Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 13/2019

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 13/2019:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmálsins nr. 498/2015:

Ákæruvaldið

gegn

Einari Pálma Sigmundssyni

Hreiðari Má Sigurðssyni

Sigurði Einarssyni

Ingólfi Helgasyni

Birni Snæ Björnssyni

Pétri Kristni Guðmarssyni

Magnúsi Guðmundssyni

Bjarka H. Diego og

Björk Þórarinsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dags. 19. júlí 2019, fór Einar Pálmi Sigmundsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 498/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. október 2016, verði endurupptekið hvað hann varðar.
    2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Hrefna Friðriksdóttir og Björn Jóhannesson.
  2. Málsatvik
    1. Með ákæru, útgefinni 15. mars 2013, var endurupptökubeiðanda gefið að sök brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti nr. 198/2007, nánar tiltekið a- og b- lið 1. mgr. 117. gr. laganna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013, sem kveðinn var upp 26. júní 2015, var endurupptökubeiðandi sakfelldur og hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm.
    2. Endurupptökubeiðandi kveðst hafa ákveðið að una dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fangelsisrefsing hans var skilorðsbundin. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu hins vegar til Hæstaréttar þann 24. júlí 2015 í samræmi við yfirlýsingar meðákærðu, Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Bjarka H. Diego, um áfrýjun. Ákæruvaldið krafðist þess að allir ákærðu yrðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru og refsing þeirra allra yrði þyngd. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 498/2015, sem upp var kveðinn 6. október 2016, var niðurstaða héraðsdóms varðandi refsingu endurupptökubeiðanda staðfest. Endurupptökubeiðanda var gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, 5.301.000 kr., svo og annan áfrýjunarkostnað málsins óskipt með öðrum ákærðu málsins.
  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að niðurstaða Hæstaréttar um að honum beri að greiða sakarkostnað vegna áfrýjunar málsins fyrir Hæstarétti fari gegn 2. mgr. 237. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
    2. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að það hafi ekki verið ákvörðun hans að áfrýja dóminum til Hæstaréttar heldur hafi ríkissaksóknari ákveðið að gera það. Í ljósi þess að dæmd refsing endurupptökubeiðanda í héraðsdómi hafi verið staðfest í Hæstarétti þá eigi hann ekki að greiða sakarkostnaðinn vegna áfrýjunarinnar heldur ríkissaksóknari.
    3. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að um stórfellda hagsmuni sína sé að ræða enda hafi kostnaður málsins fyrir Hæstarétti verið umtalsverður.
  4. Viðhorf gagnaðila
    1. Þann 19. maí 2020 bárust athugasemdir ríkissaksóknara við endurupptökubeiðninni. Ríkissaksóknari mótmælir beiðninni og vísar til þess að hún uppfylli ekki skilyrði endurupptöku skv. 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga um meðferð sakamála. Þá vísar ríkissaksóknari til þess að endurupptökubeiðandi byggi beiðni sína ekki á því að skilyrði 1. mgr. 228. gr. laganna séu uppfyllt.
    2. Ríkissaksóknari telur jafnframt að þrátt fyrir að endurupptökubeiðnin væri byggð á ákvæðum 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 232. gr. laganna, þá uppfylli málið sem slíkt ekkert af þeim skilyrðum sem tilgreind eru í a - d liðum 1. mgr. 228. gr. laganna. Af þeim sökum beri að hafna beiðni endurupptökubeiðanda.
  5. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
    1. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 26. maí 2020, var endurupptökubeiðanda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna athugasemda ríkissaksóknara. Þann 8. júní 2020 sendi endurupptökubeiðandi athugasemdir sínar til nefndarinnar.
    2. Endurupptökubeiðandi mótmælti athugasemdum ríkissaksóknara um að beiðni hans uppfylli ekki skilyrði um endurupptöku og vísar til laga um dómstóla þess efnis að um endurupptöku máls fari eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála.
    3. Endurupptökubeiðandi rökstyður endurupptökubeiðni sína á þá leið að ólögmætt hafi verið að dæma hann til greiðslu sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti þar sem viðurlög á hendur honum hafi ekki verið þyngd frá héraðsdómi. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að sakarkostnaður málsins hafi verið ákveðinn í dómsorði Hæstaréttar og þar með sé kveðinn upp dómur um það hvort og hversu mikið endurupptökubeiðandi eigi að greiða í sakarkostnað. Endurupptökunefnd hafi heimild til að fallist á endurupptöku dóma.
    4. Þá kveður endurupptökubeiðandi að Hæstiréttur hafi brotið lög þegar hann ákvarðaði að endurupptökubeiðandi ætti að greiða kostnaðinn við áfrýjun ríkissaksóknara á málinu til Hæstaréttar. Máli sínu til stuðnings vísar hann til 2. mgr. 237. gr. laga um meðferð sakamála. Endurupptökubeiðandi bendir á að Hæstiréttur hafi staðfest dóm héraðsdóms og samkvæmt framangreindu ákvæði þá eigi kostnaður af áfrýjun að falla á ríkissjóð.
    5. Að lokum vekur endurupptökubeiðandi athygli á því að meðferð málsins fyrir endurupptökunefnd hafi tekið langan tíma. Málið skipti hann miklu þar sem sakakostnaður fyrir héraðsdómi hafi numið 14.613.000 kr. og fyrir Hæstarétti 5.301.000 kr. Í ljósi þessa gífurlega kostnaðar telur endurupptökubeiðandi það mikilvægt að borgarar landsins þurfi ekki að óttast að ríkissaksóknari áfrýi málum til Hæstaréttar sem hafi í för með sér verulegan kostnað fyrir viðkomandi í þeim tilvikum þegar dómur sé ekki þyngdur. Að mati endurupptökubeiðanda hljóti slíkt að teljast ósanngjarnt fyrir borgara landsins.
    6. Endurupptökubeiðandi kveðst íhuga hvort ríkissaksóknari sé ekki vanhæfur til að veita endurupptökunefnd ráðgjöf með greinargerð sinni. Ákvörðun ríkissaksóknara um að áfrýja málinu og krefjast þess að endurupptökubeiðanda yrði dæmd þyngri refsing sem og til greiðslu alls sakarkostnaðar sé ástæða þess að endurupptökubeiðandi óski eftir endurupptöku á máli sínu. Endurupptökubeiðandi kveður að það geti ekki verið vilji löggjafans að skilyrði til endurupptöku séu túlkuð þröngt. Leiði slíkt til þess að borgarar þessa lands hafi enga möguleika til að leita réttar síns. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi framkvæmt klárt lögbrot og borgarar landsins verði að geta sótt rétt sinn.
    7. Ríkissaksóknara var gefið tækifæri til að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna málsins en þær bárust ekki. Var málið því tekið til úrskurðar.
  6. Niðurstaða
  1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.
  2. Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

    a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b.    ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

    d.    verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

  3. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  4. Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sakfelldur fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti (markaðsmisnotkun) og hlaut hann tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm. Þá var hann dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar að fjárhæð 14.613.555 kr. Endurupptökubeiðandi ákvað að una dóminum og áfrýjaði honum því ekki til Hæstaréttar. Ríkissaksóknari skaut hins vegar málinu til Hæstaréttar þar sem hann krafðist refsiþyngingar yfir öllum ákærðu, þar með talið endurupptökubeiðanda. Fyrir Hæstarétti krafðist endurupptökubeiðandi aðallega sýknu en til vara að refsing yrði milduð. Með dómi Hæstaréttar var sakfelling endurupptökubeiðanda staðfest og ákvörðun um refsingu hans látin standa óröskuð frá því sem ákveðið var í héraðsdómi. Þá var ákvæði héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna og þóknunar verjanda í héraði látið standa óraskað. Loks var endurupptökubeiðandi dæmdur til þess að greiða málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti að fjárhæð 5.301.000 kr. og annan áfrýjunarkostnað málsins 3.589.871 kr. óskipt með öðrum dómfelldu.
  5. Þótt það komi ekki skýrum orðum fram í endurupptökubeiðni má gera ráð fyrir að beiðni endurupptökubeiðanda sé reist á d-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, það er að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins fyrir Hæstarétti þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins.
  6. Heimild endurupptökunefndar til að leyfa endurupptöku máls á grundvelli 1. mgr. 228. gr. laganna er sem áður segir bundin við að maður telji sig „ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið“. Í fyrri úrskurðum endurupptökunefndar hefur ákvæðið verið skýrt þannig að heimilt sé að endurupptaka mál þegar maður telur að refsing hans hafi orðið þyngri en ella og fullnægt er einhverju af þeim skilyrðum sem um ræðir í a til d lið ákvæðisins. Í því sambandi er einnig rétt að geta þess að á yfirstandandi löggjafarþingi var orðalag 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála víkkað út til að taka af allan vafa um að heimild til endurupptöku geti einnig náð til þess ef refsing er bersýnilega ranglega ákvörðuð í dómi, sbr. 12. gr. laga nr. 47/2020 (þingskjal 1464). Mun lagabreytingin taka gildi 1. desember næstkomandi.
  7. Endurupptökubeiðni endurupptökubeiðanda lýtur einungis að því hvort honum hafi réttilega verið gert að greiða sakarkostnað vegna áfrýjunar málsins fyrir Hæstarétti. Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort ákvörðun Hæstaréttar um greiðslu sakarkostnaðar fyrir réttinum geti rúmast innan skilyrða 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, um að endurupptökubeiðandi hafi verið ranglega sakfelldur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, þar með talið hvort refsing endurupptökubeiðanda hafi orðið þyngri en ella.
  8. Í XXXVI. kafla laga um meðferð sakamála er fjallað um sakarkostnað. Í 1. mgr. 233. gr. laganna segir að til sakarkostnaðar teljist óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar sakamáls og meðferðar þess, þar á meðal þóknun verjanda. Í 1. mgr. 235. gr. segir að ef ákærði er sakfelldur fyrir það brot eða þau brot sem honum eru gefin að sök þá skuli honum gert að greiða sakarkostnað. Sé ákærði hins vegar sýknaður af kröfu um refsingu og önnur viðurlög þá verði honum ekki gert að greiða sakarkostnað nema hann hafi orðið valdur að kostnaðinum með vísvitandi og ólögmætu framferði við rannsókn máls eða meðferð þess, sbr. 2. mgr. 235. gr. laganna. Af þessu leiðir að greiðsla sakarkostnaðar er að meginstefnu til bundin því hvort ákærði í sakamáli er sakfelldur eða sýknaður með dómi.
  9. Það sama má segja um ákvörðun sakarkostnaðar vegna áfrýjunar sakamála. Í 1. mgr. 237. gr. laganna segir að í þeim tilvikum þar sem ákærði áfrýjar héraðsdómi og hann er sýknaður með öllu eða hluta með dómi Landsréttar (áður Hæstaréttar) eða viðurlög þar eru milduð, þá skuli kostnaður af áfrýjun felldur á ríkissjóð eða honum skipt samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 235. gr. laganna. Þá segir í 2. mgr. 237. gr. að í þeim tilvikum þar sem ríkissaksóknari áfrýjar héraðsdómi og viðurlög eru ekki þyngd svo að neinu nemi með dómi Landsréttar (áður Hæstaréttar) þá skuli kostnaður af áfrýjun felldur á ríkissjóð.
  10. Óumdeilt er í málinu að endurupptökubeiðandi áfrýjaði ekki héraðsdómi og að viðurlög yfir endurupptökubeiðanda voru ekki þyngd með dómi Hæstaréttar, heldur staðfesti rétturinn ákvörðun héraðsdóms um viðurlög endurupptökubeiðanda. Hefði sakarkostnaður því með réttu átt að vera felldur á ríkissjóð samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 237. gr. laga um meðferð sakamála.
  11. Að mati endurupptökunefndar getur sakarkostnaður, þar með talið laun skipaðs verjanda, þó ekki talist til viðurlaga eða refsingar í skilningi almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna. Sakarkostnaður er þvert á móti krafa, einkaréttarlegs eðlis, og komi til þess að dómfelldi greiði ekki dæmdan sakarkostnað verður hann ekki látinn sæta vararefsingu eins og háttar til þegar um fésektir er að ræða.
  12. Ákvörðun Hæstaréttar um að fella sakarkostnað vegna áfrýjunar málsins á endurupptökubeiðanda verður ekki jafnað við það að endurupptökubeiðandi hafi verið ranglega sakfellur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð einkamála. Þá getur r endurupptökunefnd heldur ekki fallist á að endurupptökubeiðanda hafi verið gerð þyngri refsing en lög stóðu til. Eru því skilyrði 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt í málinu og verður því ekki fallist á endurupptöku málsins af þessum sökum.
  13. Samkvæmt framansögðu verður beiðni endurupptökubeiðanda hafnað.
  14. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til þess að endanleg skipun nefndarmanna í endurupptökunefnd í máli þessu lá ekki fyrir fyrr en þann 10. janúar 2020.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni Einars Pálma Sigmundssonar um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 498/2015, sem dæmt var í Hæstarétti þann 6. október 2016, er hafnað.

Haukur Örn Birgisson

Björn Jóhannesson

 

Sératkvæði Hrefnu Friðriksdóttur

  1. Undirrituð er sammála niðurstöðu meirihluta endurupptökunefndar fram að málsgrein 27 í framangreindum úrskurði.
  2. Að mati undirritaðrar er ljóst að sakarkostnaður, þar með talin laun skipaðs verjanda, telst ekki til refsinga eða refsikenndra viðurlaga í skilningi almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna.Krafa um greiðslu sakarkostnaðar er þó gerð af hálfu ríkissaksóknara í ákæru í beinu samhengi við kröfu um refsingu eða refsikennd viðurlög. Þá er ákvörðun um greiðslu sakarkostnaðar, skv. 235.-238. gr. laga um meðferð sakamála tekin í beinu samhengi við ákvörðun refsingar og kemur sem slík fram í dómsorði í sakamálinu.
  3. Með hliðsjón af framansögðu er það mat undirritaðrar að ákvörðun um sakarkostnað verði jafnað til ákvörðunar um sakfellingu eða þyngd refsingar í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Þar sem ákvörðun Hæstaréttar um sakarkostnað fór gegn 2. mgr. 237. gr. laga um meðferð sakamála er fallist á að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt.
  4. Samkvæmt framansögðu er beiðni endurupptökubeiðanda samþykkt.
  5. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til þess að endanleg skipun nefndarmanna í endurupptökunefnd í máli þessu lá ekki fyrir fyrr en þann 10. janúar 2020.

 

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta