Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Kæra vegna synjunar ríkisskattstjóra

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 5. júlí 2013
Tilv.: FJR13060181/16.2.1


Efni: Kæra vegna synjunar ríkisskattstjóra dags. 12. febrúar 2013.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 13. júní 2013 þar sem kærð er til ráðuneytisins synjun ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 2013. Í synjun ríkisskattstjóra var beiðni yðar um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra dags. 15. nóvember 2012 hafnað.

Málavextir og málsástæður

Í kæru yðar óskið þér eftir að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð þar sem þér viljið ekki una synjun ríkisskattstjóra á því að taka upp álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012. Málvextir eru þeir að með bréfi dags. 21. september 2012 fóruð þér fram á það við ríkisskattstjóra að álagning opinberra gjalda árin 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2010 og 2011 yrðu endurupptekin. Kröfu yðar til stuðnings vísuðuð þér til eigin útreiknings á opinberum gjöldum þar sem eftirlaun þín frá Noregi voru ekki tekin með í útreikninginn. Með úrskurði dags. 15. nóvember 2012 synjaði ríkisskattstjóri erindi yðar með þeim rökstuðningi að skattaleg meðferð umrædds lífeyris frá Noregi hefði verið í samræmi við gildandi lög og þann tvísköttunarsamning sem í gildi er á milli Norðurlandanna. Með bréfi dagsettu 20. nóvember 2012 fóruð þér fram á endurupptöku á fyrrgreindum úrskurði ríkisskattstjóra með þeim rökum að samkvæmt 1. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlandanna skuli lífeyrir eingöngu skattlagður í upprunaríki lífeyrisins. Endurupptökubeiðninni var synjað í bréfi ríkisskattstjóra dags. 12. febrúar 2013 á þeirri forsendu að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu sem breytt gæti álagningu opinberra gjalda þau gjaldár sem um ræðir. Þann 20. febrúar 2013 senduð þér kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna fyrrgreindra ákvarðana ríkisskattstjóra og umboðsmaður Alþingis bendir á í svari sínu dags. þann 19. apríl 2013 að ekki sé rétt að hann fjalli um úrskurð ríkisskattstjóra frá 15. nóvember 2012 og höfnun embættisins frá 12. febrúar 2013 fyrr en þau hafi hlotið afgreiðslu fjármálaráðherra og afstaða hans liggi fyrir.

Með bréfi, dags. 19. júní 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra vegna kvörtunar yðar. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 2013, kemur fram að vegna tilvísunar yðar til 1. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamningsins milli Norðurlandanna sem þér birtuð orðrétt í bréfi yðar:
„Eftirlaun og lífeyrir, sem greiddur er frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almmatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki; skal einungis skattleggja í fyrrnefnda ríkinu.“

Ríkisskattstjóri vill benda á að þann 17. desember 2008 var birt í Stjórnartíðindum auglýsing nr. 9 um breytingu á tvísköttunarsamningi milli Norðurlandanna. Samkvæmt V. gr. í bókun um breytingu á fyrrgreindum samningi sem undirrituð var í Helsinki þann 4. apríl 2008, var 1. mgr. 18. gr. samningsins breytt þannig að orðin „má skattleggja“ koma í stað orðanna „skal einungis skattleggja“. Bókunin tók gildi 29. desember 2008 og skv. 2. mgr. XIII. gr. bókunarinnar tók umrædd breyting því gildi frá og með tekjuárinu 2009. Samkvæmt framangreindu þá er ákvæði 1 .mgr. 18. gr. tvísköttunarsamningsins milli Norðurlandanna svohljóðandi vegna tekjuársins 2009 og síðar:
„Eftirlaun og lífeyrir, sem greiddur er frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki; má skattleggja (feitl. hér) í fyrrnefnda ríkinu.“

Í umsögn ríkisskattstjóra segir jafnframt að það leiði af ákvæðum samningsins að Ísland á að beita ákvæðum a-liðar 4. mgr. 25. gr. samningsins til að koma í veg fyrir tvísköttun. Umrætt ákvæði hefur ekki tekið neinum breytingum frá árinu 1997 og er svohljóðandi:
„Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem einungis skal eða má skattleggja (feitl. hér) samkvæmt ákvæðum þessa samnings í öðru samningsríki skal Ísland, nema ákvæði b-liðar leiði til annars, lækka íslenska tekju- eða eignarskattinn með því að draga frá þann hluta tekju- eða eignarskattsins sem reiknaður er af þeim tekjum sem aflað er eða eign sem er í hinu ríkinu.“
Það sé því mat ríkisskattstjóra að í synjun ríkisskattstjóra dags. 12. febrúar 2013 séu forsendur álagningar opinberrra gjalda gjaldárin 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2010 og 2011 útskýrðar með nákvæmum hætti. Þeir útreikningar eru í samræmi við a-lið 4. mgr. 25. gr tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna og verður því ekki annað séð en að álagning umrædd gjaldár sé með réttum hætti og í samræmi við úrskurði yfirskattanefndar um þetta úrlausnarefni.

Forsendur og niðurstaða
Óumdeilt er að þér berið ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi frá 29. janúar 2010 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en í því felst að skylt er að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað. Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Ísland er ásamt Noregi aðili að samningi milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir frá árinu 1997 sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda og bókun um breytingu á fyrrgreindum samningi frá árinu 2008 sbr. auglýsingu nr. 9/2008 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samningsins eins og hún hljóðar eftir breytinguna frá árinu 2008, má skattleggja eftirlaun og lífeyrir, sem greidd eru frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki, í fyrrnefnda ríkinu. Í 25. gr. fyrrnefnds samnings er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hverju samningslandanna fyrir sig og er 4. mgr. greinarinnar sem varðar Ísland sérstaklega svohljóðandi;
„a) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem einungis skal eða má skattleggja (feitl. hér) samkvæmt ákæðum þessa samnings í öðru samningsríki skal Ísland, nema ákvæði b-liðar leiði til annars, lækka íslenska tekju- eða eignarskattinn með því að draga frá þann hluta tekju- eða eignarskattsins sem reiknaður er af þeim tekjum sem aflað er eða eign sem er í hinu ríkinu.
b) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja má í öðru samningsríki samkvæmt 10. gr., 7. mgr. 13. gr., 3.mgr. 15. gr. 16. gr. eða 1.-6. mgr., c-lið 7. mgr. og 8.-9. mgr. 21. gr. skal Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti þessa aðila fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur er í hinu samningsríkinu. Frádráttarfjárhæðin skal hins vegar ekki vera hærri en sá hluti íslenska skattsins, reiknaður fyrir slíkan frádrátt, sem lagður er á þær tekjur sem skattleggja má í hinu ríkinu.“
Það leiðir af framangreindu að fara ber eftir ákvæðum a-liðar um aðferð til að komast hjá tvísköttun vegna umræddra tekna yðar frá Noregi. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að skattaleg meðferð tekna yðar frá Noregi hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði tvísköttunarsamnings Norðurlandanna og að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að hafna beiðni yðar um endurupptöku sem tilefnislausri.

Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 2013, um að hafna beiðni yðar um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta