Hoppa yfir valmynd

Nr. 316/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 316/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040035

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Spánar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. nóvember 2016 ásamt bróður sínum, [...]. Þann 6. desember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni með vísan til 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kæranda hafði fengið útgefna vegabréfsáritun hjá spænskum stjórnvöldum. Þann 15. desember 2016 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi niðurstöðu úr aldursgreiningu sem kærandi hafði verið látinn gangast undir var nýrri beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni þann 23. janúar 2017, með vísan til 2. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 2. mars 2017 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 4. apríl 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Spánar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 25. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 9. maí 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Kærandi lagði fram viðbótargreinargerð ásamt fylgigögnum til kærunefndar þann 22. maí 2017, þar sem hann ítrekaði kröfur sínar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Spánar. Lagt var til grundvallar að Spánn virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Jafnframt var það mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Að gættum ákvæðum barnasáttmálans og íslenskum lögum er málið vörðuðu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum kæranda yrði ekki stefnt í hættu með því að senda hann til Spánar. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Spánar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að niðurstaða úr aldursgreiningu hafi verið sú að uppgefinn aldur kæranda gæti vel staðist, en kærandi kveðst vera fæddur árið 2000. Þar sem kærandi hefði komið í fylgd bróður síns væri farið með málið samkvæmt b-lið 1. mgr. 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í ákvörðun sinni vísar stofnunin til þess að kærandi hafi greint frá því í viðtali að hann eigi við andleg vandamál að stríða og hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt hafi sálfræðiskýrsla Matthíasar Matthíassonar sálfræðings sýnt fram á að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu en jafnframt yrði að horfa til þess að kærandi væri ungur að aldri og féllst Útlendingastofnun á að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að Spánn, sem sé eitt af ríkjum Evrópusambandsins, sé bundið af þeim tilskipunum sem samþykktar séu innan sambandsins, þ. á m. móttökutilskipuninni nr. 33/2013. Spænsk stjórnvöld hafi árið 2014 breytt kerfinu varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og hafi m.a. veitt fjármagn til hjálparstofnana sem þjónusti umsækjendur. Í ákvörðuninni er einnig fjallað um málsmeðferðir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni. Þar segir að miða verði við 3. gr. sáttmálans þegar verið sé að flytja umsækjendur milli landa. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi sett háan þröskuld við mat á þessu og þurfi slæm meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að ná tilteknu alvarleikastigi til að falla undir gildissvið ákvæðisins og vísar stofnunin í dóma Mannréttindadómstólsins í málum A.M.E. gegn Hollandi frá 13. janúar 2015 og A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015. Það sé mat stofnunarinnar að með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að aðstæðum í hæliskerfinu á Spáni verði jafnað við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 42. gr. laga um útlendinga. Því fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn því lagaákvæði.Í ákvörðuninni kemur fram að ekkert bendi til þess að móttökuskilyrðum sé ábótavant á Spáni og að fyrir liggi að umsækjendur geti leitað sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu þar. Enn fremur hefðu spænsk stjórnvöld ekki fjallað um mál kæranda. Það var mat Útlendingastofnunar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður í máli kæranda sem leiða ættu til þess að mál hans skyldi tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 3. janúar 2017 að fæðingardagur hans væri [...]. Kærandi vísi til þess í greinargerð að samkvæmt skilgreiningu 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljist hann því fylgdarlaust barn. Í samræmi við 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljist hann því jafnframt einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun taki ekki afstöðu til þess í ákvörðun sinni að hann teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem fylgdarlaust barn heldur telji stofnunin hann aðeins í sérstaklega viðkvæmri stöðu sökum andlegra veikinda sinna. Þá gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við það hvernig málsmeðferð Útlendingastofnunar varðandi andleg veikindi hans hafi verið háttað.

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki komið til Íslands í fylgd bróður síns heldur sé hann hér á landi sem fylgdarlaust barn þó þeir hafi ferðast saman og vilji fylgjast að. Kærandi telji að við beitingu á Dyflinnarreglugerðinni hafi Útlendingastofnun litið framhjá 1. og 4. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar um ólögráða börn. Ákvörðun Útlendingastofnunar sé byggð á c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með vísan til 1. mgr. 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Með vísan til 1. mgr. 7. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar telji kærandi að 8. gr. reglugerðarinnar hafi forgang fram yfir 11. og 12. gr. reglugerðarinnar. Bróðir kæranda sé löglega staddur hér á Íslandi sem umsækjandi um alþjóðlega vernd og það sé því Ísland sem beri ábyrgð á afgreiðslu umsóknar kæranda skv. 1. mgr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði ekki fallist á að tengsl kæranda við bróður sinn uppfylli skilyrði 1. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sé ljóst að 4. mgr. 8. gr. eigi við og að Ísland eigi að bera ábyrgð á umsókn kæranda að virtum hagsmunum hans sem fylgdarlauss barns. Þau viðmið sem komi fram í 1. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar eigi við um kæranda og bróður hans og leggi ábyrgðina á íslensk stjórnvöld.

Einnig vilji kærandi vekja athygli á því að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fullgiltur var hér á landi þann 28. október 1992. Kærandi telji að það að senda hann aftur til Spánar út í þá óvissu og þá bið sem hann muni upplifa þar sé honum ekki fyrir bestu. Þegar litið sé til þeirra einstöku málavaxta sem séu uppi í málum kæranda og bróður hans megi sjá að það sé þeim sérlega þungbært að þurfa að snúa aftur til Spánar.

Þann 22. maí 2017 lagði kærandi fram viðbótargreinargerð ásamt fylgigögnum til kærunefndar. Fram kemur í viðbótargreinargerð kæranda að hann hafi fyrir skemmstu gert talsmanni sínum grein fyrir því að [...]. Þá telji kærandi að Útlendingastofnun hafi í máli hans mistúlkað ákvæði 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en þá mistúlkun megi rekja til misræmis í enskri og íslenskri útgáfu reglugerðarinnar. Samkvæmt íslensku útgáfunni sé vísað til þess að um sé að ræða einhleyp systkini ólögráða barns sem leggi fram umsóknir um alþjóðlega vernd í sama aðildarríki á sama tíma. En samkvæmt ensku útgáfunni eigi ákvæðið við þegar fylgdarlaus börn sem séu systkini leggi fram umsókn um alþjóðlega vernd samtímis í aðildarríkinu. Eigi það því ekki við þegar annað systkinið er orðið lögráða. Þrátt fyrir að Spánn hafi samþykkt endurviðtöku á kæranda og bróður hans sé íslenskum stjórnvöldum ekki stætt á því að byggja á samþykki móttökuríkis í ljósi þess að um mistök við túlkun á ákvæði reglugerðarinnar sé að ræða. Þá er í viðbótargreinargerð ítrekuð krafa um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi sé með gilda vegabréfsáritun þar í landi. Þá liggur fyrir að kærandi sem er undir 18 ára aldri og ólögráða hafi komið til Íslands ásamt lögráða eldri bróður sínum. Er mál eldri bróður hans einnig til meðferðar hjá kærunefnd.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, fái viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Varði mál fylgdarlaust barn eða annan einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli reynt að tryggja að starfsmaður með viðeigandi sérþekkingu og reynslu vinni að málinu.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fylgdarlaus börn, fólk með geðraskanir eða geðfötlun og einstaklingar sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá stofnuninni að hann væri fæddur [...] en ekki árið [...] eins og hann hafi sagt hjá lögreglu. Af því tilefni hafi Útlendingastofnun farið fram á það við kæranda að hann myndi undirgangast aldursgreiningu og samþykkti hann það. Samkvæmt gögnum málsins barst niðurstaða úr aldursgreiningu Útlendingastofnun þann 13. janúar 2017 og var niðurstaðan sú að uppgefinn aldur kæranda gæti vel staðist. Útlendingastofnun ákvað í kjölfarið að kærandi væri barn að aldri og farið yrði með málið samkvæmt b-lið 1. mgr. 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem að kærandi hafi komið í fylgd bróður síns.

Í 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er að finna skilgreiningu á því hvenær um fylgdarlaus börn er að ræða. Fram kemur að fylgdarlaust barn sé barn sem kemur fylgdarlaust inn á yfirráðasvæði ríkis, svo lengi sem það hefur ekki í reynd verið tekið í umsjá foreldra eða fullorðins einstaklings sem ber ábyrgð á því samkvæmt lögræðislögum. Þetta eigi einnig við ef barnið er skilið eftir án fylgdar eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkis.

Eins og fram hefur komið kom kærandi, sem er [...] ára ólögráða barn, hingað til lands ásamt lögráða eldri bróður og lögðu þeir báðir fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki séð að lögráða eldri bróðir kæranda fari með forsjá hans samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá kom fram við meðferð málsins hjá kærunefnd að kærandi væri í hagsmunagæslu hjá barnaverndaryfirvöldum, eins og ákvæði 1. mgr. 31. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi sé fylgdarlaust ólögráða barn. Kærandi er því samkvæmt skilgreiningu í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir jafnframt að við meðferð mála um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varðar og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Þá er í öðrum ákvæðum laga kveðið á um réttindi barna, sjá einkum ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, og ákvæði barnalaga nr. 76/2003. Af framangreindu leiðir að ef ákvörðun varðar barn ber Útlendingastofnun að leggja sérstakt mat á það hverju sinni hvernig hagsmunir barnsins horfa við í málinu. Slíkt mat getur ekki farið fram nema á grundvelli fullnægjandi gagna.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn í máli kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er hvorki vísað til þeirra lagareglna sem varða stöðu kæranda sem fylgdarlauss barns né lagt mat á hagsmuni hans sem fylgdarlauss barns við endursendingu hans til Spánar. Þótt fjallað sé með almennum hætti um þær aðstæður sem bíða umsækjenda um alþjóðlega vernd við endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Spánar er ekki fjallað um hvernig þessar aðstæður horfa sérstaklega við fylgdarlausum börnum. Í því sambandi leggur kærunefnd áherslu á að til að unnt sé að leggja mat á hvernig hagsmunir barnsins horfa við í málinu verða að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um hvernig almennt sé staðið að móttöku fylgdarlausra barna á Spáni. Jafnframt þarf að afla ítarlegri upplýsinga sem kunna að hafa sérstaka þýðingu fyrir meðferð máls kæranda, svo sem hvort hann og bróðir hans verði aðskildir á Spáni. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun lá ekki fyrir að [...] og þar af leiðandi gat stofnunin ekki tekið tillit til þess meðferð máls hans.

Þá er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að nákvæmar upplýsingar um heilsufar liggi fyrir til að unnt sé að leggja mat á hvort sérstakar aðstæður séu til staðar í málum fylgdarlausra barna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggur að við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, aðspurður um andlegt heilsufar, sagðist kærandi glíma við alvarlegt vandamál. Hann heyrði raddir, svaraði röddunum og fyndist ekki gott að vera innan um fólk. Þá kvaðst kærandi hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þá liggur fyrir gagn frá Matthíasi Matthíassyni í málinu undir yfirskriftinni „samtal við unga hælisleitendur í Víðinesi“ þar sem atvikum og atferli kæranda er lýst. Að mati kærunefndar hefðu framangreindar upplýsingar sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun við meðferð málsins þar, í ljósi þess að kærandi er fylgdarlaust barn, átt að kalla á frekari gagnaöflun af hálfu stofnunarinnar varðandi andlega heilsu kæranda.

Að mati kærunefndar ber ákvörðun Útlendingastofnunar ekki með sér að stofnunin hafi við meðferð málsins lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun málsins, að því er varðar kæranda, þannig að tillit hafi verið tekið til aðstæðna og hagsmuna hans sem fylgdarlauss barns.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum.Kærunefnd telur að framangreindir annmarkar á ákvörðun Útlendingastofnunar séu þess eðlis að ekki verði bætt úr þeim á æðra stjórnsýslustigi. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Kærunefnd telur að hafa verði hagsmuni barnsins, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga, að leiðarljósi við mat á viðeigandi úrlausnarmöguleika þegar ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er 16 ára fylgdarlaust ólögráða barn og í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 28. nóvember 2016 og hefur því dvalist hér í ríflega hálft ár. Þá liggur ekkert fyrir um að kærandi hafi dvalið á Spáni eða hafi tengsl við það land. Eins og fjallað hefur verið um hér að framan á kærandi við andleg veikindi að stríða en ekki hefur verið upplýst í málinu nákvæmlega um hvers eðlis þau veikindi eru. Að mati kærunefndar benda gögn málsins til þess að endurtekin málsmeðferð, þar sem að nýju yrði lagt mat hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, kæmi til með að vera mjög íþyngjandi fyrir kæranda. Þar sem kærandi hefur þegar dvalist hér á landi í sex mánuði telur kærunefnd jafnframt ljóst að einhverjar líkur séu á því að kærandi fengi ekki endanlega niðurstöðu í þann þátt málsins áður en 12 mánuðir hafa liðið frá því að hann lagði fram umsókn sína. Það er niðurstaða kærunefndar að það samrýmist ekki hagsmunum kæranda að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Kærunefnd telur því að rétt að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að staðfesting spænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar liggi fyrir þá beri, eins og hér háttar sérstaklega til, að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                     Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta