Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Kæra á ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um þóknun verjanda

 

Skattar og ráðgjöf ehf
Pétur Steinn Guðmundsson, hdl.
Lágmúla 7
108 Reykjavík


Reykjavík 4. júlí 2012
Tilv.: FJR12020076/16.2.0

 

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi úrskurð:

 

 

Efni: Kæra á ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um þóknun verjanda í máli 2011/01/0020, tilvísun TE/sf/11/2517, dags 07.12.2011.

Ráðuneytinu hefur borist kæra Péturs Steins Guðmundssonar, hdl., verjanda […], dags. 9. febrúar 2012, þar sem kærð er ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um þóknun verjanda.

Málavextir
Málavextir eru þeir að skattrannsóknarstjóri ríkisins tók til rannsóknar skil á afdreginni staðgreiðslu í rekstri fyrirtækisins […]., vegna rekstraráranna 2008 og 2009 og voru niðurstöður þeirrar rannsóknar teknar saman í skýrslu, dags. 10. maí 2011. Var það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að vanrækt hefði verið fyrir hönd skattaðila að standa að fullu skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna rekstraráranna 2008 og 2009. Vegna ætlaðra brota sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi í ljós þótti ekki efni til að hlutast til um sektarkröfu á hendur […] og var honum tilkynnt það með bréfi, dags. 15. september 2011.

Skattrannsóknarstjóra ríkisins barst tímaskýrsla kæranda vegna verjandastarfa hans í málinu og var tímafjöldi samkvæmt skýrslunni 11,75, akstur 47 eða samtals 266.863 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvarðaði kæranda þóknun fyrir verjandastörf sem þótti hæfilega ákveðin 81.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti sem sundurliðaðist með eftirfarandi hætti:

Verkþættirnir undirbúningsfundur vegna skýrslutöku, dags. 25. febrúar 2011 og skýrslutaka, dags. 2. mars 2011 voru hæfilega metnir 3 klst. 30.000 kr. Ekki var fallist á greiðslu á útlögðum kostnaði samtals 4.785 kr. Verkþættirnir lestur skýrslu frá SRS vegna andmæla, samtal við […] vegna andmælabréfs og andmæli, dags. 15. apríl 2011 til 28. apríl 2011, 3,5 klst. reiknuðust samtals 35.000 kr. Ekki var fallist á verkþætti frá 19. maí 2011 til 6. október 2011, þar sem þeir verkþættir áttu sér stað eftir að rannsókn í málinu lauk og þóknun ekki verið greidd fyrir störf unnin eftir rannsóknarlok.

Þann 1. nóvember 2011 sendi kærandi Skattrannsóknarstjóra ríkisins bréf þar sem fram kemur að á engan hátt hafi verið tekið tillit til þeirrar vinnu sem unnin var fyrir skjólstæðing kæranda. Frá fyrsta degi hafi verið ljóst að enginn grundvöllur var fyrir rannsókn á þátttöku skjólstæðings kæranda af hálfu embættisins. Þrátt fyrir það hafi skjólstæðingur kæranda fengið stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi vísað til þess að rannsókn hafi lokið þann 10. maí 2011 og eftir þann tíma eigi skjólstæðingur kæranda ekki rétt á aðstoð lögmanns til andmæla. Þetta sé afar sérkennileg túlkun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að starfi verjanda ljúki áður en rannsókn sé felld niður. Andmælabréf hafi borist embættinu með netpósti þann 9. júní 2011. Eftir það hafi ekkert heyrst af málinu fyrr en skjólstæðingur kæranda fékk bréf dags. 15. september 2011 með tilkynningu um að málið hafi verið fellt niður gagnvart honum. Kærandi hafi ekki enn fengið sent bréf um niðurfellingu málsins. Ljóst sé að undirritaður var enn verjandi […] vegna rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins til a.m.k. 15. september 2011. Vegna þessa fór kærandi fram á að skattrannsóknarstjóri ríkisins tæki nýja ákvörðun um þóknun sem innifæli þá vinnu sem sannanlega var unnin fyrir skjólstæðing kæranda vegna rannsóknar embættisins. Skattrannsóknarstjóri ríkisins varð ekki við beiðni kæranda um nýja ákvörðun um verjandaþóknun og vísaði til þess að ekki væri séð að lagaheimild stæði til þess.

Þann 9. febrúar 2012 barst fjármálaráðuneytinu kæra, þar sem kærð var ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um þóknun verjanda. Gerð er sú krafa að þóknun til verjanda verði í samræmi við vinnuframlag eða samtals 11,75 tímar en skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi aðeins séð ástæðu til greiðslu á 6,5 tímum. Með kærunni fylgdi skýrsla um sundurliðað vinnuframlag.

Í kærunni segir m.a. að ákvörðun skattrannsóknarstjóra taki á engan hátt tillit til þeirrar vinnu sem nauðsynleg var til að gæta hagsmuna skjólstæðings kæranda vegna rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Frá fyrsta degi rannsóknar hafi verið ljóst að enginn grundvöllur hafi verið fyrir rannsókninni. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi vísað til þess í bréfi að rannsókn hafi lokið þann 10. maí 2011 og eftir þann tíma hafi skjólstæðingur kæranda ekki átt rétt á aðstoð lögmanns til andmæla. Ekki sé að finna upplýsingar um að málinu sé lokið eða það fellt niður í bréfi dags. 10. maí 2011. Þar sé þvert á móti í tvígang fjallað um að skjólstæðingur kæranda kunni að hafa skapað sér refsiábyrgð.

Þá víkur kærandi að því að um tilnefningu verjenda í sakamálum vinni skattrannsóknarstjóri ríkisins eftir lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekki sé ágreiningur í málinu um að skjólstæðingi kæranda hafi verið tilnefndur verjandi, en í 30. gr. laganna sé tæmandi fjallað um hvenær tilnefning fellur niður. Það sé þegar sakborningur sé látinn laus eða leiddur fyrir dómara skv. 94. gr., með úrskurði dómara, þegar mál sé höfðað, þegar rannsókn sé hætt og þegar mál sé fellt niður. Sú skilgreining skattrannsóknarstjóra að tilnefning falli niður þegar rannsókn er lokið, áður en ákvörðun um framhald máls er tekin, hafi því enga lagastoð. Það sé afar sérkennileg túlkun skattrannsóknarstjóra ríkisins að starfi verjanda ljúki áður en rannsókn er felld niður. Á meðan skjólstæðingur hafi stöðu grunaðs manns beri honum að hafa verjanda sér við hlið. Skattrannsóknarstjóra ríkisins beri vegna þessa að taka fullt tillit til þeirra verjendastarfa sem unnin hafa verið í þágu skjólstæðings kæranda. Ekki sé ástættanlegt að skjólstæðingur kæranda þurfi sjálfur að bera kostnað vegna máls sem upphaflega hafi ekki verið tilefni til að rannsaka eins og sú staðreynd að málið sé fellt niður gagnvart honum sýni. Á grundvelli framangreindra þátta er gerð krafa um að skjólstæðingur kæranda fari skaðlaus frá rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins og að greiddir verði þeir tímar sem unnir voru vegna rannsóknar málsins.

Ráðuneytið óskaði þann 13. júní 2012 eftir nánari skýringum á því hvers vegna tímaskýrsla sem var meðfylgjandi kæru kæranda til fjármálaráðuneytisins væri önnur en sú sem barst embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Svar barst ráðuneytinu þann 1. júlí sl. þar sem misræmið var skýrt.

Niðurstaða
Við ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um þóknun kæranda, sbr. bréf embættisins dags. 20. október 2011 og 7. desember 2011 var fallist á greiðslu í samræmi við tímaskýrslu kæranda að því frátöldu að í fyrsta lagi var ekki fallist á tímaverð kæranda að fjárhæð 16.900 kr. án vsk. en fallist á tímaverð í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs að fjárhæð 10.000 kr. án vsk. Í öðru lagi var ekki fallist á greiðslu á útlögðum kostnaði að fjárhæð 4.785 kr. án vsk. enda höfðu engin gögn um þann kostnað verið lögð fram af hálfu kæranda. Í þriðja lagi var ekki fallist á greiðslu vegna starfa kæranda eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk. Taldi embættið að vafi léki á því hvort embættið hefði heimild til að ákvarða þóknun fyrir annað tímamark en þegar rannsókn embættisins stæði yfir, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 31. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.

Kæran snýst um það að skattrannsóknarstjóri féllst ekki á 11,75 unna tíma kæranda eftir að embættið taldi rannsókn málsins lokið, þann 10. maí 2011. Þess í stað var fallist á 6,5 tíma sem unnir voru fyrir 10. maí 2011.

Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála skal tilnefning verjanda skv. 1. mgr. laganna falla sjálfkrafa úr gildi þegar sakborningur er látinn laus eða leiddur fyrir dómara skv. 94. gr. laganna. Að öðrum kosti fellur tilnefning úr gildi með úrskurði dómara, sbr. 3. málsl. 2. mgr. laganna, þegar mál er höfðað ellegar rannsókn er hætt eða mál fellt niður með öðrum hætti.

Samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skal maður koma skaðlaus frá máli sem fellt er niður gegn honum. Því er í framangreindum kafla laganna kveðið á um skaðabætur til handa þeim einstaklingum sem beðið hafa fjártjón og miska af þar til greindum aðgerðum.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins dags. 10. maí 2011 kemur fram að rannsókn málsins sé lokið og í framhaldinu verði tekin ákvörðun um refsimeðferð. Ekkert kemur fram í umræddu bréfi um að málið sé fellt niður af hendi skattrannsóknarstjóra. Það er ekki fyrr en með bréfi dags. 15. september 2011 sem skattrannsóknarstóri ríkisins tilkynnir […] að ekki verði hlutast til um sektarkröfu á hendur honum vegna ætlaðra brota sem rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós. Með hliðsjón af framangreindu og því að kærandi gat ekki vitað hvort umbjóðandi hans yrði látinn sæta refsimeðferð eða málið fellt niður að rannsókn lokinni, fellst ráðuneytið á að greiddir verði þeir 11,75 tímar sem unnir voru á tímaverði í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs að fjárhæð 10.000 kr. án vsk. Ekki er fallist á greiðslu á útlögðum kostnaði að fjárhæð 5.100 kr. án vsk., enda hafa engin gögn um þann kostnað verið lögð fram af hálfu kæranda hvorki fyrir skattrannsóknarstjóra né fjármálaráðuneyti.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins.

Úrskurðarorð
Fallist er á þóknun verjanda vegna 11,75 tíma sem unnir voru á tímaverði í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs að fjárhæð 10.000 kr. án vsk. Ekki er fallist á greiðslu á 4 tímum vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 5.100 kr. án vsk.


Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta