Mál nr. 3/2020
Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 3/2020:
Beiðni um endurupptöku
landsréttarmálsins nr. 562/2018:
Ákæruvaldið
gegn
x
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
- Með erindi, dagsettu 17. júlí 2020, fór x þess á leit að landsréttarmálið nr. 562/2018, sem dæmt var í Landsrétti 1. nóvember 2019, verði endurupptekið.
- Þá var þess óskað að réttaráhrifum dómsins yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir endurupptökunefnd, sbr. 2. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
- Loks var þess óskað að Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður yrði skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála.
- Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Hrefna Friðriksdóttir.
II. Málsatvik
- Með dómi Landsréttar 1. nóvember 2019 í máli nr. 562/2018 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur fyrrverandi sambýliskonu hans, með því að hafa haft við hana önnur kynferðismök en samræði þegar stúlkan var sjö ára og þar til hún var á ellefta ári. Um var að ræða brot sem áttu sér stað á árunum 1998-2003. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr., sbr. áður 1. mgr. 201 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dóminum var endurupptökubeiðanda gert að sæta fangelsi í fjögur ár og til að greiða brotaþola miskabætur.
- Endurupptökubeiðandi sótti um leyfi Hæstaréttar Íslands til að áfrýja dóminum en beiðni hans þar um var hafnað 15. janúar 2020 með ákvörðun réttarins nr. 2019-370.
III. Grundvöllur beiðni
- Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að með dómi Landsréttar hafi hann verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 102. gr., sbr. áður 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga.
- Endurupptökubeiðandi styður endurupptökubeiðni sína við b-, c- og d-liði 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 232. gr. sömu laga. Kveðst endurupptökubeiðandi ekki hafa framið þau brot sem honum voru gefin að sök. Í þessu sambandi vísar hann til þess að engin sýnileg sönnunargögn liggi fyrir í málinu. Kveður hann dóm Landsréttar hvíla á óáreiðanlegum vitnisburði tengdra aðila sem hafi auk þess ekki verið vitni að þeim atvikum sem hann hafi verið ákærður fyrir. Samkvæmt ákæru hafi hin ætluðu brot verið framin 16-20 árum áður en aðalmeðferð málsins fór fram í Landsrétti. Ekkert umræddra vitna hafi stigið fram áður en málið hóf göngu sína. Telur endurupptökubeiðandi að niðurstaða málsins verði önnur ef málið verði endurupptekið fyrir Landsrétti.
- Beiðni um endurupptöku málsins er í fyrsta lagi á því byggð að Landsréttur hafi byggt dóm sinn á ófullnægjandi gögnum og vitnisburðum aðila nátengdum brotaþola sem hafi vísvitandi borið ranglega fyrir dómi. Vísar endurupptökubeiðandi í þessu sambandi til b-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Byggir hann á því að Landsréttur hafi sérstaklega tekið fram í forsendum sínum að í málinu nyti ekki annarra sönnunargagna varðandi sakargiftir en framburðar endurupptökubeiðanda og brotaþola. Önnur sönnunargögn hafi því ekki verið til staðar. Engu að síður hafi Landsréttur sakfellt ákærða á grundvelli óáreiðanlegra skýrslna brotaþola og vitna tengdum henni þrátt fyrir að þau hafi ekki getað borið um atvik málsins af eigin raun. Telur endurupptökubeiðandi með vísan til þessa að vitnaleiðslur fyrir dómi hafi verið andstæðar lögum. Í því sambandi vísar hann til 116. gr. og 7. mgr. 122. gr. laga um meðferð sakamála. Telur hann að vitnin hafi öll borið illvilja til hans enda hafi þau trúað frásögn brotaþola í einu og öllu. Vísar hann þar til vitnaframburðar móður, systur og bróður brotaþola. Tilgangur ákæruvaldsins með því að taka skýrslur af umræddum vitnum hafi vart getað verið annar en að ná fram áfellisdómi.
- Endurupptökubeiðandi kveður sakfellingu sína einungis hafa verið reista á framburði brotaþola og umræddra vitna. Telur hann þá aðferðafræði sem beitt var við sakfellingu vera einstaka í íslenskri réttarframkvæmd í ljósi þess að Landsréttur hafi talið framburð endurupptökubeiðanda staðfastan og að hann hafi ekki orðið missaga um neitt sem máli skipti. Ljóst hafi verið að umrædd vitni, sem voru nátengd brotaþola, hafi ekkert vitað um málið eða atvik þess fyrr en það hóf göngu sína, tæplega tveimur áratugum eftir meinta atburði.
- Vísar endurupptökubeiðandi til þess að mikið ósamræmi hafi verið í framburði móður og systur brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu, svo mikið að telja verði að vitnin hafi borið vísvitandi ranglega fyrir dómi. Þetta hafi Landsréttur látið óátalið með öllu og þess í stað hafi rétturinn byggt niðurstöðu sína á engu öðru en því sem rétturinn taldi vera ósamræmi í framburði endurupptökubeiðanda um atriði sem ekki vörðuðu ákæruefnið. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til misræmis í framburði hjá móður brotaþola annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi. Telur endurupptökubeiðandi ósamræmi í framburði hennar vera slíkt að í raun hafi verið um algjöran viðsnúning að ræða, sem verði ekki skýrður á annan veg en að hún hafi borið ranglega fyrir dómi. Landsréttur hafi alfarið litið fram hjá þessu við úrlausn málsins. Verulega hafi því skort á að meginreglna sakamálaréttarfars hafi verið gætt við úrlausn málsins, svo sem að sakborningur skuli njóta vafans og að sanna þurfi allar staðreyndir sem máli geta skipt.
- Endurupptökubeiðandi vísar til þess að Landsréttur hafi beitt aðferðarfræði sem er andstæð lögum og dómafordæmum þegar rétturinn lagði til grundvallar framburð systur brotaþola, þar sem hún fullyrti að endurupptökubeiðandi hefði jafnframt beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Þetta hafi réttinum ekki verið heimilt að gera, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 58/2009, þar sem segir að við mat á sönnun sakargifta skipti ekki máli að annar aðili hafi borið um kynferðislega tilburði sakbornings gagnvart sér og jafnvel ekki þótt slíkt hafi verið viðurkennt af sakborningi. Telur endurupptökubeiðandi að lögregla, ákæruvaldið og dómarar málsins hafi fengið fram þau málalok sem urðu með því að styðjast við rangan framburð, gögn og atvik sem óheimilt er að líta til og ekki er samrýmanlegt meginreglum sakamálaréttarfars. Hafi þetta verið gert í þeim tilgangi að ná fram áfellisdómi yfir endurupptökubeiðanda enda hafi mál systur brotaþola verið málinu ótengt og ekki átt að hafa nokkur áhrif.
- Endurupptökubeiðandi vísar til þess að framburður brotaþola hafi verið reikandi og ístöðulítill í málinu. Þannig hafi frásögn hennar farið um víðan völl að því er varðaði staðsetningar, lýsingu og tímasetningar brotanna.
- Loks vísar endurupptökubeiðandi til þess að þegar litið er til þess hversu langur tími hafi verið liðinn frá meintum brotum sé ljóst hversu erfitt og ósanngjarnt það hafi verði fyrir hann að verja sig. Telur hann óhugsandi og með öllu andstætt meginreglum sakamálaréttarfars að Landsréttur hafi komist að niðurstöðu um sekt hans á eins veikum grunni og raun bar vitni. Hafi þetta verið í andstöðu við 53. og 54. gr. laga um meðferð sakamála og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sem og 2. mgr. 6. gr. laga um Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
- Beiðni um endurupptöku málsins er í öðru lagi á því byggð að sönnunargögn málsins hafi verið rangt metin í málinu, svo áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Vísar endurupptökubeiðandi í þessu sambandi til c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
- Endurupptökubeiðandi vísar til umfjöllunar sinnar um mat Landsréttar á framburði brotaþola og vitna en vísar einnig til þess að rétturinn hafi alfarið litið fram hjá þeim gögnum sem hann lagði fram í málinu, sem styðji framburð hans og sakleysi. Bendir hann á að hann hafi leitast frá upphafi við að benda á vitni og leggja fram gögn, meðal annars um samskipti sín við móður brotaþola, sem hann telur styðja framburð sinn í málinu. Vísar endurupptökubeiðandi í þessu sambandi til framlagðra tölvupóstsamskipta sinna við móðurina, sem sýna fram á að hann hafi ekki verið á heimili brotaþola á sama tímabili og ákært var fyrir. Þá vísar endurupptökubeiðandi til tölvupósta verjanda síns til lögreglu þar sem bent hafi verið á vitni og önnur samskipti sem máli hefðu skipt. Þrátt fyrir þessar ábendingar hafi rannsakendur látið undir höfuð leggjast að ræða við vitnin.
- Þá vísar endurupptökubeiðandi til gagna sem varða vitnaframburð barna sinna, þar sem þau báru um samband sitt við endurupptökubeiðanda. Í þeim gögnum hafi skýrt komið fram að þau hafi aldrei upplifað viðlíka hegðun af hálfu föður síns eða nokkuð sem telja mætti óeðlilega hegðun af hans hálfu. Fram hjá þessum gögnum hafi Landsréttur alfarið litið við úrlausn málsins.
- Að mati endurupptökubeiðanda liggur ljóst fyrir í málinu að sönnunargögn, þar með talinn vitnaframburður, hafi verið ranglega metin og í raun hafi þau verið höfð að engu. Misvísandi framburðum móður og systur brotaþola hafi verið gefið mikið vægi og sönnunargildi, andstætt lögum, og sömuleiðis hafi framburði brotaþola verið gefið meira vægi en framburði hans, sem þrátt fyrir allt hafi verið metinn stöðugur og ekki missaga um neitt sem máli skipti. Landsréttur hafi því lagt rangt mat á framburði í málinu. Með þessu hafi verið gróflega brotið gegn hlutlægnisskyldu við rannsókn málsins, ákæru- og dómsmeðferð, sbr. 18. gr., 53. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála. Þá hafi alfarið skort sönnun skv. 108. gr. sömu laga.
- Beiðni um endurupptöku málsins er í þriðja lagi á því byggð að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til þess að um hæfi Landsréttar til þess að dæma í máli hans leiki mikill vafi. Vísar hann í því sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu nr. 26374/18, sem kveðinn var upp þann 12. mars 2019. Vegna dómsins telur endurupptökubeiðandi mikinn vafa leika í málinu um hvort Landsréttur geti með réttu talist réttilega ákveðinn með lögum í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Gildir þar einu hvort dómararnir í máli endurupptökubeiðanda hafi verið ólöglega skipaðir eða ekki enda hafi skipunin áhrif á réttinn í heild sinni, sjálfstæði hans og hlutleysi.
- Loks vísar endurupptökubeiðandi til þess að niðurstaða Landsréttar hafi ekki verið í samræmi við niðurstöður í sambærilegum málum, þar sem sönnunargögn hafi jafnvel verið sterkari, vitnisburðir verið til staðar og málin nýrri heldur en í tilviki endurupptökubeiðanda. Með endurupptökubeiðni sinni lagði endurupptökubeiðandi fram yfirlit yfir dóma sem hann byggir á að hafa eigi til hliðsjónar við úrlausn málsins, en samkvæmt þeim dómum sé augljóst að sýkna hefði átt í málinu.
IV. Viðhorf gagnaðila
- Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 16. október 2020, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.
- Um kröfu endurupptökubeiðanda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, þess efnis að vafi leiki á um hæfi Landsréttar til þess að dæma í máli endurupptökubeiðanda vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18, þá vísar ríkissaksóknari til ákvörðunar Hæstaréttar nr. 2019-129 í máli endurupptökubeiðanda þar sem segir:
Sá dómur mannréttindadómstólsins er ekki orðinn endanlegur og kann að geta sætt endurskoðun. Mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti nema hann verði annaðhvort endanlegur eða niðurstaða hans látin standa óröskuð við endurskoðun en alls er óvíst hvenær það gæti orðið. Ótækt er vegna þessa álitaefnis eins út af fyrir sig að heimila í þessu sakamáli áfrýjun sem fyrirsjáanlega hefði þá afleiðingu að hér fyrir dómi yrði að fresta því um ótiltekinn tíma án þess að nokkru verði nú slegið föstu um hvert vægi þessa álitaefnis kynni að verða. Kæmi á síðari stigum til þess að dómur Landsréttar í öðru máli yrði fyrir Hæstarétti ómerktur vegna atvika hliðstæðum þeim sem hér eru uppi gæti leyfisbeiðandi jafnframt eftir atvikum leitað endurupptöku málsins fyrir Landsrétti, sbr. 2. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu öllu gættu er hafnað beiðni um áfrýjun í málinu.
- Ríkissaksóknari telur, með vísan til framangreindra sjónarmiða Hæstaréttar og þeirrar staðreyndar að dómur mannréttindadómstólsins í máli nr. 26374/18 er ekki enn orðinn endanlegur, að ekki séu efni til þess að heimila endurupptöku málsins vegna þess sem fram kemur í umræddum dómi mannréttindadómstólsins um ætluð brot gegn ákvæðum 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
- Ríkissaksóknari vísar jafnframt til umsagnar sinnar til Hæstaréttar í tilefni af beiðni endurupptökubeiðanda um áfrýjunarleyfi og ákvörðun Hæstaréttar í málinu. Að mati ríkissaksóknara hefur endurupptökubeiðandi þegar teflt fram og fengið umfjöllun Hæstaréttar um þau meginatriði sem beiðni hans um endurupptöku er byggð á, það er þau atriði sem varða b- og c-liði 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð einkamála. Ríkissaksóknari telur ekki sérstaka ástæðu til að veita frekari umsögn um þennan málatilbúnað endurupptökubeiðanda og telur einsýnt, með vísan til umræddrar ákvörðunar Hæstaréttar, að hafna beri beiðni endurupptökubeiðanda.
V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
- Í athugasemdum endurupptökubeiðanda, dags. 2. nóvember 2020, mótmælir hann því að búið sé að fjalla um þau atriði sem hann byggir beiðni sína um endurupptöku á enda gildi allt önnur sjónarmið um hvort Hæstiréttur veiti áfrýjunarleyfi eða hvort talið sé rétt að heimila endurupptöku á máli. Í því samhengi vísar endurupptökubeiðandi til nýfallins dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2020, þar sem fjallað var sérstaklega um að ekki mætti beita þeirri aðferð við sönnunarmat sem gert var í Landsrétti í hans máli, það er að framburð vitnis, þess efnis að brotið hafi verið gegn því sjálfu, megi ekki túlka sem sönnun fyrir því að sakborningur hafi brotið gegn öðrum. Bendir endurupptökubeiðandi á að Landsréttur hafi mikið litið til þess að vitni hafi kveðið endurupptökubeiðanda hafa beitt orðfæri sem myndi teljast klúrt og að hann hafi brotið gegn sér, eins og brotaþola. Hafi Landsréttur talið það hafa áhrif á hvort brot endurupptökubeiðanda teldust sönnuð. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að í umræddum dómi Hæstaréttar komi fram að ekki megi gera auknar kröfur til sönnunar umfram það sem er ákærða í óhag enda fari það gegn 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, en það er einmitt það sem endurupptökubeiðandi telur að hafi átt sér stað í máli hans. Sé því ljóst að bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi beitt aðferðarfræði við sönnunarmat sem sé andstætt ákvæðum laga og niðurstöðum Hæstaréttar. Af þeim sökum beri að fallast á endurupptöku málsins.
- Endurupptökunefnd sendi framangreindar athugasemdir endurupptökubeiðanda á ríkissaksóknara með bréfi 12. nóvember 2020. Ekki bárust frekari athugasemdir og var málið því næst tekið til úrskurðar.
VII. Niðurstaða
- Endurupptökunefnd tekur mál þetta til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.
- Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
- Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
- Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi var með dómi Landsréttar í máli nr. 532/2018 sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr.hegningarlaga. Var hann dæmdur til refsingar og greiðslu miskabóta og sakarkostnaðar.
- Endurupptökubeiðandi byggir á því að skilyrði b-, c- og d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu fyrir hendi svo endurupptaka eigi málið.
- Reisir hann kröfu sína í fyrsta lagi á því að Landsréttur hafi byggt dóm sinn á vitnisburðum aðila nátengdum brotaþola sem hafi vísvitandi borið ranglega fyrir dómi, með vísan til b-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Þessu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til þess að framburður brotaþola og vitna, einkum og sér í lagi framburður móður brotaþola, hafi verið á reiki og ekki hafi gætt samræmis í framburði hjá lögreglu og fyrir dómi. Telur endurupptökubeiðandi viðsnúning í framburði móðurinnar slíkan að hann verði ekki skýrður með öðrum hætti en að hún hafi greint frá með vísvitandi röngum hætti. Í öðru lagi reisir endurupptökubeiðandi kröfu sína á því að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn málsins hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, með vísan til c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Þessu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi einnig til ósamræmis í framburðum vitna. Endurupptökubeiðandi vísar einnig sérstaklega til þess að Landsréttur hafi tekið tillit til framburðar vitnis, þess efnis að brotið hafi verið gegn því sjálfu, en slíkt megi ekki túlka sem sönnun fyrir því að sakborningur hafi brotið gegn öðrum. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að hans eigin framburður hafi, að mati Landsréttar, verið staðfastur og hann ekki verið missaga um neitt sem skipti máli og að litið hafi verið fram hjá þeim sönnunargögnum sem hann hafði lagt fyrir dóminn. Í þriðja lagi byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til vafa um hæfi Landsréttar með hliðsjón af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu nr. 26374/18, sem kveðinn var upp þann 12. mars 2019.
- Endurupptökubeiðandi gaf skýrslu fyrir Landsrétti við aðalmeðferð málsins. Þá voru jafnframt spilaðar myndupptökur frá aðalmeðferð málsins í héraði af framburði brotaþola, móður, systur og bróður brotaþola.
- Í dómi Landsréttar er ítarlega fjallað um þær sönnunarkröfur sem gerðar eru í sakamálum og leiða má af ákvæðum 108. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Segir í dómi Landsréttar að mat réttarins taki meðal annars til þess hvaða sönnunargildi skýrsla ákærða eigi að hafa sem og skýrslur vitna. Í því sambandi geti skýrslur vitna, sem ekki hafa skynjað atvik af eigin raun, haft þýðingu, enda sé unnt að draga ályktanir um sakarefnið af slíkum framburði. Í dómi Landsréttar er þannig fjallað með ítarlegum hætti um framburð umræddra vitna og framburður þeirra borinn saman við framburð endurupptökubeiðanda. Í tilviki móður brotaþola fjallar Landsréttur sérstaklega um misræmi í framburði hennar fyrir lögreglu og fyrir dómi. Kemst Landsréttur svo að orði um framburðinn:
Að undanskildum þessum blæbrigðamun í framburði móður brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi var verulegt samræmi í framburði hennar um störf sín og ákærða utan og innan heimilis, þátttöku ákærða í heimilishaldinu, háttarlag hans á heimilinu og afskipti hans af börnum hennar.
- Í tilviki systur brotaþola er vísað til þess að framburður hennar hafi verið afar trúverðugur hvað varðar alvarleg og endurtekin kynferðisbrot endurupptökubeiðanda gagnvart henni sjálfri á fyrstu árum sambúðartíma hans og móður hennar. Þá vísaði rétturinn til þess að systirin hafi borið á sama hátt og brotaþoli um það að ákærði hafi lesið fyrir brotaþola á kvöldin við lokaðar dyr auk þess sem hún hafi lýst þátttöku endurupptökubeiðanda í heimilishaldi þeirra með mjög svipuðum hætti og brotaþoli. Loks hafi hún lýst fyrir dómi miklu áhorfi endurupptökubeiðanda á klámefni og kynferðislegu tali hans við hana og að hann hefði kennt henni aðferð við sjálfsfróun.
- Í tilviki bróður brotaþola vék Landsréttur að lýsingum hans á kynferðislegu tali endurupptökubeiðanda við hann og kærustu hans, þegar drengurinn var um 12 ára gamall auk þess hvernig endurupptökubeiðandi hefði sóst eftir því að skutla kærustu hans heim og hún tjáð honum að endurupptökubeiðandi hefði talað við sig um kynferðisleg málefni.
- Í dómi Landsréttar segir svo um mat á framburði móður, systur og bróður brotaþola:
Við mat á sönnunargildi framburðar móður og systkina brotaþola er til þess að líta að mikið samræmi er í framburði þeirra. Brotaþoli, systir hennar og móðir hafa borið mjög á sama veg og með afar trúverðugum hætti um það að hvorug þeirra systra hafi sagt móður sinni frá ætluðum brotum ákærða gegn þeim fyrr en eftir að brotaþoli hafði birt fyrrnefnda færslu á [...] síðunni og þá ekki í neinum smáatriðum til að hlífa móður þeirra. Framburður þeirra þriggja hjá lögreglu og fyrir dómi bendir ekki til þess að þær hafi samræmt framburð sinn vísvitandi eða óafvitandi.
Ákærða, brotaþola og framangreindum vitnum ber saman um að hann hafi engin samskipti átt við brotaþola og systkini hennar frá því að ákærði og móðir þeirra slitu samvistum árið 2003. Ekkert bendir til þess að brotaþola og systur hennar hafi gengið nokkuð annað til þegar þær tilkynntu ætluð brot ákærða til lögreglu en að rjúfa þá þögn sem verið hafði um háttsemi hans í meira en áratug.
Framburðir brotaþola, móður hennar og tveggja systkina draga upp allt aðra mynd en ákærði hefur sjálfur dregið upp af þátttöku hans í heimilisstörfum, umönnun og afskiptum af brotaþola og systkinum hennar og viðveru hans á heimilinu. Þannig hafa þau lýst miklu áhorfi hans á klám og klámfengnum talsmáta, sem ekki hafi verið viðeigandi við börn, en ákærði hefur ýmist neitað þessu eða gert lítið úr. Mikill samhljómur er í framburði systkinanna um að ákærði hafi rætt við þau á klámfengin hátt undir þeim formerkjum að hann væri að kenna og leiðbeina þeim um ýmsar kynlífsathafnir. Framburði móður brotaþola og bróður hennar um að ákærði hafi gefið brotaþola g-strengs nærbuxur hefur hann hafnað. Þá hefur hann hafnað framburði systur brotaþola um að hann hafi rætt við hana um sultuhunda og hvernig væri hægt að fá þá til að sleikja kynfæri en kannast við að sultuhunda hafi eitt sinn borið á góma í samtali móður brotaþola og vinkonu hennar.
Ákærði hefur í framburði sínum hjá lögreglu, í héraði og fyrir Landsrétti leitast við að sýna fram á að hann hafi haft fá tækifæri til að brjóta gegn brotaþola og að framburður hennar geti þar af leiðandi ekki staðist. Brotaþoli, móðir hennar og systkini hafa öll borið um mun meiri viðveru ákærða á heimilinu, á öllum tímum sólarhrings, en ákærði hefur látið í veðri vaka og jafnframt að ákærði hafi oftar ekið þeim systkinum í bifreið en hann hefur borið. Brotaþoli og systir hennar hafa báðar borið að ákærði hafi meðal annars brotið gegn þeim þegar móðir þeirra hafi unnið heima við [...] í öðru herbergi. Með framburði brotaþola, móður hennar og systkina þykir sannað að ákærði hafði næg tækifæri til að brjóta gegn brotaþola. Með hliðsjón af framangreindum framburði þessara vitna þykir jafnframt hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi greint rangt frá ýmsum atriðum varðandi háttsemi hans á heimili brotaþola sem ályktanir má draga af um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í málinu.
Þótt líta verði til tengsla framangreindra vitna við brotaþola við mat á sönnunargildi framburða þeirra, sbr. 126. gr. laga nr. 88/2008, hefur framburður þeirra um þátttöku ákærða í heimilisstörfum og umönnun barnanna svo og um háttarlag hans á heimilinu talsverða þýðingu við mat á sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola um ýmis atriði sem tengjast hinni ætluðu refsiverðu háttsemi ákærða.
Í ljósi alls framangreinds styrkir trúverðugur framburður þessara þriggja fjölskyldumeðlima brotaþola mjög afdráttarlaust trúverðugleika, og þar með sönnunargildi, framburðar hennar og dregur á hinn bóginn verulega úr trúverðugleika framburðar ákærða.
Jafnframt hefur mjög trúverðugur framburður systur brotaþola, sem sakað hefur ákærða um gróf kynferðisbrot gegn henni sjálfri og borið um tal ákærða um sultuhunda og leiðbeiningar hans til hennar um sjálfsfróun, talsvert sönnunargildi um háttsemi ákærða af svipuðum toga gagnvart brotaþola. Loks gefur framburður bróður brotaþola, sem rakinn er í hinum áfrýjaða dómi, um framkomu og talsmáta ákærða við hann og kærustu hans, sterka vísbendingu um kynferðislegan áhuga hans á börnum og unglingum.
Á grundvelli heildstæðs mats á öllum framangreindum atriðum og jafnframt með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök samkvæmt einstökum ákæruliðum er komin fram nægileg sönnun í máli þessu, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir í héraði.
- Af dómi Landsréttar má sjá að rétturinn lagði umfangsmikið mat á efni og trúverðugleika vitnaframburða og framburðar brotaþola fyrir dómi. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að framburður vitna hafi verið trúverðugur og til þess fallinn að styrkja annars trúverðugan framburð brotaþola og draga um leið úr trúverðugleika framburðar endurupptökubeiðanda.
- Af dómi Landsréttar verður ekki annað séð en að rétturinn hafi tekið afstöðu til þeirra málsvarna sem endurupptökubeiðandi reisir beiðni sína á og snúa að skilyrðum b- og c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Komst rétturinn að rökstuddri niðurstöðu, byggðri á heildarmati á fyrirliggjandi gögnum, um að ekki væru forsendur til að fallast á málsvarnir endurupptökubeiðanda. Ekki er fallist á að vísan Landsréttar til þess að systir brotaþola hafi borið um kynferðisbrot hans gagnvart sér hafi skipt sköpum við heildarmat á sönnun sakargifta. Var það niðurstaða Landsréttar að ekki yrði véfengt með skynsamlegum rökum að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök.
- Af þessu tilefni tekur endurupptökunefnd fram að lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir að dómari meti trúverðugleika ákærða og vitna, sbr. 115. gr. og 7. mgr. 122. gr. laganna. Endurupptökunefnd getur ekki endurmetið trúverðugleika framburða fyrir dómi. Af forsendum dómsins er ljóst að niðurstaða málsins réðst fyrst og fremst af mati dómara á efni og trúverðugleika framburða fyrir dómi.
- Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hann er ósammála sönnunarmati Landsréttar. Það að endurupptökubeiðandi sé ósammála forsendum og niðurstöðu Landsréttar leiðir ekki til þess að skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála teljist vera uppfyllt. Verður af þessu og fyrirliggjandi gögnum málsins ekki ráðið að vitni hafi vísvitandi borið ranglega fyrir dómi svo það hafi valdið rangri niðurstöðu málsins né heldur að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
- Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að á málsmeðferðinni hafi verið verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála þar sem vafi leiki á um það hvort Landsréttur hafi verið réttilega skipaður að lögum í skilningi 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar endurupptökubeiðandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu nr. 26374/18.
- Umrætt mál bíður nú afgreiðslu yfirdeildar mannréttindadómstólsins. Dómur mannréttindadómstólsins er því ekki orðinn endanlegur. Með hliðsjón af ákvörðun Hæstaréttar um að synja beiðni um áfrýjunarleyfi er það mat endurupptökunefndar að ekki sé unnt að slá því föstu að verulegir gallar hafa verið á meðferð málsins gegn endurupptökubeiðanda þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu í máli hans. Verður ekki fallist á með endurupptökubeiðanda að hin umdeilda skipun landsréttardómara, sem nú er til umfjöllunar hjá yfirdeild mannréttindadómstólsins, hafi áhrif á Landsrétt í heild sinni, sjálfstæði hans og hlutleysi svo verulegur galli hafi verið á meðferð allra þeirra mála sem rekin hafa verið fyrir dómstólnum. Verður því ekki fallist á endurupptöku málsins af þessum sökum. Samkvæmt því er ekki fram komið að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt.
- Með hliðsjón af ofangreindu er ekkert fram komið um að skilyrði b-, c- og d-liða 1. mgr. 228. gr. laganna séu uppfyllt.
- Samkvæmt því verður beiðni endurupptökubeiðanda hafnað.
- Við meðferð málsins fyrir nefndinni var Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður, skipaður til að gæta réttar endurupptökubeiðanda, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Þóknun hans að fjárhæð 300.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 231. gr. sömu laga.
Úrskurðarorð:
Beiðni x um endurupptöku landsréttarmáls nr. 562/2018, sem dæmt var í Landsrétti þann 1. nóvember 2019, er hafnað.
Þóknun lögmanns endurupptökubeiðanda, Unnsteins Arnar Elvarssonar, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Haukur Örn Birgisson formaður
Gizur Bergsteinsson
Hrefna Friðriksdóttir