Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 102/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 102/2017

Miðvikudaginn 11. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. mars 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. desember 2016 á umsókn kæranda um greiðslu ellilífeyris aftur í tímann.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris þann 1. febrúar 2010. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2012, tilkynnti stofnunin kæranda um stöðvun lífeyrisgreiðslna til hans frá 1. júní 2012 vegna þess að lögheimili hans hafi verið flutt frá Íslandi frá X 2012. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2015, var kærandi upplýstur um að greiðslur ellilífeyris hæfust að nýju frá og með 1. ágúst 2015 vegna flutnings hans til landsins. Með tölvupósti 18. október 2016, fór kærandi fram á endurupptöku á upphafstíma ákvörðunar Tryggingastofnunar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 28. október 2016, var kæranda synjað um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann. Fram kemur í bréfinu að stofnunin hafi samþykkt greiðslu ellilífeyris frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lögheimili hans hafi flust frá B. Kærandi fór fram á greiðslur frá 10. apríl 2012 með tölvupósti 16. nóvember 2016. Umsókn kæranda um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann var synjað á ný með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. mars 2017. Með bréfi, dags. 21. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 7. apríl 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greiddan ellilífeyri frá og með þeim tíma sem Tryggingastofnun ríkisins felldi niður greiðslur til hans á árinu 2012.

Í kæru segir að kærð sé niðurfelling á greiðslu ellilífeyris. Kærandi hafi aldrei átt lögheimili erlendis. Þá hafi hann haft tekjur og greitt skatta á Íslandi í samfellt meira en X ár. Gert sé ráð fyrir að einstaklingur eigi lögheimili þar sem hann hafi 2/3 eða meira af tekjum sínum. Kæranda hafi því verið skylt að hafa lögheimili á Íslandi. Sé óskað eftir afritum af skattframtölum hans síðustu tíu ár þá verði hann við því en þar komi fram að á umræddu tímabili hafi hann greitt skatta á Íslandi, í samræmi við þá skyldu að eiga lögheimili þar sem einstaklingur afli sér tekna.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð hafi verið synjun á greiðslu ellilífeyris aftur í tímann.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2016, hafi stofnunin synjað að greiða kæranda ellilífeyri fyrir 1. ágúst 2015 þar sem hann hafi verið skráður með lögheimili í B á þeim tíma samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Í 4. gr. segi að sá sem búsettur sé hér á landi, sbr. 5. tölulið 2. gr., teljist tryggður hér að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum. Tryggingavernd falli niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla. Tryggingastofnun ákvarði hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögunum.

Í 5. tölulið 2. gr. segi að búseta sé lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun frá 1. febrúar 2010. Við eftirlit á árinu 2012 hafi komið í ljós að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um almannatryggingar um greiðslur lífeyris og því hafi Tryggingastofnun stöðvað greiðslur til kæranda frá 1. júní 2012. Stofnunin og hafi tilkynnt kæranda það með bréfi, dags. 22. maí 2012.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri að nýju frá Tryggingastofnun frá 1. ágúst 2015, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 28. september 2015. Með tölvupósti frá kæranda, dags. 18. október 2016, hafi kærandi óskað eftir greiðslu ellilífeyris aftur í tímann en hafi verið synjað með bréfi, dags. 28. október 2016, þar sem á þeim tíma hafi kærandi verið með skráð lögheimili í B.

Tryggingastofnun hafi borist bréf kæranda, dags. 16. nóvember 2016, þar sem enn hafi verið óskað eftir greiðslu ellilífeyris fyrir 1. ágúst 2015 og hafi kæranda verið aftur synjað um greiðslu ellilífeyris fyrir þann tíma þar sem lögheimili hans hafi verið í B á þeim tíma.

Almenna reglan sé að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða lífeyri til þeirra sem eigi hér lögheimili og séu tryggðir hér á landi, sbr. 4. gr. og 5. tölulið 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Undanþága frá þessari reglu sé gerð vegna þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við sbr. 58. gr. laga um almannatryggingar. Á milli Íslands og B séu engir samningar sem kveði á um greiðslu lífeyris milli landanna.

Þar sem kærandi hafi verið með lögheimili skráð í B frá X 2012 til X 2015 og búsettur þar hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða honum ellilífeyri fyrir 1. ágúst 2015.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. desember 2016, þar sem kæranda var synjað um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann en frá 1. ágúst 2015. Ágreiningur málsins lýtur að upphafstíma greiðslna ellilífeyris.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að þeir eigi rétt til ellilífeyris sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla laganna, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Í 5. tölul. 2. gr. sömu laga er búseta skilgreind á eftirfarandi máta:

„Lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars.“

Þá fjallar 4. gr. sömu laga um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Ákvæði laganna um lögheimili hafa verið skýrð svo að lögheimili manns og raunverulegur dvalarstaður fari að jafnaði saman.

Samkvæmt 58. gr. laga um almannatryggingar greiðir Tryggingastofnun bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn hefur gert samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi. Greiðslur almannatrygginga falla því niður við brottflutning til landa sem enginn samningur hefur verið gerður við um almannatryggingar. Ekki er í gildi samningur milli Íslands og B um almannatryggingar.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Þjóðskrá var kærandi ekki með skráð lögheimili á Íslandi frá X 2012 til X 2015 og fram kemur að heimili hans sé í B. Þjóðskrá Íslands breytti lögheimilisskráningu kæranda á árinu 2012 í kjölfar erindis sem stofnuninni barst frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. X 2012, um að grunur væri um ranga skráningu lögheimilis. Erindið var sent eftir að bréf Tryggingastofnunar til kæranda höfðu ítrekað verið endursend á árinu 2012 og stofnuninni höfðu borist upplýsingar um það frá kæranda að hann hefði aðsetur í B.

Í tölvupósti kæranda til Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. nóvember 2016 segir meðal annars svo:

„Hvorki ég A eða C sonur minn höfum verið með lögheimili í B. Enda ekki með búsetuleyfi þar. Ég er aðeins með aðsetursskráningu á grundvelli ferðamannavisa. C ekki heimilið aðsetursskráning ( og því síður lögheimilisskráning ef þess hefði verið óskað), þar sem hann er ekki og hefur ekki stimpil í vegabréfi sínu um að hann hafi komið inn í B, enda fæddur þar. Hann hefur heldur ekki getað farið úr landi í B þangað til nú nýverið að hann fékk […] heimild frá yfirvöldum í B.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins, meðal annars málatilbúnaði kæranda, að kærandi hafi verið búsettur í B til X 2015. Kærandi byggir hins vegar á því að þar sem að hann hafi aflað tekna og borgað skatta á Íslandi hafi hann átt að vera með lögheimili á Íslandi og eigi þar af leiðandi rétt á lífeyrisgreiðslum lengra aftur í tímann.

Eins og áður hefur komið fram er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili. Lögheimili ræðst því af búsetu einstaklinga en ekki af því hvar viðkomandi aflar tekna og greiðir skatta. Í ljósi þess að kærandi var búsettur í B á umdeildu tímabili telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að láta upphafstíma áframhaldandi ellilífeyrisgreiðslna miðast við lögheimilisflutning til Íslands þann X 2015 rétta með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu ellilífeyris aftur í tímann staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu ellilífeyris aftur í tímann, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta