Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 318/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 318/2022

Miðvikudaginn 21. september 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. júní 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 39.367 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. júní 2022. Með bréfi, dags. 21. júní 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. júlí 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júlí 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. júlí 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júlí 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins á tímabilinu janúar til ágúst 2021. Í janúar hafi kærandi gert tekjuáætlun samkvæmt bestu vitund þar sem hún hafi áætlað 600.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur á mánuði út árið. Frá þeim tíma hafi hún fengið greiddar 7.930 kr. í ellilífeyri á mánuði eða samtals 63.440 kr., þar af hafi 24.073 kr. verið greiddar í staðgreiðslu þegar greiðslur hafi verið stöðvaðar í ágúst 2021.

Fyrri part árs 2021 hafi kærandi gert sér grein fyrir því að vegna hækkana á lífeyrisgreiðslum frá lífeyrissjóði, sem hún hafi talið vera 600.000 kr. á mánuði, myndi hún líklega ná upp í hámark til þess að eiga rétt á greiðslu eillilífeyris frá Tryggingastofnun á árinu. Í júní hafi kærandi sent ábendingu til Tryggingastofnunar vegna þess en hún hafi fengið óskiljanlegt svar til baka og hafi því ekkert gert í málinu.

Í ágúst 2021 hafi kærandi fengið bréf frá Tryggingastofnun um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti. Í raun hafi það verið tilkynning um niðurfellingu greiðslna og þar hafi henni verið tilkynnt að hún skuldaði 39.367 kr. vegna yfirstandandi árs, eða jafnháa greiðslu og hún hafi fengið greidda frá Tryggingastofnun allan tímann þegar búið hafi verið að draga af staðgreiðslu. Kæranda hafi fundist sérkennilegt að fella niður greiðslur áður en hún hafi náð hámarksgreiðslu frá lífeyrissjóði. Í samtali við starfsmann Tryggingastofnunar hafi henni verið ráðlagt að „láta þetta liggja svona“ til ársins 2022 og hafi starfsmaðurinn jafnframt upplýst kæranda um að hámark lífeyristekna væri 616.000 kr. á mánuði. Í maí 2022 hafi kærandi fengið tilkynningu um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna. Þar hafi komið fram að hún skuldaði þær greiðslur sem hún hafi fengið frá stofnuninni fram til ágústmánaðar 2021. Með gögnunum hafi fylgt skjal þar sem komi fram að öll réttindi séu á núlli.

Svo virðist sem að Tyggingastofnun hafi litið á framtíðartekjur kæranda sem viðmiðun í endurreikningnum, en stofnunin hafi til viðmiðunar notað meðalgreiðslur allt árið 2021 og hafi fellt niður greiðslur til kæranda þann tíma sem hún hafi verið undir hámarkstekjuviðmiðunum. Við það sé kærandi ekki sátt og telji að rétt skuli vera rétt og óski eftir leiðréttingu á því.

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. júlí 2022, komi fram að í greinargerð Tryggingastofnunar séu misvísandi upplýsingar og sumar þeirra verði taldar upp.

Þar sem fjallað sé um lög og reglur segi í greinargerðinni „en þar kemur fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.“

Hvergi í greinargerðinni sé nefnt að kærandi hafi í júní/júlí sent Tryggingastofnun ábendingu um að hún hafi talið sig vera að komast í hámark tekna frá lífeyrissjóði til að njóta lífeyris frá stofnuninni. Kærandi hafi að vísu fengið óskiljanlegt svar til baka og hafi ekkert aðhafst frekar. Kærandi hafi ekki fundið gögn á „Mínum síðum“ sem sýni þessi samskipti.

Í greinargerðinni komi fram „Á árinu var kærandi með ellilífeyri allt árið.“ Þetta passi ekki þar sem hún hafi fengið greiðslur í átta mánuði á árinu.

Í greinargerðinni segi „Ástæða þess að endurkrafa myndaðist er að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2022 vegna tekjuársins 2021, kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáæltun gerði ráð fyrir.“

Í ágúst 2021 hafi Tryggingastofnun breytt tekjuáætlun kæranda í 7.582.701 kr. sem hafi reynst hærri en lífeyrissjóðstekjur hennar allt árið 2021, en þær hafi verið 7.504.956 kr. Kærandi hafi ekki gert athugsemdir við þetta þar sem hún hafi talið sig vera komna í hámark eða vera nálægt því. Þess vegna hafi hún ekki getað séð að það skipti máli hvað stæði í þessari tekjuáætlun því að henni hafi einnig verið tilkynnt um að greiðslur hafi verið stöðvaðar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatrygginar nr. 100/2007 segir að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár.“

Þetta orðalag sé hreint og klárt bull. Það liggi í hlutarins eðli að bótagreiðslur hefjist á mismunandi árstíma og að sama skapi hætti bótagreiðslur einnig á mismunandi árstíma. Í tilviki kæranda hafi bótagreiðsluárið verið átta mánuðir, enda standi í greinargerðinni „skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bóta samstundis um breytinguna.“

Í greinargerðinni segi: „Með vísan til ofangreinds þá ber Tryggingastofnun að dreifa tekjum kæranda jafnt á alla 12 mánuði ársins eða alla þá mánuði sem kærandi var á greiðslum frá stofnuninni.“ Kærandi sjái ekki betur en að þessi málsgrein styðji mál hennar um að Tryggingastofnun geti ekki notað framtíðartekjur hennar, þ.e. frá september til desember 2021, til að þurrka út allar greiðslur ársins.

Kærandi telji enn að niðurstaða Tryggingastofnunar sé óásættanleg. Kærandi hafi verið undir tekjumörkum varðandi ellilífeyri fyrri part ársins 2021, að vísu sé óljóst hver tekjumörkin hafi verið, hún hafi talið þau vera 600.000 kr. Kærandi hafi áður verið búin að sundurliða tekjurnar frá mánuði til mánaðar svo að með réttar upplýsingar ætti að vera einfalt reikningsdæmi hvenær stöðva hafi átt greiðslur til hennar. Kærandi gæti mögulega skuldað einhverjar krónur. Réttlætiskennd kæranda segi henni að stofnunin hafi ekki rétt fyrir sér í þessu máli.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur. tekjutengdra bóta ársins 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2021 hafi kærandi verið með ellilífeyri allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 39.367 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2022 vegna tekjuársins 2021 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi skilaði inn tekjuáætlun þann 12. janúar 2021 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 7.200.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 30.000 kr. sameiginlegar tekjur þeirra hjóna í vexti af innistæðum. Tryggingastofnun hafi reiknað bætur kæranda fyrir janúarmánuð 2021 út frá tekjuáætlun sem hafi hljóðað upp á 7.478.604 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 214.752 kr. í launatekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna 30.000 kr. í vexti af innistæðum. Tryggingastofnun hafi samþykkt nýja áætlun með bréfi, dags. 25. janúar 2021, og þar hafi komið fram að fyrir lægi inneign að fjárhæð 4.921 kr. Kæranda hafi verið greitt samkvæmt þessari áætlun út ágúst 2021.

Við reglulegt eftirlit Tryggingastofnunar í ágúst hafi komið í ljós að misræmi hafi verið á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann 12. ágúst 2021 þar sem henni hafi verið tilkynnt um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Í því sama bréfi hafi henni verið tilkynnt um að búið væri að áætla kröfu að fjárhæð 39.367 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Komið hafi fram að þessi áætlaða skuld yrði ekki innheimt fyrr en uppgjör hefði farið fram.

Í hinni nýju tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun hafi verið gert ráð fyrir því að kærandi hefði 7.582.701 kr. í lífeyrissjóðstekjur en sömu vaxtatekjur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi hún fengið greitt á grundvelli hennar út árið 2021.

Við bótauppgjör ársins 2021 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 7.504.956 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 4.853 kr. úr séreignarsjóði og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 42.528 kr. í vexti og verðbætur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafði fengið greitt á árinu 63.440 kr. en hafi ekki átt nein réttindi. Þetta hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 39.367 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og áður myndaðrar kröfu.

Kærandi sé ósátt við að Tryggingastofnun skuli fella niður greiðslur til hennar þann tíma sem hún hafi verið undir hámarkstekjuviðmiðum, þ.e. að stofnunin hafi notað meðalgreiðslur allt árið 2021.

Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segi að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár sé almanaksár.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segi að komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið sé um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar sem leiði til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hafi áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna, skuli stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bótaþega samstundis um breytinguna. Telji bótaþegi upplýsingarnar ekki réttar skuli hann leggja fram gögn því til staðfestingar.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segi að þegar nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr., liggi fyrir skuli jafna áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði bótagreiðsluársins og greiða bætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir séu af árinu. Ef í ljós komi að bætur hafi verið ofgreiddar komi ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað. Hafi bætur verið vangreiddar skuli bótaþega greitt það sem upp á vanti.

Þá segi í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að ef um atvinnutekjur sé að ræða skuli Tryggingastofnun við endurreikning bótafjárhæða gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun að dreifa tekjum kæranda jafnt á alla 12 mánuði ársins eða alla þá mánuði sem kærandi hafi verið á greiðslum frá stofnuninni.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2021. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skal leggja til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. sömu laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar, ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags kemur fram að þegar nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr., liggi fyrir skuli jafna áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði bótagreiðsluársins og greiða bætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir séu af árinu. Komi í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar komi ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað. Hafi bætur verið vangreiddar skuli bótaþega greitt það sem upp á vanti.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Tryggingastofnun ráð fyrir að á árinu 2021 fengi kærandi 7.478.604 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 214.752 kr. í launatekjur og 30.000 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka. Kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun 12. janúar 2021 þar sem hún gerði ráð fyrir að vera með 7.200.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, óbreyttum fjármagnstekjum og engum launatekjum á árinu. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í ágúst kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust hærri á árinu en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun 12. ágúst 2021 þar sem gert var ráð fyrir 7.582.701 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sömu vaxtatekjum. Jafnframt var kærandi upplýst um áætlaða kröfu vegna tímabilsins janúar til og með ágúst að fjárhæð 39.367 kr. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og var niðurstaðan sú að kærandi átti ekki rétt á frekari greiðslum sökum tekna úr lífeyrissjóði.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 7.504.956 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 4.853 kr. úr séreignarsjóði og 42.528 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Það var niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2021 að kærandi hafi ekki átt rétt á neinum greiðslum á árinu 2021. Samtals reyndist ofgreiðsla ársins vera 39.367 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera hærri á árinu 2021 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun sem leiddu til kærðrar ofgreiðslukröfu. Eins og áður hefur komið fram eru lífeyrissjóðstekjur tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Samkvæmt a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1332/2020 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2021, var efra frítekjumark 7.394.213 kr. á ári vegna ellilífeyris og því átti kærandi ekki rétt á neinum greiðslum á árinu.

Ágreiningur málsins varðar meðhöndlun Tryggingastofnunar á lífeyrissjóðstekjum kæranda. Kærandi gerir þá athugasemdir að stofnunin hafi ekki haft heimild til þess að dreifa lífeyrissjóðstekjum hennar á alla mánuði ársins þar sem hún hafi einungis fengið greiðslur í átta mánuði á árinu.

Ekki er fallist á framangreinda málsástæðu kæranda, enda kemur fram í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að til grundvallar bótaútreikningi skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluárið sé almanaksár. Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda ellilífeyri á árinu 2021 þar til nýjar tekjupplýsingar lágu fyrir í ágúst sem leiddu til þess að hún missti rétt sinn til greiðslna sökum tekna.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta