Hoppa yfir valmynd

Nr. 171/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 171/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020067

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. febrúar 2021 barst kæra einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, um að synja honum um dvalarskírteini samkvæmt 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. gr. laga um útlendinga, þann 15. apríl 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, var umsókninni synjað. Þann 24. febrúar 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti kærunefndar til kæranda, dags. 19. mars 2021, var kæranda leiðbeint um að ef hann vildi leggja fram greinargerð eða önnur gögn til kærunefndar hefði hann frest til 6. apríl 2021 til að leggja slíkt fram. Greinargerð eða frekari gögn bárust ekki frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að að vegabréf kæranda væri ekki í samræmi við fyrirmynd af vegabréfi frá sama ríki. Hafi vegabréfið verið sent í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum þann 19. október 2020 og hefði skýrsla lögreglunnar borist Útlendingastofnun þann 11. nóvember 2020. Hafi niðurstaðan verið sú að vegabréfið væri breytifalsað. Hafi kæranda verið sent bréf hinn 16. nóvember 2020 þar sem honum hafi m.a. verið kynnt niðurstaða áreiðanleikakönnunar og hafi honum verið veittur 15 daga frestur til að leggja fram gögn eða andmæli. Í tölvupósti kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2021, kæmi fram að kærandi hafi rætt sérstaklega við lögreglu varðandi vegabréfið og útskýrt þau atriði sem lögregla hefði út á það að setja. Jafnframt hefði komið fram að hann hefði notað sama vegabréf í öðrum löndum Evrópu án vandkvæða.Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 4. mgr. 83. gr. né 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Þá hefði kærandi auk þess orðið uppvís að því að misnota skjal og lagt það fram hjá Útlendingastofnun en slíkt færi í bága við 1. mgr. 92. gr. laganna. Með vísan til þess var umsókn hans synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.Umsókn kæranda um dvalarskírteini byggir á hjúskap hans með spænskum ríkisborgara, [...], sem búsett er hér á landi. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga um útlendinga er EES- eða EFTA-borgara sem framvísar gildu vegabréfi eða kennivottorði heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem vera hans verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Í 4. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að ákvæði 1. mgr. gildi einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf.

Í 86. gr. er kveðið á um rétt til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 85. gr. eftir því sem við á um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga.

Í 90. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar og hafa rétt til dvalar skv. 86. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 90. gr. segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins. Er staðfesting á umsókn gefin út um leið og viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. mgr. Í 2 mgr. 90. gr. segir að með umsóknum um dvalarleyfi fyrir aðstandanda skuli leggja fram gilt vegabréf, sbr. a-lið, gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar, sbr. b-lið, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til, sbr. c-lið og staðfestingu á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hans, sbr. d-lið ákvæðisins. Í 92. gr. laga um útlendinga er kveðið á um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. fellur réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þess kafla niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 84., 85. eða 86. gr. laganna. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði 92. gr. sé í samræmi við 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB þar sem gert sé ráð fyrir því að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna við misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mæli fyrir um.

Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun og rakið hefur verið í II. kafla úrskurðar þessa var vegabréf kæranda sent í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 9. nóvember 2020, kom fram að vegabréfið væri breytifalsað en á þremur stöðum í því hefði handskrifuðum upplýsingum verið breytt. Kærandi hefur við meðferð málsins hjá stjórnvöldum ekki fært fram skýringar sem eru til þess fallnar að draga í efa framangreinda niðurstöðu sérfræðinga á sviði skjalarannsókna hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Kærandi uppfyllir því hvorki skilyrði 4. mgr. 83. gr. né 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga um að framvísa gildu vegabréfi. Þá er það jafnframt mat kærunefndar að með framlagningu umrædds vegabréfs, sem er breytifalsað, sé skilyrði til brottfalls dvalarréttar uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 92. gr., enda er um misnotkun á skjali að ræða, sbr. 2. ml. ákvæðisins. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði til útgáfu dvalarskírteinis fyrir aðstandanda EES- eða EFTA-borgara sem ekki er EES- eða EFTA-borgari. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi skuli yfirgefa landið og vekur nefndin athygli á því að kærandi óskaði ekki eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og öðlaðist ákvörðunin því full réttaráhrif við birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar þann 23. febrúar 2021. Bar kæranda því, í samræmi við ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis, að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar eða fyrir þann 25. mars 2021.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta