Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 67/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 67/2020

Fimmtudaginn 4. júní 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 6. febrúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. desember 2019 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en meta honum varanlegan örorkustyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 31. október 2019. Með örorkumati, dags. 10. desember 2019, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði um varanlegan örorkustyrk frá 1. september 2019. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. desember 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2020. Athugasemdir kæranda bárust 25. febrúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 10. mars 2020, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að fara í nýja skoðun hjá skoðunarlækni Tryggingastofnunar.

Í kæru kemur fram að það hafi komið kæranda á óvart að örorka hans hafi verið var metin 50%. Í rökstuðningi stofnunarinnar hafi kærandi fyrst séð staðalinn sem farið sé eftir. Í viðtalinu hafi hann ekki vitað af þessum staðli heldur hafi hann haldið að matið snerist um að lýsa almennu ástandi hans. Eftir að hafi farið yfir matið hafi kærandi tekið eftir því, sérstaklega í andlega hlutanum, að hann hafi ekki komið því nógu skýrt til skila sem hann hafi viljað sagt hafa. Hann hafi jafnvel ósjálfrátt hálfpartinn farið að afsaka ástand sitt með því að lýsa meira því hvað hann geri til að vinna á móti ýmsum veikleikum frekar en svara beint. 

Í læknisvottorði komi fram að kærandi sé með ADHD. Alvarlegustu einkenni hans séu athyglisbrestur og lítið vinnsluminni og þá eigi hann einnig oft erfitt með að ná fullkomlega meiningu þess sem við hann sé sagt. Einnig komi oft fyrir að hann hafi talið sig hafa tjáð sig skýrt, en svo komi í ljós að meiningin hafi alls ekki komist til skila. Þegar kærandi hafi farið yfir matið frá skoðunarlækni megi sjá merki um þetta.

Í fyrsta lagi hafi kærandi í nokkrum tilvikum ekki áttað sig almennilega á um hvað hafi verið spurt og af gömlum vana hafi hann breitt yfir skilningsleysi sitt með því að segja að þetta ætti ekki við hann í stað þess að fá nánari skýringu.

Í öðru lagi hafi kæranda fundist í tveimur tilvikum niðurstaða spurninga ekki hafa verið í samræmi við það sem hann hafi talið sig hafa sagt, en hann hafi líklega ekki komið því nógu skýrt frá sér.

Í þriðja lagi hafi kærandi þegar hann hafi verið spurður hvort hann gæti einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt í einhverri fljótfærni beinlínis svarað rangt. Rétt sé að hann missi nánast alltaf þráðinn með reglulegu millibili hvort sem hann sé að lesa, hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp og jafnvel í samtölum við fólk. Þetta hafi í gegnum tíðina valdið honum ómældum vandræðum bæði í námi, vinnu og félagslega. Þetta hafi háð honum meira en flest annað og geri enn.

Rétt sé að taka fram að kærandi sé ekki að kvarta yfir að framkvæmd matsins hafi ekki verið samkvæmt bókinni en ef hann hefði vitað af staðlinum hefði hann reynt að fá nánari skýringar í stað þess að skauta yfir það sem hann hafi ekki áttað sig alveg á og hann hafi haldið að skipti ekki miklu máli.

Gerð sé ein athugasemd varðandi mat á líkamlegri færni kæranda. Hann hafi verið látinn taka upp lóð af gólfinu með hnébeygju, sem sé tiltölulega auðvelt fyrir hann, en hann hafi hins vegar ekki verið látinn sýna frambeygju sem hann hafi verið látinn framkvæma í öðrum skoðunum. Kærandi nái rétt svo að setja hendur að hnjám í þeirri beygju vegna stífni og verkja í mjóhrygg.

Í læknisvottorði sé minnst á að kærandi hafi fengið ristil á síðasta ári, en þar komi ekki fram að hann hafi fengið útbrotin fyrst […] 2019 og síðan aftur í X 2019. Eftir fyrra skiptið hafi hann fengið verk í brjóstbak hægra megin sem minnst hafi verið á í vottorðinu og ofurviðkvæmni í húð á sama stað sem sé enn til staðar. Þetta sé væntanlega Postherpetic neuralgia sem séu eftirköst hjá sumum sem fái ristil og geti verið langvarandi.

Kærandi vísar til yfirlits yfir skólagöngu og vinnusögu sína. Ástæða þess sé sú að hann tjái sig skýrar skriflega en munnlega og þetta kæmist ekki til skila í viðtali þar sem hann missi auðveldlega þráðinn. Yfirlitið sé eiginlega samantekt á því sem fram hafi komið í viðtölum hans við sálfræðing, geðlækni, heimilislækni og fleiri en komi aðeins fram að hluta í mati VIRK og Tryggingastofnunar, enda sé þar verið að skoða núverandi stöðu frekar en forsöguna en hún skipti þó máli. Í þessu yfirliti komi meðal annars fram að veikindi/kulnun hafi komið fram að fullu X þó að hann hafi þrjóskast við og hafi ekki gefist upp fyrr en X. Þetta hafi komið misvel fram í skýrslum lækna þó að tæpt sé á því.  

Það sé ljóst að kærandi verði ekki gjaldgengur á vinnumarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð nema kannski í léttu hlutastarfi. Í matinu hafi hann fengið tíu stig í líkamlegri færni og fimm stig í andlegri færni. Það vanti eitt stig upp á til að hann fái lífeyri. Kærandi hafi nánast engin réttindi hjá Vinnumálastofnun vegna langrar fjarveru frá vinnu. Framfærsla hans […] velti því á þessu mati. Því fari kærandi fram á að fá að endurtaka matsviðtalið með það fyrir augum að hann geti þá leitað frekari skýringa á spurningunum.

Í dag sé staða kæranda sú að í ársbyrjun 2019 hafi hann verið greindur með ADHD sem lýsi sér mest í miklum athyglisbresti og litlu vinnsluminni. Auk þess hafi hann verið greindur með kulnun, kvíða, þunglyndi og orkuleysi. Hann sé með verki í mjóbaki sem leiði á tímabilum niður í vinstri fót. Kærandi sé með verki og ofurviðkvæmni í húð á brjóstbaki hægra megin (Postherpetic neuralgia) eftir tvö tilfelli af ristli. Hann hafi lítið streituþol, kvíði magnist upp við lítið áreiti sem trufli svo aftur svefn sem hann hafi annars náð nokkuð góðum tökum á eftir langa baráttu við dagsyfju og þreytu. Til að halda kvíðanum í skefjum og í framhaldi af því til að verjast svefnerfiðleikum reyni kærandi að lágmarka allt utanaðkomandi áreiti, hann eyði deginum að mestu leyti einn, fari ekki á nein mannamót og taki ekki þátt í félagslífi af neinu tagi.

Kærandi greinir frá forsögu þess að hann fór í örorkumat og fer yfir æskuár sín. Kærandi hafi farið að vinna hjá fyrirtæki X og hafi verið þar í X ár. Þetta hafi verið langir vinnudagar undir mikilli tímapressu og við slæmar aðstæður og á þessum tíma hafi hann byrjað að fá verki í mjóhrygg sem hafi háð honum síðan. Vinnufyrirkomulagið hafi verið uppskrift að kulnun en hann hafi kennt sjálfum sér um aumingjaskapinn. Kærandi hafi haldið þetta út í um X ár en hafi þá farið að bogna undan álaginu. Hann hafi þá eins og áður átt við svefnvandamál að stríða.

Síðustu X til X árin á þessum vinnustað hafi ástand hans versnað verulega. Kærandi hafi orðið félagslega einangraður, bæði vegna orkuleysis og kvíða. Allan þennan tíma hafi kærandi talið sér trú um að þetta myndi lagast, hann þyrfti bara að harka þetta af sér en að lokum hafi honum orðið það ljóst að þetta gæti ekki haldið svona áfram, einn daginn myndi hann gefast upp.

Til að reyna að komast út úr þessum vítahring hafi kærandi ákveðið að fara í X ára nám árið X með það fyrir augum að geta í framhaldinu fundið hentugri vinnu. Eftir á að hyggja hafi hann ekki verið í neinu standi til að fara í nám eða yfirleitt að gera nokkuð annað, en hafi þó náð að klára það.

Að námi loknu X hafi kærandi farið að vinna. Það hafi komið fljótt í ljós að hann hafi alls ekki verið almennilega vinnufær. Kærandi hafi áfram átt við svefnerfiðleika að stríða og hafi rétt náð að halda út vinnudaginn. Kvíði hafi farið vaxandi. Á þessum tíma hafi hann búið í X, hafi ekki tekið þátt í neinu félagslífi og hafi nánast verið einn utan vinnunnar. 

Kærandi hafi verið í 60% vinnu síðasta árið sem hann hafi verið að vinna og að lokum hafi hann gefist endanlega upp og hafi hætt að vinna haustið X.

Fyrstu mánuðina eftir að kærandi hafi hætt að vinna hafi hann sofið með hléum meira og minna á öllum tímum sólarhrings og eins og áður hafði hann lítið samband við annað fólk. Eftir áralangan barning við svefnleysi og dagþreytu hafi það verið forgangsverkefni og raunverulega hans eina markmið í lífinu að koma lagi á svefninn þegar hann hafi ekki verið lengur bundinn af vinnutíma. Kærandi hafi verið óvirkur félagslega, og hafi þá nánast losað sig við allt utanaðkomandi áreiti. Með tímanum hafi honum tekist að koma reglu á svefninn en hafi samt þurft daglega að leggja sig einu sinni til tvisvar á dag í 20 til 30 mínútur. Í um X til X vikur á ári hafi kærandi tekið að sér smá X. Að öðru leyti hafi hann verið í einhverju sinnuleysi og hafi gert mest lítið, en hafi þó alltaf verið að plana að fara að vinna aftur. Kærandi hafi verið búinn að gefast alveg upp án nokkurra væntinga til lífsins lengur.

Á árinu X hafi ættingjar kæranda sent hann til heimilislæknis sem hafi greint hann með þunglyndi og kulnun. Læknirinn hafi sett hann á þunglyndislyf og hafi hjálpað honum að sækja um hjá VIRK. Kærandi hafi byrjað hjá VIRK í janúar 2018 og hafi verið þar í 21 mánuð og hafi fengið þar endurhæfingu af ýmsu tagi sem hafi komið honum í töluvert betra líkamlegt form sem hafi þó ekki unnið á mjóbaksverknum. Fyrri hluta árs 2019 hafi kærandi fengið ristil og hafi þurft að hætta í jóga og vatnsleikfimi vegna verkja og ofurviðkvæmni í húð, en hafi samt haldið áfram í sjúkranuddi. Verkirnir og ofurviðkvæmnin hafi þó ekki horfið þó svo að útbrotin hafi hætt, væntanlega sé þar um að ræða „postherpetic neuralgia“. Kærandi hafi fengið annað tilfelli af ristli í X 2019 og ekki hafi hann skánað við það. Kærandi hafi verið hjá sálfræðingi á vegum VIRK og hafi hann svo verið greindur hjá geðlækni með ADHD í febrúar 2019. Hann hafi fengið ADHD lyf sem hjálpi honum talsvert með að halda einbeitingu og vera eitthvað virkur yfir daginn. Þau taki þó ekki á hlutum eins og skertu vinnsluminni og þá sé athyglisbresturinn enn til staðar. Þetta sé verulega hamlandi fyrir hann í daglegu lífi og vinnu.

Kærandi hafi verið nokkuð brattur eftir útskriftina frá VIRK en fljótlega hafi þó runnið upp fyrir honum að hann væri ekki í ástandi til að standa sig á vinnumarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð og kvíði og vonleysi hafi aftur farið að aukast. Sálfræðingur og geðlæknir kæranda hafi ýjað að því að hann væri tæpast í standi til að stunda vinnu. Kærandi viti að það séu mestar líkur á að hann fari í sama farið og áður ef hann fengi vinnu þar sem eitthvað reyni á. En það séu kannski ekki miklar líkur á að hann fái vinnu.

Í athugasemdum kæranda frá 25. febrúar 2020 segir að í greinargerð Tryggingastofnunar hafi í raun aðeins verið ítrekað kært mat og það virðist vera litið svo á að svörin sem hann hafi gefið í viðtalinu séu óbifanlegar staðreyndir. Það virðist ekki hafa verið gert ráð fyrir að viðmælandi matslæknis geti orðið það á í fljótfærni að gefa ónákvæm svör í einhverjum tilfellum í viðtali sem sé kannski dálítið stressandi fyrir hann. Kærandi vilji í þessu samhengi benda á að öllum geti orðið þetta á, jafnvel Tryggingastofnun. Sem dæmi um þetta segi meðal annars í greinargerð stofnunarinnar: „Samkvæmt gögnum málsins, þ.m.t. skýrslu skoðunarlæknis,var [kærandi] í fullu starfi á almennum vinnumarkaði fram til ársins X þegar hann hætti störfum vegna kulnunar“.

Í skýrslunni og líka í gögnum frá VIRK komi hins vegar fram að kærandi hafi undir lokin verið kominn í 60% vinnu en hafi ekki ráðið við það og hafi gefist upp eftir X ára baráttu við kulnunareinkenni. Enn fremur komi fram í greinargerðinni: „...auk þess hefur viðvarandi orkuleysi haft mjög hamlandi áhrif á allt hans líf“.

Kærandi viti ekki hvaðan þetta sé komið. Hið rétta sé að það séu ADHD einkennin, fyrst og fremst einbeitingarskortur og lítið vinnsluminni (ADD), sem hafi hamlað honum allt hans líf, en orkuleysið hafi komið til eftir að hann hafi orðið fyrir kulnun og hafi gefist á endanum upp. Þetta séu kannski ekki stórvægileg atriði, en kærandi vilji benda á að allir geti gert svona nákvæmnimistök og ættu að fá tækifæri til að leiðrétta sig.

Kærandi vilji sérstaklega vekja athygli á að þeim sem verið að meta sé ekki gefinn kostur á að yfirfara svör sín áður en þau séu tekin til mats.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Tryggingastofnun hefur vegna athugasemda [kæranda] í greinargerð til úrskurðarnefndar ..... Að mati Tryggingastofnunar eru þær upplýsingar sem þar koma fram ekki þess eðlis að þær geti breytt niðurstöðu örorkumatsins.“

Rétt sé að taka fram að kærandi hafi ekki ætlast til að yfirlitið sem hann hafi sent með kæru breytti matinu, heldur aðeins að taka saman það sem fram hafi komið í viðtölum við sálfræðing, geðlækni og heimilislækni og veita bakgrunnsupplýsingar til að skýra hvernig hann svari spurningum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé ekki tekin afstaða til beiðni kæranda um að endurtaka viðtal við skoðunarlækni eða forsendu þess að farið sé fram á það. Kærandi vilji því ítreka þau atriði aftur hér.

Ástæða þess að kærandi fari fram á að endurtaka viðtalið sé sú að hann hafi ekki vitað af þeim staðli sem notaður sé til að meta örorku, að um sé að ræða eins konar krossapróf þar sem svar sé annaðhvort rétt eða rangt og tengist ekki eða að minnsta kosti mjög lauslega starfsgetu. Þetta hafi ekki verið kynnt fyrir honum í viðtalinu. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að verið væri að meta með almennum hætti almennt ástand hans og starfsgetu út frá því. Þar af leiðandi hafi hann svarað spurningum í viðtalinu út frá því hvað hann hafi talið að skerti starfsorku hans. Kæranda hafi fundist ýmsar spurningar óljósar og ef hann hafi ekki tengt þær beint við það sem hamli honum hafi hann afgreitt þær í einhverjum tilfellum eins og þær ættu ekki við, án þess að biðja um nánari skýringar á því eftir hverju væri verið að leita. Kærandi hafi ekki vitað að þær gætu ráðið úrslitum í matinu, en í hans tilviki geti það oltið á einu svari hvernig matið fari.

Í kæru hafi kærandi minnst lauslega á hvað honum hafi fundist hafa farið úrskeiðis í svörum hans í færnimatinu. Kærandi hafi gert ráð fyrir að fara nákvæmar yfir það í endurteknu viðtali við tryggingalækni. Eins og málið standi núna sé rétt að fara aðeins nánar yfir það hér.

Varðandi andlega færni:

Í lið 4.5 sé spurt hvort geðrænt ástand umsækjanda komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður. Þar hafi skoðunarlæknir hakað við nei með eftirfarandi rökstuðningi: „Áhugamál X eftir að hann flutti til B. Einnnig X. Sinnir því ennþá.“

Aðspurður hvort kærandi hefði einhver áhugamál hafi hann svarað neitandi. Því hafi verið fylgt eftir með spurningu um hvort hann gerði þá ekkert á daginn sem hann hafi svarað að hann væri stundum eitthvað að dunda í X. Næsta spurning hafi verið hvort hann væri eitthvað að nota tölvuna sem hann hafi játað.

Í vottorði vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri frá 3. janúar 2018 segi: „....framtakslítill, vanvirkur og engin sérstök áhugamál. Gleðileysi, engin tilhlökkun.“ Í starfsgetumati frá VIRK 18. september 2019 segi: „[Kærandi] hefur engin áhugamál og er framtakslítill og þjakaður af kvíða“ Í skýrslu skoðunarlæknis, dags. 4. desember 2019, kaflanum „Andleg færni – skoðun“ segi: „Framtaksleysi og engin áhugamál. Alltaf þreyttur og orkulaus“.  

Samkvæmt skilningi kæranda hafi hann svarað á þá leið að hann stundi engin áhugamál. Hann dundi í X til að fá einhverja útiveru með hreyfingu samkvæmt ráðleggingum meðferðaraðila og tölvunotkunin sé líklega nokkuð dæmigerð fyrir þá sem hafi lítið fyrir stafni, en flokkist varla sem áhugamál.

Í lið 4.3 sé spurt hvort umsækjandi geti einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt og þar hafi skoðunarlæknir hakað við að svo væri með eftirfarandi rökstuðningi: „Les mest a netin. Er eitthvað að grústk. Les einnig mikið bækur en það fer aðeins inn um annað erya og út um hitt. Srögl að læra t.d. á X á X.“ Í greinargerð Tryggingastofnunar segi:

„Í lið 4.3 í örorkustaðli er spurt hvort umsækjandi geti einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Í viðtali hjá skoðunarlækni svaraði [kærandi] því játandi og hefur skoðunarlæknir skráð þá athugasemd að hann lesi mest á netinu, auk þess sem hann lesi einnig mikið bækur en það fari aðeins inn um annað eyra og út um hitt.“

Kærandi hafi svarað þessari spurningu játandi, en eins áður hafi komið fram hafi það verið mistök gerð í fljótfærni. Aðspurður hvort hann læsi eitthvað hafi hann sagt að það væru aðallega blöðin og eitthvað á netinu. Þá hafi hann verið spurður hvort hann læsi ekki líka bækur og hafi hann svarað hálfdræmt „Jú, eitthvað“, sem sagt hafi hann sagst ekki lesa mikið bækur. Kærandi hafi bætt við að það sem hann lesi færi dálítið inn um annað eyrað og út um hitt. Þar hafi hann verið að vísa til þess að hann haldi ekki athygli við lestur eða annað nema stutta stund í einu vegna ADD og eigi þess vegna erfitt með að lesa sér til gagns.

Kærandi hafi verið spurður hvort hann væri eitthvað að grúska og hafi hann játað því. Það sem hér sé kallað grúsk snúist mest um að fletta upp í leitarvélum að hinu og þessu sem honum detti í hug eða rekist á í fréttum eða annars staðar á netinu. Lesturinn á netinu sé fyrst og fremst fréttir, Facebook og þess háttar. Lengri greinar sem hann rekist á og hafi hug á að lesa merki hann oftast með bókamerki til að lesa seinna, en komi því svo yfirleitt aldrei í verk. Það sé tekið fram að kærandi sé ekki lesblindur eða með aðra lestrarörðugleika heldur sé það athyglisbrestur/einbeitingarskortur sem hamli honum. Þarna komi líka fram að það hafi verið strögl hjá honum að læra á X í X, en þar sé kannski frekar um að ræða skort á vinnsluminni en einbeitingarskort. Af einhverjum ástæðum komi ekki fram í vottorðum eða umsögnum að hann hafi tvisvar byrjaði í X en hafi gefist fljótlega upp vegna þess að hann hafi ekki náð að fylgjast með í fyrirlestrum og hafði ekki einbeitingu til að komast yfir lesefnið. Þetta hafi þó komið fram í viðtölum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi enn fremur:

“Í lið 4.6 er spurt hvort einbeitingarskortur valdi því að umsækjandi taki ekki eftir - eða gleymir - hættu sem getur stafað af heimilistækjum eða öðru í umhverfinu. Í viðtali svarar [kærandi] þessu neitandi og er sú athugasemd skráð að hann sé með allt á minnislistum og að þetta hafi ekki skapað hættu. Á grundvelli svara [kæranda] við þessum tveimur spurningum sem og athugasemda skoðunarlæknis fékk [kærandi] engin stig í örorkumatinu vegna þessara atriða. Athugasemdir [kæranda] í greinargerð til úrskurðarnefndar um að hann búi enn við skert vinnsluminni og einbeitingarskort sem hamli honum í daglega lífinu og vinnu breyta ekki þessari niðurstöðu.”

Það sé rétt að einbeitingarskortur valdi honum ekki hættu vegna heimilistækja og hafi ekki gert í langan tíma. Það sé vegna þess að hann hafi lært af fyrri reynslu og hafi komið sér upp kerfum til að koma í veg fyrir það og reyndar ýmislegt fleira. Þetta hafi komið fram í athugasemd. Kærandi geri ekki athugasemd við matið á þessari spurningu, þetta sé samkvæmt staðlinum, en það sé hins vegar ekki hægt að nota hana til að styðja þá ályktun að hann geti einbeitt sér að lestri eða hlustun á útvarp.

Í læknisvottorði, dags. 8. október 2019, segi:

„Alla tíði átt erfitt með einbeitingu, gleymdi hlutum og vantaði skipulag. Fór nýlega í ADHD greiningu og byrjaður með Medikinet sem honum finnst hjálpa sér, hættur á Sertral.“ 

Í starfsgetumati frá VIRK, dags. 18. september 2019, segi:

„Hann fór í viðtöl frá sálfræðing í upphafi þessa árs og greindist þá með athyglisbrest og er kominn á lyf við því, líðan betri svo og einbeitingin. Telur þetta hafa verið að trufla sig mjög lengi“

Eins og fram komi í þessum vottorðum sé lyfjagjöfin til bóta, en hún dugi ekki til að þessi einkenni hverfi. Hún virki því aðeins að skammtastærðin sé hvorki of mikill né lítil og það sé breytilegt eftir dögum og aðstæðum. 

Hér megi líka taka fram að sálfræðingurinn hafi ekki greint hann heldur hafi hann vísað honum til geðlæknis sem hafi greint hann með ADHD. 

Sem fyrr segi hafi kærandi ekki vitað af staðlinum. Hann hafi talið sig vera í mati á starfsgetu og hafi í fljótu bragði ekki tengt sumar spurningarnar við það eða skilið hverju hafi verið að leita eftir. Þá hafi kærandi svarað spurningunni samkvæmt orðanna hljóðan og án þess að leita skýringa. Kærandi sé ekki að fullyrða að matið á þessum spurningum breytist, aðeins að þær þarfnist frekari útskýringa til að matið sé marktækt. Hér megi minna á að ADHD/ADD hái kæranda ekki bara í námi, vinnu og daglegu lífi, heldur líka í viðtölum eins og þessu. Sem dæmi um þetta megi nefna eftirfarandi atriði.

Varðandi lið 3.3 þar sem spurt sé hvort geðsveiflur valdi umsækjanda óþægindum einhvern hluta dagsins hafi skoðunarlæknir hakað við nei með eftirfarandi rökstuðningi: „Finnur ekki mikinn mun yfir daginn.“

Kærandi hafi skilið þetta samkvæmt orðanna hljóðan að spurt væri um hvort hann hefði geðsveiflur á ákveðnum tímum, til dæmis hvort hann væri morgunfúll eða niðurdreginn/upprifinn á einhverjum ákveðnum tíma dags og hafi hann svaraði því neitandi. Honum hafi fundist þetta undarleg spurning og eftir á hafi hann séð að það gæti hugsanlega verið átt við til dæmis hvort hann væri að æsa sig óeðlilega við einhverjar aðstæður. Því geti kærandi svarað játandi, ýmsar fréttir úr pólitík og komment á samfélagsmiðlum geti æst hann verulega upp, jafnvel svo að líkamleg einkenni fylgja eins og hnútur í maga og æsingur ef þetta komi upp í samtölum við aðra.

Annað dæmi sé í tengslum við lið nr. 4.8 þar sem spurt sé hvort umsækjandi þurfi stöðuga örvun til að halda einbeitingu. Skoðunarlæknir hafi hakað þar við að svo væri ekki með eftirfarandi rökstuðningi: „Þarf ekki á því að halda“

Kærandi hafi svarað þessu neitandi, en hafi séð svo eftir á að þetta komi út eins og hann geti einbeitt sér án erfiðleika. Staðreyndin sé sú að utanaðkomandi örvun dugi ekki til að hann haldi einbeitingu, hann missi fókusinn eftir stuttan tíma sama hvað reynt sé. Þetta sé dæmigert fyrir ADD og komi meðal annars fram í vottorðum frá heimilislækni og VIRK.

Kærandi láti þetta nægja, en það séu fleiri spurningar sem þyrfti að taka fyrir með sama hætti. Með tilliti til þess sem komi fram hér að framan og í upphaflegri kæru, sé farið fram á að fá að endurtaka viðtalið. Að öðrum kosti verði athugasemdir kæranda teknar til greina við endurmat í ljósi þess að það muni bara einu stigi í andlegri færni til að upphaflega matið verði örorkulífeyrir en ekki örorkubætur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi 10 stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins geti hann samt verið metinn 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Málavextir séu þeir að við kært örorkumat hafi legið fyrir umsókn, dags. 31. október 2019, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, Starfsgetumat VIRK, dags. 18. september 2019, læknisvottorð, dags. 8. október 2019, og skoðunarskýrsla læknis, dags 4. desember 2019.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. desember 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um örorkulífeyri hafi verið hafnað með vísan til þess að skilyrði staðals um örorkulífeyri hafi ekki verið uppfyllt. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi hins vegar verið talin uppfyllt. Gildistími örorkumats hafi verið ákveðinn varanlegur frá og með 1. september 2019. Að beiðni kæranda hafi rökstuðningur verið veittur með bréfi, dags. 23. desember 2019.

Samkvæmt gögnum málsins, þ.m.t. skýrslu skoðunarlæknis, hafi kærandi verið í fullu starfi á almennum vinnumarkaði fram til ársins X þegar hann hafi hætt störfum vegna kulnunar. Næstu árin hafi atvinnuþátttaka hans verið mjög takmörkuð. Hann hafi búið við félagslega einangrun mjög lengi sem meðal annars stafi af kvíða og þunglyndi en auk þess hafi viðvarandi orkuleysi haft mjög hamlandi áhrif á allt hans líf. Kærandi hafi verið greindur með ADHD en taki við því viðeigandi lyf (Medikinet) sem sé ætlað að bæta athygli og einbeitingu fólks sem fái slíka greiningu, auk þess sem það sé notað við síþreytu.

Árið 2017 hafi kærandi farið í starfsendurhæfingu á vegum VIRK í formi sjúkraþjálfunar og sálfræðiviðtala. Samkvæmt starfsgetumati VIRK, dags. 18. september 2019, hafi kærandi sinnt starfsendurhæfingu vel og hafi farið í 50% starf sem hafi gengið vel, en sé að sögn ekki fær um að vera í hærra starfshlutfalli. Honum hafi verið vísað á Vinnumálastofnun vegna 50% starfs við hæfi sem og að leita áframhaldandi og viðeigandi úrræða innan heilbrigðiskerfisins.

Í niðurstöðu skoðunarlæknis komi fram að kærandi hafi setið í viðtali í 40 mínútur án þess að standa upp og hafi síðan staðið upp án þess að styðja sig við. Hann hafi góðar hreyfingar í öxlum og komi höndum auðveldlega aftur fyrir hnakka og aftur fyrir bak. Hann geti tekið tveggja kg lóð frá gólfi án vandkvæða, en þurfi að passa sig að beygja sig ekki í bakinu heldur vera með það beint. Hann haldi á tveggja kg lóði með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Hann nái í og handfjatli smápening með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Þá sé göngulag og gönguhraði eðlilegur og engin sjáanleg vandamál við að ganga í stiga. Eðlilegt sé að skoða ástand hans á ný eftir 3-4 ár.

Með hliðsjón af niðurstöðu skoðunarlæknis og öðrum gögnum málsins, hafi skerðing á starfsgetu kæranda vegna líkamlegra þátta verið metin til tíu stiga. Skerðing vegna andlegra þátta hafi verið metin til fimm stiga. Hann hafi því ekki uppfyllt skilyrði staðals um örorkulífeyri, sbr. reglugerð um örorkumat nr. 379/1999, en örorkustyrkur hafi verið ákveðinn.

Vegna athugasemda kæranda hafi Tryggingastofnun farið ítarlega yfir öll gögn málsins. Frásögn kæranda um uppvaxtarár, nám, atvinnuþátttöku og félagslega stöðu sé mjög greinargóð og varpi skýru ljósi á þann heilsufarsvanda sem hann glími við í dag. Að mati Tryggingastofnunar séu þær upplýsingar sem þar komi fram ekki þess eðlis að þær geti breytt niðurstöðu örorkumatsins. Þau atriði sem kærandi nefni og snerti sérstaklega mat á örorku hans í dag hafi verið skoðuð rækilega við meðferð málsins, þ.m.t. þau atriði sem snúi að getu hans til að einbeita sér.

Í lið 4.3 í örorkustaðli sé spurt hvort umsækjandi geti einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Í viðtali hjá skoðunarlækni hafi kærandi svarað því játandi og hafi skoðunarlæknir skráð þá athugasemd að hann lesi mest á netinu, auk þess sem hann lesi einnig mikið bækur en það fari aðeins inn um annað eyra og út um hitt. Í lið 4.6 sé spurt hvort einbeitingarskortur valdi því að umsækjandi taki ekki eftir eða gleymi hættu sem geti stafað af heimilistækjum eða öðru í umhverfinu. Í viðtali hafi kærandi svarað þessu neitandi og sé sú athugasemd skráð að hann sé með allt á minnislistum og að þetta hafi ekki skapað hættu.

Á grundvelli svara kæranda við þessum tveimur spurningum sem og athugasemda skoðunarlæknis hafi kærandi ekki fengið stig í örorkumatinu vegna þessara atriða.

Athugasemdir kæranda um að hann búi enn við skert vinnsluminni og einbeitingarskort, sem hamli honum í daglega lífinu og vinnu, breyti ekki þessari niðurstöðu. Þær staðfesti þó umsagnir fagaðila sem veitt hafi honum þjónustu undanfarin ár um að starfsgeta hans af þessum sökum sé ekki meiri en sem nemi 50% starfshlutfalli. Einkum sé þar vísað í ítarlegt starfsgetumat VIRK frá 18. september 2019. Umsögn skoðunarlæknis um heilsufar kæranda eftir viðtal og skoðun þann 4. desember 2019 sé í samræmi við það mat.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en ákvarða örorkustyrk þess í stað, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt lögum um almannatryggingar og reglugerð um örorkumat.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. mars 2020, kemur fram að stofnunin hafi skoðað framkomin gögn og telji ekki að þau breyti kærðu örorkumati.

Fyrst megi benda á að tilgangurinn með viðtali við skoðunarlækni sé ekki sá að umsækjandi svari ákveðnum spurningum eins og í prófi. Skoðunarlæknir eigi að svara spurningunum í staðlinum og nota það sem komi fram í viðtalinu, læknisvottorði og svörum við spurningalista til að komast að niðurstöðu. Svörin séu þannig fengin óbeint.

Vegna einstakra athugasemda kæranda vilji Tryggingastofnun taka eftirfarandi fram:

Varðandi spurningu 4.5. Hér sé spurningin hvort umsækjandi hafi haft einhver áhugamál en sinni þeim ekki lengur vegna sjúkdóms síns. Ekki komi fram að svo sé í tilviki kæranda og hann virðist enn sinna X og tölvunni.

Varðandi spurningu 4.3. Kærandi virðist geta einbeitt sér að lestri, bæði á netinu og í bókum. Úr skoðunarskýrslu: „Horfir á fréttir og fylgist með fjölmiðlum og er einnig að grúska eitthvað.“ Svör hans bendi eindregið til þess að athyglisbrestur komi ekki í veg fyrir að hann geti, eins og spurt sé um, einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt.

Varðandi spurningu 4.6. Hér sé svarið neitandi (og kærandi virðist samþykkja það) og ekkert bendi til að hann sé haldinn svo miklum einbeitingarskorti að honum stafi hætta af.

Varðandi spurningu 3.3. Hér sé verið að leita svara við því hvort einhver ákveðin einkenni hái umsækjanda alltaf sama tíma dags, til dæmis þunglyndi snemma morguns. Hann segist raunar hafa svarað neitandi á samsvarandi (en vægari) forsendum.

Varðandi spurningu 4.8. Hér sé spurningin hvort kærandi geti gert eitthvað án þess að staðið sé yfir honum og það sýnist kærandi vera fær um þó að hann kunni að hafa einbeitingarörðugleika.

Með vísan til framanritaðs sé Tryggingastofnun þeirrar skoðunar að ekki séu rök til að vefengja skoðunarskýrsluna og ekki sé ástæða til að endurtaka skoðun. Að öðru leyti vísar stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. desember 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og honum metinn varanlegur örorkustyrkur. Ágreiningur máls lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 8. október 2019. Í vottorðinu segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Kvíði

Lífsþreytuástand, útbruni

Bakverkur

Herpes zoster]“

Samkvæmt læknisvottorðinu er kærandi óvinnufær að hluta og fram kemur að búast megi við að færni hans aukist með tímanum. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„Töluvert rót í æsku en gekk vel námslega, kláraði stúdentinn og síðan X og vann við það í X ár. Kulnun í starfi og hætti en kláraði síðan X og vann við X […] í X ár. Minnkaði við sig vinnu vegna kulnunareinkenna og hætti vinnu árið X, ekki unnið síðan.

Hann segir líkamlega heilsu hafa verið lélega, slæmur í baki, mjóhrygg. Verið í sjúkraþjálfun, nuddi, yoga og vatnsleikfimi.

Hann var á Sertral við kvíða og þunglyndi sem honum fannst hafa hjálpað sér um tíma.

Nú alltaf þreyttur og orkulaus, örmögnun. Alla tíði átt erfitt með einbeitingu, gleymdi hlutum og vantaði skipulag. Fór nýlega í ADHD greiningu og byrjaður með Medikinet sem honum finnst hjálpa sér, hættur á Sertral.

[Kærandi] hefur verið í úrræðum VIRK frá september 2017 en fram kom eftir raunhæfimat læknis og sálfræðings alvarleg þunglyndiseinkenni, mikil þreyta og orkuleysi og aukinn kvíði í félagslegum aðstæðum.

TSf mjóbaki 7/11 2018:

TS lendhryggur:

Það er ekki áberandi lækkun á diskum lendhryggjarins. Það er nokkur nabbamyndun í liðbrúnum ventralt, sérstaklega í bilinu

L3-4. Það eru vissar nabbamyndanir í brúnum facettuliða, sérstaklega neðan til í lendhryggnum. Þrengir þó ekki marktækt að rótargöngum. Það er í mesta falli væg afturbungun á diskum og því síður discus prolapse. Hvergi þrengir augljóslega að mænusekknum.“

Um læknisskoðun kæranda segir:

„[…] Stirður við hreyfingar í hægri öxl abducerar 90°.

Aumir vöðvar hægra megin í bakinu og ofurviðkvæmni. ristilútbrot á kvið h. megin.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð D, dags. 3. janúar 2018, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Þar koma fram sjúkdómsgreiningarnar mixed anxiety and depressive disorder og bakverkur. Í sjúkrasögu segir meðal annars:

„Depurð og kvíði lengi. Einangrað sig. Lýsir kulnun í starfi […] Síðan framtakslítill, vanvirkur og engin sérstök áhugamál. Gleðileysi, engin tilhlökkun. […]“

Um almennt heilsufar og sjúkrasögu kæranda að öðru leyti segir:

„Lengi fundið f verk í mjóbaki. Erfitt með bogur. […]“

Við örorkumatið lá fyrir starfsgetumat VIRK, dags 18. september 2019. Þar kemur fram að kærandi hafi verið í starfsendurhæfingu í 21 mánuð. Hann sé nú í 50% starfi á X og telji sig ekki ráða við hærra starfshlutfall. Í starfsgetumatinu kemur einnig fram að líkamlegir þættir hafi talsverð áhrif á færni kæranda, nánar tiltekið orkuleysi, þreyta og bakvandi. Þá segir að andlegir þættir hafi einnig talsverð áhrif á færni hans og er þar tilgreint að um sé að ræða afleiðingar mikillar streitu, kvíða og depurðar. Í samantekt og áliti læknis segir meðal annars:

„Hefur verið kvíðinn og framtakslítill. [Kærandi] hefur engin áhugamál og er framtakslítill og þjakaður af kvíða. […] Í skýrslu sjúkraþjálfara frá því í febrúar 2019 kemur fram að framgangur meðferðar hefur verið hægur en þó stöðugur. Er alla jafna ekki jafn verkjaður á mjóbakssvæði og áður. Þarf meira til að framkalla verkina, líður lengri tími á milli þess sem hann er slæmur. Er fljótari að jafna sig þegar verkirnir koma. Líkamsvitund og beiting er orðin betri. […] Einstaklingur, ráðgjafi og rýniteymi sammála um að komið sé að lokum starfsendurhæfingar og er undirritaður því sammála. […]

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd. Raunhæft er talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða kulnun, þunglyndi, kvíða, ADHD, bakvandamál og úthaldsleysi. Í spurningalistanum svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hann fái þreytuverki í bak ef hann sitji lengi, hann þurfi að standa oft upp til að slá á þá. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi erfitt með að beygja sig og krjúpa þannig að hann eigi mjög erfitt með að vinna eitthvað sem krefjist þess að beygja sig eða krjúpa vegna bakverkja, sérstaklega ef það krefjist snúnings á hrygg. Honum sortni fyrir augum þegar hann standi upp eftir að hafa bograð. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum við að ganga þannig að hann fái þreytuverki í bak við göngu og þess vegna hafi hann ekki úthald í meira en um einnar klukkustundar göngu. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða þannig að hann sé með þunglyndi, kvíða, lítinn lífsvilja og ADHD. Í athugasemdum segir að hann hafi hætt að vinna vegna kulnunar sem hafi haft langan aðdraganda. Eftir það hafi hann aðallega verið bara heima í sinnuleysi en hafi þó tekið einstök smáverkefni sem hann hafi unnið heima. Á árinu 2017 hafi hann farið til heimilislæknis og verið settur á þunglyndislyf. Í framhaldinu hafi hann farið í endurhæfingu hjá VIRK í 21 mánuð. Í febrúar 2019 hafi hann verið greindur með ADHD og hafi verið á lyfjum við því. Hann hafi lítið líkamlegt úthald, bæði vegna bakvandamála og lítils þols gagnvart streitu. Kærandi hafi lengi verið með verki í mjóhrygg sem leiði stundum niður í vinstri fót. Hann sé einnig með spennuverk í hálsi og hnakka sem á tímabilum hafi valdið svima. Auk þess hafi hann einnig lengi verið með verk/ofurviðkvæmni hægra megin í brjóstbaki sem versni til dæmis ef hann þurfi að bogra eitthvað við það sem hann sé að gera, eða á göngu í um eina klukkustund. Kærandi hafi fengið ristil fyrir um X vikum. Verkurinn frá honum sé á sama stað og brjóstbaksverkurinn og lýsi sér svipað, nema heldur verri og með meiri brunatilfinningu á meðan útbrotin hafi verið að koma fram.

Skýrsla skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. desember 2019. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið án óþæginda nema í 30 mínútur og að hann geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir andlega færniskerðingu kæranda þannig að kærandi kjósi að vera einn sex tíma á dag eða lengur. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Situr í viðtali í 40 mín án þess að standa upp en er aðeins farinn að finna í baki að sögn. Stendur upp úr stólnum án þess að styðja sig við. Góðar hreyfingar í öxlum og kemur höndum auðveldlegar aftur fyrir hnakka og aftur fyrir bak. Nær í 2 kg lóð frá gólfi án vandkvæða, en þarf að passa sig að beygja sig ekki í bakinu heldur er með það beint. Heldur á 2kg lóði með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Nær í og handfjatlar smápening með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Eðlilgegt göngulag og gönguhraði. Ekki vandamál við að ganga í stiga og það því ekki testað í viðtali.“

Dæmigerðum degi kæranda er lýst svo skýrslunni:

„Vaknar um kl 8-9 á morgnana. Aðal metnaður að sofa vel og á réttum tíma. Þokkalegt lag komið nú á svefn eftir að hann hætti að vinna X. Er yfir daginn að gaufast heima.

Það gengur þokkalega með heimilisstörf. Erfitt að beygja sig eins og að skúra. Einnig erfitt með að vinda upp á sig. Þá eins og verkir í bak. Fékk ristil […]. Fékk útbrot hægra megin í brjóstbaki og fram í hægra megin í rifjaboga. Klárar heimlilsstörf þar sem að hann þarf ekki að beygja sig við. Klárar að standa við að elda en þarf að vera helst á vera á ferðinni. Leggur sig x1-2 á dag til að jafna út bakverki. Fer í göngur en eitthvað legið niður eftir að hann fékk ristil. Er með prógram frá sjúkraþjalfara sem að hann gerir daglega heima ca 20-30 mín. Gerir það stundum tvívegis yfir daginn. Fer í göngutúra ca 30 mín er farinn að finna fyrir verkjum í brjóstbaki. Viðkvæmt fyrir snertingu. Er með tölvu og les talsvert þar. Er greindur með AHDH og kominn á Medikinet. Gengið betur að koma sér að verki. Les yfir daginn en átt í erfileikum með að muna í skóla ,en þrælaði sér í gegnum þetta. Hittir fáa. […]. Dottinn út úr öllu. Líður illa í fjölmenni og funkerar illa í hóp. Var áður á þunglyndislyfjum áður en hann fór á ADHD lyf.Hætti á þeim þunglyndislyfjum ( sertral ). Ekki í neinum félagsstörfum .Les blöðin og bækur og fer á netið. Fer í búðina og kaupir inn. Notar talsvert tölvuna. Horfir á fréttir og fylgist með fjölmiðlum og er einnig að grúska eitthvað. Fer að sofa um kl 23-24. Allt í lagi að sofna og það gengur nokkuð vel.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

“Kvíði og þunglyndi. Sá lítið fyrir sér þegar að hann hætti í vinnu X. Var næstum búinn að gefast upp. Framtaksleysi og engin áhugamál. Alltaf þreyttur og orkulaus. Erfitt með einbeitingu , verið að gleyma hlutum og vatnað skipulag. Verið greindur með ADHD og kominn á Medikinet sem að honum finnst vera að hjálpa sér. Lýsir kvíða en betri eftir að hann var í Virk“

Í athugasemdum segir í skoðunarskýrslunni.

„Verið í Virk og útskrift nú í byrjun oktober 2019. Var kominn í 50% starf í afleysingu í X í B og kláraði það en afleysingin tók enda og ekki fundið ´ser neitt annað.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í 30 mínútur. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að setjast. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til tíu stiga samtals. Samkvæmt skoðunarskýrslu er andleg færniskerðing kæranda svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi kjósi að vera einn sex tíma á dag eða lengur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skoðunarskýrslu er því andleg færniskerðing kæranda metin til fimm stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga  um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti í skoðunarskýrslu varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Að mati skoðunarlæknis leiðir hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða ekki til óviðeigandi eða truflandi hegðunar. Í rökstuðningi fyrir þessari niðurstöðu segir að kærandi sé með jafnaðargeð en stundum sé hann með stuttan þráð en ekki óviðeigandi hegðun. Hann eigi til að hreyta í fólk inn á milli en sé að reyna að passa þetta. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreint gefi til kynna að hugaræsingur vegna hversdaglegra atburða leiði til óviðeigandi eða truflandi hegðunar. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig samkvæmt örorkustaðli til viðbótar vegna andlegrar færniskerðingar. Að mati skoðunarlæknis kemur geðrænt ástand kæranda ekki í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann naut áður. Í rökstuðningi fyrir þessari niðurstöðu segir að áhugamál séu X eftir að hann flutti til B og tölvur. Í lýsingu skoðunarlæknis á heilsufars- og sjúkrasögu segir að kærandi eigi ekki nein áhugamál. Einnig kemur það fram í læknisvottorði D, dags. 3. janúar 2018, og starfsgetumati VIRK, dags. 18. september 2019. Ef fallist yrði á að geðrænt ástand komi í veg fyrir að kærandi sinni áhugamálum, sem hann hafi notið áður, fengi kærandi eitt stig samkvæmt örorkustaðli til viðbótar vegna andlegrar færniskerðingar. Kærandi gæti því fengið samtals sjö stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllt læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að það er misræmi í skoðunarskýrslu og einnig á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna sem fyrir liggja varðandi mat á andlegri færni kæranda. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hann uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. desember 2019, um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                              Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta