Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 135/2012

Föstudagurinn 22. mars 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 17. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. júlí 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 28. ágúst 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. ágúst 2012, og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 15. október 2012.

Með bréfi, dags. 19. október 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna greinargerðar kæranda. Með tölvubréfi, dags. 19. desember 2012, tilkynnti umboðsmaður skuldara að embættið teldi ekki ástæðu til frekari athugasemda af þess hálfu í málinu.

I. Málsatvik

Kærandi er 63 ára og býr í einbýlishúsi að B götu í sveitarfélaginu C. Umrædd fasteign var í eigu kæranda en var seld á uppboði þann 23. mars 2012. Samkvæmt opinberum upplýsingum er Íbúðalánasjóður skráður eigandi fasteignarinnar.

Heildarskuldir kæranda nema 37.336.331 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2012 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2007, 2009 og 2010, aðallega í tengslum við fasteigna- og bifreiðakaup.

Heildarskuldir kæranda skiptast þannig: Í fyrsta lagi lán hjá Festu lífeyrissjóði að fjárhæð 7.461.544 krónur. Í öðru lagi lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 2.179.371 krónur. Í þriðja lagi lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 3.765.074 krónur. Í fjórða lagi þrír bílasamningar hjá Landsbankanum samtals að fjárhæð 5.839.532 krónur. Í fimmta lagi lán hjá Arion banka að fjárhæð 6.172.264 krónur. Í sjötta lagi lán hjá Arion banka að fjárhæð 1.617.802 krónur og í sjöunda lagi skuldar kærandi Húsamiðjunni þrjár kröfur samtals að fjárhæð 4.080.448 krónur. Í áttunda lagi skuldar kærandi Landsbankanum og Arion banka yfirdrætti samtals 1.425.798 krónur. Í níunda lagi skuldar kærandi Valitor og Íslandsbanka vegna kreditkorta samtals 2.190.021 krónu. Í tíunda lagi skuldar kærandi HS Veitum ehf. samtals 1.104.022 krónur. Aðrar skuldir kæranda eru samtals 1.500.455 krónur.

Eignir kæranda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru bifreiðin X að verðmæti 1.180.980, bifreiðin Y að verðmæti 1 króna, verðbréf í félaginu Vitavörðurinn ehf. að verðmæti 1.039.500 krónur og bankainnistæður alls 80.982 krónur. Eignir kæranda nema því alls 2.301.463 krónum.

Tekjur kæranda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2007 voru mánaðarlegar tekjur að meðaltali 118.798 krónur eftir frádrátt skatts, 333.227 krónur árið 2008, 176.612 krónur árið 2009, 174.929 krónur árið 2010 og 251.261 króna árið 2011. Samkvæmt umsókn kæranda um greiðsluaðlögun voru mánaðarlegar útborgaðar meðaltekjur 215.403 krónur árið 2012.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun þann 24. febrúar 2012. Í greinargerð kæranda með umsókn um greiðsluaðlögun kemur fram að fjárhagserfiðleika megi rekja til þess að kærandi lenti í alvarlegu slysi árið 2001. Kærandi sé öryki eftir slysið og greiðsluerfiðleikar hafi byrjað í kjölfar þess. Þá hafi bílalánin árið 2008 hækkað um meira en helming og íbúðalán farið í vanskil. Í óundirritaðri greinargerð sem einnig er meðal gagna málsins kemur fram að ástæða greiðsluerfiðleika hafi verið að rekstur á leigubíl hafi gengið illa og á meðan tekjur hafi dregist saman hafi skuldir hækkað. Einnig hafi almennar hækkanir valdið því að endar ná ekki saman í heimilisrekstrinum. Vankunnáttu í fjármálum sé einnig um að kenna og hafi vanskil aukist án þess að tekist hafi að ráða fram úr því.

Með bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 6. júlí 2012, var umsókn kæranda synjað með vísan til b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara hafi verið óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar þar sem kærandi tókst á hendur skuldbindingar sem voru umfram eðlilega áhættutöku, hún hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru, dags. 15. október 2012, er synjun umboðsmanns skuldara kærð með vísan til þess að ekki hafi verið tekið tillit til gagna málsins. Í greinargerð kæranda kemur fram að heimili kæranda sé 116 m² en ekki 220 m² eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Húsið hafi verið keypt árið í september 2003 og lán vegna þess verið í skilum 2009.

Bifreiðin X sem hafi verið keypt í maí 2004 sé seld. Bifreiðin Z var keypt í júlí 2007 og Þ sem keypt hafi verið í júlí 2007 séu í ábyrgð kæranda.

Hvað varðar kaup í D þá hafi fasteignin upphaflega verið keypt árið 1998 af níu systkinum. Sex systkini seldu hlut sinn árið 2006. Kærandi tók lán hjá Festi lífeyrissjóði árið 2006 að fjárhæð 4.182.000 krónur ásamt tveimur systrum sínum sem þær greiddu af saman. Húsið var leigt og lánið í skilum árið 2009.

Kærandi fékk greitt út úr slysi árið 2004 og notaði þá fjármuni til að borga SPK skuld vegna kaupa á B götu nr. 16. Kærandi var í skilum til ársins 2009.

Kærandi er ekki sammála að vankunnátta hafi komið henni í vandræði. Það hafi verið vegna kreppunnar sem lán hækkuðu úr öllu valdi og bílalánin margfölduðust. Kærandi telur að það hafi ekki verið sér að kenna og að hún væri enn í skilum ef kreppan hefði ekki komið til. Kærandi hefur ekkert lán tekið síðan í júlí 2007. Ákvörðun umboðsmanns skuldara sé ónákvæm og dagsetningar séu rangar. Það sýni að ekki hafi verið haft samband við kæranda áður en beiðni um greiðsluaðlögun var hafnað.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 6. júlí 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi sem tíundaðar séu í fimm liðum ákvæðisins. Í 2. mgr. sömu greinar sé til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því sé sérstaklega litið til þeirra atriða sem talin séu upp í a–g-liðum ákvæðisins sem öll eiga það sameiginlegt að það geti ekki verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans sé að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Á grundvelli b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma sem skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og ef skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Af skuldayfirliti með umsókn kæranda hafi mátt ráða að hún hafi stofnað til allnokkurra skuldbindinga á síðustu árum. Til stærstu skuldbindinganna hafi verið stofnað til á árunum 2007, 2009 og 2010.

Samkvæmt skattframtali 2008 fyrir tekjuárið 2007 hafi eftirstöðvar lána kæranda verið 19.502.263 krónur og kærandi greitt sama ár 1.092.940 krónur af lánum sínum eða um 91.017 krónur á mánuði. Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir skatta árið 2007 hafi samkvæmt skattframtali verið 118.798 krónur. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður kæranda numið að lágmarki 70.400 krónur miðað við vísitölureikuð neysluviðmið fyrir árið 2007. Af þessu megi ráða að tekjur kæranda hafi ekki dugað til að afborgunar umræddra lána og brýnustu framfærslu. Þrátt fyrir það hafi kærandi tekið tvö lán árið 2007. Annars vegar bílasamning að fjárhæð 1.966.839 krónur vegna bifreiðarinnar X og hins vegar bílasamning að fjárhæð 2.911.090 krónur vegna bifreiðarinnar Z.

Samkvæmt skattframtali 2010 fyrir tekjuárið 2009 hafi eftirstöðvar skulda vegna lána kæranda samtals numið 24.560.718 krónum og kærandi greitt sama ár samtals 1.315.926 krónur af lánum sínum eða um 109.000 krónur á mánuði. Sú fjárhæð taki ekki mið af framangreindum bílasamningum og megi því gera ráð fyrir að mánaðarlegar afborganir kæranda hafi verið talsvert hærri. Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir skatta árið 2009 hafi samkvæmt skattframtali verið 176.612 krónur. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir árið 2009 hafi framfærslukostnaður kæranda numið að lágmarki 122.800 krónum. Af þessu megi ráða að tekjur kæranda hafi hvorki dugað til afborgunar lána né brýnustu framfærslu. Þrátt fyrir það hafi kærandi stofnað til nokkurra skuldbindinga árið 2009 sem samanlagt námu 4.467.112 krónum. Um hafi verið að ræða tvö lán hjá Landsbankanum samtals að fjárhæð 3.949.300 krónur og bílasamning að fjárhæð 517.812 krónur, samtals 4.467.112 krónur.

Samkvæmt skattframtali 2011 fyrir tekjuárið 2010 hafi eftirstöðvar skulda vegna íbúðalána kæranda numið samtals 27.399.750 krónum og kærandi greitt um það bil 1.500.000 krónur eða 125.000 krónur af lánunum árið 2010. Fjárhæðin taki ekki mið af lántökum árin 2007 og 2009 en að teknu tilliti til mánaðarlegra afborgana þeirra lána megi ætla að mánaðarlegar greiðslur kæranda hafi verið töluvert hærri. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir árið 2010 hafi framfærsla kæranda numið að lágmarki 136.000 krónum. Af þessu megi ráða að tekjur kæranda hafi ekki dugað fyrir mánaðarlegum greiðslum af umræddum lánum og framfærslukostnaði en kærandi virðist samkvæmt opinberum gögnum þrátt fyrir það hafa stofnað til enn frekari skuldbindinga árið 2010 með töku lífeyrissjóðsláns að fjárhæð 6.306.079 krónur auk þess að takast á hendur ábyrgðaskuldbindingu að fjárhæð 1.429.433 krónur sem þegar sé komin í vanskil.

Með andmælabréfi, dags. 7. júní 2012, óskaði umboðsmaður skuldara eftir skýringum varðandi lántökur og ábyrgðarskuldbindingar kæranda sem og gögnum sem sýndu fram á að kærandi hefði ekki tekið áhættu, hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða stofnað til skuldbindinga þrátt fyrir að tekjur hafi ekki nægt til að standa straum af persónulegum skuldum.

Í svari kæranda, dags. 15. júní 2012, komi fram að kærandi og dóttir hennar hafi verið með sameiginlega greiðsluþjónustu hjá þáverandi Sparisjóði Keflavíkur sem skýri greiðslugetu hennar. Hvað varði lántökur vegna bifreiða komi fram að önnur bifreiðin hafi verið keypt sökum þess að hún hafi eytt minna eldsneyti, en hina bifreiðina hugðist kærandi selja í staðinn. Úr þeirri fyrirætlun hafi ekki orðið þar sem efnahagskreppan skall á og erfitt hafi reynst að selja umrædda bifreið. Kærandi hafi því setið uppi með báðar bifreiðarnar. Að auki hafi komið fram í svari kæranda að kaup á fasteigninni D hafi verið gerð með tveimur systkinum sínum og til þess hafi kærandi tekið 4.000.000 króna lán árið 2010 en samkvæmt opinberum gögnum hafi kærandi þá þegar verið komin í vanskil.

Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að kærandi hafi ekki getað mætt kostnaði vegna framfærslu og skuldbindinga sinna sem hún hafi tekist á hendur undanfarin ár miðað við tekjur þegar til umræddra skuldbindinga var stofnað. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið fjárhagslega aðstoð frá dóttur sinni liggi fyrir að vanskil hafi verið til staðar þegar kærandi tókst á hendur frekari fjárskuldbindingar. Að mati umboðsmanns skuldara voru þær skuldbindingar umfram eðlilega áhættutöku og hafi kærandi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Óhæfilegt hafi því verið að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 28. ágúst 2012, kemur fram að í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun á grundvelli þeirra ástæðna sem tilgreindar séu í b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., sé umboðsmanni skuldara lögskylt að horfa sérstaklega til þeirra sjónarmiða sem tilgreind séu í stafliðum ákvæðisins. Niðurstaða umboðsmanns skuldara sé að kærandi hafi tekist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem litlar eða engar líkur hafi verið á að hún gæti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma er hún tókst á hendur nýjar fjárhagsskuldbindingar. Þegar þannig hátti til hafi niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála jafnan verið sú að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun, sbr. meðal annars úrskurði nefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011.

Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt getur þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar er byggð á.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til b- og c-liða. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt b-lið skal við mat á því taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, og samkvæmt c-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist fyrst og fremst á því kærandi hafi stofnað til umtalsverðrar skuldbindinga sem hafi ekki verið í neinu samræmi við þá greiðslugetu sem kærandi þá hafði samkvæmt uppgefnum tekjum. Með þessari skuldasöfnun hafi kærandi því tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli þessu ákvæði laganna ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2007–2010, en kærandi stofnaði til nokkurra skuldbindinga á þessum árum.

Að mati kærunefndarinnar þykir ljóst að nettótekjur kæranda, sérstaklega árin 2007–2010, voru lágar miðað við þær skuldbindingar sem hún tókst á hendur á sama tímabili eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þegar árið 2007 stóðu laun kæranda ekki undir afborgunum af íbúðaláni og framfærslu en á þessu tímabili gekkst kærandi undir nýjar skuldbindingar með gerð tveggja bílasamninga. Þrátt fyrir að greiðslubyrði kæranda vegna þessara samninga sé ekki að finna í gögnum málsins, þykir ljóst að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og eldri skuldbindinga, að greiðslubyrði kæranda var meiri en hún gat staðið undir.

Fram hefur komið að kærandi hafi notið aðstoðar við fjárhagsskuldbindingar sínar og skýri það meðal annars greiðslugetu kæranda. Að mati kærunefndarinnar hefur þetta ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls enda ljóst samkvæmt skuldayfirliti kæranda að hún var þegar komin í talsverð vanskil með skuldbindingar sínar snemma árs 2008.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Með vísan til þess að á sama tíma og kærandi tók á sig veigamiklar skuldbindingar voru tekjur hennar lægri en afborganir af lánum og framfærslukostnaður er hafið yfir vafa að skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge.

Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta