Mál nr. 181/2012
Mánudagurinn 18. mars 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður ad hoc, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 25. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. september 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 26. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. október 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 10. október 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Kærandi er 42 ára gamall. Hann er fráskilinn, þriggja barna faðir og greiðir meðlag með börnum sínum sem eru á aldrinum fimm til fjórtán ára. Kærandi býr í eigin húsnæði að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C. Kærandi er hæstaréttarlögmaður og starfar sem slíkur hjá eigin fyrirtæki, D, auk þess sem hann er að eigin sögn sjálfstætt starfandi lögmaður. Útborguð mánaðarleg laun hans samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra eru 349.803 krónur.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 411.479.639 krónur. Auk þess skuldar kærandi 23.505.016 krónur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingu vegna láns til X ehf. sem var í hans eigu en er nú gjaldþrota. Allar skuldir kæranda eru innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Samkvæmt skýringum kæranda verður ráðið að rúmlega 40% skulda hans séu tilkomnar vegna fjárfestinga í stofnfjárbréfum í SPRON og viðskiptum sem tengjast einkahlutafélögum tengdum kæranda, þ.e. Y ehf., Z ehf. á eldri kennitölu og K ehf. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005–2008.
Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 29. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. september 2012 var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar. Aðalkrafa kæranda sé að ákvörðun embættis umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að embætti umboðsmanns skuldara verði gert að samþykkja umsókn kæranda. Til vara er þess krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og embættinu gert að taka umsóknina til meðferðar á ný.
Kærandi byggir á því að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn hans um greiðsluaðlögun hafi verið röng. Í ákvörðun umboðsmanns komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana og að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Umboðsmaður skuldara byggi á því að með því að kærandi hafi þegið greiðslur inn á reikning sinn á tilteknu tímabili og ráðstafað aftur hafi hann brotið gegn umræddu ákvæði. Kærandi hafnar því að ofangreint sé nægilegur grundvöllur til synjunar.
Kærandi bendir á að í lögskýringargögnum með f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé ekki fjallað sérstaklega um ákvæðið. Hins vegar komi fram í umfjöllun um 6. gr. laganna í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögunum að ekki sé gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til. Þá segi 1. mgr. 1. gr. laganna að markmið laganna sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í almennum athugasemdum með greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu segi að markmið frumvarpsins sé að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið, þ.e. leið samninga í gegnum greiðsluaðlögun, við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Með synjun umboðsmanns skuldara sé í raun verið að þrengja stöðu kæranda þannig að leið skuldaskilaréttarins, að öllum líkindum gjaldþrot, sé eini valkosturinn sem standi honum til boða. Það sé sérlega óheppilegt í tilfelli kæranda, sem sé hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali og mun því að líkindum missa réttindi sín til að starfa sem slíkur við það að fara í gegnum gjaldþrot. Muni það hafa áhrif á aflahæfi kæranda og þar með möguleika hans til að endurgreiða lánardrottnum.
Kærandi hafi ekki enn sem komið er gert upp tekjuárið 2012 eins og hann muni gera í skattframtali fyrir það ár. Líkt og bent hafi verið á í svari til umboðsmanns skuldara hafi kærandi haft ýmsar tekjur, aðrar en launagreiðslur frá D, og því fengið greiðslur inn á reikning sinn. Eðlilegra hefði verið að gefa kæranda kost á að leita samnings til greiðsluaðlögunar og gefa kröfuhöfum kost á að taka afstöðu til þess hvort umræddar færslur hafi verið þess eðlis að greiðsluaðlögun væri ekki tæk.
Sú ákvörðun að synja kæranda sé verulega íþyngjandi fyrir hann. Embætti umboðsmanns skuldara sé bundið af stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og beri að virða þær málsmeðferðarreglur sem þar komi fram. Í 12. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Ákvörðun umboðsmanns skuldara að synja kæranda vegna tiltekinna færslna án þess að gefa honum kost á að kynna í samráði við umsjónarmann tillögu að samningi fyrir kröfuhöfum hafi brotið gegn því ákvæði. Samningar um greiðsluaðlögun séu í eðli sínu frjálsir samningar milli skuldara og kröfuhafa og ekki sé hægt að segja til um það fyrirfram hver viðbrögð við tillögu að samningi myndu verða. Reglur 6. gr. lge. séu settar til að gæta hagsmuna kröfuhafa í aðdraganda þess að samningur um greiðsluaðlögun er gerður. Ljóst sé að kröfuhafar geti sjálfir gætt hagsmuna sinna, telji þeir að gegn þeim hafi verið brotið, þegar tillaga að samningi er til umfjöllunar og hefði mátt koma þeim upplýsingum á framfæri að umboðsmaður skuldara teldi vafa leika á því að brotið hefði verið gegn umræddu ákvæði. Þannig hefði kröfuhöfum, sem eigi í raun þá hagsmuni sem verið sé að vernda með umræddum reglum, verið gefinn kostur á að taka sjálfir afstöðu til þess hvort athæfi kæranda væri brotlegt og þess eðlis að ekki ætti að komast á samningur. Sú ákvörðun að synja um heimild til greiðsluaðlögunar gangi því lengra en nauðsyn beri til.
Þá bendir kærandi á að lögin um greiðsluaðlögun hafi verið sett í þágu skuldara og hugsuð sem réttarbót fyrir þá. Eðlilegt sé því að lögin séu túlkuð skuldurum í vil. Eins og rakið hafi verið komi fram í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögunum að hin matskenndu atriði sem talin séu upp í lögunum verði ekki túlkuð rýmra en efni standi til og því hafi verið óeðlilegt af hálfu embættis umboðsmanns skuldara að synja kæranda á grundvelli matskennds atriðis.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 14. september 2012 kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að heimila greiðsluaðlögun. Í stafliðum ákvæðisins séu tilgreind atriði sem taka skuli sérstakt tillit til við mat á slíku. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Með tölvupósti 6. júlí 2012 barst umboðsmanni skuldara yfirlit frá MP banka um eignir kæranda hjá bankanum. Á yfirlitinu kom fram að mikil velta hafði verið á debetreikningi kæranda á árunum 2011 og 2012. Þrátt fyrir þetta var eign á reikningnum samkvæmt yfirlitinu aðeins 90.705 krónur. Í tilefni upplýsinganna óskaði umboðsmaður skuldara eftir færsluyfirliti frá MP banka vegna reikningsins og barst það embættinu 10. júlí 2012. Af færsluyfirlitinu hafi mátt ráða að alls hafi 33.315.958 krónum verið ráðstafað inn á reikninginn á tímabilinu 3. maí 2011 til 25. júní 2012. Á þessu tímabili hafi kærandi notið greiðsluskjóls, sbr. II. ákvæði laganna til bráðabirgða. Kæranda bar samkvæmt því að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram það sem hann þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi kæranda verið skylt að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Áætlaður framfærslukostnaður kæranda á tímabilinu nam 3.401.734 krónum miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara. Hafi því mátt gera ráð fyrir að kærandi gæti lagt til hliðar um 29.000.000 króna af þeim greiðslum sem runnu inn á reikninginn að nokkru svigrúmi veittu.
Það sé mat umboðsmanns skuldara, með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum, að sú háttsemi kæranda að ráðstafa tilgreindum fjármunum út af reikningnum falli undir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og telja verði að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar í greiðsluskjóli, sbr. a- og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ábyrgðarbréfi sem sent var kæranda voru tilgreindar upplýsingar kynntar og afstaða umboðsmanns skuldara til þeirra. Í bréfinu var einnig óskað eftir öðrum upplýsingum sem vörðuðu vinnslu umsóknar kæranda. Kæranda hafi verið gefinn 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig um þau atriði sem fram komu í bréfinu. Kærandi tók hvorki við ábyrgðarbréfinu né heldur sótti það og var ábyrgðarbréfið að lokum endursent umboðsmanni skuldara. Umboðsmaður kæranda móttók bréfið 27. júlí 2012 og barst svarbréf kæranda embættinu 24. ágúst 2012 án nokkurra gagna. Einu athugasemdir kæranda í bréfinu vegna umrædds reiknings voru þær að tilgreindar færslur hafi verið vinnutekjur þar sem kærandi starfi einnig sjálfstætt og þiggi ekki eingöngu laun frá D.
Þann 3. september 2012 hafi kæranda verið veittur lokafrestur til 10. september 2012 til þess að koma frekari skýringum og gögnum til umboðsmanns skuldara. Engar skýringar eða gögn bárust embættinu fyrir 14. september 2012.
Mat umboðsmanns skuldara að virtum tilgreindum gögnum frá MP banka varðandi debetreikning kæranda sé að hann hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., enda hafi hann látið af hendi veruleg verðmæti í greiðsluskjóli sem nýst hefðu getað kröfuhöfum hans sem greiðsla. Þá þyki ljóst að kærandi hafi brugðist skyldum sínum í greiðsluskjóli skv. a- og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Um verulega fjármuni sé að ræða og til þess sé að líta að kærandi sé hæstaréttarlögmaður sem hafi auk þess notið sérfræðiaðstoðar undir meðferð málsins. Telja verði að honum hafi verið eða mátt vera kunnugt um tilgreindar skyldur sínar. Að öllum þessum atriðum virtum hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar og hafi umsókn hans því verið synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar 4. október 2012 er því hafnað að í ákvörðun embættisins sé orðalag 6. gr. lge. túlkað með rýmri hætti en efni standi til. Ætla verði að það samræmist almennum málsskilningi að líta svo á að skuldari í verulegum greiðsluerfiðleikum sem reyni að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum sé framast unnt myndi ekki ráðstafa um það bil öllum tekjum sínum, þ.e. ríflega 33.000.000 krónum út af debetreikningi sínum í greiðsluskjóli, eða um 29.000.000 krónum umfram áætlaðan framfærslukostnað, heldur leggja fjárhæðina til hliðar svo hún geti komið til greiðslu skulda. Telja verði með sömu rökum að skuldari sem ráðstafi viðlíka fjármunum í greiðsluskjóli fremur en að halda þeim til haga og láta ganga til greiðslu skulda hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og honum hafi framast verið unnt. Þá þyki ljóst að óhæfilegt sé í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge., með hliðsjón af f-lið ákvæðisins, að umsækjandi, sem hafi með háttsemi sinni í aðdraganda afgreiðslu á umsókn hans um greiðsluaðlögun brotið með jafn afgerandi hætti og kærandi gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli skv. 12. gr. lge. og með því vegið að hagsmunum kröfuhafa sinna, fái í kjölfarið heimild til greiðsluaðlögunarumleitana við kröfuhafa.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til f-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Þá er ákvörðun einnig byggð á því að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli skv. 12. gr. lge., sbr. a- og c-liði ákvæðisins.
Ákvæði 12. gr. lge. snúa að því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum sínum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Í 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis lge. er kveðið á um að skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eigi einnig við þegar umsókn hafi verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið. Umboðsmaður skuldara getur því hafnað umsókn skuldara á grundvelli þess ákvæðis sinni hann ekki skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.
Í a-lið 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem hann þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Í c-lið 12. gr. er kveðið á um að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.
Samkvæmt gögnum málsins og skýringum kæranda var umrædd fjárhæð, 33.315.958 krónur, vinnutekjur kæranda frá sjálfstæðri starfsemi hans. Kærandi hefur ekki skýrt nánar frá ráðstöfun fjármunanna þrátt fyrir að honum hafi verið gefið færi á því. Eins og að framan greinir er sú skylda lögð á skuldara er njóta frestun greiðslna, greiðsluskjóls, að þeir leggi til hliðar þá fjármuni sem þeir afla sem eru umfram framfærslukostnað. Ljóst er að kærandi hefur ekki sinnt þessari skyldu sinni skv. a-lið 12. gr. lge. Þá er ráðstöfunin einnig brot á skyldu kæranda um að láta ekki af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla skv. c-lið 12. gr. lge. Ekkert í gögnum málsins sýnir fram að ráðstöfunin hafi verið afsakanleg. Með þessu er staðfest túlkun umboðsmanns skuldara á þeim lagaákvæðum sem vísað er til í ákvörðun hans um að synja kæranda um greiðsluaðlögun. Þá verður einnig að telja að aðstæður hafi verið metnar réttilega þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin sem byggð var á því að ekki væru lagaleg skilyrði til að heimila greiðsluaðlögun.
Með vísan til alls framangreinds staðfestir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Þórhildur Líndal