Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 74/2014

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 74/2014

Miðvikudaginn 11. janúar 2017

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 16. desember 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni A og B, um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 74/2014. Er þess farið á leit að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 24. nóvember 2016, þar sem staðfest var ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, verði felldur úr gildi og hann endurskoðaður í ljósi þess að að kærendur hafi verið borin röngum sökum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðar í málinu en með lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015, sem gildi tóku 1. janúar 2016, tók úrskurðarnefnd velferðarmála við störfum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

I. Málsatvik og kæruefni

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. október 2010 og var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 26. júlí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. júlí 2014 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður meðal annars með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærendur voru ekki talin hafa veitt fullnægjandi upplýsingar um tekjur kæranda B á tímabilinu 1. janúar 2014 til 31. maí 2014. Í úrskurðinum kom fram að í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra væri ekki að finna neinar upplýsingar um tekjur hans á ofangreindu tímabili en kærendur hefðu ekki lagt fram nein gögn sem sýndu fram á þær á því tímabili þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því. Því taldi umboðsmaður skuldara að ekki lægi fyrir glögg mynd af fjárhag kærenda.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 17. júlí 2014 og kröfðust kærendur endurskoðunar á málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Þann 24. nóvember 2016 var úrskurðað í málinu. Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara sé meðal annars rétt að líta til 4. og. 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna sé gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segi að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, svo og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en atvinnutekjur sínar til að greiða af skuldum svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Þá komi einnig fram í niðurlagi 4. mgr. 4. gr. lge. að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Loks leit kærunefndin til þess að í 2. mgr. 16. gr. lge. kæmi fram að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skyldi tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld hans.

Samkvæmt því sem fram kom í hinum kærða úrskurði lágu fyrir skattframtöl kærenda vegna tekna þeirra árin 2010 til 2013 en þar hafi komið fram upplýsingar um laun kæranda B. Í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi aftur á móti ekki verið að finna upplýsingar um tekjur hans frá 1. janúar til 4. júlí 2014. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir þessum upplýsingum hjá kærendum en þau ekki látið þær í té. Að mati kærunefndarinnar hefðu kærendur átt að leggja fram gögn er sýndu fram á tekjur kæranda B á framangreindu tímabili eins og embætti umboðsmanns skuldara óskaði eftir til að glögg mynd fengist af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1.mgr. 6. gr. lge. kvæði á um. Það hefðu þau ekki gert og skorti því fullnægjandi upplýsingar til að unnt væri að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Því yrði að telja að b-liður 1. mgr. 6. gr. kæmi í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil við þessar aðstæður.

Í endurupptökubeiðni kærenda til úrskurðarnefndarinnar kveðast kærendur jafnharðan hafa brugðist við beiðnum umboðsmanns skuldara um að útvega og láta af hendi þau gögn sem vörðuðu mál þeirra allt frá október 2010. Það sé beinlínis rangt að kærandi B hafi ekki gefið upp tekjur fyrir árin 2010 til 2014.

Kærendur lögðu ekki fram nein gögn með endurupptökubeiðni sinni en upplýstu um veflykil sinn hjá Ríkisskattstjóra.

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. lagagreinarinnar á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun í máli hans hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skipta við úrlausn þess.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í tilviki kærenda var það mat umsjónarmanns að þau hefðu ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um hvaða tekjur kærandi B hefði haft á tímabilinu 1. janúar 2014 til 31. maí 2014. Undir það tók umboðsmaður skuldara sem felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 4. júlí 2014 samkvæmt 15. gr. lge. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 24. nóvember 2016.

Í málinu liggur fyrir að með bréfi 30. maí 2014 óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um tekjur kæranda B frá október 2010 til maí 2014. Kærendur lögðu þrátt fyrir það ekki fram umbeðin gögn um tekjur hans vegna tímabilsins 1. janúar til 31. maí 2014 við meðferð málsins hjá embætti umboðsmanns skuldara. Kærendur létu þessar upplýsingar heldur ekki í té við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þessar upplýsingar voru nauðsynlegar í málinu á þeim tíma er ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin þar sem markmið greiðsluaðlögunar er að aðlaga skuldir og greiðslubyrði að greiðslugetu. Til þess að það sé mögulegt verða heildstæðar upplýsingar um tekjur skuldara að liggja fyrir og teljast slíkar upplýsingar grundvallarupplýsingar í málum af þessu tagi.

Samkvæmt ákvæðum lge. er gert ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn. Skuldarar geta einnig veitt umboðsmanni skuldara heimild til að afla nauðsynlegra gagna frá opinberum stofnunum og lánardrottnum. Í einhverjum tilvikum er þó ekki mögulegt fyrir umboðsmann að nálgast gögn og er þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra.

Í máli þessu aflaði umboðsmaður skuldara upplýsinga um tekjur kærenda hjá staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Var það gert 30. maí 2014. Tekjur fyrir tímabilið janúar til maí 2014 höfðu á þeim tíma ekki verið gefnar upp til staðgreiðsluskrár Ríkisskattstjóra og því var það ekki á færi annarra en kærenda sjálfra að upplýsa umboðsmann skuldara um þær. Að mati úrskurðarnefndarinnar breytir engu þó að kærendur hafi talið þessar tekjur fram síðar en ljóst er að á þeim tíma sem skiptir máli lágu umræddar upplýsingar ekki fyrir. Í máli kærenda var því sú staða fyrir hendi að þau sinntu ekki beiðni umboðsmanns skuldara um að afla nauðsynlegra gagna en af þeim sökum voru greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra felldar niður.

Samkvæmt framangreindu var úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála um að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem breyst höfðu frá því að ákvörðunin var tekin. Í ljósi þess eru ekki skilyrði samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til að endurupptaka málið og ber með vísan til þess að hafna beiðni kæranda þar um.

Með vísan til þess er að framan greinir er beiðni um endurupptöku synjað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni A og B til úrskurðarnefndar velferðarmála um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 74/2014 er synjað.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta