Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra

ADVEL lögmenn slf.
Ragnheiður Þorkelsdóttir
Suðurlandsbraut 18
108 Reykjavík

Reykjavík 13. september 2012
Tilv.: FJR12060008/16.2.3

Efni: Úrskurður vegna kæru [X], dags. 1. júní 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 1. júní 2012, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2012. Í ákvörðun tollstjóra var því hafnað að fella niður 60% krafna sem falla undir nauðasamning [X] sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2011.

Málavextir og málsástæður
Kæranda var veitt heimild til nauðasamningsumleitana með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 7. desember 2010. Nauðasamningurinn var staðfestur með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. febrúar 2011. Samkvæmt nauðasamningnum fá lánardrottnar sem fara með samningskröfur greiðslu á 40% krafna sinna eins og þær stóðu þegar héraðdsómur heimilaði nauðasamningsumleitanir þó þannig að lágmarksgreiðsla til hvers þeirra verður kr. 250.000 og kröfur til og með þeirri fjárhæð greiðast að fullu.

Kærandi sendi tollstjóra bréf, dags. 26. maí 2012, þar sem fram kemur að hann telji að virðisaukaskattur vegna tímabilsins september-október 2010 falli undir nauðasamninginn, sbr. Hæstaréttardóm nr. 320/2000. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að krafa um virðisaukaskatt væri fallin til þegar að uppgjörstímabili loknu. Einnig er vísað til dóms Hæstaréttar nr. 75/1999 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að þar sem heimild til að leita nauðasamnings hafi ekki fengist fyrr en að uppgjörstímabilinu liðnu hafi krafan verið fallin til og óheimilt hafi verið að greiða hana eftir að úrskurður um heimild nauðasamningsumleitana lá fyrir. Í bréfinu kemur fram að í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar muni félagið ekki gera kröfu til þess að virðisaukaskattur á tímabilinu frá 1. nóvember til 7. desember 2010 falli undir nauðasamning félagsins en í dóminum hafi verið talið að nauðasamningur gæti ekki haft áhrif á kröfu um virðisaukaskatt sem félli til á því uppgjörstímabili sem var ólokið við uppkvaðningu úrskurðarins.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2012, kemur fram að ekki sé unnt að verða við því að fella nður kröfur sem falli undir nauðasamninginn fyrr en samningurinn hefur verið efndur að fullu. Samkvæmt samningnum verður hann efndur með síðustu árlegu greiðslu til lánardrottna þann 14. febrúar 2016. Fram að þeim tíma sé óhjákvæmilegt að kröfurnar séu til í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Þá kemur fram að samkvæmt almennum reglum innheimtumanna ríkissjóðs sé greiðslum ráðstafað inn á elstu gjöld gjaldenda og hafi það verið gert með innkomnar greiðslur samkvæmt nauðasamningi félagsins. Þann 26. maí 2011 og 16. febrúar 2012 hafi greiðslum samtals kr. 3.827.523 verið ráðstafað inn á elstu gjöld félagsins sem voru aðflutningsgjöld í tolli (KA), tímabil 2008-51-52-53. Þegar nauðasamningur kæranda verði efndur verði felldar niður 60% þeirra krafna sem falli undir hann.

Í kæru, dags. 1. júní 2012, kemur fram að óumdeildur sé sá hluti krafna tollstjóra sem falli undir nauðasamning félagsins. Í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., segi að þegar nauðasamningur sé kominn á bindi hann lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra. Efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafi þannig sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Við endanlega staðfestingu nauðasamnings kæranda hafi komist á bindandi samingur milli félagsins og tollstjóra um uppgjör þeirra krafna sem undir nauðasamninginn falla. Bindandi samningur sé því til staðar milli kæranda og tollstjóra um niðurfellingu 60% þeirra krafna sem undir nauðasamninginn falla og auk þess samkomulag um gjaldfrest eftirstöðvanna. Ennfremur kemur fram í kærunni að eftir að endanleg staðfesting nauðasamnings hafi legið fyrir hafi embættinu borið að færa kröfurnar niður í samræmi við nauðasamning kæranda og tryggja að ekki félli frekari kostnaður á þær kröfur sem eftir stæðu. Þetta sé nauðsynlegt svo unnt sé að ráðstafa greiðslum á grundvelli nauðasamningsins með eðlilegum hætti inn á ógreidd gjöld. Óeðlilegt sé að greiðslur gangi til uppgreiðslu að fullu á ákveðnum tegundum gjalda en ekkert til niðurgreiðslu annarra þar sem 60% niðurfelling gjaldanna eigi að ganga jafnt yfir allar tegundir gjalda sem undir nauðasamninginn falla.

Samkvæmt bókhaldi kæranda nemi krafa tollstjóra, sem fellur undir nauðasamning félagsins, kr. 45.377.007 að teknu tilliti til þess uppgjörstímabils virðisaukaskatts sem ekki var talið með í kröfulýsingu embættisins. Sá hluti kröfunnar sem féll niður við staðfestingu nauðasamningsins sé kr. 27.226.204. Eftir standi því krafa að fjárhæð kr. 18.150.803 til greiðslu í samræmi við skilmála nauðasamningsins. Embættið hafi þegar fengið greiddar kr. 3.827.523 til niðurgreiðslu þeirrar kröfu.

Með vísan til þess að ógildingu dómstóla þurfi til þess að fella nauðasamning úr gildi eða úrskurð dómstóla um gjaldþrot/heimild félagsins til nauðasamingsumleitana að nýju áður en samningur hefur verið efndur að fullu, sbr. 62. gr. laga nr. 21/1991, telur kærandi þá túlkun tollstjóra að ekki sé unnt að fella kröfurnar niður fyrr en nauðasamningurinn hefur verið efndur að fullu vera í andstöðu við lög nr. 21/1991.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn tollstjóra með bréfi, dags. 8. júní 2012. Í umsögn tollstjóra, dags. 10. ágúst 2012, kemur fram að hann telji málið ekki snúast um ógildingu nauðasamnings fyrir dómstóli enda engar þær aðstæður enn upp í málinu líkt og ákvæði 62. gr. laga nr. 21/1991 áskilur. Þar sem ákvæðið fjalli ekki um niðurfærslu krafna eigi það á engan hátt við í málinu.

Þá tekur tollstjóri fram að í kærunni sé vísað til 2. málsl. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 þar sem segi að efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafi sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Tollstjóri er ósammála túlkun kæranda á ákvæðinu og telur að í ákvæðinu komi fram að þegar nauðsamningur sé kominn á bindi hann lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra. Efndir samningskröfu í samræmi við nauðasamninginn hafi sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Ákvæðið áskilji ekki breytingu á efni kröfu við staðfestingu nauðasamnings heldur fjalli um efndir kröfu í samræmi við ákvæði hans. Nauðsamningur breyti því ekki efni kröfu heldur aðeins efndaaðferðinni og áhrifum hennar. Í þessu sambandi vísar tollstjóri til dóms Hæstaréttar nr. 526/2002 máli sínu til stuðnings. Þá tekur tollstjóri fram að ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 og umræddur dómur Hæstaréttar verði ekki skilinn á annan veg en þann að ekki hvíli lagaskylda á kröfuhöfum til að færa niður kröfur við staðfestingu nauðsamnings fyrr en hann hefur verið efndur eftir efni sínu.

Í umsögn tollstjóra segir ennfremur að í skattalögum sé að finna ákvæði sem kveði á um skyldu innheimtumanna ríkissjóðs til skuldajöfnunar inneigna í skattkerfinu á móti vangoldnum sköttum og gjöldum. Dómafordæmi liggi fyrir sem staðfesta að slíkur skuldajöfnuður sé heimill þrátt fyrir staðfestan nauðasamning og án tillits til ákvæða hans, sbr. Hrd. nr. 156/1996. Með niðurfellingu krafna við staðfestingu nauðasamnings geti innheimtumenn ríkissjóðs ekki sinnt því lögbundna hlutverki sem skuldajöfnunarákvæði skattalaga kveði á um komi þær aðstæður upp og því hafnar embættið því að kröfur verði færðar niður um 60% uns nauðasamningurinn hefur verið efndur.

Þá vísar tollstjóri til þeirra krafna er falli undir nauðsamninginn sem nemi alls kr. 45.397.445. Nauðasamningurinn geri ráð fyrir greiðslu 40% af þeirri upphæð með síðustu greiðslu þann 14. febrúar 2016. Tollstjóri ítrekaði þá afstöðu að umræddar kröfur verði til í tekjubókhaldskerfi ríkisins uns nauðasamningur kæranda hefur verið efndur að fullu þar sem ákvæði laga nr. 21/1991 kveði ekki á um breytingu á efni krafna fyrr en nauðasamningur hefur verið efndur.

Varðandi ráðstöfun á innkomnum greiðslum kæranda inn á aðflutningsgjöld í tolli (KA) sem eru elstu gjöld í vanskilum sem undir nauðasamninginn falla kemur fram í umsögninni að innheimtumenn ríkissjóðs vinni eftir ákveðnum forgangsreglum um ráðstöfun greiðslna inn á gjaldfallnar skuldir. Fyrst sé greiðslum ráðstafað inn á elstu skuld eins og gert var í tilviki kæranda en kærandi telji að ráðstafa eigi greiðslum inn á gjaldflokka sem falla undir nauðasamninginn og í jöfnum hlutföllum við þá lækkun sem nauðasamningur kveður á um. Staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar nr. 27/2003 og nr. 49/2000, að það leiði af eðli máls og lagareglum að greiðslur gangi fyrst upp í elstu skuldir og verði ekki séð að í þessu máli gildi aðrar reglur.

Samningskröfur muni verða lækkaðar um 60% þegar nauðasamningur kæranda hefur verið efndur. Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 beri kröfurnar ekki vexti á samningstímanum og kæranda mun ekki verða send innheimtubréf eða greiðsluáskoranir á meðan samningurinn er í gildi. Tollstjóri geti því ekki séð að kærandi tapi hagsmunum eða verði fyrir sérstöku óhagræði með því fyrirkomulagi á ráðstöfun greiðslna sem eigi sér stað í málinu. Kærandi muni því verða eins settur og samningurinn kveður á um þegar hann hefur verið efndur.

Með vísan til alls framangreinds þá var niðurstaða tollstjóra sú að staðfesta beri synjun embættisins á kröfu um niðurfellingu krafna og ráðstöfun greiðslna.

Forsendur og niðurstaða:
Um nauðasamninga gilda lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, auk 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með nauðasamningi er átt við samning um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldarans og áskilins meirihluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Markmið nauðasamnings er þannig að ráða bót á ógjaldfærni skuldara og þá einkum með því að lækka skuldir þannig að skuldari verði frekar fær um að standa í skilum.

Í X. kafla laga nr. 21/1991 er fjallað um réttaráhrif nauðasamninga, sbr. 60.-63. gr. laganna. Í 2. mgr. 60. gr. kemur fram grundvallarregla sem varðar eðli nauðsamninga en samkvæmt henni eru lánardrottnar og þeir sem kunna að koma í stað þeirra bundnir um samningskröfur sínar af ákvæðum nauðasamnings þegar hann hefur komist á. Þessi regla felur í sér að lánardrottnar eru nauðbeygðir til að hlíta skilmálum nauðasamnings hvort sem þeir voru fylgjandi honum eða andvígir en slíkt á þó aðeins við um samningskröfur eins og þær eru skilgreindar með ákvæðum 1. mgr. 29. gr. laganna, sbr. 28. og 31. gr. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 21/1991 er tekið fram að efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafi sömu áhrif og ef hún hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Með því eru tekin af tvímæli um að lánardrottinn geti ekki neytt vanefndarúrræða gagnvart skuldaranum ef samningskrafa hefur verið efnd í skertri mynd eftir ákvæðum nauðasamnings.

Í frumvarpi að nauðsamningi kæranda kemur fram að lánardrottnum sem fara með samningskröfur er boðin greiðsla á 40% krafna sinna eins og þær standa þegar héraðsdómur heimilar nauðasamningsumleitanir samkvæmt umræddu frumvarpi en þó þannig að greiðsla hvers þeirra yrði að lágmarki kr. 250.000 og kröfur til og með þeirri fjárhæð myndu greiðast að fullu. Þá kemur fram að greiðslur skulu fara fram með fimm jöfnum afborgunum og nauðasamningsgreiðslurnar greiðast án vaxta en verða verðbættar miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu þess mánaðar er nauðasamningur var formlega staðfestur. Þá kemur fram í kafla 1.3. nauðsamningsins, nánar tiltekið kafla 1.1.3., undir yfirskriftinni „Samningskröfur miðast við úrskurðardag um heimild til að leita nauðsamnings“, að eftir að heimild hefur verið veitt til að leita nauðasamnings reiknist hvorki samningsvextir, dráttarvextir né annar kostnaður, t.d. innheimtu- og lögmannskostnaður af skuldbindingum gagnvart þeim aðilum sem samningskröfur eiga á hendur kæranda.

Kærandi telur að eftir að endanleg staðfesting nauðsamnings hafi legið fyrir hafi tollstjóra borið að færa niður 60% krafna í samræmi við nauðsamnings hans og tryggja að ekki falli frekari kostnaður á þær kröfur sem eftir stæðu. Í 2. málsl. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að kröfurnar beri ekki vexti á samningstímanum og kæranda verði þar af leiðandi ekki send innheimtubréf eða greiðsluáskoranir á meðan samningurinn er í gildi. Með vísan til þess og liðar 1.3.1. í nauðasamningunum verður ekki séð að sérstakur kostnaður falli á kröfurnar meðan nauðasamningur kæranda er í gildi.

Ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 áskilur ekki breytingu á efni kröfu við staðfestingu nauðasamnings heldur fjallar um efndir kröfu í samræmi við ákvæði hans. Nauðasamningur breytir því ekki efni kröfu heldur aðeins efndaaðferðinni og áhrifum hennar líkt og kemur fram í dómi Hæstaréttar nr. 526/2002. Ráðuneytið fellst á þau sjónarmið tollstjóra að með niðurfellingu krafna við staðfestingu nauðasamnings geti innheimtumenn ríkissjóðs ekki sinnt þeirri skyldu að skuldajafna inneignum í skattkerfinu á móti vangoldnum sköttum og gjöldum. Nauðasamningur kæranda gerir ráð fyrir síðustu greiðslu þann 14. febrúar 2016 og þar sem ákvæði laga nr. 21/1991 kveða ekki á um breytingu á efni krafna uns nauðasamningur hefur verið efndur þá telur ráðuneytið að umræddar kröfur verði að vera til staðar í Tekjubókhaldskerfi ríkisins uns nauðasamningur kæranda hefur verið efndur að fullu.

Þá er jafnframt kærð sú ákvörðun tollstjóra að ráðstafa innkomnum greiðslum kæranda inn á aðflutningsgjöld í tolli (KA) sem eru elstu gjöld í vanskilum sem undir nauðasamninginn falla. Líkt og tekið er fram í bréfi tollstjóra til kæranda, dags. 7. maí 2012, munu samningskröfur verða lækkaðar um 60% þegar nauðasamningur kæranda hefur verið efndur að fullu. Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 bera kröfurnar ekki vexti á samningstímanum og kæranda munu ekki verða send innheimtubréf eða greiðsluáskoranir á meðan nauðsamningurinn er í gildi. Ráðuneytið fellst því á það sjónarmið tollstjóra að ekki verði séð að kærandi tapi hagsmunum eða verði fyrir sérstöku óhagræði með því fyrirkomulagi á ráðstöfun greiðslna sem átti sér stað í málinu enda verði kærandi eins settur og nauðasamningurinn kveður á um þegar hann hefur verið efndur.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2012, um að synja kröfu kæranda um afskrift 60% krafna og ráðstöfun greiðslna er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra











Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta