Hoppa yfir valmynd

Nr. 186/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 186/2019

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 15. maí 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 6. mars 2019 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu X þegar hann var að [...]. Við það [...]. Tilkynning um slys var móttekin X hjá Sjúkratryggingum Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 6. mars 2019, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 0%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2019. Með bréfi, dags. 20. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 7. júní 2019, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júní 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að tekið verði mið af matsgerð C læknis, dags. X 2018, við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda.

Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið að [...] með þeim afleiðingum að hægri hönd hans slóst í [...] og slinkur kom á hægri olnboga. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum, sbr. meðfylgjandi læknisfræðileg gögn.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 6. mars 2019, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða þar sem örorka hans vegna slyssins hefði verið metin 0%. Meðfylgjandi hafi verið tillaga að mati á varanlegri örorku, dags. X 2019, sem hafi verið unnin af D lækni.

Kærandi geti á engan hátt sætt sig við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og telji afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar af D lækni. Kærandi hafi gengist undir örorkumat hjá C lækni og með matsgerð hans, dags. X 2018, hafi kærandi verið metinn með 4% varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins. Um sé að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands á varanlegi læknisfræðilegri örorku hans samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og krefjist þess að tekið verið mið af matsgerð C læknis við mat á læknisfræðilegri örorku.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að X hafi Sjúkratryggingum Íslands borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi varð fyrir X. Með bréfi, dags. 21. júní 2017, hafi stofnunin  samþykkt að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun, dags. 6. mars 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins verið metin engin. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Bætur úr slysatryggingum almannatrygginga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 9. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 3. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga. Þá taki Sjúkratryggingar Íslands sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu milli einkenna og hins tilkynnta slyss.

Örorka sú, sem metin sé samkvæmt lögunum, sé læknisfræðileg örorka þar sem metin sé skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafi fyrir líkamstjóni. Við matið sé stuðst við miskatöflur örorkunefndar þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka séu metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til hvaða áhrif örorkan hafi á getu til öflunar atvinnutekna.

Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gildi reglur 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið talin engin. Við ákvörðunina hafi verið stuðst við fyrirliggjandi gögn, þar á meðal tillögu að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku sem D, læknir, [...], sérfræðingur í [...], hafi gert að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, dags. X 2019.

Í viðtali við matslækni hafi meðal annars komið fram að kærandi hafi lent í slysi X við vinnu sína. Kærandi hafi þá verið að [...]. Við það hafi hægri hönd hans klemmst og komið slinkur á framhandlegg.

Kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítalans (LSH) daginn eftir. Í bráðamóttökuskrá komi fram að kærandi hafi kvartað undan verkjum í hægri hönd og framhandlegg. Við skoðun hafi verið lýst þrota á hægra handarbaki og [...] og að auki eymslum miðlægt í hægri olnboga en skoðun á olnboga hafi að öðru leyti verið talin eðlileg. Kærandi hafi verið talinn vera með maráverka á [...] og festumein miðlægt í hægri olnboga. Hann hafi fengið umbúðir til hvíldar og verið ávísað verkjalyfjum, auk þess sem hann hafi fengið almennar ráðleggingar. Kærandi hafi verið frá vinnu í nokkra daga, eða þar til X. Eftir þetta hafi ekki verið um neina frekari meðferð að ræða og hann ekki leitað til læknis aftur vegna olnbogans fyrr en í X eða um það bil X mánuðum eftir slysið. Kærandi hafi þó endurtekið komið á bráðamóttöku í X vegna afleiðinga annars slyss en í því slysi virðist kærandi hafa hlotið [...].

Þann X hafi kærandi leitað til heimilislæknis vegna verkja í hægri olnboga. Við skoðun þá hafi eymsli verið mest yfir vöðvafestum hliðlægt í hægri olnboga og kærandi talinn hafa tennisolnboga. Kærandi hafi gengist undir segulómskoðun í X sem hafi verið talin sýna fram á [...]. Í framhaldinu hafi kæranda verið vísað til E [læknis] sem hafi skoðað kæranda X. Verkur kæranda hafi þá verið hliðlægt í olnboga og E hafi einnig talið kæranda vera með tennisolnboga (festumein hliðlægt í olnboganum). Kæranda hafi verið vísað til meðferðar hjá sjúkraþjálfara en á matsfundi hafi kærandi sagst ekki hafa farið í þá meðferð og sagst ekki hafa leitað til fleiri lækna vegna þessa.

Aðspurður um einkenni sín hafi kærandi kveðið dagamun vera á líðan sinni. Suma daga væri hann slæmur en aðra daga í lagi. Hann vissi þó alltaf af hægri olnboga og fengi þar verki hliðlægt við álag og áreynslu. Verkirnir leiði stundum [...] og stundum [...]. Kærandi hafi neitað dofa og kveðist ekki búa við svefntruflanir. Að lokum kveðist kærandi stundum finna fyrir hreyfiskerðingu í hægri olnboga og stundum fyrir kraftskerðingu.

Við skoðun hjá matslækni hafi meðal annars eftirfarandi komið fram:

„Skoðun á öxlum er innan eðlilegra marka. Engar vöðvarýrnanir eru sýnilegar á [...]. Við skoðun á olnbogum er ekki að sjá neinar aflaganir, þrota eða annað í þá áttina. Það eru þreifieymsli hliðlægt á hægri olnboga, yfir hliðlægri hnúagnípu (epicondylus lateralis humeri), í festum réttivöðva. Það vantar örlitið upp á fulla réttu í hægri olnboga, eiginlega svo lítið að það er vart mælanlegt en að öðru leyti er hreyfigeta eðlileg en gróft prófaður kraftur um hægri olnboga vægt skertur. Það koma einnig fram verkir í áðurnefndum [...]. Skoðun á [...] er innan eðlilegra marka.“

Matslæknir hafi talið útilokað að kærandi hefði við slysið hlotið rof (hlutarof eða algert) í festur réttivöðva hliðlægt í hægri olnboga. Að mati læknisins hefðu einkenni tjónþola daginn eftir slysið verið verulega meiri ef svo hefði verið og þau hefðu verið staðsett hliðlægt í olnboganum en ekki miðlægt eins og segi í bráðamóttökuskrá við fyrstu komu kæranda á Landspítalann. Með hliðsjón af framangreindu teldi matslæknir ekkert styðja við það að í umræddu slysi hefði kærandi hlotið áverka hliðlægt í hægri olnboga og þá teldi hann ekkert styðja það að sá vægi tennisolnbogi sem kærandi væri með núna væri afleiðing af hinu tilkynnta slysi. Að öllu virtu taldi matslæknir að afleiðingar slyssins X hefðu ekki leitt til neinnar varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.

Í kæru sé talið að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar og vísi kærandi máli sínu til stuðnings til matsgerðar C læknis, dags. X 2018. Kærandi telji niðurstöðu D ranga og að miða beri við forsendur og niðurstöður þær sem fram komi í matsgerð C.

Samkvæmt viðtali og skoðun C læknis, sem fram hafi farið X 2018, hafi kærandi verið með stanslausan verk í utanverðum olnboga. Kærandi hafi sagst alltaf vera með verkinn, þetta trufli hann þegar hann tali í síma. Kærandi hafi sagt það vera vont að skrifa og hafi kvartað undan erfiðleikum í [...]. Ástandið væri ekki að lagast heldur frekar að versna. Á matsfundinum hafi komið fram að kærandi hefði ekki farið í sjúkraþjálfun og ekki sótt sér frekari meðferð eftir X. Eymsli hafi verið sögð lítil á matsfundi við skoðun á olnboga utanverðum og engan óstöðugleika verið hægt að finna við álagspróf á olnboga. Þar sem einkenni, sem lýst hafi verið, hafi virst meiri en skoðun hafi gefið til kynna, hafi matslæknir ákveðið að fá nýja segulómskoðun til að auðvelda mat á afleiðingum slyssins. Niðurstöður þeirra rannsóknar hafi verið eftirfarandi:

„Það eru seglskinsbreytingar í common extension festunni við laterala humerus epicondylnum. Útlitið samrýmist tennisolnboga. Það er ekki um verulegar breytingar að ræða en þær eru nokkuð dreifðar í festusvæðinu. Hugsanlega örlítil rifa efst í svæðinu. Ekki sjást neinar bein- eða liðbreytingar. Önnur [...] líta eðlilega út og [...].“

Í matsgerð C komi fram að kærandi hafi haft samband símleiðis við hann X 2018 og hafi hann þá sagst hafa verið í fríi frá sinni hefðbundnu vinnu. „Við þetta hvarf verkurinn í olnboganum og hann fór að taka eftir að hann er alltaf í sömu stöðu í vinnunni og velti því upp hvort að vinnan væri orsakaþáttur í þeim óþægindum sem væru til staðar nú.“ Vegna framangreinda breytinga á líðan hafi kærandi verið kallaður aftur til skoðunar hjá C Þá hafi komið fram að um leið og kærandi hafi farið að beita hendi og handlegg aftur hafi komið sömu einkenni og áður höfðu verið. Skoðun hafi sömuleiðis verið samsvarandi og áður en líklega heldur meiri eymsli við þreifingu utanvert í olnboga. Varanleg læknisfræðileg örorka hafi verið metin 4% (fjögur af hundraði) með vísan til liðar D.1.4.1 í dönsku miskatöflunum og lið VII.A.b.1 í hinni íslensku.

Sjúkratryggingar Íslands hafni því að afleiðingar slyssins X hafi verið vanmetnar af stofnuninni. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að tennisolnbogi hafi verið greindur sumarið eftir slysið. Kærandi hafi þá verið kominn með eymsli í laterala epicondyl en hann hafi verið aumur í mediala epicondyl (miðlægt í olnboga) þegar hann var skoðaður á bráðamóttöku við fyrstu komu á Landspítalann eftir slysið. Samkvæmt bráðamóttökuskrá hafi kærandi þá ekki verið með nein einkenni frá laterala epicondyl. Að mati Sjúkratrygginga Íslands megi samkvæmt framansögðu draga þá ályktun að tennisolnbogavandamál (epicondylitis lateralis) kæranda hafi komið til síðar og sé því ekki tengt slysinu X.

Með vísan í umfjöllun D í matsgerð sinni verði ekki séð af gögnum málsins að slysið hafi valdið áverka á vöðvafestur á hliðlæga (laterala) epicondyl olnbogans. Þá beri að athuga að kærandi fái einkenni tennisolnboga við það álag sem hann verði fyrir í vinnu, álag sem ekki sé skilgreint nánar og nefni C einnig að kærandi eigi í erfiðleikum með [...]. Þær hreyfingar og [...] álagið, sem vinna og tómstundir kæranda geti falið í sér, geti auðveldlega framkallað tennisolnboga án þess að slys eða áverki komi til.

Það sé afstaða Sjúkratrygginga Íslands að afleiðingar slyssins hafi ekki leitt til varanlegs heilsutjóns fyrir kæranda og að ekki séu orsakatengsl milli tennisolnbogaeinkenna og slyss þess sem hér um ræði. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi því ekkert komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Að öllu virtu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 6. mars 2019, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%.

Í bráðamóttökuskrá F og G, dags. X, segir um slys kæranda:

„Verkur hæ handlegg og hendi, […]við vinnu sl. X.

A complains of pain on right forearm and after he got [...]. [...].“

Samkvæmt bráðamóttökuskránni fékk kærandi eftirfarandi sjúkdómsgreiningar: […]Medial epicondylitis, M77.0.

Í læknisvottorði H heimilislæknis, dags. X 2018, kemur fram að kæranda hafi verið vísað til I [læknis]. Í læknabréfi I, dags. X 2017, segir samkvæmt vottorði H:

„[Kærandi] er almennt hraustur maður. Skv. tilvísun lenti hann í slysi í X, þar sem hann var að [...]. […] Skv. tilvísun segir að mest eymsli hafi verið yfir lateral epicondyl en markvert er að í nótu slysadeildar er rætt um medial epicondyl. Athygli [kæranda] er vakin á þessu.

[Kærandi] hefur síðan haft verki í [...]. Hann vann við slysið sem launþegi hjá J. Vinnan var [...]. Varð að hætta  […] sökum einkenna frá olnboganum. Hefur snúið sér að [...]. Hann kveðst ekki lengur getað [...]. [Kærandi] segir einkenni sín hafi aukist frekar en hitt. Segir bólgueyðandi ekkert hafa hjálpað.

[…] Engin sýnileg bólga eða aflögun á hægri olnboga. Staðbundið [...]. Aumur þar [...]. Engin eymsli [...].

Samkvæmt læknabréfinu er greining kæranda Lateral epicondylitis, M77.1.

Í matsgerð C, [læknis], dags. X 2018, segir svo um skoðun á kæranda X 2018:

„Tjónþoli er í góðu jafnvægi og svarar vel spurningum. Skoðun beinist að [...]

Tjónþoli[…] og beygir og réttir olnboga að fullu.

[...].

Það eru ekki sýnilegar [...].

[…]

[...]

Frekar væg þreyfieymsli eru yfir festum réttivöðva í hægri olnboga en ekki eru þreyfieymsli lengra fjærmegin yfir olnboga [...].“

Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Um er að Xslys.

[…]

Tjónþoli varð einnig fyrir slysi X þar sem [...]. Nokkurs ósamræmis gætir í skráningu varðandi þetta slys, í fyrstu skráningu er talað um að eymsli hafi verið við medial epicondyl, þ.e.a.s. innan á olnboga, en tjónþoli segist hafa verið með verki í utanverðum olnboga og það kemur heim við það sem heimilislæknir skrifar og E. Miðað við lýsingu á áverkanum er líklegra að áverki hafi komið á utanverðum olnboga en innanverðan. [...] Aðspurður um hver hafi greint „[...]“, eins og getið er um í tjónstilkynningu og einnig í nótu heimilislæknis þann X 2017, svarar tjónþoli því til að læknir á slysadeild, sem framkvæmdi fyrstu skoðun, hafi sett þá greiningu. Það verður að skoða svar við segulómunarrannsókn þann X 2017 í þessu ljósi, þ.e. að beinlínis er spurt um [...].

Að dómi matsmanns gæti útlit mynda einnig komið heim við lateral epicondylitis (festumein í réttivöðva, tennisolnbogi), sem er sú greining sem E setur eftir sína rannsókn í K þann X 2017

Eymsli voru lítil á matsfundi við skoðun á olnboga utanverðum [...]. Þar sem einkenni, sem lýst var, virtust meiri en skoðun gaf til kynna var fengin ný segulómskoðun til að auðvelda endanlegt mat á afleiðingum slyssins. Niðurstaða rannsóknarinnar sem var gerð í K X 2018 var eftirfarandi:

Segulómun hægri olnbogi:

Það eru seglskinsbreytingar í common extension festunni við laterala humerus epicondylnum. Útlitið samrýmist tennisolnboga. Það er ekki um verulegar breytingar að ræða en þær eru nokkuð dreifðar í festusvæðinu. Hugsanlega örlítil rifa efst í svæðinu. [...]

Matsmaður skráði eftirfarandi símtal X 2018:

[Kærandi] var hjá mér nýlega vegna matsvinnu. Hann bað um samtal í gegnum ritara hér frammi. Það hefur dregist að gefa honum tíma í segulómun og ég ýtti á það mál og hann fær tíma X. Hann sagðist hafa verið í fríi frá sinni hefðbundnu vinnu, verið að [...] en ekki í sinni hefðbundnu vinnu. Við þetta hvarf verkurinn í olnboganum og hann fór að taka eftir að hann er alltaf í sömu stöðu í vinnunni og velti því upp hvort vinnan væri orsakaþáttur í þeim óþægindum sem væru til staðar nú. Mér finnst rétt að taka smá umhugsunarfrest og ræða aftur við hann.

Vegna ofangreindra breytinga á líðan var tjónþoli kallaður aftur til skoðunar í K X 2018.

Í viðtali þar kom fram að um leið og tjónþoli fór að beita hendi og handlegg aftur komu sömu einkenni og voru áður og er lýst hér að framan. Skoðun var sömuleiðis samsvarandi og áður, en líklega heldur meiri eymsli við þreifingu utanvert í olnboga.

Litið er svo á að umrædd einkenni frá olnboga séu varanlegar afleiðingar slyss X og að tímabært sé að meta afleiðingar slyssins.“

Um mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku í matsgerðinni segir:

„Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er vísað í danska miskatöflu, lið D 1.4.1. til tider belastningsudløste smerter og normal bevægelighed <5%.

Einnig lið VII A.b.1. í hinni íslensku.

Að öllu virtu er varanleg læknisfræðileg örorka metin 4%.“

Í tillögu D [læknis] að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, segir svo um skoðun á kæranda X 2018:

„Eðli áverka og kvartana samkvæmt, einskorðast líkamsskoðun [...] tjónþola.

Hann kemur vel fyrir á matsfundi, er rólegur og yfirvegaður og gefur greinargóð svör við spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Geðslag virðist vera eðlilegt.

Skoðun á [...] er innan eðlilegra marka. [...]

Við skoðun á olnbogum er ekki að sjá [...] eða annað í þá áttina. Það eru þreyfieymsli hliðlægt á hægri olnboga, yfir hliðlægri hnúagnípu (epicondylus lateralis humeri), í festum réttivöðva. Það vantar örlítið upp á fulla réttu í hægri olnboga, eiginlega svo lítið að það er vart mælanlegt en að öðru leyti er hreyfigeta eðlileg en gróft prófaður kraftur um hægri olnboga vægt skertur. Það koma einnig fram verkir í [...].

Skoðun á [...] er innan eðlilegra marka.

[...].“

Í forsendum og niðurstöðum tillögunnar segir svo:

„Tjónþoli, [...], var x ára þegar hann lenti í umræddu slysi við vinnu sína þann x. Hann var þá að [...]. Við það [...].

Hann hlaut  […]og hugsanlega einhvern vægan tognunaráverka […] og miðlægt í olnboga. Áverkar þessir kröfðust engrar sérstakrar meðferðar og tjónþoli var kominn aftur til vinnu X dögum síðar.

Næstum X mánuðum síðar fór hann til heimilislæknis vegna versnandi verkja hliðlægt í hægri olnboga og var með einkenni tennisolnboga. Segulómskoðun íX sýndi fram á segulskynsbreytingar í festum réttivöðva hliðlægt í hægri olnboga og hefur verið látið að því liggja að hann sé með rof í festum þessara vöðva.

Á matsfundi er hann með einkenni og kvartanir sem heimfæra má upp á tennisolnboga hægra megin en það ástand er vægt.

Að mínu mati er af og frá að tjónþoli hafi við umrætt slys hlotið rof (hlutarof eða algert) í festur réttivöðva hliðlægt í hægri olnboga. Einkenni hans daginn eftir slysið hefðu verið verulega miklu meiri ef svo hefði verið og þau hefðu verið staðsett hliðlægt í olnboganum en ekki miðlægt eins og segir í bráðamóttökuskrá. Af þessu leiðir að ég tel ekkert styðja við það að í umræddu slysi hafi tjónþoli hlotið neinn áverka hliðlægt í hægri olnboga og ég tel ekkert styðja það að sá vægi tennisolnbogi sem tjónþoli er með núna sé afleiðing af umræddu slysi.

Hann kveðst nú hafa jafnað sig vel í [...]

Að öllu virtu fæ ég ekki séð að afleiðingar slyssins X hafi leitt til neinnar varanlegrar læknisfræðilegrar örorku sem þar með telst engin vera.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi var að [...]. Við það [...].  Í matsgerð C [læknis], dags. X 2018, eru afleiðingar slyssins taldar vera einkenni tennisolnboga í hægri olnboga. Samkvæmt örorkumatstillögu D [læknis], dags. X 2019, telur hann kæranda ekki hafa hlotið neina áverka hliðlægt í hægri olnboga og telur hann ekkert styðja það að sá vægi tennisolnbogi sem tjónþoli er með núna, sé afleiðing af slysinu.

Af fyrirliggjandi gögnum fær úrskurðarnefnd ráðið að við umrætt óhapp hafi kærandi fengið tognunaráverka á […]og olnboga. Við læknisskoðun daginn eftir var lýst einkennum innanvert á olnboga frá miðlægri upparmsgnípu (lat. epicondylus medialis). X mánuðum síðar hafði hann síðan einkenni um festumein í hliðlægri upparmsgnípu (lat. epicondylus lateralis) sem eins og nafnið bendir til liggur utanvert í olnboganum. Þetta er algengur sjúkdómur sem einatt gengur undir nafninu tennisolnbogi. Frá honum eru þau varanlegu einkenni sem kærandi býr við. Úrskurðarnefnd lítur meðal annars til þess að samkvæmt samtímagögnum voru einkenni áverkans staðsett annars staðar í olnboganum en þau einkenni sem síðar er lýst og hafa varað til lengri tíma. Að mati nefndarinnar eru því minni líkur en meiri á að festumeinið sé bein orsök þess slyss sem hér um ræðir. Samkvæmt því telst varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins engin vera, að áliti úrskurðarnefndar.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss kæranda er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta