Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna synjunar Skattsins á aðgangi stofnunarinnar að gögnum.

FJR25020051

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með bréfi kæranda til Skattsins, dags. 28. nóvember 2024, var óskað eftir upplýsingum um útflutning um tiltekin tollskrárnúmer fyrir tímabilið nóvember 2023 til þess tíma sem af væri árinu 2024. Í erindinu var vísað til beiðni sem upphaflega var send Skattinum þann 7. nóvember 2024. Þar var einnig vísað til lagaheimilda sem kærandi hefur til að afla gagna frá stofnunum og öðrum, sbr. […].

Skatturinn synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 9. desember 2024, þar sem fram kom að embættið teldi beiðni um afhendingu ítarlegra gagna niður á ótilgreinda útflytjendur um útflutning þeirra á […] á tilteknu tímabili ekki falla undir þá lagaheimild sem til staðar væri í lögum nr. […]. Fram kom í bréfi Skattsins að heimildir kæranda til að afla upplýsinga frá skatta- og tollyfirvöldum byggi á […]. Þar segi að við athugun einstakra mála geti kærandi m.a. krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þ. á m. frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum.

Í bréfi Skattsins var vísað til umfjöllunar um […] laganna í greinargerð með upphaflegu frumvarpi, en þar segi að […] fjalli um heimildir […] til að krefjast upplýsinga í tilefni af rannsóknum einstakra mála. Stofnunin geti því ekki krafist almennrar upplýsingagjafar sem ekki tengist könnun einstakra mála. Af þessu megi, að áliti Skattsins, draga þá ályktun að fyrir þurfi að liggja grunur, sem byggður sé á ábendingum eða öðrum gögnum, um að ekki hafi verið rétt staðið að tilteknum uppgjörum á milli […] til þess að hægt væri að afla gagna frá skatta- og tollyfirvöldum á grundvelli […] áðurnefndra laga. Ákvæði í kjarasamningum á milli […] breyti hér engu um enda gangi þeir ekki framar ákvæðum settra laga.

Skatturinn lýsti sig sammála því að rannsókn eða athugun einstakra mála væri á forræði þeirrar stofnunar sem málaflokkurinn heyri undir en réttur stofnunarinnar til að afla gagna frá öðrum stofnunum vegna þeirra mála yrði að byggja á skýrum lagaákvæðum. Embættið taldi sig í fyrri samskiptum við kæranda hafa uppfyllt upplýsingaskyldu sína í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Varðandi það hvort þörf væri á að Skatturinn sé upplýstur um rannsókn slíkra mála til að hægt væri að afgreiða beiðni um yfirlit yfir kennitölur þeirra sem […] áréttaði embættið að til þess að gagnabeiðnin væri tiltæk þá þyrfti hún að snúa að rannsókn einstakra mála eins og áður hafi verið áréttað, sbr. […]. Í því sambandi benti Skatturinn á almenna tilkynningarskyldu stjórnvalda gagnvart aðilum þegar rannsókn er hafin á þeim, sbr. meginreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Að lokum tók Skatturinn fram að embættið hefði þegar afhent kæranda upplýsingar um […] vegna 6 félaga sem byggi á því að stofnunin hafi stofnað formlegt mál gagnvart þeim félögum.

Kærandi kærði synjun Skattsins til fjármála- og efnahagsráðuneytis þann 14. febrúar 2025. Með tölvupósti, dags. 17. febrúar 2025, framsendi ráðuneytið kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með vísan til þess að úrlausn hennar ætti undir verksvið nefndarinnar skv. upplýsingalögum, nr. 140/2012.

Í bréfi kæranda, dags. 21. febrúar 2025, kemur fram að stofnunin telji ólíklegt að fyrra erindi hennar til ráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2025, sem ráðuneytið framsendi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þann 17. febrúar 2025, heyri undir verksvið nefndarinnar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Fer kærandi fram á að ráðuneytið líti á fyrra erindi hans sem ábendingu um að Skatturinn sé að virða að vettugi heimild kæranda til að afla upplýsinga. Jafnframt óskar kærandi eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort ákvörðun Skattsins, um synjun á afhendingu gagna um […] á tilteknu tímabili eftir tollskrárnúmerum, hafi verið í samræmi við lög.

Með úrskurði nr. […] dags. 28. febrúar 2025, var framsendri kæru, dags. 17. febrúar 2025, vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál á þeim forsendum að upplýsingalög, nr. 140/2012, taki samkvæmt orðalagi sínu og markmiðum ekki til þeirrar aðstöðu þegar stjórnvöld óski eftir upplýsingum hjá öðrum stjórnvöldum.

Málsástæður, lagarök og mótbárur kæranda.

Málsástæður kæranda eru þær að stofnuninni sé ætlað að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri […]. Jafnframt sé stofnuninni ætlað að fylgjast með því að […] með þeim hætti sem kveðið sé á um í lögum og samningum á hverjum tíma, sbr. […] áðurnefndra laga. Umbeðnar upplýsingar, um tiltekin gögn varðandi […] séu forsenda þess að stofnunin geti fylgst með því að raunverulegt […] sé lagt til grundvallar […]. Athugun á uppgjöri […] sé einstakt mál sem hafi verið til rannsóknar hjá stofnuninni. Upplýsingar um allan […] á tilteknu tímabili hafi verið og sé ein af forsendum þess að hægt sé að kanna hvort raunverulegt […] sé lagt til grundvallar […] hjá þeim sjö fyrirtækjum sem kærandi hafi undir sérstöku […]. Skatturinn virðist leggja það mat á beiðni kæranda að hún samræmist ekki heimild stofnunarinnar um upplýsingabeiðni í tilefni rannsóknar einstaks máls. Að mati kæranda hins vegar hljóti forræði á því, hvort um sé að ræða athugun eða rannsókn einstaks máls, að vera hjá þeirri opinberu stofnun sem hafi umrædd mál á starfssviði sínu og svari sú stofnun fyrir það.

Forsendur og niðurstaða.

Kæra í málinu sem hér um ræðir er til komin vegna þeirrar ákvörðunar Skattsins að synja kæranda með bréfi, dags. 9. desember 2024, um afhendingu gagna um […] eftir tollskrárnúmerum.

Í málinu greinir aðila á um gildissvið ákvæðisins í […] gagnavart þeim þagnarskylduákvæðum sem hvíla á Skattinum. Af ákvörðun Skattsins, dags. 9. desember 2024, má ráða að stofnunin taldi gagna-beiðni kæranda ekki rúmast innan gildissviðs […] laganna og synjaði þar með um aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til þeirrar þagnarskyldu sem á stofnuninni hvílir.

Til að […] geti sinnt hlutverki sínu skv. […] er […] og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum skylt að veita […] aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun […]. Þá er […] skylt að senda […] án tafar alla samninga um […]. Samkvæmt […] laganna getur […] við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. […] segir um […]:

„Fyrsta og 2. mgr. greinarinnar fjalla um heimildir […] til að krefjast upplýsinga í tilefni af rannsóknum einstakra mála. Á grundvelli þessara málsgreina getur […] ekki krafið þá aðila er hér um ræðir um almenna upplýsingagjöf sem ekki tengist könnun einstakra mála, sbr. á hinn bóginn ákvæði 3. mgr.“

Samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. beinu orðalagi ákvæðisins, er ákvæðið þannig eingöngu bundið við upplýsingar í tilefni af rannsóknum „einstakra mála“ og fær sú túlkun stoð í fyrrnefndum athugasemdum með frumvarpinu þar sem gerð er krafa um að viðkomandi geti tilgreint viðkomandi mál við afmörkun upplýsingabeiðninnar. Málsaðila er því nauðsynlegt að afmarka beiðni sína við það tiltekna mál sem hann óskar aðgangs að.

Af framangreindu leiðir að gera verður skýran greinarmunur á annars vegar upplýsingum í einstöku máli og hins vegar almennri upplýsingagjöf og ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Hafa ber í huga að um er að ræða ákvæði í sérlögum um […] sem ber samkvæmt almennum lögskýringarreglum að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðisins beinlínis gefur tilefni til. Með vísan til framangreinds liggur fyrir að umrædd upplýsingaheimild nær eingöngu til upplýsinga í einstöku máli.

Ráðuneytið bendir á að á Skattinum hvílir sérstök og rík þagnarskylda, sbr. t.d. 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 og 1. mgr. 44. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Litið hefur verið á ákvæðin sem grundvallarreglu á sviði skattaréttar um trúnað sem hvíli á skattyfirvöldum um viðskipti, tekjur og efnahag einstakra lögaðila og einstaklinga. Slíkur skilningur á reglunni fær einnig samrýmst þeirri almennu þagnarskyldu sem hvílir á starfsmönnum hins opinbera, sbr. 8. og 9. tölul. 42. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, lögfestum takmörkunum á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og, hvað varðar einkahagsmuni einstaklinga, 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sem mælir fyrir um friðhelgi einkalífs, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1211/2024 og dóma Hæstaréttar Íslands nr. 329/2014 og 263/2015.

Í þessu ljósi verður að áliti ráðuneytisins litið á […] sem undantekningarreglu gagnvart þeim þagnarskylduákvæðum sem hvíla á Skattinum. Undantekningar af því tagi verða almennt ekki túlkaðar rúmt gagnvart þeim þagnarskylduákvæðum.

Úrskurðarorð.

Ákvörðun Skattsins, dags. 9. desember 2024, um að synja […] um afhendingu gagna um […] eftir tollskrárnúmerum, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta