Úrskurður vegna skráningar á firmanafninu "Fasteignafélagið Lífsteinn" í hlutafélagaskrá
Reykjavík 12. janúar 2005
Tilv.: FJR04100092/120
Ráðuneytinu hefur borist erindi yðar, dags. 21. október 2004, þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 25. júní 2004, að synja beiðni umbjóðanda yðar um skráningu á firmanafninu "Fasteignafélagið Lífsteinn" í hlutafélagaskrá. Þess er krafist að ráðuneytið felli ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi og leggi það fyrir ríkisskattstjóra að breyta skráðu nafni kæranda í hlutafélagaskrá sem sé "Fasteignafélagið Álftamýri" í "Fasteignafélagið Lífsteinn".
Málavextir
Þann 22. júní 2004 afhenti kærandi hlutafélagaskrá tilkynningu um stofnun einkahlutafélagsins Fasteignafélagsins Lífsteins. Með símtali þann 25. júní 2004 var umboðsmanni kæranda tilkynnt að félagið fengist ekki skráð undir nafninu Fasteignafélagið Lífsteinn. Í kjölfarið var hlutafélagaskrá afhent ný stofngögn undir nafninu "Fasteignafélagið Álftamýri" og var kærandi skráður undir því nafni. Með bréfi, dags. 2. júlí 2004, var farið fram á skriflegan rökstuðning fyrir ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun á skráningu firmanafnsins "Fasteignafélagið Lífsteinn" í hlutafélagaskrá.
Með bréfi, dags. 31. ágúst, veitti ríkisskattstjóri kæranda skriflegan rökstuðning fyrir ákvörðun sinni, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar tilgreindi ríkisskattstjóri þau sjónarmið sem lágu að baki niðurstöðu sinni og vísaði í ákvæði í lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög og lögum nr. 42/1903, um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð. Loks gerði ríkisskattstjóri grein fyrir þeim dómum Hæstaréttar, Sjó- og verslunardóms, áliti umboðsmanns Alþingis og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem embættið taldi viðeigandi í máli þessu.
Með kæru, dags. 21. október 2004, var þess krafist að ráðuneytið felldi ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi og legði fyrir ríkisskattstjóra að breyta skráðu nafni kæranda í hlutafélagaskrá sem væri "Fasteignafélagið Álftamýri" í "Fasteignafélagið Lífsteinn".
Málsástæður og lagarök kæranda
Í kærunni kemur m.a. fram að þrátt fyrir að 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, kveði á um að firmu skuli greina glöggt hvert frá öðru, sé í sömu grein beinlínis gert ráð fyrir því að firmu geti verið samnefnd að grunninum til, en aðgreind með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Telur kærandi augljóst að þar sé gert ráð fyrir því að firmu geti verið samnefnd að grunninum til, t.d. Lífsteinn og Fasteignafélagið Lífsteinn. Forskeytið/viðaukinn "Fasteignafélagið" sé fullkomlega nægilegt til þess að greina firmað glöggt frá firmaheitinu "Lífsteinn". Tilgangur Lífsteins ehf. sé sala á læknisþjónustu og tengd starfsemi ásamt lánastarfsemi, en tilgangur kæranda sé rekstur og útleiga fasteigna og því ljóst að starfssvið umræddra félaga skarast ekki á nokkurn hátt. Mótmælt sé þeirri túlkun ríkisskattstjóra að þeir dómar sem tilgreindir voru í rökstuðningi embættisins séu sambærilegir máli kæranda. Stjórnvaldið hafi það verkefnið að skrá firmanöfn á grundvelli þeirra skilyrða sem lög nr. 42/1903 setji slíkri skráningu. Það leiði af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvaldinu sé óheimilt að ganga lengra eða gera frekari skilyrði fyrir slíkri skráningu en komi fram í lögum nr. 42/1903, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3235/1991.
Þá kemur fram að ríkisskattstjóra hafi verið óheimilt að hafna skráningu umrædds firmanafns án þess að fyrir liggi afstaða hins meinta rétthafa/brotaþola. Ríkisskattstjóri byggi á sjónarmiðum er lúti að réttarvernd hins meinta eldri rétthafa en ekki á hagsmunum óskilgreinds almennings. Hið meinta réttarbrot geti ekki leitt til synjunar á skráningu án þess að afstaða hins meinta brotaþola liggi fyrir enda samrýmist það hvorki þeim kröfum sem gerðar er í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (rannsóknarreglunni) né í 12. gr. sömu laga (meðalhófsreglunni), að afgreiða málið með þeim hætti.
Tekið er fram að ríkisskattstjóri hafi með ákvörðun sinni brotið gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggi að í hlutafélagaskrá hafi athugasemdalaust verið skráð félögin Fasteignafélagið Hlíð ehf., Fasteignafélagið Vogar ehf. og Fasteignafélagið Þrek ehf., þrátt fyrir að fyrir hafi félögin Hlíð hf., Vogar ehf. og Þrek ehf. verið skráð. Út frá jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins leiði að samræmi verði að vera í úrlausnum mála. Hafi stjórnvald byggt ákvörðun á tilteknu sjónarmiði eða afgreitt mál á tiltekinn hátt leiði það til þess að þegar sambærilegt mál komi aftur til úrlausnar beri að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og á sama hátt. Af jafnræðisreglunni leiði að breytingar á stjórnsýsluframkvæmd verði að fara fram með tilteknum hætti eigi þær að teljast lögmætar. Í skýrslu nefndar sem forsætisráðherra skipaði um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu undir forsæti prófessors PH og lögð var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi hafi verið fjallað um þau skilyrði sem fyrir hendi þurfi að vera til að heimilt sé að breyta þekktri stjórnsýsluframkvæmd, en ljóst sé að hin breytta stjórnsýsluframkvæmd sem um sé að ræða í þessu máli uppfylli ekki þau skilyrði sem þar séu tilgreind.
Þá kemur fram að ríkisskattstjóri hafi beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvörðun sína þar sem hún hafi að hluta til verið byggð á því að skráningin myndi brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993. Þetta sjónarmið sé ómálefnalegt enda beri stjórnvaldi að beita stjórnsýsluvaldi sínu þannig að það vinni að þeim markmiðum sem því sé falið samkvæmt lögum. Byggi stjórnvald ákvörðun sína á sjónarmiðum sem stefni að öðrum markmiðum sé um valdníðslu að ræða. Við mat á því hvert sé markmið tiltekinna laga og hvaða sjónarmið teljist málefnaleg sé rétt að hafa í huga hina skipulagslegu aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttarins, en samkvæmt henni sé stjórnvaldi óheimilt að leggja sjónarmið til grundvallar ákvörðunum sínum til að ná fram markmiði sem öðru stjórnvaldi ber að vinna lögum samkvæmt. Augljóst sé að þau samkeppnisréttarlegu sjónarmið sem ríkisskattstjóri byggði ákvörðun sín á hafi verið ómálefnaleg, enda hafi ríkisskattstjóri ekkert vald að lögum til að beita slíkum sjónarmiðum eða byggja ákvarðanir sínar á þeim lögum.
Niðurstaða
Samkvæmt rökstuðningi ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2004, byggist ákvörðun embættisins um synjun á skráningu á firmanafninu "Fasteignafélagið Lífsteinn" á því að fyrir sé skráð hjá hlutafélagaskrá einkahlutafélagið Lífsteinn og að nöfnin séu of lík þannig að um hætta á ruglingi geti verið að ræða. Þá hefði Lífsteinn ehf. öðlast einkarétt til notkunar á firmanafninu "Lífsteinn" með skráningu þess í hlutafélagaskrá.
Ef litið er til hlutverks hlutafélagaskrár má sjá að henni er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að skrá upplýsingar og veita aðgang að upplýsingum varðandi nýskráð hlutafélög og skrá og veita almennan aðgang að breytingum á því sem áður hefur verið tilkynnt og skráð. Þá hefur hlutafélagaskrá ákveðið eftirlitshlutverk, þ.e. að reglum hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga og samþykkta sé fylgt við skráningu upplýsinga, sbr. 1. mgr. 150. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá hefur hlutafélagaskrá það hlutverk að vera ákvörðunaraðili um ýmis málefni, sbr. 1. og 2. mgr. 150. gr. laga nr. 2/1995 og 1. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994. Þrátt fyrir að hlutafélagaskrá sé ekki skyldug til þess að gæta að því hvort ákvæði annarra laga séu uppfyllt verður að telja að hún hafi heimild til þess að synja um skráningar þegar fyrirséð er að svo sé ekki.
Að mati ráðuneytisins þarf við úrlausn kæru þessarar að túlka 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, þ.e. hvort það ákvæði komi í veg fyrir skráningu á firmaheitinu "Fasteignafélagið Lífsteinn" í hlutafélagaskrá þar sem fyrir er skráð félagið Lífsteinn ehf. Við slíka túlkun verður að hafa til hliðsjónar dómafordæmi Hæstaréttar Íslands vegna túlkunar á umræddu ákvæði.
Telur kærandi það augljóst að 2. mgr. 10. gr. umræddra laga geri ráð fyrir því að firmu geti verið samnefnd að grunninum til og að viðaukinn "Fasteignafélagið" sé fullkomlega nægjanlegur til að greina firmað glöggt frá firmaheitinu Lífsteinn ehf.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, er einkahlutafélögum einum rétt og skylt að hafa orðið einkahlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ehf. Að öðru leyti fer um heiti félaganna eftir ákvæðum laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, með síðari breytingum.
Samkvæmt ákvæði 1. málsl. 8. gr. laga nr. 42/1903 skal hver sá er rekur verslun, handiðn eða verksmiðjuiðnað hlýða ákvæðum annars kafla laganna um nafn það er hann notar við atvinnuna og um undirskrift fyrir hana (firma) enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara. Þá er ákvæði 10. gr. laganna svohljóðandi:
"Enginn má í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Í firma má eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefir verið gerð á henni.
Firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skal greina glöggt hvert frá öðru. Sá, sem tilkynnir firma með nafni sínu, skal því ef samnefnt firma er þegar sett á skrá fyrir einhvern annan í sama kaupstað eða hrepp, greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs síns (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefir sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta."
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 42/1903 segir m.a. svo:
"Með því að ákvæðin um rjettnefni firma eru sett vegna viðskiptanna manna á milli, er það samkvæmt 10. gr. embættisskylda skrásetjara að gæta ákvæðanna þar um, að nafn annars manns eða nafn á fasteign hans sje eigi sett heimildarlaust í firmað, og að ekki seju sett á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp fleiri samhljóða firmu, og leiðir líka af þessu síðara ákvæð, að umsýsluhafendur geta með því að tilkynna umsýslunöfn fengið einkarjett á þeim á vissu svæði, og er það þýðingarmikið fyrir þá."
Með hliðsjón af framangreindu getur firmaeigandi, með skráningu firmanafnsins, öðlast einkarétt til nafnsins sem þá felst í því að öðrum sé óheimilt að nota firmanafnið eða annað nafn sem líkist því á þann hátt að um hættu á ruglingi geti verið að ræða. Þá er slík lagavernd firmanafnsins háð því að nafnið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félagið hafi með skráningu firmanafns öðlast einkarétt á því gagnvart öðru.
Af 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903 má þó ráða að hægt sé að tilkynna firmu með sama heiti og annað þegar skráð firma er nægjanlega aðgreint frá hinu síðarnefnda, sbr. með viðauka við nafn fyrrnefnda firmans eða á annan hátt.
Þegar litið er til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands má sjá að rétturinn telur að skráning á firmaheiti í firmaskrá feli í sér einkarétt á firmaheitinu, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í máli nr. 282/1987 frá 26. október 1988 í máli Straumnes hf., Patreksfirði gegn Straumnesi hf., Reykavík og í máli nr. 437/1999 frá 2. mars 2000 í máli Bakka hf. gegn Bakka söluskrifstofu hf. Ennfremur hefur Hæstiréttur talið að þrátt fyrir að viðauka sé skeytt fyrir framan skráð firmaheiti til aðgreiningar sé einkarétturinn til firmaheitisins enn til staðar og óheimilt að nota þegar skráð firmaheiti í firmaheiti sínu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 21/1988 frá 27. október 1988 í máli Heklu hf. gegn Bjöllunni hf. og gagnsök. Þar kemur m.a. fram í forsendum dóms Bæjarþings Reykavíkur frá 21. apríl 1987 sem Hæstiréttur staðfesti með skírskotun til forsendna dómsins:
"Eins og fram hefur komið í máli þessu lét stefnandi skrá firmanafnið "Bjallan h.f." í janúar 1978, en vörumerki stefnda "Bílasalan Bjallan" var skráð í vörumerkjaskrá í maí 1985. [...] Enda þótt vörumerki stefnda feli í sér hvers konar atvinnurekstur sé átt við, þá þykir engu að síður hætta á ruglingi þar sem firmanafnið "Bjallan" vekur ekki hugmynd um neinn sérstakan atvinnurekstur. Verður því að telja að stefnandi hafi með skráningu heitisins í firmaskrá öðlast gagnvart stefnda lögverndaðan rétt, sbr. 10. gr. laga nr. 42/1903, sbr. og 30. gr. laga nr. 56/1978."
Niðurstaðan í umræddum dómi var sú að notkun Heklu á orðinu "Bjallan" sem firmaheiti var talin óheimil og bar að afmá úr vörumerkjaskrá vörumerkið "Bílasalan Bjallan".
Með vísun til framangreindrar túlkunar Hæstaréttar Íslands á 10. gr. laga nr. 42/1903 verður að telja að skráning á firmaheiti skapi einkarétt á firmaheitinu og skipti þar engu um þótt viðauka sé skeytt fyrir framan firmaheitið til frekari aðgreiningar. Þar sem hlutafélagaskrá hefur ákveðið eftirlitshlutverk með því að þau ákvæði laga sem henni ber að líta til við skráningu séu uppfyllt verður að telja að hlutafélagskrá geti hafnað skráningu á firmaheiti ef hún telur að heiti á firmanu fari gegn lögum nr. 42/1903, og skiptir þar engu þótt afstaða eldri rétthafa liggi ekki fyrir.
Samkvæmt framangreindri 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, er einkahlutafélögum einum rétt og skylt að hafa orðið einkahlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ehf. Að öðru leyti fer um heiti félaganna eftir ákvæðum laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu ber hlutafélagaskrá að ganga úr skugga um að ákvæði laga nr. 42/1903, um heiti félaganna, séu ekki brotin. Af þessum sökum telur ráðuneytið að embætti ríkisskattstjóra hafi hvorki brotið gegn 10. gr. eða 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þrátt fyrir að afstaða fyrri rétthafa hafi ekki legið fyrir enda ber hlutafélagaskrá að líta til þess hvort ákvæði fyrrgreindra laga nr. 42/1903 séu uppfyllt.
Í kærunni er bent á að í hlutafélagaskrá séu nú þegar skráð ýmis fasteignafélög þar sem viðaukanum "Fasteignafélagið" sé skeytt fyrir framan nöfn sem áður höfðu fengið skráningu í hlutafélagaskrá. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Jafnræðisreglan veitir þó aðilum almennt ekki tilkall til einhvers sem ekki samrýmist lögum og þar sem ráðuneytið telur kröfu yðar um nafnabreytingu á "Fasteignafélaginu Álftamýri" í "Fasteignafélagið Lífsteinn" stangast á við ákvæði 10. gr. laga nr. 42/1903, er þessari röksemd yðar hafnað.
Í kærunni er loks talið að ríkisskattstjóri hafi beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvörðun sína þar sem hún var að hluta til byggð á því að skráningin myndi brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993 og vísaði til úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dóma Hæstaréttar máli sínu til stuðnings. Þar kemur fram að þetta sjónarmið sé ómálefnalegt enda beri stjórnvaldi að beita stjórnsýsluvaldi sínu þannig að það vinni að þeim markmiðum sem því sé falið samkvæmt lögum.
Ráðuneytið telur að sú nálgun ríkisskattstjóra að líta til dóma Hæstaréttar við ákvörðun sína, geti ekki flokkast undir ómálefnaleg sjónarmið heldur þvert á móti bera vott um góða stjórnsýslu og að embætti ríkisskattstjóri hafi gætt að 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðun sína í máli kæranda. Eins og að framan er rakið er hlutafélagaskrá aðallega ætlað það hlutverk að skrá upplýsingar og veita aðgang að upplýsingum varðandi nýskráð hlutafélag ásamt breytingum á áður skráðum upplýsingum. Við þetta hlutverk sitt ber hlutafélagaskrá að líta til ákvæða laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, eða eftir atvikum til laga nr. 2/1995, um hlutafélög, sem og ákvæða laga nr. 42/1903, um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, sbr. 6. gr. laga nr. 138/1994. Það sjónarmið að líta til dóma Hæstaréttar við túlkun á ákvæði laga nr. 42/1903 getur vart talist ómálefnalegt sjónarmið enda viðurkennd lögskýringaraðferð að líta til dóma Hæstaréttar við túlkun lagaákvæða. Þá telur ráðuneytið að umfjöllun embættis ríkisskattstjóra um ákvæði samkeppnislaga nr. 8/1993, og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála, ekki hafa það vægi í ákvörðun ríkisskattstjóra að hún geti komið til greina sem ógildingarástæða á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með vísan til alls framangreinds hafnar ráðuneytið kröfu yðar um að fella ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 25. júní 2004, sbr. skriflegur rökstuðningur, dags. 31. ágúst 2004, um synjun á skráningu í hlutafélagaskrá undir firmanafninu "Fasteignafélagið Lífsteinn" er staðfest.