Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2015 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 19/2015

Fimmtudaginn 5. október 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, óskaði A, eftir endurupptöku máls nr. 19/2015 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 2. júní 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun árið 2014 og fékk greiddan makalífeyri frá þremur lífeyrissjóðum samhliða þeim greiðslum. Vinnumálastofnun skerti greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar af þeim sökum í samræmi við reiknireglu 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og var sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með úrskurði 2. júní 2015. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til álita umboðsmanns Alþingis nr. 9081/2016 og 9217/2017. Úrskurðarnefnd velferðarmála féllst á beiðni kæranda um endurupptöku og var kæranda greint frá þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 12. september 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að úrskurðarnefndin taki til endurskoðunar ákvörðun Vinnumálastofnunar er varðar skerðingu á atvinnuleysisbótum hennar á árinu 2014 vegna greiðslu makalífeyris frá lífeyrissjóðum. Kærandi tekur fram að hvergi í lögum nr. 54/2006 sé kveðið á um að draga eigi makalífeyri frá rétti fólks til atvinnuleysisbóta, frekar en að draga eigi frá laun maka þess sem fái greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi vísar til þess að umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum nr. 9081/2016 og 9217/2017 komist að því að slík afgreiðsla sé ekki í samræmi við lög.

III. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Vinnumálastofnun skerti atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli framangreinds ákvæðis vegna makalífeyrisgreiðslna sem hún fékk frá þremur lífeyrissjóðum.

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er ekki sérstaklega kveðið á um að makalífeyrir skerði atvinnuleysisbætur og kemur því til skoðunar hvort niðurlag 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. eigi við um slíkar greiðslur. Kærandi fékk makalífeyrinn greiddan úr almennum lífeyrissjóðum en í 1. mgr. 36. gr. er sérstaklega tilgreint hvaða greiðslur úr slíkum sjóðum leiða til frádráttar á atvinnuleysisbótum. Að því virtu að makalífeyririnn var greiddur úr almennum lífeyrissjóðum er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær greiðslur uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um að vera „aðrar greiðslur […] frá öðrum aðilum“. Vinnumálastofnun var því óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda vegna þeirra.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta