Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2013

Föstudagurinn 22. mars 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hrl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 4. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. janúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

I. Málsatvik

Þann 19. október 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Áður hafði starfsmaður umboðsmanns skuldara sinnt hlutverki umsjónarmanns fram yfir lok kröfulýsingarfrests. Að sögn umsjónarmanns voru af hálfu kæranda veittar greinagóðar upplýsingar í samræmi við óskir umsjónarmanns þar um.

Við söfnun umsjónarmanns á gögnum og við vinnslu frumvarpsins hafi komið í ljós að kærandi lagði óverulega fjármuni til hliðar, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af hálfu umsjónarmanns var þrátt fyrir það lagt fram frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi og það sent til kröfuhafa þann 5. desember 2012.

Þann 12. desember 2012 komu fram andmæli af hálfu Íslandsbanka sem fólu í sér höfnun á frumvarpi kæranda. Mótmælin vörðuðu í fyrsta lagi að kærandi hafði ekki lagt nægjanlega fyrir í greiðsluskjóli. Í öðru lagi að fasteign kæranda væri óhæfileg. Í þriðja lagi að upplýsingar um stöðu einkahlutafélaga kæranda skorti og í fjórða lagi kaupmála sem kærandi og eiginkona hans gerðu, dags. 27. nóvember 2008.

Umsjónarmaður bauð kæranda að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og bárust athugasemdir kæranda umsjónarmanni með bréfi, dags. 8. janúar 2013. Í ljósi skýringa kæranda lagði umsjónarmaður til við Íslandsbanka með tölvupósti, dags. 10. janúar 2013, að skoðað yrði hvort unnt væri að ganga til samninga við kæranda með þeirri breytingu að gert yrði ráð fyrir sölu fasteignar. Með tölvupósti, dags. 11. janúar 2013, voru fyrri mótmæli Íslandsbanka ítrekuð.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2013, kynnti umsjónarmaður þá tillögu að leggja til niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda, sbr. 2. mgr. 12. gr. lge., í ljósi takmarkaðrar söfnunar og vegna eðlis athugasemda Íslandsbanka varðandi stöðu kæranda. Eftir ábendingu umboðsmanns skuldara bauð umsjónarmaður kæranda að taka afstöðu til þess hvort hann óskaði eftir nauðasamningum og/eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Með tölvupósti kæranda, dags. 21. janúar 2013, upplýsti kærandi að hann vildi leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns, dags. 21. janúar 2013, kemur fram að í ljósi heildarmats á þeim þáttum sem tilgreindir séu í 2. mgr. 18. gr. lge. sé það afstaða umsjónarmanns að mæla gegn því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á.

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur jafnframt fram að við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge, skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess í fyrsta lagi hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Í öðru lagi hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Í þriðja lagi hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og að öðru leyti staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Í fjórða lagi hvort raunhæft sé að skuldari muni getað staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og í fimmta lagi hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til sín taka.

Varðandi fyrsta matsliðinn er að mati umsjónarsjónarmanns sýnt að umboðsmaður skuldara hafi veitt kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við þá ákvörðun hafi kaupmáli kæranda frá nóvember 2008 verið til skoðunar. Þýðing kaupmálans varðandi mat skv. 2. mgr. 18. gr. lge. varði því hvort nýframkomin sjónarmið kröfuhafa feli í sér upplýsingar sem hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu.

Varðandi annan matslið vísar umsjónarmaður til þess að í ljósi aðstæðna kæranda hafi tillögur um niðurfellingu verið eins og almennt tíðkast. Á hinn bóginn hafi fasteignakröfur um margt verið óvenju háar.

Varðandi þriðja matsliðinn vísar umsjónarmaður til þess að samkvæmt frumvarpi að greiðsluaðlögunarsamningi kæranda hafi greiðslugeta hans verið 225.000 krónur í ljósi þess að eiginkona kæranda býr í fasteign hans. Á tímabili greiðsluaðlögunar hafi orðið þær breytingar á tekjum kæranda að í maí 2012 varð hann veikur og hafi ekki starfað frá þeim tíma. Launatekjur hafi því fallið niður, en greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags komið stað launatekna. Þær tekjur séu eðli máls tímabundnar.

Á skuldara hvíldi skylda til að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem umfram hafi verið það sem hann þurfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Greiðslugeta kæranda samkvæmt frumvarpinu hafi meðan á greiðsluskjóli stóð verið um 225.000 krónur á mánuði. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli frá júní 2011. Á þeim tíma hafi kærandi því átt að geta lagt fyrir ríflega 3.000.000 króna. Kærandi hafi aðeins lagt fyrir brot af þeirri fjárhæð, eða 250.000 krónur. Skýringar sem kærandi hafi gefið umsjónarmanni á því að svo lítið hafi safnast voru að mati umsjónarmanns ekki fullnægjandi.

Varðandi fjórða matsliðinn vísar umsjónarmaður til þess að eftir sölu fasteignar, hefði hún gengið eftir, hefði kærandi getað staðið við skuldbindingar sínar. Miðað við áframhaldandi eignarhald á fasteign, eins og felist í greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sé hins vegar vafasamt hvort kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar síðar meir. Umrædd fasteign sé stór og með háan rekstrarkostnað. Í ljósi aðstæðna kæranda virðist greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna ekki þjóna markmiðum sem henni sé ætlað að ná.

Varðandi fimmta matsliðinn vísar umsjónarmaður til kaupmála sem kærandi hafi staðið að í nóvember 2008 og afstöðu Íslandsbanka vegna hans. Með athugasemdum bankans hafi komið fram ný sjónarmið um þýðingu kaupmálans varðandi mat á fjárhagslegum ráðstöfunum kæranda gagnvart lge. Athugasemdir hafi verið eindregnar og þess eðlis að þær hindri að greiðsluaðlögun kæmist á, sbr. 15. gr. lge. Þær hafi verið settar fram þannig að ætla mætti að kröfuhafinn myndi standa gegn því að skuldari fengi greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og/eða önnur úrræði.

Niðurstaða umsjónarmanns hafi því verið í ljósi framangreinds að mæla gegn því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmist á.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að umsjónarmanni verði gert að taka til afgreiðslu beiðni um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Einnig að hafnað verði túlkun umsjónarmanns að kæranda hafi verið kynnt við sama tilefni að kærandi hefði átt að óska eftir nauðasamningi eða hið minnsta að álitið verði að við sama tilefni hafi kærandi óskað þess.

Í ákvörðun umsjónarmanns hafi komið fram að Íslandsbanki hefði staðfastlega andmælt umsókn um greiðsluaðlögun og borið við að kærandi hefði leynt upplýsingum er varði fjárhagslega hagi þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið lögð fram. Í greinargerð sem kærandi sendi umsjónarmanni hafi þessum ávirðingum bankans verið mótmælt sem fullkomlega ósönnuðum. Tilgreindi kærandi sérstaklega í umsókn um greiðsluaðlögun, um riftanlegar ráðstafanir, að kaupmáli hefði verið gerður milli kæranda og eiginkonu hans. Frekari fyrirspurnum frá umboðsmanni vegna þessa hafi einnig verið svarað. Það sé staðreynd að umboðsmaður skuldara hafi talið kaupmálann ekki þess eðlis að hann eigi undir e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og hafi þær afleiðingar að eignir sem tilgreindar hafi verið sem séreign eiginkonu kæranda í kaupmálanum komi ekki til álita við greiðsluaðlögun kæranda. Engar nýjar upplýsingar sem hafi haft áhrif á ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn geti því hafa komið fram um málið frá því síðast hafi verið fjallað um það.

Auk framangreinds telur kærandi að umfang skuldavanda hans sé að miklu leyti tilkomin vegna óbilgjarnar framkomu Byrs sparisjóðs. Ítrekað hafi verið reyndir samningar af ýmsu tagi í því skyni að hámarka heimtur Byrs. Öllum tillögum kæranda til lausnar hafi verið hafnað.

Hvað varði fullyrðingu umsjónarmanns um að hann hafi boðið kæranda að taka afstöðu til þess hvort óskað yrði eftir nauðasamningi eða/og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, tekur kærandi fram að þetta sé ekki rétt. Orðrétt segi í tölvupósti starfsmanns umsjónarmanns: „Lögfræðingur [umboðsmanns skuldara] hafði samband við mig áðan og vildi kanna hvort Logi vildi á grundvelli 18. gr. laga nr. 101/2010, freista þess að sækja um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sbr. lög nr. 50/2009.“ Ljóst sé samkvæmt þessu að kæranda hafi hvergi verið boðið að óska eftir nauðasamningum, heldur einvörðungu greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Kærandi hafi svarað tölvupóstinum með fyrirspurn um hvort óskir um að málið færi farveg greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna myndu eitthvað skerða rétt kæranda. Svar starfsmanns umsjónarmanns hafi verið: „Næsta skref er þá að taka til skoðunar hvort skuldari óski eftir því hvort reynt verði að ná nauðasamningum. Ég get ekki séð að slíkt val eigi að geta skert rétt þinn, heldur er það hluti af rétti þínum.“ Kærandi hafi þá spurt um greiðsluaðlögun fasteignalána og starfsmaður umsjónarmanns hafi þá svarað að næsta skref yrði að taka til skoðunar nauðasamninga. Kærandi hafi ekki skilið orðin öðruvísi en svo að nauðasamningsleiðin kæmi næst til skoðunar á eftir ósk um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Það hafi komið kæranda gjörsamlega í opna skjöldu að sjá þá túlkun umsjónarmanns að kærandi hafi með bréfi sínu ekki óskað eftir nauðasamningum þrátt fyrir að hafa verið boðið það og mótmælir kærandi þeirri túlkun umsjónarmanns harðlega. Á umsjónarmanni hvíli rík leiðbeiningarskylda og verði hann að svara skýrt þeim spurningum sem til hans sé beint. Kærandi álítur sig vegna þessa hafa fullan rétt á því að óska eftir nauðasamningum verði niðurstaða kærunefndar í þessari atrennu neikvæð.

Í ákvörðun umsjónarmanns hafi verið vísað til fimm matsliða. Hvað varði rökstuðning umsjónarmanns við fyrsta matsliðinn fær kærandi ekki séð að spurningunni sem þar sé sett fram sé svarað, heldur þvert á móti. Í þriðja matslið sé einnig um furðulega skýringu umsjónarmanns að ræða þar sem kærandi hefur hvergi sagt að hann hafi ekkert lagt fyrir á tímabilinu, þvert á móti greindi kærandi frá því að hann hefði lagt fyrir en myndi ekki fjárhæðina í því samtali sem spurningin kom fram. Það hafi verið einhliða ákvörðun umsjónarmanns að setja inn fjárhæðina 250.000 krónur. Skýringar á útgjöldum vegna húsnæðis hafi ekki verið á því að svo lítið hafi safnast. Skýring umsjónarmanns á matslið fjögur kemur kæranda jafnframt á óvart, því þær leiðbeiningar hefðu klárlega átt að koma fram þegar kærandi sendi umsjónarmanni fyrirspurn um að sækja um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Þá mótmælir kærandi fimmta matslið, en engin ný sjónarmið hafi komið fram hvað þetta varði.

Í ljósi alls þess sem fram hafi komið er það bersýnilega ósanngjarnt að lyktir umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun yrðu með þessum hætti. Leiðbeiningar umsjónarmanns hafi verið ófullnægjandi og kröfuhafi sem sé svo aftarlega í veðröð að engar líkur séu á því að hann fái krónu greidda utan greiðsluaðlögunar, eigi ekki að komast upp með að aftra því að mál kæranda verði gerð upp með sanngjörnum hætti.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Í athugasemdum við ákvæðið segir meðal annars að umsjónarmaður skuli horfa til þess hver rökstuðningur lánardrottna var fyrir því að leggjast gegn frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun en ljóst sé að hann getur ekki einvörðungu staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður mæli gegn nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og þurfa ríkar ástæður að vera fyrir afstöðu lánardrottna.

Umsjónarmaður vísar í ákvörðun sinni til þess að kærandi hafi meðal annars ekki sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli frá júní 2011 og hafi átt að geta lagt fyrir ríflega 3.000.000 króna en hafi einungis lagt fyrir 250.000 krónur.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til lge. kemur fram að víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum sínum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge.

Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. lge. segir um 12. gr. laganna að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæðinu, meðal annars hvort hann hefur lagt til hliðar af tekjum sínum fé umfram framfærsluþörf sína og fjölskyldu sinnar og ekki gripið til stærri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Meðal gagna málsins er ódagsett greinargerð kæranda vegna viðbragða Íslandsbanka við frumvarpi um greiðsluaðlögun. Í greinargerðinni koma fram skýringar kæranda. Í fyrsta lagi hafi kærandi staðið í málaferlum þar sem hann hafi reynt að lágmarka tjón sitt. Sökum þessa hafi hann þurft að greiða lögfræðingi 2.135.254 krónur sem hafi skilað sér í því að tildæmdar greiðslur til kæranda hafi lækkað um helming. Í öðru lagi hafi komið fram galli í eign á C götu nr. 7 og hafi verið nauðsynlegt að lagfæra hann til að forðast frekara tjón og viðhalda verðgildi fasteignarinnar til ávinnings fyrir veðhafa. Verktakanum voru greiddar 599.699 krónur. Í þriðja lagi hafi kæranda verið nauðsynlegt að standa straum af rekstrarkostnaði D götu nr. 13 á árinu 2011 og fram á árið 2012, samtals að fjárhæð 450.000 krónur, vegna tafa Byrs á afgreiðslu tveggja eigna úrræðis. Í fjórða lagi hafi kærandi einnig þurft að greiða af lánum sem tekin voru í nafni eiginkonu hans fyrir gerð kaupmálans vegna áðurnefndra tafa og verið nauðsynlegt að halda þeim í skilum, svo unnt væri að ljúka við allar samningsumleitanir með réttum hætti. Greiðslur til Lífeyrissjóðs verkfræðinga voru vegna þessa 2.834.563 krónur. Í fimmta lagi voru loks greiddar afborganir til Íbúðalánasjóðs á árinu 2011 vegna húsbygginganna, samtals að fjárhæð 381.815 krónur. Samtals hafi því verið greiddar vegna framangreinds 6.401.331 króna á árunum 2011 og 2012.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að einungis sé heimilt að víkja frá því að leggja fyrir umframfé sé nauðsynlegt að ráðstafa því til framfærslu. Jafnframt kemur fram í c-lið 1. mgr. 12. gr. að á meðan skuldari leiti greiðsluaðlögunar sé honum skylt að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt skýringum kæranda hefur hann varið því fé sem leggja átti til hliðar í málarekstur vegna fasteigna, viðhald þeirra og afborganir af lánum sem á þeim hvíldu. Eins og áður segir eru skuldurum settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár sem safnast fyrir í greiðsluskjóli. Kæranda var í fyrsta lagi skylt að geyma það fé sem var umfram framfærslu og í öðru lagi var honum skylt að ráðstafa ekki fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Ljóst er að kærandi hefur sinnt hvorugu og ber því þegar af þeirri að ástæðu að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta