Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 246/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 246/2016

Miðvikudaginn 11. janúar 2017

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 1. júlí 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. júní 2016 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 8. júlí 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. júlí 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 25. júlí 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 5. ágúst 2016. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 9. ágúst 2016. Með tölvupósti 11. ágúst 2016 upplýsti embættið að það teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1943. Hún býr í eigin íbúð að B, en íbúðin er 87 fermetrar að stærð.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 46.716.640 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og veikinda.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 13. maí 2016 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2016 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa staðið við allar skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Einnig hafi hún skilað bifreið sinni samkvæmt beiðni. Kærandi hafi 33.989 krónur afgangs eftir að hafa greitt framfærslukostnað en umboðsmaður telji hana hafa átt að leggja fyrir um 3.000.000 króna. Forsendur hennar séu því brostnar sé byggt á því sem umboðsmaður skuldara telji.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærandi hafi fyrst sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 29. desember 2010 og hafi heimildin verið veitt 28. júlí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2013 hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður á grundvelli 5. mgr. 13. gr. lge. þar sem hún hafi brotið gegn skyldum sínum með því að samþykkja ekki sölu á íbúð sinni á greiðsluaðlögunartíma. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi staðfest þessa niðurstöðu umboðsmanns með úrskurði 17. september 2015.

Við mat á framkominni umsókn um greiðsluaðlögun frá 13. maí 2016 verði að líta til þess að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, vegna fyrri umsóknar um greiðsluaðlögun hafi varað frá 31. desember 2010 til 17. september 2015 þegar úrskurður kærunefndar hafi markað lok greiðsluskjólsins. Alls hafi greiðsluskjólið staðið yfir í 57 mánuði og á þeim tíma hafi kæranda borið að uppfylla skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Á fundi kæranda með starfsmanni umboðsmanns skuldara 2. maí 2016 hafi kærandi greint frá því að hún hefði ekkert lagt til hliðar í fyrrnefndu greiðsluskjóli. Í fyrirliggjandi umsókn komi fram að kærandi hafi ráðstafað öllu aukafé til dætra sinna.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. komi fram að skuldari megi ekki láta af hendi eða veðsetja eignir (þar á meðal fjármuni) sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, á meðan frestun greiðslna standi yfir.

Greiðsluskjól kæranda vegna fyrri umsóknar um greiðsluaðlögunar hafi staðið yfir í rúmlega 57 mánuði en sem fyrr segi sé miðað við tímabilið frá janúar 2011 til september 2015. Upplýsingar um laun á því tímabili byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, öðrum opinberum gögnum og skattframtölum og tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal vaxtabótum og greiðslum frá Tryggingastofnun. Lagt sé til grundvallar að mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar reiknaður út og sé sú fjárhæð nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 155.332 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað maímánaðar 2016 fyrir einstakling. Gengið sé út frá því að heildartekjur kæranda hafi verið 12.492.464 krónur á umræddu tímabili og hún hafi átt að geta lagt fyrir 3.638.540 krónur.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 23. maí 2016 þar sem ofangreindar upplýsingar hafi verið kynntar fyrir henni. Henni hafi verið veittur 15 daga frestur til að koma athugasemdum sínum á framfæri og framvísa gögnum. Kærandi hafi svarað með bréfi 7. júní 2016. Hún kvað veikindi sín, kostnað við framfærslu, tannlæknakostnað og kostnað vegna bifreiðar meðal annars hafa valdið því að hún hafi ekki lagt til hliðar. Þá hafi hún aðstoðað dætur sínar en eigi ekki kvittanir fyrir þeim kostnaði.

Kærandi hafi lagt fram ýmsar greiðslukvittanir. Flestar séu frá árunum 2008 og 2009, þ.e. áður en kærandi fór í greiðsluskjól. Hafi þær því ekki þýðingu við skoðun á því hvernig tekjum í greiðsluskjóli hafi verið ráðstafað. Vegna þess tímabils sem um ræði hafi kærandi lagt fram kvittanir og millifærslur vegna kostnaðar alls að fjárhæð 144.554 krónur, auk kvittunar vegna tannviðgerða dóttur sinnar að fjárhæð 16.240 krónur. Einnig hafi kærandi lagt fram afrit af bílasamningi, læknisvottorð og fleira.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi frekast verið unnt. Svo sem fram sé komið hafi hvílt á kæranda skylda til að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og ráðstafa ekki þeim eignum sem hefðu getað nýst kröfuhöfum til greiðsla, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi getað lagt fyrir 3.638.540 krónur á fyrrnefndu tímabili greiðsluskjóls, en fyrir liggi að hún hafi ekkert lagt til hliðar. Kærandi kveðist hafa ráðstafað meginhluta fjárins til að aðstoða dætur sínar á þessu tímabili en hafi einungis lagt fram gögn er sýni fram á útgjöld að fjárhæð 16.240 krónur. Þá sýni önnur gögn frá kæranda ekki fram á markverð viðbótarútgjöld vegna framfærslukostnaðar.

Telja verði að með því að standa ekki við skyldur sínar í greiðsluskjóli og með því að ráðstafa tilgreindum fjármunum til annars en greiðslu skulda hafi kærandi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt.

Að framangreindu virtu telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun og hafi henni því verið synjað með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umboðsmaður skuldara telji óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og er umsókninni synjað með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Kærandi sótti fyrst um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 29. desember 2010 og þann dag hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge. Umsókn kæranda var samþykkt 28. júlí 2011 og var henni skipaður umsjónarmaður. Kærandi féllst ekki á þá ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., að selja íbúð sína í greiðsluaðlögunarferli. Greiðsluaðlögunarumleitanir hennar voru því felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2013. Þessa ákvörðun kærði kærandi til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kærunefndin kvað upp úrskurð 17. september 2015 og staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Þar með féll greiðsluskjól kæranda niður samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge. og lauk þá einnig heimild kæranda að ná samningi við kröfuhafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lge.

Kærandi sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 13. maí 2016 eða um átta mánuðum eftir að fyrra máli var lokið. Umsókn kæranda var hafnað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júní 2016. Þessa ákvörðun kærði hún til úrskurðarnefndar velferðarmála og er sú ákvörðun til meðferðar í úrskurði þessum.

Við meðferð síðara málsins kvaðst kærandi ekki hafa lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar á tímabili fyrra máls. Þá greindi hún frá því að á tímabili fyrra máls hafi hún ráðstafað því fé sem hún hafði umfram framfærslukostnað til uppkominna dætra sinna. Byggir umboðsmaður ákvörðun sína í málinu á þessum yfirlýsingum kæranda. Eins og háttar til í máli þessu telur úrskurðarnefndin að nauðsynlegt hafi verið að afla frekari gagna um fjárhag kæranda á þeim tíma er hún sótti um greiðsluaðlögun en í málinu liggja til dæmis ekki fyrir yfirlit yfir bankareikninga sem upplýst gætu um fjárhag kæranda. Þannig skortir viðunandi gögn sem staðfesta frásögn kæranda um fjárhagslega stöðu hennar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja það grundvallaratriði þegar sótt er um greiðsluaðlögun að staðreyna upplýsingar um fjárhag viðkomandi skuldara, hvort sem skuldari segist eiga fjármuni og eignir eða ekki. Verður ekki séð að lge. heimili ólíka málsmeðferð hvort sem skuldari kveðst hafa ráðstafað fé sínu og/eða eignum eða segist eiga eignir. Í báðum tilvikum þarf að staðreyna raunverulegan fjárhag skuldarans.

Um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál er mælt fyrir um í 5. gr. lge. Styðst ákvæðið við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Eins og hér hefur verið rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi ekki haft forsendur til að meta framgöngu kæranda í fyrra máli. Þá hafi embættið heldur ekki kannað fjárhag kæranda á þeim tíma er hún sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin ekki á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að staðreynt hafi verið með fullnægjandi hætti að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og málið sent til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta