Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá firmaheitið PlatonIs ehf. vegna betri réttar firmans Platon ehf.

Reykjavík 10. apríl 2008

Tilv.: FJR07120055/120

Efni: Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá firmaheitið PlatonIs ehf. vegna betri réttar firmans Platon ehf.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru yðar, dags. 19. desember 2007, þar sem kærð er ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 21. nóvember 2007, um að afskrá firmaheitið PlatonIs ehf. vegna betri réttar firmans Platon ehf.  Í stjórnsýslukæru yðar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra um að afmá firmaheiti kæranda verði ógild.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á afgreiðslu stjórnsýslukæru yðar, sem rekja má til anna í ráðuneytinu.

Málavextir

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um skráningu á nafninu Platon á Íslandi ehf. haustið 2006.  Skráningunni var synjað af fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þar sem fyrirtækið Platon ehf. var til í skránni.  Í október 2006 var PlatonIs ehf. skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og var sú skráning birt í Lögbirtingablaði 19. desember 2007.  Með símbréfi 20. apríl 2007 til fyrirtækjaskrár gerði Platon ehf. athugasemdir við skráningu firmanafnsins PlatonIs ehf. og fór þess á leit að forsvarsmönnum PlatonIs ehf. yrði gert að breyta nafninu.  Eftir að kærandi kom að athugasemdum sínum vegna skráningarinnar tók fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra ákvörðun með bréfi, dags. 21. nóvember 2007.  Niðurstaða fyrirtækjaskrár var sú að firmaheitið PlatonIs ehf. gengi gegn betri rétti firmans Platon ehf. og var krafa Platon ehf. um að afmá firmaheitið PlatonIs ehf. úr fyrirtækjaskrá tekin til greina. 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn fyrirtækjaskrár með bréfi, dags. 31. desember 2007 og barst hún ráðuneytinu með bréfi, dags. 15. janúar 2008.   

Málsástæður og lagarök

Kærandi vísar til þess í kæru sinni að í 124. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, komi fram að telji einhver rétti sínum hallað með skráningu þá geti hann borið málið undir dómstóla enda sé mál höfðað innan sex mánaða frá því að tilkynning var birt í Lögbirtingablaði.  Kærandi telur að vegna fyrirmæla laganna hafi fyrirtækjaskrá ekki haft heimild til þess að gera fyrirvara við skráningu kæranda og ógilda ákvörðun sína um að skrá PlatonIs ehf. þar sem slíkt sé á valdi dómstóla.  Ákvæðið sé skýrt um að fresturinn sé sex mánuðir og löggjafinn hefði ekki tiltekið sérstakan frest ef hann ætti ekki að hafa neina þýðingu.  Í þessu sambandi vísar kærandi til dóms Hæstaréttar nr. 136/1998.  Kærandi vísar einnig til þess að skilyrði 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu ekki fyrir hendi.  Ákvörðun fyrirtækjaskrár sé augljóslega til tjóns fyrir kæranda og upphafleg ákvörðun hafi ekki verið haldin neinum annmarka sem leiði til ógildingar. Fyrirtækjaskrá hafi því brostið vald til þess að afturkalla ákvörðun um að heimila skráningu kæranda.  Þá sé ljóst að ákvörðunin hafi ekki byggst á röngum upplýsingum né hafi atvik breyst verulega frá því að skráningin var birt og því hafi ekki verið skilyrði til að endurupptaka ákvörðunina. 

Í kærunni kemur einnig fram að þegar fjallað skuli um ruglingshættu milli tveggja auðkenna þurfi að meta hvort fyrir hendi sé merkjalíking og hvort starfsemi félaganna sé lík, svokölluð þjónustulíking.  Heitið Platon sé þekkt sem nafn gríska heimspekingsins Platon.  Slík heiti séu almennt þess eðlis að sá sem noti þau í atvinnustarfsemi verði að sæta því  að hann geti ekki öðlast einkarétt fyrir slíkum heitum.  Grunnreglur auðkennaréttar gangi út frá því að ákveðin nöfn verði að vera öllum frjáls til þess að nota.  Því sé mótmælt þeirri túlkun fyrirtækjaskrár að heitið Platon hafi slíkt sérkenni að það veiti Platon ehf. einkarétt til nafnsins sem nái einnig til starfsemi sem er ekki sambærileg meintri starfsemi Platon ehf.  Platon ehf. hafi verið skráð sem heildverslun með efnavörur en síðar lagt fram ódagsettan reikning sem átti að sýna að fyrirtækið sinnti rekstrarráðgjöf.  Ekki sé hægt að finna upplýsingar um starfsemi félagsins.  Við mat á því hvort þjónustulíking sé fyrir hendi sé gagnlegt að líta til þess hvernig farið sé með mat á vörumerkjum í þessu sambandi.  Samkvæmt fylgiskjali með auglýsingu nr. 100/2007, um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja, sé ljóst að meint starfsemi Platon ehf. myndi að öllum líkindum falla í flokk 35 eða rekstur og stjórnun fyrirtækja en starfsemi kæranda myndi fara undir flokk 42 eða vísinda og tækniþjónustu.  Þegar tekið sé tillit til þess að starfsemi kæranda og Platon ehf. sé ekki sambærileg þá skorti skilyrði þess að ruglingshætta sé til staðar og vísar kærandi í því sambandi til ákvörðunar Neytendastofu nr. 17/2007.   Í kærunni kemur fram að ekkert réttlæti að einum aðila sé veittur einkaréttur til að nota ákveðið firmanafn fyrir alla starfsemi og geti þar með bannað þriðja aðila að nota sambærilegt nafn á sviði sem hann hefur enga starfsemi á.  Í þessu sambandi er bent á forúrskurð Evrópudómstólsins í máli nr. C-251/95.

Í úrskurði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 21. nóvember 2007, er farið yfir 8. og 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.  Í 10. gr. laganna komi fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis.  Þá kemur fram að ákvæðin hafi verið skýrð þannig að óheimilt sé að taka vörumerki annars manns upp í firmanafn ef vörumerkið nýtur verndar samkvæmt vörumerkjalögum.  Við úrlausn á því hvað teljist nafn annars manns sem ekki megi nota án hans leyfis sé meginreglan sú að teljist heiti almennt sé ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins svo fremi sem hann aðgreini sitt firmanafn frá því sem þegar kann að vera til skráð með þessu heiti.  En sé heiti til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra þá sé um lögverndað heiti að ræða sem öðrum sé ekki heimilt að nota án leyfis skráðs rétthafa.  Í úrskurðinum kemur fram að talin sé veruleg ruglingshætta milli fyrirtækjanna þar sem kærandi hafi ekki gert ótvíræðan greinarmun á firmaheitunum PlatonIs og Platon í rekstri sínum.  Í úrskurðinum kemur ennfremur fram að Platon ehf. hafi fengið vörumerkið Platon skráð í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu og skráningin nái til flokka 35 og 42.  Kærandi hafi einnig sem sótt um skráningu á vörumerkinu Platon.  Deila á skráningu á vörumerki eigi hins vegar undir Einkaleyfastofu en ekki fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra en þar undir eigi skráning firmanafna og beri fyrst og fremst að fara eftir firmalögum nr. 42/1903 sem og lögum um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005 en reglur vörumerkjalaga nr. 45/1997 séu hafðar til hliðsjónar við mat á skráningu firmanafns.  Einnig sé horft til þeirrar starfsemi sem félögin hafa með höndum, hver sé tilgangur félaganna og líkur á því að um svipaðan viðskiptamannahóp sé að ræða.  Aðaltilgangur Platon ehf. sé ráðgjafaþjónusta en tilgangur kæranda sé ráðgjöf, rekstur upplýsingatækniþjónustu og skyld starfsemi.  Það sé því ljóst þegar af þeirri ástæðu að ruglingshætta milli félaganna sé veruleg.  Varðandi þá málsástæðu kæranda að Platon ehf. hefði þurft að bera málið undir dómstóla innan 6 mánaða frá því að tilkynning um skráningu PlatonIs ehf. var birt í Lögbirtingablaði, sbr. 6. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, kemur fram í úrskurðinum að ríkisskattstjóri telji að ákvæðið komi ekki í veg fyrir að aðilar beri slík mál undir stjórnvöld kjósi þeir svo.         

Í umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 15. janúar 2008, er vísað til þess að kæranda hafi verið fullkunnugt um það að annar aðili ætti hugsanlega betri rétt til firmaheitisins Platon og því væri það vart í anda stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárvarinn eignarétt ef eigandi Platon ehf. yrði talinn hafa glatað rétti sínum með því að tæma stjórnsýsluleiðina í stað þess að bera ágreininginn beint undir dómstóla á grundvelli 6. mgr. 148. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.  Því er einnig mótmælt að með því að heimila skráningu firmaheitisins PlatonIs ehf. hafi ríkisskattstjóri tekið endanlega ákvörðun um rétt til firmaheitisins og er í því sambandi vísað til fyrirvara sem kærandi undirritaði á tilkynningareyðublaði um stofnun félagsins.  Með því að rita undir fyrirvarann hafi forsvarsmenn kæranda samþykkt að fyrirtækjaskrá væri heimilt að taka nafnið af skrá ef þeir hlutuðust ekki sjálfir til um nafnabreytingu við þessar aðstæður.  

Rökstuðningur og niðurstaða

Kærandi vísar til 124. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem fram kemur að telji einhver rétti sínum hallað með skráningu þá geti hann borið málið undir dómstóla enda sé mál höfðað innan sex mánaða frá því að tilkynning var birt í Lögbirtingablaði.  Kærandi telur að vegna fyrirmæla laganna hafi fyrirtækjaskrá ekki haft heimild til þess að ógilda fyrri ákvörðun sína um að skrá PlatonIs ehf. í fyrirtækjaskrá.  Platon ehf. sneri sér að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra með mótmæli við skráningu PlatonIs ehf. hjá fyrirtækjaskrá enda um ágreining að ræða sem snýr að skráningu í fyrirtækjaskrá.  Í framhaldi af kvörtun Platon ehf. kvað fyrirtækjaskrá upp úrskurð sinn og var sá úrskurður kærður til ráðuneytisins.  Eins og háttar til í máli þessu þar sem stjórnvaldsákvörðun er skotið til ráðuneytis telur ráðuneytið að framangreindir málshöfðunarfrestir 124. gr. einkahlutafélagalaganna eigi ekki við vegna kærunnar. 

Í stjórnsýslukærunni er einnig vísað til þess að fyrirtækjaskrá hafi ekki verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína um skráningu á firmaheitinu PlatonIs ehf. skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   Í 25. gr. kemur fram að skilyrði þess að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sé að ákvörðunin sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðunin verði að teljast ógildanleg.  Stjórnvald getur því afturkallað ákvörðun ef í ljós kemur að ekki hafa verið nægilega ríkar ástæður til þess að taka ákvörðun sem íþyngir aðila eða ákvörðun verður að teljast ógildanleg.  Með vísan til þessa telur ráðuneytið að fyrirtækjaskrá hafi verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína skv. 25. gr. laganna þar sem við mat á því hvort ákvörðun fyrirtækjaskrár er ógildanleg verður að líta til þess fyrirvara sem kærandi skrifaði undir við skráningu nafns félagsins í fyrirtækjaskrá en fyrirvarinn er svohljóðandi:

"Framangreint nafn félagsins er skráð með þeim fyrirvara að það brjóti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins.  Undirritaðir stjórnarmenn skuldbinda sig til að hlutast til um nafnabreytingu,  komi í ljós við nánari athugun að nafn félagsins fái ekki samrýmst betri rétti annarra.  Hlutafélagaskrá áskilur sér rétt til að taka nafn af skrá ef svo er og stjórnarmenn skirrast við að láta breyta nafni að kröfu skrárinnar."    

Í stjórnsýslukærunni er ennfremur vísað til þess að aðili máls geti sjálfur óskað eftir því við stjórnvald að það endurskoði eigin ákvarðanir með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki verði séð hvernig að ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að taka málið til endurskoðunar þar sem skilyrði 24. gr. hafi ekki verið fyrir hendi.  Ríkisskattstjóri telur hins vegar að ákvæðið styðji þá skoðun að heimilt sé að endurupptaka ákvörðun um skráningu firmaheitis ef veigamiklar ástæður mæla með því og það jafnvel þó ár sé liðið frá því að ákvörðun er tekin. 

Skilyrðin fyrir endurupptöku samkvæmt ákvæðinu eru að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.  Ráðuneytið telur að fyrirtækjaskrá hafi verið heimilt að endurupptaka skráningu PlatonsIs ehf. skv. 24. gr. stjórnsýslulaganna þar sem ákvörðun um skráningu hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum.

Varðandi mat á því hvort Platon ehf. og PlatonIs ehf. séu of lík nöfn verður að horfa til þess hvort nöfnin og starfsemi félaganna geti skapað ruglingshættu.  Í úrskurði fyrirtækjaskrár kemur fram útskýring á því hvað teljist vera almennt heiti sem aðrir megi nota sem firmanafn og hvað teljist vera sértækt heiti sem veiti einkarétt á firmanafni.  Í vafatilvikum sé borið undir stofnun Árna Magnússonar hvað teljist vera almennt heiti í íslenskri tungu.  Skilgreiningaratriði þeirrar stofnunar sé að ef orðið er í uppflettiorðabók Menningarsjóðs megi með nokkurri vissu telja heitið vera almennt.  Orðið Platon sé ekki að finna í orðabók Menningarsjóðs.  Einnig kemur fram að fyrirtækjaskrá hafi tvívegis hafnað kæranda að skrá nafnið Platon á Íslandi ehf. en hafi síðar samþykkt að skrá firmaheitið PlatonIs ehf.  Síðar hafi komið í ljós að ruglingshætta skapaðist af notkun þess nafns þar sem kærandi hafi meðal annars notað bréfsefni með nafninu Platon og vefsíða fyrirtækisins hafi einnig verið með því heiti og þar með hafi kærandi ekki gert skýran greinarmun á notkun þessara nafna í starfsemi sinni.  Tilgangur Platon ehf. er samkvæmt fyrirtækjaskrá ráðgjafaþjónusta og önnur skyld starfsemi.  Tilgangur kæranda er ráðgjöf, rekstur upplýsingatækniþjónustu og skyld starfsemi.  Með vísan til þess sem að framan greinir og þess að tilgangur félaganna er svipaður og líkur eru á því að um svipaðan viðskiptamannahóp sé að ræða staðfestir ráðuneytið niðurstöðu fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að ruglingshætta sé til staðar og Platon ehf. hafi lögverndaðan einkarétt til nafnsins Platon.  Kæranda sé því ekki heimil notkun heitisins PlatonIs ehf.        

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að skráning firmaheitisins PlatonIs ehf. gangi gegn betri rétti firmans Platon ehf. og að krafa Platon ehf. um að afmá firmaheitið PlatonIs ehf. úr fyrirtækjaskrá skuli tekin til greina.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta