í lófa lagið að færa fram öll þau sjónarmið, sem endurupptökubeiðni byggir á, bæði undir rekstri dómsmálsins og við meðferð endurupptökubeiðni samkvæmt 137. gr. laganna þá sé skilyrðum a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála ekki fullnægt.
- Byggir Landsbankinn hf. í öðru lagi á því ekki séu sterkar líkur á því að framlögð gögn endurupptökubeiðanda hefðu leitt til breyttrar niðurstöðu. Því sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála ekki uppfyllt.
- Fyrir það fyrsta sé ekkert þeirra gagna sem fylgdu endurupptökubeiðninni ný gögn í þeim skilningi að þau hafi orðið til eftir að héraðsdómur gekk, eða þau hafi ekki verið þekkt eða aðgengileg fyrr en eftir að dómurinn gekk. Bendir bankinn á að stór hluti endurupptökubeiðninnar feli í sér beina tilvitnun í stefnu Landsbanka Íslands hf. gegn PriceWaterhouseCoopers, sem þingfest var þann 21. júní 2012, og var hluti af málsgögnum sem endurupptökubeiðandi lagði fram í þessu máli sem nú er krafist endurupptöku á. Stefnan geti því ekki talist „nýtt gagn“ í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr. laganna.
- Í annan stað bendir Landsbankinn hf. á að endurupptökubeiðnin byggi nær alfarið á samkomulagi sem gert var um endurskipulagningu og skuldauppgjör Gnúps fjárfestingarfélags hf. þann 8. janúar 2008. Fullyrðingar hans um að hann hefði aldrei ritað undir sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu til bankans, hefði hann vitað af slæmri stöðu Gnúps, eigi því ekki við rök að styðjast. Bendir bankinn á að fréttir af samkomulagi Gnúps við lánardrottna sína hafi birst í nær öllum fjölmiðlum landsins dagana 9. og 10. janúar 2008 og hafi endurupptökubeiðanda mátt vera fullljóst um að slíkt samkomulag var til. Hefði hann talið samkomulagið hafa þýðingu fyrir úrslit málsins þá hefði hann getað aflað þess undir rekstri málsins, eftir atvikum á grundvelli 2. og 3. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála. Samkomulagið geti því aldrei talist „nýtt gagn“ í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr. laganna.
- Þá bendir Landsbankinn hf. á að samkomulag milli Landsbanka Íslands hf., Gnúps fjárfestingarfélags hf. og Glitnis banka hf. um viðskipti í félaginu Terra Firma India S.á r.l. hafi verið gert þann 29. mars 2008, eða tveimur og hálfum mánuði eftir að endurupptökubeiðandi gekkst í ábyrgð gagnvart bankanum. Þar fyrir utan verði ekki séð af því samkomulagi að efni þess hafi verið með þeim hætti sem endurupptökubeiðandi vilji meina, þ.e. að Landsbanki Íslands hf. myndi ekki ganga að hlutabréfum í FL Group hf. sem bankinn átti handveð í og voru í eigu Fons ehf. Loks geti umrætt samkomulag ekki talist „nýtt gagn“ í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr.
- Sama máli gegni um samkomulag Glitnis banka hf. um stjórnun Gnúps, sem vísað er til í endurupptökubeiðni. Samkomulagið sé frá 30. janúar 2008, hálfum mánuði eftir að sjálfskuldarábyrgðin var veitt. Önnur skjöl sem fylgdu endurupptökubeiðninni séu dagsett löngu eftir dagsetningu sjálfskuldarábyrgðarinnar en fyrir höfðun dómsmálsins gegn endurupptökubeiðanda.
- Að mati Landsbankans hf. er óumdeilt að endurupptökubeiðandi gekkst af fúsum og frjálsum vilja undir sjálfskuldarábyrgð á láni sem félag í hans eigu hafði tekið hjá bankanum. Fjármunina mun félagið hafa notað til kaupa á hlutabréfum í FL Group hf. Bendir Landsbankinn hf. á að í greinargerð endurupptökubeiðanda í héraðsdómsmálinu hafi endurupptökubeiðandi byggt á því að ábyrgð hans væri ógild á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936, fyrst og fremst þar sem staða Landsbanka Íslands hf. hafi verið orðin slæm þegar ábyrgðin var veitt, sem og að starfsmenn bankans hafi vitað af bágri stöðu FL Group hf. á sama tíma. Héraðsdómur hafi tekið umræddar málsástæður til skoðunar og hafnað þeim öllum efnislega. Bendir bankinn á að með endurupptöku sé ekki hægt að ná fram endurskoðun héraðsdóms á grundvelli nýrra gagna, raka og málsástæðna, sem sé kjarninn í endurupptökubeiðni þessa máls.
- Landsbankinn hf. byggir á því að óútskýrt sé í endurupptökubeiðni hvers vegna slæm fjárhagsstaða Gnúps fjárfestingarfélags hf. hafi verið endurupptökubeiðanda ókunn þann 15. janúar 2008, viku eftir að fréttir bárust af endurskipulagningu félagsins. Þá sé heldur ekki útskýrt hvernig sú vitneskja hefði haft áhrif á ákvörðun endurupptökubeiðanda um að gangast í sjálfskuldarábyrgð. Ekki sé rökstutt af hverju Landsbanka Íslands hf. hafi borið að upplýsa endurupptökubeiðanda sérstaklega um stöðu Gnúps fyrir undirritun ábyrgðarinnar, en slík upplýsingagjöf hefði án efa brotið gegn þágildandi 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
- Að mati bankans er útilokað, jafnvel þótt framlögð gögn endurupptökubeiðanda teldust ný gögn í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr., að þau leiði til breyttrar niðurstöðu í málinu. Öllum efnisvörnum endurupptökubeiðanda, sem ekki komu fram undir rekstri héraðsdómsmálsins, hefði mátt koma að undir rekstri þess.
- Landsbankinn hf. telur fullyrðingar endurupptökubeiðanda þess efnis að starfsmenn bankans hafi „blekkt markaðinn“ og „augljóslega“ gerst sekir um markaðsmisnotkun ósæmilegar og síst til þess fallnar að styrkja málstað endurupptökubeiðanda.
- Að lokum byggir Landsbankinn hf. á því að ekki verði séð að nýjar upplýsingar eða ný gögn sé ástæða endurupptökubeiðni. Af beiðninni verður ekki annað séð en að hún sé liður í vörnum endurupptökubeiðanda gegn fullnustu héraðsdómsins, fremur en að skilyrði 191. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt. Fullnusta dóms geti aldrei verið röksemd fyrir endurupptöku.
- Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda
- Endurupptökubeiðandi skilaði athugasemdum við greinargerð Landsbankans hf. þann 6. desember 2018. Þar bendir endurupptökubeiðandi á að fráleitt sé að honum hafi, undir rekstri héraðsdómsmálsins, verið unnt að leiða málsatvik í ljós með sama hætti og hin nýju gögn gera. Þessi gögn hafi ekki verið aðgengileg almenningi árið 2012. Landsbankanum hf. hafi hins vegar alltaf verið ljóst hvernig málum með Gnúp fjárfestingarfélag hf. og FL Group hf. hafi verið háttað. Bankanum hafi því mátt vera ljóst að þessi gögn skiptu verulegu máli um að leiða í ljós hvernig atvikum var háttað þegar endurupptökubeiðandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðina. Bankanum hafi borið að upplýsa endurupptökubeiðanda um þessi atriði áður en ábyrgðin var veitt. Í stað þess að veita upplýsingarnar hafi bankinn veitt endurupptökubeiðanda villandi og rangar upplýsingar um FL Group hf., í því skyni að fá hjá honum ábyrgðaryfirlýsingu.
- Endurupptökubeiðandi byggir á því að upplýsingaskylda bankans hafi meðal annars helgast af almennri upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptavinum sínum, sbr. 14.-17. gr. laga nr. 108/2007 sem og góðum viðskiptaháttum fjármálafyrirtækja og almennri óskráðri reglu um tillitsskyldu í samningssambandi. Til áréttingar á þessari ríku skyldu bendir endurupptökubeiðandi á dóm Hæstaréttar í máli nr. 218/2014.
- Loks hafnar endurupptökubeiðandi því að ósæmilegt hafi verið af honum að fullyrða í beiðni sinni að starfsmenn bankans hafi blekkt markaðinn og verið sekir ummarkaðsmisnotkun. Vísar endurupptökubeiðandi meðal annars til dóma Hæstaréttar í málum nr. 456/2014 og 842/2014 því til stuðnings.
- Frekari athugasemdir gagnaðila
- Endurupptökunefnd bárust viðbótarathugasemdir Landsbankans hf., dags. 20. febrúar 2019. Í þeim kom fram árétting á því að endurupptökubeiðni byggist á sömu málsástæðum og byggt var á í héraðsdómsmálinu, þ.e. að bankanum hafi mátt vera ljós meint ógjaldfærni Gnúps fjárfestingarfélags hf. og FL Group hf. Ef endurupptökubeiðandi taldi þessar málsástæður hafa áhrif á úrslit dómsmálsins þá hafi honum borið að sanna staðhæfingar sínar að baki þeim undir rekstri málsins. Það hafi hann ekki gert, til að mynda með vitna- eða aðilaskýrslum.
- Þá byggir bankinn á því að það hafi verið endurupptökubeiðanda í lófa lagið að beina sérstakri áskorun til bankans, undir rekstri héraðsdómsmálsins, um að leggja fram tiltekin gögn sem hann ætlaði að byggja á. Þau úrræði hafi staðið honum til boða skv. X. kafla laga um meðferð einkamála. Þessi úrræði hafi endurupptökubeiðandi kosið að nýta sér ekki.
- Þá bendir bankinn á að framlögð gögn endurupptökubeiðanda lúti nær eingöngu að meintri ógjaldfærni Gnúps fjárfestingarfélags hf. Það sé því með öllu óútskýrt af hálfu endurupptökubeiðanda hvernig FL Group hf. gat hafa orðið ógjaldfært við meinta ógjaldfærni eins hluthafa þess. Ekkert röklegt eða lagalegt samhengi sé á milli ógjaldfærni hluthafa sem á 20% hlut í félagi og ógjaldfærni viðkomandi félags.
- Loks mótmælir Landsbankinn hf. þeim ályktunum sem endurupptökubeiðandi dregur af orðalagi í dómi héraðsdóms. Þó dómari hafi metið staðhæfingar endurupptökubeiðanda ósannaðar þá sé engan veginn rökrétt að málsúrslit hefðu verið önnur þó sú sönnun hefði tekist. Hvað sem því líður þá geti tilgangur endurupptöku aldrei verið að færa fram aukin sönnunargögn fyrir staðhæfingum aðila, ef slík sönnunarfærsla hafi verið möguleg undir rekstri málsins.
- Með tölvupósti endurupptökunefndar til lögmanns endurupptökubeiðanda þann 26. febrúar 2019 voru honum kynntar viðbótarathugasemdir Landsbankans hf. og með tölvupósti þann 5. mars s.á. lýsti lögmaðurinn því yfir að hann teldi ekki þörf á að koma á framfæri frekari athugasemdum.
- Niðurstaða
- Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 191. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 192. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
- Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:
- sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
- sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
- önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
- Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.
- Af hálfu endurupptökubeiðanda er fyrst og fremst á því byggt að í málinu liggi nú fyrir gögn sem sýni fram á að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi, á sama tíma og þeir þrýstu á endurupptökubeiðanda að ganga í sjálfskuldarábyrgð, búið yfir upplýsingum sem þeim hafi borið að deila með endurupptökubeiðanda. Þannig hafi bankinn í raun blekkt endurupptökubeiðanda til þess að gangast í persónulega ábyrgð fyrir skuldum sem bankinn vissi að væru ekki nægjanlega tryggðar með fyrirliggjandi veðum. Byggir endurupptökubeiðandi á því að hefðu þessar upplýsingar legið fyrir við meðferð héraðsdómsmálsins þá hefði það leitt til annarrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.
- Í héraðsdómi kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi skilað greinargerð sem telur 30 blaðsíður. Þar sé gerð grein fyrir aðdraganda ábyrgðaryfirlýsingarinnar og stöðu Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma sem ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð. Í greinargerðinni komi fram að endurupptökubeiðandi telji að viðsemjandi hans hafi búið yfir mikilsverðum upplýsingum um stöðu bankans og FL Group hf., sem hefðu orðið þess valdandi að ekki hefði orðið af undirritun ábyrgðaryfirlýsingarinnar ef honum hefði verið gerð grein fyrir því. Í dómi héraðsdóms er sérstaklega vikið að því að þau gögn sem endurupptökubeiðandi vísar til hafi verið ætlað að sýna að bankinn hafi haft frekari upplýsingar um áhættu endurupptökubeiðanda af ábyrgðarskuldbindingunni en endurupptökubeiðandi hafði. Taldi héraðsdómur þó að framlagning gagnanna gæti ekki leyst endurupptökubeiðanda undan því að þurfa að færa fram fullnægjandi sönnun fyrir staðhæfingum sínum eftir þeim leiðum sem lög um meðferð einkamála bjóða. Taldi dómurinn að það sem fram kom í framlögðum gögnum gæti ekki talist sanna staðhæfingar um atvik við samningsgerðina. Þá taldi héraðsdómur ekkert liggja fyrir um það í málinu að starfsmenn bankans hafi leynt endurupptökubeiðanda upplýsingum sem þeir höfðu undir höndum og gátu haft þýðingu við þá ákvörðun hans að gangast undir sjálfskuldarábyrgð. Féllst dómurinn því ekki á að um svik hafi verið í ræða í skilningi 30. gr. laga nr. 7/1936. Þá taldi dómurinn, með vísan til stöðu endurupptökubeiðanda sem þekkts fjárfestis, að ekki verði séð að hann hafi verið beittur nokkurs konar þrýstingi eða blekkingum til þess að skrifa undir ábyrgðaryfirlýsinguna. Loks taldi héraðsdómur að ekki væri hægt að fallast á að almenn þróun efnahagsmála gæti leitt til þess að víkja bæri skuldbindingu endurupptökubeiðanda til hliðar samkvæmt 33. eða 36. laga nr. 7/1936 og að ekkert hefði komið fram í málinu sem gæti leitt til þess að það teljist óheiðarlegt eða ósanngjarnt af bankanum að bera ábyrgðaryfirlýsinguna fyrir sig. Var kröfu endurupptökubeiðanda því hafnað, eins og áður segir, og endurupptökubeiðandi dæmdur til greiðslu dómkröfunnar.
- Samkvæmt a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála verður sá sem krefst endurupptöku dóms að leiða að því sterkar líkur að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd þegar málið var til meðferðar. Þá má endurupptökubeiðanda ekki vera kennt um að svo hafi verið.
- Við meðferð héraðsdómsmálsins lét endurupptökubeiðandi bóka sérstaklega að hann hyggðist leggja fram í næstu fyrirtökum málsins umtalsvert magn gagna, auk þess sem hann hyggðist leiða fyrir dóm mikinn fjölda vitna við aðalmeðferð þess. Vísaði endurupptökubeiðandi til þess í bókun sinni að hann teldi fyrirhugaða framlagningu og vitnaleiðslur nauðsynlegar til þess að færa sönnur fyrir staðhæfingum sem málatilbúnaður hans væri þegar reistur á.
- Í þinghaldi þann 30. júní 2014 hugðist endurupptökubeiðandi leggja fram tiltekin gögn en þeirri framlagningu var hafnað af hálfu lögmanns Landsbankans hf. þar sem gagnaöflun hafði verið lýst lokið í þinghaldi þann 5. desember 2013. Með úrskurði dómara, uppkveðnum þann 11. september 2014, var fallist á frekari framlagningu sýnilegra sönnunargagna af hálfu endurupptökubeiðanda og voru gögnin lögð fram í sama þinghaldi. Í kjölfarið var málinu frestað til 1. október s.á. til undirbúnings aðalmeðferðar. Þinghaldinu 1. október var frestað utan réttar til 9. október 2014 en í því þinghaldi upplýsti lögmaður endurupptökubeiðanda um fyrirhugaðar vitnaleiðslur, með þeim fyrirvara að frekari vitni kynnu að bætast við listann.
- Þegar til aðalmeðferðar málsins kom þann 26. mars 2015 féll niður þingsókn af hálfu endurupptökubeiðanda. Endurupptökubeiðandi hefur ekki upplýst um það hvers vegna þingsókn féll niður.
- Með endurupptökubeiðni sinni lagði endurupptökubeiðandi fram ýmis gögn, sem hann telur sýna fram á verulega slæma fjárhagsstöðu FL Group hf. og Gnúps fjárfestingarfélags hf. á tilteknum tíma. Í endurupptökubeiðni kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi fengið umrædd gögn „fyrir tiltölulega skömmu síðan“. Ekki er útskýrt hvað felst nánar í þessu orðalagi eða hvenær endurupptökubeiðanda bárust upplýsingarnar.
- Það er mat endurupptökunefndar að endurupptökubeiðandi hafi ekki leitt sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar hjá héraðsdómi, né heldur hafi hann fært fullnægjandi rök fyrir því að honum verði ekki um það kennt, sbr. a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Í því sambandi er rétt að geta þess að héraðsdómur tók afstöðu til málatilbúnaðar endurupptökubeiðanda, sem er að flestu leyti sá hinn sami og hann byggir á fyrir endurupptökunefnd. Það kom í hlut endurupptökubeiðanda að færa sönnur fyrir fullyrðingum sínum fyrir dómi með framlagningu gagna og eins og áður segir þá hafði hann auk þess boðað umfangsmikla sönnunarfærslu fyrir dómi með vitnaleiðslum. Við mat á skilyrðum a-liðar 1. mgr. 191. gr. laganna er grundvallaratriði sú staðreynd að þingsókn féll niður af hálfu endurupptökubeiðanda en ekki hafa verið gefnar ástæður fyrir því.
- Jafnvel þótt fallist væri á með endurupptökubeiðanda að um ný gögn væri að ræða að einhverju leyti þá telur endurupptökunefnd vanreifað af hálfu endurupptökubeiðanda með hvaða hætti þau hefðu getað leitt til þess að ábyrgðaryfirlýsing endurupptökubeiðanda teldist óskuldbindandi fyrir hann, hefðu þau legið fyrir við meðferð málsins. Það er ekki nægjanlegt fyrir endurupptökubeiðanda að vísa til þess að gögnin hefðu getað leitt til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, heldur verður hann að leiða að því sterkar líkur, sbr. b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Telur nefndin slíkar líkur ekki hafa verið leiddar fram af hálfu endurupptökubeiðanda.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar án þess að honum verði um kennt eða sterkar líkur hafi verið leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Skortir samkvæmt þessu á að skilyrðum 1. mgr. 193. gr., sbr. 1. mgr. 191. gr. laganna, sé fullnægt. Verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda þegar af þessum ástæðum.
- Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að endanleg skipun nefndarmanna í endurupptökunefnd í máli þessu lá ekki fyrir fyrr en þann 10. janúar 2020.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Kevin Gerald Stanford, um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. E-2700/2012, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. apríl 2015, er hafnað.
Haukur Örn Birgisson formaður
Hrefna Friðriksdóttir
Björn Jóhannesson