Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 372/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 372/2016

Fimmtudaginn 12. janúar 2017

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. september 2016, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 27. september 2016, um synjun á umsókn hennar um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu hjá Íbúðalánasjóði með umsókn, dags. 7. apríl 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 15. júlí 2016, á þeirri forsendu að skilyrði reglna stjórnar Íbúðalánasjóðs frá 3. desember 2014 væru ekki uppfyllt. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 27. september 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. október 2016. Með bréfi, dags. 14. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 31. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2016, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er greint frá því að kærandi hafi keypt fasteign sína í júlí 2007 og greitt fyrstu 84 gjalddaga lánsins. Í lok apríl 2013 hafi söluandvirði fasteignarinnar verið 22 milljónir og lánið staðið í 29 milljónum en þá hafi kærandi óskað eftir frystingu lánsins. Kærandi hafi síðar óskað eftir afléttingu krafna umfram söluverð eftir ábendingu þess efnis en verið synjað án viðeigandi skýringa. Kærandi bendir á að Íbúðalánasjóður hafi farið fram á nauðungaruppboð á eigninni þrátt fyrir að enn væri verið að reyna að komast að ásættanlegri niðurstöðu í málinu.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að stjórn sjóðsins hafi sett reglur um afléttingu krafna umfram söluverð á grundvelli reglugerðar nr. 359/2010 um kröfur Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Reglurnar hafi verið samþykktar af stjórninni 3. desember 2014 en samkvæmt d- og e-lið 7. gr. reglnanna sé það skilyrði fyrir afléttingu að viðkomandi hafi átt lögheimili í fasteigninni og að vanskil af lánum sjóðsins væru innan við 12 mánaða gömul á umsóknardegi. Hvorugt þeirra skilyrða hafi verið uppfyllt í máli kæranda og Íbúðalánasjóði því bæði heimilt og skylt að synja umsókn hennar. Auk þessara ástæðna hafi einnig verið litið til þess að um viðskipti tengdra aðila hafi verið að ræða en sjóðurinn hafi heimild til að synja á þeim grundvelli að um málamyndagerning sé að ræða. Það hafi hins vegar ekki verið rannsakað sérstaklega þar sem hlutlæg skilyrði d- og e-liðar 7. gr. regnanna hafi ekki verið uppfyllt.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu.

Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, sem sett var með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, kemur fram að kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu þegar kröfum sem standa utan söluverðs eignar við frjálsa sölu er létt af eigninni með samþykki stjórnar Íbúðalánasjóðs og að uppfylltum skilyrðum um mat á greiðslugetu skuldara, enda sé söluverð í samræmi við verðmat Íbúðalánasjóðs. Í samræmi við 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar aðhefst Íbúðalánasjóður ekki frekar við innheimtu kröfu sem hefur glatað veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglum. Við slík brot fellur niður heimild sjóðsins til niðurfellinga samkvæmt 5. gr. og afskrifta samkvæmt 6. gr.

Í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu fasteignar, sem samþykktar voru á fundi stjórnar þann 3. desember 2014, er kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að umsókn um afléttingu krafna verði samþykkt. Samkvæmt d-lið 7. gr. reglnanna er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi búið í eigninni og átt þar lögheimili. Heimilt sé að víkja frá því skilyrði ef ástæðu megi rekja til aðstæðna sem séu ekki af völdum umsækjanda, t.d. veikindi, óíbúðarhæf eign, flutningar vegna vinnu eða náms og fleira. Samkvæmt e-lið 7. gr. reglnanna er það gert að skilyrði að vanskil lána á umsóknardegi séu innan við 12 mánaða gömul. Heimilt sé að víkja frá því skilyrði ef ástæðu vanskila megi rekja til aðstæðna sem séu ekki af völdum umsækjanda, t.d. veikindi og lögbundið greiðsluskjól. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún uppfyllti ekki framangreind skilyrði.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi aldrei átt lögheimili í fasteign sinni og vanskil hennar voru 36 mánaða gömul og því eldri en 12 mánaða á umsóknardegi. Af hálfu kæranda hefur því ekki verið haldið fram að skilyrði fyrir undanþágu frá þessum reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs séu uppfyllt og ekkert í gögnum málsins bendir til þess að svo sé. Að framangreindu virtu verður að telja að Íbúðalánasjóði hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 27. september 2016, á umsókn A, um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta