Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá ekki firmaheitið Zahira ehf.

Reykjavík 4. maí 2011

Tilv.: FJR10090032/120

Efni: Stjórnsýsluúrskurður vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá ekki firmaheitið Zahira ehf.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Zaria ehf., dags. 6. september 2010, þar sem kærð er ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 23. júlí 2010, um að afskrá ekki firmaheitið Zahira ehf. úr fyrirtækjaskrá. Þess er krafist að ríkisskattstjóra verði gert að afskrá firmaheitið Zahira ehf.

Málavextir

Hinn 8. júní 2010 var skráð í fyrirtækjaskrá einkahlutfélagið Zahira ehf. Ríkisskattstjóri móttók hinn 22. júní 2010 formlega kvörtun frá framkvæmdastjóra Zaria ehf. vegna hættu á nafnarugli þessara tveggja einkahlutafélaga en Zaria ehf. var skráð í fyrirtækjaskrá í ágúst 2009. Í kvörtuninni kom fram að félög þessi væru bæði með starfstöðvar í Kringlunni  1, 103 Reykjavík, starfi í sama iðnaði og væru með sömu ÍSAT flokkun (innsk. heildverslun með ilmvötn og snyrtivörur). Með ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 23. júlí 2010, var ekki fallist á að með skráningu einkahlutafélagsins Zahira ehf. í fyrirtækjaskrá hafi verið brotið gegn betri rétti forsvarsaðila Zaria ehf.

Með bréfi, dags. 15. október 2010, óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um stjórnsýslukæru Zaria ehf. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 11. janúar sl.

Málsástæður og lagarök

Í kæru Zaria ehf. kemur fram að skráning á firmaheitinu Zahira ehf. í fyrirtækjaskrá geti valdið hættu á ruglingi á markaði og á meðal viðskiptavina enda séu félögin Zaria ehf. og Zahira ehf. í sama iðnaði og með starfstöðvar í sama húsnæði. Þá er vikið að rétti kæranda til að halda nafninu Zaria ehf. án hættu á ruglingi við annað félag í sama iðnaði þar sem einkahlutafélagið Zaria ehf. hafi verið stofnað í ágúst 2009.

Í ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 23. júlí 2010 segir að þegar einkahlutafélagi sé valið nafn beri fyrst og fremst að fara eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, laga um vörumerki nr. 45/1997, sérstaklega 4. gr. laganna, og 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Fram kemur að lögverndun firmaheitis hafi mikla þýðingu fyrir eiganda þess til að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firma sínu. Vísað er til þess að í 10. gr.  laga nr. 42/1903 komi fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis né stæla skrásett firma, sem hefur sama nafn. Þá segir að við úrlausn á því hvað teljist nafn annars manns sem ekki má nota án hans leyfis sé meginreglan sú að teljist heitið vera almennt sé ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi hann aðgreini sitt firmanafn frá því firmanafni sem þegar kann að vera til skráð. Sé firmanafn aftur á móti til þess fallið að greina vöru og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annars aðila sé um lögverndað heiti að ræða sem öðrum aðilum sé ekki heimilt að nota án leyfis skráðs rétthafa.

Vísað er til að í 3. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, komi fram að vörumerkjaréttur stofnist hvorutveggja með skráningu vörumerkis eða með notkun vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu. Fyrirtækjaskrá hafi markvisst hliðsjón af vörumerkjaskrá áður en kveðið sé upp úr um það hvort tiltekið nafn á félagi sé laust til skráningar í fyrirtækjaskrá. Fram kemur að það sé meginregla í auðkennarétti að eigandi auðkennis njóti eingöngu verndar ef notkun hans á auðkenninu taki til svipaðrar vöru eða þjónustu. Þar sem vörumerkjaskrá greinist í marga þjónustu- og vöruflokka geti sama vörumerkið hins vegar verið skráð á mismunandi eigendur eftir flokkum. Fyrirtækjaskrá sé aftur á móti ein skrá og sama firmaheitið aðeins skráð einu sinni í skránna.

Í ákvörðuninni er fallist á það að heiti félaganna Zaria ehf. og Zahira ehf. séu lík. Aftur á móti sé ekki um sömu heitin að ræða og að það sé mat fyrirtækjaskrár að nöfnin valdi ekki ruglingi út á við í atvinnulífinu. Tilgreint er að í fyrirtækjaskrá séu 12 einkahlutafélög sem bera heiti sem hefjast á bókstöfunum Za og að hjá Einkaleyfastofu séu 101 skráð vörumerki sem hefjast á bókstöfunum Za. Bent er á að mörg þessara heita endi jafnframt á bókstafnum A. Því megi vera ljóst að heiti félaga og vörumerkja sem hefjast á bókstöfunum Za séu nokkuð algeng.

Þá er því hafnað að bæði félögin séu með starfstöðvar í Kringlunni 1, 103 Reykjavík. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskár sé Zaria ehf. með skráð lögheimili og póstfang að Þingási 61, 110 Reykjavík og telst félagið vera með starfstöð þar. Hins vegar sé Zahira ehf. með skráð lögheimili og póstfang að Kringlunni 1, 103 Reykjavík samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár. Þá sé tilgangur félaganna ekki hinn sami samkvæmt samþykktum félaganna þrátt fyrir að ÍSAT flokkun sé hin sama. Fram kemur að við mat á því hvort skráning á fyrirtækjaheiti brjóti gegn betri rétti annarra til firmaheitis sé tekið mið af framangreindum atriðum.

Það var því mat fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra með vísan til 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, að með skráningu firmaheitisins Zahira ehf. hafi ekki verið brotið gegn betri rétti Zaria ehf. Því til rökstuðnings var vísað til þess í ákvörðuninni að félögin bæru ekki sama heiti, væru ekki með lögheimili eða póstfang á sama stað og að tilgangur þeirra væri ekki hinn sami þrátt fyrir að þau stundi svipaða starfsemi samkvæmt skráðri ÍSAT flokkun.

Í umsögn fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra frá 11. janúar sl., sem móttekin var hjá ráðuneytinu hinn 12. janúar sl. í kjölfar kæru Zaria ehf., er vísað til þess að það sé vandasamt verk að úrskurða um það hvort nöfn á félögum teljist of lík eða ekki. Bent er á að þegar um er að ræða almenn heiti sem eru að finna í íslenskri orðabók sé almennt auðvelt að sjá hvenær um er að ræða önnur orð eða annað form á orði. Fram kemur að þegar nöfn hætta að vera almenn heiti og verða sértæk, erlend, eru skammstafanir eða fela í sér stafi eins og C og Z kunni að vera erfitt að meta hvenær nöfn teljast vera of lík eða ekki. Þá sé mikilvægt að skoða hljómburð orða sem og rithátt þeirra, hver tilgangur félaga sé og staðsetningu starfstöðvar. Fram kemur að telja megi að félagið Zaria ehf. sé borið fram sar-ia en félagið Zahira ehf. sé borið fram sa-hira. Það er mat fyrirtækjaskrár að augljós hljómfræðilegur munur sé á heiti félaganna auk þess sem ritháttur þeirra sé ólíkur. Fyrirtækjaskrá bendir á að heiti fjölmargra fyrirtækja hefjast á sömu upphafsstöfum og heiti félaganna Zaria ehf og Zahira ehf. og nefnir í því sambandi heiti félaganna Zalza ehf., Zafran ehf., Zaphyr ehf., Zatín sf. og Zano ehf. Það er mat fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að þegar öll framangreind atriði eru virt saman sé augljós greinarmunur á félagaheitunum Zaria ehf. og Zahira ehf.

Niðurstaða

Við mat á því hvort skráning firmaheitisins Zahira ehf. brjóti gegn betri rétti Zaria ehf. vísar fyrirtækjaskrá til laga nr. 42/1903, um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, laga nr. 45/1997, um vörumerki og laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Ráðuneytið tekur undir að líta beri til þessara laga og þeirra markmiða sem ákvæði um firmanöfn eiga að tryggja. Ákvæðin eru m.a. sett til að veita eiganda firmaheitis vernd vegna viðskiptavildar en einnig til hagsbóta fyrir viðskiptavini þar sem mikilvægt er að augljóst sé fyrir viðskiptavini við hvaða fyrirtæki þeir eigi viðskipti.

Firmaheitið Zaria ehf. var skráð í fyrirtækjaskrá í ágúst 2009 en firmaheiti Zahira ehf. í júlí 2010. Bæði fyrirtækin hafa því rétt til auðkenna sinna skv. lögum nr. 57/2005. Ákvæði 15. gr. a. laganna er aðallega ætlað að koma í veg fyrir að viðskiptavinir rugli saman fyrirtækjum en það kann að gerast þegar tvö eða fleiri fyrirtæki, sem starfa á sama sviði, nota sama eða lík auðkenni. Ef um slíkt er að ræða felst hætta í því að viðskiptavinir átti sig ekki á því við hvaða fyrirtæki þeir skipta og að eitt fyrirtæki verði þannig hugsanlega fyrir tjóni með því að annað fyrirtæki nýti sér ýmist orðspor eða markaðsstarf þess fyrirtækis sem betri rétt á til viðkomandi auðkennis.

Við mat á því hvort hætta á ruglingi sé fyrir hendi er annars vegar litið til hversu lík firmaheitin eru og hins vegar starfsemi fyrirtækjanna og þess hvort þau séu keppinautar. Gera má ráð fyrir að eftir því sem starfsemin er skyldari séu minni kröfur gerðar til hljóð- og sjónlíkingar firmaheita.

Varðandi hljóð- og sjónlíkingu fellst ráðuneytið á það með fyrirtækjaskrá að þrátt fyrir að firmanöfn þau sem hér um ræðir séu áþekk er framburður á heitum þeirra sem og ritháttur þeirra það frábrugðinn að ekki verði um villst fyrir viðskiptavini við hvort fyrirtækið viðskipti eigi sér stað.

Við mat á því hvort hætta sé á ruglingi milli umræddra tveggja firmaheita lítur ráðuneytið til þess hvort fyrirtækin starfi á sama markaði og hvort þau beina vöru eða þjónustu að sama markhópi. Ef litið er til tilgangs félaganna í framlögðu vottorðum úr fyrirtækjaskrá kemur fram að tilgangur Zaria ehf. sé smásala og heildsala en tilgangur Zahira ehf. er rekstur heildverslunar, inn- og útflutningur svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Tilgangur félaganna er því ekki hinn sami þrátt fyrir að að ÍSAT flokkun þeirra sé hin sama. Þá kemur fram á heimasíðu Zaria ehf. að félagið sé umboðsaðili Stop-Age tækja og Pose tækja á Íslandi en á heimasíðu Zahira ehf. segir að félagið sé heildverslun með snyrtivörur og ber heimasíðan með sér að um sé að ræða húð-, förðunar- og naglavörur. Að framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að fyrirtækin bjóði upp á ólíka söluvöru og markhópar þeirra þ.a.l. ekki hinir sömu. Því er ekki talin hætta á að viðskiptivinir geti villst á við hvaða fyrirtæki viðskipti eigi sér stað. Þá er í gögnum málsins aukinheldur ekkert sem bendir til þess að notkun Zahira ehf. á firmanafni sínu hafi leitt til þess að viðskiptavinir Zaria ehf. hafi leitað til Zahira ehf. Jafnframt er skráð lögheimili og póstfang félaganna Zaria ehf. og Zahira ehf. ekki hið sama.

Með vísan til framanritaðs staðfestir ráðuneytið þá ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að firmanafnið Zahira ehf. brjóti ekki í bága við lögverndaðan rétt eigenda firmanafnsins Zaria ehf.

Úrskurðarorð

Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að skráning firmaheitisins Zahira ehf. gangi ekki gegn betri rétti firmans Zaria ehf. er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta