Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 190/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 190/2016

Föstudaginn 20. janúar 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. maí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. maí 2016 um að synja kæranda um breytingu á ákvörðun stofnunarinnar um milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans frá 25. apríl 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 25. apríl 2016, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna með barni þeirra. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsókn um milligöngu meðlagsgreiðslna frá 25. apríl 2016. Kæranda var tilkynnt um milligöngu Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 27. apríl 2016. Með tölvubréfi 2. maí 2016 gerði kærandi athugasemd við ákvörðun stofnunarinnar um milligöngu meðlagsgreiðslna með þeim rökum að hann hefði nú þegar greitt barnsmóður sinni beint meðlag fyrir maímánuð og lagði fram greiðslukvittun því til stuðnings. Með bréfi, dags. 4. maí 2016, greindi Tryggingastofnun frá því að stofnuninni hefði borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins til barnsmóður kæranda. Því hefði stofnunin ekki heimild til að líta til greiðslukvittunar sem kærandi hafi lagt fram.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2016. Með tölvubréfi sama dag óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 8. júní 2016, og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála taki afstöðu til eftirfarandi atriða:

„1) Krafa um greiðslu kr. 35.363 verði felld niður þar sem ég hef sannanlega greitt þessa upphæð og beri ekki að tvígreiða hana.

2) Verkferlar TR varðandi tilkynningarskyldu til greiðenda verði endurskoðaðir með tilliti til þess að greiðanda verði sannanlega birt tilkynning með hæfilegum fyrirvara (viðhengi).“

Í kæru segir að kærandi hafi hingað til greitt barnsmóður sinni meðlag beint, án aðkomu Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga og að hann hafi greitt meðlag til barnsmóður sinnar fyrir fram fyrir maímánuð þann 1. maí 2016. Þá hafi barnsmóðir hans sent inn umsókn til Tryggingastofnunar sem milligönguaðila um greiðslu meðlags sem var samþykkt, án þess að honum hafi verið gert strax viðvart. Þann 2. maí hafi kærandi fengið bréf í pósti frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 27. apríl, þess efnis að stofnunin myndi framvegis vera milligönguaðili um greiðslu meðlags og að Innheimtustofnun sveitarfélaga myndi sjá um innheimtuna. Þann 3. maí hafi kærandi fengið bréf frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, dags. 28. apríl 2016, þar sem fram kom að stofnuninni hafi verið falið að innheimta meðlag frá 25. apríl, sem sé í ósamræmi við upplýsingar frá Tryggingastofnun þar sem fram komi að meðlag yrði greitt frá 24. apríl. Kærandi sé ósáttur við að það virðist ekki vera nein tilkynningarskylda til greiðanda í þessum málum og greiðandi sé í raun algjörlega réttlaus. Þá segir kærandi að hann hafi óskað eftir því að krafan yrði felld niður þar sem hún væri þegar greidd en því hafi verið hafnað. Kærandi kveðst vera búinn að borga fyrir maímánuð en þessar upplýsingar hafi verið virtar að vettugi og hann sé því krafinn aftur um greiðslu meðlags, ekki bara fyrir maímánuð heldur líka fyrir viku í apríl. Þá segir að kærandi sé ekki löglærður en að honum finnist halla mikið á upplýsingaskyldu yfirvalda í þessu efni. Hann sé augljóslega og sannanlega búinn að uppfylla sína greiðsluskyldu en Trygginga-stofnun virði það algjörlega að vettugi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að stofnunin hafi synjaði kæranda með bréfi, dags. 4. maí 2016, að taka til greina að hann hafi borgað barnsmóður sinni beint meðlag með syni sínum fyrir maímánuð 2016. Kærandi hafi lagt fram kvittun, dags. 2. maí 2016, sem sýni að kærandi hafi lagt inn á barnsmóður sína 29.469 kr. og kom fram á kvittuninni að um meðlag væri að ræða en ekki fyrir hvaða mánuð. Forsaga þess sé sú að Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 27. apríl 2016, að stofnunin hafi samþykkt milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 24. apríl 2016 með syni þeirra. Rangt hafi verið farið með dagsetningu á upphafstíma meðlagsins en Tryggingastofnun hafi samþykkt greiðslu meðlagsins frá 25. apríl 2016. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 25. apríl 2016 um meðlag frá 25. apríl 2016, ásamt staðfestingu á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlagi frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. janúar 2015, þar sem fram komi að kærandi skuli greiða tvöfalt meðlag með syni sínum frá 1. janúar 2015 til 18 ára aldurs.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Um heimildarákvæði sé að ræða í 4. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og því sé ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann, heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengur en eitt ár.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segi að þegar meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Þá segi að með sérstökum ástæðum sé meðal annars átt við ef meðlagsmóttakanda hafi af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Í úrskurði félags- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 16. febrúar 2010, segi að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest sé af sýslumanni beri Tryggingastofnun samkvæmt 1. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn til greina við milligöngu um greiðslu meðlags en þau sem talin séu upp í framangreindum ákvæðum.

Þá segi í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 466/2010 að þrátt fyrir að kærandi geti sýnt fram á að hann hafi lagt inn tiltekna fjárhæð á reikning barnsmóður sinnar breyti það engu um þá staðreynd að Tryggingastofnun beri skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting sýslumanns á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlag, dags. 21. janúar 2016, sem kveði á um meðlagsgreiðslur kæranda til barnsmóður sinnar. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda, móttekin 25. apríl 2016, um meðlag frá 25. apríl 2016. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið, tilvitnuðum lagaákvæðum og fyrirliggjandi gögnum, hafi Tryggingastofnun borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 25. apríl 2016 og ekki hafi verið heimilt að taka til greina að hann hafi greitt meðlag beint til barnsmóður sinnar fyrir maímánuð 2016. Sambærileg niðurstaða hafi einnig verið í kærumálum nr. 42/2012, 81/2013 og 334/2014 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um breytingu á ákvörðun stofnunarinnar um milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans frá 25. apríl 2016.

Samkvæmt 1. og 2. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt 4. mgr. tilgreinds lagaákvæðis er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við. Þá segir í 6. mgr. 63. gr. laganna að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins inni af hendi. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í framangreindu lagaákvæði.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun ríkisins skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Um upphafstíma greiðslna meðlags er nánar fjallað í 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 með síðari breytingum. Ákvæði 1. og 2. mgr. 6. gr. hljóðar svo:

„Upphaf greiðslna skal vera samkvæmt þeirri dagsetningu sem fram kemur í meðlagsákvörðun, sbr. þó 7. gr. um greiðslur aftur í tímann. Meðlag skal greiða fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar. Greiðslur skulu að jafnaði hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist Trygginga­stofnun skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.“

Þá segir í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þegar meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að tólf mánuði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þá segir svo í 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlag frá 25. apríl 2016 með umsókn, móttekinni 25. apríl 2016, á grundvelli staðfests samkomulags um forsjá, lögheimili og meðlag, dags. 21. janúar 2015. Samkvæmt samkomulaginu ber kæranda að greiða barnsmóður sinni tvöfalt meðlag með barninu til átján ára aldurs þess. Stofnunin samþykkti milligöngu um einfaldar meðlagsgreiðslur frá umsóknardegi 25. apríl 2016 með stoð í framangreindu lagaákvæði á grundvelli áðurnefndrar umsóknar og meðlagsákvörðunar.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur.

Kærandi byggir á því að hann hafi greitt meðlag til barnsmóður sinnar á tímabilinu 25. apríl til 31. maí 2016, án milligöngu Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin telur engu að síður í máli þessu að hvorki verði ráðið af lögunum né lögskýringargögnunum að stofnunin hafi heimild til annars en að fara að framangreindu lagaákvæði sem gildir um milligöngu stofnunarinnar um greiðslu meðlags liggi fyrir lögformleg meðlagsákvörðun þess efnis. Umsókn barnsmóður kæranda var samþykkt frá umsóknardegi í samræmi við beiðni hennar og meðfylgjandi gögn. Þar sem ekki er um að ræða meðlagsgreiðslu aftur í tímann kemur ákvæði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ekki til skoðunar. Því hafa milliliðalausar greiðslur kæranda til barnsmóður sinnar enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Þá gerir kærandi þá kröfu að úrskurðarnefnd velferðarmála taki til skoðunar verkferla Tryggingastofnunar varðandi tilkynningarskyldu til greiðanda meðlags. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þá skal ákvörðun tilkynnt aðila máls eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun nema það sé augljóslega óþarft, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Eins og áður hefur komið fram sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna þann 25. apríl 2016. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um að umsókn barnsmóður hans um milligöngu meðlagsgreiðslna hefði verið samþykkt með bréfi, dags. 27. apríl 2016. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið bréfið í pósti 2. maí 2016. Í tölvupósti hans til Tryggingastofnunar ríkisins upplýsir hann einnig að hann hafi sama dag skoðað bréfið frá 27. apríl 2016 á „mínum síðum“ á vef stofnunarinnar en ekki áttað sig á tilvist þess fyrr þar sem hann fái mikið af tilkynningum um rafræn skjöl. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum kæranda leið því í mesta lagi vika frá því að barnsmóðir hans sótti um milligöngu meðlagsgreiðslna þangað til honum var tilkynnt um að umsóknin hefði verið samþykkt. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemd við afgreiðslutíma stofnunarinnar. Að mati nefndarinnar var málið bæði afgreitt og tilkynnt innan hæfilegs tíma.

Með hliðsjón af framangreindu verður að mati úrskurðarnefndar ekki annað ráðið en að ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Ákvörðun stofnunarinnar um milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 25. apríl 2016 er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna frá 25. apríl 2016 til 31. maí 2016 til barnsmóður A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta