Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður í máli Loftorku ehf.

Reykjavík 1. febrúar 2012

Tilv.: FJR11050019/120

Efni: Stjórnsýsluúrskurður í máli Loftorku ehf.

Vísað er til stjórnsýslukæru, dags. 4. maí 2011, f.h. Loftorku ehf., þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 1. apríl 2011, um að skráning firmaheitisins Loftorka ehf. gangi gegn betri rétti félagsins Loftorka í Borgarnesi ehf. Í kærunni er farið fram á að ákvörðun fyrirtækjaskrár, um að færa nafn félagsins Loftorka ehf. til fyrra horfs, verði hnekkt og að ráðuneytið endurskoði ákvörðun stofnunarinnar.

Málavextir og málsástæður

Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 1. apríl 2011

Í ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra er forsaga málsins rakin. Þar greinir að hinn 15. febrúar 2010 hafi forsvarsmaður LOB ehf. óskað eftir því við fyrirtækjaskrá að breyta nafni félagsins í Loftorka ehf. Í ljósi andmæla frá Loftorku Reykjavík ehf. hafnaði fyrirtækjaskrá þeirri beiðni LOB ehf. þar sem ekki væri um almennt heiti að ræða og með gjaldþroti Loftorku Borgarnesi ehf. félli það nafn út og því þyrfti samþykki frá Loftorku Reykjavík ehf. til að bera firmaheitið Loftorka ehf.

Hinn 24. febrúar 2010 barst fyrirtækjaskrá tilkynning frá LOB ehf. þar sem nafni félagsins var breytt í Loftorka í Borgarnesi ehf. Með tilkynningunni fylgdi samþykki skiptastjóra þrotabús Loftorku Borgarnesi ehf. fyrir breytingunni. Í framhaldi var firmaheiti LOB ehf. breytt í Loftorka í Borgarnesi ehf. í fyrirtækjaskrá.

Hinn 21. maí 2010 barst fyrirtækjaskrá tilkynning frá Loftorku Reykjavík ehf. þar sem nafni félagsins var breytt í firmaheitið Loftorka ehf. og í framhaldi var nafni félagsins breytt í Loftorka ehf. í fyrirtækjaskrá.

Hinn 28. október 2010 barst fyrirtækjaskrá tölvupóstur frá forsvarsmanni Loftorku í Borgarnesi ehf. þar sem óskað var eftir því að nafnabreyting Loftorku Reykjavík ehf. í Loftorku ehf. yrði afturkölluð þar sem Loftorka í Borgarnesi ehf. hefði ekki veitt samþykki sitt fyrir breytingunni líkt og krafist var þegar LOB ehf. óskaði eftir af nafni félagsins yrði breytt í Loftorka ehf. Hinn 11. nóvember 2010 barst fyrirtækjaskrá kæra frá Loftorku í Borgarnesi ehf. þess efnis.

Hinn 1. apríl 2011 ákvarðaði fyrirtækjaskrá að skráning firmaheitisins Loftorka ehf. gengi gegn betri rétti félagsins Loftorka í Borgarnesi ehf. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu sinni breytti fyrirtækjaskrá heiti félagsins Loftorka ehf. til fyrra horfs, þ.e. í Loftorka Reykjavík ehf.

Í ákvörðun fyrirtækjaskrár greinir að frá árinu 2006 hafi fyrirtækjaskrá og vörumerkjaskrá markvisst haft hliðsjón hvor af annarri við mat á því hvort firmaheiti/vörumerki sé laust til skráningar. Með hliðsjón af því að vörumerkjaskrá greinist í marga flokka eftir starfsemi eða þjónustu og vöruflokka getur sama vörumerki verið skráð á mismunandi eigendur eftir flokkun. Fyrirtækjaskrá sé hins vegar ein skrá og sama firmaheiti því aðeins einu sinni skráð í skránna.

Fram kemur að hið gjaldþrota félag Loftorka Borgarnesi ehf. hefði framselt öll réttindi sín og skyldur til LOB ehf., nú Loftorka í Borgarnesi ehf. Um hafi verið að ræða kaup á öllum rekstri félagsins og eignum, bæði efnislegum sem og öllum óefnislegum eignum, s.s. vörumerki, firmaheiti og léni. Þar með hafi Loftorka í Borgarnesi ehf. öðlast öll réttindi Loftorku Borgarnesi ehf. og því hafi það engin áhrif í deilum aðila um rétt til firmaheitisins loftorka þótt félagið hafi orðið gjaldþrota þar sem annað félag hafði öðlast öll réttindi þess.

Jafnframt greinir að orðið loftorka sé sérstakt heiti, þ.e.a.s. að orðið sé ekki til í íslenskri orðabók heldur sé samsetning tveggja almennra heita og því lögverndað heiti sem öðrum sé ekki heimilt að nota án leyfis skráðs rétthafa. Hins vegar megi leiða að því líkur þar sem orðið loftorka hefur oft komið fyrir í firmaskrá án athugasemda að orðið teljist nú vera almennt.

Fram kemur að þegar nafni Loftorku Reykjavík ehf. var breytt í Loftorka ehf. leitaði fyrirtækjaskrá í vörumerkjaskrá að orðinu loftorka en ekkert komið upp við þá leit enda vörumerkið skráð sem LOFT ORKA, með bili á milli orðanna. Að auki vísar fyrirtækjaskrá til þess fyrirvara sem fram kemur á eyðublaði um tilkynningu um nafnabreytingu firmaheitis og forsvarsaðilar Loftorku Reykjavík ehf. rituðu undir.

Þá greinir að vörumerkið LOFT ORKA hafi verið skráð árið 2004. Tilgreint er að vörumerkið sé m.a. skráð í flokkinn byggingarstarfsemi og í byggingarefni þar sem sérstaklega er tekið fram malbik. Þessir flokkar séu allir mjög líkir tilgangi Loftorku Reykjavík ehf., þ.e. verktakastarfsemi og vegagerð. Því hefði með réttu átt að synja Loftorku Reykjavík ehf. um skráningu á nafninu Loftorka ehf. þar sem firmaheitið brjóti gegn betri rétti Loftorku í Borgarnesi ehf.

Stjórnsýslukæra forsvarsaðila Loftorku ehf., dags. 4. maí 2011

Í kærunni er farið fram á að ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra verði hnekkt og að ráðuneytið endurskoði ákvörðun stofnunarinnar. Farið er fram á að Loftorka í Borgarnesi ehf. fái ekki að halda því heiti með vísan til þess að samþykki Loftorku ehf. hefði þurft til breytinga á firmaheitinu. Þá er farið fram á að Loftorka ehf. fái að halda nafninu óbreyttu. Fram kemur m.a. það mat að fyrirtækjaskrá hafi verið óheimilt að endurupptaka skráningu á firmaheitinu Loftorka ehf. skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ákvörðun fyrirtækjaskrár um að heimila nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. í Loftorku ehf. hafi verið byggð á fullnægjandi upplýsingum.

Umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 2011

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. maí 2011, var óskað eftir umsögn fyrirtækjaskrár um framkomna stjórnsýslukæru. Umsögnin barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 30. maí 2011.

Af umsögninni má ráða að það hafi verið mistök hjá fyrirtækjaskrá að krefjast þess af LOB ehf., vegna tilkynningar félagsins um nafnabreytingu yfir í Loftorka ehf., að samþykki Loftorku Reykjavíkur ehf. þyrfti að liggja fyrir. Jafnframt að ef Loftorka Reykjavík ehf. geti hindrað LOB ehf. í að breyta nafni félagsins í Loftorka ehf. ætti sú regla jafnframt að gilda um nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorka ehf., þar sem LOB ehf. heiti í dag Loftorka í Borgarnesi ehf. og hafi gert kaupsamning um að eignast öll efnisleg og óefnisleg réttindi Loftorku Borgarnesi ehf.

Fram kemur að þegar LOB ehf. óskaði eftir nafnabreytingu yfir í Loftorka ehf. hefði fyrirtækjaskrá átt að samþykkja þá umsókn án athugasemda, m.a. á þeim grundvelli að félagið væri með rétt á firmaheitinu Loftorka Borgarnesi ehf., væri með skráð vörumerkið LOFT ORKA auk þess sem félagið ætti lénið www.loftorka.is. Einnig greinir að þegar félag hefur fengið skráð vörumerki hefur það eignast ríkan rétt til þess orðs. Því verði að telja að ef Loftorka Reykjavík ehf. vildi ekki að Loftorka Borgarnesi ehf. notaði orðið LOFT ORKA hefði félagið átt að mótmæla vörumerkjaskráningunni. Jafnframt greinir að samkvæmt reglum stofnunarinnar og samkomulagi við vörumerkjaskrá séu firmaheiti ekki skráð eins og vörumerki ef um líka starfsemi er að ræða.

Þá greinir að málið snúist fyrst og fremst um hvort félagið eigi betri rétt á firmaheitinu Loftorka ehf. Ítrekað er að aldrei hefði átt að synja LOB ehf. um skráningu firmaheitisins Loftorka ehf. þar sem orðið var þá þegar í firmaheiti Loftorku Borgarnesi ehf., gjaldþrota félags sem LOB ehf. hafði keypt öll réttindi af auk þess sem félagið átti skráð vörumerkið en vörumerkjaskráning veitir mjög víðtækan rétt. Fram kemur að við kaup LOB ehf. á öllum efnislegum og óefnislegum eignum Loftorku Borgarnesi ehf. hafi félagið eignast þá miklu sögu er tengist orðinu loftorka ásamt öllum réttindum tengd því orði. Þá greinir í umsögninni að Loftorka í Borgarnesi ehf. var og er rétthafi vörumerkisins LOFT ORKA og lénsins loftorka.is frá dagsetningu kaupsamningsins.

Varðandi rétt fyrirtækjaskrár til endurupptöku á nafnabreytingu vísar stofnunin til eyðublaðs sem hefur að geyma tilkynningu um nafnabreytingu firmaheita. Á eyðublaðinu komi fram að nafn félags sé skráð með fyrirvara um að það brjóti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins. Þá hafi ófullnægjandi upplýsingar legið til grundvallar þeirri ákvörðun fyrirtækjaskrár að heimila nafnabreytingu Loftorku Reykjavíkur ehf. yfir í Loftorka ehf.

Umsögn forsvarsaðila Loftorku Reykjavík ehf., dags. 28. júlí 2011

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 14. júní 2011, var forsvarsaðilum Loftorku ehf. gefinn kostur á að koma að athugasemdum til ráðuneytisins vegna umsagnar fyrirtækjaskrár. Athugasemdir Loftorku ehf. bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. júlí 2011.

Í umsögninni er ekki fallist á það með fyrirtækjaskrá að Loftorka í Borgarnesi ehf. eigi betri rétt til nafnsins. Því er haldið fram að Loftorka í Borgarnesi ehf. hafi skráð sig fyrir vörumerkinu og léninu þegar ljóst var að deilur myndu rísa um nafnið. Þá kemur fram það mat að fyrirtækjaskrá hafi verið óheimilt að endurupptaka ákvörðun með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ófullnægjandi upplýsingar hafi ekki legið til grundvallar þeirri ákvörðun skrárinnar að heimila nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorku ehf. Því er haldið fram að fyrirtækjaskrá hafi verið kunnugt um alla málavexti þegar ákvarðað var að heimila nafnabreytinguna.

Umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 12. september 2011

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. ágúst 2011, var fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir forsvarsaðila Loftorku ehf. Þá var þess farið á leit við fyrirtækjaskrá að lagður yrði fram kaupsamningur LOB ehf. og þrotabús Loftorku Borgarnesi ehf. Athugasemdir fyrirtækjaskrár og umbeðinn kaupsamningur barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 12. september 2011.

Í umsögn fyrirtækjaskrár er þeirri fullyrðingu Loftorku ehf. hafnað að skránni hafi verið kunnugt um allar staðreyndir málsins þegar ákvörðun sem heimilaði breytingu á firmaheiti var tekin. Fyrirtækjaskrá hafi ekki verið kunnugt um tilvist vörumerkisins LOFT ORKA í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu og að handvömm starfsmanna fyrirtækjaskrár geti ekki orðið til þess að annar aðili eignist betri rétt til firmaheitis.

Fram kemur að ef fyrirtækjaskrá hefði verið kunnugt um að vörumerkið LOFT ORKA væri skráð hjá Einkaleyfastofu hefði skráin hafnað Loftorku Reykjavíkur ehf. um skráningu á firmaheitinu Loftorka ehf. þar sem það bryti gegn vörumerkjarétti eiganda vörumerkisins. Ekki hefði skipt máli hvort eigandi þess vörumerkis var Loftorka í Borgarnesi ehf. eða Loftorka Borgarnesi ehf., sem úrskurðað var gjaldþrota hinn 27. júní 2009.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hvort fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að endurupptaka ákvörðun sína um að heimila nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorku ehf. vegna betri réttar Loftorku í Borgarnesi ehf. til nafnsins. Í stjórnsýslukærunni er því m.a. haldið fram að endurupptaka málsins hafi verið óheimil þar sem skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fullnægt.

Ákvæði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga heimilar stjórnvaldi að endurupptaka mál ef aðilar máls fara fram á það. Þá eru stjórnvöld almennt talin hafa nokkuð víðtækari heimild til að endurupptaka mál en aðilar máls að fá mál sín endurupptekin. Við skýringu ákvæðisins skal hafa hliðsjón af meginsjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um hver geti átt aðild að máli en almennt er litið svo á að ef viðkomandi aðili á einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlaun máls geti hann átt aðild að því. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna á aðili rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Skilyrði er að um sé að ræða upplýsingar sem hefðu haft þýðingu við ákvörðun málsins.

Þegar einkahlutafélagi er valið nafn ber fyrst og fremst að fara eftir ákvæðum laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en jafnframt sé höfð hliðsjón af lögum nr. 45/1997, um vörumerki, sérstaklega 4. gr. laganna sem og 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Markmiðið með ákvæðum um firmanöfn er að tryggja að viðskiptamaður félags geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firma sínu með erfiði sínu og fjármunum, auk þess sem firmanafn getur verið trygging almennings fyrir þeim afurðum sem firmað býður fram. Í 10. gr. laga nr. 42/1903 kemur fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis en meginreglan er sú að teljist heitið almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi hann aðgreini sitt firmanafn frá því sem þegar kann að vera til skráð með því heiti. Einnig er það regla að sé firmaheiti tengt við örnefni eða ákveðið staðarheiti er ekki unnt að banna öðrum að tengja það heiti við atvinnustarfsemi sína, svo framarlega sem þeir aðgreini með einhverjum hætti sitt firmaheiti. Sé heiti til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra er um lögverndað heiti að ræða sem óheimilt er að nota án leyfis skráðs rétthafa.

Í 3. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, kemur fram að vörumerkjaréttur stofnist hvort tveggja með skráningu vörumerkis eða með notkun vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu. Fyrirtækjaskrá hefur markvisst hliðsjón af vörumerkjaskrá áður en kveðið er á um hvort tiltekið nafn á félagi sé laust til skráningar í fyrirtækjaskrá. Vörumerkjaskrá greinist í marga þjónustu- og vöruflokka og getur sama vörumerkið verið skráð á mismunandi eigendur eftir flokkum. Fyrirtækjaskrá er aftur á móti ein skrá og sama firmaheitið aðeins skráð einu sinni í skránna.

Með kaupsamningi LOB ehf. og þrotabús Loftorku Borgarnesi ehf. frá 7. ágúst 2009, framseldi þrotabúið allar efnislegar eignir og óefnislegar eignir, s.s. vörumerki, firmaheiti og lén, til LOB ehf., nú Loftorka í Borgarnesi ehf. Í því felst að við undirritun kaupsamningsins varð LOB ehf. eigandi að m.a. firmaheitinu Loftorka Borgarnesi ehf., vörumerkinu LOFT ORKA og léninu loftorka.is. Það er mat ráðuneytisins að ekki hafi þurft samþykkis Loftorku Reykjavík ehf. við nafnabreytingu LOB ehf. yfir í Loftorka í Borgarnesi ehf.

Þegar fyrirtækjaskrá heimilaði nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorka ehf. var vörumerkið LOFT ORKA þegar skráð í vörumerkjaskrá en fyrirtækjaskrá hafði yfirsést það. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að ófullnægjandi upplýsingar hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun fyrirtækjaskrár að heimila nafnabreytingu Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorku ehf.

Þegar félag hefur fengið skráð vörumerki hefur það einkarétt á því merki. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, er bannað að nota auðkenni á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti. Við mat á því hvort notkunin sé til þess fallin að hafa í för með sér hættu á ruglingi við annað einkenni verður að líta til þess hvort aðilar starfi á sama markaði og hvort þeir beini vöru eða þjónustu að sama markhópi. Þegar litið er til vöruflokkunar vörumerkisins LOFT ORKA í vörumerkjaskrá er um að ræða flokkun í sjö vöruflokka. Þar má nefna flokka sem taka til efna sem notuð eru í iðnaði, til ódýrra málma og blanda úr þeim sem og byggingarefna úr málmi o.fl., til byggingarefna öðrum en málmi sem og asfalt, bik og malbik o.fl., til byggingarstarfsemi sem og uppsetningar og lagnaþjónustu o.fl. auk annarra flokka. Í vottorði fyrirtækjaskrár greinir að tilgangur Loftorku ehf. sé að reka verktakastarfsemi, rekstur og leiga vinnuvéla og annar skyldur rekstur, svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Ísat flokkun er vegagerð.

Þá greinir í kæru Loftorku ehf. að verði félaginu gert að hætta að nota nafnið Loftorka ehf. muni það valda félaginu verulegum álitshnekki þar sem breytingar á firmanöfnum nú á tímum kunni að benda til þess að eitthvað verulegt sé að í rekstri félagsins. Þá kemur og fram að tjón félagsins geti orðið gífurlegt verði firmaheitið Loftorka ehf. afmáð úr fyrirtækjaskrá, án þess að tilgreint sé nánar í hverju það tjón muni felast. Ráðuneytið fellst ekki á þessa málsástæðu kæranda og bendir á að Loftorka Reykjavík ehf. óskaði eftir nafnabreytingu 21. maí 2010, eftir að hafa borið það firmaheiti í fjölda ára þrátt fyrir það árferði sem fyrirtæki búa við, að þess eigin sögn, og það þrátt fyrir langa, góða og óslitna viðskiptasögu félagsins, líkt og greinir í kærunni. Þá fellst ráðuneytið ekki á þá málsástæðu kæranda að mikil ruglingshætta hafi skapast á milli félaganna sem bæði bera firmaheitið Loftorka og að það sé afleitt fyrir kæranda að vera tengt við gjaldþrota félag. Í því sambandi lítur ráðuneytið m.a. til þess að um áratuga bil voru starfandi á markaði fyrirtækin Loftorka Reykjavík ehf. og Loftorka Borgarnesi ehf.

Jafnframt er rétt að benda á að í tilkynningu til fyrirtækjaskrár um breytingu á firmaheiti féllst stjórn Loftorku Reykjavík ehf. á með undirskrift sinni að firmaheitið Loftorka ehf. væri skráð með fyrirvara um að það bryti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins. Ennfremur greinir þar að stjórnarmenn skuldbindi sig til að hlutast til um nafnabreytingu, komi í ljós við nánari athugun að nafn félagsins fái ekki samrýmst betri rétti annarra. Þá áskilur hlutafélagaskrá sér rétt til að taka nafn af skrá ef svo er og stjórnarmenn skirrast við að láta breyta nafni að kröfu skrárinnar. Það er mat ráðuneytisins að um heimild fyrirtækjaskrár til endurupptöku á skráningu á firmaheiti verði að líta til þess fyrirvara sem aðilar rituðu undir á tilkynningu um nafnabreytingu.

Með vísan til þess að Loftorka í Borgarnesi ehf. á skráð vörumerkið LOFT ORKA, að líkindi séu með tilgangi Loftorku ehf. og vöruflokkun vörumerkisins LOFT ORKA og að teknu tilliti til fyrirvara sem stjórn kæranda ritaði undir þegar tilkynnt var breyting á nafni Loftorku Reykjavík ehf. yfir í Loftorka ehf., er það mat ráðuneytisins að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að endurupptaka ákvörðun sína á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ófullnægjandi upplýsingar lágu til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar.

Með vísan til framanritaðs staðfestir ráðuneytið þá ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að skráning firmaheitisins Loftorka gangi gegn betri rétti félagsins Loftorka í Borgarnesi ehf. til nafnsins.

Úrskurðarorð

Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 1. apríl 2011, um að skráning firmaheitisins Loftorka gangi gegn betri rétti félagsins Loftorka í Borgarnesi, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta