Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár


YFIRMATSMENN


samkvæmt lögum um


lax- og silungsveiði nr. 76/1970



YFIRMATSGERÐ


á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár



I.


Undirmat. Beiðni um yfirmat


Hinn 15. maí 1998 luku þeir Þorgils Gunnlaugsson, bóndi á Sökku í Svarfaðardal og Sigtryggur Þorláksson, bóndi á Svalbarði í Þistilfirði mati á arðskrá Veiðifélags Laxár og Krákár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Norðurlands eystra 4. júní 1997.


Með bréfi Jóns Benediktssonar f.h. veiðifélagsins 19. apríl 1999 var þessu arðskrármati skotið til yfirmats. Fylgdi því bréf fjögurra veiðiréttareigenda 18. apríl sama árs, þeirra Ingólfs Jónassonar Helluvaði I, Árna Gíslasonar Laxárbakka, Eysteins Sigurðssonar Arnarvatni IV og Hólmfríðar Jónsdóttur Arnarvatni I til veiðifélagsins, þar sem þau lýsa yfir að þau sætti sig ekki við undirmatið. Vegna málskotsins verður að gæta að ákvæðum 2. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, en samkvæmt þeirri grein er frestur veiðiréttareigenda til að skjóta undirmati til yfirmatsmanna tveir mánuðir frá því undirmat var birt þeim með sannanlegum hætti. Meðal málsgagna er bréf stjórnar veiðifélagsins 19. febrúar 1999 til eigenda og ábúenda jarða, sem aðild eiga að félaginu, en í upphafi bréfsins er tekið fram að með því fylgi meðal annars endurmetin arðskrá. Kemur einnig fram að af ástæðum, sem raktar eru í bréfinu, hafi ekki reynst unnt að kynna félagsmönnum arðskrána frá 15. maí 1998 fyrr. Áðurnefnt bréf stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 19. apríl 1999 barst þeim samdægurs og er erindið nægilega snemma fram komið.


Þá hefur yfirmatsmönnum einnig borist bréf stjórnar veiðifélagsins 23. apríl 1999, en með því fylgdu bréf talsmanns eigenda Ljótsstaða 18. apríl 1999 og tveggja eigenda Arnarvatns II dagsetts sama dag. Bera þau áritun um að hafa verið móttekin af veiðifélaginu 21. apríl 1999. Er í báðum tilvikum látinn í ljós vilji til að arðskrá undirmatsmanna verði endurskoðuð.


II.


Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.


Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.


Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Laxár og Krákár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 24. september 1999 í veiðiheimilunum Rauðhólum og Hofi við Laxá. Á fundina komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Hóla, Ljótsstaða, Helluvaðs, Arnarvatns, Nónbjargs, Geirastaða og Auðna.


Á þessum fundum var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Kynntu yfirmatsmenn sér sjónarmið fundarmanna um skiptingu arðskrár og athugasemdir vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. desember 1999. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundunum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundum: Hrafnkell Sigurðsson vegna Hóla og Ljótsstaða, Ingólfur Jónasson vegna Helluvaðs, Eysteinn Sigurðsson vegna Arnarvatns, Finnbogi Stefánsson vegna Geirastaða og Nónbjargs og Jón Benediktsson, sem gerði grein fyrir aðstæðum og hagsmunum veiðiréttareigenda almennt. Sama dag og fundirnir voru haldnir könnuðu yfirmatsmenn aðstæður á félagssvæðinu eftir því sem tök voru á undir leiðsögn formanns veiðifélagsins. Þá sýndu viðstaddir fundarmenn á Hofi þeim einnig aðstæður við Laxá fyrir löndum sínum.


Eftir áðurnefnda fundi og vettvangsgöngu hafa ekki borist skriflegar greinargerðir frá veiðiréttareigendum ef frá er talin athugasemd fyrirsvarsmanns eiganda Heiðar, sbr. síðar. Yfirmatsmenn hafa leitað til Veiðimálastofnunar, formanns veiðifélagsins og fleiri manna eftir margs kyns upplýsingum, auk þess sem þeir áttu sérstakan fund með Guðna Guðbergssyni fiskifræðingi hjá Veiðimálastofnun í apríl 2000.


III.


Um Veiðifélag Laxár og Krákár.


Félagið heitir Veiðifélag Laxár og Krákár og starfar samkvæmt samþykkt nr. 52/1999, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 14. janúar sama ár. Kom hún í stað eldri samþykktar nr. 106/1971. Sú breyting var meðal annars gerð í nýrri samþykkt að félagssvæðið, sem náði áður nokkuð norður fyrir Laxárvirkjun í landi Grenjaðarstaðatorfu og Presthvamms, styttist og eru norðurmörk þess nú við Laxárvirkjun.


Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra jarða, sem land eiga að Laxá í Suður-Þingeyjasýslu, frá stíflu Laxárvirkjunar 2 að mörkum Laxár og Mývatns, ásamt Arnarvatnsá, Arnarvatni, Helluvaðsá, Gautlandalæk og Kráká. Þá er í greininni lýst mörkum Laxár og Mývatns samkvæmt yfirmatsgerð 22. september 1975. Eftirtaldar jarðir eiga aðild að félaginu: Presthvammur, Kasthvammur, Árhvammur, Hólar, Árhólar, Hamar, Hofsstaðir, Nónbjarg, Geirastaðir, Haganes, Arnarvatn I, II, III og IV, Litlaströnd, Baldursheimur I og II, Þórólfshvoll, Heiði, Bjarnastaðir, Gautlönd I og II, Helluvað I og II, Laxárbakki, Brettingsstaðir, Ljótsstaðir, Auðnir, Þverá, Halldórsstaðir I, II, III og IV, Birningsstaðir, Brúar, Hvoll, Staðarhóll, Grenjaðarstaður, Búvellir, Aðalból, Álftagerði I, II, III og IV, Skútustaðir I, II og III og Grænavatn I, II, III og IV. Í mörgum tilvikum munu tvær eða fleiri jarðir eiga óskipt hlunnindi, ýmist í jöfnum hlutum eða misháum, svo sem nánar birtist í gildandi arðskrá og í nýrri arðskrá samkvæmt XII. kafla hér á eftir.


Samkvæmt 3. gr. samþykktarinnar er verkefni félagsins að viðhalda góðri fiskgengd og að leigja það til stangarveiði. Tekur félagið til allrar veiði á félagssvæðinu. Í 5. gr. er svo kveðið á að öllum sé óheimilt að veiða á félagssvæðinu nema með sérstöku skriflegu leyfi félagsstjórnarinnar. Skuli í leyfinu tekið fram um veiðitíma og veiðitæki.


Í 8. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: „Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð."


Gildandi arðskrá fyrir félagið er frá 8. nóvember 1971. Er hún gerð af félagsmönnum sjálfum og samþykkt á fundi þeirra.


IV.


Rekstur ánna. Tekjur.


Eftir stofnun veiðifélagsins (1970) var hluti félagssvæðisins leigður einum leigutaka 1972, en næstu þrjú ár var allt svæðið ofan Laxárvirkjunar leigt öðrum leigutaka (Ármönnum) og einnig að hluta 1976. Eftir það hefur veiðifélagið sjálft haft allan rekstur árinnar með höndum. Undantekning er þó veiði fyrir landi Haganess, sbr. síðar. Hafa nokkrir félagsmenn annast sölu veiðileyfa í umboði stjórnarinnar. Hefur veiðin lengst af einkum verið stunduð frá veiðiheimilinu Rauðhólum á svokölluðu neðra veiðisvæði í Laxárdal, en allra síðustu árin frá veiðiheimilinu Hofi á efra svæðinu í Mývatnssveit. Einhver veiði mun jafnframt hafa verið til heimilisnota.


Frá árinu 1988 hefur verið leyft að veiða með alls 24 stöngum í einu í Laxá, en veiðitíminn er að jafnaði frá 1. júní til 31. ágúst. Við það bætist að veitt er með tveim stöngum fyrir landi Haganess og sex í Kráká, sbr. nánar hér á eftir. Samkvæmt ákvörðun félagsins og áður leigutaka (Ármanna) er fluga eina leyfða veiðiagnið í Laxá. Hefur svo verið allt frá 1973, en strax við stofnun veiðifélagsins var bannað að veiða á maðk. Jafnframt hefur verið ákveðið að óheimilt sé að hirða veiddan fisk, sem mælist styttri en 35 sentimetrar. Sú ákvörðun var einnig tekin 1973, en í eitt eða tvö ár var viðmiðunin enn hærri eða 40 sentimetrar. Leyfilegur hámarksafli á stöng á dag er 10 fiskar.


Veiði fyrir landi Haganess hefur þá sérstöðu að hún er í reynd ekki á hendi veiðifélagsins, heldur nýtir veiðiréttareigandinn hana sjálfur. Hefur svo verið a.m.k. frá 1976. Samkvæmt upplýsingum félagsstjórnarinnar og veiðiréttareigandans sjálfs er leyfilegt veiðiagn þar ekki takmarkað við flugu og ekki gildir þar heldur sú regla að sleppa beri þeim fiski, sem ekki nær 35 sentimetra lengd. Að þessu atriði verður vikið nánar í IX. kafla hér á eftir.


Á árinu 1999 var gerður leigusamningur um veiði í Kráká til tíu ára. Leigugjald er 160.000 krónur á ári í byrjun, en hækkar síðar á leigutímanum í 320.000 krónur á ári. Greiðslur eru verðtryggðar. Veiðitími er þrír mánuðir á ári og má veiða með allt að sex stöngum í senn. Er leigutaka heimilt að skipta ánni í veiðisvæði, þar sem eingöngu sé veitt á flugu og önnur svæði, þar sem einnig má notast við spón. Sama lágmarksstærð á við um fisk, sem má hirða, og gildir í Laxá.


Reikningar veiðifélagsins síðustu árin eru meðal málsgagna. Samkvæmt rekstrarreikningi 1998 námu tekjur þess (veiðitekjur, seld þjónusta, aðrar tekjur) samtals rúmlega 19.500.000 krónum á því ári og rúmlega 13.000.000 krónum árið áður. Kostnað ber félagið allan af rekstrinum.


V.


Gögn til afnot við matsstörfin


Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:




  1. Beiðni stjórnar veiðifélagsins um yfirmat og fylgiskjal (áður getið).



  2. Arðskrármat undirmatsmanna 15. maí 1988 ásamt greinargerð matsmannanna frá maí 1998.



  3. Bréf stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 23. apríl 1999 og meðfylgjandi bréf eigenda Arnarvatns II og bréf talsmanns eigenda Ljótsstaða og skýringarblað annars undirmatsmanna til hans.



  4. Bréf stjórnar veiðifélagsins til félagsmanna sinna 19. febrúar 1999.



  5. Samþykkt fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár frá 1999 (áður getið).



  6. Arðskrá frá 8. nóvember 1970 (nr. 112/1971).



  7. Kort af Mývatni og ós í Laxá.



  8. Veiðikort I, II og III (frá ósi úr Mývatni að Laxárvirkjun).



  9. „Forsendur 70% bakkalengdar" (handritað og óundirritað skýringarblað undirmatsmanns).



  10. Skrá um landlengd jarða með Laxá, Arnarvatnsá og Helluvaðsá, byggð á mælingu Guðmundar H. Gunnarssonar ráðunautar í mars og apríl 1998.



  11. Skrá um landlengd jarða með Kráká og lækjum, sem falla í hana, byggð á mælingu Guðmundar H. Gunnarssonar ráðunautar í mars og apríl 1998.



  12. Minnisblað annars undirmatsmanna um landlengd við Kráká og Gautlandalæk, ódagsett.



  13. Skrá um nöfn veiðistaða í Laxárdal (neðra veiðisvæði).



  14. Handritað vinnuplagg undirmatsmanna fyrir arðskrárgerð (Laxá) með sundurliðun vegna einstakra þátta, sem réðu niðurstöðu þeirra



  15. Skipting afla á einstaka veiðistaði 1973-1996.



  16. Skipting afla eftir veiðisvæðum 1973-1996 og heildarafli á einstökum svæðum.



  17. Aflatölur á efra veiðisvæði 1973-1999 og ýmis línurit ásamt aflatölum frá neðra veiðisvæði 1999.



  18. Bréf landbúnaðarráðuneytis 10. nóvember 1999 til yfirmatsmanna með fylgiskjali vegna Heiðar, svarbréf yfirmatsmanna 16. sama mánaðar og athugasemd ráðuneytisins 13. desember sama ár.



  19. Aflatölur á neðra veiðisvæði 1990-1997, skipt á jarðir, ásamt heildarveiði 1985-1989 (Áskell Jónasson).



  20. Aflatölur á neðra veiðisvæði 1998, skipt niður á jarðir (Áskell Jónasson).


  21. Bréf Hreins Pálssonar hdl. til Veiðimálanefndar 2. maí 1977.
  22. Gísli Már Gíslason: „Lífið í Laxá" (Náttúra Mývatns, 1991).
  23. Veiðimálastofnun: Laxá --- urriðaveiðin 1974 (Jón Kristjánsson).
  24. Veiðimálastofnun: Laxá --- urriðaveiðin 1976 (Jón Kristjánsson).
  25. Veiðimálastofnun: Urriðaveiðin í Laxá --- 1977 (Jón Kristjánsson).
  26. Veiðimálastofnun: Urriðaveiðin í Laxá --- 1978 (Jón Kristjánsson).
  27. Veiðimálastofnun: Urriðaveiðin í Laxá --- 1979-1981 (Jón Kristjánsson).
  28. Veiðimálastofnun: Laxá --- Rafveiði 1991 og 1992. Urriðaveiðin 1973-1992 (Guðni Guðbergsson).
  29. Veiðimálastofnun: Laxá --- Seiðarannsóknir og urriðaveiði 1993 (Guðni Guðbergsson).
  30. Veiðimálastofnun: Laxá --- Seiðarannsóknir og urriðaveiði 1994 (Guðni Guðbergsson).
  31. Veiðimálastofnun: Laxá --- Seiðarannsóknir og urriðaveiði 1995 (Guðni Guðbergsson).
  32. Veiðimálastofnun: Uppeldisskilyrði fisks í Kráká og Gautlandalæk (Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson).
  33. Veiðimálastofnun: Laxá --- Seiðarannsóknir og urriðaveiði 1998 (Guðni Guðbergsson).
  34. Reikningar veiðifélagsins 1997 og 1998.
  35. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Haganess 11. og 28. apríl og 10. maí 2000.
  36. Leigusamningur um Kráká 26. júní 1999.
  37. Bréf stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 7. apríl 2000.
  38. Yfirlit yfir urriðaveiðina í Laxá árið 1973 (Ármenn).
  39. Yfirlit stjórnar veiðifélagsins 21. janúar 2000 yfir nýtingu á neðra veiðisvæði 1989-1999.
  40. Bréfaskipti stjórnar veiðifélagsins og eiganda Haganess frá 1975 varðandi aðild hins síðastnefnda að félaginu.
  41. Bréf eigenda Ljótsstaða 9. júlí 1971 varðandi vegagerð um land jarðarinnar.
  42. Ljósmyndir af Laxá (Mývatn að Laxárvirkjun).
  43. Loftmyndir af félagssvæðinu.
  44. Veiðimálastofnun: Gögn um veiði í Haganesi.

VI.


Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar


Áður er fram komið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum.


Hólar og Ljótsstaðir:


Einn talsmaður eigenda þessara jarða átti fund með yfirmatsmönnum. Þar var lýst því sjónarmiði að bakkalengd ætti að ráða miklu um skiptingu arðskrár eins og verið hafi í upphafi þegar núgildandi arðskrá var samin. Þá hafi ekki verið til að dreifa veiðireynslu, sem unnt væri að leggja til grundvallar í þessu skyni. Sjónarmið um mikilvægi bakkalengdar ættu enn við enda líklegt að veiðiskýrslur síðari ára væru ónákvæmar og ókleift að fylgjast með skráningu veiðimanna. Vísaði hann jafnframt til þess álits, sem undirmatsmaður hefði látið í ljós, að fiskur dreifði sér jafnt um ána.


Annar talsmaður eigenda Ljótsstaða gagnrýndi undirmat í bréfi til stjórnar veiðifélagsins. Með því fylgdi ódagsett skýringablað annars undirmatsmannsins til þessa veiðiréttareiganda, þar sem m.a. kemur fram að við arðskrárgerð undirmatsmanna hafi vægi bakkalengdar verið 70%, veiði 25% og hrygningar- og búsvæða 5%. Telur talsmaður Ljótsstaða þessar upplýsingar hvergi duga til að skýra lækkaða hlutdeild jarðarinnar í arðskrá í samanburði við aðrar jarðir með svipaða bakkalengd. Það geri ekki heldur munnlegar viðbótarupplýsingar undirmatsmannsins um að aðrar ástæður hafi einnig legið að baki skerðingunni, s.s. „prósenta af bakkalengd miðað við veiðireynslu" eða önnur atriði, sem lýst hafi verið. Ekki liggi því fyrir frambærileg skýring á því hvernig niðurstaða um hlut Ljótsstaða hafi verið fengin.


Arnarvatn, Helluvað, Geirastaðir og Nónbjarg:


Talsmenn þessara jarða áttu fund með yfirmatsmönnum. Sjónarmið, sem fram komu á fundinum, verða rakin hér á eftir, en í meginatriðum voru umræddir veiðiréttareigendur sammála um þau atriði, sem hér verða tilfærð.


Sú skoðun kom fram að við arðskrárgerð ætti að taka meira tillit til veiði og nýtingar veiðileyfa en gert hafi verið í undirmati. Skorti á að jarðirnar hafi notið veiðireynslu sinnar í undirmati. Þannig hafi t.d. veiðileyfi fyrir landi Helluvaðs nýst þannig að þau næmu 13% af öllum seldum veiðileyfum á efra og neðra veiðisvæði og hlutfall veiði þar sé svipað. Hlutdeild jarðarinnar í arðskrá sé hins vegar mun lægra. Þá hafi skil á veiðiskýrslum batnað mjög og verði að teljast góð síðustu árin. Hafi þau enn batnað með tilkomu veiðiheimilisins Hofs 1996.


Það álit kom fram að silungur fyrir löndum jarðanna sé mjög staðbundinn. Sé þannig óvenjulegt að hann veiðist langt frá þeim stað, þar sem hann er merktur. Ungfiskur gangi þó í nokkrum mæli í Mývatn, þar sem hann haldi sig yfir veturinn. Fiskur vaxi hratt í lækjum á efra veiðisvæðinu, en í Arnarvatni sé lítið um silung. Helst sé hann að finna á dýpri blettum í vatninu, sem annars sé grunnt. Þá lýstu fundarmenn í stórum dráttum veiðistöðum í Laxá á efra svæðinu. Ekki er ágreiningur um landamerki.


Ein þessara jarða, Arnarvatn, á auk Laxár veiðirétt í Kráká. Kom fram að nýting síðarnefndu árinnar hafi verið léleg og að heimildir um veiði þar séu gloppóttar. Sá sérstaki vandi, sem þar sé við að glíma, sé sandburður í ánni vegna uppfoks, sem þó hafi dregið verulega úr vegna landgræðslu. Þá séu tekjur af ánni ennþá innan við 1% af því, sem Laxá gefi af sér.


Heiði:


Talsmaður eiganda jarðarinnar lýsti bréflega óánægju með lækkun, sem orðið hafi á hlut hennar í arðskrá í undirmati. Var jafnframt óskað eftir að sú lækkun yrði tekin til endurskoðunar.


VII.


Skipting arðs. Almennt.


Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu til netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."


Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli.


Í gildandi arðskrá fyrir félagið er arði skipt í einingar, þar sem hverjum veiðiréttareiganda er veitt hlutdeild, sem ákveðin er sem prósenta af heild með þremur aukastöfum. Yfirmatsmenn munu hins vegar nú sem endranær hafa þann hátt á að skipta arði í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvort önnur atriði geti haft þar áhrif á.


VIII.


Landlengd.


Meðal málsgagna eru tvær ódagsettar skrár um landlengd jarða að Laxá og Kráká. Skrárnar voru unnar í mars og apríl 1998 eftir loftmyndum og athugun á aðstæðum af Guðmundi Helga Gunnarssyni, ráðunaut hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. Er önnur þeirra fyrir Laxá, Arnarvatnsá og Helluvaðsá, en hin fyrir Kráká og læki, sem til hennar falla. Engar athugasemdir hafa borist yfirmatsmönnum varðandi þessa mælingu. Verða tölur, sem skrárnar hafa að geyma, lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir. Lítilsháttar leiðréttingar eru þó gerðar varðandi fjóra hólma í Laxá, sem leiða til tilfærslu frá Grenjaðarstaðatorfu til Presthvamms og Arnarvatni til Haganess.


Sú mæling á landlengd, sem að framan er rakin, náði þó ekki til Gautlandalækjar eða Arnarvatns. Varðandi það atriði styðjast yfirmatsmenn við minnisblað annars undirmatsmanna, en ráðið verður að þeir hafi kannað sjálfstætt bakkalengd þar. Leiðrétting er þó gerð varðandi Bjarnastaði, sem ekki er getið í minnisblaði undirmatsmannsins og einnig er aukið við bakkalengd Baldursheims/Þórólfshvols, þar sem nokkuð vantar á hana í minnisblaðinu.


Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 400 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Laxá, Kráká og lækjum, sem til þeirra falla. Við skiptingu þessara eininga verður litið til þess að vatnsmagn í Laxá er miklum mun meira en í öðrum vatnsföllum á félagssvæðinu. Verður að telja að sum þeirra séu veiðibúskapnum ekki ýkja mikils virði, en það á einkum við um læki, sem falla til Krákár og jafnvel einnig Gautlandalæk með Arnarvatni. Þá verður einnig litið til þess að tekjur af sölu veiðileyfa í Laxá eru margfaldar miðað við það, sem gildir um Kráká. Að öllu virtu verður hverri lengdareiningu bakka við hin einstöku vatnsföll gefið misjafnt vægi, svo sem nánar verður rakið hér á eftir.


Fyrir liggur að eyjar og hólmar í Laxá hafa verið „hringmældir" og tölur á skrá mælingamanns eru þannig fundnar. Verður hverri lengdareiningu bakka í öllum mældum hólmum og eyjum, þ.m.t. hinum stærstu, Hofsstaðaey og Geldingaey, gefið 50% vægi af sömu bakkalengd við Laxá. Bakkar Helluvaðsár fá jafnhátt vægi og eyjar og hólmar, en bakkar Arnarvatnsár 30% miðað við Laxá. Bökkum Krákár er veitt 12,5% vægi og Krákárhólma 10% að undanskildum þeim hluta hans, sem liggur að Laxá og er hér talinn sem hluti af bökkum hennar. Bakkar Gautlandalækjar með Arnarvatni fá 2% og lækir, sem falla til Krákár 1% miðað við Laxá.


IX.


Aðstaða til stangarveiði.


Gerð er grein fyrir tilhögun við rekstur ánna í IV. kafla að framan og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um silungsveiði og skiptingu aflans á veiðistaði. Aflaskýrslurnar eru fyrir neðra og efra veiðisvæðið og taka til áranna 1973-1999 að báðum meðtöldum. Varðandi þennan þátt í skiptingu arðskrár leggja yfirmatsmenn almennt til grundvallar allan afla, sem fengist hefur frá gerð síðustu arðskrár. Í tilviki Veiðifélags Laxár og Krákár vantar aðeins skýrslur fyrir tvö ár, þ.e. 1971 og 1972, svo þeirri reglu verði fylgt að öllu leyti. Sá annmarki er þó alvarlegri að skýrslur fyrir neðra veiðisvæðið eru ónákvæmar á tímabilinu 1973-1989 að því er varðar skiptingu aflans milli jarða, sem mun helgast af þeirri aðferð, sem veiðimenn viðhöfðu á þessum árum við bókun hans. Til álita kemur að áætla veiði árin 1971 og 1972 á hvoru veiðisvæði miðað við meðalveiði á sama svæði 1973-1999 og jafnframt að áætla skiptingu aflans milli jarða á neðra svæðinu 1973-1989 miðað við skiptingu hans á sama svæði 1990-1999. Að öllu virtu verður sá háttur þó ekki viðhafður vegna mikillar óvissu, sem þeirri aðferð fylgir að því er varðar skiptingu aflans á neðra veiðisvæðinu, ekki síst í ljósi þess hve langan tíma um er að ræða. Verður því sá kostur valinn að miðað eingöngu við veiði áranna 1990-1999 á báðum svæðunum, en líta framhjá veiðiskýrslum fyrri ára. Telja yfirmatsmenn flest benda til að skráning afla sé komin í það gott horf á báðum svæðunum að ekki sé varhugavert að leggja skýrslur þessara ára til grundvallar. Á þessum tíu árum hefur veiðst 10.121 silungur á neðra veiðisvæðinu, en 23.453 fiskar á efra veiðisvæðinu, samtals 33.574 fiskar. Í þeirri tölu er jafnframt fiskur, sem er yfir máli, en veiðimenn hafa engu að síður sleppt, en nokkuð hefur verið um að sá háttur væri á hafður, einkum síðustu árin.


Sérstök álitaefni tengjast veiði fyrir landi Haganess, en í IV. kafla að framan er gerð grein fyrir sérstöðu, sem er fyrir hendi varðandi þá jörð. Samkvæmt veiðiskýrslum hafa veiðst sl. 10 ár samtals 3.623 silungar fyrir þeim hluta jarðarinnar, sem tilheyrir félagssvæði Veiðifélags Laxár og Krákár. Yfirmatsmenn hafa leitað eftir upplýsingum frá jarðeigandanum um það hvað ætla megi að stór hluti heildaraflans á þessum árum hafi fengist á annað agn en flugu og hve stór hluti hans hafi verið undir 35 sentimetrum að lengd. Munnlega fékkst staðfest að veiða mætti í Haganesi með sérhverju löglegu veiðiagni, en sleppa ætti silungi, sem mældist undir 30-32 sentimetrum að lengd. Þá væru ekki settar hömlur á fjölda fiska, sem mætti veiða. Frekari upplýsingar fengust ekki frá veiðiréttareigandanum við fyrirspurn yfirmatsmanna. Nokkrar upplýsingar hafa hins vegar fengist um þetta frá Veiðimálastofnun, þar sem skráðar eru tilteknar upplýsingar úr veiðibókum jarðarinnar. Kemur þar m.a. fram að hátt hlutfall af veiðinni ár hvert fæst á annað en flugu, einkum maðk. Jafnframt hefur verið kannað hjá veiðiréttareigendum og veiðimönnum eftir því sem kostur var hvað almennt megi ætla að sé hlutfall undirmálsfisks á félagssvæðinu, sem er sleppt. Er jafnframt ljóst að smáfiskur leitar í allnokkrum mæli í efstu kvíslar Laxár. Þar sem ekki eru settar þær hömlur á tegund veiðiagns og lágmarksstærð fisks, sem gilda annars staðar á félagssvæðinu, er ekki unnt að leggja veiði í Haganesi að jöfnu við aðra veiði innan veiðifélagsins. Verða veiðitölur því ekki lagðar til grundvallar, eins og þær koma fyrir og er óhjákvæmilegt að skerða þær svo jafnræðis sé gætt. Þykir hæfilegt í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga að miða við að helmingur uppgefins afla komi Haganesi til góða við skiptingu arðskrár.


Skráning afla í Kráká er ófullkomin, en sýnst þó hafa færst í rétt horf. Af síðustu tíu árum liggja fyrir veiðitölur sjö ára, samtals 247 silungar. Verða þær tölur lagðar til grundvallar, en að auki áætluð veiði þeirra þriggja ára, sem upplýsinga nýtur ekki um. Er þá miðað við meðalveiði hinna sjö áranna. Verður samkvæmt því miðað við að alls hafi veiðst 346 silungar í Kráká sl. tíu ár.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 400 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Óskráður afli og afli, sem ekki er skráður á veiðistaði, hefur ekki áhrif á skiptingu þessara eininga og ekki hefur komið fram ágreiningur um landamerki að einstökum veiðistöðum. Vegna fram kominna ábendinga um misjafnlega góða nýtingu veiðileyfa milli veiðisvæða eða jafnvel jarða skal tekið fram að nýtingin á að koma fram í veiði, en að öðru leyti er ekki unnt við skiptingu arðskrár að taka mið af nýtingu veiðileyfa sem slíkri. Gildir þá einu hvaða ástæður kunna að valda lakari nýtingu en almennt er, þ.á.m. slæmt aðgengi að einstökum veiðistöðum, sem mun einkum eiga við um hluta veiðisvæða fyrir löndum Ljótsstaða og Brettingsstaða.


X.


Uppeldis- og hrygningarskilyrði.


Í 23.-33. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið fjölmargra skýrslna Veiðimálastofnunar frá árunum 1974-1999 um rannsóknir, sem varða uppeldis- og hrygningarskilyrði í Laxá, Kráká og víðar á félagssvæðinu. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við Guðna Guðbergsson, sérfræðing Veiðimálastofnunar.


Af þessum skýrslum verður m.a. ráðið að áður þótti nokkrum vafa undirorpið hversu staðbundinn urriðinn í Laxá væri. Eftir því sem þekking hefur aukist og rannsóknir staðið lengur hafa niðurstöður vísindamanna hnigið eindregnar að því að telja fiskinn verulega staðbundinn í ánni. Sýna t.d. merkingar að fiskur veiðist sjaldan langt frá þeim stað, sem hann var merktur, heldur fæst hann almennt á svipuðum slóðum.


Í skýrslunum er ekki gerð tilraun til að skipta ánni í uppeldissvæði, þar sem mat sé lagt á gæði hvers og eins þeirra. Skýringar á því munu vera ýmsar, m.a. hve fáir staðir uppfylla skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi, til að ná megi marktækri mælingu við rafveiðar á seiðum. Þótt ætla megi að tilteknir kaflar í ánni kunni að vera lakari en aðrir fyrir hrygningu og uppeldi seiða er ljóst að Veiðimálastofnun telur sig ekki hafa gögn undir höndum til að kveða upp úr um það eða segja fyrir um hvar mörk slíkra kafla og annarra betri liggja.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 200 einingar komi til skipta milli veiðiréttareigenda vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða á öllu félagssvæðinu. Í ljósi þess, sem að framan er rakið, er ókleift að skipta þessum einingum eftir hefðbundnum aðferðum á grundvelli rannsóknarskýrslna Veiðimálastofnunar, þar sem upplýsingar er almennt að finna um misjafnt gildi einstakra árkafla eða svæða fyrir hrygningu og uppeldi seiða og um mörk slíkra svæða. Þær skýrslur um önnur veiðivötn, sem hér er vísað til, eiga við um stofna göngufisks, andstætt því sem um ræðir í tilviki Laxár ofan Brúa. Með því að hér er ekki við slíkt að styðjast verður við úthlutun þessara eininga litið til annarra áþreifanlegri þátta, þ.e. bakkalengdar og veiði og þeim skipt í réttu hlutfalli við áður gefið vægi þessara þátta, sbr. að framan. Ekki eru efni til að fara að þessu leyti öðru vísi að varðandi Kráká og læki á efra veiðisvæðinu en Laxá. Við þessa ákvörðun er jafnframt horft til þess að af skýrslum Veiðimálastofnunar verður ráðið að hrygningu og uppeldi sé alls staðar að finna á vatnasvæðinu og að ókleift sé að fella nokkurn kafla út með öllu. Verður 80 af þessum einingum skipt í samræmi við hlut hvers veiðiréttareiganda í áður úthlutuðum einingum fyrir bakkalengd og öðrum 80 fyrir hlut þess sama í einingum fyrir veiði. Þá hafa yfirmatsmenn leitað upplýsinga hjá nokkrum veiðimönnum, sem þekkja veiðisvæðið mjög vel. Þeim heimildarmönnum ber saman um að á ákveðnum stöðum og svæðum í Laxá sé meira um smáfisk en annars staðar og þar sé því augljóslega um mikilvægar uppeldisstöðvar að ræða. Telja yfirmatsmenn þær ábendingar nógu traustar til að taka megi einnig nokkurt mið af þeim, auk þess sem þær fá stoð í skýrslum Veiðimálastofnunar. Verður samkvæmt því úthlutað 20 einingum til veiðiréttareigenda á kvíslasvæði Laxár í Mývatnssveit og öðrum 20 til veiðiréttareigenda einkum um miðbik og á efri hluta veiðisvæðisins í Laxárdal.


XI.


Niðurstöður.


Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Í þeim tilvikum, þar sem hlunnindi eru óskipt milli tveggja eða fleiri jarða verður ekki hróflað við þeirri innbyrðis hlutfallsskiptingu, sem fram kemur í þeirri arðskrá, sem gilt hefur frá upphafi, enda hafa engar kröfur komið fram í þá veru. Undantekning er þó gerð að því er varðar Álftagerði III og IV þar sem hnikað er til hlutfallsskiptingu samkvæmt ábendingu félagsstjórnar.


Veiðifélag Laxár og Krákár ber kostnað af mati þessu.


Mat þetta gildir frá 1. janúar 2000. Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár skal vera, svo sem greinir í XII. kafla hér á eftir.


XII.


Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxár og Krákár.


Jarðir. einingar



1. Presthvammur 20,7


2. Kasthvammur 37,5


3. Árhvammur 37,5


4. Hólar 38,6


5. Árhólar 19,3


6. Hamar 49,8


7. Hofsstaðir 179,2


8. Nónbjarg 32,8


9. Geirastaðir 32,8


10. Haganes 39,3



  1. Arnarvatn I 30,3
  2. Arnarvatn II 30,3
  3. Arnarvatn III 30,3
  4. Arnarvatn IV 30,3
  5. Litlaströnd 1,8
  6. Baldursheimur I 2,9
  7. Baldursheimur II 1,5
  8. Þórólfshvoll 4,4
  9. Heiði 0,3
  10. Bjarnastaðir 0,3
  11. Gautlönd I 1,6
  12. Gautlönd II 0,8
  13. Helluvað I 49,5
  14. Helluvað II 24,8
  15. Laxárbakki 24,8
  16. Brettingsstaðir 42,9
  17. Ljótsstaðir 32,1
  18. Auðnir 41,7
  19. Þverá 29,1
  20. Halldórsstaðir I 9,3
  21. Halldórsstaðir II 4,8
  22. Halldórsstaðir III 7,1
  23. Halldórsstaðir IV 7,1
  24. Birningsstaðir 54,1
  25. Brúar 1,6
  26. Hvoll 1,6
  27. Staðarhóll 1,6
  28. Grenjaðarstaður 1,6
  29. Búvellir 1,6
  30. Aðalból 1,6
  31. Álftagerði I 1,2
  32. Álftagerði II 1,2
  33. Álftagerði III 1,4
  34. Álftagerði IV 1,0
  35. Skútustaðir I 6,6
  36. Skútustaðir II 3,3
  37. Skútustaðir III 3,3
  38. Grænavatn I 5,7
  39. Grænavatn II 5,7
  40. Grænavatn III 5,7

51. Grænavatn IV 5,7



Samtals: 1000,00


Reykjavík, 31. maí 2000



_______________________


Gunnlaugur Claessen


________________________ __________________________


Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson


Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta